Við mættum Tottenham á útivelli í fyrsta leik tímabilsins. Þar gerðum við 1-1 jafntefli. Við munum mæta þeim á Anfield í sjötta síðasta deildarleiknum, þann 16. apríl 2005. Það er ansi langt á milli deildarleikjanna við þá og það getur ansi margt vatn runnið til sjávar á þeim tíma. Mér fannst við óheppnir og var fúll yfir að hafa ekki náð sigri gegn þeim á White Hart Lane þann 14. ágúst sl., og því ætti að verða gaman að horfa á leik liðanna í kvöld og sjá hvernig liðin standa.
Í kvöld er það Deildarbikarkeppnin, 8-liða úrslit, og við ætlum að reyna að bola Tottenham út úr keppni. Síðan við mættum þeim síðast hafa þeir skipt um þjálfara, Jacques Santini sagði af sér og aðstoðarframkvæmdarstjórinn Martin Jol tók við. Þeir hafa aðeins unnið einn leik af síðustu sjö síðan hann tók við, en þeir unnu Middlesbrough um helgina. Við töpuðum fyrir Middlesbrough fyrir rúmri viku.
Þá verða “kjúklingarnir” okkar á vellinum í kvöld, þannig að það er ekki hægt að segja að ég búist við sigri. Í raun er ég ekkert of stressaður yfir þessu, finnst líklegt að við töpum og þá verður bara að hafa það. Rafa stendur við stóru orðin, leyfir aðalmönnum liðsins að hvíla í Deildarbikarnum og gefur ungu strákunum séns á að sanna sig í alvörumóti. Þetta kallast að slá tvær flugur í einu höggi.
Líklegt byrjunarlið í kvöld hlýtur að teljast þetta hér:
Josemi – Henchoz – Whitbread – Warnock
Nunez – Biscan – Diao – Potter – Partridge
Pongolle
Bekkurinn: Paul Harrison, Mark Smyth, Robbie Foy, David Raven, John Welsh og jafnvel Neil Mellor.
Þetta skilst manni af fréttum gærdagsins og því sem heyrst hefur í dag. Mellor verður hvíldur, enda ætti í raun bara að plasta hann og geyma í fóðruðum klefa á milli deildarleikja á meðan hann er að skora og við höfum engan annan framherja, og Stevie Gerrard mun ekki spila eins og áætlað var, en hann á víst frekar að hvíla sig eftir Arsenal-leikinn og vera í toppstandi fyrir Villa um helgina.
Eina spurningarmerkið sem ég set við þetta lið er það að ég veit ekki hvort Josemi er búinn að jafna sig eftir að hafa fengið 20 spor í andlitið fyrir viku. Ef hann er ekki búinn að jafna sig finnst mér líklegt að David Raven taki hans stöðu í bakverðinum, nema að Rafa ákveði að nota reynsluna og setja Finnan eða Jamie Carragher í bakvörðinn. Það er alveg möguleiki líka.
En allavega, ég vel þessa liðsuppstillingu því hún virkaði dúndruvel gegn Arsenal á sunnudag og ég held að Benítez vilji nota hana aftur. Ef þetta verður svona þá myndu Potter og Biscan fá leyfi til að fara fram með boltann, Partridge og Núnez sækja hratt upp kantana en Diao myndi sinna Hamann-hlutverkinu, liggja aftur og moka upp alla lausa bolta.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessi leikur tekst til hjá ungu strákunum í kvöld, Pongolle fær t.d. tækifæri til að sanna sig í framherjastöðunni og Richie Partridge fær væntanlega stórt tækifæri til að láta að sér kveða á kantinum. En ég er ekkert að gera mér of miklar vonir, veit alveg sem er að Tottenham munu mæta með sitt sterkasta lið í þennan leik og eru því talsvert sigurstranglegri.
Mín spá: 3-1 fyrir Tottenham. Eigum við ekki bara að segja að Igor Biscan skori í þessum leik? Jújú, segjum það bara. En engu að síður þá held ég að Defoe/Keane/Kanoute verði aðeins of stór biti fyrir þá Henchoz og Whitbread að kyngja í kvöld, því miður. En ég mun samt mæta á Players í kvöld og styðja liðið.
Auðvitað eigum við séns á að vinna, það er engin spurning, og ég verð svo sem ekkert of hissa ef við tökum Tottenham í kvöld. En mér finnst tap í kvöld bara vera mikið líklegri úrslit…