Gengið og umræðan

Það er orðið ansi langt síðan ég hef skrifað sunnudagspælingar eftir leik. Of langt, kannski, en það stafar fyrst og fremst að því að maður hefur lítið þurft að vera að greina hlutina. Bara njóta. Því miður virðist það ekki uppi á teningnum í dag og það eru nokkur atriði sem mig langar að tala um. Við skulum bara vinda okkur beint í hlutina:

Brendan Rodgers

Vitið þið hvað Brendan Rodgers hefur verið stjóri Liverpool lengi? Rétt rúm tvö ár. 28 mánuði. Tvö tímabil. Og á þeim tíma er hann búinn að skila liðinu aftur í Meistaradeildina og var næstum því búinn að vinna titilinn á sínu öðru ári, eitthvað sem hefði talist nógu mikið kraftaverk til að Vatíkanið mætti gera hann strax að dýrðlingi.

Er hann fullkominn? Nei. Hér er innkaupalisti yfir allar bólurnar og vörturnar á andliti hans:

  • Liðið fær enn á sig of mörg mörk.
  • Markvörðurinn sem hann keypti er slakur.
  • Reyndar eru of margir af þeim sem hafa verið keyptir í hans tíð slakir. Peningarnir eru ekki að skila sér.
  • Við misstum Suarez og svo Sturridge í meiðsli og sóknin er fyrir vikið arfaslök.
  • Hann spilar [leikmaður A] of mikið í stað þess að spila [leikmaður B] sem er miklu betri.

Eflaust eitthvað fleira, en þetta eru stóru atriðin. Lítum aðeins á listann: nefnið einn þjálfara sem þið mynduð ekki tuða yfir að spili [leikmaður A] fram yfir [leikmann B]. Í öllum félögum heims eru stuðningsmenn að tuða yfir sama hlutnum, þannig að það verður seint talin brottrekstrarsök að velja þennan en ekki hinn leikmanninn.

Einnig: nefnið einn þjálfara í öllum heiminum sem hefði getað misst Suarez í sumar og svo Sturridge í 3+ mánaða meiðsli án þess að það sæist á sóknarleik liðsins. Nefnið einn. Ég mana ykkur.

Næst: Leikmannakaupin. Hér er Rodgers ekki einn að sök því það er nefnd sem vinnur hlutina saman og ákveður hlutina saman. Hann er í hópi manna sem þarf að axla ábyrgð þegar leikmannakaupin eru ekki að skila sér. En að sama skapi má benda á að sumir af burðarásum liðsins í dag eru leikmenn sem voru upphaflega dæmdir langt því frá nógu góðir fyrir Liverpool, en hafa unnið á og eru mikilvægir í liðinu. Jordan Henderson, Joe Allen, Martin Skrtel, Lucas Leiva, jafnvel leikmenn eins og Daniel Agger, Jamie Carragher, Peter Crouch og fleiri sem menn þykjast sakna í dag voru upphaflega dæmdir allt of slakir fyrir Liverpool.

Þannig að það er spurning um að gefa Dejan Lovren, Adam Lallana, Mario Balotelli, Lazar Markovic, Javier Manquillo og hinum nýliðunum tíma. Það geta ekki allir byrjað hlaupandi eins og Suarez, Sturridge og Coutinho gerðu. Það er undantekningin, ekki reglan, og rétt eins og leikmannakaup Damien Comolli hafa borgað sig upp í dag (eftir að hann var rekinn fyrir þau) þá er allt eins líklegt að við verðum hæstánægð með þessa leikmenn eftir 1-2 ár.

Hvað er þá eftir? Jú, varnarvinnan. Það fellur á axlir Brendan Rodgers og hann verður að laga það vandamál. Það hafa of margir varnarmenn og markverðir spilað fyrir hann með sömu niðurstöðum til að við getum verið að kenna leikmönnum um þetta. Liðið er ekki rétt upp sett hvað áherslu á varnarleikinn varðar og Rodgers verður að finna úr því. Rétt eins og hann verður að búa til nýja sókn án Suarez, og hann verður að búa til nýja miðju án Gerrard fyrr heldur en síðar.

En að halda því fram að það eigi að reka manninn? Að hann hafi ekki unnið sér inn þolinmæði til að vinna úr þessum hlutum? Maðurinn sem skilaði okkur beint aftur í Meistaradeild og titilbaráttu, skoraði 100+ mörk og bjó til eitt skemmtilegasta lið Evrópu á sínu öðru tímabili? Hvað er að ykkur?


Umræðan og ummælin

Það er því miður orðið þannig að netið er orðið of fjölmennt, eins og einhver gáfaður sagði eitt sinn. Einu sinni, fyrir einhverjum árum, þurfti fólk að vera með sína eigin vefsíðu til að geta skrifað pistla og/eða skrifa samþykkt ummæli á síðum annarra. Síðan komu MySpace, Facebook og Twitter. Síðan ákváðu allir stóru netmiðlar heimsins að tengja ummælakerfin sín við þessa stóru samfélagsmiðla. Allir voru með Facebook-síðu og því gátu allir tjáð sig án umhugsunar um hvað sem þeim sýndist, jafnvel á stöðum þar sem ótrúlega margir gátu lesið ummæli sem voru svo óvönduð og hugsunarlaus að þau hefðu aldrei komist í birtingu á netinu nokkrum árum áður.

Þannig fæddust „Virkir í ummælum“, plága sem hefur smitað út frá sér um allt netið og er því miður búin að taka sér bólfestu hér á Kop.is líka. Meðal þess sem við eyddum út af ummælaþræðinum við leikskýrsluna í gær:

„Þetta er nú meira draslið sem BR verslaði, annað var það nú ekki.“

„Erum með tvo lélegustu sóknarmenn deildarinnar, Barotelli og Lambert.“

„Er þetta ekki orðið gott. Rogers verður að taka pokann sinn!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!“

„Lélegasta lið Liverpool fyrr og síðar!!!!!!“

„Ok Liverpool er búið að spila hvað 9 leiki og er í dag í 7 sæti með 14 stig og einn sigur , það voru keyptir menn frá Sout­hampt­on fyrir tugi milljóna en þeir aftur á móti eru í öðru sæti með 19 stig og 6 leiki sem þeir eru búnir að vinna og samt er þetta nýtt lið með nýjan þjálfara halló hvað er eiginlega að ykkur sem haldið að Rodgers sé rétti þjálfarinn ?“

Síðustu ummælin hér að ofan fá hrós fyrir að vera lengsta setning allra tíma en samt, kommon gott fólk: reka Rodgers af því að allir sem voru keyptir í sumar eru ekki búnir að byrja á blússandi siglingu? Lélegasta Liverpool-lið fyrr og síðar? Verstu sóknarmenn deildarinnar? Drasl sem BR verslaði?

Finnst fólki þetta frambærileg skrif inn á jafn víðlesna síðu og Kop.is er?

Það er mikið af góðu fólki sem les þessa síðu og skrifar svo hugulsöm ummæli við. Þið getið séð margt af því góða við leikskýrslu gærdagsins, það eru ummælin sem brutu ekki reglur Kop.is og fengu því að standa, og bæta góðu við umræðuna um leikinn. En fyrir hver góð ummæli þurfum við nánast að henda einni vitleysu út líka, svo algengt er ruslið orðið. Menn eru orðnir „Virkir í athugasemdum“ á Kop.is líka, þrátt fyrir okkar bestu tilraunir til að halda umræðunni á góðu plani hér.

Það er líka mikið af góðu fólki sem les Kop.is daglega en dettur ekki í hug að taka þátt í umræðunni þar sem því fallast hendur þegar þau lesa sum ummælin hér. Þetta fólk hittum við strákarnir sem höldum þessari síðu úti reglulega og þykir alltaf miður þegar við heyrum fólk með þessa skoðun. Auðvitað eru ummælaskrif ekki fyrir alla en ef umræðurnar væru á betra plani hér er ég handviss um að fleiri myndu tjá sig.

SÉRSTÖK ATHUGASEMD: Af því að það er alltaf, alltaf, alltaf misskilið, þá skal það tekið fram að ég er ekki að banna mönnum að gagnrýna. Ef þið lesið leikskýrslur okkar fyrir síðustu leiki sjáið þið að við erum að gagnrýna helling sjálfir og fólk er að gagnrýna á vitrænan hátt í ummælunum. Ég er ekki að banna gagnrýni. Ég er hins vegar að banna illa úthugsuð, órökstudd ummæli sem bæta engu við umræðuna.

Hér eru ummæli sem ég samdi: „Brendan Rodgers verður að hætta að berja höfðinu við steininn í fjarveru Sturridge og leyfa Balotelli að spila með öðrum framherja sér við hlið. Það hefur sýnt sig í síðustu leikjum að Balotelli kann ekki að spila einn frammi og að hans eiginleikar eru miklu betur til þess fallnir að hafa mann með sér, einhvern sem getur verið á „öxl aftasta varnarmanns“ eins og það er kallað og gerir Balotelli það kleift að poppa upp í kringum sig þar sem hann getur valdið skaða.“

Hér eru önnur ummæli sem ég samdi: „BR er nautheimskur að reyna þetta Balotelli drasl djöfull er ég pirraður á þessu!!!!!!“

Segið þið mér: hvor ummælin mynduð þið birta?


Staða liðsins á þessum tímapunkti

Í dag er 26. október. Liverpool er eftir 9 umferðir með 14 stig; þremur á eftir Man City í 3. sætinu, jafnir Arsenal og á undan Man Utd, Tottenham og Everton í deildinni. Fyrir utan Chelsea sem eru að stinga þessa deild af er liðið enn í fullum séns á 2. sætinu og hefur ekki byrjað svona vel nema tvisvar síðasta áratuginn (2009 og 2013). Ef það er öll lægðin án Suarez og Sturridge þá er ég bara nokkuð sáttur við það. Þetta tímabil er allavega bráðlifandi enn, þrátt fyrir slæma spilamennsku lengst af.

Í Meistaradeildinni hefur liðið tapað tveimur af þremur leikjum sínum, og tapar eflaust þeim þriðja í röð á Spáni eftir 9 daga, en riðillinn hefur engu að síður spilast þannig að við erum í hörkugóðum séns á að komast þar upp líka. Real Madríd er eitt besta knattspyrnulið í heimi og hefur skólað bæði okkar menn og Barcelona í þessari viku. Þeir vinna þennan riðil örugglega en ef okkar menn klára sína tvo lokaleiki gegn Ludogorets í Búlgaríu og Basel á Anfield í lokaumferðinni fara þeir áfram. Ég hefði þegið þær líkur áður en dregið var í riðla.

Nú svo er það deildarbikarinn. Liðið er þar enn með, ólíkt sumum stórliðum, og á leik á Anfield á þriðjudaginn kemur.

Sem sagt: barátta á öllum vígstöðvum og ekkert úr leik enn (nema kannski deildartitillinn). Ég hef enn fulla trú á þessu liði og ég treysti Rodgers til að finna lausnir á vandamálunum, fyrr heldur en síðar.

Við erum jú einu sinni Liverpool. Það er ekki til skemmtilegra lið að halda með!

Bva7Fh-CYAAjRzn

YNWA

78 Comments

  1. Einstaklega góður pistill verð ég að segja. Eftir síðasta tímabil erum við stuðningsmenn eins og ofdekraðir krakkar og búumst við sama blússandi sóknarleik og í fyrra þegar tveir aðalleikendurnir í þeim þætti eru ekki með. Auk þess hefur Coutinho byrjað tímabilið illa og þá er það Sterling sem helst hefur haldið uppteknum hætti en hann er nú bara einn (nánast hálfur því hann er svo lítill) maður.
    Það er erfiður leikur um næstu helgi gegn Newcastle sem hafa unnið tvo leiki í röð og eru komnir uppúr fallsæti. Ef sá leikur tapast ekki þá eykst vonandi sjálfstraustið hjá mönnum. Það er allt opið ennþá.

  2. Flott grein eins og venjan er hérna á kop.is
    Sem stuðningsmaður er ég stoltur af þessum vettvangi, ég les nær allar greinar, fylgist með umræðunni þegar ég gef mér tíma en tek þó sjaldnast þátt sjálfur.
    Ég kann samt vel að meta þessa ritskoðun, það er ágætt að hafa ákveðin gæða-þröskuld á umræðuna og að við temjum okkur öll að hugsa og draga djúpt andann áður en við skrifum.

  3. Ég er 100% sammála þér. Ég hef reyndar velt því fyrir mér hvort þið mynduð vilja tengja ummælakerfið hér við Facebook því oft á tíðum þá grunar mig að þeir sem eru að skrifa hérna, oft nafnlaust, séu öfundsjúkir stuðningsmenn annarra liða sem óska þess að sitt lið ætti svona flotta síðu og vilja því eyðileggja þessa góðu síðu með trölli. Með því að tengja þetta við Facebook þá erum við að ræða hérna saman með fullt nafn á bakvið okkur og þá fer ekkert á milli mála ef stuðningsmenn annarra liða eru að koma hingað með skæting. Bara hugmynd.

    Takk aftur fyrir góða síðu.

  4. Takk fyir þetta kominn tími til að gera örlitlar breytingar hér áður en maður verður orðinn gráhærður við að lesa sum ummælin hér eftir leiki. Er Drullu ánægður með ykkur um að vera taka betur á þessu og eyða svona ummælum út. Þá kannski leggur maður í að koma hér inná síðuna strax eftir leiki en ekki á degi 3

  5. Maður er orðinn nokkuð vel sjóaður að skauta framhjá skrifum sem geta verið á frekar lágu plani.
    Nokkur nöfn sleppir maður aldrei með að lesa enda enda menn og konur sem leggja eitthvað til málana.
    Það eru óteljandi punktarnir sem vekja mann til umhugsunar um aðrar víddir en maður hafði sjálfur verið að pæla í og það finnst mér hið dásamlegasta við þessa síðu.
    Þakkir til síðuhaldara að stunda hreingerningarstarf, treysti þeim algerlega til þess að vera á kústinum og það gerir þessa síðu jafn góða og hún í raun er.
    Það er ekki ritskoðun, það er fínpússun.

    En mikið hlakka ég til þess að Sturrigde mætir á svæðið og opnar þetta aðeins fyrir okkur.
    Mér finnst liðið vera stöðugt að bæta sig þessa dagana og á von á því að nokkur góð úrslit fari að detta. Og auðvitað löngu kominn tími til.

    YNWA

  6. “Einnig: nefnið einn þjálfara í öllum heiminum sem hefði getað misst Suarez í sumar og svo Sturridge í 3+ mánaða meiðsli án þess að það sæist á sóknarleik liðsins. Nefnið einn. Ég mana ykkur.”

    Ronald Koeman . Liverpool er aðal styrktaraðili Southampton og hefur verið að gera býsna góða hluti þar.

    Ef ekki er nóg að nefna einn þá má nefna flesta þjálfara stóru liðanna svo ekki sé minnst á Móra. Hann kann sko að nota þá peninga sem hann fær.

  7. Takk fyrir pistilinn. Svo margt gott í þessum pistli:

    – staðan er ekki svo slæm þrátt fyrir að liðið sé að spila fremur illa, a.m.k. í samanburði við hvernig það spilaði í fyrra. Auðvitað getur allt snúist á versta veg í næstu leikjum eins og í bikarnum á þriðjudag eða í næsta CL leik. En liðið er þó í þeirri stöðu að spila þessa leiki og því ber að fagna.

    – skrifin á kop.is eru oftast málefnaleg og góð en stundum blöskrar manni yfir innihaldsleysinu og hvað menn leyfa sér. Vissi ekki að þið væruð að henda út ummælum svo greinilega er hlutfallið af svona skrifum hærra en ég gerði mér grein fyrir.

    – tek svo undir með þér hvað það væri fáránlegt að reka BR á þessum tímapunkti. Engin innistæða fyrir því að mínu mati eins og þú bendir svo faglega á.

    Takk fyrir að halda úti þessari síðu

  8. Það eru tveir gallar við Rodgers sem fara gífurlega í taugarnar á mér.

    1. Leikmannakaup. Við verðum að nýta peninginn okkar betur enda í samkeppni við lið sem hafa mun meira fjármagn. Hann hefur eytt miklum peningum í þessum fimm gluggum sem hann hefur fengið en einu kaupin sem hafa skilað einhverju af viti eru Sturridge og Coutinho. Önnur kaup eru sæmileg, skelfileg eða eiga eftir að koma í ljós, þ.e. þeir sem keyptir voru í sumar.

    2. Upplegg. Hann virðist setja alla leiki eins upp. Skiptir ekki máli hvort við séum að spila við Real Madrid á Bernabeu eða Neista frá Djúpavogi á Anfield.

  9. Southamton!

    Ef menn hafa fylgst með fleiri en einu tímabili í enska boltanum þá eru nokkur lið sem koma á óvart á haustin en ná ekki að fylgja þeim árangri fram á vor vegna lítils hóps. Það sama mun að öllum líkindum gerast hjá Southamton.

    Brendan Rogers hefur staðið sig vel á seinni hlutatímabilsins. Liverpool hefur breiðan og góðan hóp sem mun duga okkur í gott sæti í vor. Það er nánast öruggt að Liverpool verður fyrir ofan Southamton.

  10. Flottur pistill. Auðvitað má gagnrýna liðið en sú gagnrýni verður samt að vera málefnaleg. Að heimta afsögn BR og fleira í þeim dúr er algerlega glórulaust!

    Við erum öll búin að steingleymaþví í hvaða stöðu við raunverulega vorum í fyrir síðasta tímabil og velgengni síðasta tímabils hefur haft þær afleiðingar í för með sér að væntingarnar fyrir þetta tímabil eru óraunhæfar. Sem betur fer hafa öll liðin í deildinni fyrir utan Chelsea byrjað þetta mót ekkert sérstaklega, þannig að við erum mjög stutt frá 2. sætinu. Staða okkar í deildinni er því ótrúlegt en satt ekkert slæm þrátt fyrir dapra byrjun okkar á tímabilinu.

    Verð samt að segja eins og ér að ég hef verulegar áhyggjur af liðinu okkar, þó október sé ekki liðinn og einungis tæplega 1/4 af mótinu búið. Það vantar talsvert upp á sjálfstraustið hjá okkar mönnum og flæðið í spilinu er lítið og hraðinn ekki til staðar líkt og í fyrra. BR hefur ekki náð að leysa veikleikana í varnarleiknum og það er mjög lítið að gerast hjá okkur í sóknarleiknum.

    Úrslitin á móti Hull voru gríðarleg vonbrigði þó vissulega hafi síðustu 20 mínúturnar í leiknum verið bara nokkuð góðar og við óheppnir að stela þessu ekki í lokin. Við eigum mjög þungt prógramm framundan (Newcastle úti og Chelsea heima) og söknum Sturridge gríðarlega. Ég er ekki frá því að hann sé okkar mikilvægasti leikmaður í dag, þ.e. hann er sá leikmaður sem er í raun ómissandi þar sem við eigum ekkert alvöru backup fyrir hann eins og í aðrar stöður á vellinum.

  11. Kilroy was here (#9) segir:

    „Ronald Koeman . Liverpool er aðal styrktaraðili Southampton og hefur verið að gera býsna góða hluti þar.

    Ef ekki er nóg að nefna einn þá má nefna flesta þjálfara stóru liðanna svo ekki sé minnst á Móra. Hann kann sko að nota þá peninga sem hann fær.“

    Bíddu, ha? Missti Ronald Koeman Suarez og Sturridge í sumar án þess að á sæi á sóknarleik hans? Eða heldurðu að hann sé fullkominn þjálfari af því að hann fer vel af stað með nýtt lið? Eða skildirðu bara ekki það sem ég var að segja?

    Einhvern veginn efa ég að þú hefðir skrifað þessi ummæli nema í skjóli nafnleysis. Það er einmitt eitt af því sem við ætlum að taka til athugunar á næstu dögum, Herra Kilroy was here.

  12. Gríðarlegt áfall að missa Suarez enda menn undir það búnir. Við höfum hinsvegar ekki náð að fylla upp í brot af því skarði sem hann skyldi eftir sig. Ég fór a.m.k. fram á að stjórinn gæti krækt í mann sem kæmi með a.m.k. eitthvað inn í liðið. Það hefur hinsvegar ekki gerst þrátt fyrir að hafa eytt rúmum 100 milljónum punda í sumar.

    Við sáum Atletico missa Falcao í fyrrasumar en þeim tókst engu að síður að klára deildartitilinn á Spáni. Í sumar urðu svo þeir fyrir miklu meira áfalli heldur en við nokkurntímann enda misstu þeir Diego Costa, Thibaut Courtois og Felipe Luis. Þarna missa þeir þrjá algjöra lykilpósta á einu bretti og Costa var alveg jafn mikilvægur fyrir þá og Suarez var fyrir okkur.

    Aðrar eins umbreytingar áttu sér stað í Southampton en þeir skiptu um stjóra auk þess að missa Lallana, Lambert, Shaw, Chambers og Lovren.

    Þessi lið hafa samt náð að halda velli ólíkt Liverpool. Afhverju? Jú. Þau gerðu einfaldlega mun betri hluti en Liverpool á markaðnum í sumar. Fengu leikmenn sem voru klárir í byrjunarliðið frá fyrsta degi.

  13. #14 Ja, hérna hér, bara hjólað í manninn en ekki boltann. 🙂

    Ég hef fylgst með Koeman ansi lengi, með landsliði og félagsliðum. Ber mikla virðingu fyrir honum og er alls ekki viss um að Ísland hefði unnið Holland ef að hann hefði verið ráðinn landsliðsþjálfari Hollands. Þjálfarar skipta jú ansi miklu máli. Nóg eru gæði Hollenska landsliðsins. Koeman er einn athyglisverðasti þjálfarinn nú í enska boltanum, tók við ansi löskuðu liði. Ég hef aldrei sagt að hann sé fullkominn þjálfari, enda fullkominn ansi stórt orð.

    Móri finnst mér vera einn allra besti þjálfari heims, þó maður sé ekki alltaf sammála honum.

    Síðan get ég létt af þér öllum vafa og áhyggjum um að það skiptir engu máli hvort ég skrifi undir mínu eigin nafni eða Kilroy was here (World War II). Þetta eru mínar skoðanir.

    Að síðustu: ég hef ekkert minnst á Brendan Rodgers sem hefur gert marga góða hluti, þó maður sé ekki alltaf sammála honum.

    Vonandi skilur þú nú hvað ég er að segja.

  14. Mikið sem ég er sammála honum Kristjáni mínum.

    Alltof, alltof mikið af niðurdrepandi kommentum finnst mér gegnumgangandi. Ég hendi þeim inná twitter eða í einkaskilaboð til vina á Fésbók…en finnst alveg ferlegt að þau standi hér á síðunni ljóslífandi fyrir allt og alla. Í fyrra voru það United-vinir mínir og ættingjar sem að einokuðu neikvæða umræðu á internetinu og ég brosti oft góðlátlega að þeim og þeirra rifrildum.

    En svo er bara alltof algengt að sjá sömu frasana og eru hér.

    Það er alveg klárt mál að ég er ekki alls kostar ánægður með leikmennina, uppleggið eða stjórann á köflum. Mér finnst hins vegar algerlega galið að láta sér það detta í hug að skipta um stjóra. Hann er að smíða sitt lið sem átti frábært tímabil í fyrra og þarf að slípast saman.

    Hann hefur tekið þátt í endurskipulagningu ALLS unglingastarfs hjá klúbbnum, þangað eru bara komnir þjálfarar sem hann valdi og uppleggið er hápressufótboltinn sem hann ætlar sér að spila og við sáum glitta í gegn Hull um helgina.

    Ef við hefðum nú verið að keppa um Englandsmeistaratitilinn áður, eða unnið eitthvað annað en Carling Cup þá kannski væri ég ekki jafn undrandi og ég er á þessum umræðum þessar vikurnar. Ég segi enn og aftur að við erum fórnarlömb okkar eigin velgengni frá í fyrra og menn láta eins og þeir tugir marka sem vantar uppá þegar Suarez OG Sturridge eru ekki með bara komi að sjálfu sér, annars hlýtur bara eitthvað að vera að.

    Hjá stjóranum auðvitað.

    Þessi stjóraumræða í fótboltanum er það þreyttasta sem ég veit. Ég myndi vilja eiga tíkall fyrir hvert það skipti sem að Houllier, Rafa, Roy eða Kenny hafa fengið að heyra það hversu lítið vit þeir hafa á hlutunum eftir tapleiki, sum jafntefli og svei mér þá suma sigra.

    Þetta er auðvitað ekki bara um Liverpool, stjóri okkar ágætu andstæðinga sleppur þó ótrúlega vel við að vera með versta árangur þess liðs í tugi ára þrátt fyrir stærsta innkaupatékka enskrar knattspyrnusögu. Sumir hér meira að segja hafa viljað vísa í hann sem viskubrunn. Þá fellur minn kjálki niður í nára.

    Eins og Kristján segir þá er bara ekki nokkur ástæða til að halda að þetta eigi að vera einhver hallelújasamkoma. Það er hins vegar jafnþreytt að koma hér inn eftir hver einustu úrslit, og jafnvel aðra þræði, til að rífa niður sömu leikmennina og / eða þjálfarann. Balotelli og Mignolet virðast orðin svona bölvorð og LFC aðhlátursefni skilst mér. Bara endalaust þarf að ræða um það, og passa sig á að nota aldrei jákvætt orð um nokkurn mann eftir leiki sem maður vill vinna. Skítsama um hvers frammistöðu.

    Eins og Kristján kemur inná þá eru margir búnir að koma til máls við mig á síðustu vikum til að láta mig vita að kop.is sé ekki síða sem þeir líta inná lengur eins og áður sökum einhliða neikvæðrar umræðu, lesa ekki leikskýrslur eða komment eftir tapleiki. Það þykir mér mjög miður að heyra, ég virkilega vona að þessi umræða skili ögn meiri yfirvegun í umræður hér.

    Ég sá góðan LFC-mann setja inn flott ummæli á Facebook síðu í dag…þá ákvað hann að vera “regnhlíf frekar en brunaslanga” fyrir leikmennina í því niðurrifsregni sem fer í gang við hvert einasta tapað stig eða leik.

    Ég ætla að reyna að gera það líka og fylgja fordæmi Sigga Hjaltested….vona að fleiri verði með mér í því liði.

    Kannski á það að heita “Pollýanna FC”, en þá það!

  15. Frábært Kilroy.

    Eða er það þá nafnið þitt fyrst þú vilt skrifa undir nafni? Ef ekki þá væri nú frábært að fá hitt nafnið sem þú notar, svona dags daglega.

    Og mynd væri nú ekki til skaða.

  16. Flottur pistill Kristján, eins og alltaf.
    Ég er buinn að lesa hvern einasta staf sem hefur verið skrifaður af kop.is pennum, og hvert einasta comment sem ritað hefur verið af gestum.
    Mér finst ritskoðun persónulega bullshit, þó það sé leiðinlegt að sjá þessa dásamlegu síðu detta niðrá sandkassa plan, þá er alltaf skemmtilegast að hafa fullkomið frelsi. Rasismi og annar hatursáróður á að sjálfsögðu ekki rétt á sér hér né annarstaðar, eða spam fyrir auglýsingar.
    Þótt ég lesi mikið, er ég ekki mikið að commenta.
    Besta lausnin er held ég allgert tjáningarfrelsi, en allt undir nafni. Td. með facebook reikning eins og einhver bennti á hér að ofan. Hugsa að menn vandi aðeins valið á orðum ef að mannorðið er undir.
    Takk aftur allir fyrir kop.is
    besta blogg í heimi.
    Og nýtt podcast takk fyrir

  17. Eins og ég skil þennan fína pistil hefur þessi endalausa fordæming og stóryrði í garð stjórans og leikmanna ekkert með gagnrýni að gera, hvað þá innlegg í umræðuna sem er okkur mörgum svo mikils virði. Þegar að þú hellir fúkyrðum yfir börnin þín og konuna fyrir eitthvað sem þér mislíkar er það ekki gagnrýni heldur örvænting eða eitthvað þaðan af verra (kannski ertu bara heimskur).

    Amma gamla kallar þetta að “skemmta skrattanum”.

    Þessari síðu er haldið úti af miklu metnaði og hugsjón. Krafturinn í þessum félögum er slíkur að ég efast um að finna megi annað eins á byggðu bóli. Fyrsta flokks pistlar um margvísleg mál, upphitanir, leikskýrslur og podköst allt gert af fórnfýsi og ást í garð Liverpool. Þeir fara m.a.s. í pílagrímsferðir með okkur bolina! Þegar að stuðningsmaður LFC kemur hingað inn með fulla fötu af hlandi til að hella yfir félagið okkar og starfsmenn þess er hann um leið að míga yfir þetta hugsjónastarf. Ég er vitanlega ekki að ræða um gagnrýni, efasemdir eða fabúleringar um það sem betur má fara heldur glórulaus stóryrði um hvað stjórinn og leikmennirnir eru miklir vitleysingar. Hvað allir eru að gera miklu betri hluti og við ömurlegir.

    Þessi síða er meira virði en svo að menn eigi að taka út sadó/masó blætið sitt á þessum snillingum sem halda henni úti. Það getur varla verið spennandi verk að þurfa stöðugt að vakta ummælakerfið til að henda út ritsóðunum. Hvað þá þegar tilefnið er í raun ekki merkilegt hvað varðar gengi liðsins. Í fyrsta lagi er staðan alls ekki slæm þó að betri gæti verið og í annan stað mun liðið vaxa og vaxa enda BR líklega besti man manager í PL en slíkt tekur tíma.

    Virðum félagið og virðum kop.is. Ef við þurfum að blása skulum við gera það en reynum að tala af virðingu um félagið og leikmennina.

  18. #18 Maggi

    Ég heiti Steingrímur Hólmsteinsson og er búinn að vera Liverpool aðdáandi lengur en elstu menn muna 🙂 Einnig Bliki.

    Ég les kop.is nokkuð reglulega og það er einmitt þú sem ég er oftast sammála. Alveg ferlegt ef þig vantar í Podcast. Einnig er frábært að lesa greinar eftir sagnamanninn Babú. Kop.is er góð síða og saman myndið þið sem skrifið pistlana ansi gott teymi.

    Vona að þetta nægi og tímabært að beina umræðunni að liðinu sem við öll dáum.

    YNWA
    Kilroy was here

  19. Orð í tíma töluð og líklega þurfum við aðeins að taka okkur á og passa að umræðan hér endi ekki alveg eins og ummælakerfi á fréttasíðunum. Ritskoðun hefur aldrei verið sérstaklega alvarleg hérna og aðallega reynt að taka út troll og þau ummæli sem engu bæta við umræðuna, þvert á móti jafnvel.

    Varðandi nafnleysi þá tek ég aðeins upp hanskann fyrir Killroy og sé ég ekkert að því að koma fram undir nafnleynd frekar en eign nafni svo lengi sem innleggið er málefnalegt, enda ekki verið sett krafa á þetta hingað til þó krafa um slíkt sé til skoðunar.

    Killroy was here sem dæmi segir mér jafn mikið og Jón, Sveinn o.s.frv. Killroy setur a.m.k. netfang sem við pennarnir getum séð og hefur notað þetta nafn hér reglulega. Nr. 16 er líka ágætt dæmi um innlegg þar sem menn eru ósammála en það er alveg hægt að setja það fram á málefnalegan hátt, skapast oft skemmtilegar samræður út frá þannig samtali.

    Ég er ekkert sammála því að Koeman sé gott dæmi um stjóra sem gæti leyst það að missa SAS betur en Rodgers þrátt fyrir að hafa byrjað vel með Southamton. Hann tók við liði sem var með minna en enga pressu og afar litlar væntingar og þeir eru að byrja frábærlega. Það eru samt bara 9 umferðir búnar og Southamton var að missa Lambert í sókninni ekki Suarez og Sturridge. Ég er alls ekki að gera lítið úr árangri Southamton en bíðum aðeins með stóra dóm eftir 9 umferðir.

    Þjálfarar hinna liðanna í toppbaráttunni hafa ekki beint verið að leysa þetta vel heldur, Wenger er alls ekki gott dæmi a.m.k. og þó bætti hann lið Arsenal mikið í sumar, fékk sóknarmanninn sem við vildum helst fá í stað Suarez. LVG fékk óútfylltan tékka til að styrkja liðið og er núna með stigi minna en Moyes eftir sama leikjafjölda þrátt fyrir að vera laus við Meistaradeildina og búinn að spila helmingi léttara prógramm en Moyes fékk. Ofan á það er ekki hægt að líkja saman pressunni sem var á Moyes m.v. free ride-ið sem LVG hefur fengið.

    Framherjar Liverpool hafa skorað eitt mark það sem af er vetri og það var ekki einu sinni í deildinni, það er auðvitað mjög lélegt og langt undir væntingum, jafnvel án Suarez og Sturridge en ekki eitthvað sem réttlætir það skoða eigi stöðu Rodgers strax. Staða liðsins er ennþá sæmileg þrátt fyrir allt.

    En já reynum öll að ræða liðið okkar á hærra plani en áður. Telja upp á tíu og jafnvel tuttugu áður en menn skrifa hér inn og láta 140 stafa pirringinn frekar á sína persónulegu twitter/facebook síðu. Sjálfur væri ég búinn að henda mér héðan út ef öll vitleysan sem ég segi í hita leiksins yfir venjulegum leik færi hingað inn 🙂

  20. Ég vil benda mönnum, þá sérstaklega Tedda #19, á að fésbókarreikningur skiptir nákvæmlega engu máli. Menn geta vel skrifað undir nafnleynd þótt krafa sé gerð um slíkan reikning – því menn stofna sér þá annan reikning til þess að geta haldið áfram að ausa úr skítadreifara sálarteturs síns.

    Benda má á ýmsa vel valda fésbókarreikninga hjá “virkum í athugasemdum” því til stuðnings.

    Það er þörf á þessum pistli. Oft finnst manni bara eins og spjallarar séu eins og lítil börn, þau þurfa stundum að fá skammir þegar þau ganga of langt, og sama á við um spjallara. Ég hef fulla trú á að í kjölfar þessa pistils munu menn reyna að vanda umræðurnar á næstunni – í það minnsta þeir sem koma hingað reglulega og lesa alla pistla og öll komment, eins og undirritaður, þótt maður hafi litla þörf til að tjá sig þessa dagana.

    Það er alveg ástæða fyrir því að spjallborð á borð við liverpool.is eru dauð og tröllum gefin. Þar komast menn upp með að láta eins og fífl (for a lack of better word!) með sínum einnar-setningar-póstum, hver í pissukeppni við alla hina um hversu ómálefnanlegir þeir geta verið.

    Kop.is er ekki hefðbundin spjallsíða. Hún er bloggsíða í eigu … tja, eigendanna, sem ég er ekki alveg með á hreinu hverjir eru! Þeim er frjálst að hafa ritskoðun eins og þeir vilja, og þegar spjallarar fara í vörn út af því, þá er það bara þeirra vandamál.

    Ég segi fyrir mitt leyti að mér þætti miður ef nafnleynd yrði afnumin hér, því þetta er mitt “annað-sjálf” sem ég hef lengi notað á alnetinu, og hef aldrei kært mig um að aðrir viti frekari deili á mér. Það er málefnið sem skiptir máli, og hvernig gagnrýnin er sett fram, en ekki hverra manna ritari er. Eða það er í það minnsta mín skoðun.

    með vinsemd og virðingu
    Homer
    mitt eigið sjálf 🙂

  21. Heyr, heyr! Víða keppast menn um að lofsama Arsenal og þeirra flottu kaup í Sanchez og Wellbeck. Þeir eru með jafnmörg stig og við í deildinni,,,

    Þetta er rétt nýbyrjað og við erum með í öllum keppnum. Þeir sem vilja Rodgers burt ættu að auka við lyfjagjöfina.

    YNWA

  22. Sæll Steingrímur Hólmsteinsson.

    Við Babú vinur minn erum ósammála, mér finnst miklu skemmtilegra að tala við hann Steingrím en hann Killroy. Alveg eins og mér finnst Egill Einarsson miklu skemmtilegri en Gillz svona sem dæmi.

    Frábært að heyra það að hugsanir okkar eru ekki bara okkar hugsanir. Yfirveguð umræða, sleggjulaus er það langskemmtilegasta sem er til og alveg þess virði að berjast fyrir.

  23. Þess má til gamans geta að Southampton voru á sömu siglingu í fyrra, í þriðja sæti eftir 11 umferðir og spilandi hörkubolta.

    Þannig að þetta er ekki endilega bara Koeman, kúltúrinn þarna virðist bara vera orðinn frekar skemmtilegur.

  24. Amen takk fyrir þessi orð kristján.. Ég kem marg oft inn á kop.is til að lesa og skoða en ég er alveg hættur að commenta eða jafnvel lesa commentin útaf fólki sem skrifar án þess að hugsa vel um hvað það er að segja/skrifa og þar af leiðandi kemur oft skítur frekar er umræða frá þeim og maður verður oft bara reiður við að lesa sumt hér.. Ég á nokkra vini sem tala með rassgatinu og drulla yfir balotelli og segja að allt væri betra með suarez hjá okkur en hann væri nú ekki búinn að gera margt fyrir okkur, en ég reyni að benda þeim á af BR er alltaf búinn að tala um 5 ára plan og hann er bara búinn með 2 ár.. Og flest kaupinn hans eru sennileg hugsuð fyrir næstu 1-2 árinn þar sem ég er nokkuð viss um að þegar kaupinn hans eru búinn að læra inn á hvorn annan þá mun þetta lið okkar vera nánast ósigrandi því trúi ég.. En og aftur takk fyrir þessa mögnuðu síðu og elsku vinir og vandamenn. Munum að styðja liðið sama hvernig fer WIN,LOSE or DRAW im RED till i DIE…. YNWA

  25. Varðandi nafnleysis umræðuna, þá mæli ég með því að lesendur hendi sér inn á gravatar.com, setji þar inn góða mynd af sér og tengi við tölvupóstfangið sem er gefið upp þegar er kommentað hér inni.

    Persónulega myndi ég gera kröfu um að lesendur gefi upp annað hvort nafn eða mynd, en ég ræð auðvitað engu hér.

  26. Kop.is er ekki hefðbundin spjallsíða. Hún er bloggsíða í eigu … tja, eigendanna, sem ég er ekki alveg með á hreinu hverjir eru! Þeim er frjálst að hafa ritskoðun eins og þeir vilja, og þegar spjallarar fara í vörn út af því, þá er það bara þeirra vandamál.

    Nákvæmlega Homer og þetta var ein af ástæðunum að ég hætti með öllu að skoða spjallboðið eftir að ég fór að lesa kop.is (áður en ég gerðist penni). Fullkomlega skiljanlegt að einhverjir gagnrýni ritskoðun og haldi að með því að taka til á síðunni sé verið að gera hérna einhverja halelúja samkomu en þeir sem hafa verið hér lengur en mánuð vita að svoleiðis er þetta ekki.

    Reglur síðunnar eru annars auðskiljanlegar og sérstaklega punktur 8 sem helst er verið að hamra á hér í þessum þræði.

    8: Vandið ykkur
    Þetta síðasta atriði er ekki regla heldur frekar ábending. Að baki þessari síðu standa margir sem leggja á sig mikla vinnu til að halda henni úti og framleiða gæðaefni. Í ummælaþráðunum eru einnig margir lesendur sem leggja sig fram um að skrifa innihaldsrík og skemmtileg innlegg í umræðurnar hverju sinni. Ef menn hafa ekkert meira til málanna að leggja en „þessi leikmaður er ömurlegur“, eða „þessi dómari er bara fífl“, eða „glataður leikur“, er kannski betra fyrir viðkomandi að sleppa því að skrifa ummæli og láta sér nægja að lesa síðuna.

    Eigendur síðunnar eru síðan þeir sem stofnuðu hana, Kristján Atli og Einar Örn. Við hjálpumst hinsvegar allir að við að vakta umræðuna og herðum okkur væntanlega í kjölfar þessa pistils.

  27. Mín skoðun er sú að með markmanni sem tekur stjórn á vörninni og alvöru djúpum miðjumanni lagist varnarvandamálið.

    Ekki það að Gerrard var frábær í fyrra, en í ár er hann eins og gefur að skilja ári eldri og með hans meiðslasögu er ekki gefið að hann geti spilað hvern leik 100% sérstaklega eftir að spila á heimsmeistaramóti fyrir Woy “égveitekkihvaðégeraðgera” Hodgson í sumar.

    Mignolet er einfaldlega númeri og lítill fyrir klúbb eins og Liverpool. Hann hefur tekið litlum framförum síðan hann kom og ég sé það ekki breytast – allavega ríkir sama samskiptaleysi í vörninni sama hvaða menn standa fyrir framan hann.

    Hvað sóknina varðar þá er okkar sóknartríó frá því í fyrra (SSS): Suarez, Sturridge og Sterling orðið að: Sterling. Fyrir utan það að Coutinho var stór hluti af sóknarleiknum í fyrra en í ár virðist hann vera inn og út úr liðinu. Menn hljóta að geta sagt sér það sjálfir að auðvitað tekur tíma að slípa nýja menn í nýjar stöður.

  28. Ég bara skil ekki af hverju menn meiga ekki hafa aðrar skoðanir en síðustjórar. Hef aldrei skilið þá sem setja upp kommentakerfi og þurka síðan út það sem lagt er fram í umræðuna af öðrum en stjórnendunum sjálfum. Til hvers að vera með kommentakerfið? Þið getið bara sagt að þetta eða hitt, sé ykkar skoðun, punktur og basta,(gætuð líka sveiflað höndum og sagt “svisssjsss, svissjss” og bætt við að þetta sé ríkisskoðun.) En án gríns; af hverju haldið þið að menn séu svona orðljótir? Haldiði að það sé vegna þess að Balotelli sé að skora úr opnum færum? Að Brendan sé að standa sig rosalega vel? Auðvitað eru menn fúlir yfir gengi liðsins, ég er til að mynda alveg drullufúll og hef látið ýmislegt flakka um liðið og frammistöðu þess, þó ekki í kommentakerfinu hér, að ég held, en það bara má ekki þurrka út komment sem þið eruð ekki ánægðir með, sérstaklega með tilliti til þess að megnið af gagnrýninni sem fram hefur komið, á alveg rétt á sér og menn eru að segja sínar persónulegu skoðanir, ( sum kommentin segja þó kannski meira um þá sem skrifa þau.)

  29. Kristján E. (#31) – Ég er eiginlega bara alveg orðlaus. Ef ég gæti öskrað á þig í gegnum netið myndi ég gera það.

    Í pistlinum hér efst í þessari færslu, þú veist pistlinum sem við erum að ræða núna, skrifaði ég þetta:

    SÉRSTÖK ATHUGASEMD: Af því að það er alltaf, alltaf, alltaf misskilið, þá skal það tekið fram að ég er ekki að banna mönnum að gagnrýna. Ef þið lesið leikskýrslur okkar fyrir síðustu leiki sjáið þið að við erum að gagnrýna helling sjálfir og fólk er að gagnrýna á vitrænan hátt í ummælunum. Ég er ekki að banna gagnrýni. Ég er hins vegar að banna illa úthugsuð, órökstudd ummæli sem bæta engu við umræðuna.“

    Hvernig væri að þú læsir pistilinn áður en þú tjáir þig um hann?

    Reynum þetta einu sinni enn:

    FÓLK MÁ GAGNRÝNA

    FÓLK MÁ VERA ÓSAMMÁLA

    FÓLK MÁ EKKI VERA ÓMÁLEFNALEGT

    Skilurðu?

  30. I alvorunni???? Afhverju voru min komment tekin ut???? Er það utaf eg skrifað Brendan” [ritskoðað] Rodgers eða Brendan [ritskoðað] Rodgers????

    Þetta er nu eiginlega orðið grafalvarlegrt mal þessi ritskoðun, greinilegt að folk sem kommentar her a að vera sammala Kristjan Atla, Babu eða Magga.

    Svar (Kristján Atli): Í reglum Kop.is segir:

    2. Persónuníð (Ad hominem): Ekki persónugera eða grípa til uppnefna.

    5. Troll og pirringur: Þetta á sérstaklega við um stuðningsmenn annarra liða.

    Það mun einfaldlega aldrei líðast að Arsenal-stuðningsmaður komi hér inn og kalli knattspyrnustjóra Liverpool uppnefnum. Ef þú lítur á það sem þöggun þá er það algjörlega þitt vandamál. Vertu úti.

  31. Homer J. Simpson (#23) segir:

    „Ég segi fyrir mitt leyti að mér þætti miður ef nafnleynd yrði afnumin hér, því þetta er mitt „annað-sjálf“ sem ég hef lengi notað á alnetinu, og hef aldrei kært mig um að aðrir viti frekari deili á mér. Það er málefnið sem skiptir máli, og hvernig gagnrýnin er sett fram, en ekki hverra manna ritari er. Eða það er í það minnsta mín skoðun.“

    Þetta eru góð rök hjá þér, Homer. Við tökum þau til greina og höfum gert hingað til. Ég viðurkenni að í þessum málum er ég á báðum áttum:

    Annars vegar finnst mér sjálfsagt að menn skrifi undir réttu nafni og taki persónulega ábyrgð á skrifum sínum, jafnvel þótt einungis sé um að ræða fótboltaspjall á netinu.

    Hins vegar virði ég algjörlega rétt fólks til að koma fram eins og það vill á netinu og skil fyllilega þá sem eru uggandi yfir því að dreifa sínu rétta nafni eins og sandkornum um netið, tengt við hin og þessi ummæli. Ég hef sjálfur skrifað undir nafnleysi á netinu, fyrir talsvert löngu, og skil þá ákvörðun fyllilega.

    Ég set ekkert út á fastagesti sem skrifa undir dulnefni en auðkenna sig með passamynd frá Gravatar.com, virku netfangi og nota alltaf sama dulnefnið. Slíka menn þekkir maður af dulnefninu alveg jafnt og ef þeir hétu Jósep eða Jakob.

    Við höfum hingað til reynt að fara meðalveginn í þessu – leyfa mönnum að velja sér nafn en krefjast virks netfangs – og kannski er það leiðin áfram. Við þurfum a.m.k. að pæla aðeins meira í þessu.

  32. Get alveg skilið það sem Homer er að segja.

    Enda held ég að hann viti alveg mörkin, eins og Kilroy. Vandinn er nú samt sá að of margir bara kalla sig einhverju nafni og ausa svo úr skálum reiði sinnar, sem ég held þeir gerðu ekki eins undir réttu nafni eða mynd.

    Varðandi það að þurfa að vera sammála einhverjum þá er það auðvitað galið, við félagarnir erum svo langt frá því að vera sammála um allt og það vita allir sem hlusta á podcöst hér. Bara algerlega fráleitt.

    Hins vegar eru það reglurnar sem eiga að gilda, sem og bara almenn háttvísi í umræðum. Menn geta verið reiðir og argir án þess að missa á sér stjórn…eða þá bara finna sér annan farveg, það er fullt til á Internetinu fyrir svoleiðis!

  33. Það er enginn fullkominn en akkilesarhæll stjórans felst klárlega í leikmannakaupum. Hann hefur fengið fimm leikmannglugga síðan hann tók við liðinu og janúarglugginn 2013 er sá eini sem hefur staðið undir væntingum.

    Glugginn í sumar er sá stærsti í sögu félagsins og erfitt að leggja dóm á hann þegar aðeins 1/4 er búinn af leiktíðinni. Það var auðvitað alltaf ómögulegt að fylla upp í skarð Suarez. Var samt ekki hægt að fá stöðugri og áreiðanlegri mann en Balotelli til að fylla það skarð?

    Ótrúlegt að hafa misst mann með endalausan baráttu- og sigurvilja. Fengið svo mann sem hefur engan baráttu- eða sigurvilja.

  34. Sælir félagar

    Ég er algerlega sáttur við pólitík síðuhaldara og virði ritskoðun þeirra að fullu. Þeir verða að meta hvað þeim finnst við hæfi og hvað ekki. Þeir setja reglurnar og það er okkar að fara eftir þeim. Þeir sem ekki vilja þola það verða einfaldlega að tjá sig annars staðar.

    Ég hefi nokkrum sinnum misst mig í kommentum eftir erfið töp og mundi fullkomlega fyrirgefa síðuhöldurum að henda einhverju af því út sem ég skrifa í dýpstu fýlunni. Þó reynir maður þrátt fyrir allt og allt að hafa einhverja vitræna hugmynd á bakvið það sem maður skrifar. Það gengur oftast vona ég.

    Það er þakkarvert að halda úti síðu sem á að vera fyrir málefnalega umræðu um liðið okkar fyrst og fremst. Það er þakkarvert að fá að taka þátt í þeirri umræðu þó stundum renni manni í skap yfir frammistöðu liðsins sem maður veit að getur svo miklu miklu meira en þeim hefur tekist að sýna (nánast) fram að þessu. Að öskra á brottrekstur þjálfarans er bull eins og ég hefi oft sagt.

    Hitt er annað að margt gagnrýnivert hefir verið í gangi. Það hafa margir bent á og margir rætt. Bæði pistlahöfundar og fólk sem er virkt í kommentum á þessari síðu. Þar hefur mér fundist að allir fái til þess fullt frelsi – hvort sem þeir eru sammála þeim sem skrifa þessar síður eða ekki. Þeir sem annað segja eru bara ekki alveg í lagi, finnst mér. Hatursfullar athugasemdir og andfélagslegt bull sem engu bætir við umræðuna má missa sín. Hver sem skrifar það, ég eða aðrir.

    Það er nú þannig

    YNWA

  35. Ef litið er til þess að varnarleikur Liverpool hefur verið slakur það sem af er tímabili og að sóknarleikur okkar hefur verið það líka, þá er kraftaverki næst að við séum í 7. sæti (á markamun gagnvart liðunu í 5 og 6 sæti).

    Fyrir ofan okkur eru lið Southampton sem var spútnik lið í fyrra en gaf eftir þegar leið á og hefur komið mikið á óvar í ár, West Ham sem er að toppa ó október, en mun klárlega dragast neðar og Swansea sem hefur verið að performera yfir getu. Þá er ekki slæmt að mU og Tott eru bæði fyrir neðan okkur.

    Af síðustu tveimur leikjum að dæma er Coutinho að komast aftur á skrið eftir rólega byrjun. Emre Can að komast á skrið og svo styttist vonandi í Sturridge.

    Það er ljóst að Brendan Rodgers er ekki fullkominn og má bæta verklag við þjálfun markmanna og varnar (tölurnar tala sínu máli). En jafnframt hefur hann náð upp flottu spili í þetta lið á köflum. Við eigum eftir að fá að njóta þess aftur – í vetur!

    Að síðustu þakkir til ritstjóra – og pennanna á Kop.is. Snillingar upp til hópa að halda úti þessari síðu þar sem almenningur (með smávægilegri ritskoðun á köflum) getur haldið úti umræðum um lið sem allir elska – nema þeir sem öfunda okkur af þessu sigursælasta liði enskrar knattspyrnu.

  36. fékk mér reikning á gravatar.com og setti inn mynd…
    Allt upp á borði

  37. Menn þurfa ekki að horfa lengra en á kommentakerfi DV til að sjá að fávitar hætta ekki að vera fávitar þó þeir skrifi undir nafni. Að afnema nafnleynd er algjörlega tilgangslaus aðgerð og gerir ósköp takmarkað gagn og líklega meira ógagn, þar sem málefnalegir kommentarar, sem vilja einhverra hluta vegna halda nafni sínu fyrir sig, munu hugsanlega draga úr skrifum. Ef menn skrifa tóma drullu hér inn, eru menn einhverju bættari að vita nákvæmlega hver viðkomandi er?

  38. Liverpool er ástríða og kop.is er mjög málefnaleg síða þess vegna finnst mér gaman að koma hérna reglulega við og fá smá útrás.

    Ef ég segi mína skoðun á liðinu þá finnst mér alltaf vera sama vandamálið og það er að fá góða leikmenn til liðsins. Suarez var áhætta þegar hann kom og þess vegna litu stóru liðin framhjá honum og það virðist oftast vera hlutskipti Liverpool að taka áhættur í leikmannakaupum.

    Við höfum átt nokkur tímabil við og við þar sem tekist hefur að pússla saman góðu liði. Í fyrra var Suarez einfaldlega einn af bestu leikmönnum í heimi og það skilaði sér helvíti langt. Við vorum með Mascherano, Alonso og Torres saman í góðum fíling áður en þeir fóru allir í “stærri lið”. Húlli kallinn átti líka gott run með Hyypia, Gerrard og Co.

    Ég held að stækkun leikvallarins, eitthvað sem er búið að bíða í að manni finnst forever, sé meira virði heldur en að kaupa næsta Suarez. Liverpool þarf að verða stærra félag til að standast væntingar stuðningsmanna.

    Ég ólst upp við gullaldarár Liverpool en peningar hafa breytt fótboltanum og Liverpool hefur setið svolítið á hakanum. Það er alltaf eytt helling í leikmannakaup en það segir svo lítið. Það þarf að kaupa alvöru köggla til að ná árangri og þeir eru á alvöru kaupi. Þessir kögglar vilja ekki koma til félagsins og það er enginn að segja mér að faxtækið í Liverpool sé bilað. Við bjóðum og bjóðum en menn mæta ekki á svæðið.

    En ég efast ekki um að Brendan er frábær þjálfari og ég segi það bara vegna þess að maðurinn frá fyrsta degi blés til sóknar og það er maður að mínu skapi.

  39. Mér finnst nú ótrúlega lélegt af stjórnendum síðunnar að taka út skoðun mína um að Liverpool hefur tvo lélegstu sóknamenn deildarinnar, meiga lesendur ekki lengur hafa aðra skoðun en þið sem eigið þessa bloggsíðu. Til hvers eru þið að leyfa lesendum að skrifa athugasemdir ef þið þurkið síðan það út sem þið eru ekki sammála um. Ég er rúmlega fimmtugur og hef séð flesta ef ekki alla Liverpool leiki í rúm 30 ár svo ég tel mig hafa þokkalega vit á fótbolta en það er komið hálfpartin STASI stíll á þessa síðu ef það á að fara að þurka út athugasemdir sem ykkur líkar ekki.

  40. Voðalega eru margir tregir hérna. Síðuhaldarar eru ekkert að banna aðrar skoðanir. Það er nú bara þannig að eftir slæma tap leiki er eins og meðal aldur spjallverja lækki um 20ár og málefnaleg innleggjum i takt við það. Ég fyrir mitt leiti nenni eiginlega ekki að skoða kommenta kerfið eftir lélega leiki vegna þessa og mér finnst þetta hafa versnað undanfarin 2 til 3 ár.

    Er sammála nokkrum hérna að ég myndi hætta að skrifa hérna á þessa frábæru síðu ef nafnleysi yrði afnumið.

  41. Magnús Thor (#42) – hér eru ummælin þín sem við hentum út (og ég fjallaði um í pistlinum):

    „Erum með tvo lélegustu sóknarmenn deildarinnar, Barotelli og Lambert.“

    Finnst þér þetta vel úthugsað, rökrétt og vel framsett hjá þér? Ef þér finnst það og skilur ekki af hverju við hentum þessu út þá er það þitt vandamál, ekki mitt.

    Ég myndi sjálfur segja að Balotelli og Lambert hafi verið skelfilega lélegir það sem af er tímabili. Ég myndi bara orða það betur en þú gerðir.

    Vandaðu þig og þá fær skoðun þín að standa, hver sem hún er. Þetta er ekki flókið.

  42. Magnús Thor (#42):

    Hér koma síðustu ummæli þín:

    Erum með tvo lélegustu sóknarmenn deildarinnar, Barotelli og Lambert

    Þetta er lélegasta Liverpool lið sem ég hef sé í ein 40 ár en ég er BR maður þrátt fyrir ömurleg sumarkaup og þessi hrikalegu mistök að kaupa Balotelli. BR verður bara að játa þessi mistök og láta hann fara í janúar.

    Balotelli er lélegasti leikmaður sem spilað hefur fyrir Liverpool, punktur! Ótrúlegt að hann skuli hafa verið keyptur og ég vil bara losna við hannn strax í jan. en hann er bara svo lélegur að engin vill kaupa hann. – Liverpool er ekki félag sem vill hafa svona leikmann, það er greinilega eitthvað að honum andlega, hann er latur, fúll og bara mjög slakur leikmaður.

    Balotelli er að verða eins og Torres var orðin, þetta er orðið vandræðilegt og aðhlátursefni og maður er farinn að verkenna honum.

    Mario Balotelli er einn lélagsti leikmaður í sögu Liverpool – Burtu með hann sem fyrst, vil ekki sjá svo leikmann í Liverpool, áhugalaus, fúll og fagnar ekki mörkum, engin liðsmaður – Veit ekki hvernig samningi hann er á en ég held að ekkert lið vilji fá svona leikmann. Skildi aldrei af hverju þessi leikmaður var keyptur.

    Hvering verður þetta eiginlega á miðvikudaginn, lélegasta Liverpoollið sem ég hef sé gegn besta liði Evrópu í dag.

    Guð minn góður hvað Balotelli er lélegur og hræðilegur karekter, hann fagnaði ekki einu sinni – Gerrard stendur alltaf upp úr og er besti maður liðsins, þrátt fyrir að vera elstur

    Balotelli er lélegasti leikmaður sem hefur spilað fyrir Liverpool

    Hvað segirðu, er Balotelli lélegasti leikmaður í sögu Liverpool? Uppáhalds ummælin mín voru samt:

    Sfinnur 72. Christian Poulsen, Robbie Kean og Paul Konchesky sýndu allavega einhvern áhuga, spiluðu fyrir liðið og nenntu að hreyfa sig eitthvað. Balotelli er ekki að nenna þessu, sýnir engan áhuga er með hangandi haus allan leikinn, spilar bara fyrir sjálfan sig og svo er hann ekki að skora mörk. Svona leikmann vil ég bara ekki sjá í Liverpool. Það voru mikill mistök að kaupa þennan leikamann og BR er farinn að sjá það

    Poulsen og Konchesky lögðu sig s.s. meira fram í búningi Liverpool en Balotelli? Og þetta Liverpool lið leiðinlegra og lélegra en liðið undir Hodgson þegar við vorum í næst neðsta sæti eftir sama leikjafjölda? Þarna kom það, nú hef ég lesið allt.

    Ofangreind ummæli eru öll skrifuð á einni viku og fengu öll að standa að undanskildu einu. Einni viku! Ég held að allir séu búnir að ná þessu áliti þínu á Balotelli. En finnst þér þessi ummæli þín (aftur, 7 dögum) vera bara allt í lagi og bæta við góða síðu og stuðla að vandaðri umræðu (þetta er spurning í fullri hreinskilni)?

    Fyrir utan það að þau bæta ENGU við ummræðuna þá segja reglurnar:

    6: Síendurtekin ummæli

    Það er ekki í lagi að síendurtaka sömu ummælin mörgum sinnum í sama ummælaþræði. Fólki er sjálfsagt að koma sinni skoðun á framfæri en það nennir enginn að lesa sama hlutinn mörgum sinnum. Misnotkun á fjölda ummæla í þræði kann að leiða til tímabundins banns viðkomandi aðila.

    8: Vandið ykkur

    Þetta síðasta atriði er ekki regla heldur frekar ábending. Að baki þessari síðu standa margir sem leggja á sig mikla vinnu til að halda henni úti og framleiða gæðaefni. Í ummælaþráðunum eru einnig margir lesendur sem leggja sig fram um að skrifa innihaldsrík og skemmtileg innlegg í umræðurnar hverju sinni. Ef menn hafa ekkert meira til málanna að leggja en „þessi leikmaður er ömurlegur“, eða „þessi dómari er bara fífl“, eða „glataður leikur“, er kannski betra fyrir viðkomandi að sleppa því að skrifa ummæli og láta sér nægja að lesa síðuna.

  43. Sæl Liverpool aðdáendur. Smá samanburður frá því í fyrra:

    2013/2014 vorum við með 20 stig eftir 9 umferðir í 3 sæti 2 stigum frá Arsenal sem voru á toppnum. Í dag erum við með 14 í 7 sæti 9 stig frá toppnum. Í fyrra voru City með í 7 sæti með 16 stig og í vandræðum. utd voru með 14 stig í fyrra eftir 9 umferðir.

    Ef við berum saman úrslitin frá því í fyrra við árið í ár við sömu lið (Cardiff/QPR) þá fengum við 18 stig úr þeim enn höfum 14 í dag.

    Af biturri reynslu hef ég tamið mér að vera ekki að búast við hinu besta af okkar mönnum. Ég reiknaði aldrei með okkur í baráttunni um 1 sætið. Fullt af nýjum leikmönnum, við vorum með SAS sem spiluðu eins og guðir í fyrra og þeir koma ekki allir aftur saman. Við vorum að fara í CL og City með alla sýna leikmenn lentu í vandræðum þeirra fyrsta ár í CL. Ég vonaðist eftir því að halda okkur í topp 4 og þrátt fyrir slæma spilamennsku þá eigum við ennþá sjéns á top 4, eigum sjéns á 2 sæti í CL og erum ennþá með í báðum bikarkeppnum.

    Svo þið sem eruð í svartnættinu, það er ennþá von um betri tíð í haga þrátt fyrir allt.

    YNWA

  44. Ætlaði að skrifa hér ádrepu við leiksskýrsluna eftir síðasta leik en mannvitsbrekkurnar sem héldu því fram að þetta væri lélegasta lið Liverpool frá upphafi og annar hver leikmaður liðsins okkar væri lélegasta mannvera í sögu mannkyns, Balotelli væri Steingrímur Njálsson 21. aldarinnar og ég veit ekki hvað og hvað bara kláruðu mig. Sumir sem hafa verið að skrifa hérna á kop.is undanfarið eru álíka miklar dramadrottningar og ofvirkar 10 ára stelpur á Justin Bieber tónleikum. á Maður nennir ekki að kommenta á eftir og rökræða við svona mikla snillinga.

    Annars þótti mér þetta ansi skemmtileg grein um ástandið á Liverpool og Brendan Rodgers þessa dagana. http://www.football365.com/profile365/9529976/Brendan-Rodgers-Radiohead-Or-The-Happy-Mondays/comments

    Maður var að vonast eftir OK Computer í ár en við virðumst hafa fengið King of Limbs í staðinn. Svo stirt og þunglamalegt hefur spilið hjá Liverpool verið undanfarið. Eða eins og einn kommentarinn við greinina skrifar ” Droning dysfunctional misery everywhere? Disinterested moaning frontman? Nothing of note achieved for a long time? Seems like we’re squarely in Radiohead territory here?” 🙂

    Maður hreinlega skilur ekki þessi kaup á Lambert ef honum er ekki treyst til að spila frammi með Balotelli á heimavelli gegn Hull. Hversvegna fær teknískur leikmaður eins og Markovic sem var algjörlega óþreyttur ekki séns á að sanna sig í síðasta leik gegn liði sem spilar með 5 manna vörn? Þurfum við þá ekki einmitt kantmenn sem þora að taka menn á? Er Markovic sem kostaði heilar 20m punda bara í lyftingarsalnum þessa dagana og verður sleppt helmössuðum lausum á ensku deildina einhvern tímann eftir jól? Hvað er plan Rodgers orðið með þennan rándýra tvítuga leikmann? Einn af efnilegustu leikmönnum heims eða ein af hræðilegustu kaupum Rodgers? Maður veit það ekki því hann fær ekkert að spila á meðan fyrirliðinn okkar Gerrard sem er orðinn 34 ára og augljóslega að missa lappirnar bráðum spilar hverja einustu 90 mín í hverjum einasta leik. Vill Rodgers að hann brenni endanlega út á þessu ári? Á sama tíma er maður eins og Henderson sem hleypur á við 3 menn í hverjum leik og skoraði og lagði upp í síðasta heimaleik gegn WBA settur á bekkinn. Hvar eru líka efnilegir menn eins og Suso? Hann hefði getað nýst Liverpool gegn Hull. Maður bara skilur ekki hvaða hugmyndafræði er í gangi á Anfield þessa dagana.

    Borini, Sakho, Markovic o.fl. eru 50m+ pund sem sitja bara á bekknum alla daga. Rodgers virðist ekki hafa hugmynd enn um sitt besta XI en samt prófar hann bara hluta af hópnum. Við höfum ekkert efni á að sólunda peningum jafn svakalega og við gerum ár eftir ár. Erum í það mörgum keppnum að við verðum að dreifa álaginu meira. Ég vil t.d. ekki sjá Sterling og Gerrard í leiknum gegn Swansea.

    Að segjast sjá batamerki á leik Liverpool og þetta sé í jákvæðri þróun þegar Hull kemur á Anfield og pakkar í 5 manna vörn, reyna ekkert að sækja, leyfir Liverpool að dúlla sér með boltann og halda auðveldlega 0-0 jafntefli. Nei þetta var sko algjör hörmung og er ég samt að reyna vera með jákvæðustu mönnum. Fyrirsjáanlegur leikur og bara pungleysi að reyna ekki einu sinni smá áhættur við að ná í mikilvæg 3 stig. Við bara VERÐUM að fara vinna þessa heimaleiki og rífa okkur frá þessum pakka í 4-9.sæti. Þá hættir enska pressan stanslaust að tuða um Balotelli daginn út og inn og álaginu léttir á Rodgers og hann fer að taka réttar ákvarðanir. Því hann er alls ekki að því þessa dagana.

  45. Sælir Kop-arar
    Ég les síðuna reglulega en skrifa sjaldan.
    Ég er sammála að það er of mikið af illa ígrunduðum athugasemdum við pistlana. Hins vegar finnst mér að í athugasemdum við upphitanir á meðan leik stendur eigi menn (konur eru líka menn) aðeins að fá að pústa…

    Eitt sem mig langar að nefna. Vissulega fór okkar besti maður og sá næst besti meiddist. Það er hins vegar ekki ástæðan fyrir lélegri pressu, lélegu sendingaflæði, engu hugmyndaflugi í sóknarleiknum ofl ofl.
    Ég tel að þeir leikmenn sem voru að draga vagninn í fyrra (td. Sterling, Henderson, Coutinho oft á tíðum) Verði að líta í eign barm.
    Vonandi nær stjórinn að blása lífi í okkar menn fljótlega…

    Annars er ég ánægður með ykkur á Kop.is
    YNWA

  46. Mikid er ég sammála pistlahöfundi. Madur er sjálfur nánast búinn ad gefast upp á thví ad skoda ummaelin hérna á kop.is, sérstaklega eftir slaema leiki. Endalaus neikvaedni í mörgum hérna inni og thad smitar frá sér thví midur.

  47. Góður pistill KAR. Ég skrifaði um það í upphitun fyrir Hull leikinn að ég léti líða alveg upp í þrjá daga áður en ég færi inn á síðuna til að lesa komment. Það voru ýkjur hjá mér, það líður oft lengri tími og það sem verra er, það eru margir sem hafa rætt við mig og gera slíkt hið sama og eru í rauninni alveg hættir að kíkja inn. Það finnst mér slæmt, mjög slæmt, því þessi síða er með ótrúlega marga frábæra penna sem eru reglulega að tjá sig í kommentakerfinu. Þetta eru það góðir pennar að þeir eiga skilið að sem flestir lesi þá.

    Ég hef verið á þeirri skoðun að til þess að kommenta eigir þú að nota Facebook prófíl. Ég er engu að síður alveg sammála Homer hér að ofan og Togga aðeins neðar, að nafnleysi getur verið fínt og ekki viljum við missa út hitt sjálfið hjá mönnum (oftast er það skemmtilegra en aðalsjálfið 🙂 ). En engu að síður, þá hefur einmitt verið komið inná það að Facebook prófíll gerir það ekkert að verkum að fífl hætti að verða fífl, síður en svo og margsannað. Það kemur heldur ekki í veg fyrir að menn geti kommentað í nafnleysi, marg sannað líka. Homer gæti sem sagt stofnað sér Facebook prófíl fyrir aukasjálfið. Það sem þetta gerir aftur á móti er að það verður aðeins erfiðara og meira mál fyrir menn að koma og trolla og einfaldara að banna þessi Tröll endanlega og þá þurfa menn að fara í feril með að stofna nýja prófíl og annað slíkt.

    Sem sagt, ég er ekkert á móti nafnleysi, en ég vil gera mönnum það aðeins erfiðara að trolla síðuna. Ég er pottþéttur á því að alvöru nafnleysismenn myndu ekki setja það neitt fyrir sig að þurfa að stofna eitt stykki prófíl til að nota.

    Mikið hrikalega væri ég til í að athugasemdakerfið myndi aftur detta inn í þann gæðapakka sem það hefur oftast verið í. Það er svo fjarri því í dag að það er bara ferlegt.

  48. Jæja þessi umræða er að verða hálf kjánaleg, Liverpool leikmenn eru ekki búnir að spila góðann bolta á þessu tímabili en það er ekkert nýtt þegar besti leikmaður liðsins fer og enginn tilbúinn leikmaður keyptur í staðinn nema kanski Balotelli. En eigendur Liverpool vilja ekki kaupa eithverja rándýra “tilbúna” leikmenn sem eru búnir að toppa, þeir kaupa unga efnilega leikmenn. En sú aðferð virkar ekki ef þeir selja svo leikmennina þegar þeir eru tilbúnir, það verður að vera jafnvægi á leikmanna hópnum þ.e.a.s blanda af tilbúnum og efnilegum leikmönnum. Kaupin á Lambert eru alveg úti hött þótt þau hafi nú ekki verið dýr þá er hann 32 ára miðlungs leikmaður. En flest önnur kaup í sumar geta reynst okkur vel í frammtíðinni. En Brendan Rodgers þarf af að fara að kaupa t.d. einn tilbúinn miðjumann sem fyrst

  49. Já nafni, það er ekki öll vitleysan eins. Auðvitað er fúlt ef fólk er ekki sammála manni þegar maður tellur sig hafa fundið hina einu réttu skoðun, en þá er bara að herða sig og reyna að sannfæra hina villuráfandi. Í rökræðum grípur maður ekki fyrir munn þeirra sem ekki eru sammála, reynir heldur að flytja mál sitt á þann vega að sá/sú, sem andstöðu sýnir, sannfærist um ágæti hinnar réttu skoðunnar. Það má hinsvegar vekja athygli á slæmum athugasemdum, ærumeiðandi, rakalausum og niðrandi og benda þeim erþannig skrifa á mistökin, og þá kæmi sér vel að afnema nafnleyndina, sumir eru gungur og gjarnir á að hreyta út úr sér ónotum í skjóli nafnleyndar, og telja sig jafnvel betri mann fyrir vikið. Burt með nafnleyndina, lifi tjáningarfrelsið!!

  50. Það er ekki langt síðan ég var að velta því fyrir mér hvaða sóknarmaður hentaði Liverpool liðinu mikið verr heldur en Balotelli, reyndar í pirringi fljótlega eftir leik en það er allt í lagi að vera á þeirri skoðun að hann sé versta sending sem komið hefur til Liverpool síðan Sean Dundee gekk til liðs við Liverpool. Eins er enginn að banna þá skoðun að vilja t.d. reka Brendan Rodgers frá félaginu þó fæstir séu sammála því. Kristján Atli tók þetta sem dæmi enda eru þau ummæli jafnan afar illa fram sett, stutt og enda með dágóðum slatta af upphópanamerkjum. Dæmi um þetta er að finna í þessum þræði og þetta ætti ekki að vera svo flókið.

    Nr. 48 Helgi I

    Hins vegar finnst mér að í athugasemdum við upphitanir á meðan leik stendur eigi menn (konur eru líka menn) aðeins að fá að pústa…

    Ekki við upphitanir en byrjunarliðsþráðurinn er aðeins frjálslegri enda aðeins lifandi meðan á leik stendur og því alltaf skrifað í hita leiksins. Þar inni mega menn samt alveg temja sér að telja upp á tíu áður en reiðilesturinn dynur á okkur enda upphrópanamerkja umræða aldrei skemmtileg.

  51. Flottur pistill eins og alltaf og afskaplega þörf umræða.

    Aldrei (að mér vitandi) hafa stjórnendur síðunnar þurft að eyða út athugasemd frá mér en ég verð að viðurkenna það fúslega að ég hef ekki lesið reglurnar. Þetta er afskaplega einfallt: Færðu rök fyrir máli þínu, vandaðu skrifin og engan dónaskap í garð klúbbsins, síðuhaldara eða lesendur síðunnar. Kallast þetta ekki ,,Almenn kurteysi?”.

    Fyrir mitt leiti er nafnleyndin ekkert mál. Að lesa comment sem að Homer, SSteinn, Babu, AEG og Guderian er mikil skemmtun og þarf maður ekki að tengja þá við manninn sem maður hittir á Spot yfir leiknum. Hinsvegar, ef þetta hjálpar síðuhöldurum að halda síðunni málefnanlegri og sómasamlegri þá er það gott og blessað.

    Eitt sem mig langar að nefna, í sambandi við það að eyða athugasemdum. Af hverju ættu síðuhaldarar sem leggja margra tíma vinnu á sig til þess að halda uppi SINNI síðu ekki að taka út athugasemd sem höfðar ekki til síðunnar og þess efnis sem er verið að ræða? Auðvitað hafa allir sínar skoðanir, en skoðun eins og ,,Mér finnst BR lélegur þjálfari og það ætti að reka hann!” eru einfaldlega hróp. Það er engin rökstuðningur af hverju viðkomandi hefur þetta álit. Það er það eina sem síðuhaldarar eru að leitast eftir, RÖKSTUÐNINGUR!

    Eru menn ekki farnir að dæma leikmenn liðsins aðeins og snemma? Eins og ég hef sagt áður (ca. 3 vikur síðan) þá bættust margir leikmenn við liðið okkar í sumar, til þess að auka breiddina og gæðin, og þurfa klárlega aðlögunartíma. Sá tími getur verið misjafn eftir leikmönnum.
    Fannst mönnum t.d Balotelli ekki sprækari og hreyfanlegri þegar að Lambert var kominn uppá topp með honum? Það form af spilamennsku kannast Mario við, líkt í Spurs-leiknum.

    Gengi liðsins hefur alls ekki verið nægilega gott og þá aðallega því stuðningsmennirinir eru ekki að mörkum rigna inn eins og á síðustu leiktíð. Er hægt að ætlast til að mörkin verði jafn mörg á þessari leiktíð og á þeirri seinustu? Suarez fór til Barcelona, Studge meiddist (tvisvar) og 1 til 3 nýjir leikmenn eru að reyna að halda sóknarleiknum uppi? Er þetta einfaldlega raunhæft? Það er ekki eins og Suarez væri búinn að henda í tvær þrennur til að byrja með, hann hefði ekki mátt spila. Svo einfallt er það.

    YNWA – In Rodgers we trust!

  52. Það er margt svo skrítið……

    Í dag situr Liverpool situr 7. sæti EPL með 14 stig .
    Liverpool hefur sæti í 16 liða úrslitum CL í sínum höndum. Er enn þátttakandi í deildarbikarnum og mun hefja þátttöku í enska bikarnum eftir áramót.

    Man Utd. er í 8. sæti EPL með 13 stig.
    Man Utd. er ekki í CL, er dottið útúr deildarbikarnum eftir stórtap gegn MK Dons og mun hefja þátttöku í enska bikarnum eftir áramót.

    Þrátt fyrir þessa staðreynd þá eru stuðningsmenn Liverpool brjálaðir yfir gengi og spilamennsku liðsins. Liðið missti einn besta framherja í heimi í sumar og liðið hefur verið Sturridge nánast allt tímabilið. Stuðningsmenn liðsins tala um að liðið hafi spilað einn góðan leik allt tímabilið. Menn heimta að stjórinn fái að taka poka sinn og segja að allir þeir leikmenn sem hann hefur fengið til liðsins sé rusl.

    Það sem af er tímabili hafa hins vegar stuðningsmenn Man Utd vart haldið vatni yfir spilamennsku síns liðsins. Gleðin byrjaði strax í sumar þegar Van Gaal var ráðin og var stemmningin slík að það var nánast formatriði að afhenda liðinu meistaratitilinn strax fyrir fyrsta heimaleik gegn Swansea. Ekki skemmdi stemmninguna að liðið hafði fjárfest leikmenn fyrir metfé, svo mikið að excelforrit Chelsea og Man City frusu við útreikninga á kaupverðunum. Eftir þéttskipað og þungt leikjaprógramm, hefur liðið halað inn 13 stigum í 9 leikjum (Moyes 14 stig í 9 leikjum) undir stjórn Van Gaal sem er kominn í guðatölu hjá stuðningsmönnum liðsins. Ekki minnkaði tiltrú stuðningsmanna á stjórann eftir jafnteflið gegn Chelsea um helgina, þegar þakið ætlaði bókstaflega að rifna af Old Trafford þegar liðið náði jafntefli gegn Mourinho og félögum. Fögnuður Van Persie var ósvikinn þegar hann reif sig úr treyjunni eftir að hafa jafnað leikinn og tryggði liði sínu tímabundið 8. sæti deildarinnar á kostnað Everton. Eftir c.a. 2 mín fagnaðarlæti var nægjanlegum miklum tíma eytt til þess að tryggja það að 9 varnarsinnaðir leikmenn andstæðinganna + 1 markvörður næðu ekki að stela stiginu á lokasekúndunum. Þið getið ímyndað ykkur stemmninguna þegar flautað var til leiksloka og þegar maður les vefmiðla þá má sjá að partýið stendur enn yfir.

    Já, það er ólík stemmning hjá stuðningsmönnum Man Utd. og Liverpool þessa daganna. Það er svo sannanlega ekki tekið út með sældinni að vera stuðningsmaður Liverpool í þessu árferði.

  53. Þetta breytist allt þegar Sturridge kemur til baka. Förum að raða inn mörkum, vörnin fer að standa sig og tala nú ekki um markvörðinn. Hann fer að verja eins og engin væri morgundagurinn.
    Halda menn virkilega að fjarvera Sturridge sé lykillinn að velgegni Liverpool í dag, ég held að það séu aðeins fleiri hlutir sem þurfa að lagast til að við náum einum að fjórum efstu sætunum.
    En kannski er hægt að byrja á einum hlut, t.d að bæta vörnina hjá okkur, ég held að hún sé bara ekki nógu góð í dag. Á síðasta tímabili vorum með góða markaskorara sem skoruðu mörk , þegar við fengum á okkur önnur. En núna er það ekki til staðar, þannig að núna þarf að fylla upp í gatið svo að eitthvað gerist.

    ÁFRAM LIVERPOOL

  54. er ekki málið varnarlega að bakverðirnir fara alltof hátt upp, verða á eftir í að skila sér aftur og öll völdun og dekning riðlast ??

  55. #56 einare. Ég sé að þú ert að gera lítið úr “ánægju” united stuðningsmanna. Málið er að þó Moyes hafi fengið einu meira stigi eftir 9 leiki er liðið að spila svo mikið skemmtilegri bolta og sem united stuðningsmaður er ég ánægður með það. Liðið hefur einnig verið að bæta sig með hverjum leiknum og það er einnig það sem við horfum til, þeir byrjuðu hræðilega í fyrstu 3 leikjunum og ég minni þig á að við höfum tapað einum leik og gert tvö jafntefli og unnnið 3 eftir að dýru leikmennirnir komu inn í hópinn.
    Liðið er eins og ég segi að sýna flotta spilamennsku og fyrstu 3 leikirnir “auðveldir” leikir sem klúðruðust og fengum aðeins 2 stig fyrir þá síðan hefur spilamennskan alltaf orðið betri og betri með leik hverjum að undanskildum síðustu 30 mínútunum á móti Leicester.
    Auk þess talaðir þú um fagnið hans Persie ég var einnig ánægður með það. Það vir’ist vera mun meiri stemmning í hópnum og eitt mark á 94 mín á móti besta liðinu í deildinu getur gert fullt fyrir klefann. Maður vill að sjálfsögðu að leikenn síns liðs sýni ástríðu. Síðast en ekki síst fögnum við að sjálfsögðu jafntefli við chelsea sem við töpuðum öllum stóru leikjunum 3-0 eða þvíumlíkt.
    Vildi bara svara þér af hverju við erum svona gríðarlega ánægðir. þrátt fyrir að vera með lágan stigafjölda.

  56. Afar áhugaverður þráður í alla staði. Umræðan hér um “virka í athugasemdum” og kommentakerfi almennt er fínasta heimild í fræðiskrif um efnið. Félagsvísindanemar.. einhverjir!? En svona er kop.is. Viðfangsefnin hver svo sem þau eru og hafa eitthvað með okkar áhugamál – Liverpool að gera, eru krufin til mergjar. Hér er verið að takast á við grundvallarspurningar eins og tjáningafrelsið og hvaða takmörkunum það skal sæta. Frelsi fylgir ábyrgð.

    Ég hef verið hér sem virkur áhangandi nokkuð lengi (Þ.e. á liverpool blogginu og svo kop.is) Held að síðan hafi verið um það bil eins árs þegar ég datt niður á þennan snilldarvettvang. Veit ekki hvað ég hef eytt miklum tíma í lestur hér en hann er töluverður! Ég les aðallega! Hef náttúrulega mínar skoðanir á liðinu á hverjum tíma.. trúið mér! En er feiminn að taka þátt í rökræðum um fræðigreinina fótbolta. 🙂 Peyinn minn kennir mér eiginlega mest í þeim efnum! Hann er að æfa fótbolta og spilar Fifa þess á milli! En hvað um það þá langar mig að segja TAKK fyrir þessa mögnuðu síðu. Kop.is er stór hluti af minni Liverpool tilveru. Enn meira eftir mína fyrstu ferð á Anfield með stráknum mínum í kop.is Liverpool ferð!

    Að þessu sögðu þá vil ég segja að í gegnum tíðina hef ég alveg átt minn skerf af illa ígrunduðum innleggjum! Hef þá notað kommentakerfið til að “blása út” en ég hef aldrei lent í því svo ég viti til að hafa verið hent út… svo þetta hefur nú vonandi allt verið innan marka og svona lágmarksvælsæmis gætt. En mikið vona ég að ef ég fer einhvern tíma yfir strikið að þá sé mér sá greiði gerður að þeim ummælum verði eytt!! Ég tek undir með síðuhöldurum og styð þá heilshugar í því að setja tjáningarfrelsinu hér mörk! En þá er það þannig að sá veldur sem á heldur. Og þar finnst mér síðuhaldarar hafa staðið sig einstaklega vel. Þeir eru með átta vel ígrundaðar tjáningarreglur fyrir þennan vettvang sem þeir bera ritstjórnarlega ábyrgð á. Ég hygg að margir netmiðlar mættu taka sér þessar reglur til fyrirmyndar. Tek hatt minn ofan fyrir þeim metnaði sem lagður er í reglurnar. Þær eru skýrar og útskýrðar. Auðvitað er sumt matskennt en þannig eru allir góðir reglubálkar. Ákveðin atriði sem eru upptalin og síðan viðbótarreglur til fyllingar til að hægt sé að taka á takmarkatilvikum. Til dæmis regla númer átta.

    Mig langar að koma með eina tillögu í tengslum við þetta efni (sem er svona hliðar subject á þessum þræði :-)) að þegar við erum alveg að sleppa okkur yfir okkar ástkæra Liverpool liði að í stað þess að skrifa allskonar vitleysu og vanhugsað “dót” að segja bara (skrifa) hvernig okkur líður!! Til dæmis… Ég er reiður!! Ég er pirraður!! Punktur! Þó það bæti engu við fræðigreinina fótbolta þá þarf maður bara stundum að deila tilfinningum sínum og þannig er fótboltinn…. tilfinningar! Ég get ekki lýst þeim tilfinningum sem flutu í gegnum mig þegar ég söng af öllum lífs og sálarkröftum.. You will never walk alone ofarlega uppí stúku á Anfield! En það er það sem þetta áhugamál gerir fyrir okkur… það hreyfir við okkur… allann tilfinningaskalann.. Upp og niður. Alveg merkilegt! 🙂

    En þá að aðalatriðinu. Mig langar að leggja orð í belg með Balotelli!! Er náttúrulega að bera í bakkafullan lækinn en mér sýnist hin tæknilega fótbolta umræða sem hefur átt sér stað í þessum þræði og víðar um heim sé hvort Balotelli sé lélegur fótboltamaður eða ekki! Tek fram að ég hef haft mínar efasemdir alveg frá byrjun að Balotelli hentaði Brendan og þeim leikstíl sem hann virðist byggja á. EN… um leið fann ég fyrir sama spenning og kom svo vel fram í viðtali við BR þegar hann var spurður hvers væri að vænta með Balotelli.. þá sagði hann með glampa í augum og dularfullu glotti…. Trouble!!! Og það er einmitt mergur málsins. Balotelli er og var alltaf gamble skástrik trouble! En mér finnst… með áherslu á mér finnst… það vera háfyndið svo ekki sé sterkar að orði kveðið að ætla dæma hann sem trouble og einskis nýtan eftir níu leiki! Í mínum huga hefur Balotelli alla þessa leiktíð til að sanna sig. Það var veðjað á hann og maður stekkur ekki af þeim hesti sem maður velur til að bera sig yfir ána, útí miðri á!! Það er ekki gáfulegt.

    Góðar stundir og njótum…
    YNWA

  57. Sælir félagar

    Ég er að pæla hvort menn séu ekki aðeins of fljótir á sér að setja allt sitt traust á BR. Hann er bara búinn að vera með liðið í rúm tvö ár. Er það ekki of lítið til að dæma manninn. Og þó . . . Nýr maður í liðinu er búinn að spila 2 til 5 leiki með liðinu. Hann hefur ef til vill staðið sig vel í einum leik eða tveimur. Samt er auðséð(?!?) að maðurinn kann ekki fótbolta, hefur enga hæfileika, er fífl, ræður ekki við hraða enska boltans og guð veit hvað. Er þá ekki augljóst að miðað við þetta er BR í góðum málum.

    Hann var við það að vinna deildina á síðasta tímabili. Hann hefur verið án sinna bestu framherja í nánast allt haust. Annar þeirr reyndar farinn fyrir fullt og allt þó hann hafi áhuga á að ljúka ferlinum í Liverpool þegar fram líða stundir. Ef hægt er að dæma leikmenn eftir tvo til fimm leiki þá hlýtur BR að vera búinn að sanna sig 80 leiki+. Ég viðurkenni þó fyrir mína parta að Lovren er kominn á síðasta séns hjá mér og fær ekki tíma hjá mér nema fram að áramótum til að sanna sig.

    Annars er einare #56 alveg með þetta. Þetta snýst auðvitað um við hvað menn miða. Þegar MU manneskjur eru svo glaðar með sitt þá er það vegna þess að þeir eru ekki nema einu stigi frá árangri Moyes í fyrra. Það er að segja; Galarinn er ekki afgerandi lélegri en fyrirrennarinn. Að vísu aðeins en hvað er eitt stig á milli vina þegar eyðslan er margföld og dásamleg. ADM segir líka að það sé dásamlegt að vera rándýr leikmaður í MU liðinu.

    Við höfum auðvitað úr miklu hærri söðli að detta. Okkar menn voru í öðru sæti síðast og aðeins einu “skriki” (Gerrard) mögulega frá meistaratitli. Þar af leiðir að við eigum mjög bágt að vera aðeins 2 stigum frá meistaradeildarsæti eftir 1/4 af leiktíðinni og aragrúi af alsskonar leikjum framundan. Það er von að ég og mjög margir aðrir séu algjörlega brjálaðir yfir stöðunni og ástandinu, framtíðarhorfunum og fallandi gengi, tíðindaleysi á vesturvístöðvunum og misheppnuðum mannakaupum, frammistöðu Balotelli og aldri Lamberts, ráðaleysi BR og ömurlegum dómurum, ófríðum áhorfendum og leiðinlegum stuðningsmönnum annarra liða.

    Því segi ég; rekum einhvern og seljum annan, skiptum um eigendur og eyðum milljónum, förum í fýlu og verum fúl, gerum eitthvað frekar en vera sátt. Sem sagt BULL, BULL, BULL.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  58. Málið með þessa tillögu með Facebook athugasemdum einsog Toggi og SSteinn eru að ræða hér á undan er að gera það aðeins erfiðara fyrir fólk að vera fávitar á þessari síðu. Í dag þarftu bara að skrifa inn nafn, email (sem þú getur þess vegna bullað) og þú getur byrjað að pósta drullu. Við höfum svo enga leið til að banna viðkomandi.

    Með Facebook (eða einhvers konar prófíl) myndum við gera það aðeins erfiðara fyrir menn að kommenta í bræðikasti. Allir myndu þurfa að fara í gegnum einhvers konar lágmarks skráningu – og þeim myndi væntanlega þykja smá vænt um sinn prófíl. Ef þeir væru svo ítrekað fábjánar gætum við einfaldlega bannað þá.

    Samanburðurinn við DV og Visir er smá gallaður þar sem að forsvarsmenn þeirra blaða geta ekki bannað fólk án þess að eiga á hættu á að allt verði vitlaust því fólk myndi byrja að kvarta yfir hömlun á tjáningarfrelsi og blah blah. Við sem höldum hins vegar út prívat bloggsíðu værum mun óhræddari við að banna þá sem eru fávitar.

    Þetta er allavegana mín pæling.

    Varðandi að tappa af reiðinni, þá verða menn að finna sér einhverjar aðrar leiðir til þess. Prófið til dæmis sófaborðið eða manneskjuna við hliðiná ykkur. Ef að þúsundir Liverpool stuðningsmanna sem lesa Kop ættu alltaf að tappa af reiðinni á Kop þá yrði síðan algjörlega vonlaus. Við höfum reyndar verið mjög afslappaðir yfir byrjunarliðs færslunni og leyft ýmsu að standa þar – sérstaklega þar sem við lesum ekki allir þá færslu yfir leiknum (ég geri það til að mynda aldrei). En leikskýrslan á að vera málefnaleg.

  59. Svona fyrir forvitinn mann er kominn dagsetning á næsta podcast hjá ykkur ?

  60. Ein pæling frá mér sem man illa:

    Skv. Fantasy premier league er Balotelli kominn með 2 assist í fyrstu 7 deildarleikjunum sínum, á móti West ham og Everton. Stenst þetta?

    Ef svo er þá finnst mér það ágætis merki um breytta spilamennsku hjá kappanum frá því sem áður var þar sem hann átti eitt assist í heildina fyrir Man city.

    Hann þarf að gera betur og skora mörk ekki spurning en ég held að það komi um leið og hann fær nokkra leiki með mann með sér uppá topp.

  61. 65# Hann fékk assist skráð á sig eftir að skot hans fór í varnarmann og sterling náði frákastinu og skoraði og svo var hin að mig minnir brotið á honum og gerrard skoraði úr aukaspyrnunni.

  62. Hörður #65

    Balotelli er með 2 assist inn á fantasy en þau eru ekki talin af FA.

    Assist á móti West Ham var þegar hann skaut í varnarmann og sterling skoraði úr frákastinu. Assist á móti Everton var fiskuð aukaspyrna sem Gerrard skoraði svo úr.

  63. Ég sé að einhverjir hér eru að minnast á Suso og af hverju hann hafi ekki fengið tækifæri síðan í Deildarbikarleiknum við Middlesboro. Málið er að hann er meiddur og verður ekki leikfær fyrr en í desember í fyrsta lagi ef ég man rétt. Svo eru þrálátar sögusagnir um að hann fari til AC Milan í janúar þannig að sá leikmaður er klárlega aftarlega í goggunarröðinni þegar hann er heill heilsu.

  64. Þessi Koeman umræða svipar mikið til Laudrup umræðunnar hér um árið.

  65. Ánægður með þennan pistil og allt sem í honum stendur á rétt á sér. Ef menn ætla að gagnrýna klúbbinn, að þá er lágmark að koma með rök fyrir því. Viðurkenni að ég hef verið svolítið í því að gagnrýna klúbbinn, en ég reyni yfirleitt að koma með rök fyrir því.

  66. bjartsýni parturinn við leikinn við hölllll er að VIÐ HÉLDUM HREINU!!!!!
    getum ekki verið annað en ánægðir með það… 🙂

  67. Frábær pistill en og aftur hjá kop.is menn þurfa ekki alltaf að vera samála en menn mega ekki missa sig í skitu yfir liðið sem við öll elskum svo heit.

    Liverpool er nánast eins og fjölskyldumeðlimur, því að maður er búinn að styðja þennan klúbb frá barnsaldri og farið í gegnum hæðir og lægðir.

    Ætli 2005 meistaradeildarsigurinn og 2001 bikarsigurinn gegn Arsenal hafi ekki verið hápunktarnir( var of vitlaust til þess að njóta ekki meira Enskatitlinum 1990, því að bróðir minn sagði að þetta kæmi næstum því á hverju ári)

    Ætli sorgarstundirnar hafi ekki verið Roy Hodgson tímin, bikarúrslitinn 1996 gegn Man utd og Thomas markið 1989.

    Þetta er rússibanni og maður alltaf að horfa á heildarmyndina og samhengjið áður en maður missir sig yfir sigrum eða fer í brjálæðiskast eftir töp.
    Auðvita er maður óhress eftir tap og ánægður eftir góðan sigur en það má ekki fara í öfgar.

    Treystið mér Liverpool eru að fara í rétta átt. Árið í fyrra var einfaldlega dæmi um snjóbolta sem hætti ekki að stækka og úr varð algjör veisla fyrir okkar lið. Það gekk næstum því allt upp og vorum við aðeins jafntefli gegn Chelsea heima frá því að klára titilinn(ég er viss um að við hefðum klárað Palace og Newcastle þá) en það gekk ekki eftir.

    Liðið er með stjóra sem virðist vita hvað hann er að gera, hann vill byggja liðið upp af ungum leikmönum og eru fá lið í deildinni með eins marga lykilmenn í kringum tvítugt og við. Hann vill að það spilar flottan fótbolta og erum við að reyna það í ár en það er margt sem spilar inní sem hægir aðeins á því að flæðið sé kominn á fullt.
    Það má ekki heldur gleyma að fótbolti er miskunarlaus íþrótt og oft ótrúlega stutt á milli að vera í skýjunum yfir árangnum eða bölva liðinu. EF/HEFÐI er aldrei valmöguleiki en maður veltir fyrir sér ef Phil hafi ekki skorað þetta ótrúlega mark og Balo hefði sett eitt inn í síðasta leik og við komnir með 18 stig.
    Það munar nefnilega helvíti litlu stundum en svo er auðvita hægt að tala um gefins stig gegn QPR í staðinn.

    Ég vill segja við ykkur kæru stuðningsmenn Liverpool að njóta þess að horfa á þetta lið í ár, það eru vaxtaverkir í gangi en þeir ganga yfir og ef við náum að halda ungu leikmönum okkar saman í 2-3 ár í viðbót og aðeins 2-3 af þessum sem við keyptum ná að standa sig þá erum við komnir með góðan kjarna sem hægt er að byggja í kringum.

    YNWA

  68. Ég held að þetta þurfi bara alltaf öðru hvoru á þessari síðu – þ.e. árétta reglur og almenna mannasiði. Yfirleitt er umræðan á svipuðum stalli og spilamennskan, þegar liðið er dapurt verður umræðan oft ansi döpur. Það var gaman að hitta á Magga um daginn, hann talaði um suicide-watch á kop.is eftir leikinn gegn Real Madrid. Það var líka ekki fjarri lagi, himinn og jörð voru að farast og Brendan Rodgers var svo innilega ekki með þetta og Balo Balo Balo…allavega er það plús fyrir Glen Johnson að Balo sé kominn svo að aðdáendur séu komnir með einhvern annan en hann að níðast á.

    Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa síðu er að skiptast á skoðunum um fótbolta”fræðileg” málefni – velta upp taktík spekúlasjón, reyna að fara djúpt í það af hverju hlutirnir ganga ekki nógu vel – eða það sem betra er – finna út úr því hvað það er sem gerir liðið gott. Yfirdrull og órökstudd ókurteisi hindrar eflaust marga í að tjá sig á síðunni sem er miður og sumir fara alltaf þá leið að kenna einstaklingum um tap eða jafntefli og eru óendanlega vitrir eftir á. Þess vegna held ég að ritskoðun sé síðunni og spjallinu til framdráttar hvernig sem menn fara að því.

    Ég hef enga sérstaka skoðun á því hvort setja eigi inn facebook tengil, mér finnst þetta raunar ágætt að mörgu leyti eins og það er, eins og minnst er á hér að ofan þá eru margir góðir pennar hérna sem skrifa undir dulnefni og af hverju ættu þeir ekki að mega það áfram. En ég styð þá Einar og Kristján Atla í hverjum þeim aðgerðum sem þeir kunna að grípa til, til að auka gæði síðunnar.

  69. Ord i tima tølud!

    Takk enn og aftur fyrir frabæra sidu. Afram thid og audvitad LFC!

  70. Ég hugsa að þessi Liverpool-bloggsíða sé í heimsklassa. Það er í raun ótrúlegt hvað menn leggja á sig, þegar kemur að upphitunum og leikskýrslum svo til strax eftir leiki liðsins og hægt að sjá, sérstaklega í upphitununum að gríðarleg vinna fer í þetta. Ég hef það mjög sterkt á tilfinningunni að þegar pistlahöfundur setur á enter-takkann þegar upphituninni er skilað að þá er einn kaldur öllari opnaður. Það eiga a.m.k. höfundarnir í öllum tilfellum skilið. Svo þegar höfundurnar og þeir sem standa að þessari síðu líta hér inn eftir viðbrögðum og sjá “helvítis balotelli” “burt með balotelli” “reka rodgers” að þá er það eflaust mjög, mjög, mjög þreytandi.

    En að þessari stöðu, og af því að menn hafa dregið Southampton inn í þetta og þeirra árangur. Það er vel að vekja athygli á eftirtekarverðum árangri Koeman, og árangri hans með S´Oton það sem af er, en hinkrum nú örlítið og öndum rólega. Ég skal hundur heita ef þetta lið muni ekki enda í svona 9-12 sæti deildarinnar þegar lokaflautið gellur í vor. Það yrði reyndar frábær árangur hjá Koeman. Sheffield Wednesday sat á toppnum eitt tímabilið þegar aðventan var að ganga í garð, öllum að óvörum, en féllu svo þegar snjórinn var kveðinn burt af Lóunni.

    Svo veltir maður því fyrir sér stundum, hvort þetta 2.sæti í fyrra hafi í raun verið slæmt fyrir Rodgers eftir allt saman. Það er í raun ótrúlegt, og óþolandi að þurfa að lesa það hér nokkuð reglulega að menn eru svona stundum komnir fram á brúnina með það að Rodgers eigi að verða rekinn !

    Við áttum einn heimsklassaleikmann í Suarez síðasta vetur. Í dag eigum við engan heimsklassaleikmann, og af því hef ég svolitlar áhyggjur og leyfi mér því að horfa gagnrýnum augum á kaup félagsins í sumar. Það var því alltaf spurning hvernig menn myndu mæta restinni af sumrinu eftir að Suarez kvaddi. En auðvitað er það þannig að skilgreiningin á heimsklassaleikmanni er misjöfn hjá mönnum, og ekki myndi ég vilja að klúbburinn hefði gert það sama og júnæded er augljóslega að gera, hringja í t.a.m. ADM og bjóða honum allt í heiminum fyrir undirskriftina. En ég hef reyndar aldrei skilið það, mínus Can í sumar, hvers vegna Liverpool horfir ekki meira inn í Bundesliguna eftir leikmönnum. Svo skildi ég ekki síðasta janúar-glugga t.d. Þar var heilmikið kapp lagt á að fá til sín leikmann Dnipro, Yevhen Konoplyanka. Ian Ayre kominn með lögheimili í Dnipropetrovsk snemma í janúar og allt kapp lagt á að ganga frá þessum kaupum. Eins og öll heimsbyggðin sá svo, var að forseti Dnipro hringdi sig inn veikann korter í 00:00 og sagðist ekki ætla að skrifa undir, þrátt fyrir að Liverpool hafi virkt buyout-klásúluna í samningi leikmannsins við félagið. Þegar svo grámyglulegur og slyddublautur 1.febrúar rann svo upp hér á annesjunum norðanlands hugsaði maður með sér að hann kæmi þá bara í sumar. Svo í allt sumar, rúma 90 daga sá ég varla nafnið á leikmanninum koma fyrir. Því fréttir hermdu að hann hefði grenjað sig í svefn í marga mánuði eftir að þetta gekk…ekki í gegn.

    Mario Balotelli hefur fengið svo ævintýralega mikla gagnrýni fyrir leik sinn að stundum hefur mér orðið illt í maganum. Ég hef áður bent á það hér, að Super Mario er leikmaður sem stjórar, bæði í móra og Mancini hafa allt að því niðurlægt, þá ungur að árum og hefur það eflaust haft einhver áhrif á hann. En ég veit sömuleiðis ósköp vel að hann er ekkert með 110% mætingu í sunnudagaskólana, hann hefur að hluta til komið að því sjálfur að moka upp úr sinni eigin gröf. Þegar svo öllu er á botninn hvolft, þegar illa árar hjá liðinu er svo þægilegt og einfalt að benda á Balo þegar kenna á einhverju um.

  71. Á margan hátt er ég sammála því sem síðuhaldarar eru að tala um í þessum þræði. Margt sem kemur hérna er misgáfulegt. margt sem ég kem með er í ansi lágum IQ flokki. Þegar pirringurinn tekur völdinn þá er oft ansi stutt í Sólheima hjá manni. Enn varðandi þetta gengi og hvernig Rodgers er að standa sig, Þá er ekkert skrýtið að kröfurnar séu kannski meiri hjá okkur 9 leikir búnir í deild 4 sigrar 2 jafntefli 3 töp 14 stig af 27 mögulegum. 3 leikir í meistaradeildinni 1 sigur 2 töp í raun má segja af þessum 12 leikjum var Tottenham í Standard sem við sættum okkur við. Alltof margir leikir hefur þetta verið heljarinnar basl og gott betur.
    í sumar kom góður slatti af leikmönnum engin hefur stimplað sig rækilega inn til leiks, frekar dapurt eftir 12 alvöru leiki erum við enn að bíða eftir Di Maria – Fabreags – Sanhez innspýtingu.

    Kannski má horfa í þá átt að Sturridge er búinn að vera meiddur nánast allt tímabilið, munar um minna. enn þegar þú eyðir yfir 100m pund á leikmannamarkaði þá áttu að geta lifað það af, Margt sem Rodgers hefur gert hefur ekki heillað mig, ég skil ennþa’ekki sölunna á Reina í sumar eða Agger. Maðurinn virðist ekki höndla sterka persónuleika í klefanum sem gætu tekið völd af honum. Enn hann hefur líka sína kosti þó maður horfi stundum meira á veikleikanna hjá honum. Hann náði jú að skapa ansi hættulegt sóknarlið í fyrra. Reyndar væri ágætis leikur hjá honum að reyna finna Steve Clarke og fá hann til að huga að varnaleiknum.

    Enn Bottom line.. 12 alvöru keppnisleikir búnir og við erum ennþá að bíða eftir Mulningsvél sem mættir til leiks og gjörsamlega slátrar hinu liðinnu. vonandi styttist í það því við verðum að fara taka úrslit áður enn Arsenal – Man U fara detta hressilega í gang

  72. Mér finnst vanta doldið í þessa umræðu með að við eltumst ekki við “feitu” bitana á markaðnum að ástkæra borgin okkar virðist ekki heilla mikið erlenda leikmenn, stjórinn okkar er ekki stórt nafn, moneyball reksturinn, nýr völlur og nýju fjármagnsreglurnar hjálpa kannski ekki. Við HÖFUM verið að reyna ná í stóru nöfnin, Benzema, Sanchez, Willian(kannski ekki stórt nafn en mjög góður leikmaður), Diego Costa en þeir völdu annað fram yfir okkur. Þetta sem ég nefndi hér að ofan spilar einhvern part í þessu en þá kemur að stóru spurningunni, hvað af þessu spilar stærsta partinn í þessu??

    Ef það eru peningarnir þá er ég sáttur því ég vil ekki að við breytumst í lið sem ofborgar laun til að ná í sinn mann sem kannski fittar mjög illa inn í lið. Menn orguðu þegar júnæted fékk Falcao sem við höfðum verið orðaðir við með sín 250-300þúsund pund á viku, búinn að vera meiddur í 9 mánuði og kemur úr letilífinu í Mónaco, en jújú hann myndi hjálpa okkar liði en það myndi Messi og Zlatan líklegast líka gera fyrir milljón pund á viku en þá værum við líklegast ekki í því að byggja nýjann leikvang því allir okkar peningar færu í laun og árangurinn jú hann væri ekkert pottþéttur.

    Við fengum stjóra vonandi til framtíðar en ekki næstu 2-3 ára eins og ónefnt lið og vonandi mun Brendan verða stjóri sem mun einn og sér ná að sannfæra menn um að koma en til þess þarf árangur og skemmtilegan bolta, hann hefur verið að gera það þótt byrjunin á þessu tímabili sé ekki eins og við vildum hafa það.

    Síðustu 3 atriðin tengjast svo öll peningum, til þess að byggja völl þurfum við moneyball og með nýjum velli og moneyball náum við að framfylgja nýju fjármagnsreglunum þar sem eigendurnir opna ekki bara fyrir nýja olíudælu þegar þarf að kaupa leikmenn.

    Þannig að næst þegar menn orga og heimta “tilbúna” stjörnu þá þarf kannski að horfa meira á heildarmyndina heldur en “tökum bara upp veskið og borgum 50 millur fyrir Reus”. Við erum að byggja til framtíðar og eigum nógan efnivið og framtíðin er björt en Brendan þarf samt enn að sanna fyrir okkur að hann treysti þeim mönnum sem hann er að kaupa, hann mun gera léleg kaup og vonandi brillijant kaup, það gera allir en hann þarf að standa að mér finnst meira með nýju kaupunum sínum.

    Ps nennir einhver að segja Brendan að prófa að nota 2 strikera þegar Balotelli er inn á vellinum, bara breytingin á honum síðustu 20 mín í síðasta leik segir allt sem segja þarf 🙂

  73. Það er skiljanlegt að menn sýni ástríðu þegar það kemur að málefnum Liverpool FC. Þá sérstaklega eftir erfiða leiki eða slaka frammistöðu.

    Samt sem áður verða fullorðnir einstaklingar að geta tamið sig, og reynt að halda óþarfa leiðinlegum skrifum í algjöru lágmarki. Ég hef nú séð nokkur vægast sagt viðbjóðsleg skrif, bæði hér og annarstaðar gagnhvart öðru fólki sem tengist Knattspyrnu.

    Þegar talað er um að afhausa einhvern anna einstakling fyrir slaka frammistöðu inn á Knatspyrnuvelli, þá er þetta orðið ansi alvarlegt og menn átta sig ekki alveg á því hversu ljótt það er að skrifa svona. Hvort sem það er undir nafnleynd eða ekki. Við erum að tala um blásaklaust fólk (í lang flestum tilfellum) sem á Fjölskyldu og lifir nokkuð eðlilegu lífi. Ég myndi aldrei fara upp að öðrum manni og segja allskyns illirði um hann, hvort sem það væri fyrir einhver mistök í vinnunni eða einhverju sem Ég las um hann á netinu úr einkalífi hans. En svona hagar fólk sér á netinu og Íslendingar eru duglegir að láta í sér heyra á samfélagsmiðlum og menn verða aðeins að hugsa áður en þeir láta allt flakka. Í flestum tilfellum hérna á Kop.is af því sem Ég hef séð, þá ná menn að halda sér innan marka og það er frábært, og gaman að sjá ólíka punkta og skoðanir flæða hér inn ef þær eru vel upp settar.

    Annars er það bara sama sagan.. Í gegnum súrt og sætt, Áfram Liverpool!

Liverpool – Hull 0-0

Kapítalsbikarinn – 16 liða úrslit