Spá Kop.is – neðri hluti

Jæja elskurnar.

Þið þurfið ekki lengur, pennarnir hafa spáð fyrir deildinni. Eftir alls konar beygjum í gluggalokum undanfarinna ára ákváðum við núna að spá í upphafi september þegar leikmannahóparnir eru klárir og aðeins byrjað að spila leikina.

Eins og undanfarin ár röðum við allir fimm liðunum upp í sæti 1 til sæti 20 og þau fá stig í öfugri röð, þ.e. liðið í 1.sæti fær 20 stig og liðið í 20.sæti fær eitt stig.

Samtalan raðar og ef að tvö lið eru jöfn að stigum fer það ofar sem hæsta sætið fær hjá okkur félögunum.

Við byrjum á neðri hlutanum og teljum neðan frá, þ.e. efsta liðið er það sem endar í 20.sæti og neðar í færslunni hækkar sætatalan. Let’s go kids!

20. sæti (7 stig) Crystal Palace

Það er yfirleitt reglan hjá okkur að liðið sem að kemst upp með því að vinna úrslitaleik Champonshipdeildarinnar er ekki talið eiga mikla framtíð í deildinni og eins er núna. Lundúnabúarnir í Palace bættu þó nokkrum leikmönnum við sig í bláenda leikmannagluggans sem þýðir vonandi fyrir þá að þeir eru ekki fallbyssufóður. Okkur finnst lýsa vel þeirra ástandi að stjórinn þeirra, Holloway er bara að verða hálfgerður fýlupúki í viðtölum. Beint niður.

19.sæti (11 stig) Hull City Tigers

Já. Skáletrað er nafn það sem Hull-arar bættu við nafn liðsins núna í sumar. Það eitt og sér á að dæma menn bara niður um deild! Steve Bruce er reynslumikill stjóri sem spilar mjög varnarsinnaðan fótbolta sem svo byggir á hröðum skyndisóknum. Honum tókst ekki að kaupa sér framherja eins og hann ætlaði sér og það verður stóra vandamálið. Við sjáum ekki hvaðan mörkin eiga að koma hjá þeim gulu og þeir fara niður!

18.sæti (16 stig) Sunderland

Við teljum norðanmennina í Sunderland lenda í því að fara niður úr deildinni eftir langa dvöl þar. Paolo Di Canio tók við liðinu í fyrra af Martin O’Neill þegar ekkert hafði gengið lengi. Hann vann nokkra lengi á adrenalíninu og látunum en svo hrökk liðið aftur í slæman gír. Hann verslaði sér 13 leikmenn, fæsta einhverja sem munu styrkja liðið verulega og einhvern veginn er áran í kringum liðið skrýtinn. Okkar Fabio Borini verður lykilmaðurinn þeirra og eftir á að koma í ljós hvernig þeim tekst að fylla skarð Mignolet.

17.sæti (21 stig) Cardiff

Fyrst að reynslumikið lið á að falla þá þarf einn nýliðinn að halda sér uppi. Það er að okkar mati Cardiff. Þrátt fyrir að hann Aron “okkar” sé í þessu liði þá verðum við öll að viðurkenna að þetta lið spilar ekki áferðarfallegan og skemmtilegan fótbolta. Mikið kick-and-run lið hér á ferð, líkamlega sterkir og til í átök allan heila leikinn. Eiga erfitt með að gefast upp og heimavöllurinn þeirra er ansi sterkur, eins og Man City fengu að kynnast nú í byrjun. Þetta tvennt heldur þeim uppi.

16.sæti (24 stig) W.B.A.

Spútnikliðið fyrst um sinn síðasta vetur voru lærisveinar vinar okkar Steve Clarke hjá West Brom. Það kom nú samt fáum á óvart að liðið lenti í vandræðum á síðasta þriðjunginum og við erum á því að það slæma form verði raunin í vetur. Hið alþekkta “second season syndrome” lendi á Clarke kallinum. Lykilmaðurinn í liði þeirra, Lukaku, var bara á láni og ákvað að fara annað á lán í vetur. Þeir sóttu sér Anelka til að fylla þetta skarð, en nú er óvíst hvort hann spilar nokkuð aftur af persónulegum ástæðum. Þeir ætluðu að selja Shane Long en það klikkaði á síðustu tímanum og í kaupbæti sóttu þeir Anichebe frá Everton. Semsagt, rót, rugl og fallbarátta framundan á The Hawthorns. En þeir sleppa.

15.sæti (38 stig) Stoke City.

Eins og sést á stigatölunni teljum við að það verði fimm lið sem erfiðast munu eiga með að halda sér uppi en fyrir ofan þann pakka sitja lærisveinar Mark Hughes. Það er ekki nokkur vafi að ein allra mesta gleðifréttin í enska boltanum í sumar var þegar Stoke ákvað að nú væri komin nóg af Pulis-bolta og nú ætti að reyna að fara að spila fótbolta. Hughes hefur lítið hrært í leikmannahópnum en er án vafa að reyna að fá liðið til að spila meira með jörðinni. Vörn og markvarsla í bland við ótrúlegt andrúmsloft á heimavellinum þeirra er styrkleikinn og mun halda Hughes í starfi.

14.sæti (39 stig) Fulham.

Fulham gekk í gegnum eigendaskipti í vor þegar Al Fayed karlinn ákvað að nóg væri komið af peningaeyðslu í fótboltann. Sá sem tók við er af svipuðum ranni, vel stæður fjárhagslega en ætlar ekki að eyða grilljónum í liðið. Þeir gerðu vel í því að ná í Darren Bent sem skorar alltaf í þessari deild og gaman verður að sjá Stekelenburg markmann loksins í enska boltanum. Martin Jol hefur náð ákveðnum stöðugleika í liðið og byggir það á sterkum sóknarmönnum frekar en varnarleik. Svipað miðjutímabil framundan hjá liðinu af Thamesbökkum Lundúnaborgar.

13.sæti (43 stig) Norwich.

Kanarífuglarnir hans Chris Hughton sigla um miðjuna vel ofan við fallbaráttuna. Hughton var lengi í gang en náði liðinu vel af stað eftir mitt mót og svo hafa þeir farið mikinn á leikmannamarkaðnum í sumar. Vissulega kannski farið frekar hljótt en þeir hafa keypt sér þrjá landsliðsframherja (van Wolfswinkel, Elmander og Hooper) og bætt vel í vörn og miðju. Norwich virðist hægt og rólega ætla að festa sig í sessi á meðal þeirra bestu og virðast ætla að gefa stjóranum tíma til að byggja upp lið eins og hann vill sjá, sem er lið sem spilar fótbolta á jörðinni og sækir.

12.sæti (44 stig) Aston Villa.

Rétt ofan við fyrri lærisveina sína situr Paul Lambert með Villamenn. Liðið leit út sem dauðadæmt þangað til það mætti á Anfield í desember 2012 og hrökk í gang. Mjög háðir Christian Benteke, en hann hefur virkilega staðið undir því. Lambert vill láta lið sín pressa hátt á völlinn og klára sóknir hratt. Í sumar sótti hann nöfn sem við þekkjum ekki mikið en þó verður gaman að sjá hinn unga Okore í hafsentinum og bakvörðinn Luna. Þó er það okkar trú að liðið standi og falli áfram með Benteke sem gæti verið að fara að keppa um gullskóinn í vetur. Ungt lið og það gæti orðið vandamál, en þó ekki þannig að þeir dragist aftur niður í fallbaráttu.

11.sæti (47 stig) Newcastle

Rússibaninn hjá Newcastle síðustu tvö ár hefur náttúrulega verið mikill. Frábærir 2011-12 og síðan nálægt því að dragast oní fallið 2012-13. Mikið púður fór í Evrópu í fyrra og hið nú klassíska rugl í kringum eigandann Mike Ashley dró líka tennurnar úr þeim. Í sumar fór hann svo og sótti sér Director of Football. Og hvern valdi hann? Joe Kinnear….hvílík snilld. Í kjölfarið fylgdi bull á leikmannamarkaðnum sem leiddi af sér að þeir náðu ekki neinum nema Loic Remy. En þarna eru líka margir gæðaleikmenn og liðið mun verða um miðja deild, en viðbúið er að Pardew klári ekki tímabilið með klúbbnum.

Nóg í dag, á morgun kemur topp 10 og þá um leið hvað við höldum að verði um LFC

22 Comments

  1. 20.Hull
    19.Palace
    18.W.B.A
    17.Sunderland
    16.Cardiff
    15.Fulham
    14.Newcastle
    13.Norwich
    12.Southampton
    11.Aston Villa
    10. Stoke
    Mín spá 🙂

  2. Hendi hér inn það sem ég sendi á Magga um neðri hluta deildarinnar:

    10. West Ham – Stóri Sam hefur fengið að leika lausum hala hjá West Ham og er búinn að Allardyce-a þetta lið gjörsamlega. Hann er alltaf að fara í topp tíu og ég er bara að vona að það verði ekki meira en það.

    11. Stoke City – Eins og ég sagði fyrir fyrsta leikinn er Stoke með þéttara og reyndara lið en margir halda og geta vel spilað fótbolta þó þeir hafi ekki gert það undanfarin ár. Það verður erfitt að brjóta þetta lið niður eins og þeir hafa sýnt í byrjun.

    12. Norwich – Þeir verða mjög sáttir við sitt þarna þó þetta sé sæti neðar en á síðasta tímabili. Chris Hughton virðist hafa fundið klúbb sem hefur trú á honum og er til í að gefa honum tíma.

    13. Swansea – Ég held að væntingar og Evrópukeppni verði Swansea erfið yfir heilt tímabil þó bæði hópurinn og stjórinn gefi til kynna að þetta lið geti miklu betur í vetur.

    14. Aston Villa – Þeir eru í fyrsta skipti í áratugi með réttann stjóra. Líklega ekki haft svona spennandi stjóra síðan Martin O´Neill var spennandi stjóri. Lambert er að búa til mikla liðsheild og gott lið. Aldrei að fara falla en það veltur á Benteke hvort þeir séu að fara ofar. Grunar að hann verði keyptur frá þeim í janúar.

    15. Fulham – Verða aldrei í fallhættu en sogast í neðri hlutann þegar liður á tímabilið. Hafa mikið af öflugum sóknarmönnum sem allir eiga það sameiginlegt að nenna ekki fyrir sitt litla líf að verjast. Það verður þeim að falli. (samt ekki bókstaflega).

    16. Cardiff – Þeir verða bestir af nýliðunum. Þeir hafa styrkt liðið vel og eru með mjög öflugan heimavöll. Verða í fallbaráttu en sleppa.

    17. WBA – Enduðu síðasta vetur hræðilega og hafa síðan þá misst einn sinn besta mann (Lukaku). Held að þetta verði mjög langur vetur hjá Clarke og félögum.

    18. – Hull City Tigers – Þetta er semi óskhyggja því Bruce er pottþétt að fara taka stig hér og þar með sínum Steve Bruce leik. Þetta er afskaplega óspennandi lið samt og það fellur næsta vor.

    19. – Sunderland – Ég held að minn maður Di Canio sé því mður aldrei að fara lifa lengi í starfi. Hann er búinn að kaupa gríðarlega mikið af leikmönnum og mig grunar að Sunderland verði einn hrærigrautur í vetur og falli sannfærandi í vor. Ef þeir falla ekki þá spái ég því að þeir verði í topp 10. Það er alltaf allt eða ekkert hjá Di Canio.

    20. – Crystal Palace – Sigra Sunderland í baráttu um botnsætið. Þetta er bara lið sem var ekki tilbúið að koma upp. Misstu Zaha og Murrey er meiddur og það var bara hálft liðið í fyrra. Holloway hefur kippt inn leikmönnum á frjálsri sölu og láni en er með afar veikan hóp.

  3. Af einskærri illkvittni tók ég mig til og skoðaði spá Kop.is á síðasta ári, og bar niðurstöðuna saman við útkomuna í vor. Það náðist að spá rétt fyrir um sæti tveggja liða (Chelsea og Fulham), en það skeikaði með sæti annarra liða um allt frá 1 – 10 sæti, verst var spáin fyrir QPR sem átti að lenda í 10. sæti en endaði í því 20. þegar upp var staðið, og eins reyndust Newcastle, Norwich og Sunderland lenda talsvert frá spásætum sínum. Að meðaltali reyndist muna 3.55 á því sæti sem liði var spáð, og hvar það svo endaði þegar upp var staðið.

    Hafa síðuhaldarar annars haldið saman hversu vel hefur tekist vil við spámennskuna í gegnum árin? Er meðaltalsfrávikið eitthvað að breytast eftir því sem menn eldast og verða reyndari?

    Vil taka það skýrt fram að ég tel engar líkur á að ég nái sjálfur eitthvað betri árangri í spámennsku.

  4. … ég kannski svara mér sjálfur, a.m.k. að hluta til, en meðaltalsmunurinn árið á undan reyndist vera 4.0, svo það er a.m.k. einhver bæting í gangi. Áhugavert að það árið var líka spáð rétt fyrir um það í hvaða sæti Fulham myndi lenda…

  5. Nr. 4

    Hafa síðuhaldarar annars haldið saman hversu vel hefur tekist vil við spámennskuna í gegnum árin? Er meðaltalsfrávikið eitthvað að breytast eftir því sem menn eldast og verða reyndari?

    Alls ekki, líklega þess vegna erum við að svindla og spá eftir að glugganum lokar 🙂

  6. Svona hljóðaði það sem ég sendi á Magga er varðar neðri helminginn:

    11. Newcastle: Hörmungar stjóri, en með slatta af fínum fótboltamönnum.

    12. Fulham: Hafa gert bara ágætis kaup í sumar og verða enn og aftur lausir við alla spennu í deildarkeppninni.

    13. WBA: Þeir voru talsvert spútnikk í fyrra, þetta verður erfitt hjá þeim í byrjun, en svo rétta þeir aðeins úr kútnum.

    14. West Ham: Þekki nokkra góða West Ham stuðningsmenn og get ekki gert þeim það að spá liðinu þeirra falli, en mikið væri ég samt til í að sjá Sam fara niður. Fylgist þó með mínum manni Carroll úr fjarlægð.

    15. Norwich: Held að þeir verði ekki í neinni teljandi hættu í vetur, þó svo að ég spái þeim 15. Sætinu. Með ágætis stjóra og sæmilegan mannskap.

    16. Stoke: Gæti komið í bakið á þeim ef þeir ætla að reyna að fara að spila fótbolta, því það hafa þeir ekki prófað í nokkur ár. Held þó að Hughes nái að halda þeim uppi.

    17. Sunderland: Di Canio verður rekinn í vetur þegar staðan verður orðin slæm. Andrúmsloftið verður hreinsað sem verður til þess að þeir ná að bjarga sér með öflugum lokaspretti.

    18. Cardiff: Vonandi húrra þeir beint niður, vil ekki fleiri svona Stoke-ish lið í efstu deild. Miklu skemmtilegra þegar lið sem spila knattspyrnu koma upp. Bjargar kannski einhverju að Aron meiddi sig í öxlinni og því minni áhersla á löng innköst a la Delap.

    19. Hull: Lið sem bætir „Tigers“ í nafnið sitt á ekki skilið að vera í efstu deild. Bruce fer beina leið niður með þetta lið enda ekki nærri nóg gæði fyrir hendi og þessi þrjú lið sem komu upp síðast, sína það bara hversu rosalega stór munurinn er á milli efstu og næst efstu deildar.

    20. Crystal Palace: Holloway ekki einu sinni skemmtilegur í viðtölum lengur, hvað er þá eftir? Enginn mannskapur og Krystalhöllin húrrar niður í frjálsu falli.

  7. Ég gat náttúrulega ekki hætt, og skoðaði spár kop.is síðustu árin, eða frá því haustið 2008. Þetta eru helstu niðurstöður:

    Frávik:
    2012: 3.55
    2011: 4.0
    2010: 2.3
    2009: 2.15
    2008: 3.6

    Spá um hvaða lið vinnur titilinn:
    (Fyrst kemur hvaða liði er spáð sigur, og svo hvaða lið vann):
    2012: City / United
    2011: United / City
    2010: Chelsea / United
    2009: Liverpool / Chelsea
    2008: Chelsea / United

    Spá um gengi Liverpool:
    (fyrst kemur hvaða sæti er spáð, og svo í hvaða sæti liðið lenti í lokin)
    2012: 4 / 7
    2011: 4 / 8
    2010: 4 / 6
    2009: 1 / 7
    2008: 2 / 2

    Af þessu sést að spáin fyrir árið 2009 er sýnu best, nema þegar kom að því að spá því í hvaða sæti Liverpool myndi lenda. Það árið var spáð rétt fyrir um sæti 5 liða, og 6 önnur lið lentu í sætinu fyrir ofan eða neðan það sem var spáð.

    Ég gat ekki fundið sambærilega spá árið 2007, en leiðréttið mig endilega ef hún er til einhversstaðar.

    Sjálfsagt er svo hægt að draga einhverja fleiri fróðleiksmola úr þessum gögnum, þetta er a.m.k. það sem mér datt í hug að taka saman.

  8. Hehe, þakka þér Daníel fyrir að staðfesta það sem allir vissu nú þegar: við á Kop.is erum fróðir um margt en ömurlegir spámenn. Enda er þetta meira til gamans gert, ágætt stöðutékk á því hvar menn sjá liðin í deildinni í upphafi tímabils. Svo kemur að sjálfsögðu margt á óvart yfir veturinn.

    Hér er mín spá á neðri 10, með útskýringum:

    11. Fulham – Stöðugleikinn í fyrirrúmi hjá Martin Jol.
    12. Newcastle – Ekkert til að hrópa húrra fyrir en ekki fallbarátta heldur. Alan Pardew klárar ekki veturinn með liðið.
    13. Norwich – Flott lið sem heldur sér örugglega í deildinni áfram. Biðja vart um meira.
    14. Stoke City – Kraftmikið lið sem halar inn drjúg stig á heimavelli og heldur sér uppi.
    15. Aston Villa – Ungt og flott lið Lambert heldur sér á öruggum og lygnum sjó í mest allan vetur. Gætu farið langt í bikar og Benteke verður í baráttunni um gullskóinn en ekki nógu reynt lið til að fara í topp 10.
    16. WBA – Erfitt annað tímabil hjá Steve Clarke og það án Lukaku og Anelka. Gætu sogast niður í fallbaráttu en eru of góðir til að falla.
    17. Cardiff City – Þetta er baráttulið sem hefur komið á óvart í upphafi leiktíðar. Halda sér uppi, naumlega.
    18. Sunderland – Ég spái að Di Canio sé ekki með þetta og örlög þeirra ráðast af því hvenær þeir skipta honum út. Spái að hann verði fyrsti stjórinn sem fýkur og þá skiptir eftirmaðurinn öllu. Falla.
    19. Hull City Tigers – Eiga skilið að falla fyrir nafnaskiptin. Steve Bruce hefur fallið með 2-3 lið áður og endurtekur leikinn hér.
    20. Crystal Palace – Hef ekkert séð sem bendir til annars en að þeir fari lóðrétt niður. Versta lið deildarinnar í ár.

    Og hana nú! Ég er handviss um að þetta verður allt hárrétt hjá mér í ár! 🙂

  9. Ekki málið Kristján Atli, hvenær sem er 🙂

    Annars var alls ekki meiningin að dissa ykkur á neinn hátt, eins og þú segir er þetta allt meira til gamans gert, og ég bíð alveg jafn spenntur eftir seinni hluta spárinnar eins og áður.

  10. Daníel, gaman að þessu, en hvaða kop penni er að standa sig best? Er einhver sem maður á að taka meira mark á en aðra. Til dæmis þegar kemur að hvaða sæti Liverpool enda?

  11. Góðar fréttir af Sturridge en slæmar af Glen. Sem betur fer eigum við góðan hóp af varnarmönnum núna.

    Smá þráðrán.
    Stutt en skemmtilegt viðtal við BR. Gaurinn er með þetta!
    http://liverpool.theoffside.com/2013/9/9/4708122/brendan-rodgres-liverpool-champions-league-kenny-dalglish-bill-shankly

    P.s. neðstu tíu mega raðast á allan hátt mín vegna (helst með neverton innanborðs), það mikilvægasta númer eitt, tvö og tíu er að LFC verði í topp fjögur!

  12. Eigum við eitthvað af varnarmönnum sem geta spilað hægri bak? (fyrir utan Wisdom og Kelly sem er ekki í leikformi held ég). Við eigum í öllu falli engan virkilega góðan hægribakvörð fyrir utan Glen. Glen Johnson með verri mönnum til að meiðast. Ég talaði einmitt um það í öðrum þræði að það þýddi ekkert að lána Wisdom því við þyrftum bakcup fyrir Johnson.

  13. Nr. 11 – Hafliðason: ég var ekki að grafa svo djúpt. Þar fyrir utan eru þær upplýsingar ekki í bloggpóstunum sjálfum, en gætu hugsanlega verið í kommentum. Ef ég verð í svaka stuði fer ég kannski að lesa kommentin og þá verður e.t.v. hægt að sjá hver þeirra er að standa sig best.

  14. Hull City TIGERS, … þetta er eins og að detta ofan í kókdollu, svo Amerískt að maður fær hroll……….brbrbrbr

  15. Haha Daníel svei mér þá ef þér er ekki að leiðast þetta landsleikjahlé meira en mér 🙂

    Skoðaði aðeins mína spá frá því í fyrra og það hjálpaði ekki neitt. Ég spáði reyndar nákvæmlega eins og heildarspáin okkar um fyrstu 10 sætin, smá af óskhyggju enda með Liverpool í topp 4 og West Ham í fallsæti.

    Ég var bara með eitt hárrétt en 3 af 4 af þeim liðum sem náðu topp 4 (bara Liverpool sem olli vonbrigðum þar). Ég var bara með eitt lið rétt í fallsætunum og bjóst greinilega við miklu af moldríkum eigendum Reading og QPR sem síðan féllu bæði með glæsibrag. Eins hafði ég mikla trú á Martin O´Neill hjá Sunderland og Newcastle sem voru frábærir árið áður.

    Munurinn á liðunum í 8. sæti og 17.sæti var reyndar bara 10 stig sem sýnir hvað svona spá getur verið fljót að fara til andskotans 🙂

    Frávik hjá mér var 4,1 í fyrra og 3,95 tímabilið á undan.

  16. Maður verður að taka sér eitthvað fyrir hendur!

    Það er ekki það, mér leiðist ekkert að kíkja reglulega inn á premierleague.com, og kíkja á stöðuna í deildinni….

  17. Ég ætla að bíða með að spá þar til um miðjan maí og sjá hvort ég verði ekki nokkuð nærri lagi.

Hversu sterkur er hópurinn núna?

Spá Kop.is – síðari hluti