Aðeins af taktík…og sjálfsmynd

Varúð.

Sennilega verður þessi pistill eitthvert nördaröfl um taktík…og ég vara enn frekar við því að ég er að lofsyngja þau ráð sem stjórinn dró upp eftir að við féllum úr Meistaradeildinni.

En þó er ég líka aðeins að velta upp hvað við vorum að gera í fyrra og gekk vel, hvað gekk illa í haust…og líka aðeins að spá í orðum stjórans um að liðið sé búið að finna sitt “identity” eða “sjálfsmynd” aftur.

Svo þeir sem hafa áhuga á svona smella á meira 🙂

Leiktímabilið 2013-2014

Týpísk uppsetning á 3-5-2 kerfi
Týpísk uppsetning á 3-5-2 kerfi
Þegar við Babú fórum í fyrstu Kop-ferðina haustið 2013 og sáum okkar menn sigra Palace 3-1 vorum við báðir býsna stressaðir með leikaðferðina sem við vorum að horfa á. Gamaldags 3-5-2 með Raheem í hægri wingback þótti okkur ekki spennandi en úrslit náðust fram og það dugði…þá. Fyrst og fremst var því að þakka að við vorum með fína pressu á andstæðingana í kvikum framherjunum auk þess sem miðjuþríhyrningurinn (sjá hér til vinstri) náðu að leysa varnarhlutverkin nokkuð vel.

Ekki löngu seinna var leyst niður um okkar menn gegn Arsenal úti, við áttum einfaldlega engin svör við miðjuspili Arsenal og tvöföldun vængjanna sóknarlega hjá Arsenal sýndi fram á veikleika kerfisins varnarlega. Svæðin bakvið wing-backs varð okkur að falli, því kerfi var sleppt og við fórum í nokkuð hefðbundið 4231 kerfi um sinn þar sem Suarez var þó mjög frjáls.

Það leikkerfi var ekki til fyrir um 20 árum…ég eiginlega veit ekki hvaða félags- eða landslið fann upp á þessu kerfi, eða réttara sagt þessari útfærslu á fjögurra manna vörn. En heldur betur hitti það í mark.

Velgengni leikkerfa kemur og fer, Brazzar urðu heimsmeistarar 1958 með 2-3-5 og HM sigur Englands festi 4-4-2 í sessi. En þetta ágæta leikkerfi, 4-2-3-1, hefur náð bara næstum alheimsyfirráðum, allavega í flestum stærstu deildum heims og hvað þá ef við horfum til Íslands. Ég held að fullyrða megi að minnst 90% liða spili útfærslu þessa kerfis hér og allir síðustu Íslands- og bikarmeistarar.

Svona u.þ.b. hvernig við höfum stillt upp 4-2-3-1 sóknarlega í tíð BR.
Svona u.þ.b. hvernig við höfum stillt upp 4-2-3-1 sóknarlega í tíð BR.
Og við semsagt tókum það kerfi upp eftir tapleikinn gegn Arsenal og spiluðum um sinn. Við höfum reglulega spilað þetta kerfi með Rodgers, enda það sem hann lengstum spilaði með Swansea en útfærslan hjá Liverpool hefur verið á þann hátt sem við sjáum hér til hægri, þar sem vængmenn hafa iðulega sótt innávið með overlap frá bakverði, örvfættur maður hægra megin og réttfættur vinstra megin. Þetta var ólíkt því sem hann t.d. stundaði hjá Swansea þegar hann var með Dyer og Sinclair á “réttum” köntum.

Liðið leit vel út á blaði, sjáið t.d. þessa leikskýrslur frá einum af síðustu leikjunum í þessu kerfi. Fullkomlega eðlileg uppröðun sennilega…og tilhneigingin hefur verið, þ.á.m. hjá mér að halda að þetta sé það kerfi sem Rodgers “vill helst” nota.

En nú veltir maður fyrir sér hvort að þetta leikkerfi hafi hann sett upp til að bregðast við stöðunni í leikmannahópnum þarna á meðan að Sturridge var meiddur…því þegar hann kom almennilega á svæðið aftur hófst býsna skemmtilegt tímabil, poetry in motion kaflinn dásamlegi.

Demanturinn / tígullinn

Þegar þeir SAS liðar höfðu náð sér í gang var komið að nýjum kafla í liðsuppstillingu og leikaðferð. Þá leitaði Rodgers aftur í kerfi með tveimur aggressívum og hápressandi framherjum líkt og um tíma haustið 2013 en nú kom hann með aðra uppstillingu á leikaðferð.

Grunnstaða í 442 með tígulmiðju
Grunnstaða í 442 með tígulmiðju

Ef litið er á grunnstöðuna í þessu leikkerfi sjáum við auðvitað að þarna er verið að verjast svipað og í 4231 og sækja líkt og í 532/352 en það er miðjuvinnan sem er ólík.

Á myndinni með grunnstöðunni hérna til vinstri þá set ég þó bakverðina aðeins ofar en í 4-2-3-1 þar sem að með því að hafa fengið svona afmarkað djúpan hafsent eins og tígullinn kallar á þá er bakvörðunum hleypt aðeins ofar. Það gerist vissulega oft í útfærslu á 4-2-3-1, t.d. klárlega þegar Mascherano spilaði með okkar liði, en hjá Rodgers hefur verið flatari færsla tveggja miðjumanna, líkt og var hjá Lucasi og Allen í þeim leik sem ég vísa í hér að ofan.

En demantur ýtir bakvörðum aðeins ofar, en varnarlega spiluðum við hefðbundna svæðisvörn en framan miðjunnar voru hápressandi framherjar, að þessum staðreyndum varð liðið að laga sig, sem og finna þá leikmenn sem fittuðu inn.

Ég held að það sé óþarfi að velta mikið upp hvað varð stærsta fréttin í þessu leikkerfi.

Gráu kassarnir eru þau svæði sem mest var reynt að sækja inní, litlu hringirnir "krossstaða" bakvarða.
Gráu kassarnir eru þau svæði sem mest var reynt að sækja inní, litlu hringirnir “krossstaða” bakvarða.
Hún var auðvitað sú að okkar fremsti sóknartengiliður í gegnum tíðina, Captain Fantastic Steven Gerrard var þar með orðinn djúpur miðjumaður.

Ég vænti þess að hér skilji flestir heitið “quarterback” sem er nafn leikstjórnanda liðanna í NFL…já kannski bara þá kominn tími á það fyrir þá sem ekki hafa spáð í þeirri íþrótt að gera það eftir magnaða helgi síðastliðna…en hugsunin við að spila fyrirliðanum þarna var klárlega gerð með sóknarleikinn okkar í huga. Á myndinni hérna til hægri sýni ég með gráum kössum hvar líklegast var að boltinn væri færður upp af andstæðingum okkar, sem var vitanlega á vængjunum þegar sóknarmennirnir okkar voru ofarlega eða í svæðið aftan við eða til hliðar við DM-leikmanninn.

Þessi svæði eru býsna stór og það kom oft fyrir að Gerrard lenti í vandræðum að verjast þeim, ja líkt og liðið í heild auðvitað. Augljósust fannst mér dæmin í Cardiff, hvað þá á Selhurst park þegar fljótir vængmenn eiginlega einir og sér ollu okkur þvílíkum usla að það leit út fyrir að sóknarleikur liðanna þeirra væri alveg gargandi snilld. Það voru ekki endilega kantarnir sjálfir sem urðu okkur erfiðir heldur þegar að Stevie, eða hafsentarnir fóru að hlaupa í þessi svæði til að mæta þessum vængmönnum að liðið datt algerlega úr synci og alltof, alltof oft fengu sóknarmenn opin færi gegn okkur…sem svo mögulega leiddi líka til þess að sjálfstraustið minnkaði hjá markmanninum okkar sem var að lenda ítrekað gegn mönnum í fullkomnum dauðafærum.

Þetta leikkerfi var því alls ekki draumur varnarmannsins eða varnarþjálfarans.

En ALLIR sóknarþenkjandi þjálfarar slefuðu!

Tígullinn í sókn, jebbz - við erum að tala um sjö í sókn!
Tígullinn í sókn, jebbz – við erum að tala um sjö í sókn!
Ég fullyrði það að vorið 2014 þurfti að leita til stærstu liða álfunnar til að horfa til viðlíka fótbolta og við fengum að sjá sóknarlega. Maður skalf vissulega þegar sótt var á okkur en andstæðingarnir skulfu meira en mælt var á Richter kvarðanum að fá á sig sóknirnar frá okkur.

Ekki bara SAS, þó vissulega væru þeir frábærir. Mögnuð pressa Hendo, Coutinho að skapa og öskuáræðnir bakverðir flæddu fram á við. Um leið og við töpuðum boltanum var farið í að vinna hann ofarlega, enda augljóst að ráða af myndinni að við vorum a.m.k. jafn margir og hinir fram á við.

Til að verjast voru fjöldamargir kallaðir til baka. Aðeins eitt lið hélt hreinu gegn okkur vorið 2014, þegar ofurvarnarlið Chelsea parkeraði rútunni duglega og við náðum ekki að vinna okkur í gegnum þann múr.

Við létum okkur dreyma og draumurinn næstum rættist en tókst því miður ekki. Sennilega féllum við á okkar eigið sverð með því að sækja gegn Chelsea þegar jafntefli voru fín úrslit, en draumurinn dó með sæmd.

Breyting sumarsins og haustið

Aftur reynt við 4231
Aftur reynt við 4231
Það varð gríðarleg breyting í sumar.

Við vissum að það þurfti breidd en við misstum langbesta leikmanninn okkar. Ekki bara sóknarlega heldur þann sem átti stærsta þáttinn í að pressan gengi upp.

Nenni ekki að rifja þetta allt upp, við enduðum með Lambert og Balotelli, spiluðum tígulinn okkar í 60 mínútur gegn Spurs, Sturridge meiddist og Brendan ákvað að færa liðið aftur í 4-2-3-1. Hafði alveg náð ágætum úrslitum síðast þegar að þessi meiðsli komu upp, að mikið til voru sömu leikmennirnir auk þess sem að flest allir nýju leikmennirnir sem komu í sumar þekktu þetta leikkerfi, höfðu spilað það með sínum liðum.

En mikið Jesús minn eini hvað átti eftir að leiða annað í ljós. Við þekkjum öll þá þrautagöngu sem hófst í september og stóð býsna alltof lengi. Hápunktur þeirrar göngu var án efa varkárasta Evrópuþátttaka félagsins fyrr og síðar, þar sem við sköpuðum okkur sennilega í það heila 8 færi í 6 leikjum…og skoruðum fimm mörk.

Á þessum tíma einfaldlega var pressan okkar fullkomin hending. Við Babú urðum vitni að einni af skárri frammistöðunum á Anfield þegar WBA voru lagðir og Everton leikurinn var góður. Voru fleiri?

Held ekki.

Allt í einu birtist þetta á skjánum...Arsenal á Anfield.
Allt í einu birtist þetta á skjánum…Arsenal á Anfield.
Liðið var á skrýtinni leið, ef við viljum rifja það upp er sennilega best að skoða leikskýrsluna hans Kristjáns eftir að við féllum út úr Meistaradeildinni, hann var býsna argur og kallaði eftir viðbrögðum frá Rodgers ef ekki ætti illa að fara fyrir manninum sem var kynntur sem “efnilegasti stjóri Bretlands” tveimur árum áður.

Er þetta í alvörunni 3-4-3?

Ég átti leikskýrsluna gegn Arsenal og fyrst hélt ég að þetta væri útfærsla á 3-5-2…við værum að fara að sjá Markovic eða Lallana uppi á topp með Coutinho. Svo að feitletraða spurningin hér að ofan var vissulega sú sem ég velti fyrir mér þegar leikurinn hófst…og komst að ekki með miklum útreikningum að væri virkilega að fara í gang.

Ég hef í grunninn aldrei verið hrifinn af þriggja hafsenta kerfi, leitaði þau sjaldan uppi sem þjálfari og hef ekki horft mikið á lið sem leika á þann hátt svo ég er ekki alvitur. En mér er ekki minnisstætt að sjá þetta leikkerfi sem við hófum þarna að spila svo glatt áður. Endilega leiðréttið mig ef menn þekkja til liðs með einn senter og tvo frjálsa sóknarmenn undir honum í þriggja manna vörn.

Hvar eru svæðin sem þarf að verja?
Hvar eru svæðin sem þarf að verja?
Svo ég viðurkenni bara það að hafa hrist hausinn duglega fyrst um sinn þennan leik, en skoðunin hefur nokkuð breyst.

Ef við skoðum þessa mynd mína hérna til vinstri, þar sem ég hef aftur sett upp gráa kassa utan um þau svæði sem er helst að sótt sé í má segja að þar fari kunnuleg mynd að mörgu leyti. Svæðin sem bakverðirnir okkar skildu eftir í tígulkerfinu eru mætt, þau voru svosem líka þarna á meðan verið var að reyna að láta Stevie spila djúpt í 4-2-3-1 en grundvallarmunurinn, og um leið vísun í líkindi þess sem við sáum síðasta vor?

Það eru þrír leikmenn sem verjast í teignum, á meðan að þeir voru ansi oft bara tveir í haust. Þetta þýðir vissulega gríðarlega ögun og mikil hlaup á hafsentunum sem og að þeir verða að hafa kjark til að spila boltanum og fætur sem ráða við það.

Með innkomu Emre Can small það allt. Skrtel er dýpstur, sá sem fær yfirleitt minnsta pressuna á sig og síðasti varnarmaður. Staða sem hann hefur leyst vel. Þeir kollegar Sakho og Can eru líkamlega sterkir en fullir sjálfstrausts og virka sem góðir “taktíkerar”. Nokkuð sem þarf sem varnarmaður í svona kerfi, þú verður að hafa agann í að vera tilbúinn að verjast á meðan að þitt lið er að sækja, því lausn liða á móti okkur er að fara hratt í gráu kassana.

Til að aðstoða þá þarf dýpri miðjumann. Ekki eins djúpan og í demantinum en samt klárlega afmarkaðan dýpri. Þar hefur Lucas verið eins og engill hingað til. Hann er nákvæmlega eins og þeir félagar fullur af sjáfstrausti og mikill taktíker. Það þarf ekki svo glatt “beinbrjótara” í hlutverkið því að þeir aftan við sjá um það, það þarf mann sem fílar að “fylla svæðin” sem þarf þegar hafsent þarf að leita út á væng til að verjast.

Það er mjög einfalt að skoða hvað gerist þegar ögunin og skynsemin hverfur…lítið bara á fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik gegn Leicester. Ég er handviss um að Brendan hefur farið reglulega yfir þann kafla með drengjunum til að “aga þá til verka”.

Það er eftirtektarvert að eftir að þetta kombó þriggja hafsenta plús Lucas kom upp hefur varla verið breytt út frá því. Skrtel fór í leikbann og Kolo kom inn gegn Leicester og Lovren eitthvað aðeins dottið inn sem varamaður. Við munum mögulega sjá eitthvað nýtt um helgina, ég er enn sannfærður um að Lovren getur leyst það að vera varnarmaður í háum gæðum en til þess þarf hann að bæta leikskilninginn á kerfinu…og fá meira sjálfstraust.

Sóknarfærslurnar

Ef við skoðum svo hvernig uppsetningin er þegar við erum að sækja, hvað þá?

Erum við ekki bara næstum aftur með 7 í sókn?
Erum við ekki bara næstum aftur með 7 í sókn?
Aftur.

Þetta eru mínar teikningar unnar upp úr mínum kolli eftir leik gærkvöldsins. Þessi ÓTRÚLEGI seinni hálfleikur þegar við pökkuðum Chelsea saman leit svona út frá mínum bæjardyrum.

Báðir vængmennirnir fóru alveg upp að endalínu, sóknartenglarnir mikið inni í teig, Hendo að styðja við og Lucas var alveg tilbúinn að koma fram í sóknarleikinn. Kannski ekki alveg heilir 7 leikmenn, en ég myndi segja að þeir væru 6,5, Lucas væri þá píputóbakið Half&Half í þeirri jöfnu.

Munurinn á sóknarfærslum kerfisins nú og tígulkerfisins er að við erum með einn framherja efst á toppnum en tvo fyrir aftan…í fyrra var það Sterling fyrir aftan Suarez og Sturridge lengstum en nú hefur þeim þríhyrningi verið snúið á hvolf.

Vængmennirnir eru aggressívari fram á við en bakverðirnir voru í fyrra, þess í stað eru þrír hafsentar “geymdir” í vörn versus það að Stevie var hafður til aðstoðar við tvo hafsenta…með eiginlega verri árangri en við sjáum nú.

Til að reyna að koma til móts við það er Lucas ekki hleypt eins framarlega og “vængjum” tígulsins var hleypt í fyrra…og enn með sama árangri.

Hvað svo???

Hingað erum við komin, að velta fyrir okkur útfærslum á einföldum leik.

Leik þar sem umræðan er ansi oft um taktík, og tölurnar sem að fylgja ákveðnum leikkerfum. Ef við lesum viðtölin við Rodgers að undanförnu talar hann um að liðið hafi fundið sína sjálfsmynd á ný og hún rími við hans hugmyndir um “offensívan” fótbolta.

Það getur hann sagt nú, en klárlega var það ekki að sjá í ömurlegum frammistöðum Meistaradeildarinnar þar sem hægt er að rökstyðja að við höfum byrjað úrslitaleikinn gegn Basel með sjö varnarþenkjandi menn.

Ég er búinn að vera með þessa grein lengi í maganum en vildi eiginlega bíða eftir stóru prófi…sem kom í gær. Ég las alveg kommentið hans Martin Keown um það að ef að við stilltum upp 3-4-3 gegn Chelsea yrði okkur slátrað og hugsaði með mér…”alveg gæti það orðið”.

En eftir leikinn í gær þá er ég sannfærður um það að við munum ekki benda á leikkerfið ef að illa fer að ganga aftur. Til þess höfum við sýnt alltof góða leiki með það að vopni nú að undanförnu.

Að því sögðu, þá t.d. skildi ég alveg hvað Mourinho var að fara í viðtalinu í gær. Það eru ákveðnir möguleikar gegn þessu leikkerfi, bara nokkuð augljósir. Fáðu strikerinn þinn til að koma og halda bolta sem kemur langur, sendu fljótu kantmennina þína upp vængina, komdu boltanum á þá og svo flæða með seinni bylgju miðjumannanna þinna á liðið. Með Costa, Hazard, Willian og Fabregas hefur hann pottþétt hugsað þetta sem fínan möguleika. En þessir fjórir fengu eiginlega aldrei séns.

Ástæðan fyrir því er að með þessu kerfi hefur pressan fundist á ný…pressan sem skilaði okkur svo gríðarlega miklu síðasta vor. Það sem gladdi mig LANGMEST í gær var að sjá það að okkar menn hafa nú fengið sjálfstraustið til að pönkast endalaust í andstæðingum okkar og vinna boltann fljótt eftir að hann hefur tapast. Á meðan það gengur upp munu lið eiga mjög erfitt með að sækja á okkur. Jafnvel þó veikleiki kerfisins sé augljós og leikmennirnir séu færir um margt. Tempóið í hápressunni okkar bara einfaldlega kæfir.

Annað stórt atriði og rík ástæða fyrir góðu gengi er að með því að stilla upp þessari varnarlínu og Lucasi er búið að koma skapandi leikmönnum saman inn á völlinn, framarlega og með það að aðalmarkmiði að sækja, skapa og skora. Þegar t.d. Coutinho var hafður úti á kanti í 4-2-3-1 skein af honum vanlíðanin…sem og Lallana.

Þessi tvö atriði hafa verið dregin fram með þessari útfærslu á liðsuppstillingunni og áherslum sem þeim fylgir. Eins ótrúlegt og það virðist þá sýnist manni leikmenn sem hafa áður spilað önnur kerfi fá meira sjálfstraust nú þegar í þetta kerfi er komið. Emre Can svífur, Coutinho farinn að klobba aftur og Lallana virkar 20+ virði…sem var ekki alveg að gerast í haust.

Hvort við höfum nú fundið lausn sem mun virka til langs tíma er erfitt að svara. Sagan mun dæma um það hvort að tímabilið 10.sept – 10.des verður saga tímabilsins í heild með tilheyrandi vandræðum fyrir klúbbinn og stjórann eða hvort þá hófst tímabil sem keyrði aftur allt í gang.

Í umræddri leikskýrslu eftir Basel kallaði Kristján eftir stjóranum sem við sáum í fyrra, hann sagði í niðurlagi:

nú verður hann að gjöra svo vel og fara að sýna sig aftur því maðurinn sem hefur stýrt Liverpool FC síðasta hálfa árið er alls ekki hæfur til að gegna þeirri stöðu

Fullkomlega skiljanleg setning manns sem skrifaði um það þegar ævintýraendirinn dó á Anfield…ekki endilega allir sammála um hvaða leið klúbburinn ætti að fara en við vorum öll orðin þreytt á frammistöðunni.

Það er kannski bara við hæfi að það sem kickstartaði Brendan aftur í gang og varð til þess að snúa tímabilinu við verði 0-3 tap á Old Trafford í leik þar sem hann fikraði sig inn á breytingarnar sem ég hef farið yfir hér.

Þessi pistill styður líka við það sem að stjórinn hefur sagt í viðtölum. Í síðustu 80 leikjum eða svo hafa minnst fjögur leikkerfi verið útfærð undir hans stjórn…sem er nú bara býsna mikið. Hvað þá ef við t.d. horfum á hinn umtalaða José Mourinho sem hefur spilað sömu útfærslu sama leikkerfis í nærri 20 ár. Sem segir okkur kannski það að leikkerfið skiptir ekki eins miklu máli og það að vera með hágæðaleikmenn í heimsklassa?

Í mínu tilviki allavega þá finnst mér Rodgers hafa sýnt kjark með því að toga þessa kanínu upp úr hattinum og innblása klúbbnum öllum kjarkinn á ný, Anfield skoppaði í gær og við trúum því alveg að hægt sé að fara á PlastBrúnna og sækja þangað sigur.

Það eitt og sér segir annað tveggja, við erum veruleikafyllt….eða það að framundan er bara eitt….

POETRY IN MOTION!!!

38 Comments

  1. Snilldarpistill Maggi, svona skrif eru ástæða þess að ég les þessa síðu í hverri viku!

  2. Hrikalega góð grein sem setur kop.is á hærri stall, en aðrar fótboltasíður á Íslandi! Kunni sérstaklega að meta litlu myndirnar sem útskýrðu veikleika og styrki mismunandi kerfa.

  3. Takk Maggi! Mjög áhugaverd og vel skrifud grein. Greinilega mikil vinna hér ad baki.

  4. Ég á að vera að læra en þetta er svo miklu betra! Bíð spenntur eftir næsta podcasti.

  5. Hafa Hollendingar ekki spilað þetta kerfi eitthvað…er ekki Van Gaal með sama kerfi hjá United? Spyr sá sem ekki veit

  6. Vel gert Maggi, það eru svona pistlar sem gera kop.is að bestu fótboltavefsíðu í heimi.
    Kærar þakkir .

  7. Lesendur Kop.is að lokinni þessari grein:

    Bravó Maggi!

    Ég vil svo bæta við örfáum punktum:

    01: Við munum öll þau vandræði sem liðið lenti í með 4-2-3-1 í haust og hvers vegna það var ekki að virka (Balotelli gat ekki verið einn frammi, lið höfðu “fattað” hvernig átti að loka á Gerrard í quarterback, Lovren réði ekki við að stýra tveggja manna vörn, etc.) og ég var orðinn óþolinmóður að sjá Rodgers breyta þessu. Þegar hann svo loks gerði breytingar gegn Basel voru þær í öfuga átt við það sem ég kallaði eftir. Það er, mér fannst hann vera að fjarlægjast lausnina, og því örvænti maður.

    Þetta var liðið sem byrjaði gegn Basel:

    Hér er hann með gríðarlega hægt lið sem, eins og kom á daginn, gat nánast ekkert pressað. Henderson á vinstri kanti, Lambert einn frammi (og eins einangraður og ég hef séð striker í tíð Rodgers), Sterling úti hægri þar sem hann nýtist minna en í miðjunni (ekki síst í pressunni) og tveggja manna vörn sem var búin að vera vægast sagt ótraust í haust.

    Er það að furða að maður hafi örvænt? Hann var að reyna eitthvað hérna, þetta var nýtt kerfi frá leikjunum á undan, en hann bara valdi vitlaust, valdi að reyna að þétta og liggja aftar þegar hann hefði þurft að vekja upp pressuna.

    Það var það sem tókst svo strax í næsta leik, gegn United, og liðið hefur ekki litið til baka síðan. Það er lykillinn í þessu öllu, pressan.

    02: Næsti punktur hjá mér er að undirstrika mikilvægi Emre Can og Mamadou Sakho í þessu kerfi. Ég er sannfærður um að við gætum ekki spilað þetta kerfi svona vel ef Kolo Touré og Dejan Lovren væru sitt hvorum megin við Skrtel. Það sýndi sig líka á Old Trafford, þar sem Rodgers valdi Glen Johnson til að spila hægra megin í þriggja manna vörninni frekar en Kolo Touré (þar til Johnson meiddist, en þá prófaði hann Can í næsta leik á eftir frekar en að hafa Touré þarna).

    Mikilvægi þess að hafa boltaspilandi menn þarna, mönnum sem líður vel með boltann og skila honum vel frá sér, er vart undirstrikaður nóg. Lovren var í gríðarlegum vandræðum í þessari þriggja manna vörn á Old Trafford en síðan þá hefur Sakho komið inn og eignað sér stöðuna og sýnt okkur allt sem hann hefur og Lovren skortir. Ég er sammála Magga, ég vil sjá hvað Lovren getur þegar hann kemur inn aftur og hefur fengið smá tíma utan sviðsljóssins til að hugsa og ná áttum, læra á kerfið á æfingasvæðinu. En eins og Can, Skrtel og Sakho eru að spila er engin leið að hann komist í liðið nema einhver meiðist (sjö, níu, þrettán…)

    03: Eftir að Suarez fór höfðu menn miklar áhyggjur af mörkum og stoðsendingum sem töpuðust með honum. Við hefðum átt að pæla í þriðja atriðinu líka: hvernig myndi hápressan virka án hans? Hún er eitt það besta við Suarez (við sjáum Barca græða á henni núna, hann skorar minna þar en hefur frelsað Messi og Neymar og liðið er óstöðvandi um þessar mundir) og hennar söknuðum við að mínu mati meira en sköpunargáfu hans í haust.

    Svarið kom svo loksins í desember: Raheem Sterling. Hann er ekki eiginlegur framherji, þótt hann sé enn nógu ungur til að tileinka sér þá stöðu og er með fína tölfræði (4 mörk og 1 stoðsending í 7 leikjum sem framherji) síðan hann færði sig upp á topp. En það sem hann gefur liðinu enn frekar en mörk og stoðsendingar eru hreyfanleikinn og hápressan sem einkenndi Suarez. Sterling er sá leikmaður okkar í dag sem kemst næst þeim eiginleikum sem Suarez hefur og það er þess vegna sem það er frábært að hafa hann þarna (og líka þess vegna sem Borini er miklu betri þarna en Lambert eða Balotelli, því þótt hann sé takmarkaður fótboltamaður er hann mjög góður í hápressunni og mjög hreyfanlegur, eins og Suarez og Sterling).

    Ég er hæstánægður með að Rodgers hafi dottið niður á þessa lausn. Ég vildi breytingar, ég vildi sjá sókndjarfara lið en hann var með í haust og ég vildi sjá hápressuna snúa aftur. Rodgers færðist fjær því gegn Basel og þá örvænti ég en eftir einhverjar andvökunætur smíðaði hann gjörsamlega brilljant lausn fyrir þann leikmannahóp sem hann hefur úr að moða.

    Það eru enn spurningar við þetta kerfi sem verður áhugavert að sjá svörin við fram á vorið. Til dæmis:

    * Hvað með Sturridge? Hann pressar ekki eins og Suarez/Sterling, getur hann bara komið inn á toppnum fyrir Sterling eða þarf Sterling að vera með honum, og förum við þá aftur í 4-1-3-2?

    * Hvar passa þá Balotelli og Lambert inní þetta? Ef Balotelli á að fá frekari sénsa til að sanna sig, hvernig gerirðu það án þess að breyta kerfinu?

    * Ef/þegar Lovren kemur inn í liðið, hvar viljum við sjá hann? Vinstra megin, í miðjunni eða hægra megin? Eða bara á bekknum áfram?

    * Hvað hentar þessu kerfi best í hægri vængbakverði? Villtur og vinnusamur Markovic, agaður Manquillo eða sókndjarfur Johnson?

    * Af hverju er himininn blár?

    Allavega. Bravó Maggi, frábær grein! Ég hlakka til að sjá Liverpool spila næsta leik.

  8. Lærdómsrík umfjöllun!

    Gæðin eru svo mikil að maður lækar nær öll kommentin.

  9. Flott grein. Þetta kerfi minnir pínu á brasilíska kerfið á HM 2002 þar sem Ronaldinho og Rivaldo spiluðu fyrir aftan Ronaldo. 3 manna vörn og Cafu og Carlos á vængjunum. Þar spilaði Edmílson sem sweeper, sem Liverpool notar ekki, svo útfærslan er önnur en svipuð hugmyndafræði á bakvið kerfin.

    Brasilíska liðið 58 spilaði hinsvegar ekki 2-3-5 heldur hið alræmda 4-2-4. Þeir voru frumkvöðlar í að nota 4 manna vörn, en þaðan kemur brasilíska hefðin að nota sókndjarfa bakverði.

    Flott taktísk yfirferð, meira svona!

  10. Frábær pistill Maggi og greinilega töluverð yfirlega að baki, er að fara í gegnum svipað ferli hvað þetta kerfi varðar.

    Veikleikarnir finnst mér blasa við og þessi leikur gegn Chelsea var ekki stóra prófið þar fannst mér. Nánast öll lið sem mæta Liverpool leggja orðið upp með að sækja á þessa hripleku vörn okkar og við eigum í miklum vandræðum með lið sem gera það, sérstaklega núna þegar liðið á mjög erfitt með að skora og það vandamál er ekki horfið, en það hefur lagast. Mourinho lagði upp með að leggja rútunni alveg sem hentaði okkur mjög vel varnarlega eins og sást í leiknum en það sem var skemmtilegast að sjá var hversu vel Liverpool var að leysa þetta sóknarlega. Vörn Chelsea var óvenju oft opnuð í þessum leik. Góð lið sem spila með tvo menn á vængjunum og einn frammi (4-2-3-1) geta strítt okkur óttast ég.

    Persónulega er ég ennþá fúll yfir byrjun tímabilsins og spilamennskan í Meistaradeildinni er erfitt að fyrirgefa. Liðið er að spila núna í grunninn svipað og það var að gera með góðum árangri í fyrra og þó leikkerfið sé ekki eins þá er leikmannavalið núna mun nær því sem lagt var upp með á síðasta tímabili. Kaupin á Lambert og Balotelli er erfitt að skilja en að þráast við svona lengi með að nota þá var magnað. Það að setja Sterling fram er engin töfralausn sem ekki var búið að öskra á hann í þrjá mánuði (eða eftir að Sturridge meiddist). Það að gefa Borini ekki séns áður en Lambert var farinn að skríða um á vellinum er af sama meiði.

    Kristján Atli finnst mér koma með álíka góða viðbót og þá sérstaklega hvað varðar mannaval í dag. Leikkerfið skipti miklu máli auðvitað en fyrst og fremst er þetta leikmannavalið og Rodgers er núna loksins að detta niður á blöndu sem maður fer að fá trú á.

    Gerrard með Allen fyrir framan sig að verja miðvarðapar með Skrel við hliðina á Lovren eða Toure er ekki traustvekjandi og hvað þá ef báðir bakverðirnir við hliðina eru mjög sókndjarfir. Markmaðurinn síðan bundinn með meterslöngum spotta við markið. Frammi voru svo menn sem skiluðu nákvæmlega engu varnarlega (pressu) og við fengum ekki eitt hlaup innfyrir varnir andstæðinganna sem var aðalsmerki liðsins í fyrra. Menn eins og Sterling, Coutinho og Lallana hurfu á löngum köflum út á vængjnum á meðan Markovic komst ekki einu sinni í liðið. Það var hreinlega ekkert rétt við blönduna hjá Rodgers í upphafi tímabilsins og Rodgers á alveg jafn mikla gagnrýni skilið fyrir það hversu lengi hann var að vinna sig út úr því og hann á skilið hrós fyrir að detta niður á betri blöndu núna.

    Þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt enda meiðsli leikið okkur grátt, sumarglugginn var að hluta til misheppnaður (sóknarmenn) og það tekur alltaf tíma fyrir 8 nýja leikmenn að aðlagast.

    En í núverandi kerfi er a.m.k. fundið pláss fyrir Emre Can í liðinu sem er frábært, þetta er leikmaður sem þarf að spila sem allra mest. Sakho er loksins kominn í liðið og vex með hverjum leik, honum höfum við beðið eftir nánast síðan hann kom. Can hefur hraða og yfirferð til að hjálpa til framar líka sem og að bera boltann upp. Skrtel og Mignolet eru með þessu að fá mun meiri hjálp en þeir hafa fengið í tvö ár og þeir virka strax mun betri leikmenn.

    Nýtt líf Lucas Leiva er síðan engin tilviljun, hann er kominn í sína stöðu og hefur kraftmikinn mann með sér í Henderson. Lucas er 27 ára og meðan hann spilar svona eins og hann hefur verið að gera er ekki þörf á manni fyrir hann (Can er frábær varaskeifa í hans stöðu og tekur vonandi við í framtíðinni). Framliggjandi miðjumenn eiga mun erfiðara um vik núna heldur en undanfarin tvö ár.

    Markovic hefur verið frábær á hægri kantinum sem og Moreno, þeir fá mikla hjálp varnarlega frá bæði miðjumönnunum og miðvörðum og geta því tekið mun meira þátt í sóknarleiknum án þess að við fáum það alltaf í bakið. Plássið sem þeir skilja eftir er aðal veikleiki liðsins eins og Maggi útlistir vel en þetta opnar ekki nálægt því eins mikið og kerfi síðasta tímabils var að gera. Meðan vængbakverðirnir geta hlaupið eins og Moreno og Markovic og nýtast svona vel sóknarlega svínvirkar þetta kerfi. Blandan er líka góð að fylla þessar stöður með bakverði öðrumegin og kantframherja hinumegin og halda jafnvægi liðsins góðu þannig.

    Aðal kosturinn er svo hversu vel þetta hentar þeim fjölmenna hópi sem getur spilað í holunni hjá okkur. Coutinho, Sterling, Lallana og Gerrard eru allir betri á miðsvæðinu heldur en úti á kanti og geta allir opnað hvaða vörn sem er fái þéir augnablik til þess. Sterling er aftur kominn í svipaðan gír og á síðasta tímabili, Coutinho er mun stöðugri og nánast alltaf einn af okkar þremur bestu mönnum. Hann er sá sem leitað er að núna frekar en t.d. Gerrard áður (ekki að það hafi verið slæmt). Lallana er mun nær 20m leikmanni þó hann eigi líklega einn gír inni til viðbótar og Gerrard er þarna að spila sína stöðu á vellinum. Allir geta pressað af krafti og þegar Liverpool sækir eins og í síðasta leik er að ég held bara eitt lið sem getur staðist það, Chelsea. Náðist þó að galopna vörn þeirra einu sinni.

    Pressan er aðalatriði og því frábært að eiga góða breidd þarna. Ibe og Markovic geta síðan báðir leyst þessa stöðu einnig.

    Eina sem vantar er alvöru sóknarmann, Balotelli og Lambert henta illa nema þá sem varamenn ef prufa þarf eitthvað nýtt og Borini er ekki nógu góður þó hann henti betur en hinir tveir. Sturridge ætti að passa strax þarna inn og Sterling er að bæta sig í hverjum leik sem framherji. Ég verð mjög hissa ef Balotelli, Lambert og Borini verði ekki allir farnir í lok ágúst. Þeir henta illa í öll kerfi sem manni langar að sjá hjá Liverpool.

    Ég veit ekki hvort þetta kerfi sé komið til að vera og er ennþá ekki alveg sannfærður en þetta virkar klárlega betur en það sem við höfum verið að nota og gott að eiga þetta a.m.k. í vopnabúrinu ef Rodgers uppfærir sína taktík eitthvað í náinni framtíð. Þetta fer auðvitað mest eftir því hvaða leikmenn hann hefur til umráða hverju sinni.

    En takk aftur fyrir frábæran pistil

  11. @Maggi

    “En mér er ekki minnisstætt að sjá þetta leikkerfi sem við hófum þarna að spila svo glatt áður. Endilega leiðréttið mig ef menn þekkja til liðs með einn senter og tvo frjálsa sóknarmenn undir honum í þriggja manna vörn.”

    Síðustu árin er það helst Mazzarri með Napoli sem stillti upp 3-4-3 með Cavani fremstan og Lavezzi og Hamsik í frjálsum sóknarrullum fyrir aftan. Conte með Juventus var líka með þrjá hafsenta en var oftar með 3-5-2 heldur en 3-4-3. Roberto Martinez svissaði einnig í 3-4-3 með Di Santo fremstan en Moses og Maloney fyrir aftan. Ávallt talað um að sú taktíska breyting hafi bjargað Wigan frá falli vorið 2012. Einnig hefur Bielsa með sín lið oft spilað með 3 aftast en með mjög mismunandi útfærslur fram á við, stundum 3-3-1-3 með Chile og þá með einn stræker fremstan en með vængframherja sitt hvoru megin.

    Ég hef alltaf verið hrifinn af þriggja hafsenta kerfi síðan Þýskaland vann EM 1996 með 3-4-1-2 og svo sem líka HM 1990 með 3-5-2. Með rétta mannskapnum þá er þetta hið fínasta kerfi en það reynir alltaf mikið á að vera með þindarlausa vængbakverði sem geta bæði sótt og varist. Í nútímanum er einnig mikilvægt eins og Maggi og Kristján Atli nefna að hafsentarnir hægra og vinstra megin séu vel spilandi á bolta og hafi taktískt nef til að spila stöðuna rétt. Ef þessir þættir eru til staðar þá gengur þetta vel upp og í raun kerfi sem er hægt að spila mjög sókndjarft með því að færa bakverðina mjög hátt upp eða að skella í lás varnarlega með því að draga þá djúpt niður.

    En taktík ein og sér eru bara tölur á blaði og aðalatriðið er auðvitað að þjálfari sé að notast við það kerfi sem hentar styrkleikum síns mannskaps til að ná sem mestu út úr honum. Ansi margir hjá LFC virðast smellpassa í hlutverkin í kerfinu og við það batnar frammistaðan, viljinn til að pressa, sjálfstraustið eykst og trúin á sinn stjóra sem gerði breytinguna. Manni finnst t.d. van Gaal þrjóskast við 3 hafsenta kerfi sem hentar hans leikmönnum afar illa og það bitnar á frammistöðunni. Sama má kannski segja um Rodgers í CL og í öðrum leikjum þar í kring þegar gekk sem verst. Því var það merki um hugrekki og styrkleika hjá Rodgers að bregðast við á róttækan hátt og skipta í kerfi sem honum hefði verið slátrað fyrir ef þetta hefði ekki gengið upp. En eins og er þá er hann að vinna veðmálið og á hrós skilið fyrir það.

    Afar fín grein hjá Magga og kærar þakkir fyrir hana.

    YNWA

  12. Smá viðbót:

    Guardiola hefur einnig verið að prufa sig áfram með 3 hafsenta hjá Bayern. Á undirbúningstímabilinu virtist 3-4-3 vera það kerfi sem mest áhersla var lögð á eins og þessi grein ber með sér.

    http://www.bavarianfootballworks.com/2014/8/5/5960443/pep-guardiola-bayern-munich-tactics-3-4-3-formation-lineup

    Þar var Lewandowski fremstur en með tvo sókndjarfa í holunni. Eftir að Alonso var keyptur í lok ágúst jókst taktískur sveigjanleiki Bayern með hann í liðinu og Guardiola hefur verið að rótera á hefðbundnum 4-2-3-1 / 4-3-3 yfir í 3 hafsenta kerfi með 3-4-2-1 eða 3-5-2.

    T.d. var 1-7 slátrunin á Roma í Rómaborg með 3-5-2 taktík, en 6-0 sigurleikur gegn W.Bremen beint á undan Roma-leiknum var með 4-3-3 en leikurinn þar áður var 4-0 sigur á Hannover með 3-4-3 taktík. Liðin sem mæta Bayern hafa því ekki hugmynd um hvaða taktík Guardiola er að fara að beita, hversu margir hafsentarnir verða eða hver útfærslan er.

    http://www.si.com/soccer/planet-futbol/2014/11/17/bayern-munich-inside-superclubs-tactics-pep-guardiola

    Spurning hvort að Rodgers hafi eitthvað verið að fylgjast með þessari spænsku tilraunamennsku í Bæjaralandi þegar hann fékk innblásturinn að sínum taktísku breytingum. Ekki leiðum að líkjast í það minnsta 🙂

  13. Mjög góð grein er sammála Peter Beardsley að það er ákveðin Bielsa fýlingur yfir þessari taktík. Þessi taktík hentar flestum okkar leikmönnum sem dæmi þá finnst henta Sakho betur að spila í 3 manna vörn, enda hefur hann varla stigið feilspor eftir að hann kom inní þessa stöðu. Þetta kerfi hentar hins vegar bæði Ballotelli og Lovren illa og eg sé þá ekki komast inni í liðið inní þetta leikkerfi.

  14. Frábær umræða, takk fyrir það.

    Sérstaklega gaman að heyra í mönnum sem að hafa séð þetta kerfi á öðrum stöðum, hef ekki horft mikið á Bielsa og hans lið, reyni það núna.

    Mér finnst kerfið töluvert frábrugðið “venjulegu” 3-5-2, einmitt út af uppleggi eins og sést hjá Van Gaal þar sem hafsentarnir vinna frekar þröngt og vængmennirnir þurfa að hlaupa endalaust og miðjuþríhyrningur er jafnvel tveir fyrir aftan einn. Snilldin í þessu kerfi er einmitt hvernig hápressan í bland við “víða” leiksýn hafsentana og sópið hjá Lucasi.

    En eins og Babú segir þá gæti vel verið að þetta kerfi verði fundið út. Við áttum “off-tíma” í 20 mínútur gegn Leicester og SHIT hvað við litum þá illa út, skipulagslausir og ráðalitlir. Ítreka það að ég er handviss að sá leikur var vídeóklippaður í ör-ræmur og varnarleikurinn skoðaður. Mourinho benti á veikleika sem eru nokkuð augljósir, en á meðan við höfum orkuna í að pressa eins og gegn Chelsea þá gengur þetta. En hvort okkur tekst það í 60+ leiki á tímabili verður önnur saga.

    Svo er að mínu mati ljóst að ákvörðun Rodgers í haust með að fara í 4-2-3-1 var hefðbundin “skynsemisákvörðun”. Sóknarbroddurinn farinn, best að vera varkárari…sérstaklega í Evrópu. Það hversu illa það floppaði verður vonandi til þess að hann hugsar sér þetta aldrei aftur!

    Spuringar Kristjáns eru einmitt mjög flott innlegg og erfitt að svara þeim, einfaldara að spyrja fleiri, hvað með Allen? Við verðum að rótera Lucas, fer Emre Can þangað inn? Hann þarf líka hvíld sko…eða þá Gerrard?

    Varðandi svör við því sem Kristján er að spyrja þá held ég að Lambert hafi verið á þeim stað sem Rodgers hugsaði í þeim leik, koma inná þegar tempóið hefur minnkað, haug-skynsamur gaur sem er fínn í að halda bolta og klára færi. Hann var aldrei hugsaður sem striker númer 1 eða 2…ekki honum að kenna að svo varð.

    Ég held hins vegar að Balotelli og Borini fái ekki marga sénsa ef þetta verður kerfið, Balo fyrir hversu slakur hann er að pressa og Borini því hann er ekki nógu teknískur. Ég sé Sturridge steinliggja í þessu kerfi, hann var miklu betri í lok leiktímabils í pressunni og með Hendo og Gerrard fyrir aftan sig gjammandi hleypur hann örugglega.

    Það verður gaman að sjá hvernig uppleggið verður gegn Bolton, þar verður að hvíla einhverja og fróðlegast mun mér finnast að sjá hvort leikkerfið verður eins þrátt fyrir leikmannabreytingar og þá líka hvernig leikmenn sem fá sénsinn koma út úr því!

    En aftur, frábærir punktar og góð umræða….það finnst mér skemmtilegt að sjá!

  15. Er eitthvað til í að Lucas sé að fara til Inter?…get ekki séð að það sé frábær bisness, hann er lykilmaður í okkar liði.

  16. Skemmtileg lesning og pælingar hr Skólastjóri og HR markmaður. 😉

    Liðið okkar er líka allt öðruvísi mannað heldur en á síðasta tímabili, og við með öðruvísi leikmenn líka.

    Ég tek svo undir með # 24 hérna, er það eitthvað grín að forráðamenn Inter séu komnir til Liverpool til þess að ræða um kaup á Lucas ?????? WTF ???? er einhver niðurrifsstarfsemi komin í leikmannastefnuna hjá okkur ?

  17. I love it!!

    Taktíknördaumræða af allra bestu gerð. Alveg æðislegt. I love it!

    Fyrir það fyrsta: pistill af bestu gerð. Skrifaður af mikilli þekkingu, reynslu og innsýn í fótboltann.

    Ekki eru kommentin síðri hérna, sérstaklega ber að nefna Kristján Atla, Babú og Peter Beardsley. Eykur við þekkinguna. Ég er sérstaklega sammála Babú í hans kommenti.

    Örfáir punktar sem mér finnst þurfa að leggja áherslu á:

    1) Færslan á varnarlínunni + Lucas þegar sótt er að liðinu – “tactical awereness”. Maður sér vel að bæði Can og Sakho er leyft að loka vel svæðum úti á köntum þegar Markovic og Moreno eru of framarlega. Þá færir Skrtel sig og haffsentinn hinum megin líka. Lucas kemur svo og þéttir pakkann þannig að de-facto fer annar haffsentinn í bakvarðarstöðuna um tíma, Lucas þéttir fyrir framan tvo haffsenta og áhyggjur af hinum kantinum eru óþarfar þar sem andstæðingurinn er vanalega það aftarlega að ekki tekst að koma kantmanninum hinum megin upp líka.

    2) Það sem hefur sést vel, sérstaklega frá Can, eru svona hálfgerð bakvarða-rönn. Hann tekur rokur upp völlinn og getur gert það óhræddur því hann er þá alltaf með Sakho og Skrtel fyrir aftan sig, og Lucas hinkrar þá líka.

    3) Mikilvægi Lucas Leiva. Ég get ekki hætt að tala um það. Kannski greinir okkur Magga kannski helst á hér, því ég held að hann sé lykillinn að þessum árangri, jafnvel enn frekar en þessi taktíska breyting. Það er erfitt að rökstyðja það því breytingarnar urðu á sama – eða svipuðum tíma.

    4) Tek undir með Babu og Kristjáni Atla, það sem margir sáu hér og orðuðu hér á spjallborðinu: Inn með Lucas, inn með Borini eða Sterling. Reyna að koma upp spilamennsku og pressu eins og í fyrra. Hraðan striker og duglegan, sem líkastan Suarez þótt gæðin séu nokkrum deildum neðar. Rodgers hefur frekar valið Sterling, sem hefur virkað ágætlega.

    5) Það er óþarfi að vera mikið í “I told you so” leik. Þessi umræða er laus við það og það er frábært. Það eru fjölmörg atriði sem Brendan Rodgers veit um ástand hópsins sem við vitum ekki. Það er miklu auðveldara að sitja bara í sófanum og vera vitur eftir á, þurfandi ekki að leysa ýmsan vanda á æfingasvæðinu, persónulega með leikmönnum og öllu sem þeim fylgir.

    Ítreka að lokum innilegar þakkir fyrir frábæran pistil og umræður. Verst það er svo mikið að gera núna að pistillinn verður fljótt kominn neðarlega á síðuna. Kannski hugmynd að henda honum aftur efst þegar umræðu um seinni leikinn við Chelsea er lokið.

  18. Sæl öll,

    Flottur pistill.

    Þegar BR stillir upp í 4 manna varnarlínu finnst mér hann alltaf setja miðverðina allt of langt út á vængina í sóknaruppleggi miðað við hvað þeir eiga að vera hátt uppi. Það sást best þegar Gerrard rann á móti Chelsea hvað svakalega langt var í miðverðina. Núna virðist BR aftur á móti vera búinn að finna jafnvægi í liðið þannig að það bæði pressar meira og fær færri mörk á sig (reyndar aðeins náð jafntefli gegn liðum sem við viljum vera keppa við og misstu leik niður í jafntefli á móti neðsta liði deildarinnar). Það er óskandi að velgengnin haldi áfram og það kemur til með að reyna á þetta upplegg í næstu umferðum í deildinni. Vonandi gengur þetta upp því ég býð ekki í það hvað gerist ef BR verður aftur jafn lengi að finna lausnir og í haust ef illa fer að ganga.

    Þetta er auðvitað ekkert nýtt upplegg eins og bent hefur verið á að ofan. Einnig er það alveg ótrúlegt hvað þetta 4-2-3-1 upplegg hefur tröllriðið flestum deildum í vestur Evrópu. Hvort munurinn á liðinnu er leikkerfið eða leikmenn eða jafnvel beggja bland getur verið erfitt að meta utan frá. Í gegnum sjónvarp finnst mér stærsti munurinn á Liverpool núna og í haust vera vinnuframlagi leikmanna, það var eitthvað mikið að! Miðjumenn Liverpool gátu ekki komið boltanum yfir miðjulínuna, sóttu ekki fram á við og þeir pressuðu andstæðinginn ekkert. Bolti hékk í öftustu línu og ekkert var að gerast. BR var allt of lengi að bregðast við slæmu gengi og við það er ég bara hræddur.

    Á meðan Liverpool getur ekki keppt um bestu leikmenn á markaðinum og þarf, og yfirlýst stefna eigenda ætlar að selja leikmenn á réttum tíma, verður stjóri Liverpool einmitt að vera mjög klókur taktíkst og fljótur að bregðast við. Hvað það var sem BR var svona hræddur við eftir að hafa selt einn leikmann og annar var meiddur fær maður líklegast aldrei að vita. Af hverju var ekki hægt að halda áfram þar sem frá var horfið í vor með þá leikmenn sem til eru núna? Hverju sem því líður að þá var BR að mínu mati allt of lengi að bregðast við slæmu gengi í haust. Það gargaði allt á að breyta upplegginu frá því sem að hann taldi best eftir að hafa misst Suarez og Sturridge. Það verður samt ekki tekið af BR að þegar hann finnur réttu blönduna er mjög gaman að horfa á þann fótbolta sem hann vill að lið hans spili.

    Ef núverandi upplegg skilar okkur góðu “runni” að þá hefur maður tvö tímabil í röð séð BR leggja upp liðið þannig að mjög skemmtilegt er á að horfa og skilar stigum í hús. Ef það verður raunin, er ég tilbúinn að gefa BR langan tíma til að öðlast reynslu sem vonandi gerir hann djarfari í ákvörðunum. Reyndar verður hann þá á móti að lofa að fara ekki til Spánar við fyrsta tækifæri eins og hann hefur sjálfur sagst vilja prufa.

  19. Langar einnig að benda á þá staðreynd að Liverpool hefur ekki tapað leik síðan að Allen datt út úr liðinu og Lucas kom inn. Hann byrjaði einmitt í seinasta tapleik.

  20. Sælir félagar

    Takk fyrir þetta Maggi frábær grein og greining.

    Það er nú þannig

    YNWA

  21. Takk kærlega fyrir þetta!

    Sýnir enn og aftur hvað Kop.is er mikil yfirburðarsíða þegar kemur að umfjöllun um knattspyrnu, og þó víða væri leitað!

  22. Þvílík snilld. Takk fyrir !!!

    Enn og aftur eru Þið snillingar à KOP.is að hækka standardinn !

    God bless you, one and all….
    :o)

  23. Vá.

    Er hægt að bæta einhverju við? Ég held ekki. Það hitta allir naglan með höfðinu hérna.

    Ég reyndar hef tekið eftir einu og ég held að það sé aðal ástæða þess að Migno líti hrikalega vel út. Hann er farinn að bomba boltanum í burtu þegar hann fær hann. Ef hann hefur tíma og pláss, þá tekur hann við honum en hann er farinn frá honum á sömu sekúndu. Hættur þessu rugli að taka léleg touch og senda hann út á Skrtel/Lovren með mann andandi í hálsmálið á sér. Það vissu það allir að hann væri góður markvörður. Hefur sýnt framfarir í úthlaupum og hættur að búa til óþarfa vesen á liðsfélaga sína. Klassi.

    Ég skil það vel að Inter vilji Lucas. Örugglega besti varnar-sinnaði miðjumaður síðustu vikna, þó ég hafi enga hugmynd um það hvernig Kroos, Pogba, Mascha, Vidal og fleirri ágætir menn hafi staðið sig. Það má samt ekki gerast, hann er algerlega lykillinn að velgengi Liverpool síðustu 14 leikja að mínu mati.

    Takk fyrir þennan frábæra pistill.
    YNWA

  24. Smá off topic. Nú var QPR boðið að fá Alexander Pato en neituðu. Hvað gerðist við þennan dreng? Meiðsli? Hann er bara rétt svo 25 ára. Getur hann eitthvað ennþá, væri ekki fínt að fá hann til okkar bara. Hann var sá allra magnaðasti fyrir nokkrum árum.

  25. Talsvert háværir orðrómar um Benzema til Liverpool fyrir 38 milljón £ á Twitter. Væri gaman en maður þorir ekki að trúa því.

  26. Nr. 35 og 36
    Eruð þið að renna fyrir 3-5 ára gamalt slúður? Pato og Benzema. Það er eins og allir metnaður sé horfinn úr þeim sem rembast við að fá athygli á þessum árstíma út á skáldað félagsskiptaslúður.

  27. Nei Babu ég var að renna yfir slúðrið í dag, sagði aldrei það hefði verið að orða hann við okkur. Þetta voru bara smá pælingar hjá mér, sorry með mig.

Liverpool – Chelsea 1-1

Bolton í bikarnum