Liverpool 5 – Aston Villa 0

Jæja! Mikið var þetta nú skemmtilegt.

Aston Villa, liðið með óþolandi framkvæmdastjórann sem vildi ekki selja Gareth Barry síðasta sumar og hefur verið í fjórða sætinu í ensku úrvalsdeildinni mestallt tímabilið, mætti á Anfield í dag og var **niðurlægt** af okkar mönnum.

Það munu fáir deila um það að Rafa stillti upp okkar sterkasta liði í dag:

Reina

Arbeloa – Carragher – Skrtel – Aurelio

Alonso – Mascherano
Kuyt – Gerrard – Riera

Torres

Á bekknum byrjuðu: Cavalieri, Hyypia, Agger, Ngog, El Zhar, Dossena, Lucas

Lucas kom inná fyrir Xabi Alonso, svo Agger fyrir Arbeloa (og Carra fór þá í bakvörðinn) og svo kom N’Gog inná fyrir Gerrard.

Liverpool byrjuðu þennan leik af krafti einsog þeir gera vanalega. Munurinn var hins vegar að við náðum að skora mark mjög snemma. Það var brotið á Riera (sem var frábær) rétt fyrir utan teig. Gerrard kom með bolta fyrir markið, sem að Arbeloa/Riera Alonso skallði í slána. Hann fór svo til **Dirk Kuyt**, sem að dúndraði honum örugglega í markið.

Eftir markið þá var nokkuð jafnræði með liðunum. Liverpool átti hættuleg færi, þar með talið dauðafæri hjá Gerrard, en Aston Villa menn ógnuðu líka nokkuð mikið og John Carew reyndist vörn Liverpool erfiður.

En á 5 mínútna kafla eftir miðjan fyrri hálfleik kláruðu okkar menn leikinn. Fyrst gaf Reina háa sendingu á **Albert Riera**, sem að dúndraði óverjandi í þaknetið hjá Brad Friedel. Frábær afgreiðsla hjá Spánverjanum.

Stuttu seinna gaf Kuyt góðan bolta á Riera, sem komst inní boxið þar sem að Nigel Reo-Coker braut á honum og réttilega dæmd vítaspyrna. Friedel fór í vitlaust horn, og **Steven Gerrard** skoraði fyrsta markið sitt í leiknum. 3-0 í hálfleik og úrslitin ráðin. Villa menn létu þetta fara í taugarnar á sér og fengu tvö spjöld (og hefðu átt að fá þrjú) með stuttu millibili, þar sem talið Gareth Barry fyrir kjaftbrúk.

Okkar menn byrjuðu svo seinni hálfleikinn líka af krafti. Brotið var á Kuyt fyrir utan teig. Það sáu allir hvað myndi gerast og ég sagði m.a. kærustunni nákvæmlega hvernig sú spyrna myndi fara. En samt tókst mönnum ekki að stoppa það að Xabi rúllaði boltanum á **Gerrard**, sem að skoraði örugglega.

Um hálftíma fyrir leikslok var svo niðurlæging Villa manna fullkomnuð. Torres komst einn inn fyrir, lagði boltann framhjá Friedel og hljóp svo á greyið Friedel. Vítaspyrna dæmd og Friedel fékk réttilega rauða spjaldið. Ég var á þessum punkti farinn að vorkenna honum verulega og hefði alveg viljað sleppa þessu rauða spjaldi, þar sem hann verður svo líklega í banni gegn Man U.

En allavegana, **Steven Gerrard** fullkomnaði þrennuna með því að skora úr spyrnunni.

Eftir það komu allar skiptingarnar sem ég minntist á og okkar menn hægðu all verulega á leiknum það sem eftir er. Enda vart hægt að biðja um meira. Munurinn kominn niður í 1 stig og núna erum við líka komnir með betri markatölu en Man U.

***

**Maður leiksins**: Þetta var frábær frammistaða hjá Liverpool. Það að ná að vinna liðið í fimmta sæti 5-0 er einfaldlega stórkostlegt. Og það í kjölfarið á tveimur stórkostlegum sigrum á Real Madrid og Manchester United. Það er einfaldlega **ekkert lið í Evrópu** sem er á meiri ferð en Liverpool í dag.

Það má líka geta þess að hið gríðarlega varnarsinnaða er undir stjórn Rafael Benitez búið að skora langflest mörkin í ensku deildinni. Fimm mörkum fleiri en næsta lið. Við erum líka núna með bestu markatöluna, 33 í plús sem er einu betra en Chelsea og tveimur betra en Manchester United.

En allavegana, liðið lék vel og það segir sitt að ná að skora fimm mörk án þess að Fernando Torres sé neitt spes. Alonso og Masche unnu klárlega baráttuna gegn Barry og Petrov, vörnin var fín og Reina varði á mikilvægum punktum í fyrri hálfleik. Eins var Kuyt mjög góður á hægri kantinum.

Ég ætla að velja tvo menn sem menn dagsins. Fyrst **Albert Riera**, sem átti sinn besta leik í marga mánuði fyrir Liverpool. Hann var sífellt ógnandi, skoraði frábært mark og vann vítaspyrnu. Og hinn maðurinn er **Steven Gerrard**, sem skoraði þrennu (reyndar allt úr föstum leikatriðum) og var fyrir utan það frábær í leiknum.

***

Eftir þessa **frábæru helgi** erum við þá 1 stigi á eftir Manchester United þegar við höldum inní þetta landsleikjahlé. Næsti leikur í deildinni er því miður ekki fyrr en eftir tvær vikur.

En svona lítur þetta út. Liverpool á eftir eftirfarandi leiki:

Fulham (Ú)
Blackburn (H)
Arsenal (H)
Hull (Ú)
Newcastle (H)
West Ham (Ú)
West Brom (Ú)
Tottenham (H)

Þarna eru vissulega erfiðir leikir, en nota bene, það er bara **einn** leikur við liðin sem eru í sjö efstu sætunum (Arsenal) og þrír leikir gegn liðunum í efstu 10 sætunum (West Ham, Fulham og Arsenal). Hinir fimm eru gegn liðunum í 10 neðstu sætunum í dag.

Man U á eftir einum leik fleira.

Aston Villa (H)
Sunderland (Ú)
Portsmouth (H)
Tottenham (H)
Middlesboro (Ú)
Man City (H)
Wigan (Ú)
Arsenal (H)
Hull (Ú)

Man U eiga semsagt 3 leiki gegn liðunum í efstu 7 (Aston Villa, sem hljóta að vilja sýna eitthvað eftir niðurlæginguna í dag, og Arsenal – báða heima – og Wigan úti). Og þeir eiga fjóra leiki við liðin í topp 10 (Man City bætist við þann hóp, sem ætti að vera eriður leikur þar sem það er derby leikur). Restin er svo gegn liðunum í neðri hlutanum, en þar eru tveir erfiðir útileikir gegn Boro og Sunderland.

Þannig að einsog staðan er í dag þá ættu bæði Liverpool og Man U alveg að hafa getuna til að klára tímabilið með eintómum sigurleikjum. En á dagskránni eru líka alveg nógu margir tricky leikir til þess að maður haldi í vonina alveg fram á síðasta leikdag. Við eigum líka leik á undan ManU þannig að ef við vinnum Fulham þá komumst við í efsta sætið í allavegana einn dag.

Okkar menn hafa allavegana gert allt rétt í síðustu tveimur umferðum og sjö stiga forskot Man U (og gott forskot í markatölu) er komið niður í eins stigs forskot og við með betri markatölu.

Við getum ekki beðið um meira.

***

Þetta var líka fín leið til að fagna nýjum samningi hjá Rafael Benitez. Hann gerði allt rétt í dag, nema að velja bindi. Ég veit ekki hvort það var sýnt í íslensku útsendingunni, en í þeirri sænsku var sýnd stórkostleg syrpa þar sem klippt voru saman mörkin hjá Liverpool og viðbrögð Rafa Benitez. Það er einhver fyndnasta syrpa sem ég hef séð, enda voru viðbröð Benitez alveg einsog við eigum að venjast – það er nánast engin. Benitez er einfaldlega ekki tilfinningavera. Og það er væntanlega fínt. Á meðan að ég fer í þunglyndi þegar að hitt liðið skorar og sannfærist um að lífið sé fullkomið þegar að Liverpool skorar, þá er Benitez sem betur fer ekki þannig. Hann veit að leikurinn heldur áfram þótt að annað liðið skori og ég hef allavegana alltaf kunnað vel við það að hann lætur ekki tilfinningar stjórna því hvernig hann stýrir leiknum.

Hann hefur á síðustu vikum sýnt að hann er án efa besti kosturinn fyrir þetta Liverpool lið. Þetta lið hefur gert mistök í vetur og ef við klárum þetta ekki þá eigum við eftir að gráta jafnteflin gegn Stoke og fleiri liðum.

En það er alveg ljóst að þegar að þetta Liverpool lið spilar einsog þeir geta best, þá eru einfaldlega ekki mörg lið í heiminum sem standast því snúning.

Það er skemmtileg tilbreyting að það sé spennandi fyrir okkur Liverpool aðdáendur að horfa á ensku deildina í apríl.

**YNWA!**

92 Comments

  1. UnbeLIVERPOOL. Snilldin ein.
    Við sentum alvöru skilaboð til ManUtd og Chelsea.

  2. Varnarsinnaðasta lið í heimi með neikvæðasta framkvæmdarstjóra allra tíma er núna búið að skora langflest mörk allra liða í Úrvalsdeildinni.

    Varðandi titilbaráttuna, þá segi ég bara GAME ON! 🙂

  3. Sælir félagar
    Skrifa þetta fyrir skýrslu og fagna yfirburðasigri í leik sem ég var skíthræddur við. Villa komu sterkir eftir 1 markið en næstu 2 slökktu algerlega í þeim. Riera að spila sinn besta leik á tímabilinu. Semsagt glæsilegt og til hamingju Púllarar um allan heim.
    Það er nú þannig.

    YNWA

  4. Stórkostleg úrslit, sérstaklega m.t.t. þess að Dossena var hvíldur.

  5. Deildin er aftur orðin spennandi !!!
    Þetta var svo auðvelt að þetta var næstum því leiðinglegt. 🙂 Gerrard klárlega MOTM, en einnig fannst mér Arbeloa, Skrtel, Riera og Macherano sýna stjörnuleik. Og það er með ólíkindum hvað Liverpool hefur fiskað mörg rauð spjöld á andstæðinginn í vetur. Er einhver með tölfræðina á því?

  6. Hvað er hægt að biðja um það betra á einni helgi. Manu teknir af Fulham og Tottenham skellir Chelsea. Meira að segja Everton Tapaði og svo BURSTUM við Aston Villa 5-0. Ótrúleg helgi. Nú er titilbaráttan komin á flug á ný.

    YNWA

  7. Sammála (9), ótrúleg boltahelgi. Frábær leikur og ekki hægt að stimpla sig inn í titilbaráttuna með meira afgerandi hætti. Einfaldlega unun að fylgjast með liðinu þessa dagana.

    Ein spurning að lokum, getur Gerrard mögulega klikkað á vítaspyrnu?

  8. 12 Gerrard getur alveg klikkað á vítum en bara fyrir landsliðið 🙂

  9. Ég er sammála Sigkarli með mann leiksins Riera bestur í liði Liverpool í dag, en í raun áttu allir mjög góðan leik og ekki má gleyma að Reina átti frábæra vörslu í stöðunni 1-0 að mig minnir. Ég var sammála Guma Ben með rauða spjaldið, fannst það svolítið “harsh”, hann var að reyna að komast hjá snertingu, en sjálfsagt rétt eftir bókinni.
    Nú erum við virkilega komnir í baráttuna aftur um titilinn, hver hefði trúað því að staðan yrði þessi fyrir hálfum mánuði síðan.
    Frábær leikur, frábær helgi, Liverpool er heitasta liðið í dag.

    kv
    ipj

  10. Og nú blása Liverpool eins og hvalir í hálsmálið á niðurbrotnu Munu liði, og það er nú ekki leiðinlegt.
    Verst að nú er ekkert leikið um næstu helgi,en það er betra að fara í pásu á svona runni heldur en með tvö töp á bakinu.
    Lengi lifi Liverpool og Þróttur.

  11. Steven Gerrard, guð minn almáttugur : )
    Zidane hitti naglann á hausinn!
    Svo verð ég að segja að stoðsendingin frá Reina á Riera var snilldin ein : )
    Til lukku öll með að halda með þessu frábæri liði sem er alltaf tilbúið að setja mann í hverja rússibanareiðina á fætur annari : )

  12. Frábært!!! Leiðinlegt að nú skuli koma landsleikjahlé (2 vikur í næsta leik), þar sem Liv eru orðnir svona heitir og Man U í ruglinu. Spurning hvaða áhrif þessa pása hefur á liðin.

  13. Sá fáheyrði atburður átti sér stað á Old Trafford laugardaginn 14.mars síðastliðin að afar feit kona sem hafði verið að gera sig klára í að fara að syngja hástöfum, hné skyndilega niður haldandi um hálsinn á sér.

    Alla tíð síðan hefur sérþjálfað teymi frá ensku úrvalsdeildinni unnið myrkrana á milli við að reyna að losa aðskotahlut sem virðist hafa fest sig í hálsi feitu konunnar, svo hún geti aftur tekið til við að syngja.

    Nýjustu fréttir af framkvæmdinni eru þó ekki góðar því svo virðist sem aðskotahluturinn hafi skorðast enn fastar í hálsi feitu konunnar í dag og höfðu menn á orði að hann væri fimm sinnum fastari en hann var fyrir viku síðan og engar líkur á að hún fari eitthvað að syngja á næstu dögum eða vikum.

  14. Mér fannst samt umdeilanlegt að reka Friedel útaf þar sem hann reyndi eins og hann gat að fara frá en skv. bókinni er þetta rautt þannig að dómarinn gerði í sjálfu sér ekkert rangt… Þetta var bara soldið harsh.

    En að okkar mönnum… Riera var stórkostlegur í þessum leik! Og vá hvað ég elska Pepe Reina, hann var frábær í þessum leik. Það er líka hvílíkur kostur hvað hann er snöggur að koma boltanum í leik. Aurelio algjörlega búinn að eigna sér bakvarðarstöðuna og Alonso orðinn sjálfum sér líkur.

    YNWA

  15. Glæsilegur leikur hjá okkar mönnum. Reina var alveg frábær í þessum leik og varði ótrúlega í stöðunni 1-0. Eins steig hann ekki eitt feilspor á móti þessum hávöxnu sóknarmönnum en boltanum var gjörsamlega dælt inní teiginn í fyrri hálfleik. Þessi stoðsending var svo náttúrulega gull.

  16. Getum tyllt okkur í efsta sætið með sigri gegn Fulham, tímabundið. Minnir að Portsmouth hafi gert United lífið leitt undanfarin ár, leikurinn sem United á inni er gegn þeim. Gamall Púllari, Danny Murphy gerði United lífið leitt í gær, spurning hvort Crouch, sem skoraði tvö gegn Everton, geri ekki það sama bara….

    Arsenal á bæði eftir að spila gegn okkur og United og gæti því ráðið miklu í þessu. Þeir geta alveg unnið United og við svo unnið þá…

    Spennan verður GEÐVEIK!!!!

    Legg til að við hvílum menn gegn Chelsea í Meistaradeildinni ef þörf er á, til að leggja allt kapp á deildina. En auðvitað bara ef þörf er á…

  17. Að öllum ólöstuðum er Riera maður leiksins, en glæsilegt afrek LIÐSHEILDARINNAR og ekki ónytt að senda svona skilaboð til Man.Utd Og komnir með hagstæðari markamun en nokkurt annað lið.

    YNWA

  18. Riera maður leiksins. Frábær frammistaða.
    Harður dómur á Friedel karlinn.
    Nú er allt galopið. Allt getur gerst. 🙂

  19. Riera maður leiksins ekki get eg verið sammála því það mun vera fyriliðinn okkar sem á þann heiður skoraði 3 mörk átti skotið í slánna sem kyut skoraði úr og var alltaf ógnandi stóð fyllilega undir nafni captain fantastic. Samt besti leikur Riera í langan tíma en maður leiksins fráleitt að segja annað eins.

  20. Var það ekki Alonso sem átti skallann í slánna, eftir aukaspyrnu SG?

  21. Syrpan af viðbröðum Benitez var sýnt líka á Stöð 2 Sport 2, a.m.k á HD rásinni. Fannst þetta einmitt meiriháttar skondið. Sammy Lee og Pellegrino fögnuðu sem óðir menn, en á milli þeirra sat Benitez og leit á úrið og krotaði í skrifblokkina sína. Hann er bara töffari. Gummi Ben komst ágætlega að orði þegar hann sagði að það væri alltaf eins og Benitez þyrfti að vera mættur eitthvert og væri að verða of seinn þegar Liverpool skorar 🙂

  22. Frábært allir voru drullugóðir og bara gaman að horfa á boltann. Agger mættur, bara góður og svo fer Yosse B að koma. Er bara sáttur og meira en það….

  23. Er gamli góði Shankle-tíminn að koma aftur. Frábær árangur 3ja leikinn í röð.

    ÁRAM LIVERPOOL!!!!!! Nú er gaman!!!!!!!!!!

  24. Margir LFC aðdáendur hafa stundum varla haldið vatni yfir stjóranum hjá Aston Villa,en ekki fór nú mikið fyrir snillinni í dag, að koma á Anfield með lið sem ekki hefur unni í síðustu 7 leikjum með tvo gamla trukka í framlínunni á móti LFC á sínu besta runni síðan Souness og Daglish voru upp á sitt besta er nú bara ekki í lagi og í besta falli barnalegt. Nei má ég þá heldur biðja um Rafa sem er rækilega að stimpla sig inn þessa dagana með sitt frábæra lið og ég held að ég þori að segja það YOU AINT SEEN NOTHING YET!!!!!

  25. Eftir þennan leik fór ég að rifja upp hugsanir mínar og væntingar um tímabilið við upphaf þessarar leiktíðar. Mínar væntingar voru í stuttu máli þær að við værum í versta falli í 4-5 stiga fjarlægð frá toppsætinu í byrjun apríl og værum með trúverðugt lið í toppbaráttunni þetta árið. Þetta er að rætast og ég get bara ekki kvartað mikið.

    Auðvitað er hægt að pirra sig á 7-8 leikjum á þessari leiktíð; Jafnteflin á Anfield, Middlesbrough en á móti kemur að liðið hefur náð að knýja fram frábær úrslit á lokamínútum í mjög mörgum leikjum.

    Ég veit ekki hvernig þetta fer allt saman en er bara hrikalega spenntur og ánægður að sjá Liverpool loksins vera í alvöru að berjast um toppsætið.

  26. Þetter nú kannski full mikið að af því góða… eða þannig.

    Nú fá Villa menn tvær vikur til að taka sig á og rífa sig uppúr niðurlægingunni með því að hirða stig á Old Trafford….

    Ekki fyndið hvað þetta er langt frá því að vera búið. Ég meina, ef það væru þrír leikir eftir af deildinni væri þetta ekki búið… hvað þá…….!!!

    ps. djöfull er Reina alltaf góður. Þetta hefði jafnvel þróast öðruvísi ef við hefðum ekki sjéní í markinu.

  27. Glaesilegur leikur. Tad var ekkert ad leik okkar manna i dag, teir syndu meistararakta og virkilega syndu ad teir aetla ekki ad lata utd fa titilinn gefins, ta er tad bara ad vinna alla leikina sem eftir eru hja okkur og treysta a ad chelsea vinni manu.

  28. COME ON YOU REDS!!!

    Ég held að það hafi allir séð það á Gareth Barry að þetta er liðið sem hann er að fara spila með næsta vetur. Enginn meistaradeild fyrir Villa.

    • og treysta a ad chelsea vinni manu.

    Á næsta ári þá???
    Það hjálpar okkur ekki mikið núna !

  29. 39 ,, Tad var ekkert ad leik okkar manna i dag ´´ ööm, Torres var hræðilegur í þessum leik, það er hægt að benda á marga galla í leiknum í dag, en það er bara aldeilis enginn tilgangur í því. Æðisleg helgi !!

  30. Nú er bara að halda haus og þá er titillin okkar og þá förum við allir niður á lækjatorg og tökum hið sígilda lag You´ll Never walk alone…

  31. Torres átti ekkert sérstakan leik, það er rétt. En algjör óþarfi að eyða mörkum frá honum í svona slátrun. Þau koma á mikilvægum augnablikum þegar við þurfum virkilega á að halda á næstu vikum.

  32. Steven Gerrard er án efa Besti Fótboltamaður í heimi Hann hlýtur að vinna gullskóinn eftir þessa leiktíð það er bara messi sem getur tekið hann af honum og ekki sens að einhver Manchester Kerling gertur tekið hann

  33. Ef Steven Gerrard væri Brasilíumaður væri hann fimmfaldur knattspyrnumaður Evrópu og héti Gerrardinho!

  34. Flott skýrsla – er sammála öllu þarna. Er bara í hæstu hæðum og það verður erfitt að koma manni þaðan. Feita konan bíður enn eftir að syngja og það er allt mögulegt. Nú er bara að halda áfram á þessu róli!!! Áfram Liverpool!!!

  35. Góð skýrsla og sammála öllu.

    SNILLD…. Þetta er klárlega góð knattspyrnuhelgi (nema að Færeyjar unnu Ísland)

    Vonandi nær liðið að halda þessu momenti þrátt fyrir landsleikjahlé.

  36. Ja hérna hér.

    Ég er orðlaus yfir þessu rönni okkar núna. Djöfull er þetta orðið spennandi en hvaða hálfviti ákvað að skella inn landsleikjahrinu núna!

    Mig langar að þakka rooney fyrir ótímabært blaður um daginn. Ótrúlegt hvað óvandaðar yfirlýsingar geta komið í bakið á mönnum.

    Ég vil líka þakka Akademínunni og sjálfum mér fyrir að hafa orðið ástfanginn af Liverpool strax á fimmta aldursári.

  37. Blóm og kransar sendist á Villa Park. Jarðfarir eru sjaldan eins skemmtilegar
    og þessi í dag. Það hlýtur að vera styrkleikamerki að taka jafnöflugt lið og Villa og slátra þeim. Bendi bara á að í 2 leikjum á móti t.d STOKe tókst ekki að sigra. En mér sýnist að okkar menn séu á góðu róli fyrir lokasprettin.
    Chelsea mun eiga erfitt með að komast framhjá okkur í CL. Það er það mikið
    eftir af leikjum í deildinni að þetta getur lent beggja megin. Scum utd. voru
    með þetta 14 leikja ,,run” sitt of snemma. Nú eru þeir með lykilmenn í banni
    og sjálfstraustið kannski ekki uppá marga fiska. Villa fer á Gold Trafford og þarf að sýna að það sé ekki lið sem sé jarðað 2 leiki í röð. Við eigum Fulham
    næst, sem er ekki gefið en ætti að hafast. Spennan er mögnuð!

  38. Ég legg til að Rafa verði kjörinn stjóri mánaðarins fyrir mars mánuð enda unnum við alla 3 leikina okkar í mars(næsti leikur er í apríl) og markatalan samtals 11-1, er nokkuð hægt að biðja um meira 🙂

  39. Sælir félagar.
    Takk fyrir fína leikskýrslu Einar. Ég hefi engu við að bæta það sem áður er komið og aðrir hafa sagt. Er sem sagt gífurlega ánægður með okkar menn skulu vera komnir í baráttuna aftur.
    Það er nú þannig

    YNWA

  40. Flott skýrsla að vanda. Maður er einfaldlega í skýjunum með frammistöðu liðsins. Fullkomin helgi og allt snérist á okkar veg. Verð alveg að viðurkenna að maður var búinn að útiloka liðið úr titilbaráttunni en mikið asskoti hafði maður rangt fyrir sér (sem betur fer). Frábært!

  41. Gaman líka að geta troðið því uppí enda.. jaxlinn? á föður mínum að við séum búnir að skora fleiri mörk en scum utd. í vetur. Hann hefur ekkert lítið tautað um hversu leiðinlegan varnarbolta Liverpool spili og Man Utd. sé skemmtilegasta lið sem til er í heiminum.

  42. Já, ég er að fara að gera mig kláran í MOTD2, hlakka mikið til að sjá þetta. Ég segi eins og sumir hérna, var eiginlega hættur að gera mér vonir eftir tapið gegn Boro en rosalega er þetta lið að spila vel núna. Nú biður maður þess að jafnteflisklúðrin muni ekki refsa okkur…

  43. Eru þeir að fara skora fimm mörk í þeim leik?

    Án Rooney, Berba, Scholes og Vidic? Efa það….

    Hefði verið 6-0 ef Dossi hefði skellt sér inná. Pælið í því.

  44. Úff, svekkjandi að hugsa um stigin 7 sem klúðruðust gegn Boro og Stoke. Skelfilegt einfaldlega! Hvar var viljinn þar sem var til staðar í dag? Snýst fótbolti bara um að peppa sig upp fyrir leiki það mikið að hann mun sigrast.

  45. Nenni ekki að vera dásama hvern og einn leikmann eða velta mér uppúr einhverjum smáatriðum.
    Liðið var frábært í dag líkt og í undanförnum leikjum. Blússandi sjálfstraust allsstaðar og liðið er í feyknarformi. Bölvað að það skuli koma landsleikjahlé núna og vonandi að liðið missi ekki dampinn í þeirri törn.

  46. Villa munu hysja uppum sig og ná amk stigi í næsta leik. Það er að duga eða drepast fyrir þá, ætli þeir að vera með í baráttunni um fjórða sætið.

    Fulham sigla lygnan sjó um miðja deild og ætti hungrið því að vera okkar megin og þess vegna spái ég því að við verðum á toppnum eftir næstu umferð.

    Við munum enda þessa skelfilegu 19 ára bið í vor, þegar við vinnum deildina á markahlutfalli.

  47. Gaman að spá í því, að við erum búnir að skora 13 mörk í 3 leikjum í röð (Gerrard með 6) og fá 4 víti í þessum sömu leikjum.

    Það er svo gaman að halda með Liverpool, þegar það gengur svona vel! Maður er bara brosandi allan hringin, sefur ekkert af gleði, og svo hefur maður endalausa trú á því að þeir vinni titlana báða. Pirrandi að þurfa að troða landsleikjahlé í miðja velgengnina hjá okkur, en það lagast. Ég spáði í gær, að hann færi 2-0, en fyrir leikinn sagði ég; “Það sem ég sagði um 2-0 sigur, tek ég til baka. Þetta verður RÚST!”

    Hlakka að mæta Fulham, og sjá Aston Villa taka 2-3 stig frá Man Utd.

    YNWA

  48. Hvernig setur maður aftur svona mynd á kommentin? Man eftir að Einar Örn útskýrði það, en man bara ekki hvar, eða hvernig maður gerir þetta.

  49. Computer Says:

    Liverpool
    Fulham (Ú) 0
    Blackburn (H) 3
    Arsenal (H) 1
    Hull (Ú) 3
    Newcastle (H) 3
    West Ham (Ú) 1
    West Brom (Ú) 3
    Tottenham (H) 3
    17

    ManU
    Aston Villa (H) 1
    Sunderland (Ú) 1
    Portsmouth (H) 3
    Tottenham (H) 3
    Middlesboro (Ú) 1
    Man City (H) 3
    Wigan (Ú) 0
    Arsenal (H) 1
    Hull (Ú) 3
    16

    Chelsea
    Newcastle (Ú) 3
    Bolton (H) 3
    Everton (H) 1
    West Ham (Ú) 1
    Fulham (H) 3
    Arsenal (Ú) 0
    Blackburn (H) 3
    Sunderland (Ú) 3
    17

  50. Verða Liverpool meistarar?
    Computer says noooooo…

    Ekkert að marka þessa vélar. Taka ekki með í reikninginn þetta svakalega álag sem hlýtur að vera á Man Utd þessa dagana, sem og blússandi sjálfstraustið sem skín af Liverpool og sérstaklega Gerrard.

    Mig grunar að það hafi farið ofboðsleg orka hjá Man Utd í að vinna upp 8 stiga forskotið sem Liverpool hafði í kringum áramót, mæti lið þeim héðanífrá af líkamlegri hörku eins og Fulham gerðu vel munu þeir gefa eftir.
    Ein slæm úrslit í viðbót hjá Man Utd og þeir munu brotna niður.

    Algjörlega mergjaður 5-0 sigur. Í dag var rækilega stungið þvert uppí þá sem vildu reka Rafa og ráða Martin O´Neill sem stjóra Liverpool. Hversu hugmyndasnauður var long-ball sóknarleikur Aston Villa? Hversu hræðilega var varnarleikurinn þeirra skipulagður? Aston Villa byrjuðu tímabilið vel og eru með ágætis mannskap. Voru komnir með 7 stiga forskot á Arsenal. Þá kemur smá andlegt álag, hafa einhverju að tapa og þeir koðna algjörlega niður um leið!
    O´Neill er fínn motivator og hæfileikaríkur en hann er svipað og David Moyes og Harry Redknapp=takmarkaður þjálfari og bara engan veginn tilbúinn að þjálfa alvöru stórlið.

    Mér sýnist á Steven Gerrard að hann ætli að sjá til þess prívat og persónulega að Liverpool vinni hvern einasta leik sem er eftir á leiktíðinni. Þvílíkt ruddaform sem er á þessum manni! Hlýtur að vera draumur að spila með honum, menn örugglega að tvöfaldast og fyllast bullandi trú á sjálfum sér að spila með svona snillingi. 🙂
    Torres með off-day. Þýðir örugglega að hann skorar þrennu úti gegn Fulham. Sýnir annars frábæra liðsheild og breidd að aðrir taka þá bara bara við keflinu.

    Það sem er ógnvekjandi er að lið sem vinnur Real Madrid 4-0, Man Utd 1-4 á útivelli og Aston Villa 5-0 á innan við 2 vikum getur spilað enn betur og bætt sig.
    Fokk hvað þetta lið verður frábært og algjörlega ruthless þegar við höfum fengið 2 heimsklassa menn í viðbót. 🙂

  51. Það er ekki spurning hvert er heitasta liðið á Englandi í dag og Gerrard einn sá allra besti. Mér líst hreinlega ekkert a blikuna! Allavega fáum við skemmtilegasta endasprett í deildinni í áraraðir.

  52. Þvílík gleði. Og í þetta skiptið átti ég ekki kampavín. Shæse. Pistillinn endaði á orðunum “Við getum ekki beðið um meira”. Ég verð að segja að ég hló mig máttlausan af gleði þegar ég las viðtalið við Rafa þar sem hann sagði að Liverpool hefði átt að skora fleiri mörk eftir það fimmta. Svona já. Þarna er karlinn byrjaður að tala eins og meistari!!!!!!!

  53. Eitt fanst mér merkilegt í gær, það var þegar Arbeloa komst fyrir útsparkið hanns Friedel að 3 varnamenn stukku beint á Torres !!!!! Þetta fanst mér sýna í hnotskurn að þó okkur finnist Torres eiga off dag, þá er ástæðan æði oft sú að vörn andstæðingana er svo hrædd við hann (eðlilega) að þeir nánast gleima hinum 10 í liðinu, í gær voru Villamen td. með hann í algeri gjörgæslu, og það opnaði vörnina fyrir hina.

  54. Liverpool spilar ekki á undan eftir 2.vikur. Leikur United og Villa verður færður yfir á lau vegna United – Porto 7/4.

  55. Babú, þú varst rétt á undan mér, ég ætlaði einmitt að fara að linka á þessa grein eftir Collymore. Ég hvet alla til að lesa þessa (stuttu) grein. Hún er sennilega sú lélegasta og ómálefnalegasta (svo ekki sé minnst á verst tímasetta) sem ég hef lesið í stjórnartíð Benítez. Ég hló mikið að henni. 🙂

  56. Hverjum dettur í hug að láta Stan Collymore skrifa greinar í blöð ? Maðurinn er greinilega ekkert búinn að lagast í hausnum. Þetta er svipað og að láta Tevez vera hármódel !

  57. Þetta var glæsilegur sigur, gott að fá mörkin o.s.frv.

    Varðandi leikina sem eru eftir, þá eru næstu vikur erfiðastar. Ég held að United vinni næstu 4 leiki (Villa-Sund-Port-Tott) og þá líst mér síst á Fulham og Blackburn leiki okkar manna.

    Já, og Man City er engan veginn Everton þeirra ManU manna…City alltaf hálf bitlaust gegn þeim.

  58. Ég veit að þetta er algjört aukaatriði, en Stevie G á góða möguleika á markakóngs titlinum þessa leiktíð. Anelka er efstur en hann mun víst verða frá vegna meiðsla næstu vikur:

    1 Nicolas Anelka Chelsea 15
    2 Steven Gerrard Liverpool 13
    3 C. Ronaldo Man Utd 13
    4 Peter Crouch Portsmouth 11
    5 Kevin Davies Bolton 11

  59. Vonandi verður Martin Laursen kominn í vörnina fyrir United leikinn, hann var eitthvað að tala um að hann reyndi að vera kominn fyrir þann leik.

  60. Já, sammála #82 – held að það sé lykilatriði til þess að Villa eigi sjens gegn United. Já, og vonandi að Reo-Coker verði ekki í bakverðinum.

  61. Það sem er svo dásamlegt við pennan makalausa pistil hjá Stan Collymore er að hann vill meina að Liverpool þurfi að bæta við 6-7 leikmönnum í viðbót í sama klassa og Fernando Torres. Þá fyrst muni Liverpool verða besta lið á Englandi! 🙂

    Er Stan the man, kominn á átjánda bjór þegar hann skrifar þessa pistla? Ef 7 leikmenn í sama klassa og Torres færu til Stoke, þá myndu þeir pakka úrvalsdeildinni saman á næsta ári. Torres er besti sóknarmaður í heimi. Leikmenn á sama kalíberi og hann eru þeir bestu í sinni stöðu í heiminum.

    Ímyndið ykkur lið sem samanstæði af Torres, Messi, Ribery, Gerrard, Xavi, Mascherano, Lahm, Ferdinand, Vidic, Ramos og Reina. Amma mín gæti þjálfað þetta lið fyrir Stoke og þeir myndu samt pakka deildinni saman blindandi.

    Fór Stan upp í of marga skallabolta á ferlinum? Fyrrverandi knattspyrnukappar eru nú oft ekki beint skörpustu hnífarnir í skúffunni.

  62. Úfff torres að fara spila fyrir helvítis spán hann meiðist alltaf þar núna er ekki tíminn til að missa hann núna er bara að biðja til Guðs og alla hina að hann kemur heill til baka

    • núna er bara að biðja til Guðs og alla hina að hann kemur heill til baka

    Þrátt fyrir að Fowler sé margt til lista lagt, þá legg ég mitt traust á læknateymi Spánverja.

  63. Getur einhver útskýrt þetta fyrir mér?? AF HVERJU hann fær ekki lengra bann samanborið við það að Mascherano fékk 2 aukaleiki eftir uppákomuna á ot í fyrra.

  64. Sá loksins leikinn allan.
    Gargandi snilld, finnst þetta vera besta 11 manna byrjunarlið LFC. Langar sérstaklega að þakka Riera frammistöðuna og bjóða Javier velkominn á ný.

    Vona svo að Friedel fái ekki bann. Hann á það ekki skilið.

    Trúum og vonum áfram!!!!

  65. Já ég veit ekki hverju er hægt að bæta við þessa umræðu öðru en því að ég var ofboðslega stoltur af honum Reina okkar. Hann hefur nánast ekkert haft að gera allt tímabilið en þegar hann þarf að grípa inn í gerir hann það yfirleitt óaðfinnanlega. Frábær varsla hjá honum á skallanum og svo inngripin og auðvitað stoðsendingin á Riera. Það er ótrúlega traustvekjandi að hafa svona mann í rammanum.

  66. Tottenham í síðasta leik.
    Ef þeir spila eins og á móti Chelsea verður það erfiður leikur

Liðið gegn Aston Villa

Robben?