The Tomkins Times er yfirburðar á ýmsum sviðum þegar kemur að umfjöllun um Liverpool. Fyrir utan vandaðar greinar þá er þar einnig virkt samfélag meðlima sem greiða fyrir aðgang að síðunni og eru þar oftar en ekki engu síðri pennar en þeir sem halda síðunni úti (eins og hér). Einn lesandi frá Bandaríkjunum með heilmikla þekkingu á hafnarbolta og störfum FSG þar setti inn áhugaverð ummæli sem gerð voru að sér færslu. Við hana sköpuðust áhugaverðar umræður þar sem annar Bandaríkjamaður fór mikinn og hefur reyndar gert af miklu innsæi undanfarin ár. Það er undir hverjum og einum að dæma hvað er rétt og rangt og ekki endilega stefnan að komast að niðurstöðu hvað það varðar. En þessa umræðu langar mig að vinna með og færa hingað á okkar síðu því þarna eru klárlega önnur hugsun/nálgun á störf FSG en margir eru jafnan að vinna með.
Útgangspunkturinn er að til þess að spá fyrir um það hvað FSG er líklegt til að gera, t.d. varðandi stöðu framkvæmdastjóra er lang best að skoða hvað þeir hafa gert hjá öðrum íþróttafélögum í sinni eigu, þá sérstaklega hjá Red Sox. Þetta er eitthvað sem við höfum lítið gert af og þekkjum takmarkað.
Boston Red Sox og Liverpool eru ekki alveg sambærileg félög og íþróttirnar gerólíkar, þó eru sömu hugmyndir á bak við stjórnun liðanna og hjá báðum er FSG með langtímaplan sem þeir fara fram á að unnið sé eftir. Vilji einhver ekki vinna samkvæmt áætlun FSG verður hann ekki partur af keðjunni lengur, sama hver það er. Mögulega er Kenny Dalglish skýrasta dæmið um það hjá Liverpool?
Þeir sem best eru að sér í málefnum Red Sox vilja meina að framkvæmdastjóri (Manager) hjá Liverpool sé sambærileg staða og framkvæmdastjóri (General Manager) hjá Red Sox. Prufum að vinna út frá því til að byrja með.
Framkvæmdastjórinn (General Manager) hjá Red Sox
FSG skipti um framkvæmdastjóra þegar þeir keyptu félagið, ráðningin 2002 var alltaf einungis hugsuð til skamms tíma. Síðan þeir réðu sinn mann árið eftir hafa þeir aðeins haft tvo framkvæmdastjóra og aldrei rekið slíkan.
Liðið hefur á þessum tíma farið í gegnum hæðir og lægðir en FSG trúa á langtímaplanið hjá sér og þeir hafa mikla trú á stöðugleika. Það er mjög ólíklegt að þeir hlaupi til ef illa gengur (t.d. eitt tímabil) og umturni öllu. Þeir lagfæra það sem þarf en áherslurnar breytast lítið og mannaráðningar ekki heldur ef traust ríkir milli eigendanna og þeirra sem þeir fá til að stýra sínum íþróttafélögum. Þetta gæti orðið raunin með Rodgers því ef hann er ennþá að vinna skv. áætlun FSG er engin ástæða til að ætla að hann fái sparkið eftir eitt slæmt tímabil. Red Sox hafa tekið meiri sveiflur en Liverpool er að gera núna og komið sterkt til baka.
Theo Epstein
Hvorugur af framkvæmdastjórum Red Sox undir stjórn FSG hafði reynslu í því starfi áður en þeir fengu starfið hjá Red Sox. Theo Epstein var 28 ára þegar hann var ráðinn. Hann var útskrifaður frá Yale og helsta tenging hans við hafnabolta á háskólaárunum var sem ritstjóri íþróttablaðs skólans.
Hann byrjaði í hafnaboltaheiminum sem almannatengill fyrir San Diego Padres undir lok tíunda áratugarins og stundaði lögfræðinám á sama tíma. Eftir það vann hann með Larry Lucchino hjá San Diego og kom með honum til Red Sox er FSG keypti félagið.
Lucchino er ennþá stjórnarfomaður Red Sox og einn af eigendum FSG. Eins og frægt er orðið hafnaði Billy Beane boði Red Sox að gerast framkvæmdastjóri félagsins og í kjölfarið var leitað til Epstein.
Michael Gordon næst stærsti hluthafinn í FSG er sá úr eigendahópnum sem er í sambærilegu hlutverki hjá Liverpool og Lucchino er hjá Red Sox. Rodgers fer til fundar með honum núna eftir tímabilið og Ayre er í samskiptum við hann þegar hann ræðir Liverpool við FSG. Hægt að lesa áhugaverða grein um hann hér.
Nokkrir í eigendahópi FSG höfðu reynslu af því að eiga íþróttalið og maður eins og John W Henry ræður ekki 28 ára óreyndan strák til þess að stýra félaginu sínu og gefur honum alveg frjálsar hendur. Epstein var ráðinn til að framfylgja stefnu og langtímaplani FSG og vinna sem partur af stærri heild. Hann var aldrei að fara verða til vandræða rétt 28 ára gamall og lang yngsti framkvæmdastjóri deildarinnar.
Partur af plani FSG var t.a.m. að innleiða það sem Billy Beane var að gera betur en aðrir og réðu þeir ungan mann inn sem var opinn fyrir nýjum hugmyndum og tilbúinn að tileinka sér þær hratt.
Epstein var engu að síður yfirmaður hafnaboltahluta Red Sox, allir hafnabolta starfsmenn félagsins heyrðu undir hann og hans ákvarðanir höfðu mest vægi, t.a.m varðandi leikmannakaup. John W Henry og FSG hafa alltaf stúderað hvað keppinauturinn er að gera best og reyna að bæta sín lið með því að læra af þeim bestu. Fyrstu ár þeirra hjá Boston eru núna partur af íþróttasögunni og undir lok áratugarins var búið að margverðlauna Epstein fyrir störf sín hjá Red Sox. Hann fór aðeins að líta stórt á sig og fannst stefna eigendanna vera að halda aftur af sér. Epstein hætti á endanum meðan hlutabréf í honum voru í hámarki.
Hann kom þó aftur stuttu seinna og fékk lausari tauminn hjá FSG fyrir tímabilið 2011. Innkaup fyrir það tímabil voru afleit og FSG yfirborgaði verulega (og úr karakter) fyrir menn sem bættu liðið lítið sem ekkert. Um haustið fór félagið úr því að vera í efsta sæti niður í sæti sem ekki gáfu þátttökurétt í úrslitakeppninni.
Epstein hætti eftir tímabilið og tók við starfi hjá Cicago Cubs þar sem hann réði meira. Þar hefur hann verið í þrjú tímabil og liðið hefur ekki ennþá átt sigurleiktíð (unnið fleiri leiki en þeir hafa tapað). Hann er þó ennþá bara 41 árs gamall.
Ben Cherington
Fyrir Epstein var Ben Cherington ráðinn, hann tók líka við þegar Epstein hætti undir lok síðasta áratugar. Cherington er ári yngri en Epstein og telst einnig mjög ungur sem framkvæmdastjóri. Hann hóf störf sem njósnari hjá Red Sox árið 1999 og hefur því verið hjá félaginu allann tímann sem FSG hefur verið þarna.
Á þeim þremur árum sem hann hefur verið við völd hafa Red Sox endað neðstir í sínum riðli, unnið titilinn og aftur endað neðstir í sínum riðli. Þeir eru núna eitt besta lið landsins á ný. Cherington var einnig næstráðandi árið 2011 en starf hans aldrei talið vera í hættu. Hann er að vinna eftir plani FSG og fær traust og þolinmæði á meðan.
Einhverjir kunna að vera ósammála að bera saman starf Rodgers og Epstein/Cherington og vilja frekar líkja þeirra hlutverki við það sem Ian Ayre gerir hjá Liverpool. Þjálfari hjá Red Sox er þó enganvegin eins valdamikill og Rodgers er hjá Liverpool og því passar sá samanburður ekki alveg. Það er samt Ayre sem vinnur beint með FSG í hverri viku rétt eins og það er GM hjá Red Sox sem er í beinum samskiptum við Lucchino.
Með því að skoða hvað FSG hefur gert hjá Red Sox er í besta falli óraunhæft að gera sér miklar vonir um að þeir hlaupi til og fylgi tísku straumnum í sumar á eftir heitasta þjálfaranum þetta sumarið. Mikið nær væri að búast við nýjum Brendan Rodgers. Þess vegna ennþá yngri manni með enga reynslu af því að stýra liði á stærð við Liverpool, manni með nýjar hugmyndir sem sannfæra FSG, eitthvert ofurskipulagt excel barnið. Grunar að þeir horfi t.a.m. af áhuga á dönsku deildina í ár og þá aðallega Midtjylland. Þar er eitthvað nýtt og spennandi að virka sem vert er að skoða betur.
Hver veit nema Eddie Howe sé þjálfari sem þeir horfi til, maður sem hefur stanslaust náð árangri eftir að hann tók við þrátt fyrir að hafa ekki haft nokkra einustu reynslu af þjálfun er hann tók við 31 árs. Ekki frekar en Jason Tindall aðstoðarmaður hans. Eru þeir brautryðjendur fyrir stjóra framtíðarinnar rétt eins og Rodgers hefur verið að mörgu leiti? Með þessu er auðvitað ekki verið að útiloka neitt, bara horfa í það hvernig FSG reynir að skera sig úr.
Skoðum afhverju FSG eru líklegri til að fara frekar í þessa átt heldur en viðurkenndan reynslubolta með því að skoða hvernig þeir hafa unnið hja Red Sox.
Þjálfarar
FSG hafa ráðið fjóra þjálfara frá því þeir tóku við árið 2002 og rekið þrjá þeirra. Aðeins einn af þessum þjálfurum hafði nokkurntíma átt vinningstímabil áður en hann kom til Red Sox. Þessi eini sem þó hafði afrekað það var mesta hörmungin af þeim þjálfurum sem Red Sox hafa ráðið og var rekinn strax.
Grady Little:
Fyrsti stjórinn sem þeir réðu heitir Grady Little og ekki bara hafði hann aldrei átt vinningstímabil, hann hafði hann enga reynslu af því að stýra liði í Major League Baseball.
Hann var við stjörnvölin tvö tímabil þar sem liðið vann 93-69 fyrra árið og 95-67 seinna árið. Seinna árið var hann rétt búinn að koma liðinu í úrslitin en talið er að undir pressu hafi hann ekki farið eftir plani og skipt út lykilmanninum Pedro Martinez sem farinn var að þreytast. Hvort sem þessi kenning er rétt eða ekki er honum víst smá vorkun því að taka hann útaf í þessari stöðu væri svipað og að gera slíkt hið sama við Gerrard hjá Liverpool er hann var á hátindi ferilsins (fleirum hugsað til Benitez og Everton leiksins?)
Þetta er þó ansi hæpin skýring enda FSG ekki að skipta sér af einstaka ákvörðunum þjálfarans, skipun hvað þetta varðar hefur þá komið frá Epstein eða greiningardeild félagsins sem ráðleggur stjóranum og Little ekki haft þá trú á þeim eins og FSG vill að þjálfarar hafi. Þjálfarinn hefur samt alveg frjálsar hendur í leikjum og nýtur traust til að stýra liðinu til sigurs.
Stærsta synd Little er sögð hafa verið sú að neita að innleiða það plan sem FSG vildi að félagið ynni eftir og setti upp sitt eigið, hann var ekki að vinna með öllum deildum félagsins og það er eitur í huga FSG. Hann treysti ekki eins rosalega á þá tölfræði sem yfirmenn hans vildu innleiða hjá félaginu og treysti meira á eigin tilfinningu. Eins er talið að hann hafi misst klefann hjá liðinu. Hverju sem um var að kenna þá var hann rekinn eftir aðeins tvö tímabil fyrir að fylgja ekki stefnu FSG, næsti maður yrði klárlega að gera það. Athugið að árangur Little var alls ekki slæmur, hann bara vann ekki skv. áherslum eigendanna.
Ef við heimfærum þetta á Liverpool þá skiptu FSG um stjóra þegar þeir eignuðust Red Sox, næstum sama má segja hjá Liverpool þó þeir hafi verið full lengi að reka Hodgson. Næsti maður var ekki alveg að kaupa allar nýju hugmyndir FSG og fékk að fjúka fljótlega, gerðist það sama hjá Dalglish og Little?
Terry Francona
Nýr stjóri var fyrrum leikmaður og hafði öfugt við Little reynslu af því að stjórna liði í MLB, þó árangur hans hafi ekki verið merkilegur þau fjörgur ár sem hann hafði verið í deildinni. FSG rak stjóra sem hafði náð betri árangri að meðaltali en Francona hafði náð á ævinni. Francona var sá eini sem talað var við með reynslu af því að stýra liði í MLB.
Hann var því alls ekki stórt nafn er hann kom til Red Sox, líklega lægra skrifaður en Rodgers var þegar hann tók við Liverpool.
Vangaveltur þegar hann var ráðinn voru kunnuglegar, menn spurðu sig hvort hann væri að taka við of stóru liði og réði ekki við stórar stjörnur liðsins. Eins var dregið í efa hvort hann réði við pressuna í Boston og svar hans við því var frábært: “Think about it for a second: I’ve been released from six teams. I’ve been fired as a manager. I’ve got no hair. I’ve got a nose that’s three sizes too big for my face, and I grew up in a major league clubhouse, my skin’s pretty thick, I’ll be OK.”
Francona var ólíkur Little að því leiti að hann var vinur leikmannana og mjög góður maður á mann. Hann vissi hvar hann átti að draga línuna en leikmenn liðsins virtu hann gríðarlega og spiluðu fyrir hann. Finnst ég kannst við þessar lýsingar stjóra Liverpool þó kannski minna þetta tímabil en áður.
Francona vann af heilum hug eftir þeirri stefnu sem Little hafði neitaði að fara eftir og hún gekk ekki nógu vel. Hann greindi því vandann ásamt Epstein og öðru starfsliði áður en þeir sýndu yfirmönnum sínum þær breytingar sem þeir vildu gera og fengu grænt ljós á það. Þetta dugði til að enda bölvun Babe Ruth og var Francona stjóri liðsins í átta ár samfellt, hann vann tvo titla og kom liðinu sex sinnum í úrslitakeppnina.
Hann endaði þó feril sinn hjá Red Sox ekki á góðum nótum og var með efasemdir í garð FSG í ævisögu sinni.
“They come in with all these ideas about baseball, but I don’t think they love baseball,” “I think they like baseball. It’s revenue, and I know that’s their right and their interest because they’re owners … and they’re good owners. But they don’t love the game. It’s still more of a toy or a hobby for them. It’s not their blood. They’re going to come in and out of baseball. It’s different for me. Baseball is my life.”
Ástæður fyrir brottför hans eru þó líklega aðeins aðrar en hann leggur áherslu á bók sinni. Félagið lenti í einhverju mesta hruni sögunnar í september 2011 þar sem liðið tapaði forustu sinni í sinni deild og komst á endanum ekki í úrslitakeppnina. Þennan mánuð vann liðið 7 leiki af 27 og fór úr efsta í neðsta sæti síns riðils. Francona stóð á þessum tíma í skilnaði, var háður verkjalyfjum og virtist hafa misst stjórn á klefanum þegar sást leikmanna drekka bjór í klúbbhúsinu á meðan leik stóð.
Hann vildi meina í ævisögu sinni að kaup FSG á Liverpool hefðu tekið fókus eigendanna af Red Sox en þau rök voru afar þunn enda ekkert breytt hvað stjórnun Red Sox varðaði og mikið var sett í leikmannakaup. Red Sox hafa raunar frá 2002 sett hverja einustu krónu í rekstur liðsins og greiða eigendum ekki út arð. Launatékki félagsins hefur verið sá næst hæsti í hafnabolta undanfarin ár þrátt fyrir að vera í talið aðeins tíunda stærsta félagið markaðslega. Eigendahópurinn hefur sett $300 milljónir af sínum eigin peningum í endurbætur á Fenway Park, gerðu það í stað þess að eyða mörg hundruð milljónum í að byggja nýjan völl eins og fyrri eigendur ráðgerðu.
Rétt eins og með Epstein virðist Francona hafa þótt sinn þáttur helst til vanmetinn, of mikið væri gert úr plani og stjórnun FSG frekar en stjórnun hans á liðinu. Þegar hann fór var hann ekki eins trúaður á stefnu FSG og ekki að vinna eftir henni, auk þess hafði hann ekki lengur eins góða stjórn á klefanum og það sást á vellinum. Francona var löngu orðinn goðsögn í Boston, FSG hikaði þó ekki við að láta hann fara.
Maður veltir fyrir sér nú hvort eitthvað svipað sé upp á teningnum hjá Roegers? Hann virðist ekki treysta þeim leikmönnum sem voru keyptir og getur ekki verið að spila þeim eins og lagt var upp með. Liðið virðist vera hætt að spila fyrir hann og hann hefur verið í fréttum þetta tímabil vegna einkalífsins.
Bobby Valentine
Fyrir Francona þurfti að fá stórt nafn og mann með reynslu. Valentine var sá maður þó hann hafði reyndar ekki stjórnað liði í MLB síðan 2002 og þótti mjög umdeildur.
Valentine entist aðeins eitt ár í Boston. Hann tók vissulega við örlítið brotnu liði en þetta eina tímabil Valentine var það versta hjá Red Sox síðan 1965. Kanarnir á TTT draga í efa að Valentine hafi verið framtíðarráðning hjá FSG, svo illa passaði hann í þeirra módel og þeir voru fljótir að leiðrétta þá ráðningu. Þeir eru jafnan mjög fljótir að bregðast við sýnist þeim það þurfa.
John Farrell
Núverandi stjóri Red Sox hafði aðeins tveggja ára reynslu úr stjórasæti í MLB og hafði ekki ennþá náð vinningstímabili hjá Toronto er hann var ráðinn til Red Sox stórveldisins. Eru menn ekki aðeins farnir að draga úr væntingum sínum þess efnis að FSG fái til sín reynda stjóra sem eiga að vera sure thing? Af öllu að dæma í Boston eru þeir mjög ólíklegir til að vilja gamlan hund sem fyrsta verk verður að kenna að setjast eftir þeirra skipunum.
Já og þessi óreyndi stjóri (Farrell) sem tók við 2012 vann titilinn á sínu fyrsta ári, þriðja titil Red Sox undir stjórn FSG. Á sínu öðru ári afrekuðu Red Sox næst versta árangur liðsins frá 1965 en starf Farrell var ekki í hættu, hann er enn að fylgja þeirra stefnu. (Man einhver eftir því þegar Liverpool átti sína verstu byrjun í 50 ár nokkrum mánuðum eftir að hafa barist um titilinn?)
Farrell er núna á sínu þriðja tímabili og Red Sox eru 3-4 besta lið deildarinnar.
Vinnur FSG öðruvísi í Boston heldur en Liverpool?
Ef menn trúa því að framtíð Rodgers sé í hættu núna eftir þetta tímabil og að framtíðarstefnu FSG verði á einhvern hátt umturnað eru þeir með þvi að treysta á að FSG vinni öðruvísi í Liverpool heldur en þeir hafa gert í Boston. Ekki nema Rodgers hafi unnið öðruvísi en lagt var upp með fyrir mótið. Lok þessa tímabils gera hans stöðu miklu erfiðari en hún var fyrir mánuði þegar þessi færsla var upphaflega skrifuð.
Ef menn trúa því að FSG reki Rodgers af þeirri ástæðu helst að „betri“ kostur bjóðist akkurat í sumar sem verði ekki laus að ári eru þeir einnig að treysta á að FSG vinni öðruvísi í Liverpool heldur en þeir gera í Boston.
Já og ef menn halda að FSG skipti Rodgers út fyrir „stórt nafn“ eru þeir að treysta á að FSG spili þetta allt öðruvísi í Liverpool en þeir hafa gert í Boston og reyndar Liverpool líka. Dalglish sem er nú stórt nafn hafði t.a.m. ekki starfað í boltanum síðan á síðustu öld, ekki ósvipað Valentine, eina „stóra nafninu“ sem FSG hefur ráðið. FSG hafa aldrei svo mikið sem velt fyrir sér stóru nafni þegar kemur að því að ráða nýjan stjóra hjá Red Sox.
Eini stjórinn sem ekki er með sigurhlutfall sem stjóri Red Sox í eigu FSG er Valentine, „stóra nafnið“.
Ef menn halda að Rodgers verði rekinn fyrir leikmannakaup síðasta sumars eru menn að treysta á að FSG vinni öðruvísi í Liverpool heldur en Boston. Þetta er reyndar afar óljóst hjá Liverpool en skv. öllu virðist Rodgers vera partur af hópi sem sér um þessa hlið mála og spurning hvort aðrir úr þessum hópi séu nú í svipað mikilli hættu ef ekki meiri og Rodgers.
Þessa færslu vann ég fyrir mánuði síðan og staða Rodgers hefur gjörbreyst á þessum mánuði. Mögulega hefur síðasta tímabil stigið honum eitthvað til höfuðs og hann getur ekki verið að vinna 100% eftir transfer nefndinni eða öðrum deildum félagsins. Fari svo (sem mér þykir nokkuð líklegt núna) að hann verði rekinn þá ætla ég ekki að útiloka neitt í þjálfaramálum enda stefna Liverpool í grunninn ekki mjög fráburgðin því sem verið er að gera í Evrópu, stjórar þar eru mun vanari þeirri samvinnu sem unnið er eftir hjá Liverpool heldur en tíðkast á Bretlandi.
Þetta er svipað með Director of football stöðuna sem margir halda að FSG leggi áherslu á. Það sem helst getur orðið Rodgers að falli er ef samband hans við FSG brostnar. Það þarf ekkert endilega að hafa neitt með úrslit leikja yfir eitt tímabil að gera, ef svo væri er FSG að vinna öðruvísi í Liverpool heldur en Boston. Það er reyndar ekkert sem bendir til annars en að samband Rodgers og FSG sé mjög traust en á móti er ólíklegt að FSG hefði sagt frá því ef sú er ekki raunin.
Það að komast ekki í Meistaradeild grunar mig að verði erfiðara umræðuefni heldur en tapið gegn Stoke. Satt að segja held ég að Liverpool hefði nú unnið þessa þrjá leiki sem uppá vantar til að ná CL sæti með nothæfan sóknarmann í vetur, ekki verstu framlínu félagsins frá upphafi.
Annar Bandaríkjamaður sem er lesendum TTT að góðu kunnur hefur farið mikinn í ummælum við færsluna sem vitnað er í upphaflega og hefur komið inn á nokkur atriði til viðbótar varðandi FSG. Hann hefur reyndar gert það síðan þeir keyptu félagið og er mjög vel að sér hvað FSG og Red Sox varðar. Mig langar að fara yfir nokkra punkta sem mér þótti áhugaverðir.
Planið hjá Red Sox
Stefna FSG hjá Red Sox gengur að öllu leiti út á það að vinna titilinn (World Series), eftir þrjá titla eru menn hættir að efast um þá þar þó inn á milli komi töluverðar lægðir. Ef skoðað er hvernig þeir hafa rekið Red Sox má sjá að þeir hafa byggt á traustum grunni innan sem utan vallar og alltaf reynt að vera í forgrunni að innleiða þær breytingar sem verða á íþróttinni og reyna ítrekað að læra af þeim sem eru að gera betur en þeir. Þetta er 100% öfugt við það sem Liverpool var að gera með Moores og Parr við stjórnvölin.
Tölfræði er tól sem þeir treysta mjög mikið á eins og við þekkjum og sama á við um rekstur Liverpool. FSG er langt í frá eina liðið sem er að þessu, þetta á við um öll lið í dag og allar íþróttagreinar. Þeir hinsvegar treysta alfarið á sitt plan og hafa ítrekað náð árangri, oft yfir væntingum og með því að fara gegn því sem “allir vita“ að “gengur ekki”.
Líka hjá Liverpool, ég skal lofa ykkur að þeir horfa ekki á brotthvarf Suarez sem einu ástæðuna fyrir hruni Liverpool. Rodgers er líklega ekki að hjálpa sér að tala ítrekað um mörkin sem hann missti frá því í fyrra til að útskýra árangurinn í vetur enda áttu þeir sem komu í staðin vonandi líka að skora af og til. Það er líka spurning við hvern Rodgers er að tala? Fjölmiðla, áhorfendur eða FSG? Nóg fékk hann og þeir sem vinna með honum af peningum sl. sumar til að bæta hópinn.
FSG leggur mikið upp úr að sín lið þróist í takti við tímann og ef plan A virkar ekki endurskoða þeir það og reyna að laga. Sífellt og endalaust. Aftur, ekkert einsdæmi í íþróttum en eitthvað eru þeir að gera betur en aðrir.
Árangur mun fyrr í Boston
FSG náði mun fyrr árangri í Boston heldur en hjá Liverpool og hægt er að taka til nokkrar ástæður. Fyrir það fyrsta voru Red Sox ekki nærri því í jafn slæmum málum og Liverpool þegar FSG keypti félögin. Red Sox höfðu verið náægt því að vinna titilinn skömmu áður á meðan Liverpool var í botnbaráttu. Minni deildar fyrirkomulagið hjá Red Sox (sambærilegt yngri flokkum og varaliði Liverpool) var gríðarlega gott og þar voru nokkrir leikmenn sem áttu eftir að koma inn í aðalliðið á næstu árum, þetta er eitthvað sem þeir treysta mikið á ennþá. FSG þurftu svo ekki að eyða eins löngum tíma í tiltekt hjá Red Sox og hjá Liverpool.
Hjá Liverpool þurfti t.a.m. að eyða gríðarlegum fjárhæðum í að borga fyrir teikningar af velli sem aldrei var tekið svo mikið sem skóflustunga af. Hvað þá til að greiða upp laun þjálfara og/eða losna við lélega leikmenn á Meistaradeildarlaunum.
FSG leggur gríðarlega mikið upp úr yngriflokkastarfi hjá báðum liðum og telur framtíðina liggja þar hjá báðum, þeir eru líka að sanna það hjá báðum liðum. Ef byggja á til framtíðar þarf að byrja á því að byggja traustan grunn. Ef yngriflokka/varaliða (Minor Leagues) starf Red Sox er skoðað sést að þeir eiga mikið magn af ungum leikmönnum sem verða tilbúnir að taka við af reyndari mönnum á næstu 2 árum. (Sjá nánar hér)
Sama stefna hefur klárlega verið innleidd hjá Liverpool og hefur félagið aldrei í sögunni átt eins marga unga og efnilega leikmenn. Ef byggja á upp lið á öflugum yngri flokkum krefst það þess að þessir menn fái sénsinn og Liverpool undir stjórn FSG verða seint sakaðir um að gefa ungum leikmönnum ekki séns. Þetta er sú stefna sem FSG vill að unnið er eftir og þeir trúa því að þetta ásamt auðvitað leikmannakaupum skili Liverpool á endanum árangri og þá ekki bara árangri í skamman tíma heldur verði eitthvað til að byggja á til framtíðar.
Notkun á tölfræði og uppbygging í gegnum yngri flokka eru samt bara partur af framtíðarsýn FSG og á engan hátt einu þættirnir sem horft er til. Allt sem gefið getur forskot er tónlist fyrir FSG.
Leikmannakaup
FSG ræður fagfólk til að sjá um daglegan rekstur, Epstein og Cherington hjá Red Sox hafa verið yfir þessari deild í Boston. Ef þeir sem sjá um rekstur hafnaboltaliðsins segja að eitthvað sé góður díll þá stendur FSG ekki í vegi fyrir því. Þeir vilja vita afhverju umrædd viðskipti eru góð og ef þau klikka vilja þeir vita hvað fór úrskeiðis en þeir taka aldrei fram fyrir hendurnar á þeim sem þeir fá til að stýra þessum einingum í rekstri FSG.
Ein undantekningin er á þessu miðað við orð þeirra á TTT, eitthvað sem við ættum orðið að þekkja vel hjá Liverpool frá því FSG tók við. Þeir eru á því að þegar búið er að semja um kaup og kjör sé það endanleg niðurstaða.
FSG labbar ekki í burtu heldur hleypur þegar reynt er að breyta áður samþykktum viðskiptum á síðustu stundu. Dettur mér þar strax í hug samningsviðræður vegna mögulegra kaupa á Gylfa Sig, Dempsey, Willian og Konoplyanka án þess að hafa neitt fyrir mér í þeim efnum.
Það má svo deila um það hvort þetta sé nógu góð stefna í þeirri samkeppni sem er í fótboltanum því ég efa að Liverpool hafi nokkurntíma unnið alvöru kapphlaup um neinn (stóran) leikmann undir stjórn FSG. Þó vissulega hafi verið áhugi á mörgum þeirra.
Red Sox hafa gert nokkur risastór mistök á leikmannamarkaðnum undir stjórn FSG. Sama má segja um Liverpool. Kaupin á Andy Carroll eða tríóinu frá Southamton eru ekki verri en sum af leikmannaviðskiptum FSG. Hinsvegar er afar óalgengt að sjá FSG gera sömu mistökin tvisvar, það er afar ólíklegt að aftur verði unnið eftir svipuðu plani næsta sumar og notað var þegar verslað var frá Southamton og Balotelli. Vonum það a.m.k.
Hverjir sjá um leikmannakaupin
Hinn virti Norðmaður Tor-Kristian Karlsen, fyrrum njósnari og yfirmaður knattspyrnumála hjá Monaco og fleiri liðum skrifaði áhugaverða grein (á norsku) um nefndina góðu hjá Liverpool. Hann er á því að fleiri lið á Englandi fari að vinna eftir módeli Liverpool frekar en öfugt, mörg lið eru þegar farin að vinna svona.
Karlsen er ekki innanbúðarmaður hjá Liverpool en þó vel að sér í boltanum. Hann heldur að nefndin sé eftirfarandi. Ian Ayre sem heldur utan um daglegan rekstur og er í sambandið við FSG, Brendan Rodgers sem er knattspyrnustjóri. Dave Fallows sem er yfir njósnarateymi félagsins og Michael Edwards sem er yfir teyminu sem sér um að greina frammistöður leikmanna (tölfræðilegar upplýsingar o.þ.h.). Það er ekki tilviljun að hlutverk Edwards sér svona stórt hjá félaginu.
Ekkert af þessu eru nýjar upplýsingar en Karlsen vill meina að Barry Hunter, yfirnjósnari(heyrir undir Fallows) sé ekki partur af þessari nefnd, partur af ástæðunni gæti verið að hann sé of tengdur/hliðhollur Rodgers enda þeir gamlir vinir. Mikilvægari ástæða er þó líklega sú að Fallows og Edwards treysta mikið á tölfræðilegar upplýsingar og sérhæfa sig í að greina þær áður en tekin er ákvörðun.
Eins og áður hefur komið fram var nefndin skipuð eftir að félagið keypti Borini og Allen skv. óskum Rodgers. Þau kaup eru þó ekki ástæða þessa fyrirkomulags enda búið að ráða bæði Fallows og Hunter áður en Rodgers tók við. Þeir voru bara ennþá samningsbundnir Man City þetta sumar.
Karlsen er á því að fleiri lið á Bretlandi séu farin að miða leikmannakaup sín meira við tölfræðilegar upplýsingar frekar en bara skýrslur frá njósnarateyminu. Tekur hann Newcastle sem dæmi um hið gagnstæða en þar hefur yfirnjósnarinn (Graham Carr) mun meira vægi en Hunter sem er í sama hlutverki hjá Liverpool.
Ian Ayre sagði strax árið 2013 að þessi nefnd myndi vinna sama starf og DoF færi að vinna annars og ekki væri á dagskrá að ráða slíkan mann. Skipulagið hjá Liverpool er í takti við það hvernig mörg lið eru að gera á meginlandi Evrópu og hafa gert lengi. Nefndin og áhersla á samvinnu í stað þess að treysta á fáa er hugsuð sem gæðastýring og til að halda stöðugleika innan félagsins. Hver og einn er bara partur af keðjunni og félagið fer ekki á hliðina ef skipta þarf um eitt tannhjólið. Enda væri galið að stjórinn réði því nánast einn í dag hvernig leikmannakaup félagsins eru ef horft er í starfsmannaveltuna meðal þjálfara.
Þetta fyrirkomulag á að koma í veg fyrir að alltaf sé verið að byrja frá grunni. Það hefur augljóslega ekki verið að virka nógu vel síðan FSG keypti Liverpool og klárt mál að einhverju þarf að breyta. Hvort sem það er að fá inn mann sem notar þá leikmenn sem keypt er inn eins og lagt er upp með eða þá að farið verði aðra leið í leikmannakaupum.
Önnur lið með sambærilega tengingu við Amerísk félög
FSG eru ekki einu Amerísku eigendur fótboltaliða á Englandi og fróðlegt er að bera þá saman við t.d. fyrri eigendur Liverpool, stærsta eiganda Arsenal og eiganda Aston Villa. Hægt er að skoða hvernig þau lið eru rekin þegar velt er upp hvort rétt sé að bera saman Liverpool og Red Sox.
Geta stuðningsmenn Arsenal t.a.m. horft í það hvað Stan Kroenke er að gera hjá St. Louis Rams sem er NFL lið. Stuðningsmenn Liverpool hefðu heldur betur getað spáð fyrir um framtíð félagsins með því að skoða fyrri „afrek“ Gillett og Hicks.
Stuðningsmenn Arsenal ættu kannski að horfa aðeins til Bandaríkjanna þar sem Kroneke á ekki bara St Louis Rams heldur einnig íshokkýliðið Colarado Avalanche og körfuboltaliðið Denver Nuggets.
Þessi lið vinna aldrei neitt og eiga sífellt í vandræðum með sína bestu leikmenn sem eru seldir fyrir „rétt verð“. Stan Kroneke kaupir íþróttafélög vegna þess að hann lítur á þetta sem góða fjárfestingu og í Ameríku hefur það heldur betur verið raunin fyrir hann. FSG eru í íþróttum að þeirri einni ástæðu til að vinna eins og John W. Henry hefur ítrekað haldið fram og þeir hafa sannað í Boston og fóru mjög nærri með Liverpool. (Tek fram að þetta eru ekki mín orð heldur tekið af TTT).
Áhugavert fyrir því enda rímar rekstur Arsenal smá við hin liðin sem Kroneke á í Bandaríkjunum. Kroneke er þó ekki eini eigandi Arsenal og það er margt sem bendir til þess að þeir séu að verða tilbúnir að taka stórt skref uppávið á næstu árum.
Þegar Kroneke var minnihlutaeigandi í St Louis Rams vann liðið raunar Super Bowl og voru rétt búnir að vinna hann aftur stuttu seinna. En eftir að hann tók við hefur leiðin bara legið niður á við, hann er óvinur númer eitt í borginni eftir að hann kynnti plön í byrjun þessa árs um að hann hyggst fara með liðið frá St. Louis.
Denver Nuggets var í ágætis málum undir stjórn George Karl skömmu eftir að Kroneke keypti félagið en hafa farið niður á við alla tíð síðan. Er hann tók yfir Colorado Avalanche höfðu þeir nýlega unnið Stanley Cup og voru eitt af betri ískokký liðum í heimi, eftir að hann eignaðist liðið hefur leiðin legið niður á við. Hvað gerist hjá þessum liðum í framtíðinni er vonlaust að segja en þarna hafa góðir stjórar jafnan hætt og bestu leikmenn liðanna í kjölfarið. Hvað gerist hjá Arsenal er erfitt að segja en m.v. rekstur Kronkeke í Bandaríkjunum er ekki líklegt að þeir fari að borga laun á næstunni í líkingu við það sem ríku liðin þrjú fyrir ofan eru að gera. Ekki frekar en Arsenal hefur verið að gera hingað til.
Stuðningsmenn Arsenal trúa því margir hverjir ennþá að Arsene Wenger sé svo mikill hagfræðingur að hann neiti að kaupa leikmenn og borga þeim laun, röfla stanslaust yfir honum en horfa aldrei til yfirmanna hans. Þetta hef ég aldrei skilið.
Stuðningsmenn Aston Villa gætu einnig dregið einhvern lærdóm af eignarhaldi Randy Lerner á Cleveland Browns. Hann setti stundum pening í félagið en svelti það þess á milli áður en hann svo seldi félagið. Þannig hefur þetta ca. verið hjá Villa og verður líklega raunin á endanum.
Langtímamarkmið FSG
Margir draga í efa að FSG sé hjá Liverpool til langframa og hyggist frekar selja er hámarksviði fæst fyrir. Það má vel vera en þeir skila þá að öllu leiti betra búi en þeir tóku við. Höfum þó í huga að FSG keypti Boston Red Sox árið 2002 og þeir eru ennþá í Boston og það sem meira er þá eru þeir ennþá að skila titlum. Undanfarin áratugur hefur verið sá besti í sögu allra núlifandi stuðningsmanna félagsins. Leikplanið hjá Henry og co er einfalt hann stelur bestu hugmyndunum frá þeim liðum sem eru að standa sig best og geta nýst hans liði og innleiðir og endurbætir hjá sínu félagi.
Þannig braut hann bölvun Babe Ruth á bak aftur til að byrja með. Hann er vel meðvitaður um að hafnabolti árið 2015 er alls ekki eins og hann var árið 2002, enda hafa þeir þróast með og oft verið í fararbroddi. FSG eigendahópurinn er líka vel meðvitaður um að þeir eru ekki sérfræðingarnir þegar kemur að hafnabolta eða fótbolta, en þeir telja sig vera mjög góða í að ráða fólk til að vinna fyrir sig hjá þessum félögum og hafa sannað það.
Markmið FSG hjá Liverpool er einfalt og hefur ekkert breyst þó okkur kunni að þykja þetta ganga hægt. Þeir vilja byggja Liverpool upp í að verða sigursælasta liðið í fótboltanum. Þeir sjá hvað lið eins og Barcelona, Bayern og önnur lið eru að gera betur en Liverpool og reyna að læra af þeim. Eins er hægt að taka lið eins og Swansea og Arsenal sem dæmi um félög sem FSG hefur stúderað og lært af, eflaust er hægt að telja upp öll lið. Þeir eru mjög opnir fyrir nýjum hugmyndum og því meira sem maður lærir um FSG því fyndnara er að Roy Hodgson af öllum mönnum hafi verið stjóri Liverpool þegar þeir keyptu félagið.
Á sama tíma og þeir reyna að læra af öðrum vilja þeir að Liverpool sé í forystu og ráða til sín fólk með ferskar hugmyndir sem geta gefið forskot. Þetta á við um í öllum deildum, læknateymi, hvað varðar njósnara, leikstíl og bara hvað sem er. Það er svo eins hjá Liverpool og Red Sox að FSG eru mjög meðvitaðir um að það sem gengur upp í dag þarf ekki endilega að ganga upp á morgun og þeir aðlaga sig fljót að breyttu umhverfi.
Deild þeirra ríkustu
Eitt sem Red Sox gefur góð fyrirheit um er varðandi annað markmið FSG samhliða því að gera Liverpool eitt af sigursælustu liðum Evrópu. Þeir vilja koma Liverpool upp í sama flokk og ríku liðin eru í dag og telja sig fullfæra um það. Ég myndi ekki veðja gegn John W Henry þegar kemur að viðskiptum.
FSG eru á þvi að hægt sé að auka tekjur á leikdegi sem og aðrar tekjur það mikið að liðið geti keppt við þá allra bestu og jafnvel farið framúr einhverjum þeirra. Við sjáum þetta kannski ekki í dag en framkvæmdir eru vissulega hafnar við stækkun vallarins og uppbygging innanfrá er mun líklegri til árangurs í dag heldur en hún var þegar FSG keypti félagið. Sama hverstu svart ástandið er í dag.
Ágætt að halda því til haga að FSG er að fjármagna framkvæmdir við Anfield úr eigin vasa ef skilja má Bandaríkjamennina rétt og hefur sú framkvæmd því ekki bein áhrif á rekstur Liverpool né FFP. Rekstur Liverpool þarf að standa undir framkvæmdinni rétt eins og gert var hjá Red Sox en lánið er líklega á töluvert betri kjörum en RBS lánin sem Gillett og Hicks voru að treysta á.
FSG ætla sér ekkert að hafa status quo hjá Liverpool og horfa á liðin fyrir ofan verða ríkari og sjá bilið breikka. Þeir hafa fulla trú á því að þeir geti verið með og hafa sannað það í Boston að þeir vita hvað þeir eru að gera. Boston er ekki eitt af stóru markaðssvæðum Bandaríkjanna en Red Sox eru þrátt fyrir það eitt af ríkustu liðunum.
Stefna FSG er að gera það sama hjá Liverpool og eru þeir þegar byrjaðir að auka tekjurnar verulega. Félagið er eitt það ríkasta í boltanum nú þegar þó það dugi ekki til enn sem komið er.
Langtímaplan FSG gæti verið að taka lengri tíma en margir vonuðust eftir þó reyndar þurfi ekki annað en horfa til síðasta tímabils til að leyfa FSG (og Rodgers?) að njóta vafans. Eins gæti FSG unnið þetta öðruvísi en einhverjir bjuggust við þó flestir hafi líklega gert sér grein fyrir að ekki yrði farið hefðbundnar leiðir í að byggja Liverpool upp á ný.
Markmiðið John W Henry og félaga hjá Liverpool er að byggja upp félag sem mun keppa um toppsætin um ókomna tíð, svipað og hann hefur nú þegar gert í Boston. Með kaupum á ungum leikmönnum og aukum spilatíma þeirra er stefna FSG að byggja grunn sem hægt er að byggja ofan á til framtíðar. Þessu er ég hrifin af og hvort sem Rodgers verður rekinn eða ekki er ólíklegt að þessi stefna breytist mikið.
Hana þarf þó töluvert að laga.
Þessi færsla var að mestu tilbúin fyrir mánuði síðan og var öllu jákvæðari þó hún sé vissulega ennþá skrifuð með glasið hálffullt. Staða Rodgers hefur versnað daglega síðan og gengi Liverpool verið ógeðslegt.
Þetta er auðvitað allt of langt og ég afsaka það en fyrir mér er vænlegast að skoða störf FSG í Bandaríkjunum til giska á hvað þeir eru líklegir til að gera hjá Liverpool.
Stuðningsmenn Red Sox voru ekkert minna að heimta alvöru nöfn til að taka við liðinu en stuðningsmenn Liverpool eru að gera núna. FSG hafa þó ítrekað sýnt þar að það er ekkert endilega lausnin og undanfarin áratugur er gullaldarskeið allra núlifandi stuðningsmanna félagsins.
Sjáum til næstu vikur verða a.m.k. spennandi.
Áhugaverð lesning!
Ég held þó mínu striki og segi að FSG eiga að fórna lífi og þykkum limum til þess að Klopp á Anfield!
Það er ljóst að FSG (áður NESV) tóku við rjúkandi rústum, efnahagslega, eftir landa þeirra Hicks og Gillett. Enn ljósara er að FSG hefur lyft algjöru Grettistaki í rekstri og umsjón félagsins síðan. Þetta eru virkilega klókir businessmenn, það verður ekki af þeim tekið.
Ég held að Brendan Rodgers fái að halda áfram með Liverpool. Því fylgja kostir og gallar að vera með stjóra sem er enn að læra í vinnunni en karlinn er, þrátt fyrir allt, virkilega geðugur, ber virðingu fyrir félaginu og sögu þess og hefur margoft tekist að ná því besta út úr leikmönnum. Aukinheldur bera menn eins og Steven Gerrard og Luis Suárez honum einstaklega vel söguna. Þeir hljóta nú að vita um hvað þeir eru að tala, eða hvað?
Á næsta tímabili fer samt virkilega að reyna á síðasta sumar, þá félagaskiptagluggann. Emre Can, Adam Lallana, Lazar Markovic, Dejan Lovren og fleiri. Emre Can segist vera reiðubúinn að fylla í fótspor Steven Gerrard, þá væntanlega sem miðjumaður. Stór orð frá stráksa! Ég held að við vitum öll hversu efnilegur hann er, en maður myndi annars búast við að það þyrfti að verja stórfé (og þá meina ég stórfé – við erum jú að missa Steven Gerrard!) í miðjumann. Er Jordan Henderson ekki eini fullskapaði CM sem félagið á eins og er? Snúið að eiga við þetta.
Aðdáendur Liverpool hafa mikið talað um stór stjóranöfn. Nú eru vissulega 2-3 slíkir lausir, en hversu raunhæft er að þeir komi til LFC á þessum tímapunkti? Aukinheldur hafa sumir þeirra talað um að taka sér smá frí. Ég get algjörlega séð fyrir mér að FSG hafi talað við Klopp um að taka við um áramótin, ef hlutirnir líta ekki vel út á þeim tímapunkti. En það eru auðvitað jafnvel enn langsóttari vangaveltur en sumt sem maður hefur séð. Finnst það samt alveg líklegt að slík plön finnist í bakhöndinni.
Hópurinn var stækkaður umtalsvert fyrir nýliðið tímabil, þá með átökin í Meistaradeildinni í huga. Nettóeyðslan var vissulega ekkert svakaleg, en sé einnig litið til lánsmanna sem Liverpool á í öðrum félögum, er þetta ansi myndarlegur pakki. Það eru m.ö.o. ansi miklir möguleikir í gangi í sumar. Til dæmis mætti auðveldlega losa 4-6 squad players fyrir 2-3 dýrari.
Í stærra samhenginu finnst mér FSG samt vera virkilega spennandi eigendur; djarfir, fremur gagnadrifnir og klókir en ekki of reactionary. Hafa fjárhagslegan styrk til að vear þolinmóðir með sitt langtímaplan. Hvernig tekið var á málefnum Luis Suárez fannast mér líka virkilega til eftirbreytni – ekki síst tístið hans John W. Henry. Það er þó líklega jafnmikið FSG, Brendan Rodgers og Steven Gerrard að þakka hvernig sú saga edaði. En samt, niðurstaðan varð sú að frábær fótboltamaður gaf okkur eitt ár enn og varð world beater sem var svo seldur á verði sem hæfir slíkum.
Í stuttu máli: ég hef engar áhyggjur þótt FSG og BR sitji sem fastast. Gleymum ekki að árangur tímabilsins 2013-14 var frekar frávik en árangur nýliðins tímabils.
Þeir auka virði fjárfestingar sinnar til þess að græða á henni,alveg eins og aðrir business menn frá USA. Boston eða LA , skiptir engu. Þeir vita ekki rassgat um knattspyrnu og þeirra hugmyndir virka ekki í Evrópu. Burt með BR,inn með winner. Ég held því miður að FSG selji ekki strax.
Flottur pistill hjá þér Babu, en mikið er hafnarbolti leiðinlegur 🙂
Og ef þessi mynd sýnir okkur ekki hvaða menn gáfu okkur 110% á þarsíðasta tímabili, þá veit ég ekki hvaða mynd gerir það: https://metrouk2.files.wordpress.com/2014/05/ad133985528liverpools-steve.jpg
Þetta er eftir jafnteflið gegn Crystal Palace. Svona lítur ástríða út og svona lítur alvöru fótbolti út.
Þessar týpur mun okkur vanta í haust, bæði upp á gæði og reynslu. Félagið er að missa tvo heimsklassa leikmenn á jafnmörgum árum – þá einu sem það hafði. Þarna liggur að mínu mati stærsta vandamálið í félagaskiptaglugganum, með þetta unga lið.
Hvílíkur pistill. Fagmennska og unun að lesa. Ég þakka kærlega fyrir mig. Sú vinna sem þið leggið á ykkur á kop.is er ástæðan fyrir því að ég nenni að vakna marga daga ársins.
Mitt mat, efrir lestur þessarar greinar. Ég vil minn Roman Abramovich til Liverpool. Hef ekki þolinmæðina í FSG – tel þetta ekki getað virkað í nútíma fótbolta.
En þúsund þakkir
Þessi langa grein hjá Babu er svo sem ágæt pæling á þessum eigendum,en ég er ekki mikið nær um það hvert þeir eru að fara með klúbbinn okkar eftir allann lesturinn.
Babu nefnir á einum stað dönsku meistarana sem dæmi sem FSG eru hrifnir af.
Ég hef búið í DK í cirka 20 ár og get sagt að þetta FC mitt Jylland módell hefur tekið alla vega 15 ár og þeir vinna ansi marga leiki 1-0 þar sem sigurmarkið kemur á síðustu fimm mínótonum og ég segi nú bara fyrir mig að sem Liverpool aðdándi að það sé ekki það sem okkar lið vill eða þarf.
Síðasti leikur FC Mitt Jylland var heimaleikur á móti Bröndby og þeir töpuðu þeim leik þar sem besti maður vallarins var Daniel Agger sem er mörgum númerum of stór fyrir dönsku deildina og það var brjálæði að láta hann fara fyrir 3 millur og er að mínu mati ein versta ákvörunin af mörgum hjá Rodgers og hann má fra fjandans til fyrir mér þó ekki væri nema bara fyrir hana.
En jákvæða fréttin í dag er að Anchelotti vilji gjarnan taka við Liverpool og vonandi er eitthvað til í því að FSG hafi haft samband við hann.
#6 Oddi og fleiri sem hafa verið að kalla eftir olíufursta að kaupa félagið, þið verðið að gera ykkur grein fyrir því að menn komast ekki lengur upp með svona bull eins og viðgekkst þegar Roman og shitty olíufurstarnir komu inn. FIFA og UEFA eru að koma í veg fyrir að menn dæli peningum inn í félög (reyndar er Blatter eitthvað aðeins að bakka með þessa stefnu þar sem lið munu aldrei ná peningaliðunum með svona módelinu eins og er í gangi) en þeir munu ekki hætta með þetta, þannig að við verðum að auka tekjur með öllum ráðum.
Gaman er svo að lesa allstaðar hvað chel$ky eru vel reknir og halda sig innan FFA reglanna… þeir áttu ekki nema rúmlega 30 frambærilega menn sem voru í láni til að fjármagna næstu kaup….
En ég held að okkar menn muni halda Rodgers en hann fái næsta tímabil en verði rekinn ef ekki verði gerð hörð atlaga að fjórða sætinu.
Ég vil fara fá niðurstöðu í mál Sterling sem fyrst, fá afdráttarlausa yfirlýsingu ef ekki á að selja hann, eða þá bara selja hann strax í júní byrjun. Og hætta þá þessu bulli með straight cash deal, heldur heimta góða menn í staðinn frá liðum (OX, Wilshire, Walcott – Oscar) eða gefa mönnum bara puttann. Ég er enn trylltur yfir þessu gríni með Suarez og Sanchez. Ef okkar menn hefðu sett skilyrði fyrir kaupunum að Sanchez ætti að koma með þá hefði hann komið, það hefði ekki orðið okkar að sannfæra hann heldur Barca og þeir hefðu náð að gera það.
Nr. 7
Ég hef afskaplega lítið lesið mig til um þetta lið, ekki frekar en Brentford. Þó að þessi lið hafa verið að vinna með tölfræði á annan hátt en önnur lið núna undanfarið og náð góðum árangri þrátt fyrir ódýrari hópa. Tók þá bara sem dæmi um eitthvað sem FSG myndi líklega skoða.
Hvort sem þeir vinna 1-0 í lokin eða hvernig sem þeir gerðu þetta þá unnu þeir jú deildina. Daniel Agger ákvað það svo alveg sjálfur að fara aftur til Danmerkur enda líklega búinn í skrokknum fyrir hæsta level.
Frábær skemmtun að lesa þetta og ég er enn sannfærðari en áður um að niðurstaðan verði annað hvort Rodgers áfram eða nýr stjóri sem ekki er tilbúið nafn. Menn æsa sig upp í að góla nöfn Ancelotti og Klopp en er ekki akkurat málið að svoleiðis menn, með reynslu og ego á borð við Ancelotti eða skapgerð og hörku Klopp eru engan veginn líklegir til að kyngja því að þurfa að vinna eftir ákveðnu módeli sem er sett upp fyrir þá af einhverju hagfræðingum, tölfræðingum og viðskiptamönnum. Frussa þeir ekki bara yfir samningstilboð af þessu tagi og taka einhverju öðru þar sem þeir fá að ráða öllu/flestu? Ég er ekki að sjá að þessir menn og FSG gangi saman undir eina sæng en það verður mjög áhugavert að sjá afraksturinn ef svo verður!
Þrátt fyrir fáránlega óspennandi endi á tímabilinu þá er samt strax orðið spennandi að fylgjast með því hvert framhaldið verður og hvað þá eftir að hafa lesið þennan pistil!
Sæl og blessuð.
Já, Boston we have a problem.
Ef þeir ætla að halda í garminn hann BR þá er eins gott að við finnum það frá degi eitt að kauði er að læra eitthvað. Verst að leiðtogar verða ekki til við námið eitt, en sitthvað má nú samt laga og bæta. Hér leyfi ég mér að tilnefna þrjú atriði sem skipta að mínu látlausa mati sköpum um næsta síson:
1. Auðmýkt – ef 6-1 á móti Þrótti er ekki tilefni til auðmýktar þá er mönnum ekki við bjargandi. From top to flop, getur á hinn bóginn, hæglega endað í örvæntingu, ráðaleysi, nagað allar undirstöður sjálfstrausts og sjálfstjórnar. Auðmýkt er ekki það sama og aumingjaskapur eða annað form af ræfildómi. Við sáum þetta síðasta undir lokin á vetrardagskránni. Endalausar hrókéringar og hringlandaháttur með skipulag leikja – sumsé – ekkert haldreipi lengur og sálin eitt flakandi sár. Auðmýkt er á hinn bóginn einlægur vilji til að ná árangri og sýna í því skyni bæði festu og sveigjanleika. Auðmýkt smitast yfir á leikmennina sem verða vonandi hollari og heilli en ella. Auðmýkt er að mínu viti það mikilvægasta sem BR og co. þurfa að tileinka sér.
2. Leg – sleppum öllu tali um punga. Pungar eru viðkvæm líffæri sem þola illa hnjask og högg – það vitum við. Liverpool er pungmarið félag as we speek – og þarf ekkert að efast um að kúlurnar eru þarna á sínum stað, aumar og bólgnar. Leg eru hins vegar ótrúlega seig og búa yfir eiginleikum sem engar hreðjar geta toppað. Karlmenn sem hafa verið við konur kenndir vita hvursu mikið má á legið reyna og reyndar ætti öllum sem af konu eru fæddir að vera það sama ljóst. Legið á að vera einkennistákn hinnar nýju upprisu félagsins – sveigjanlegt en ótrúlega seigt og þolgott. Af því mun svo fæðast eitthvað nýtt og spennandi.
3. Hagnýt viska – plííís getum við fengið alvöru stræker, getum við spilað mönnum í þeim stöðum sem henta þeim best, getum við haft heillatryggðartröll í varnar-miðjuhlutverki og fúllbakka sem kunna bæði að gefa fyrir og skriðtækla í trasl, vondu sóknarmenn andstæðinganna þegar á þarf að halda. Ekki þessar frjálsu æfingar á töflu meira – aldrei aftur. Fá stabílitet og festu í liðið – alvöru hryggjarsúlu sem stendur sína pligt leik eftir leik í þeim mótum sem bíða í framtíðinni. Hættum að leggja þessa leiki upp eins og fótbolti sé einhver abstraksjón á Nýlistasafni. Hann er það alls ekki. Fótbolti er sígild íþrótt, þar sem hlutföllin þurfa að vera rétt og uppbyggingin lýtur einhverjum skynsamlegum reglum.
Fleira var það nú ekki að sinni.
Lifi Þróttur.
Ég hef enga trú á þessu módeli hjá FSG í enska boltanum. Þetta myndi kannski virka á Hollandi þar sem samkeppnin er ekki af sömu stærð og á Englandi. Það eru þegar tvö lið sem eru miklu betur rekin en við og önnur tvö með ofgnótt peninga, það skilur okkur eftir sem 5. liðið, í besta falli. Að auki er FFP dautt, ekki að það hefði skipt miklu enda Chelsea komnir með kerfi til að koma sér undan því sem virkar bara svona djöfulli vel. Alltaf að selja menn á 50m punda.
Er þetta hafnaboltalið þeirra í Boston að díla við það að missa sína bestu menn ár eftir ár? Það er t.d. eitt sem ekki er að fara að breytast hjá okkur.
Það að byggja rekstur á tölfræði hljómar eins og sölupunktur fyrir aðila sem nenna ekki að spá lengra en það í málið. Tölfræði er bara nokkuð hættulegt vopn í höndum rangra aðila. Það er jú einu sinni meiri líkur á að bygging brenni til kaldra kola eftir því sem fleiri slökkvuliðsmenn mæta á svæðið, svona skv. tölfræðinni. Best að senda 1 þá? Hver metur hvenær hún er marktæk eða ekki? Guð? FSG? Rodgers?
FSG þurfa að gera ansi mikið í sumar svo ég sættist á þá og ég bara hreinlega hef ekki þolinmæði í eitthvað langtímaplan. Hópurinn er í það slæmu ásigkomulagi að það þarf svona 200-300m fjárfestingu til að gera okkur samkeppnishæfa um þennan titil og FSG eru aldrei að fara út í slíkt.
FSG þurfa að reka Rodgers, kaupa hágæða varnartengilið, framherja (+20 mörk), hægri bakvörð, miðvörð, breyta mannskapnum í þessari transfer nefnd, leysa Sterling málið á góðan hátt fyrir klúbbinn og losna við deadwood’in sem safnast hefur í aðalliðinu undir þeirra stjórn (hafa þegar klikkað hér með tveimur nýjum tilgangslausum samningum). Jafnframt væri ágætt að fá einhverja yfirlýsingu frá þeim eftir þessa hörmung af tímabili, einskonar statement of intent.
Þeir gera nú sennilega lítið af þessu. Kaupa Milner, Ings og Benteke ef engin klúbbur annar en við reynum enda náum við ekki einu sinni að klára svona kaup, truflaðir af keppinautum okkar, þó sú truflun væri vel þegin í máli þessara leikmanna.
Ég nenni þessu bara svo ekki neitt. Ég er hættulega nálægt því að gefast upp. Ef ekki verður keyptur topp varnartengiliður nenni ég ekki einu sinni að horfa á þetta tímabil.
FSG out!
Algjörlega sammála Lúðvíki Sverriz!
Mín fimmtíu sent: Setja Can á miðjuna og leyfa honum að springa út. Það býr monster í Þjóðverjanum okkar!
Sem betur fer er tottenham að halda áfram þar sem frá var horfið, þeir vilja nú Ings 🙂 Getum við ekki lekið því út í blöðin að við höfum þvílíkan áhuga á að gera langtíma samning við Balotelli, svona til þess að losna við hann til tottenham fyrir fúlgu 😉
Ég held að þetta módel í Ameríku sé ekki yfirfært 100% á Liverpool. Ástæðan er sú að fjárhagslega hefur Liverpool ekki efni á því að eiga lélegt tímabil eins og í hafnarboltanum. Þar eru sjónvarpstekjur og aðrir styrkir ekki eins mikið háðir árangi í deildarkeppnum. Liverpool hefði aldrei efni á því að lenda í neðsta sæti í deildinni eins og Boston getur leyft sér. Því þá myndi Liverpool, sem fjárfesting hrynja.
Greinin hans Babu er þakkarverð. Frábær vinna og fínasta lesning sem fyllir a.m.k. þennan Púlara hér töluverðri bjartsýni og vissu um að menn viti hvað þeir eru að gera.
Tölfræði er vitanlega ekki gallalaus og hefur á sér tiltekið óorð af því að auðvelt er að misnota hana. Stjórnin segir: Skattar verða 10% á þessu ári og 12% á næsta ári sem er aðeins aukning um 2%.
Stjórnarandstaðan segir: Skattar munu hækka um 20% á næsta ári.
Báðir hafa rétt fyrir sér en framsetningin er mismunandi.
Benjamin Disraeli, sem eitt sinn var forsætisráðherra Bretlands, sagði að til væru þrenns konar lygar. Lygar, bölvaðar lygar og tölfræði.
Einu sinni sagði ónefndur læknir; „Af hverju í ósköpunum fer fólk svona illa með sig. Læknastofan mín er full frá morgni af veiku fólki sem reykir eins og strompar, drekka eins og svín og borðar óhollan mat í óhófi.“ Þetta kann að hljóma sem ágætis speki uns maður leiðir hugann að því að þeir sem ástunda holla lifnaðarhætti kunna að eiga síður erindi á læknastofuna!
Meðaltöl geta blekkt illa. Hvernig liði manni með hausinn í 74°C heitum ofni og fæturnar í 0°C köldu vatni? Líklega hræðilega en meðaltal þessara tveggja talna er samt 37°C, þ.e. líkamshiti mannsins.
Annar galli við tölfræði er hin undirliggjandi óvissa (slembni) í þýðinu. T.d. er ekkert mál meta líkurnar á að ný Toyota sé biluð við afhendingu út frá reynslugögnum. Sama má segja um póker, 21 o.s.frv. þar sem möguleikarnir á tiltekinni útkomu eru þekktir.
Á hinn bóginn er nánast vonlaust að meta hvert virðið á hlutabréfum í Toyota fyrirtækinu verður eftir 2 mánuði eða hvernig veðrið verður í Reykavík (nema að við vitum að það verður vont).
Ég þekki hafnarbolta verulega lítið og hef aldrei spilað íþróttina. En svo virðist mér sem að hafnarbolti sé einfaldari íþrótt en fótbolti og þ.a.l. minni óvissa. Ef það er raunin er hægt að kortleggja tölfræðilega eiginleika leikmannanna og reikna með tiltekinni vissu hvað gerist þegar margir leikir, sem eru nánast kópía hver af öðrum m.t.t. aðgerða leikmannanna, eru spilaðir. Þ.e.a.s. að yfir fjölda leikja er væntigildið þekkt þó að útkoma úr einum tilteknum leik sé ekki þekkt. Þannig er hægt að stúdera eiginleika leikmanna og tvinna saman leikmönnum sem tölfræðilega munu ná þekktum árangri ef nógu margir leikir eru spilaðir með sömu reglum.
Ég held að fótbolti sé erfiðari viðfangs en hafnarbolti m.t.t. þess að auka líkur á árangri með tölfræðigreiningu. En ég er samt handviss um að hægt er að nota nákvæmlega sömu grunnprinsipp. Það eina er að leiðin að markmiðinu er lengri og flóknari.
Að þessu leyti er ég gífurlega hrifin af FSG nálguninni sem er vissulega akademísk en þeir trúa á hana enda hefur hún gefist þeim vel í Boston eins og Babu rekur svo vel.
Ég er mjög svekktur með þetta tímabil. Á hinn bóginn er það liðið og ekkert annað að gera en að horfa fram á veginn. Vonandi fýkur Brendan Rodgers; því miður verður maður að kalla segja eins og er að hann ræður ekki við verkefnið. Það er a.m.k. númeri of stórt fyrir blessaðan manninn. Hvort Rodgers nær vopnum sínum aftur og verður merkur stjóri verður svo tíminn að leiða í ljós.
djöfulsins snilld var þetta hjá #11 um legið (sjá lið 2) … bara gargandi snilld
Frábær pistill Babú, vel gert.
Sælir félagar
Takk fyrir fyrirlesturinn Babu, pistill er of lítið orð fyrir langlokuna en hún fyrirgefst vegna afsökunarbeiðninnar. Það sem uppúr stendur eftir lesturinn er að við vitum ekkert, ég endurtek EKKERT, um fyrirætlanir FSG. Við höfum alskyns tölfræði og módel sem Babu vitnar í um hegðun FSG en niðurstaðan er samt; við vitum ekkert.
Það er svo sem allt í lagi því að lokum koma allir hlutir fram í dagsljósið og enginn velkist í vafa um neitt. Ég hefi verulegar áhyggjur eftir lesturinn því þó ég viti ekkert þá er ég samt mjög hræddur um að BR verði áfram. Það er mér endalaust áhyggjuefni verð ég að segja. Maðurinn ræður nefnilega ekki við verkefnið. Bara alls ekki.
Mér finnst að Klopp ætti alveg að virka í módelinu þeirra þarna hjá FSG. Það sem hann hefur fram yfir BR er reynsla og persónustyrkur. Hann er held ég (minni samt á að ég veit ekkert) vanur að vinna eftir fyrir fram ákveðnu skipulagi, innan ákveðins ramma bæði peningalega og stefnulega. Þjóðverjar eru þekktir fyrir áætlanagerð og stefnufestu og fyrir þeim “er einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár dagur, ei meir”.
Að lokum tek ég undir með Ibbarabba en þó fyrst og fremst með Loðvíki Sverriz. Legið er málið. Legið maður guðs og lifandi. Legið.
Það er nú þannig
YNWA
Tottenham að kaupa Ings…
Balotelli verður áfram hjá Liverpool…
Bjartsýnin vex með Vitretex!
Ef Balotelli verður einn af 4 framherjum næsta vetur og Origi líka einn af þeim plús sturridge sem er meiddur hálfa leiktiðina þá hef eg svakalegar ahygjur af næsta vetri. Origi er langt fra þvi að vera tilbuin i enska boltann og við erum aldrei að fara fa mörg mörk fra honum, ekki koma þau fra Balotelli og ekki koma þau fra Sturridge verði hann meiddur i 4 eda 5 manuði a næsta timabili eins og vanalega,
þurfum að selja Alla okkar framherja nema Sturridge, gefum honum eitt ár enn og gáum hvort hann nái að spila meira en helming leikjanna. með Sturridge má Origi vera 4 kostur en þá vantar okkur 2 frábæra framherja i viðbót sem þarf að kaupa. Benteke væri einn af þeim og Lacasette hinn og þá væri eg sáttur.
Hvað FSG er að hugsa veit eg ekki en mæli með að þeir drullist til að taka
ákvörðun i stjóra málum og fari a fullt i leikmannakaup bara helst í gær og nái kannski þetta sumarið einhverjum af þeirra fyrstu kostum en ekki alltaf kosti nr 3 eda 4 sem halda okkur afram i meðalmennskunni.
Að bera saman ensku úrvalsdeildina og Major League Baseball er eins og að bera saman epli og appelsínu. Í M.L. Baseball eru 30 lið að keppa um leikmenn þar sem Boston Red Sox er með svipaða yfirburðar stöðu í leikmannakaupum og Man. City og Chelsea hafa í ensku úrvalsdeildinni., þ.e. þeir eru stærstir ásamt N.Y. Yankees og geta borgað bestu launin. Á meðan Red Sox keppa við hina 29 liðin um leikmenn er Liverpool að keppa um leikmenn við liðinn í úrvalsdeildinni, spænsku deildinni, frönsku deildinni, ítölsku deildinni og þýsku deildinni, (jafnvel Tyrknesku deildinni).
Engin af bestur liðum evrópu eru með leikmannanefnd sem sér um kaup á leikmönnum. Barcelona, Real Madrid eru ekki með slíka nefnd. Paris Saint-Germain, Juventus, Bayern Munich eru ekki með slíka nefnd heldur. Samt eru þetta bestu lið evrópu í dag. Á Englandi eru Chelsea, City, Arsenal og Manu ekki með leikmannanefnd en gengur samt mun betur en Liverpool að kaupa góða leikmenn.
Árangur Arsenal hefur batnað mikið eftir að þeir hættu að kaupa eingöngu unga leikmenn og fóru að kaupa inn stjörnur og tilbúna leikmenn eins og Sánchez, Özil, Cazorla, Mertesacker og Giroud.
Eigendur Liverpool þurfa að læra hratt af mistökum sínum og taka u-beygju í stefnu sinni ef Liverpool ætlar að vera lið sem berst um titla á næstu árum.
#16,
“Stjórnin segir: Skattar verða 10% á þessu ári og 12% á næsta ári sem er aðeins aukning um 2%.
Stjórnarandstaðan segir: Skattar munu hækka um 20% á næsta ári.”
Fyrra er vitaskuld prósentustig, hitt prósent (þá hlutfall af hlutfalli). En já, punkturinn er samt góður. Enda hverfa svona distinctions oft í hita leiksins, þegar matreitt er eftir smag og behag.
Og þá er Sterling augljóslega á förum.
http://www.mbl.is/sport/enski/2015/05/27/benitez_vill_fa_sterling_med_ser_til_real_madrid/
Gríðarmargir góðar pennar hérna á kop.is…mig langar að spyrja Guderian afhverju honum langar að losna við Brendan.
Ég bara skil þetta ekki, er ég að lesa eitthvað allt annað en margir aðrir sem hafa kommentað hérna. Ég haft mjög góða tilfinningu fyrir FSG frá upphafi og eftir þessa flottu yfirferð hjá Babu er ég allur uppveðraður og hlakka til framhaldsins. Mér finnst nokkuð ljóst hvert eigendurnir eru að stefna, það er bara spurning hvort að Brendan Rodgers heldur áfram eða ekki.
Fyrir þá sem vilja FSG út þá er bara tvennt í stöðunni fyrir klúbbinn:
1) Fá inn einhverja moldríka eigendur sem líta á þetta sem hobbý í einhver ár og hugsanlega tökum við einhverja titla á þeim tíma.
2) Byggja upp almennilegan rekstur líkt og United er búið að gera sem gerir klúbbinn samkeppnishæfan til lengri tíma.
Ef nýir aðilar taka yfir klúbbinn þá þurfa þeir að minnsta kosti að hafa jafnmikið fjármagn og Roman hjá Chelsea og eigendur City. Ég held að slíkir eigendur séu vandfundir og það er enginn tilgangur að fá eigendur sem ætla að henda minna fjármagni í klúbbinn en þessir tveir upptöldu án þess að gerbreyta rekstrinum líkt og FSG er að vinna í.
Hin leiðin er alltaf betri að mínu mati þrátt fyrir að hún gæti tekið smá tíma. Sjáum bara hvar United er í dag og það er náttúrulega engum öðrum að þakka en Alex Ferguson. Ekki nóg með að hann hafi verið frábær stjóri sem lét lið, byggt upp að stórum hluta af average leikmönnum, berjast um titilinn á hverju einasta ári heldur er hann hugmyndasmiðurinn á bakvið alla umgjörð hjá liðinu og tel ég að það sé stór ástæða fyrir því að hann hafi ekki verið rekinn fyrstu árin sín í starfinu. Þetta er nákvæmlega það sem FSG er að gera. Búa til model sem byggir á sjálfbærni með mjög sterkum kjarna í sambland við uppalda/unga leikmenn og uppfyllingarefni. Þetta hafa þeir gert hjá Red Sox og eru að vinna í hjá Liverpool.
Ég held að allir geti verið sammála um að liðið okkar er ungt og mikið af efnilegum leikmönnum. Hópurinn er þokkalegur en það vantar þennan kjarna. Ég tel að það sé ekki við FSG að sakast í þeim efnum, þeir hafa sýnt að þeir eru viljugir að leggja peninga í verkefnið. Þeir eru tilbúnir að borga laun sem sést best á síðasta samningi við Suarez og launum hjá Red Sox.Það er alveg morgun ljóst að FSG hefur reynt að fá til sín öfluga leikmenn en einhverra hluta vegna hefur það ekki gengið eftir og virðist það í flestum tilfellum hafa strandað á leikmönnunum sjálfum. Sem er kannski skiljanlegt þar sem það er ekki mikið sem dregur að þessa stundina hjá klúbbnum, engin meistaradeild, engir titlar, slakur árángur undanfarin ár og stjóri sem hefur ekkert afrekað.
FSG eru engir vitleysingar og eru í þessu til að vinna og búa til verðmæti. John Henry hafði verið viðloðinn hafnarbolta í töluverðan tíma áður en þeir keyptu Red Sox og vissi því nákvæmlega hvað þyrfti að gera til að ná árángri. Það er að sjálfsögðu margt í rekstri beggja félaga sem er sambærilegt og hafa þeir svo sannarlega snúið rekstrarhlið klúbbsins við eftir að hafa tekið nánast við honum gjaldþrota. Það sem skilur helst á milli er hvernig þú ætlar að sign-a nýja leikmenn. Í Bandarískum íþróttum hefur leikmaðurinn sjálfur mjög lítið að segja til um hvar hann endar nema að hann sé free agent en í fótboltanum ræður leikmaðurinn ferðinni og því þarf augljóslega eitthvað til að trekkja að. Þetta er ég viss um að FSG hafi áttað sig á og við eigum eftir að sjá annað hvort gerast í sumar:
1) Nýr reynslu mikill stjóri kemur inn sem veit hvað þarf til að vinna og er líklegur til að fá til sín öfluga leikmenn.
2) Brendan Rodgers heldur áfram og við eyðum £30-50m í 2-3 leikmenn og við eigum eftir að sjá sæmilega launapakka fylgja með +£200k.
Fyrir nokkru las ég eitthvað komment í einum þræðinum hérna á kop.is um hvað FSG væru vonlausir litlir businessmen þar sem þeir hefðu verið að kynna sér reksturinn á liðinum fyrir ofan okkur. Það er einmitt það sem þeir eiga að vera gera. Læra af þeim sem gera hlutina vel og nýta sér þá. Gera þá betur og vera opinn fyrir nýjum hugmyndum til að bæta við. Þetta er einmitt það sem þeir eru að gera og eru uppskrift að árángri að mínu mati.
Krizzi #22
Samkvæmt meðfylgjandi vefsíðu fóru hjólin hjá Red Sox ekki að snúast fjárhagslega fyrr en FSG tóku þá yfir árið 2002.
http://bizofbaseball.com/index.php?option=com_wrapper&view=wrapper&Itemid=126
Af hverju tel ég að Brendan Rodgers ráði ekki við verkefnið spyr #25.
Mig langar að rökstyðja mál mitt með smá tölfræði pælingu o.fl. En áður en ég færi rök fyrir máli mínu vil ég taka fram að ég lít ekki á Rodgers sem lélegan þjálfara og bara alls ekki. En til að stýra risastóru félagi eftir hugmyndafræði FSG þarf ekki bara góðan stjóra heldur afburða góðan stjóra. Liverpool er 9 stærsta félag í heiminum hvað efnahagsreikning varðar en í 21 sæti í Evrópu hvað varðar fótboltagetu eins og staðan er í dag. Það eru aðeins örfáir stjórar í heiminum sem ráða við svona verkefni og mitt mat er að Brendan sé ekki einn af þeim.
Nú kann einhver að segja; en hvað með árangurinn í fyrra? Er hann ekki Brendan að þakka?
Í tölfræði er til fyrirbæri sem kallast “regression to the mean” sem mætti kalla aðhvarfið til miðjunnar. Þetta er fyrirbæri sem virkar þannig að til lengri tíma leitar árangur að því sem gæti verið rétt getustig. “What’s goes up must come down” og allt það. “Regression to the mean” er áhugavert fyrirbæri ef við skoðum samtímis hvernig mannshugurinn virkar félagslega. Við veljum t.d. ómeðvitað/meðvitað að vera jákvæð og bjartsýn. Þegar að sölumaður selur grimmt einn mánuðinn telur hann að sá árangur sé komin til að vera og gerir hærri söluspá fyrir næsta mánuð fullur bjartsýni. Það sem líklega gerist samt er að salan færist aftur í eðlilegt horf. Góði mánuðurinn var s.s. tölfræðilegt frávik sem endurtekur sig ekki.
Ég tel að þjálfunarleg geta Brendan Rodgers með LFC sé ekki mikið meira en 7-4 sætið miðað við viðskiptalíkanið sem FSG keyrir á. Árangurinn í fyrra var tilviljun en árangurinn í hittifyrra, og í ár, raunveruleikinn. Þetta er ekki neinn dauðadómur yfir Rodgers sem þjálfara en ekki það sem flestir aðdáendur félagsins telja ásættanlegt.
Rodgers á ágæta framtíð fyrir sér en hann mun, held ég, aldrei þjálfa stórlið framar. Hann skipar góðan hóp breskra þjálfara s.s. Moyes, Pardew, Hughes o.s.frv. sem eru ljómandi fagmenn en ekki í færum til að stýra stórliði.
Það sem endanlega staðfesti grun sem lengi hafði búið um sig um að Rodgers er ekki rétti maðurinn er frammistaðan í síðustu sex leikjum tímabilsins í deildinni. Aðeins einn leikur af þessum 6 hefði maður talið mjög erfitt að vinna þ.e. leikur á Brúnni við Chelsea. Hitt voru leikir við Hull, WBA, QPR, Crystal Palace og svo, vansællar minningar, Stoke.
Á þessum tímapunkti er LFC í dauðafæri við 4 sætið enda ManU að spila ákaflega illa og fullkomlega raunhæft að hirða af þeim CL sætið. Að mínum dómi virtist Brendan Rodgers vart vita í þennan heim eða annan í þessari baráttu og ekki fær um að höndla pressuna á sjálfan sig eða liðið. Þetta var agalegt upp á að horfa – vil helst ekki upplifa neitt slíkt aftur.
Þarna á milli tapar svo Liverpool fyrir Aston Villa í bikarnum og það sama gerðist þar. Stjórnun Rodgers á liðinu á Wembley var gott dæmi um það sem vantar upp á til að hann ráði við verkefnið.
Það er gjarnan rætt um Rodgers sem einhvern byrjanda en svo er ekki; hann hefur þjálfað 4 lið sl. 8 ár og það eru næstum 13 ár síðan hann var aðstoðarmaður Mourinho. Hann ætti því að vera tilbúinn fyrir stóra sviðið en er það ekki og verður hugsanlega aldrei.
Eins og frábær grein Babu leiðir í ljós er FSG að vinna með brilljant hugmyndafræði. Þeir eru ekki ríkastir, og verða aldrei, en ætla þess í stað að vera klárastir. Hugmyndin gengur út á að rannsaka leikinn og leikmennina með akademískri nálgun annars vegar, og afburða góðri stjórnun og þjálfun hins vegar.
Fyrir utan efasemdir með Rodgers vitum við líka að innkaupastefnan er gölluð og eitt viðfangsefni sumarsins er að takast á við það vandamál.
Hafandi sagt þetta þá er einnig ljóst að maður til að taka við af Rodgers er vandfundinn. Mitt mat er að tveir kostir séu þar bestir; þ.e. Benitez og Klopp. Báðir eru frábærir kostir miðað við hugmyndafræði FSG þ.e. ef þeir endurmeta innkaupastefnuna að einhverju leyti. Ef rétt reynist að stjórinn sé meira eða minna áhorfandi að innkaupum er það ekki að ganga upp eins og við blasir.
Ef tekst að ráða þjálfara sem hefur það sem þarf til að stjórna stórliði með “moneyball/soccereconomics” pælingunni verður Liverpool komið í hóp 4 bestu liða heimsins innan ekki of margra ára.
Ef ekki tekst að bæta stjórnun liðsins og árangur inni á vellinum strax á næsta tímabili er hins vegar líklega komin upp mjög slæm staða.
Er ekki West Ham fínt lið fyrir Brendan þegar við fáum Jurgen Klopp?
Hefur ekki bara allt farið niður á við hjá Rodgers eftir að hann skildi við konuna sína og náði ser i einhverja unga stelpu ? er hann ekki bara of upptekinn við það að vera astfangin af þessari dömu. nei nei eg segi svona en hausinn á honum virtist i vetur allavega vera lítið einbeittur a Liverpool.
Guderian.
Geturu sagt mér hvað þú heitir og helst sett inn mynd af þér í leiðinni svo ég geti tekið í höndina þína þegar við hittumst út á götu.
Þvílíkur rithöfundur, og pistlarnir þínir eru frábærir og yfirleitt algjörlega spot on.
Mikið ofboðslega yrði nú gaman ef Meistari Klopp myndi taka við Liverpool núna í sumar. Þvílikur fagmaður að það hálfa væri nóg.
Sæl öll – takk fyrir afar áhugaverðar umræður hér að ofan.
Mig langar til að bæta við greiningu #28:
“Eins og frábær grein Babu leiðir í ljós er FSG að vinna með brilljant hugmyndafræði. Þeir eru ekki ríkastir, og verða aldrei, en ætla þess í stað að vera klárastir. Hugmyndin gengur út á að rannsaka leikinn og leikmennina með akademískri nálgun annars vegar, og afburða góðri stjórnun og þjálfun hins vegar.”
Eftir val á leikmönnum sl. sumar og árangurslitlar tilraunir í allan vetur við að finna heppilega uppstillingu á liði, er hægt að fallast á að BR flokkist undir að vera “klárastur”?
Ég veit ekkert um hafnarbolta en set líka spurningamerki við árangur BRS í World Series síðustu ár:
2012 5. sæti af 5
2013 1. sæti af 5
2014 5. sæti af 5
2015 4. sæti af 5
Kannast aðdáendur Liverpool við svona rokkandi gang?
Undirbúningur fyrir næsta tímabil er þegar hafinn – sem er gott – en ég set spurningamerki við fyrstu fréttir:
1. FSG gefur til kynna að BR verði áfram.
2. Yfirlýsing frá umboðsmanni Balotelli um að staðfest sé að hann verði áfram.
3. Tilkynnt að samningur við Kolo Touré hafi verið framlengdur
4. Staðfest að Burnley hafi samþykkt tilboð Tottenham í Danny Ings í kjölfar frétta um að Liverpool hafi áhuga…
Hvað sem verður um Stirling er ljóst að Liverpool muni ekki láta hann fara nema fyrir verulegar fjárhæðir – en gangi það eftir er eins gott að þeim peningum verði betur varið en því fé sem fékkst fyrir Suarez.
Vonum að þetta fari að skýrast og að hlutirnir fari að gerast áður en búið verði að grípa alla bestu bitana á markaðinum svo við lendum ekki aftur í Balotelli-panikki í ágúst!
Mér þætti gaman að fá að sjá hver hin “akademíska” nálgun var hjá FSG og þeim sem sjá um leikmannakaup hjá LFC þegar þeir keyptu Balotelli. Misstum við ekki íþróttasálfræðingin okkar til Enska landsliðsins eftir síðasta tímabil ?
Eitt viðtal sem situr smá í mér við Carlo Ancelotti. Þar sagði hann að Balotelli væri hágæðaleikmaður og það hlyti að vera eitthvað að liðstjórninni ef það næst ekki meira úr honum.
Má vera að Carlo Ancelotti gæti verið rétti maðurinn fyrir okkur ? Hann hefur stjórnað mörgum af stærstu klúbbum evrópu og ætti að hafa mjög sterkar hugmyndir um hvað þarf að gera til að koma okkur á þann stall og mögulega væru leikmenn til í að koma til okkar þegar hann er við stjórn.
Annars er ég ekkert mótfallinn því að Brendan Rodgers sé eitt ár til viðbótar.
Mér fannst augljóst í tveimur síðustu leikjunum að liðið var búið að gefast upp. Markmiðin voru augljóslega meistaradeildin og þegar það takmark var úr augsýn var allur sigurvilji dottinn úr liðinu.
Mér finnst það að mörgu leiti skiljanlegt þó svo að Rodgers eigi mjög harða gagnríni skilið fyrir að halda ekki dampi í liðinu og klára deildina með sæmd. 6-1 tapið gegn Stoke er þar sérsstaklega ámælisvert og langt fyrir neðan virðingu þessa klúbbs.
Ég er opin fyrir því ef það kemur einhver stjóri sem er raunverulega betri en Rodgers annars sé ég engan tilgang í að reka hann, þó síðstu leikir hafi verið afhroð.
Vitð þið hvenær BR fer til Boston ?
Sælir félagar
Guderian er algjörlega með þetta og ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það sem hann er að segja í #28. Benitez er líklega þegar farinn til R. Madrid svo Klopp er einn eftir af þeim sem ég vil sjá. Gudarian er á sama máli og ég í því að Klopp henti vel inn í módelið hjá FSG. Ég hefi sagt það áður að Jurgen Klopp er afburðamaður með sálarstyrk, kunnáttu og getu til stórræða ásamt því að kunna að vinna innan þröngs ramma markmiða og árangurs.
Ég vil benda mönnum sem eru á Ancelotti vagninum að sá gaur hefur aldrei (amk. í seinni tíð) verið með lið eins og Liverpool er núna. Lið sem er gjörsamlega í henglum eftir leiktíðina og fullkomið árangursleysi BR. Það er flestum ljóst að BR ræður ekki við verkefnið. Það er einfaldlega of stórt fyrir hans litla hjarta og honum hæfa minni lið með minni kröfur. Þar hefur hann sýnt alveg ásættanlegan árangur og gangi honum sem best á þeim heimavelli.
Það er nú þannig
YNWA
Tek undir það Sigkarl varðandi Klopp.
Annars til þess að láta hjörtu flestra hér slá aðeins hraðar þá er einn ítalskur blaðamaður sem var t.d. fyrstur með fréttirnar af Suso til Milan og Balo til Liverpool að “tvíta” það að Liverpool hafði samband við Ancelotti fyrir nokkrum dögum síðan sem segir okkur það að FSG eru mjög líklega að skoða nýjan þjálfara og vonandi búnir að setja sig í samband við Jurgen Klopp.
Kann ekki að setja inn svona twitter linka en hér er “tvítið”
@FabrizioRomano
#Liverpool had a contact with #Ancelotti some days ago, when Real decided to fire him. But Carlo replied he wants to stop for a year. #LFC
Guderian alveg með þetta og hverju hans orði er ég sammála hér að ofan.
Brendan þarf að fara, þessi póstur er ekki hugsaður sem vörn fyrir hann heldur gagnrýni á FSG og stefnu þeirra.
Mín tilfining er að það skiptir ekki nokkru máli hvort að við séum að fá; Ancelotti eða Klopp. Mér finnst í raun stórfurðulegt hvernig FSG hafa komist upp með það að breyta klúbbnum í Southamton undir lófaklappi stuðningsmanna.
Það þurfti að laga reksturinn, það er víst. En fyrr má nú vera. Allt tal um að FSG komi með peninga inn í leikmannakaup er þvaður. Þeir hafa köttað launakostnað um Hálfa milljón pund á viku síðan þeir komu inn og í sumar hverfa enn einu sinni tveir launahæstu leikmennirnir frá okkur. Það væri gaman að sjá hversu margir leikmenn liðsins verða með yfir 100 þús pund á viku næsta haust.
Svo ætlumst við til einhvers af þessu liði…wake up…!!
Auðvitað þurfti að taka til en við skulum ekki gleyma að LFC er í 8 sæti á Forbes yfir verðmætustu félög heims. Við erum ekki Southampton.
FSG er með nettóeyðslu upp á hvað…100 milljónir…150?
Hvaðan haldið þið að þeir peningar komi. Þeir eru búnir að draga saman öll segl og eftir sitjum við með leikmannahóp þar sem enginn, ENGINN leikmaður kæmist í Man City liðið eða Chelsea. Ég ímyndað mér að Arsenal og UTD gætu notað 2-3 leikmenn okkar en alls ekki í lykilhlutverki.
Þannig að Klopp eða Ancelotti…?
Hvaða máli breytir það. Þetta eru tveir góðir stjórar sem litlar líkur eru á að taki við miðlungsliði.
Góður punktur, Julian Dicks hetja (Gestur).
Djofull er maður að verða þreyttur a þessari ÞÖGN, af hverju heyrist ekkert fra FSG hvort Rodgers verði afram eða ekki ?
Veit einhver hvenær hann a að fara a þennan fund með eigendunum?
3.júní las ég einhverstaðar
Sæl öll,
ég er alls ekki á því að reka þurfi BR eða FSG að selja.
#40 “FSG er búið að lækka launakostnað um 500k pund á viku og nú fara 2 launa hæstu menn frá klúbbnum”. Meðaltals árangur Liverpool hefur ekki versnað við þessa lækkun á launakostnaði. Bara þetta eitt og sér ætti að sannfæra stuðningsmenn um að FSG er að gera eitthvað rétt.
Ancelotti er aldrei að fara taka við Liverpool og Klopp er að fara í frí.
Ég bið um þolinmæði.
http://www.telegraph.co.uk/sport/football/teams/liverpool/11637290/Liverpool-fail-with-10-million-move-for-Nathaniel-Clyne.html
Voðalega finnst mér þetta cheap boð eitthvað. Þetta er líka bara að láta liðin fyrir ofan okkur vita að við séum á eftir honum. Get lofað því að núna munu United hoppa í gang og bjóða 20 milljonir og málið er dautt, þeir fá hann.
Ótrúlegt hvað það þarf að díla lengi við menn til þess eins að missa þá síðan.
Já þessi transfer nefnd er svo hugmyndasnauð að southampton virðist vera eini klúbburinn sem hún er að skoða kannski að FSG ættu bara að selja Liverpool og kaupa bara Southampton í staðin og þá geta þeir bara slept því að versla leikmenn. Þeir hafa líka reynst okkur svo ótrúlega vel þessir southampton drengir.
Þetta gefur líka til kynna að enginn nýr þjálfari mun koma. Nefndin er að bjóða í menn sem að Rodgers er hluti af. Ef þeir væru að fara að ráða inn annan mann myndu maður halda að beðið yrði með kaup sem hann yrði samþykkur.
10 mills í Clyne, hvaða brandari er það? Að nenna einu sinni að bjóða svona bull upphæð, héldu þeir að Southampton tæku þessu? Jahérnahér.
Ja Utd borguðu 30 millur fyrir Luke Shaw og ég held að Clyne sé betri þannig ég hann var aldrei að fara kosta 10 millur
Er ekki stærsta vísbendingin að Rodgers verði áfram að við erum að fullu að reyna kaupa leikmenn meikar lítin sens fyrir Liverpool að vera reyna kaupa fullt af leikmönnum ef nýr þjálfari er á leiðinni
Svona tilboð eru bara til þess að “vekja” lið eins og tottenham, manutd og arsenal. Stundum held ég að okkar njósna teymi sé að vinna fyrir alla aðra en Liverpool ! Og þessi transfer nefnd, je minn eini ! ! !
Clyne er bakvörður og á 1 ár eftir af samningi. Hann á ekkert að kosta 20m. Það er galin upphæð fyrir hann.
Langaði að staldra aðeins við komment #40 hjá vini mínum Julian Dicks hetja (Gestur).
“Þeir hafa köttað launakostnað um Hálfa milljón pund á viku síðan þeir komu inn”
Ég veit ekki hvaðan þessi tala kemur en þessi grein útskýrir þetta ágætlega: http://www.thisisanfield.com/2013/07/how-liverpool-have-cut-half-a-million-from-their-weekly-wage-bill/ ? Það vantar náttúrulega inn í þetta kostnað vegna nýrra leikmanna þannig að ég er nokkuð sannfærður um að þessi hálfa milljón pund sé ekki nettó tala.
Ef við skoðum þetta aðeins nánar hvernig launakostnaður klúbbsins hefur þróast síðan tímabilið 2007/2008:
Tímabil Laun (£/ári) Eigendur
2007/2008 89,7m Hicks and Gillett
2008/2009 100,4m Hicks and Gillett
2009/2010 121,0m Hicks and Gillett
2010/2011 134,7m Hicks and Gillett / FSG
2011/2012 118,6m FSG
2012/2013 132,2m FSG
2013/2014 140,0m FSG
2014/2015 144,0m FSG
FSG keyptu félagið um haustið 2010 og hafa því væntanlega haft lítil áhrif á launakostnaðinn það tímabil (2010/2011). En eins og sést skáru þeir nokkuð grimmt niður eftir fyrsta tímabilið en svo hefur kostnaðurinn aukist jafnt og þétt síðan. Á þessum fyrstu árum hjá FSG voru slatti af leikmönnum á launum sem voru miklu betri en spilamennskan sem þeir buðu upp á og voru því látnir fara (Poulsen, Konchesky, Jovanovic, Degen, Cole, Downing, Carroll, Aquilani, Adam og fleiri). Svo voru aðrir sem sem voru á mjög góðum launum en hlutverk þeirra minnkuðu mikið eins og Kuyt, Meireles, Rodriguez, Bellamy og svo seinna Agger og Reina. Sama er svo upp á teningnum með Gerrard og Johnson í ár.
Í fyrri upptalningunni eru náttúrulega leikmenn sem höfðu ekkert að gera í Liverpool, í þeirri seinni eru leikmenn sem voru komnir í aukahlutverk miðað við leikskipulag þjálfarans og ekkert vit í því að halda leikmönnum með +80k á bekknum.
Samkvæmt því sem maður hefur lesið er stefnan hjá FSG að launa vel lykilleikmönnum (Suarez sem var á 200k, Gerrard 140k, Henderson 100k, Sturridge 120k) og hafa svo stóran hluta árangurstengdan. Mér finnst þessi nálgun fullkomlega eðlileg og ég held að allir séu sammála um að það er fráleitt hafa leikmenn á launaskránni sem spila varla neitt samanber Ballotelli sem er með 110k.
Það sem er hins vegar stóra málið í þessu er að lykilleikmenn eru af skornum skammti í þessum klúbbi. Eins og ég nefndi í kommenti hér að ofan held ég að það sé ekki við FSG að sakast í þeim málum og er ég sannfærður um að við sjáum 2-3 stór kaup í sumar.
Svona til gaman tók ég saman nettó eyðslu Liverpool og liðanna fyrir ofan öll heilu tímabilin sem FSG hefur stjórnað klúbbnum, þetta er allt í milljónum evra tekið af transfermarkt.com:
Tímabil Liverpool Chelsea United City Arsenal
2014/2015 52,4 -8,5 147,2 63,7 100,9
2013/2014 24,5 46,8 75,3 104,3 40,1
2012/2013 57,2 82,3 61,3 17,7 -14,2
2011/2012 42,6 71,5 41,7 66,4 -12,8
Total 176,6 192,0 325,6 252,0 114,1
Average 44,1 48,0 81,4 63,0 28,5
Eins og sést er þetta ekkert ömurlegt en engan veginn í samræmi við Manchester liðin.
Annars vil ég þakka mönnum fyrir góða og skemmtilega umræðu í þessum þræði sem og flestum öðrum. Skemmtilegt að lesa komment hjá mörgum hérna og þá sérstaklega Guderian sem mér finnst vera spot on as usual.
æjjjj ég biðst afsökun á þessum töflum. Þær litu vel út í athugasemdinni. Þarf maður að nota html til að láta töflur líta almennilega út?
Athugum hvort þetta virka með html:
Tímabil
Laun(£/ári)
Eigendur
2007/2008
89,7m
Hicks and Gillett
2008/2009
100,4m
Hicks and Gillett
2009/2010
121,0m
Hicks and Gillett
2010/2011
134,7m
Hicks and Gillett/FSG
2011/2012
118,6m
FSG
2012/2013
132,2m
FSG
2013/2014
140,0m
FSG
2014/2015
144,0m
FSG
Tímabil
Liverpool
Chelsea
United
City
Arsenal
2014/2015
52,4
-8,5
147,2
63,7
100,9
2013/2014
24,5
46,8
75,3
104,3
40,1
2012/2013
57,2
82,3
61,3
17,7
-14,2
2011/2012
42,6
71,5
41,7
66,4
-12,8
Total
176,6
192,0
325,6
252,0
114,1
Average
44,1
48,0
81,4
63,0
28,5
Andskotinn. Sorry með þetta. Það má bara eyða þessum tveimur síðustu kommentum
skv fréttum voru southampton að hafna 10m punda tilboði okkar i clyne…i alvöru ? þetta er einn efnilegasti hægri bakvörður englands og við höldum að við getum fengið hann gefins…ef við erum ekki tilbúnir að eyða miklum pening i einn leikmann, þá erum við ekki að fara að fá neina góða leikmenn.
liðið er ekki beint mikið aðdráttarafl i dag, þar af leiðandi þurfum við að borga mikið fyrir góða leikmenn.
http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/liverpool-fc-could-end-up-9357133
Svo sammála James Pearce. Benteke er fínn leikmaður en hentar alls ekki leikstíl Liverpool. Flest hans mörk koma eftir fyrirgjafir og Villa gefa að meðaltali fleiri fyrirgjafir í leik en Liverpool. Við getum fengið betri leikmann en hann fyrir þennan pening. Það er mikilvægast að fá fljótan senter, sáum hvað það gerði okkur að hafa Suarez og Sturridge saman, versum Lambert, Balotelli og co. Það hentar líka mönnum eins og Coutinho og Lallana vel að hafa menn sem eru duglegir að stinga sér inn fyrir vörnina því þeir hafa báðir mjög gott auga fyrir þeim sendingum.
Verður áhugavert að sjá hvað gerist í leikmannamálum hjá okkar mönnun.
Hvernig er það, væri ekki bara hægt að lána Rodgers til einhvers annars liðs? Helst í PL, en mætti svosem vera í CL. Láta hann öðlast svolítið meiri reynslu, ráða Klopp á meðan.
#rataút
Eigum víst að vera í Mílanó að reyna ná samkomulagi um Kovacic en við viljum auðvitað borga mun minna en Inter vill. Hættum þessu, klárum þessi kaup. Þessi drengur er BEAST.
Er viss um að þótt okkur biðist Messi á 20 milljónir myndi klúbburinn reyna að prútta verðið niður í 10. Þetta er náttúrlega algjört bull að vera alltaf að reyna þetta, sem endar svo með að annað lið stekkur inn og klárar kaupin.
Sa einhverja frett i dag þar sem umboðsmaður Kovasic segir að hann se pottþett ekki að fara fra Inter.
En er sa leikmaður eitthvað frabær ? Las i dag að hann hefði skorað 5 mörk i vetur og að hann hefði verið soldið a bekknum hja Inter, varla a varamaður Inter að koma i stað Gerrards ?
#62 viðar
það var coutinho líka
Okkur vantar miðjumann i stað Gerrars sem skorar 10 -15 mörk i deildinni á timabili.
Okkur vantar þjálfara sem kann að nota mannskapinn sem Liverpool á nú þegar.
Rodgers vagninn….anyone, anyone?
Neibb, ætli maður sé ekki einn á leiðinni út í óvissuna með vitleysingnum Rodgers. Veit ekki afhverju ég hef trú á honum. Hann hefur tekið fáránlega stórar ákvarðanir síðan hann tók við. Losað sig við Kuyt, Reina, Agger, Gerrard, Carroll o.s.frv. sem ég er ekki viss um að nokkur heilvita þjálfari hefði gert því þetta voru jú máttarstólpar liðsins. Samt held ég að þetta hafi verið allt réttar ákvarðanir. Ég er í rauninni ánægður með flest allt sem Liverpool hefur verið undir Rodgers nema eitt atriði og það er reyndar algjört killer atriði sem eyðilagði sísonið.
Það ætti að vera orðið öllum ljóst að Rodgers er með sjálfstraust í hærri kantinum og ég held að hann hafi haldið sjálfur að hann væri næsti Ferguson. Hvernig er annars hægt að réttlæta kaupin á Balotelli?
Mourinho, Mancini o.fl. þjálfarar náðu ekki að temja þann leikmann og ég held að hann sé bara orðinn lélegur ef hann þá nokkurn tímann var frábær.
En allavega rándýr lexía og ef Rodgers verður rekinn þá er svosem ekki hægt að mótmæla þeirri ákvörðun. En ég vona að hann verði áfram og það verði Balotelli sem verður rekinn.
Takk annars fyrir svarið Guderian 🙂
við þurfum betri varnarsinnaða miðjumenn sem geta haldið. Stór , sterkur og fljótur sem er tveggja mann maki. En hvað höfum við Lucas og Allen sem er bara brandari, halda engu og þess vegna verður vörnin berskjölduð. Það er ekki hægt að kenna vörninni um allt þegar miðjan míglekur. Svo að vera mann á hliðarlínunni sem er freðinn og kann ekki að bregðast við….allir fram og enginn aftur !!!?!?!
67# emre can kjötar alla þessa kúkalabba í deildinni
Ég er að deyja mig þyrstir svo í fréttir af Liverpool, fyrsta sem ég geri þegar ég vakna er að kíkja á slúðrið á BBC. Glugginn opnar á mánudaginn og djöfull verður það gaman (vonandi) Svo allt þetta tal um Benteke á 32 milljónir punda, væri ekki hægt að fá Higuain fyrir þennan sama pening (sem orðaður er við fokkig manjú núna) Og miðja með Can, Kovacic og Hendó lookar fáranlega vel, work rate miðja dauðans!
jà smá umræ?a um framhaldi? (slù?ri?)
eftir þetta feilspor umbo?smann sterling hefur umræ?an dài? sem betur fer var or?inn þung og kjanaleg
vonandi eru menn a? vinna í lausn þegjandi og hljó?laus.
vonandi er umræ?an a? menn eru a? reyna a? fà stórt nafn me? hann sem skiptimynd.
Rodgers in/out kemur þa? ekki bara í ljòs 3 jun?
enn og aftur þarf a? fara ey?a tima og peningum í fokkings bakver?i! afsaki? or?brog?i? er ekki hægt a? fara drífa í a? fullmóta varnarlìnu sem mun taka eitthver timabil saman og fara loka à þa? vesen?
Gerrard farinn og mi?jan virkar svakalega aum me? lucas sem spilar líti? allen sem er algjört jòjò og þrátt fyrir þa? augljòsa er henderson nota?ur sem kanntma?ur can bakvor?ur hverskonar rugl er þetta?
framherji? djöful er ma?ur stressa?ur nùna var?andi þa? ef ekki vel text í sumar þà erum vi? a? fara horfa frammà anna? eins timabil 15/16
ni?ursta?an er a? þessi 3àra dæmi? mig í bo?i BR . virkar mjög òsamfærandi og algjört hrun frà timabili 2 en þà var a?eins veri? a? tala um a? laga þurfti a?eins varnarleik li?sins.
nùna eru nær allir sta?ir vallarins í vandræ?un.
og umræ?an er hreinlega og reyndar tækifæri à a? byrja upp à nýtt og à a? gera þa? me? nýjum manni e?a.
þetta er allavega algjört lykil sumar hjà lfc og ef ekki vel tekst til og àkve?in heildar sýn hryggsùla myndist ì li?i? innà vellinum þà ver? ég þa? brjàla?ur a? ég starta sjàlfur FSG out vagninum ef enginn annar ver?ur bùinn a? því.
Ef Sterling fer sem allt bendir til vill eg fæ leikmenn i skiptum fyrir hann, senda hann td a bekkinn hjá Real og fá pening plús Isco hljómar eins og tónlist i minum eyrum.
jæja, þá liggur það fyrir. Við spilum í EURO-league sem byrjar um miðjan september nk. Sleppum við forkeppnina, þ.e. byrja í júlí-ágúst, þökk sé sigri Arsenal í FA-cup áðan.
“Satt að segja held ég að Liverpool hefði nú unnið þessa þrjá leiki sem uppá vantar til að ná CL sæti með nothæfan sóknarmann í vetur, ekki verstu framlínu félagsins frá upphafi.”
Sem kemur niður á sama stað og èg sagði að miðað við engan framherja í vetur erum við að enda í MJÖG ÁSÆTTANLEGU sæti en engu að síður óásættanlegt af þetta stórum klúbb.
Annars er ég ekkert mótfallinn stefnu FSG og hef alltaf stutt þeirra markmið að lyfta LFC upp úr þessum moldarfarvegi meðalmennskunnar hvað stærð varðar og koma klúbbnum á það plan sem við eigum að vera á. Við höfum auðveldlega 500 milljón aðdáendur um allan heim. Hví hefur það ekki verið markaðsett betur. Sú vinna er loksins hafin með innkomu FSG en tekur tíma: 10+ ár og LFC verður að moða úr 60%+ meiri veltu en í dag.
Hvað þennan góða pistill varðar þá sýnir það sig að FSG eru ekki feimnir að láta þjálfara fara ef þeir sjá eitthvað betra þarna úti til að vinna hraðar eftir þeirra framtíðaráformum. Klopp mun sennilegast ekki vera sá næsti inn ef marka má hans mótspyrnu gegn “Transfer Committee” (TC) sem er undirstaða FSG í þeirra skipulagi.
Ég vil sjá stuðning þeirra við Rodgers og að meðlimir TC muni fá smá ráðningu varðandi þeirra síðasta útspils sl sumar. Við getum samt ekki alveg valtrað yfir þetta plan þar sem að það eru jú frambærilegir strákar sem keyptir hafa verið. Fyrsta tímabilið er oft erfitt sérstaklega þegar væntingar hjá klúbbi eru svona miklar en ég sé fyrir mér sterkan kjarna í Can, Markovic, Lallana, Lovren og hvað við nú aftur keyptum. Með góðu sumri á leikmannamarkaðnum er ekkert hægt að segja nema það að LFC hefur ágætis pússl í heildar myndina sem vinna má með.
Ég minni á ónefnt lið í gegnum 90’s sem vann í að gera 1-2 stór kaup yfir sumarið til að styrkja hryggsúlu liðsins og það gaf þeim fáeinar dollur. ( Rooney og Rio keyptir í einum pakka td). Það þurfti ekki neitt TC til að finna það út að Rooney á 17.- eða 18.aldursári (og Rio ekki miklu eldri) myndi gefa þeim 10+ ár fyrir þá upphæð sem borguð var sem marg borgaði sig.
En hvernig FSG vinnur sína vinnu er aðdáunarverð því þeir hafa sitt framtíðarplan sem þeir fara eftir og eru fljótir að bakka ef eitthvað breytist þeim í óhag. Unnið eftir áformum fyrirtækis sem leyfir sér ekkert umfram efni.
Það er að sama skapi erfitt að vera aðdáandi LFC og sjá FSG bakka hvað eftir annað þegar þeir eru nánast búnir að skrifa undir samning við leikmann. Það hinsvegar er ekki okkar að meta og þeir vita staðreyndirnar sem þeir kannski eru ekkert of duglegir við að leyfa aðdáendum að vita af. Þetta eru allt viðskipti sem á endanum þarf að vera FSG í hag ef þeir eiga að klára dæmið. Mótmæli því ekkert en væri samt til í að sjá þá kreista upp £40m og eyða í topp framtíðarmann (Ross Barkley sem dæmi) og sýna að þeir eru með tennurnar uppí sér en ekki í glasi á náttborðinu.
#71 – Pening + Isco fyrir Sterling hljómar eins og fullnæging sem verður aldrei að veruleika. Benite mun aldrei láta hann fara því Isco verður baaaaara betri núna. En samt, já takk! Straight up væri frábært.
Við þurfum að fá leikmann/menn fyrir Sterling því það þarf að nýta sér hversu drengurinn er ofmetinn og fá lið til að skella inn góðum bita/bitum til að þurfa að borga minna.
Fyrir Sterling má athuga með:
Chelsea: Ramires og brassinn sem alltaf er skipt útaf þegar hann spilar en er alltaf þokkalega góður.
Arsenal: Walcott eða Chamberlain + cash
City: Dzeko + £30m minnst.
Real Madrid: Isco og Illlllllllrdrdrdrxri (eða hvað hann heitir nu). Meira draumur en annað
Inter Milan: Kovacic + cash
Barcelona: Suarez + cash…………ok fór fram úr mèr þarna.
Tekið af fótbolti.net í tengslum við frétt að Chelsea sé í viðræðum…
“Falcao er 29 ára gamall og talið er að hann hafi kostað Manchester United 40 milljónir punda í heildina, þar af 6 milljónir punda í lánsfé og síðan 285 þúsund pund á viku í laun.”
eru ekki allir hressir?
Ef Chelsea kaupir Falcao á stórfé þá er augljóslega einhvers konar peningaþvætti að eiga sér stað hjá því félagi. Salan á David Luiz og fleiri viðskipti þar á bæ benda einnig til þess.
We had three matches against awkward opponents in Hull City, Crystal Palace and Stoke.
They aren’t the best teams in terms of quality.
But they are strong. And we wimped out.
All three knew that if you get stuck into this Liverpool team, you’re going to have a lot of joy.
We can play our football against every team in the country. But we clearly can’t fight against any of them.
Mark Lawrenson er með þetta á hreinu……