Knattspyrnuaðdáendur um allan heim hafa heyrt um Kop-stúkuna á Anfield Road, líklega sögufrægustu stúku knattspyrnuheimsins þar sem harðasti kjarni stuðningsmanna Liverpool er samankomin á heimaleikjum. Kop-stúkan er gríðarlega stór partur af sögu félagsins og er hún líklega litlu minna þekkt heldur en völlurinn sjálfur. Kop-stúkan er í fullu fjöri enn í dag en saga hennar er þó meira en aldargömul og sagan á bak við nafnið er ennþá eldri og engu minna merkileg. Mörg okkar þekkja þessa sögu ágætlega, bæði hvaðan nafnið er komið og eins hvers vegna stúkan er svona stór partur af sögu félagsins.
Spion Kop-nafnið var komið og orðið partur af Anfield Road áður en búið var að byggja þar stúku og reyndar eru fjölmargir vellir á Bretlandseyjum með stúku sem ber sama nafn og hafa jafnvel gert í meira en heila öld. Það var ekki einu sinni á Anfield Road sem Spion Kop var fyrst notað til að nefna stúku á knattspyrnuleikvangi. Þar hins vegar hefur Spion Kop orðið stór og órjúfanlegur partur af knattspyrnusögunni og þá auðvitað sérstaklega sögu Liverpool FC.
Áður hef ég farið yfir tengingu Liverpool við lagið You’ll Never Walk Alone og eins skoðaði ég ítarlega tengingu Liverpool við knattspyrnuleikvangana Heysel og Hillsborough. Spion Kop hlýtur að vera næst í röðinni og hef ég verið með það í maganum í nokkurn tíma að skoða einnig sögu stúkunnar sem er ennþá órjúfanlegri partur af sögu félagsins. Við erum jú að halda úti vefsíðunni Kop.is. Sagan á bak við Spion Kop er mun viðameiri, merkilegri og flóknari en mig óraði fyrir í upphafi.
Spion Kop er eins og kunnugt er fjall í Suður-Afríku sem komst í sögubækur er margir breskir hermenn féllu þar í frægum bardaga í Suður-Afríkustríðinu, betur þekkt sem Seinna-Búastríðið sem háð var á árunum 1899-1902. Margir þeirra hermanna sem féllu á Spion Kop voru frá Lancashire og er nafnið tileinkað minningu þeirra, Liverpool var á þessum tíma partur af Lancashire-sýslu (um aldamótin 1900) og margir af þeim sem féllu voru því þaðan. Mikið dýpra er oftast ekki farið ofan í tengingu stúkunnar við fjallið en mig langaði til að kafa aðeins dýpra og skilja betur afhverju þetta 1460m háa fjall í Suður-Afríku var svo nærri hjarta almennings í Bretlandi í upphafi síðustu aldar, svo nærri að fjölmargar stúkur voru nefndar eftir þessu tiltölulega ómerkilega fjalli. Hverjir voru Búar sem Bretar voru í stríði við og af hverju áttu þessar þjóðir yfir höfuð í stríði?
Til að skilja söguna á bak við Búastríðið þarf að þekkja sögu þessa landsvæðis sem í dag kallast Suður-Afríka, það er ekkert nýtilkomið að pólitík á þessu svæði sé snúin.
Búar
Frá 1602 fóru innflytjendur frá ýmsum Evrópulöndum að setjast að á Góðravonarhöfða syðst í Afríku, þaðan færðu þeir sig á hentugra landssvæði sem í dag kallast Höfðaborg (Cape Town). Þetta voru aðallega innflytjendur af hollenskum uppruna ásamt Frökkum og Þjóðverjum sem settu upp áningarstað fyrir hollenska Austur-Indíafélagið sem sigldi þessa leið frá Evrópu til Indlands, Kryddleiðina.
Um 1800 voru þetta um 40 þúsund manns sem blandast höfðu saman frá mörgum löndum í Evrópu og lifðu tiltölulega í sátt og samlyndi framan af. Tungumálið var í grunninn hollenska en þróaðist með tungumálum annarra innflytjenda frá löndum Evrópu og fékk nafnið Afrikaans sem er eitt af fjórum algengustu tungumálum Suður-Afríku í dag. Fram til ársins 1815 var svæðinu stjórnað frá Amsterdam utan nokkurra ára er Bretar fóru með völdin (1795-1803). Bretar tóku aftur völdin 1815.
Upphaflega voru allir innflytjendur á vegum hollenska Austur-Indíafélagsins og greiddu þangað skatta og lutu stjórn stjórnvalda í Höfðaborg. Af og til var mönnum gefið leyfi til nýta landsvæðið utan Höfðaborgar og hefja sinn eigin búskap, þó alltaf undir þeim formerkjum að hægt væri að kalla þá aftur í þjónustu Austur-Indíafélagsins væri þess krafist og sama gilti um afkomendur þeirra. Eins þurftu þessir „frjálsu“ bændur að greiða skatta af afkomu sinni og lúta stjórn Hollendinga.
Þannig þróaðist allt að því meðfædd andúð Búa á hinu opinbera (kerfinu) en Búar undu hag sínum verr því lengra sem þeir færðu sig frá Höfðaborg. Þeir voru að mestu sjálfbærir í búrekstri sínum og börðust við innfædda um landssvæði án aðstoðar frá Höfðaborg. Hollenska Austur-Indíafélagið hélt þó nokkurn veginn velli í um 200 ár.
Búar voru afar sjálfstæðir og þróuðu með sér aðlögunarhæfileika sem líklega fáir hafa leikið eftir og áður en til Búastríðanna kom höfðu þeir barist við innfædda í rúmlega heila öld og verið ágætlega sjálfbærir. Þessir flutingar upphaflegu innflytjendanna frá Evrópu, burt frá ofríki stjórnvalda í Höfðaborg, gerðust ekkert á einni nóttu, þeir hófust um miðja 18. öld og færðust meira og meira í aukana eftir því sem leið á öldina.
Búar (Boer) þýðir einfaldlega bændur á Hollensku og nafngiftin er tilkomin vegna þess að Búar voru bændastétt hollensku innflytjendanna. Þeir sem fluttu sig frá Höfðaborg á 18. og 19. öld voru kallaðir Trekboer eða einfaldlega Farandsbædur.
Landssvæðið sem Austur-Indíafélagið stjórnaði stækkaði ört og fjölgaði við það sífellt árekstrum við innfædda sem herjuðu bæði frá suðri og vestri. Búar voru á milli og nutu engar verndar fyrir árásum infæddra en þurftu engu að síður að greiða skatta og lúta stjórn Austur-Indíafélagsins áfram án þess að eiga mikil samskipti við það samfélag lengur.
Swellendam og Graaff Reinet
Aðalkrafa Búa var frelsi og ferðuðust þeir langt inn í landið í leit að einmitt því. Árið 1795 fengu þeir nóg af afskiptum Austur-Indíafélagsins og stofnuðu sín eigin ríki á tveimur stöðum utan þeirra landamæra sem tilheyrðu Austur-Indíafélaginu. Aðdragandinn að því var sá að Frakkar höfðu hertekið Holland og Austur-Indíafélagið var á hausnum. Búar nýttu sér tækifærið og stofnuðu eigin ríki en misstu völdin á fljótlega er Bretar sendu herlið til að taka við stjórn Austur-Indíafélagsins af Hollendingum og tóku með því völdin í Höfðaborg. Bretar fóru með völdin næstu átta árin (1795-1803) og voru mun ágengari en Hollendingar. Þar byrjuðu strax árekstrar því Búar vildu ekki lúta stjórn Breta og gerðu tvisvar uppreisn gegn þeim á þessum árum, án árangurs.
Búar sögðu sig frá Austur-Indíafélaginu 1795 og lýstu yfir sjálfstæði á bæði Swellendam og á Graaff Reinet (sjá mynd). Bretar innlimuðu þessi svæði þegar þeir náðu stjórn á svæðinu og stækkuðu þannig umráðasvæði sitt á Höfðanýlendunni (Cape Colony/Stellenbosch).
Kaapstad á kortinu hér að ofan er Höfðaborg og sést þar hvernig umráðasvæði hollenska Austur-Indíafélagsins stækkaði, oftar en ekki voru það Búar sem ruddu brautina inn á ný landssvæði sem voru svo innlimuð seinna og sama þróun byrjaði á ný, lengra inn í landið. Búar voru því sannarlega farandbændur og ræktuðu sama landið sjaldan lengi í einu. Þeir þróuðu með þessu ótrúlega aðlögunarhæfni sína í mismunandi aðstæðum.
Orange Free State og Transvaal
Búar sættu sig aldrei við stjórn Breta og til að gera langa sögu stutta þá fluttu um tólf þúsund Búar sig frá Höfðaborg yfir til nýs og gjöfuls landssvæðis á austurströndinni árið 1838. Ný lög í Bretlandi bönnuðu þrælahald á árunum 1837-38 og kippti þetta fótunum illa undan Búum sem höfðu farið eftir þeim gömlu landshöfðingjalögum Hollendinga að kasta eign sinn á allt landið og gera hina innfæddu að leiguliðum sínum eða þrælum.
Það að missa tólf þúsund manns var töluvert högg fyrir 40 þúsund manna samfélag. Reyndar hófu Búar undirbúning að landflutningum sínum strax árið 1832, bæði vegna andúðar á stjórnarháttum Breta og eins vegna þess að þeir voru að verða uppiskroppa með landssvæði til að rækta. Flutningarnir (Great Trek) fóru eins og áður segir fram sex árum eftir að fyrstu drög voru gerð að þeim og hentugt landssvæði kannað. Frá suðurströndinni fluttu þeir sig yfir á austurströndina og tók ferðalagið nokkra mánuði. Þar settust Búar að á landsvæði sem heitir Natal. Gjöfugt land með nóg af vatni og fáum íbúum, áningastaðurinn var þar sem nú er stórborgin Durban.
Bretar hindruðu ekki för Búanna enda voru þeir í raun brautryðjendur fyrir þá og hófust handa við að yrkja landið og byggja rétt eins og þeir höfðu gert áratugum saman á Höfðanýlendunni. Nokkrum árum seinna fylgdu svo Bretar á eftir og náðu völdum í Natal árið 1843 eftir blóðug átök við Búa sem tóku til varna.
Búarnir færðu sig því enn um set á nær óbyggð landssvæði og skiptust nú í tvær fylkingar og námu tvö landssvæði; annað þeirra var beint vestur af Natal og fékk nafnið Orange Free State og hitt var norður af Natal og fékk nafnið Transvaal. Þar festu Búar loks rætur og stofnuðu sín frjálsu ríki sem náðu góðri fótfestu allt þar til kom í ljós hvaða auðlindir þau höfðu að geyma.
Togstreita Búa og Breta hefst fyrir alvöru
Búar fengu ekki að vera í friði lengi þrátt fyrir friðarsamninga við Breta sem samþykktu hin nýju ríki (Orange Free State og Transvaal) árin 1852 og 1854. Helstu ástæður þess að Bretar vildu ná yfirráðum á svæðinu sem í dag heitir einfaldlega Suður-Afríka eru taldar vera þrjár:
Fyrst tóku þeir við Höfðaborg og því landsvæði af Hollendingum til að tryggja hina mikilvægu siglingaleið á markaði í Asíu. Sama ástæða og fékk Hollendinga til að setjast þar að til að byrja með.
Önnur ástæðan og sú er snýr að Búum og stríðunum við þá er að þer vildu ná yfirráðum yfir demantsnámum sem Búar fundu 1867 á landamærum Transvaal, Orange Free State og Höfðasvæðinu (Cape Colonies) sem var undir stjórn Breta. Demantarnir fundust á svæði sem var innan landamæra Transvaal og Orange Free State.
Smábærinn Kimberley breyttist í 50 þúsund manna borg á fimm árum og sannkallað demantsæði greip um sig. Fólk alls staðar að úr heiminum flutti til Transvaal og landið gjörbreyttist, Búum var að takast að verða sjálfstæð þjóð. Bretar vildu sinn part af kökuni og tóku yfir svæðið þar sem demantarnir fundust eftir 1870.
Búar áttu á sama tíma í stríði við innfædda (Zulu) á öðrum vígstöðum og gátu því ekki varist yfirtöku Bretanna til að byrja með. Tæplega tuttugu árum seinna (1886) fannst gull í Transvaal og sama þróun hófst á ný þar til endanlega uppúr sauð.
Þriðja ástæðan er sú að Bretar voru í kapphlaupi við aðrar evrópskar nýlenduþjóðir sem voru að taka yfir stór landssvæði í Afríku. Portúgalir, Belgar, Þjóðverjar og Frakkar áttu landssvæðin í kring. Landssvæði Búa voru fyrir Bretum, stærsta heimsveldinu sem áttu orðið nýlendur allt frá Egyptalandi og niður eftir Afríku. Búar voru t.a.m. með áform uppi að byggja lestarteina til austurs í átt að hafi þangað sem Portúgalir höfðu yfirráð. Þetta hefði dregið verulega úr mikilvægi Breska heimsveldisins á svæðinu og hugnaðist þeim það illa.
Suður-Afríka eftir 1854, Búar stjórnuðu Transvaal og Orange Free State. Mozambique (Mósambík) var undir stjórn Portúgal og þangað vildu Transvaal-menn leggja lestarteina.
Bretar nýttu sér aðstæður árið 1877 og tóku yfir Transvaal. Búar voru milli steins og sleggju þar sem fjölmennur og öflugur her Zulu-þjóðflokksins ógnaði öðrum megin og Bretar hinum megin. Búar vildu ekki ráðast á Bretana vegna ótta um að það myndi opna fyrir Zulu-mönnum að herja á þá hinum megin. Stríðið við Zulu-menn var m.a. vegna umræddra lestarteina; þeir áttu að liggja í gegnum land ættbálka innfæddra sem hugnaðist það ekki og gripu til vopna. Bretar, með aðstoð herdeilda frá Indlandi og Bretlandseyjum auk heimamanna (Búa), börðust árin á eftir við heri innfæddra og sigruðu þá 1879. Samið var um frið, Zulu-menn héldu sínu landssvæði, engir lestarteinar voru lagðir á þeirra landi og fjölmennar herdeildir Breta héldu til síns heima.
Þetta er stutta og einfalda útgáfa langrar og flókinnar sögu fram að Búastríðunum. Þarna skautum við framhjá átökum við innfædda sem voru fyrir á þeim landssvæðum sem Búar byggðu. Reyndar voru evrópsk heimsveldi að leggja undir sig öll lönd Afríku í eins konar kapphlaupi.
Búar voru engir englar en Bretar voru það svo sannarlega ekki heldur. Bresku hermennirnir voru auðvitað bara að sinna sínum skyldum en í huga Búa voru þeir í fullum rétti að verja sín landssvæði og trúðu að almættið myndi ekki láta þá tapa sinni frelsisbaráttu. Eitthvað höfðu þeir til síns máls enda fékk breska krúnan ekki áhuga fyrr en þarna fannst bæði gull og demantar.
Bretar fóru þá loks af fullum þunga í stríð við þjóðflokk sem reyndist heldur betur erfiðari andstæðingur en búist var við. Búar satt að segja niðurlægðu Breta og höfðu varanleg áhrif á hernað framtíðarinnar, eitthvað sem gagnaðist Bretum snemma á síðustu öld er þeir börðust í fyrri heimsstyrjöldinni.
Fyrra Búa stríðið
Búar voru alls ekki sáttir við hertöku Breta í Transvaal enda brot á samningum frá 1852 um sjálfstæði. Þeir gerðu að lokum uppreisn árð 1880 og er hún jafnan kölluð fyrra Búastríðið.
Búar höfðu engan eiginlegan her, bara bilaða þjóðerniskennd og margra áratuga reynslu af bæði átökum og eins því að veiða sér til matar. Búar börðust með því að mynda litla skæruhópa sem völdu sér leiðtoga, hver og einn kom eins klæddur og hann vildi, jafnan klæðnaði sem féll vel að landslaginu eða var lítið áberandi. Þeir komu með sín eigin skotfæri og sinn eigin hest. Búar höfðu nánast alltaf átt líf sitt undir bæði hestinum og rifflinum, hvort sem þeir voru að veiða sér til matar eða í átökum við heri innfæddra sem jafnan vildu berjast í návígi, þ.e. voru ekki eins vel vopnum búnir og Búarnir. Þ.a.l. voru Búarnir ótrúlega góðar skyttur enda höfðu þeir lært að láta fyrsta skotið duga og alltaf skjóta úr skjóli. Þ.e. þeir höfðu aldrei tíma til að hlaða riffilinn aftur ef þeir hittu ekki í fyrstu tilraun.
Her breska heimsveldisins var nánast fullkomin andstaða Búanna. Þeir voru atvinnuhermenn, voru í áberandi búningum sem virkuðu eins og skotskífa fyrir Búana. Rifflarnir voru eins skota með hníf (bayonet) á oddinum sem gaf þeim forskot í návígi en Búar vissu vel að slíkar aðstæður þyrftu þeir að forðast í allra lengstu lög. Bretarnir voru vel vopnum búnir með aldagamlar hernaðaraðferðir en voru alltof svifaseinir í öllum aðgerðum og ekki nálægt því eins góðar skyttur og Búarnir. Bændurnir fóru líka illa með Bretana og vakti mótspyrna þeirra aðdáun og athygli um allan heim og urðu aðferðir þeirra seinna fyrirmynd í hernaðarátökum.
Bretar voru ekki viðbúnir uppreisninni en þeir höfðu stuttu áður sent stóran hluta sinna herdeilda heim eftir stríðið gegn innfæddum og áttu enn í stríði við þá vegna uppreisnar innfæddra í Natal. Eins vanmátu þeir Búana hressilega og játuðu þeir sig því sigraða á nokkrum vikum og skrifuðu undir friðarsamkomulag 1881.
Þetta var í fyrsta skipti í u.þ.b. eina öld sem Bretar þurftu að skrifa undir slíkt samkomulag á forsendum andstæðinganna, breska krúnan vildi ekki fara í blóðugt og dýrt stríð svo fjarri heimahögunum og ákvað því frekar að leita samninga. Búar fengu yfirráð yfir Transvaal á ný en samþykktu að Bretar færu með utanríkismál þeirra að mjög takmörkuðu leyti hvað samskipti þeirra við önnur ríki varðaði, annars stjórnuðu Búar sér alveg sjálfir. Sambandið var þó áfram stirt milli þjóðanna svo vægt sé til orða tekið.
Transvaal hélt sjálfstæði sínu í friði fyrir Bretum næstu rúmlega 15 árin eða þar til sagan nánast endurtók sig. Búar fundu gull þrjátíu mílum frá Pretoríu, höfuðborg Transvaal, árið 1886. Það dugði til að sannfæra Breta um að nú gæti það borgað sig að senda herlið til Suður-Afríku á ný sem og þeir gerðu í stórum stíl.
Seinna Búastríðið
Suður-Afríkustríðið eða Seinna Búastríðið braust út árið 1899 og aftur voru Búarnir hressilega vanmetnir þegar kom að stríðsátökum. Bretar virtust ekkert hafa lært af fyrri átökum þjóðanna annað en þeir þyrftu meiri mannafla. Búar höfðu á sama tíma nýtt tímann vel og búið sig undir stríð við Englendinga í mörg ár og fengið til liðs við sig þýska herforingja til að sýna sér hvernig hægt væri að verjast nútíma herafla. Mannfall var því gríðarlegt og stríðið tók mun lengri tíma en Bretar bjuggust við í upphafi áður en þeir höfðu á endanum sigur. Barátta Búanna var líkt við sögu Davíðs og Golíat og vakti mótspyrna þeirra aftur heimsathygli og aðdáun. Búar áttu rætur um alla Evrópu og höfðu flesta þar á sínu bandi fram yfir breska heimsveldið.
Forsaga seinna búastríðsins.
Hér erum við fyrst farinn að nálgast tengingu Spion Kop-fjallsins við Liverpool FC og Breta almennt um aldamótin 1900.
Til að skilja þessi átök betur verðum við samt að skoða hvað var í gangi í innanríkismálum þessara tveggja „frjálsu“ ríkja Búa. Þeirra helsta vandamál fram að átökunum við Breta var að takast á við gríðarlega vaxtaverki sem fylgir því að vera nýrík þjóð en Búar í Transvaal urðu moldríkir á skömmum tíma.
Eins og áður segir fundust risastórir demantar í Kimberley árið 1866 sem var svæði innan landamæra Orange Free State sem vatt af stað demantsæði næstu árin á eftir og miklum fjölda innflytjenda. Til að átta sig á hversu mikill fjöldi þetta var er ágætt að hafa í huga að þessi hola er handmokuð, 210m djúp og þar af eru í dag 40m á kafi. Kimberley varð að borg á örskömmum tíma.
Tuttugu árum seinna (1886) fannst gull á Witwatersrand-svæðinu sem var innan landamæra Transvaal. Gullið gerði þetta nýja ríki Búanna það ríkasta og áhrifamesta í suðurhluta Afríku en vandamálið var að þeir höfðu ekki nægan mannafla eða tæki til að grafa gullið upp og vinna það einir. Þeir opnuðu landamærin því fyrir útlendingum (Uitlanders, hvítt fólk sem voru ekki Búar) sem kom í stórum stíl í leit að ævintýrum, nýju lífi og skjótfengum gróða.
Útlendingarnir voru aðalega frá hinu ríki Búanna, Orange Free State sem og Höfðanýlendunni þaðan sem Búar höfðu komið upphaflega. Eins komu margir sem áttu rætur að rekja til Bretlandseyja eða annarra Evrópulanda.
Jóhannesarborg spratt upp nánst á einni nóttu og útlendingarnir urðu fljótlega fjölmennari en Búarnir á þeim svæðum sem námurnar voru þó Búar hafi áfram verið mun fjölmennari í Transvaal-ríkinu öllu.
Búarnir vildu alls ekki missa völdin á svæðinu og til að verða fullgildur ríkisborgari þurfti viðkomandi að búa í Transvaal í minnst tíu ár. Útlendingar höfðu ekki kosningarétt á meðan en þurftu að greiða skatta af gulliðnaðinum.
Togstreita myndaðist milli Búanna og þeirra verkamanna (útlendinganna) sem komu annars staðar frá til Transvaal. Samningaviðræður hófust því milli deiluaðila en Búar vissu að Bretar vildu ná völdum á svæðinu og óttuðust að með stöðugum straumi innflytjenda frá Bretlandi og breskum nýlendum myndu áhrif innfæddra (Búa) hverfa með tímanum þar sem útlendingarnir væru fjölmennari.
Árið 1896 gerði bresk hersveit innrás í Transvaal með 600 hermönnum, The Jameson Raid. Þeir ætluðu að taka Búana í bólinu og ná völdum í Jóhannesarborg á nokkrum dögum. Hugmyndin var að innrás þeirra myndi njóta stuðnings útlendinganna í Jóhannesarborg sem myndu gera uppreisn. Þetta mistókst hrapallega og Búarnir handtóku herdeildina strax við landamærin eftir innan við þriggja daga átök. Þetta þjappaði íbúum Transvaal og Orange Free State saman í andstöðu sinni gegn Bretum.
Þjóðverjar voru á sama tíma að leggja undir sig Afríkuríkin fyrir norðan ríki Búanna og skemmtu þeir sér vel yfir óförum Breta. Keisari Þýskalands sendi Paul Kruger, leiðtoga Búa, bréf eftir að þeir vörðust innrásinni án allrar utanaðkomandi hjálpar og styrkti sambandið við þá þannig. Þetta hafði það í för með sér að Bretar urðu bálreiðir út í bæði Búa og Þjóðverja og óttuðust að þessi ríki myndu mynda bandalag til norðurs og gera þannig Búana miklu minna háða Bretum. Eitthvað sem var hugmyndin hjá Paul Kruger leiðtoga Transvaal.
Togstreitan milli Búa og innflytjenda var ekki leyst en í kjölfar innrásarinnar gerðu Transvaal og Orange Free State með sér hernaðarsáttmála til að verjast því að vera innlimuð í breska heimsveldið og hófu í sameiningu að kaupa inn mikið magn vopna frá Þjóðverjum, vitandi að Bretar kæmu á endanum aftur. Þremur árum seinna voru Búar tilbúnir með 25 þúsund manns vel vopnaða og tilbúna til átaka á mjög stuttum tíma. Kruger og félagar keyptu 37 þúsund riffla, 40-50 milljón skotfæri og allan helsta stórskotaliðsbúnað sem var í boði á þeim tíma. Búar voru mjög vel vopnaðir og kunnu eins og áður segir alveg að nota þessi vopn.
Stríð
Þremur árum eftir Jameson-áhlaupið lýstu Búar yfir stríði við Breta eftir að þeir síðarnefndu neituðu að fara með hersveitir sínar frá landamærum Transvaal og Orange Free State. Bretar höfðu skömmu áður gefið Búum úrslitakosti um að þeirra þegnar yrðu að fá full réttindi. Kruger forseti Transvaal svaraði með sínum skilmálum um að annað hvort myndu Bretar hypja sig frá landamærunum eða Búar lýsa yfir stíði.
Samningaviðræður um aukin réttindi innflytjenda skiluðu engum árangri og Bretar hugðu á innrás og voru búnir að safna herliði frá öðrum nýlendulöndum. Helsta ástæða Lord Salisbury forsætisráðherra Breta var sögð vera sú að hann vildi vernda breska þegna búsetta í ríkjum Búanna (yfirskin sem Vladimir Pútín Rússlandsforseti er ennþá að nota).
Eins óttaðist hann að tækist Búum að mynda ríki og halda Bretum í skefjum myndi það skaða ímynd Breska heimsveldisins. Búar voru aðallega hollenskir að uppruna og höfðu átt í miklum viðskiptum við Þjóðverja og þetta hugnaðist Bretum illa.
Þriðja yfirskinið var meðferð Búa á innfæddum (svörtum íbúum svæðisins). Búar neituðu að samþykkja afnám þrælahalds og treystu mikið á vinnuafl svertingja. Hlutur svertingja hefur oft verið vanmetinn í Seinna-Búastríðinu en gríðarlegur fjöldi barðist með Búum og raunar Bretum líka. Vonlaust er að hópa saman marga mismunandi ættbálka í einn og það er sér kapítuli útaf fyrir sig að skoða þá sögu en svertingjar nutu engra betri kjara eftir að stríðinu lauk og voru sviknir af bæði Búum og Bretum að þeirra mati. Fordómar Búa í þá átt héldust næstu 100 árin og lifa góðu lífi enn í dag, það er þó önnur og enn snúnari saga.
Raunverulega ástæðan fyrir áhuga Breta á þessum ríkjum og af hverju þeir lögðu í þann kostnað sem þessu fylgdi voru auðlindir Búanna, allt annað er yfirskin.
Búar gáfu Bretum aðeins 48 tíma til að svara afarkostum Paul Kruger. Fréttir af þessum afarkostum voru rétt að lenda í London þegar fresturinn rann út. Viðbrögð Breta voru hneykslan og hlátur og helstu dagblöðin í London gerðu grín að Búum daginn eftir.
Ritstjóri The Times hló upphátt þegar hann sá afarkostina og skrifaði:
“an official document is seldom amusing and useful yet this was both, this ultimatum is an extravagant farce”
Aðrir miðlar voru á svipuðum nótum og sagði Daily Telegraph m.a. að Kruger væri að biðja um stríð og að hann ætti að fá einmitt það.
Þegar þessi blöð voru að koma út höfðu Búar þegar hjólað í Bretana og tekið þá hressilega í bólinu. Bretar höfðu ekki hugsað út í það að eiga varaherdeildir tiltækar í svona tilfellum vegna kostnaðar við að halda úti her á friðartímum. Þeir máttu illa við stríði við vel undirbúna Búa þrátt fyrir smæð þeirra og áttu ekki neinar herdeildir tiltækar til að senda til S-Afríku eins og skot.
Búar héldu sig við sömu taktík og áður. Þeir voru ekki með eiginlegar herdeildir enda ákaflega sjálfstæð þjóð og mynduðu frekar fámennar herdeildir sem gátu brugðist mjög skjótt við. Hver deild valdi sér leiðtoga þegar hættu bar að garði á þeirra svæði. Búar fóru að vanda til átaka klæddir eins og þeir komu til dyra.
Heima fyrir bjóst breskur almenningur við að þetta yrði mjög auðvelt stríð og tæki fljótt af á meðan flestir Búanna vildu alls ekki fara í stríð og alls ekki við Breta sem þeir litu á sem sama kynstofn með sömu trúarskoðanir. Þeir vonuðust eftir að stríðið yrði jafn fljótt afstaðið og fyrra Búastríðið. Þeim fannst þeirra málstaður réttur og þess virði að berjast fyrir. Búar voru sannfærðir um sigur enda væri Guð með þeim og myndi ekki láta þá tapa sinni frelsisbaráttu.
Hæfni Búanna með riffil versnaði alls ekkert milli stríðanna og því síður er þeir fengu ný og betri skotfæri. Nýju Mauser-rifflarnir sem þeir keyptu af Þjóðverjum höfðu þann kost að af þeim kom enginn reykur og því gátu þeir falið sig enn betur. Skotkeppni var mjög vinsæl meðal Búa sem voru margir færir um að skjóta egg á 100m færi. Til viðbótar við hæfni Búanna höfðu þeir mjög góða leyniþjónustu í Transvaal sem gat komið upplýsingum milli staða á mjög skömmum tíma, Bretar vissu ekki hversu víðfermt og gott þetta net þeirra var.
Stríðið byrjaði 12. október 1899 er Búar réðust inn í báðar nýlendur Breta og komu þeim að óvörum með bæði hraða og hæfni. Bretar hörfuðu og fram í janúar 1900 unnu Búar marga merka sigra á mun fjölmennari herdeildum Breta.
Helstu mistök Búanna og merki sem kom upp um þeirra mestu veikleika hvað varðar stefnumótun voru umsátur sem þeir gerðu um herdeildir Breta. Fljótlega voru þeir búnir að umkringja þrjár borgir þar sem Bretar vörðust. Búarnir höfðu lítið að græða á þessu og eyddu tíma í að halda umsátrinu svo mánuðum skipti án þess að sigra Bretana. Þeir voru of varfærnir og nýttu ekki tækifærin sem þeir höfðu til að sigra Bretana en á móti höfðu þeir ekki mikinn áhuga á að vinna ný landsvæði heldur langaði þá aðeins að halda sínum eigin í friði.
Borgir sem Búar gerðu umsátur um voru hin stóra Ladysmith þar sem 13 þúsund breskir hermenn voru umkringdir svo mánuðum skipti. Bardaginn um Spion Kop var partur af tilraunum Breta til að frelsa Ladysmith. Sama átti við um Kimberley sem Búar vildu ná aftur á sitt vald og að lokum Mafeking. Það umsátur var líklega verstu mistök Búanna því hershöfðinginn sem hélt borginni var enginn annar en Robert Baden-Powell, án gríns líklega sá maður sem í sögunni hefur verið hvað bestur að bjarga sér. Hann stofnaði skátahreyfinguna áratug seinna. Búar héldu þessum borgum í herkví en hikuðu of lengi við að leggja til atlögu, umsátur um þessar borgir tók tíma, orku og mannafla frá Búunum sem höfðu ekkert að græða á þessum borgum en gáfu um leið Bretum tíma til að senda auka herlið til Suður-Afríku.
Herdeildir frá öðrum nýlendum Breta komu á land í byrjun desember 1899 og voru undir stjórn General Sir Redvers Buller sem var yfir herafla Breta í S-Afríku. Hann ákvað að byrja á að freista þess að frelsa þær borgir sem Búar héldu umsátur um og höfðu gert svo mánuðum skipti. Buller varð ekkert ágengt og varð desembermánuður gríðarlega blóðugur og misstu Bretar marga menn í mismunandi bardögum sem vakti mikla athygli og hneykslan heima fyrir. Tímabilið frá frá 10. – 17. desember 1899 er kallað svarta vikan en þá misstu Bretar gríðarlegan fjölda hermanna í þremur mismunandi bardögum. Blóðugust varð baráttan um Colenso sem var partur að aðgerðum Breta til að frelsa Ladysmith. Þangað fór Buller með 21 þúsund hermenn gegn 8 þúsund hermönnum Búa undir stjórn Louis Botha. Bretar misstu 143 menn, 755 særðust og 240 var saknað. Búar misstu 8 menn og 32 særðust. Sömu aðilar börðust svo aftur á Spion Kop.
Bretar tóku þessum ósigrum mjög illa og áttuðu sig á að Búarnir væru ekki jafn auðveldir og þeir héldu í fyrstu. Margra mánaða umsátur Búanna gaf Bretum tækifæri til að skipuleggja sig og senda auka mannskap í átökin. Mannskap frá öðrum nýlendum eins og Kanada, Nýja-Sjálandi, Ástralíu og Indlandi ásamt mannskap alls staðar að frá Englandi, m.a. fjölmarga frá Lancashire.
Liðsaukinn taldi um 180 þúsund manns og kom á land í janúar árið 1900. Þetta var stærsti liðsafli sem Bretar höfðu sent í stríð erlendis. Næstu mánuði á eftir bættust enn fleiri við og var heildarfjöldinn um 250 þúsund hermenn Breta eða tíu á móti hverjum einum hermanni Búana.
Út frá Búastríðinu er hægt að taka gríðarlega marga vinkla og skoða betur fjölmargar frægar baráttur eða lesa frásagnir frægra manna sem ýmist voru á staðnum eða skrifuðu um atburðina seinna. Spion Kop (Njósnahæð) er þó viðfangsefnið hér og ótrúlegt en satt þá voru þar viðstaddir tvær af mestu goðsögnum fyrri hluta síðustu aldar og spilaði hvorugur lykilhlutverk þennan fræga dag. Annar þessara manna var lögfræðingurinn Mahatma Gandhi sem kom með herdeildum frá Indlandi og bar niður særða hermenn á sjúkrabörum. Hinn var sjálfur Winston Churchill sem nýlega hafði losnað úr fangabúðum Búa og flutti fréttir af stíðinu í dagblöð heima fyrir. Churchill vann sem sendiboði á Spion Kop og skrifaði seinna margar greinar um bardagann þennan blóðuga dag. Búar hefðu sannarlega getað breytt sögunni enn frekar hefðu þessir tveir merkismenn fallið þennan dag.
Bardaginn á Spion Kop
Spion Kop er 38 km frá Ladysmith og tilheyrir Natal. Bardaginn stóð aðeins yfir í um sólarhring dagana 23. – 24. janúar. Til að komast að Ladysmith þurfti að fara fyrir Tugela fljótið en yfir það höfðu hersveitir Breta komist um miðjan desember aðeins til að vera hraktir yfir það aftur af Búum sem sátu tilbúnir fyrir þeim. Tugela-fljótið var vel varið af Lois Botha sem fór fyrir herafla Búa og hans mönnum, yfir það þurftu Bretar að komast en Búar voru vel vopnaðir og sátu fyrir þeim hvar sem þeir reyndu að komast yfir.
Næstu vikur á eftir svörtu vikuna í desember lagði Buller á ráðin fyrir aðra sókn. Með auknum liðsafla og mun betri búnaði gat hann planað næstu árás frá öðrum og minna fyrirsjáanlegum stað. Spion Kop varð fyrir valinu, fjall sem er 38 km frá Ladysmith og mun fjær lestarteinunum sem fram að því hafði verið aðalbirgðalína Breta og sú staðsetning sem þeir reyndu mánuði áður.
Nú ætluðu Bretar yfir á tveimur mismunandi stöðum á sama tíma og koma þannig að Búum frá tveimur hliðum, Buller hershöfðingi lét skipta heraflanum niður í tvær deildir undir stjórn undirmanna sinna. Stærri herdeildin taldi rúmlega 13 þúsund manns og var undir stjórn Sir Charles Warren og átti að ná Spion Kop. Hin taldi tæplega 8 þúsund manns og var undir stjórn Major Neville Lyttelton og átti að sækja að Búum öllu fjær Spion Kop. Þær myndu svo sameinast er lína Búanna væri brostin og leiðin orðin greið til Ladysmith. Báðar herdeildir voru að mestu skipaðar hermönnum frá Lancashire sem höfðu gengið í herinn til að komast úr sárri fátækt og atvinnuleysi heima fyrir. Margir þessara manna voru frá Liverpool.
Þann 11. janúar (tólf dögum fyrir bardagann) hófu þeir för sína vestur til að taka stöðu en voru mjög auðveldlega sjáanlegir af Búum þar sem þeir fóru mjög hægt yfir og voru með mikinn farangur. Hershöfðinginn (Warren) var m.a. með baðherbergisaðstöðu og eldhúsvagn með í för sem þótti eðlilegt á þeim tíma. Búar skipulögðu varnir sínar eftir því.
Spion Kop eða Njósnahæð á íslensku var hernarðarlega mikilvægt fjall á leiðinni til Ladysmith og útsýni þaðan mikið í allar áttir. Fjallið er mikið til sléttlendi er upp á það er komið en umkringt nokkrum hæðum sem erfitt reyndist að átta sig á í myrkri og þoku. Búar komu sér vel fyrir á fjallinu og voru með allt að 10 þúsund manns á fjallinu eða í grennd við það er Bretar lögðu til atlögu þann 24. janúar árið 1900. Louis Botha fór fyrir þeim hópi sem var þó á engan hátt líkur öguðum her Breta.
Áhlaup Breta hófst um 21:30 að kvöldi til 23. janúar er Warren sendi stóran hluta af sinni herdeild undir stjórn Major Edward Woodgate til að ná Spion Kop. Þeir fóru yfir Tugela-fljótið sem rennur meðfram fjallinu og þaðan mjög hljóðlega upp bratta hlíðina og nýttu næturmyrkrið og morgunþoku til að komast óséðir upp fjallið. Fyrir herdeildinni fór 360 manna hópur hermanna sem allir voru frá Natal (S-Afríku). Major Alexander Thorneycroft fór fyrir þessum hópi og fjöldi yfirmanna þeirra sem loks gerðu fyrsta áhlaupið því orðinn töluverður og kom þetta niður á Bretum í bardaganum sjálfum. Það að púsla saman hver stjórnaði hverju innan breska hersins á upphafsdögum Búastríðsins er svipað og að reyna að tengja saman öll nöfnin á fyrstu 100 blaðsíðum Njálu.
Hvað um það, fyrstir upp á Spion Kop voru hermenn undir stjórn Thorneycroft og komu þeir 15 hermönnum Búa í opna skjöldu uppi á hæðinni. Einn hermaður Búa lét lífið í þeirri árás og stendur gröf hans þar enn, hinir 14 flýðu niður hæðina og vöruðu félaga sína við. Átta hermenn Breta særðust í þeim átökum en Bretar töldu sig þarna hafa náð yfirráðum á Spion Kop og Thorneycroft sendi skilaboð þess efnis til Woodgate og frekari mannafli hélt umsvifalaust upp á hæðina. Nóttina nýttu þeir til að moka skotgrafir en rúmlega þúsund hermenn höfðu aðeins 20 prik og 20 skóflur í verkið og jarðvegurinn á Spion Kop var gríðarlega óhentugur fyrir slíka vinnu án betri verkfæra. Bretar þekktu ekki aðstæður og töldu sig vera vel staðsetta efst á fjallinu og höfðu því ekki þungar áhyggjur af skotgröfum.
Þegar þokunni fór að létta sáu Bretarnir að þeir höfðu aðeins náð minnsta og lægsta hluta Spion Kop og voru umkringdir Búum sem voru á þremur hæðum sem allar lágu ofar. Búar vissu þó að staða þeirra væri heldur ekkert of góð, tvær hæðir á Spion Kop voru ómannaðar og ef Bretar næðu þar fótfestu væri leiðin fyrir þá greið með sinn mikla mannafla fyrir neðan fjallið. Eins vissu þeir að ef Bretar myndu ráðast af öllu afli á hæðirnar fyrir ofan þá gætu leyniskyttur Búa ekki haldið út lengi. Búar áttuðu sig því á að þeir þyrftu að bregðast við strax og ráðast á Bretana þar sem þeir voru. Búar náðu hæðunum í kring með 88 mönnum og sendu í kjölfarið herdeildir til að berjast við Bretana í návígi. Slíkt var afar óvenjulegt fyrir Búana í dagsbirtu og komu þeir Bretunum því algjörlega í opna skjöldu með slíkri árás. Búarnir vissu að þetta væri hálfgerð sjálfsmorðsárás, sem og þetta var.
Úr varð mjög harður bardagi þar sem barist var með skotvopnum í návígi sem og bara veiðihnífum í slagsmálum upp á líf og dauða. Búar misstu marga menn í þessum átökum rétt eins og Bretar en náðu ekki að hrekja þá aftur til baka. Þeir hörfuðu því aftur upp hæðina. Úr varð hálfgerð pattstaða. Búar náðu þó aftur að taka sér stöðu á hæðunum fyrir ofan Bretana og létu skotum rigna fyrir þá og náðu þannig aftur yfirhöndinni.
Til að átta sig betur á aðstæðum er mikilvægt að taka fram að þegar leið á daginn var kominn gríðarlegur hiti og þreyta og þorsti tók sinn toll hjá báðum aðilum.
Á tímabili töldu báðar fylkingar að baráttan væri töpuð. Búar vou engan veginn eins agaðir og bresku kollegar sínir og neituðu margir þeirra að taka þátt í átökunum. Þeir sem voru að berjast á Spion Kop gátu séð fjölda félaga sinna fyrir neðan sem neituðu að koma upp og berjast. Þessi svik félaga sinna í bland við það að horfa á mikinn fjölda fallinna félaga dró baráttuþrekið úr hermönnum Búa sem sumir fóru að hörfa frá þeim stöðum sem þeir höfðu haft mikið fyrir að ná og halda. Þeir töldu að baráttan við fjölmenna herdeild Bretanna væri töpuð.
Hinum megin var staðan þó öllu verri og stórskotahríð Búanna fór að taka sinn toll. Major Woodgate sem fór fyrir áhlaupinu á Spion Kop féll klukkan 8:30 um morguninn. Blomfield ofursti (frá Lancashire) tók þá við stjórninni en var sjálfur særður fljótlega í kjölfarið. Þrír aðrir yfirmenn í mismunandi herdeildum létu einnig lífið og á endanum voru bresku hermennirnir á Spion Kop flestir án yfirmanna, undir hrikalegri skothríð við skelfilegar aðstæður.
Annar ofursti, Malby Crofton frá Lancashire tók við stjórninni og sendi sendiboða með beiðni um frekari mannafla strax ellegar væri allt tapað. Honum tókst þó ekki að leiða herdeildina og tók Thorneycroft við stjórninni, maðurinn sem leiddi fyrstu herdeildina upp Spion Kop hafði hækkað all verulega í tign á nokkrum klukkutímum. Hann reyndi að gera áhlaup á Búana en komst ekkert áleiðis. Fyrsti sendiboðinn sem átti að færa Thorneycroft þau skilaboð að búið væri að gera hann að ofursta var skotinn en sá næsti náði til hans.
Warren, sem beið með heraflann fyrir neðan, neitaði að gera skotárástir á tvö hernaðarlega mikilvæg skotmörk af þeirri ástæðu að hann hélt að Bretar héldu þeim staðsetningum. Sendiboðinn sem kom skilaboðum frá Warren og öðrum á Spion Kop til Sir Redvers Buller var Churchill og voru lýsingar hans vægast sagt ekki fallegar. Gandhi var á sama tíma með löndum sínum að bera særða hermenn niður og hafði nóg að gera.
Þrátt fyrir að vera með sjálfan Churchill meðal sendiboða voru samskiptin milli Buller og annarra yfirmanna í miklu lamasessi allan daginn og illa gekk að koma réttum skilaboðum milli manna.
Um 13:00 ákváðu sumir af hermönnum Breta að gefast upp en Thorneycroft sem þá var æðstur Breta á fjallinu fór sjálfur og stoppaði það með því að skjóta á þá hermenn Búa sem hugðust taka þá til fanga. Thorneycroft tók uppgjöf sinna manna ekki í mál. Á nákvæmlega sama tíma kom fyrsti liðsafli Bretanna upp fjallið og hjálpaði Thorneycroft að halda sinni stöðu eftir harða bardaga.
Rúmlega klukkutíma síðar (14:30) sendi Thorneycroft beiðni um frekari liðslauka en vissi ekki að á sama tíma var fyrri liðsauki, sem Warren hafði sent undir stjórn hershöfðinga að nafni Coke, kominn rétt hjá Thorneycroft. Coke en gerðiþó ekkert til að láta vita af sér og það þrátt fyrir að hafa séð hjálparbeiðni Thorneycroft.
Er átökin voru hvað hörðust um morguninn hafði Warren óskað eftir liðsauka frá herdeild Lyttelton, þeirri minni sem send var til að ná Ladysmith aftur. Þetta gerði Warren þrátt fyrir að hafa enn yfir nægum mannafla að ráða sjálfur. Lyttelton sendi tvo herflokka upp Spion Kop og réðust þeir á Twin Peaks sem var helsta staðsetning Búa á fjallinu. Menn Lyttelton urðu fyrir miklu mannfalli en náðu Twin Peaks um 17:00 og hröktu Búa á flótta.
Schalk Willem Burger hershöfðingi Búa sem haldið hafði Twin Peaks var sigraður og herdeild hans búin á því eftir stanslausa bardaga. Búarnir yfirgáfu sínar stöður og hugðust hörfa niður af fjallinu er myrkrið var að skella á. Louis Botha sá hvað var að gerast og fékk þá til að gefast ekki upp.
Búar náðu þó ekki stöðum sínum aftur á Twin Peaks og bardaginn var því svo sem gott sem búinn, nema hvað Thorneycroft hafði ekki hugmynd um það. Hann hafði staðið í bardögum í að verða 16 klukkutíma og stjórnað aðgerðum lengst af þeim tíma án nokkurra leiðbeininga frá Warren og var þetta farið að taka sinn toll. Hann skipaði sínum mönnum því án leyfis sinna yfirmanna að hörfa frá Spion Kop. Hann sendi þau skilaboð að herdeildin væri að verða án skotfæra og hefði verið of lengi án vatns í steikjandi hitanum. Án aðstoðar stórskotaliðs Warren gegn staðsetningum Búanna væri ekki hægt að halda áfram mikið lengur. Vonlaust væri að grafa skotgrafir og þeir voru því alveg varnarlausir.
Sendiboði frá Warren, sjálfur Winston Churchill, kom á þessu augnabliki í sinni annarri ferð til Thorneycroft. Churchill sagði að 1.400 menn væru á leiðinni upp með tvær fallbyssur en Thorneycroft svaraði að bragði að betra væri koma öllum örugglega niður í stað þess að láta hreinsa þá upp daginn eftir. Hann skipaði sínum mönnum því að hörfa.
Á sama tíma sendi Lyttelton sínum mönnum strangar skipanir að hörfa frá Twin Peaks. Loksins þegar Bretar höfðu svo gott sem náð Spion Kop hörfuðu þeir allir.
Þegar fór að birta daginn eftir urðu Búarnir steinhissa á að sjá að einu Bretarnir sem eftir væru á Spion Kop væru þeir dauðu eða mjög særðu. Baráttan var töpuð fyrir þeim daginn áður er myrkrið skall á.
Af þeim 1.700 hermönnum Breta sem klifu Spion Kop er talið að 300 hafi verið handteknir af Búum. Talið er að 243 hafi fallið en þar sem tapið á Spion Kop var mikið hneyksli fyrir herinn heimafyrir sem og út um allann heim er talið öruggt að sú tala hafi verið mun hærri en Bretar gáfu upp. Allt í allt voru um 1.250 Bretar særðir eða handteknir.
Búar misstu 68 menn og 335 særðust, þar af létust 55 af 88 í sömu herdeildinni í áhlaupi Búa á Breta um morgunin undir stjórn Prisloo. Hann sendi sína menn í þann bardaga með þeim orðum að líklega kæmu þeir ekki allir til baka.
Bretar hörfuðu aftur yfir Tugela-fljótið en Búar voru of veikburða til að fylgja sínum sigri eftir. Þetta var því enn einn ósigur Breta gegn Búum og sá versti fram til þessa. Sir Redvers Buller var lækkaður í tign í kjölfar Spion Kop en hann hafði fram að því verið yfirmaður heraflans í Suður-Afríku. Meðal hermanna gekk hann undir nafninu “Sir Reverse”.
Hann leiddi þó áfram baráttuna um Ladysmith og tapaði annarri orrustu gegn Botha og hans mönnum í byrjun febrúar 1900. Ladysmith náðu Bretar loks aftur mánuði seinna og fór stríðsreksturinn að ganga betur í kjölfarið og voru Bretar búnir að ná völdum í báðum ríkjum Búa undir lok árs 1900 fyrir utan norðurhluta Transvaal.
Áhrif Spion Kop á knattspyrnu
Spion Kop var einn blóðugasti bardagi Búastríðsins og vakti heimsathygli. Winston Churchill var á þessum tíma vel þekktur heima fyrir. Hann var sonur eins af þekktari þingmönnum landsins og jafnframt talin hetja er hann slapp úr fangabúðum Búa. Hann vann sem blaðamaður á London Morning Post og gat skrifað ítarlega um Spion Kop bardagann enda þáttakandi í honum. Fleiri blaðamenn og fjölmiðlar fjölluðu auðvitað einnig um þennan blóðuga bardaga og var hann ofarlega í huga þjóðarinnar löngu eftir stríðið.
Vinsældir knattspyrnu stökkbreytust á Englandi í kringum aldamótin og hugsuðu margir til Spion Kop er þeir sáu áhorfendastæði á Englandi á þessum tíma. Talið er að óopinbert nafn á einni stúku Woolwich Arsenal á gamla vellinum þeirra, Manor Ground, hafi verið kölluð Kop fyrst allra á Englandi. Það var þó ekki fyrr en forráðamenn Liverpool mokuðu saman risastórri hæð fyrir aftan annað markið við Walton Breck Road að nafnið festist. Þetta var árið 1906, Liverpool voru ríkjandi meistarar og aðsóknin á völlinn mikil. Með þessu nýja stæði tók völlurinn um 60 þúsund manns og efst uppi var hægt að sjá í allar áttir og yfir borgina.
Þetta minnti vissulega á Spion Kop og margir þeirra sem mættu á völlinn tóku þátt í þeim bardaga eða urðu vitni að honum. Ernest Edwards, ritstjóri íþróttadeildar Liverpool Echo, festi nafnið í sessi og hefur það verið órjúfanlegur partur af Liverpool síðan. Fjölmörg önnur lið eiga stúku með sama nafni og af sama tilefni, ein þeirra er m.a. á Hillsborough. En sú á Anfield er elst, stærst og langfrægust þeirra allra.
Tengsl Spion Kop á Anfield við sögu Liverpool er efni í aðra færslu og er hún þegar komin á dagskrá.
Endalok Búastríðsins og afdrif Búa
Stríðið var ekkert búið enda þótt Bretar hefðu náð báðum höfuðborgunum og hálfum herafla Búanna réðu þeir bara yfir því svæði sem þeir voru á sjálfir hverju sinni. Búar hófu skæruhernað gegn breska hernum sem átti engin svör nema ómanneskjulegt ofbeldi gegn Búum.
Bretar innleiddu „sviðin jörð“-stefnu sem miðaði að því að eyðileggja uppskeru Búanna til frambúðar. Auk þess brenndu þeir húsin þeirra og eitruðu vatnsbrunna áður en konum og börnum komið fyrir í tjaldbúðum undir stjórn Breta sem voru ekkert annað en útrýmingabúðir. Aðferð sem Nasistar þróuðu áfram hálfri öld seinna og er þetta litlu minni blettur á hernaðarsögu Breta.
Á endanum var 45 tjaldbúðum komið upp fyrir konur, börn og gamalmenni Búanna. Fyrir svarta íbúa svæðisins voru settar upp 65 tjaldbúðir. Talið er að um fjórðungur þeirra sem hafðist við í þessum búðum hafi látist á einn eða annan hátt, langflest þeirra börn undir 16 ára aldri. Búar misstu um helming barna undir 16 ára í stríðinu og vakti meðferð breska hersins á Búum mikla reiði og hneykslan er upp komst heima fyrir sem og víðar í Evrópu.
Af 28 þúsund Búum (KK) sem voru handteknir í stríðinu voru 25.630 þeirra sendir úr landi þar sem þeir voru mislengi. Um 26 þúsund konur og börn voru í búðunum fyrir hvíta Búa og mun fleiri í tjaldbúðum innfæddra.
Allt í allt er talið að stríðið hafi kostað 75.þúsund mannslíf sem er ótrúlegt miðað við hversu lítil þessi ríki voru fyrir stríð. 22 þúsund af þeim voru Bretar (7.792 í bardögum, rest úr sjúkdómum). Um 6-7 þúsund Búar létust í bardögum, milli 20 og 28 þúsund almennir borgarar (mest allt í tjaldbúðunum) og um 20 þúsund svertingjar sem létust bæði í bardögum og tjaldbúðum Bretanna.
Nánar er hægt að fræða sig um Búastríðið í heild í ítarlegri heimildamynd BBC:
https://www.youtube.com/watch?v=JxeNhk1V-sg
Baráttuþrek og aðferðir Búa vöktu heimsathygli og aðdáun víða. Þarna var Davíð svo sannarlega að berjast við Golíat og gáfust Búar ekki upp fyrr en skrifað var undir friðarsamkomulag í maí 1902. Orange Free State- og Transvaal-ríkin voru leyst upp en urðu partur af sambandsríkinu Suður-Afríka árið 1910 sem var partur af breska heimsveldinu. Fyrsti forsætisráðherra Suður-Afríku var Louis Botha, helsta stríðshetja Búanna.
Innanríkismál í Suður-Afríku hafa frá þeim tíma ekkert einfaldast. Er fyrri heimsstyrjöldin braust út nokkrum árum síðar vildu margir úr hópi Búa alls ekki berjast með Bretum og allra síst gegn Þjóðverjum sem höfðu verið þeim vinveittir í Búastríðinu. Þeir gerðu á endanum (1916) uppreisn sem var brotin á bak aftur og helstu forystumenn handteknir og sektaðir. Louis Botha veitti þeim sakaruppgjöf tveimur árum seinna og hófu þessi öfl úr hópi Búana þá baráttu sína með löglegum aðferðum, pólitík. Flokkurinn þeirra varð seinna að Þjóðarflokkum (National Party) sem náði völdum árið 1948 og voru við stjórnvölin þar til þessi maður kláraði sinn langa göngutúr og tók við völdum:
Búastríðið hefur í áranna rás fallið í skuggann á bæði fyrri og seinni heimsstyrjöldunum. Eftir seinni heimsstyrjöldina náði Þjóðarflokkurinn völdum og innleiddi grófa aðskilnaðarstefnu milli hvítra og svartra. Líklega er það einmitt sú réttindabarátta sem flestir í seinni tíð tengja við Suður-Afríku. Allt þetta er hægt að beintengja við sögu og þróun Búa á svæðinu og þá sérstaklega seinna Búastríðið.
Nú, 113 árum eftir að þessu stríði lauk, er Spion Kop óumdeilanlega einn af frægari minnisvörðum þessa hörðu átaka og líklega er það einna helst samnefndri stúku á Anfield Road að þakka. Þeir sem vildu heiðra minningu félaga sinna með því að nefna þennan frekar ómerkilega ruðning við Walton Breck Road árið 1906 í höfuðuð á þeim stað er þeir létust hafa svona sannarlega gert einmitt það. Betur var líklega ekki hægt að gera og hafa afkomendur þeirra svo sannarlega haldið því áfram alla tíð síðan. Kop-stúkan á Anfield Road hefur í áratugi verið einn helgasti staður jarðarinnar í augum fjölmargra stuðningsmanna Liverpool og hefur aska mjög margra endað þar að þeirra ósk. Það að geyspa golunni er reyndar aukaatriði hjá mörgum er kemur að því að styðja sitt lið og óþarfi að láta það stoppa mann í að mæta á völlinn.
Spion Kop er sú færsla sem ég hef lagt lang mesta vinnu hér á Kop.is og jafnframt sú færsla sem fjallar hvað minnst um fótbolta þó þetta efni sé nátengt Liverpool. Höldum umræðum hér aðeins aðskildum við það sem er í gangi hjá okkar mönnum í dag, Mánudagspælingar Kristjáns Atla hér fyrir neðan er vettvangurinn fyrir þær umræður.
Þetta er lengsta færsla sem ég hef skrifað, Heysel & Hillsboruogh taldi fleiri orð en það var með fjölmörgum tilvitnunum. Ekki að lengd hafi verið keppikefli enda vandamálið jafnan að stytta svonalagað.
Þó að færslan sé löng er þetta bara lauslegt yfirgrip á miklu stærri sögu, mögulega er eitthvað sem ekki stenst skoðun þó færslan sé unnin eftir bestu vitund, markmiðið var að fræðast betur um alla söguna á bak við afhverju ein frægasta stúka í heimi heitir í höfuðið á Spion Kop.
Vinna við færsluna hófst í desember 2013 og mig langar ekki að vita hversu mikill tími fór í hana, þetta var þó auðvitað alls ekki samfelld vinna síðan þá. Það að skrifa færsluna er ekkert það tímafrekasta en það hjálpaði að mér fannst gaman að fræðast um þetta.
Ég renni annars algjörlega blint í sjóinn hvort einhver annar hafi áhuga á þessu yfirhöfuð. En líklega þarf gönguferð upp þetta fjall að fara á Bucket listann hjá mér eftir þetta.
Þakka annars Kristjáni Atla fyrir að hjálpa mér með yfirferð á stafsetningu og málfari, það er þrekvirki að afgreiða það. Okkur finnst báðum gaman að losna við þessa úr drögum.
Magnaður pistill Babú. Þú átt hrós skilið.
Grimmd Breta hefur verið mikil, en það sannast að sagan er skrifuð af sigurverum og þeir breiða oft yfir sína misgjörðir. Útrýmar þeirra hafa verið grimmilegar.
Skemmtilegast þótt mér samt að lesa um hvurslags klúður í samskiptum þetta hefur verið uppá hæðinni. Röð mistaka leiddi til þess að Bretar klúðru öllu sem hægt var að klúðra, þeir hefðu samt alltaf unnið stríði vegna fjölda síns.
Sá eina villu hjá þér en þú ert væntanlega að meina að 100 þúsund manns hafi látist í stríðinu, ekki þúsund manns 🙂
Takk fyrir frábæran fróðleik inní nóttina, ég sofna glaður í kvöld með mikla vitneskju um stríð sem ég vissi ekki mikið um fyrir.
Þegar maður les svona pistla ( mun líklegast taka einhverja daga )….þá áttar maður sig á að það eru til meiri púllarar heldur en maður sjálfur.
Mögnuð lesning Babú – Takk kærlega fyrir þetta. Hlakka til að lesa greinina sem nú er á teikniborðinu hjá þér um tengsl Anfield við Spion Kop.
Takk kærlega fyrir þessa frábæru grein Dr. Babu.
Frábær færsla. Ég, eins og flestir stuðningsmenn Liverpool grunar mig, vissi lauslega söguna á bak við Kop-nafnið en hafði aldrei kynnt mér hana nánar. Það var virkilega gaman að lesa sögu Búastríðsins. Takk fyrir mig.
Bravó!
Váá!. Magnað hjá þér Babu. Takk kærlega fyrir mig 🙂
var í þessari stúku um helgina ég segji bara fááaáá hvað það er allt annað að sitja þarna , maður fær alvega alla gjæsahúðina fyrir allan peninginn.
Takk fyrir mig. Þetta var ánægjuleg lesning, einsog flest allt sem maður kemur hingað til að lesa.
Fràbær pistill og bràðnauðsynlegur okkur sem þyrstir í fróðleik og söguna.
Einar Matthías Babúson. Erlingur Brynjólfsson var að hringja. Þetta er komið.
Hvað er að frétta !!!! Par Excellence Sir Babu.
Snillingur Babu
Frábærlega unnið. Takk fyrir.
Hehehe… Þetta er rosalegt!
Vá, maður fer á netið til lesa slúður um Sterling og við tekur frábær lesning um Búastríð. Skátinn í manni gladdist mikið við að sjá Baden Powell á sínum rétta stað.
Ég hafði líka aldrei sett það í samhengi í huganum að Kop stúkan hafi verið nefnd eftir fjalli vegna þess að menn hafi hreinlega mokað í einn hól eða svo.
Hlakka hrikalega til að lesa Part 2 takk fyrir mig
Ferð uppá Spion Kop er komin inná bucket listann hjá mér eftir þennan lestur.
Takk fyrir góðann pistil, hafði gaman af því að lesa þetta.
Aldeilis fràbær grein og líklega sù besta sem hefur birst hérna.
Fròðleg og skemmtileg.
Takk kærlega fyrir mig.
Hvernig væri að lesa þessa grein upp og senda út sem podcast, bara svona til að þú getur toppað þig Babu.
Vá frábær grein og mjög fróðleg 🙂
Geggjuð lesning 🙂 takk kærlega fyrir mig.
Robert Baden-Powell, Mahatma Gandhi og Winston Churchill. Það er ekkert verið að grínast með nöfnin þarna!!
En vil líka benda á (eins og fuglinn gerði) að þú talar um mannfall upp á þúsund manns en síðan er listi með tugum þúsunda þar á eftir, vantar eflaust eitthvað þar 😉
Þakka góð viðbrögð
Gunnar og Örn, mögulega er mér að yfirsjást eitthvað en getur verið að þið séuð að rugla saman einstaka bardaga eins og Spion Kop og svo heildarmannfalli í öllu stríðinu?
Frábær Grein hjá þér Babu, ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um af hverju Kop nafnið er á stúkunni. Núna á maður eftir að tengja það við fleira heldur en hörðustu stuðningsmenn Liverpool.
Takk fyrir.
Þvílík snilldargrein, eiginlega ritgerð sem Illugi Jökulsson væri stolltur af. Er viss um að nù séu all nokkrir nemendur í sögu 303 að spyrja kennarann sinn hvort hann haldi með Liverpool.
@Babu
Hann er líklega að tala um þessa setningu sem er mjög neðarlega í pistlinum:
“Allt í allt er talið að stríðið hafi kostað þúsund mannslíf sem er ótrúlegt miðað við hversu lítil þessi ríki voru fyrir stríð.”
Takk fyrir mig.
Nr. 26
Ahh takk, þarna vantaði 75 fyrir framan.
BRAVÓ!!!
Frábær grein. Hvað getur maður meira sagt .
Vel gert!
þegar þessi grein kom inn og ég sá lengdina á henni ákvað ég að geyma hana svo ég gæti notið hennar almennilega þar sem það var svakalega mikið að gera í vikunni. Biðin var vel þessi virði. Að geta setið með tærnar upp í loft og sötrað á kaffibolla (urðu reyndar nokkrir bollar) er ekkert minna en forréttindi.
Take a bow Babú. Takk fyrir mig!
Elsku drengurinn.
Fékk loksins næði til að lesa…hafði lesið margt um þessa ágætu hæð og hennar stríð en heldur betur margt gullkornið að finna hér og þvílík elja að raða þessu saman.
Strákurinn Tommy er glaður núna…viss um það….
Enn og aftur toppið þið ykkur með frábærri og afar áhugaverðri grein. Kærar þakkir. Spurning hvenær maður þarf að fara að borga fyrir að vera áskrifandi að kop.is 🙂
Frábær grein hjá þér. Ég flakkaði sjálfur mikið um S-Afríku árið 2010 og gekk m.a. upp Spion Kop, sem var mikil upplifun.
Algjörlega frábær grein! Búinn að vera að lesa hana í rólegheitum í nokkra daga og er eiginlega bara æstur í að fá meira sögu lesefni. Takk kærlega fyrir mig!