Spá Kop.is – fyrri hluti

Eins og áður þá höfum við félagarnir þann háttinn á að spá fyrir um gengi ensku deildarinnar hvert tímabil.

EPL-logoEftir býsna skrautlegar útkomur ákváðum við í fyrra að geyma spána fram yfir gluggalok og leyfa fyrstu geðveikinni að klárast og við höfum sama háttinn á þetta árið. Að þessu sinni erum við sjö sem erum að spá og eins og venjulega röðum við öllum liðunum í sæti og það lið sem hver velur í fyrsta sæti fær 20 stig og það sem verður neðst fær 1 stig. Svo eru spár okkar allra lagðar saman, mest er því hægt að fá 140 stig og minnst 7 stig.

Ef að lið eru jöfn að stigum raðast það hærra sem hefur fengið einstakt hærra sæti…skýrum það nánar ef upp kemur.

Síðasta spá

Við félagarnir spáðum einhverju rétt. Við spáðum því að City yrðu meistarar og hittum á rétt sæti hjá Arsenal og Spurs. Við spáðum okkar mönnum 5.sæti sem var í fyrsta sinn sem að við spáðum klúbbnum ekki CL-keppnisrétt og viti menn, sú spá stóðst ekki! Við vorum ekki með neitt rétt af fallliðunum svo að sennilega veit það á gott fyrir lið að við spáum þeim falli!

Það lið sem kom okkur mest jákvætt á óvart var C.Palace sem við spáum 20.sæti en endaði í 11.sæti og það sem var mest neikvætt á óvart voru Norwich og Fulham sem enduðu fimm sætum neðar en við spáðum…en United var þar næst á eftir, fjórum sætum neðar en við spáðum.

Að því sögðu skulum við demba okkur í fyrri hluta spárinnar, sæti 11 – 20 gjörið svo vel!

Lykilmenn hvers liðs eru vísun í fína umfjöllun Guardian um liðin í vetur.

20.sæti: Burnley 10 stig

Sennilega er það ekki óvænt að við spáum nýliðum Burnley í júmbósætið.

Við teljum þá einfaldlega ekki nægilega sterka í þessa deild, setjum þá allir sjö í fallsætin. Það helsta sem er með þeim í baráttunni er stjórinn þeirra, Sean Dyche, en sá þykir mikið efni. Vill að sín lið spili fótbolta en við höldum að það getustig sem býr í liðinu þeirra sé alls ekki nægilega hátt til að lifa í ensku úrvalsdeildinni og þeir kveðja deildina eins og síðast þegar þeir voru þar, eftir eitt ævintýratímabil.

Lykilmaður: Danny Ings

Quote: Ég myndi ekki einu sinni spá þeim upp í Championshipdeildinni (Babú)

19.sæti: W.B.A. 15 stig

Við teljum veru West Brom í deildinni á enda runninn.

Þeir létu Steve Clarke fara, síðan eftirmann hans og réðu í sumar góðan vin Rodgers okkar, Alan Irvine til starfa. Fóru í að kaupa alveg handfylli óspennandi leikmanna auk þess reyndar að fá svo hann Andre okkar Wisdom að láni. Það eitt er spennandi við liðið!

Við teljum góðar líkur á því að Irvine missi fyrstur djobbið í vetur og þeirra bíði Championship-vera haustið 2015. Ekki síst þar sem að liðið virðist ætla að reyna að færa sig frá styrkleikanum sem var öflugur varnarleikur og yfir í að fara að spila sóknarleik, en án alvöru sóknarmanna. Það er þó einn okkar sem skilar sératkvæði.

Lykilmaður: Ideye Brown

Quote: Rétt sleppa við fall þökk sé hruni hjá Crystal Palace (KAR)

18.sæti: Leicester 24 stig

Leicester eru komnir á ný í deild þeirra bestu eftir nokkurra ára fjarveru. Liðið hefur löngum verið jójó-lið milli tveggja efstu deildanna og við teljum að það sama verði upp á teningnum um sinn.

Stjórinn þeirra er gamalreyndur nagli, Sheff Wed-jaxlinn Nigel Pearson og hann mun láta liðið spila “skynsamlega”, liggja töluvert til baka og reyna að sækja hratt. Svona gamaldags breskur bolti, ólseigir og heimavöllurinn þeirra hefur verið sterkur undanfarin ár. Þeir rústuðu Championship deildinni og síðustu daga gluggans náðu þeir sér í tvo reynslubolta sem var mjög mikilvægt. Við höldum að þeir verði í hörkubaráttu fram í síðustu umferð en falla þá á dramatískan hátt.

Lykilmaður: Esteban Cambiasso

Quote: Þetta verður annað hvort spútniklið eða lið sem fellur beint, ég hallast að því síðara (Óli)

17.sæti: Crystal Palace 24 stig

Já takk, Palace halda sér uppi og eiga það alfarið Magga að þakka, alræmdum aðdáanda Neil Warnock.

Þeir fá jafn mörg stig og Leicester hjá okkur en þar sem Maggi spáir þeim 15.sæti trompar það Leicester út og því segjum við að Lundúnaliðið hangi uppi á markatölu.

Lykilatriðið til að það gangi upp hjá Palace er að heimavöllurinn þeirra, Selhurst Park, skili þeim 30 stigum. Sá völlur varð gryfja þegar á mótið leið (sem við fundum jú fyrir) með sennilega háværustu áhorfendum deildarinnar. Sú stemming verður að vera í gangi ef þessi spá á að ganga eftir.

Second season syndrome er alþekkt fyrirbrigði og því er alveg viðbúið að spútnikliðið frá síðustu leiktíð fái reglulega fast á kjammann í vetur. Stjóraskiptin í ágúst komu allri heimsbyggðinni á óvart, sennilega ekki síst honum Martin Kelly sem var keyptur frá okkur sama dag og Pulis hætti. En spáin okkar segir þá verða uppi.

Lykilmaður: Mile Jedinak

Quote: Ekkert lið sem fer úr því að vera með Pulis sem stjóra og yfir í Neil Freaking Warnock á skilið að halda sér uppi. Megi þeir bara þjóta niður takk! (Steini)

16.sæti: Q.P.R. 37 stig

Ef við reynum að lesa í stigaútreikninginn myndum við telja QPR verða í fallbaráttu fram undir leiktíðarlok en sleppa svo við fall.

Þeir hafa mörg þekkt nöfn í leikmannahópnum og hafa bætt við hann í sumar með ágætum nöfnum eins og Sandro, Caulker, Mutch og Fer. Allt eru það leikmenn sem geta á góðum degi skipt heilmiklu máli í baráttu neðri hlutans.

Vandi þeirra liggur í því að lykilmennirnir eru margir hverjir komnir vel á aldur og heimavöllurinn þeirra verður seint talin mikil gryfja. Eigandinn hefur verið óhræddur við að sanka að sér leikmönnum og er tilbúinn að styrkja liðið í janúar ef þarf, kannski hann reyni aftur við Borini?

Harry er að tapa töframættinum og er enginn Houdini lengur en heldur þeim uppi í vor.

Lykilmaður: Adel Taarabt

Quote: HA?? Lið sem Harry Redknapp stýrir að kaupa mikið af mönnum?! (KAR)

15.sæti: Aston Villa 47 stig

Hvað er hægt að segja um þetta lið úr næst stærstu borg Englands sem ekki hefur verið sagt áður.

Enn einu sinni er liðið í söluferli, enn einu sinni eru þeir að sanka að sér leikmönnum sem ekki meikuðu það hjá stórliði (nema auðvitað King Aly sem meikaði það en fór samt var það ekki Babú?) og enn einu sinni þurfa þeir að reiða sig á einstaklinga til að bjarga sér frekar en heildina.

Lambert hefur lengi átt það trikk í erminni að keyra liðið sitt í form snemma og við höldum að það verði eins núna. Þeir verða snöggir upp úr blokkunum en þegar eldri mennirnir í hópnum fara að þreytast og Agbonlahor fer í meiðslaperíóduna þá dettur botninn úr og þeir gæla við fallið sem þeir svo sleppa við að lokum…enn eitt meðalmennskuárið framundan á Villa Park.

Lykilmaður: Christian Benteke

Quote: Innkaup Aston Villa í sumar hafa verið vægast sagt slök á pappír (Eyþór)

14.sæti: Sunderland 52 stig

Rétt ofan við meðalmennsku Villamanna lúra Sunderlandmenn undir stjórn Gus Poyet sem virkar mikill herramaður og í raun væri gaman að sjá honum ganga betur.

Þeir náðu sér ekki í sterkan senter í sumar svo að þar mun stærsta spurningamerkið liggja án vafa. Á því þurfa þeira að ráða bót.

Mikið mun mæða á að Jack Rodwell komist í gang eftir útlegðina hjá City og varnarleikurinn verður væntanlega undir stjórn Sebastian Coates sem verður afskaplega gaman að fylgjast með fá alvöru séns í deildinni. Sunderland munu endurtaka leikinn frá í fyrra, daðra við fallbaráttuna en fara aldrei af krafti inn í hana og halda sér nokkuð örugglega uppi.

Lykilmaður: Jordi Gomez

Quote: Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er það að Jozy Altidore skorar bara eitt deildarmark á leiktímabili (Eyþór)

13.sæti: West Ham 57 stig

Við höldum að West Ham endi í sama sæti og í fyrra, númer þrettán.

Ansi margir okkar vildu sjá stjórann þeirra fá reisupassann fljótlega…svo sem ekki ósvipað mörgum aðdáendum Hamranna sem eru lítið að gleðjast yfir leikstíl hans og uppleggi. Því er best lýst sem seigu og óspennandi, bara hrútleiðinlegt en því miður, árangursríkt.

Einhverjar meldingar hafa þó komið um að í vetur eigi að færa leikstílinn yfir í meiri sóknarleik en við höldum bara að stjórinn muni ekki ráða alveg við það þrátt fyrir að leikmannakaup á Enner Valencia, Cheikhou Koyoute og Diafra Sakho (ekki skyldur okkar manni) séu hugsuð sem hluti af þeirri viðleitni eigendanna. Býsna fróðlegur tími framundan hjá liðinu úr austurhluta London sem mun sigla lygnan sjó og ekki vera á neinum vígstöðvum.

Lykilmaður: Kevin Nolan

Quote: Það sem mig langar að spá þeim neðar, en Big Sam er kominn með ágætan hóp (Babú)

12.sæti: Hull 68 stig

Útgerðarborgin Hull á fulltrúa í efstu deild annað árið í röð og við teljum þá munu byggja á ágætum árangri sínum í fyrra og verða um miðja deild.

Það má vel segja að þeir hafi náð mestri styrkingunni í leikmannaglugganum þegar þeir náðu í menn eins og Michael Dawson, Gaston Ramirez, Robert Snodgrass, Diame, Tom Ince og Abel Hernandez. Þar fer hópur af hæfileikaríkum hönnum og einmitt af sóknarmönnum en þar vantaði þeim helst uppá í fyrra.

Þeir duttu út í forkeppni Evrópudeildarinnar svo að ekkert púður fer í þá keppni hjá Tígrunum hans Steve Bruce og þeir geta einbeitt sér að heimalandinu. Ef þeir byrja vel og leikmannahópurinn smellur hratt saman þá gætu þeir hæglega orðið ofan við miðjuna, sem væri frábær árangur.

Lykilmaður: Nikica Jelavic

Qoute: Það er alveg magnað hvað Steve Bruce hefur náð til sín af mannskap síðan hann kom til þessa félags. Hann hlýtur að vera svona skemmtilegur maðurinn! (Steini)

11.sæti: Newcastle 71 stig

Stórklúbbinn Newcastle setjum við í 11.sæti – eða á svipuðu róli og í fyrra.

Höldum þeir verði bara nokkuð fínir, hvorki mjög góðir eða lélegir. Við erum töluvert ósammála um röðunina, sennilega það lið sem fær “víðustu” sætaröðunina og er það nú sennilega bara í anda ólíkindatólsins Mike Ashley sem á klúbbinn og einn góður vinur minn kynntist eitt sinn og sagði við mig að hann “myndi ekki treysta Mike Ashley fyrir hárgreiðu”.

Liðið styrkti sig bara býsna vel í sumar, bætti aðeins í frönsku nýlenduna og sótti sér tvo hollenska landsliðsmenn sem er ætlað lykilhlutverk. Það kom á óvart að þeir skyldu ekki eltast við sinn helsta markaskorara í fyrra, Loic Remy og það er ljóst að í framlínunni mun mögulega helsti veikleiki þeirra liggja.

Alan Pardew stjóri liðsins á í töluverðum ímyndarvanda hjá áhangendum félagsins en langi samningurinn hans (á rúm sex ár eftir) heldur sennilega í honum lífinu enn eitt árið. Óspennandi miðjumoð á Tyneside.

Lykilmaður: Tim Krul

Quote: Það er alltaf eitthvað fát á Pardew og Newcastle (Óli)

Þar með lýkur umfjölluninni um neðri hlutann í spánni okkar, seinni partinn á morgun kemur sæti 1 – 10 og þar á meðal hvar við ætlum okkar mönnum stað!

22 Comments

  1. Ég spáði fyrir tímabilið, min spá er svona

    20. Burnley
    19. WBA
    18. Aston Villa: Ég held að tíma Aston Villa sé liðinn í efstu deild. Þetta er meiri óskhyggja að þessi Birmingham lið fari bæði niður en Liverpool virðist oft ganga illa með þau að einhverji ástæðu.
    17.QPR
    16.Leicester
    15. Southampton:
    14. Sunderland
    13. Crystal Palace
    12. Hull City
    11. Swansea

  2. Já, þið haldið að þessir nr. 14 muni ekki enda þarna ? Ég skal ekki segja..að örðu leyti sammála.

    12 QPR 3 1 0 2 1:5 3
    13 Sunderland 3 0 2 1 3:4 2
    14 Manch.Utd 3 0 2 1 2:3 2
    15 Leicester 3 0 2 1 3:5 2

  3. Góður pistill…

    Er ég sá eini sem finnst R** Hod***** spila Liverpool mönnum alveg ofan í grasið í leikjum sem engu skipta á meðan aðrir fá að hvíla sig? Grunar að gamli sé bálreiður út í klúbbinn hvort sem hann gerir þetta ó-eða-meðvitað…

  4. Svona hljómaði þetta frá mér þetta árið

    11. Swansea – Frábær byrjun hjá þeim og fínn leikmannagluggi. Eru að spila góðan fótbolta sem erfitt er að eiga við. Grunar að það komi til með að fjara undan þeim þegar líður á en Gylfi Sig og félagar verða í baráttu um að enda í topp 10. til loka. Mjög öflugt fyrir þá að halda Bony og bæta Gomis við sóknarlínuna. Gylfi síðan algjör lykilmaður hjá þeim og frábær viðbót.

    12. Hull City – Af liðunum í neðri helmingi deildarinnar átti Hull City langbesta leikmannagluggann og eru komnir með góðan og stóran hóp. Þeir duttu úr leik í Europa League sem er þeirra gæfa og gætu vel bætt sig meira en um þessi 4 sæti sem ég er að spá því að þeir bæti.

    13. West Ham – Það sem mig langar að spá þeim neðar. Big Sam er bara kominn með ágætan hóp núna og ég spái því að þeir standi í stað á þessu tímabili.

    14. Sunderland – Mögulega er ég of svartsýnn á gengi Sunderland.Þeir gefa ekki öðrum líðum forgjöf líkt og á síðasta tímabili sem þeir hófu með Di Canio í brúnni. Poyet er mun öflugri stjóri og eins er ólíklegt að þeir fari aftur eins langt í báðum bikarkeppnum sem tók frá þeim orku í fyrra. Coates og félögum spái ég samt sama sæti og þeir enduðu á síðasta tímabili.

    15.Aston Villa – Dæmalaust óspennandi leikmannakaup hjá Villa í sumar en þeir fá engu að síður inn mikla reynslu úr EPL í hópinn og það er eitthvað sem þessum hóp vantaði. Lambert og Keane er öflugt þjálfarateymi líka sem eiga að ná meiru úr þessu félagi en gert hefur verið undanfarin ár. Mikilvægt fyrir þá að halda Benteke og auðvitað kaupa King Aly Cissokho. Þriðja liðið í röð sem ég set í sama sæti og þeir enduðu á síðasta tímabili.

    16. Leicester City – Bestir af nýliðunum á síðasta tímabili og virka með þétt og orkumikið lið sem verða erfiðir viðureignar og geta vel haldið sér upp a.m.k. eitt tímabil. Hópurinn þeirra rústaði Championship deildinni og þeir hafa þétt hann vel í sumar.

    17. Q.P.R – Harry er búinn að versla mjög mikið að vanda í sumar og bæta við nokkrum góðum leikmönnum. Hann heldur QPR upp en það verður mjög naumt. Hann fær svo að styrkja liðið í janúar líka.

    18. Crystal Palace – Það er allt í rugli hjá Palace og þeir máttu ekki við því. Það eru greinilega einhverjir trúðar að stjórna þessu félagi þar sem Pulis lenti strax upp á kant við þá þrátt fyrir að bjarga þeim ævintýralega frá falli. Hann hættir korter í mót eftir að hafa lagt mótið upp og stuttu seinna hættir Moody (þeirra Ian Ayre) vegna hneykslismáls. Sama hver spurningin er þá er Neil Warnock aldrei svarið. Núna falla Palace menn.

    19. W.B.A – Fyrrum aðstoðarmaður David Moyes er aldrei málið hjá EPL liði. Alan Irvine er númeri of lítill og verður fyrsti stjórinn sem fýkur (ef við teljum Pulis ekki með). Þetta verður erfitt hjá Wisdom og félögum í vetur og félagið var ljónheppið að falla ekki í fyrra. Núna fara þeir beint niður.

    20. Burnley – Það helsta sem vinnur með Burnley er þjálfarinn þeirra, Sean Dyce. Það er fagmaður sem gæti alveg komið á óvart og haldið þeim uppi. Hópurinn hjá þeim átti ekki einu sinni að vera nógu góður til að fara upp í fyrra og ég sé þá ekki annarsstaðar en á botninum eftir þetta tímabil. Ég myndi ekki einu sinni spá þeim upp í Championship deildinni í vetur.

  5. Svona sendi ég þetta frá mér:

    11. Newcastle: Þetta lið á svo sannarlega að vera ofar í töflunni, en á einhvern óskiljanlegan hátt, þá er Alan Pardew þarna enn við stjórnvölinn og að mínu mati mun hann aldrei fara eitt eða neitt áfram með þetta lið, nánast sama hvaða mannskap hann hefur yfir að ráða. Verða samt ekki í neinum teljandi vandræðum núna.

    12. Sunderland: Poyet er maður sem ég fýla og vill ekki sjá hann vera endalaust í ströggli og ég er á því að þeir hristi sig betur saman núna þegar hann fær að byrja með þá. Það er voðalega erfitt samt að segja til um það nákvæmlega í hvaða sæti þessi miðjumoðslið lenda, en ég spái þeim hérna.

    13. West Ham: Sammi sopi kann að halda sínum liðum uppi, er búinn að bæta við sig mannskap og held að hann verði óvenju langt frá fallinu í þetta skiptið. Það breytir ekki því að boltinn sem liðið hans spilar verður áfram alveg hundleiðinlegur.

    14. Swansea: Hef ekki mikla trú á Monk þarna sem stjóra, þrátt fyrir að þeir hafi byrjað virkilega vel, þá held ég að þeir eigi eftir að dala. Eru með fína kantmenn og flottan framherja í Bony. Varnarlega munu þeir þó ströggla. Hef þó alltaf gaman að horfa á Jonjo spila og vonast ég alltaf til þess að þeim dreng gangi sem allra, allra best. Finnst þó leiðinlegt Swansea vegna að þeir skyldu hafa þurft að droppa nafninu á félaginu og heita nú aftur það sama og Spurs í fyrra, eða Gylfi og félagar.

    15. Aston Villa: Magnað hvað þetta lið hefur verið að ströggla mikið síðustu árin og hef ég (öfugt við suma Kop.is félaga mína) litla sem enga trú á þessum stjóra. Það sem mun þó bjarga honum í vetur er að það eru bara önnur lið sem eru ennþá verri og munu þau tryggja Villa sæti í deild þeirra bestu áfram.

    16. Q.P.R: Harry er sko enginn töframaður, enda að mínum mati einn sá ofmetnasti stjóri í enska boltanum síðustu árin. Þeir hafa þó ávallt fengið að sanka að sér mannskap og eru með ágætis lið. Munu vera samt í bölvuðu ströggli í vetur.

    17. Leicester: Held að þeir haldi sér naumlega uppi á sterkri liðsheild.

    18. C.Palace: Second season syndrom í full blast hjá þeim og svo á ekkert lið það skilið að halda sér uppi ef þeir fara úr því að vera með Pulis sem stjóra og yfir í Neil Freaking Warnock. Megi þeir bara þjóta niður takk.

    19. W.B.A: Nú er bara komið að því að þeir fari niður, ég er ennþá að furða mig á ákvörðuninni á sínum tíma þegar Steve Clarke var látinn fara. Eru með slakan mannskap, en það eina sem verður spennandi að fylgjast með hjá þeim er framganga Wisdom.

    20. Burnley: Eru bara engan veginn með Úrvalsdeildarlið, því miður fyrir þá.

  6. Hló innra með mér “myndi ekki treysta kallinum fyrir hárgreiðu!”. Góð spá En held Leiceter verði mikið ofar, 8 -9 cirka en hvenær kemur hin spáin?. Býð spenntur eins og hinir lesendur síðurnar. Hafið þökk fyrir karlanir mínir.

  7. Mín atkvæði féllu svona:

    11. STOKE CITY: Svipað og hjá Southampton þá er Hughes góður stjóri með góðan hóp og þeir halda stöðugleika í vetur.

    12. NEWCASTLE: Ég hef mjög takmarkaða trú á Newcastle. Það eru góðir leikmenn þarna en það vantar sóknarmann og betri varnarmenn og það vantar alla stemningu á Tyneside. Þetta gæti orðið langur vetur hjá þeim.

    13. WEST HAM: Ég ætla að spá því að Sam Allardycde klári ekki tímabilið. Þeir verða lengst af neðar en þetta en eftir að þeir skipta um stjóra rífa þeir sig upp og enda fyrir ofan fallsvæðið.

    14. ASTON VILLA: Villa hefur byrjað tímabilið vel en samstarf Roy Keane og Paul Lambert er dæmt til að springa með hvelli. Leikmannahópurinn þeirra er ekki sterkur og þetta fjarar fljótlega út hjá þeim. Gætu dregist enn neðar.

    15. SUNDERLAND: Poyet er skemmtilegur stjóri og það er stemning hjá Köttunum. Þeir verða neðarlega í allan vetur en samt skrefi frá fallsætunum.

    16. QPR: Þeir halda sér uppi bara af því að Redknapp og leikmennirnir eru of reyndir til að fara niður. Styrktu sig ágætlega í sumar og þótt það hafi farið flatt hjá þeim síðast í Úrvalsdeildinni held ég að þeir rétt lifi af þetta skiptið.

    17. WEST BROMWICH ALBION: Rétt sleppa við fall þökk sé hruni Crystal Palace í vetur en þetta verður þó ekki upp á marga fiska hjá þeim.

    18. CRYSTAL PALACE: Tony Pulis gerði kraftaverk með því að halda þeim uppi síðasta vor en nú er hann horfinn og ég hef langt því frá sömu trú á Neil Warnock. Martin Kelly spilar í Championship-deildinni á næsta ári.

    19. LEICESTER CITY: Þeir hafa ekki styrkt sig nóg í sumar til að geta haldið sér uppi. Það er barátta í þessu liði og þeir virðast hafa góðan heimavöll en ég hef litla trú á þeim.

    20. BURNLEY: Einfaldlega ekki nógu góðir fyrir þessa deild, því miður. Fara rakleitt niður.

  8. Svona var mín spá:

    11. Newcastle: Það er alltaf eitthvað fát á Pardew og Newcastle. Held þeir verði bara fínir, líkt og þeir hafa oft verið. Hvorki góðir né lélegir. Þeir falla ekki og þeir fara ekki upp. Þeir hafa gert áhugaverð kaup í Cabella, Colback og de Jong en varnarleikurinn er stórt spurningarmerki held ég og sóknarleikurinn líka. Þeir misstu Remy og spurning hver eigi þá að stíga upp.

    12. Stoke: Þeir hafa fengið fína menn til sín í Sidwell og Bardsley. Þeir verða bara Stoke. Erfiðir viðureignar en ekki nógu góðir til að gera eitthvað af ráði og of góðir til að falla.

    13. West Ham: Solid vörn, kraftmikið lið. Það er mjög Sam Allardyce-legt kennimerki á liði en nú þarf Big Sam að spila sóknarbolta. Enner Valencia, Zarate og Andy Carroll eiga líklega að bera uppi sóknarleikinn – fyrirfram virkar þetta óspennandi. Seigt en óspennandi.

    14. Sunderland: Synd fyrir þá að hafa ekki tekist að fá Borini til sín en þeir hafa styrkt sig fínt í sumar. Coates gæti komið flottur inn í vörnina hjá þeim, þeir eiga tvo flotta markverði, Rodwell, Alvarez og Gomez gætu komið flottir á miðjuna hjá þeim. Vörnin frekar þunn en þeir gætu verið seigir í vetur.

    15. QPR: Keyptu mikið í sumar. HA? Lið sem Harry Redknapp stýrir að kaupa mikið af mönnum?! Það getur ekki verið. Leroy Fer, Sandro og Mutch gætu komið flottir inn á miðsvæðið hjá þeim. Caulker og Isla gætu orðið fínir fyrir þá í vörninni en sókn og vörn hjá þeim er alls ekki sannfærandi. Líklega ná þeir að stýra sér frá falli.

    16. Aston Villa: Byrja leiktíðina afar vel en þegar líður á þá hellast þeir úr. Hafa átt einn mest óspennandi leikmannaglugga sem sögur fara af. Kannski aðeins sumarglugginn hjá Hodgson þegar hann var með Liverpool (gerðist það í alvöru?!?) sem toppar hann. Guzan og Vlaar hafa reynst Villa vel og munu líklega gera það áfram. Mikill missir fyrir Villa að Kozak og Benteke eru meiddir og tekur það töluvert bit úr sóknarleik þeirra.

    17. Crystal Palace: Ég hefði spáð þeim ofar ef Pulis hefði verið með þá áfram. Ég hef ekki mikla trú á Warnock og held að hann rétt bjargi þeim frá falli. Öflug vörn og fín miðja, sóknin þyrfti að spýta í lófana.

    18. Leicester: Þeir falla, veit svo sem ekki hvort þeir verði í þessu sæti eða neðar en þeir munu falla held ég. Þetta verður annað hvort spútniklið eða lið sem fellur beint, ég hallast að því seinna.

    19. Burnley: Þeir eu fínir en alls ekki nógu góðir fyrir Úrvalsdeildina held ég.

    20. WBA: Þeir falla. Eru með ágæta menn á miðsvæðinu sína og einhverja ágæta varnarmenn en sóknarlínan er geld og stjórinn mjög óreyndur. Frekar óspennandi lið sem ég held að þurfi að vera í fyrstu deild á næstu leiktíð.

  9. 20. WBA
    19. Burnley
    18. Leicester – eftir nokkuð góða byrjun mun þeim fatast flugið og falla
    17. QPR – Spáði því líka síðast að þeir myndu halda sér uppi og vel það en þeir hrundu niður eins og skotinn fugl þá þannig að ég veit ekki alveg með þetta.. ég bara trúi því ekki að þeim takist að falla núna.
    16. Crystal Palace
    15. Newcastle
    14. Hull
    13. Sunderland – er Connor Wickam ekki annars ennþá hjá þeim?
    12. Aston Villa
    11. Southampton

    Þetta er neðri hlutinn hjá mér. Ég get samt ekki sagt að ég sé viss í minni sök, fannst erfitt að raða þessu niður.

  10. Ég sötraði einu sinni öl með Neill Warnock og nokkrum aðstoðarmönnum hans(þar á meðal sjúkraþjálfari sem var áður hjá Stoke og sagði okkur skrautlegar sögur af Guðjóni Þórðarsyni, ekki að þær hefðu komið mikið á óvart þó) fyrir 4-0 sigurleik Liverpool á Sheffield United, leikur þar sem Fowler setti tvö úr vítum. En eftir nokkra öl var augljóst að Warnock er mikill meistari og taktískur snillingur og ég held að þið vanmetið hann….já eða ekki! :p

  11. Svona kom þetta frá mér.

    11. West Ham: Big sam á að fara spila sóknarbolta. Hlakka til að sjá það.

    12. Hull: Liðin hans Steve Bruce eru ávalt svipuð. Baráttulið sem er erfitt að sigra. Eru með fína miðju með Huddlestone sem aðalmann. Duttu út í forkeppni Europa league sem er jákvætt fyrir þá uppá árangur heimafyrir. Gerðu ágætishluti á lokametrum gluggans.

    13. Sunderland: Eru með ágætislið en náðu ekki að krækja í góðan striker fyrir lok gluggans. Fengu Rodwell sem eflaust styrkir þá og svo er bara spurning hvort að Fletcher nái að halda sér heilum því ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er það að Altidore skorar bara eitt deildarmark á tímabili.

    14. QPR: Hafa keypt ágætlega, Sandro, Caulker, Mutch og Fer. Sé þá ekki vera í fallbaráttu en ekki heldur fara í topp 10.

    15. Southampton: Stórt spurningarmerki, miklar breytingar á leikmannahópnum og nýr stjóri. Náðu að halda Schneiderlin sem er mjög sterkt, hann og Wanyama eru öflugir saman á miðjunni.

    16. Aston Villa: Gengi Aston Villa ræðst að miklu leyti á tveimur mönnum, Agbonlahor (sem kemst ávalt í gang en meiðist svo í 3-4 mánuði) og Benteke. Haldist þessur tveir heilir þá geta þeir endað ofar, ef ekki gætu þeir sogast niður. Innkaupin hjá þeim hafa verið vægast sagt slök á pappír.

    17. Leicester: Verða þarna niðri. Hafa reyndar virkað best á mig af nýliðunum hingað til, þrátt fyrir erfitt prógram. En ég held að CP sé bara í ruglinu og falli í staðinn.

    18. Crystal Palace: Voru lélegasta lið deildarinnar í fyrra áður en þeir réðu Tony Pullis. Klúðruðu því svo einhvern veginn og gerðu svo alveg upp á bak með ráðningunni á Neil Warnock. Hef svo litla trú á þeim stjóra að ég held að þeir fari niður.

    19. WBA: Wisdom nær ekki að bjarga þeim. Tekið skrítnar ákvarðanir síðan þeir ákváðu að láta Steve Clark fara á sínum tíma.

    20. Burnley: Fara beint niður.

  12. Sæl og blessuð.

    Mikið væri nú gaman að geta sett þá skrattarauðu samvinnumenn í eitt þessara neðstu sæta. Þeir eru nú búnir að styrkja sig svo mikið að varla heldur þessi skemmtilega ósigurganga þeirra áfram.

    Annars er þetta allt mjög áhugavert og fróðlegt. Legg ekki í að spá í þessa leikjaröðun enda ekki spámannlega vaxinn.

  13. Þið fyrirgefið vonandi þráðránið en ég var að lesa í gegn um einkunargjöf Englendinga og þótti það að mörgu leiti brosleg lesning. Á meðan Hodgeson var hjá okkur skildi Enska þjóðin ekkert í vanþóknun okkar á þessum Enska gæða stjóra og þótti mér því skjóta skökku við að lesa þetta “Roy Hodgson’s dwindling popularity will have only done some good for those seeking cures for insomnia.” 🙂
    http://www.espnfc.com/team/england/448/blog/post/2019040/england-grades-raheem-sterling-dazzleswayne-rooney-dismal

  14. Enn betra hér : http://www.espnfc.com/team/england/448/blog/post/2019434/roy-hodgson-and-wayne-rooneys-leadership-of-england-in-the-spotlight
    td: “in front of just 40,000 masochists at Wembley.”
    “I have been watching football for a long time and nothing you say will change what I see,” said England’s coach rattily.”
    “- Brewin: Raheem Sterling dazzles but Wayne Rooney dismal
    – Palmer: Raheem Sterling can play anywhere”
    ” Rooney is lucky that Hodgson is far too conservative a coach to ever consider dropping a captain.”
    “When asked about his team having just two shots on target, Hodgson became animated, his response dipped into an inappropriate defensiveness.”
    “”Switzerland will need to beat us,” he said, signalling that England’s first mission is to avoid defeat.”
    “An uneasy night for both coach and captain. Both must face down serious questions against the validity of their leadership.”

    Þetta er bara hin besta skemmtun að lesa :p
    Og ummæli eftirlætis þjálfara Englendinga hljóma hrillilega kunnuglega….en einhvernveginn er ekki jafn ömurlegt að lesa þau núna 😉

  15. Sælir félagar

    MÍn spá er svona og ég skil reyndar ekki af hverju allir Kop-arar nema einn spá Leicester falli. Langbesta liðið af þeim sem komu upp og betri en sum af þeim sem héngu uppi á síðustu leiktíð.

    20. Burnley
    19. WBA
    18. Aston Villa og ég held að sá gegni Liverpoolunnandi Paul Lambert muni falla með þetta lið ef hann hefur ekki vit á að hætta með það áður en illa fer.
    17. Crystal Palace
    16.QPR
    15.Leicester
    14. Southampton:
    13. Sunderland
    12. Hull City
    11. Swansea

    Það er nú þannig

    YNWA

  16. Ég skil engan veginn hvers vegna menn eru að spá Aston Villa svona slæmu gengi. Ég hef séð þá í upphafi leiktíðar og þeir hafa ekki bara náð mjög góðum úrslitum (7 stig af 9) heldur hafa þeir gert það af öryggi.

  17. Mín spá er eftirfarandi

    20. Burnley
    19. WBA
    18. QPR
    17. Leicester
    16. Aston Villa
    15. Crystal Palace
    14. Sunderland
    13. West Ham
    12. Stoke
    11. Hull City

  18. Nr. 19 (o.fl)

    Um að gera að koma með sína spá og rök fyrir henni. Varðandi Villa er ágætt að horfa til fyrri ára, sumargluggans hjá þeim og hvernig stemmingin er innan herbúða félagsins.

  19. Ég hef enga trú á QPR og býst við falli þar og mundi seint gráta það. Ég held að Leicester bjargi sér en Burnley mun líklega fara niður en eftir hetjulega baráttu.

Gamlar leikskýrslur Kop.is

Spá Kop.is – síðari hluti