James Milner – hefur Liverpool not fyrir hann?

Sumarið er hafið! Liverpool hefur nælt í sinn fyrsta leikmann í sumarglugganum en félagið greindi frá því í dag að félagið hafi samið við James Milner sem kemur á frjálsri sölu frá Manchester City, hann á eftir að gangast undir læknisskoðun og frá og með 1.júlí verður hann gjaldgengur leikmaður fyrir Liverpool.

Milner ætti að vera flestum aðdáendum ensku Úrvalsdeildinni kunnugur enda búinn að spila í henni í guð-má-vita-hvað mörg ár. Hann byrjaði feril sinn í Úrvalsdeildinni með Leeds, fór svo til Newcastle, þaðan til Aston Villa og loks Manchester City þar sem hann hefur orðið tvisvar sinnum Englandsmeistari.

Hann er einn þeirra leikmanna í þessum bransa sem sker sig ekki úr. Innan um Yaya Toure, Sergio Aguero, David Silva og þar fram eftir götunum stendur hann ekki upp úr og sker sig úr hópnum. Það er bara ekki James Milner.

Hann er samt mjög góður leikmaður. Hann ber ekki uppi lið en vinnusemi hans, sendingar og góður leikskilningur – í bland við mikla fjölhæfni, gerir hann að mjög verðmætum leikmanni fyrir sín lið. Milner er ekki leikmaður sem skilur að toppliðið og liðið í öðru sæti en hann er afar mikilvægur fyrir sitt lið. Hann er leikmaður sem ég held að vel flestir þjálfarar vilji hafa í sínu liði þar sem hann skilar góðu starfi frá sér.

Milner skilar af sér mikilli vinnu á vellinum, hann eltir sína menn vel til baka og skilar sér tímanlega fram. Hann er nær alltaf á hreyfingu og reynir að komast í allar þær eyður sem hann finnur á vellinum – eitthvað sem leikmaður eins og Silva, og vonandi Coutinho, virtist nýta sér mikið.

Eins og áður segir þá er Milner kannski ekki okkar útskýring á “heimsklassa” leikmanni og mögulega tæki hann Liverpool ekki upp í nýjar hæðir einn og sér. Af hverju ætti Liverpool þá að reyna að fá hann í sínar raðir?

Einn af sterkustu þáttum James Milner er sendingarhæfileikar hans. Hann hefur mjög öfluga spyrnufætur í vopnabúri sínu og getur tekið þátt í stutta spilinu ásamt því að hafa eiginleikan á að geta komið með góðar langar sendingar. Fyrirgjafir hans eru öflugar og hann er með góðan skotfót.

Hann tekur ekki leiki hálstaki og stjórnar þeim frá A-Ö en hann er laginn við það að eiga rispur, fyrirgjafir eða mörk sem gefa auka stig. Á stórum augnablikum hefur hann komið inn í lið Manchester City og tryggt þeim mikilvæg stig. Hann setur mark sitt yfirleitt alltaf á leiki og það eru ekki margir leikir þar sem hann er “týndur”, hann skilar ávallt sínu. Hann virðist bregðast afar vel við því hvernig leikirnir spilast og aðlagar sig eftir því.

Það sem gerir James Milner að mjög áhugaverðum kosti er fjölhæfni hans sem leikmaður. Hann getur leikið sem sóknartengiliður, miðjumaður og kantmaður. Hann er sagður ósáttur með að hafa verið inn og út úr liðinu hjá Manchester City og vill fá ögn meiri fótfestu í sinn leik. Talað er um að hann vilji jafnvel fá hlutverk á miðsvæðinu og er líklegt að Liverpool bjóði honum upp á tækifæri til að spila þar.

Sé tekið mið af þeim leikkerfum sem við sáum Rodgers stilla upp frá því hann kom til Liverpool þá hentar Milner í mörg hlutverk í þeim. Hann gæti hentað vel í hægri vængbakvarðarstöðuna í 3-4-3 leikkerfinu, á sitthvorum vængnum í 4-2-3-1 eða 4-3-3 leikkerfi eða komið sér fyrir á miðsvæðinu í öllum þessum kerfum. Hann gæti setið djúpur í tígulmiðju eða verið á miðri miðjunni þar. Milner býður upp á mikið, það mikið að afar erfitt er að gera sér grein fyrir því hvaða plön Rodgers hefur fyrir hann – ef vikulaun hans eru eitthvað til að lesa í þá eru þau plön nokkuð stór!

Jamie Carragher kom með áhugaverðan punkt um daginn þegar hann greindi frá því að Milner gæti komið inn í myndina í kringum fyrirliðastöðuna hjá félaginu og sem reyndur “senior” leikmaður í liðinu þá gæti hann komið til greina en ég persónulega yrði ósáttur ef Henderson fengi hana ekki. Milner er velkomið að vera varafyrirliði mín vegna.

Milner að mínu mati væri afar góður kostur til að bæta við Liverpool liðið á frjálsri sölu í sumar. Hann er ekki draumakostur manns en ég held að hann gæti orðið góður leikmaður fyrir Liverpool og eiginleikar hans gætu nýst ágætlega.

Maður er ekki að reikna með að Milner einn og sér komi Liverpool aftur í toppbaráttuna en mun líklega spila stóran þátt í því ef það gerist. Liverpool þarf klárlega að styrkja sig meira í sumar en það er gott að byrja sumarið á því að krækja í Milner. Það að Manchester City voru reiðubúnir að bjóða honum himinhá laun, enn hærri en þau sem Liverpool er sagt hafa boðist til að borga honum, segir ýmislegt um mikilvægi hans fyrir þá og það segir ýmislegt um karakter hans að hafna því til að fá meiri líkur á spilatíma hjá Liverpool.

42 Comments

  1. Ég get ekki kvartað yfir þessu, Milner og Henderson á miðjunni ættu að geta hlaupið í 2 daga samfleytt. Annars man ég best eftir leiknum gegn City á seinasta tímabili þar sem hann kom inná og gjörbreytti leiknum til hins verra(fyrir okkur). Ofboðslega vona ég að við fáum að sjá miðju uppstillinguna hjá okkur á næsta tímabili vera:
    —Henderson – Milner–
    —————-Can————

  2. Milner er enginn heimsklassaleikmaður. Minnir að Gerrard hafi ólmur viljað fá hann meðan þeir spiluðu saman í landsliðinu. Þetta er áhætta vegna þess að Milner er orðinn svolítið staðnaður. Spurning um að setja hanní stöðu Can og Can á miðjuna.

  3. Flottur leikmaður með mikla hæfileika og reynslu eitthvað sem Liverpool þarf á að halda og frábært að fá hann á frjalsri sölu að mínu mati.

  4. Ég er svo ánægður með að fá hann til liverpool verður einn af lykilmönnunum í liðinu á næstu leiktíð

  5. Ég sá flesta leiki City á síðustu leiktíð og hreifst af Milner,held að þetta hafi verið hanns besta tímabil sem er gott,,alltaf gotta að fá leikmann sem er að sína framfarir, ég er mjög sáttur við þessi kaup okkar.YNWA.

  6. Milner er fínn leikmaður en við þurfum líka betri stjóra. Hef miður enga trú á Rodgers.

  7. Æji, er þetta ekki bara eins og að kaupa gamlan Volvo ’74 módelið. Lítið ekinn, gott kram….
    Ekki það,sem þarf.

  8. Mér sýnist menn vera missa af stóru fréttinni hér, Man City er orðinn að “feeder” klúbbi fyrir Liverpool, svona eins og vera ber 🙂

  9. Hann à eftir að gera mikið fyrir LIVERPOOL .
    Finnst hann fràbær leikmaður þò sumir hafi ekki sömu skoðun ….

  10. Skv. norskum kollegum okkar hafnaði Milner 165.000 pundum á viku hjá City og fær 120.000 hjá Lpool. Þannig verður hann næst launahæstur á eftir Sturridge. Þar er því jafnframt haldið fram að hann hafi komið vegna Rogers sem reiknar með að hann verði lykilmaður í liðinu.

    Þarna er líka vitnað í stuðningsmenn City sem eru nokkuð samhljóða því sem kemur fram hér að ofan. Baráttuhundur sem berst fram í rauðan dauðann og týnist ekki þó samherjar eigi slappann leik. Þeir minna líka á það að Silva og Toure séu þeir einu sem eiga nokkurn veginn fast sæti á miðjunni hjá City.

    Í mínum huga er það engin spurning að Milner bætir núverandi hóp hjá Lpool og því tek ég honum fagnandi. Við munum varla gráta það að Allen spili minna eða verði seldur??

    Ég vil að lokum benda ykkur á hina Liverpool síðuna sem ég fylgist með “liverpool.no” þeir eru vel tengdir Anfield og áræðanlegir. Skv. þeim verður Ings kynntur til leiks á næstu dögum.

  11. Ég er ánægður með þessi kaup (Frjáls sala var það reyndar) . Held að hann styrki liðið og passi betur inn í leikstíl Rodgers heldur en Gerrard að því leitinu til að hann er mikið á ferðinni og er því væntanlega góður í hápressu. Tala nú ekki um ef hann er með Henderson með sér á miðjunni. Þá erum við með tvær hlaupakanínur inn á vellinum sem stoppa aldrei og það er mjög nauðsynlegt í líkstíl Brendan Rodgers.

    Það er enn einn stór vandi. Okkur vantar 20-30 marka framherja í hópinn okkar til að teljast marktækir í toppbaráttunni.

  12. Guardian segir að Sterling vilji fara til ManU !!

    Nú er ég endanlega búinn að fá nóg af þessum gutta! Frystann eða vona að Rafa fái hann til Spánar á góðum díl.

  13. * Milner’s creative stats are just not good enough, especially in the league. Prem stats for the last 5 years:

    – Minutes played: 8418
    – Goals: 13
    – Assists: 26
    – Goal every 647 mins (1 every 7.1 games)
    – Assist every 323 mins (1 every 3.6 games.
    – All competitions: Goal every 11 games | Assist every 4.5 games.
    Ekki er nú statistikin merkileg hjá Milner fyrir siðasta timabil. Ef fréttir um að hann eigi að hafa 150000 pund á viku eru réttar hlýtur John Henry að vera kominn með alsheimer.Hann vill jú bara unga fótboltamenn (og konur) og bætir svo góðri statistik við. Hann virðist nú vilja borga gömlum miðlungsmanni með lélega statistk risakaup.
    Það er alla vega búið að skifta um launa og innkaupastefnu ef þetta er það sem koma skal.

  14. Ég get ekki kvartað yfir þessu, Milner og Henderson á miðjunni ættu að geta hlaupið í 2 daga samfleytt. Annars man ég best eftir leiknum gegn City á seinasta tímabili þar sem hann kom inná og gjörbreytti leiknum til hins verra(fyrir okkur). Ofboðslega vona ég að við fáum að sjá miðju uppstillinguna hjá okkur á næsta tímabili vera:
    —Henderson – Milner–
    —————-Can————

  15. Flestir sáttir við Milner sýnist mér, en þó auðvitað ekki allir. Ég er mjög sáttur og þetta eru aðalástæðurnar:

    1. Hann er leikmaður sem örugglega kæmist í hvaða lið í deildinni sem er. Meira að segja City bauð honum víst gull og græna til að vera áfram. Þetta segir mjög mikið um kappann.
    2. Okkur vantar reynslu og yfirvegun.
    3. Vinnusemi. Milner er svipað vinnudýr og Kátur kallinn okkar frá Hollandi.

    Það má tína til stats sem dregur úr gildi Milner en ég vil aðeins vara við að horfa bara í stats…ég man t.d. eftir síðasta season að þá var reiknað út af sumum að væri hægt að fylla í garð Suares. Við þyrftum bara x mörg mörk og x margar stoðsendingar ásamt sköpun færa og þetta gætu margir aðrir menn séð um. Málið er bara að það er margt annað en stats sem telur í boltanum. Ástríða, keppniskap, drifkraftur og hvernig yfirhöfuð Suarez keyrði Liverpool vagninn áfram er pínu erfitt að setja í excel skjalið góða.

    Án þess að líkja MIlner við Suarez því hann kemst ekki með tærnar þar sem hann hefur hælana, þá grunar mig samt að Milner hafi marga eiginleika sem erfitt er að mæla með stundaglasi eða öðrum tölfræðiaðferðum. Ég geri t.d. ráð fyrir að hann muni nýtast vel í klefanum og vera góð fyrirmynd yngri leikmanna.

    Velkominn Milner!

  16. Liverpool YNWA retweeted
    Danny Ings ?@lnngsDanny 1h1 hour ago
    Very happy that I will play at Anfield next season!!
    #LFC #YNWA

    þá held ég að það sé einsmikið staðfest og hægt er.. 😉

  17. Vona að Liverpool fari all-in á leikmannamarkaðnum. Væri til í að sjá liðið minnsta kosti reyna við leikmenn á borð við Dzeko, Mandzukic eða einhverja þannig leikmenn sem eru rétt fyrir neðan elítuklassann og kosta ábyggilega 30 milljónir. Ekkert framherjaklúður takk, kaupa bara solid stræker sem skorar sín 15-20 mörk og léttir pressunni af liðinu.

  18. Bragi #22
    Þetta er fake twitter aðgangur sem twittaði þetta. Danny Ings hefur ekkert tweetað í tvo daga, stórlega efast að hann myndi tweeta svona áður en einhvað væri tilkynnt opinberlega

  19. Mér lýst vel á þennan liðsauka. Maður hefur þó áhyggjur af tvennu fyrir utan hið augljósa: að þetta fokki upp launastrúktúrnum og að hann hafi fengið loforð um einhverja sérmeðferð varðandi val í lið. Ég trú að minnsta kosti umboðsmanni Sterling vel til þess að nota þetta mál til þess að fara fram með enn svívirðilegri kröfur.

  20. Það er greinilegt að menn eru ekki komnir í sumarfrí á Melwood. Samningur við Mike Miarsh verður ekki endurnýjaður og verður áhugavert hver mun koma inní þjálfarateymið í hans stað. Vonandi verður þjálfari sem er sterkur í skipulagningu á varnarleik. Mér finnst það rétt hjá BR að stokka upp í þjálfarateyminu og reyna koma inn aðila sem getur styrkt teymið með nýjum hugmyndum og nýrri aðferðarfræði.

  21. Geoffrey Kondogbia , þurfum svona naut á miðjuna. Skiptir ekki máli hverjir eru frammi og í vörn ef miðjan er enginn. Þurfum almennilega stoppara en ekki auma/lélega miðjumenn….

  22. Held að fáir hafa eitthvað á móti því að fá Milner á Anfield. Fínn leikmaður eins og minnst er á í þessari grein.

    Hinsvegar mega þetta ekki vera standardinn á leikmannakaupum okkar. Launaseðillinn hans er einnig í hærri kantinum og má ekki valda óánægju í búningsklefanum.

    Auðvitað dæmir maður leikmannagluggann í lok sumars, þetta er bara allt í lagi byrjun en ekkert meira en það.

    Velkominn til Anfield James Milner!
    YNWA

  23. Ja hérna, ef þessar fréttir með Bogdan eru réttar þá fer öll mín litla trú á transfer nefndinni og rodgers út um gluggann og stimpla þeir sig þá algjörlega sem vanvita.
    Að þeir séu að spá í einhvern 27 ára gamlann ungverja og varamarkvörð Bolton í 1. deildinni til þess að slást við Mignolet í markinu er hlægilega grátlegt.

  24. Colin Pascoe að fara samkvæmt bresku pressunni bara gott mál væri gott að fá einhverja reyndari backroom staff en Pascoe og Marsh þetta með Bogdan er vonandi bara slúður þessi gaur á ekkert erindi í leikmannahóp Liverpool.

  25. Mér finnst það frekar hrokafullt að velta því upp hvort Liverpoo hafi not fyrir mann eins og James Milner, margreyndan enskan landsliðsmann sem hefur skilað sínu og vel það hjá milljónaliði ManCity. Steven Gerrard farinn, Joe Allen virðist lítið erindi eiga í þetta lið, Emre Can er ungur og á eftir að sanna sig á miðjunni, Lucas virðist því miður ekki eins áreiðanlegur og fyrir meiðslin og Jordan Henderson skortir reynslu sem leiðtogi á vellinum. Milner virðist vera lúsiðinn og vinnusamur í bland við ótvíræða hæfileika. Á frjálsri sölu er þetta no-brainer að mínu mati.

  26. Það að fá Adam Bogdan er staðfesting á hræðilegu njósnaneti LFC. Hann stó sig frábærlega gegn Liverpool í bikarnum en hvað svo? Þetta er varamarkvörður miðlungsliðs í Championship deildinni. Maður er ekki að fara fram á einhvern 10m punda varamarkvörð en betur má ef duga skal!

  27. Ég vona að það verði fengnir inn alvöru menn til þess að aðstoða Rodgers, einhverjir menn með mikla reynslu, hafa verið hjá stórliðum og vanir að vinna titla.

    Rodgers er klár náungi og verður vonandi betri með betri menn í kringum sig.

  28. Við höfum not fyrir Milner, en guð minn góður, bogdan ? Áfram heldur ruglið í þessari vanhæfu nefnd.

  29. Furðuleg þessi transfer nefnd og njósnateymi. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Það að fá inn varamarkvörð Bolton til að berjast við Mignolet er ekki til þess fallið að fá Mignolet upp á tærnar.

    Hvaða tæki og tól er njósnanetið að vinna með? Er það bara Sky pakkinn sem þeir hafa til að meta leikmenn?

  30. Mér skilst að Birkir Kristinsson sé laus. Fínt backup fyrir Mignolet.

  31. Gera menn sér hér grein fyrir því hvers vegna Man City bauð 29 ára gömlum Milner svona há laun og langan samning???Jú vegna þess að hann er enskur og fyllir upp í kvótan.

  32. Ábyggilega enginn jafn hissa á þessu öllu og Adam Bogdan, annars þekkji eg ekkert til hans og ættla bara trúa þvi hann sé góður.

    Verður Barcelona – Juve í opinni dagskrá?

  33. Millner inn fyrir Gerrard gerir liðið veikara en það var á síðasta tímabili, það er gott að fá hann á “free transfer” en hann einn og sér gerir liðið ekkert sterkara en það var fyrir. Betur má ef duga skal.

  34. Alls ekki sammála að Millner inn fyrir Gerrard veiki liðið. Gerrard er búinn að vera skugginn af sjálfum sér, Millner styrkir LFC….

James Milner til Liverpool (staðfest!)

Breytingar í þjálfarateymi Liverpool