Breytingar í þjálfarateymi Liverpool

Fyrr í dag var tilkynnt að samningur við Mike Marsh yfirþjálfara aðalliðsins yrði ekki endurnýjaður en hann rennur út núna í sumar. Nú undir kvöld bárust síðan þær fréttir að Colin Pascoe, aðstoðarmaður Rodgers hætti líka og ku það vera sameiginleg niðurstaða eftir fund með Rodgers, Werner og Gordon.

Sjá nánar í frétt Liverpool Echo hér.

Fyrir utan þessar breytingar hefur verið orðrómur í smá tíma þess efnis að störf Dave Fallows (yfirnjósnara) og Michael Edwards (greiningadeild) séu í hættu en þeir eru báðir partur af þeirri nefnd sem sér um leikmannakaup Liverpool. Það er þó ekkert staðfest með það.

Fyrir stuttu skrifaði ég langan pistil um FSG og hvað þeir hafa verið að gera í Bandaríkjunum þar sem þeir hafa lengi komið að rekstri íþróttaliða og náð árangri. Þar kom ég inná að þeir væru alls ekki líklegir til að gera einhverjar allsherjar breytingar á sínu vinnulagi og spáði því að framtíð Rodgers væri örugg svo lengi sem hann væri að vinna eftir stefnu FSG. Hinsvegar væri mjög líklegt að þeir myndu gera minni breytingar (t.d. á starfsliði) með það að leiðarljósi að bæta eitt og annað milli ára án þess að umturna starfinu alveg. Ef þetta eru ekki ákaflega skýr dæmi um einmitt það þá veit ég ekki hvað þarf til. Þessu hafa menn (oftast með enga þekkingu á innra starfi félagsins) verið að kalla eftir og ættu því að fagna núna.

FSG trúir á langtíma uppbyggingu og stöðugleika, þeir hafa náð árangri með þessari stefnu sinni og taka alltaf stöðuna í lok hvers tímabils og reyna að bæta það sem hægt er að bæta. Hvort sem það tekst hjá þeim í sumar eða ekki þá eru þeir algjörlega samkvæmir sjálfum sér með þessum breytingum sem geta varla talist það vígalegar.

Það verður annars spennandi að sjá í hvaða átt þeir leita í staðin. Margir benda nú á t.d. Hyypia og Carragher, annar hefur afar litlum árangri náð sem stjóri og hinn hefur aldrei þjálfað. Aðrir nefna t.a.m. René Meulensteen sem er vissulega flott nafn en hann hefur aðallega unnið sér það til frægðar að vera partur af góðu starfi Man Utd og bitur eftir að því lauk. Hann kom til United frá Quatar og var með öllu óþekktur fyrir.

Persónulega held ég að FSG/Rodgers fari ekkert eftir því hvort eftirmenn þeirra séu frægir eða ekki heldur leiti að mönnum með ferskar hugmyndir, menn sem eru tilbúnir að treysta á tölfræði sem og aðra þætti sem FSG leggur upp með að unnið sé eftir. Satt að segja held ég að það sé enginn þörf á að fá gamla Liverpool hetju inn í starfið núna, þvert á móti raunar.

Endum þetta svo á þessum pælingum, mér fannst þetta áhugavert og í kjölfarið ennþá meira spennandi að Fallows fái að fjúka líka.

46 Comments

  1. Ég held að Rodgers hefði gott af því að fá einhvern reynslubolta með sér sem aðstoðarmann. Eins og t.d. Meulensteen.

  2. Held að fáir munu gráta þetta meinta njósnateymi. En hef á tilfinningunni að það sé verið að kasta öllum syndum á aðstoðarmenn. Að finna blóraböggla virðist tíðkast víðar en í íslenskum stjórnmálum. Ég vil alvöru fólk sem tekur ábyrgð í takt við þeirra laun!

  3. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei sett mig inn í baseball í USA. En þegar ég bjóð þar þá þá féll ég fljótt fyrir NFL deildinni og ég man hvað ég var hissa þegar ég uppgötvaði hvað sóknar- og varnarþjálfarar liða bera í raun mikla ábyrgð. Þeir virtust alveg eins missa vinnuna og vera dregnir til ábyrgðar eins og aðalstjórar liðanna (sem auðvitað báru þó mesta ábyrgð). Það virðist vera að Brendan sleppi en aðstoðarþjálfarar hans fái reisupassann. Kemur á óvart í enska boltanum, en ekki í NFL. Maður veltir því fyrir sér að þessir refsivendir sem fara nú um eru svolítið ,,amerískir.”

    Ég get samt ekki gert að því…það er svolítið súrrealískt að Brendan fái að halda áfram en þessir kallar sem fáir vita einu sinni hvað heita fá að halda áfram.

  4. Sorry ætlaði að skrifa: Ég get samt ekki gert að því…það er svolítið súrrealískt að Brendan fái að halda áfram en þessir kallar sem fáir vita einu sinni hvað heita fá að taka pokann sinn:)

  5. Nr. 1
    Þetta er bara svo ofboðslega mikið gisk (eins og svosem kaup á leikmönnum og/eða ráðningar á knattspyrnustjóra). Veistu eitthvað um Meulensteen og fyrir hvað hann stendur? Er hann líklegur til að passa í teymi Liverpool? Þekkjast hann og Rodgers eitthvað? Geta þeir unnið saman? Er hann fylgjandi stefnu Liverpool? Við vitum ekkert um hann annað en að hann var partur af þjalfarateymi Man Utd og ef ég man rétt var hann ekki einu sinni aðstoðarstjóri þar.

    Nr. 2
    Afhverju horfir þú á þetta svona? Er semsagt lélegt hjá FSG að breyta hjá sér starfsliðinu milli ára til að reyna bæta starfið? Ef þeir gera ekkert er tuðað, ef þeir breyta einhverju er tuðað. ÞEIR GETA EKKI UNNIÐ í þessari fræðigrein stuðningsmanna.

    Þessi nelgdi þetta vel

  6. Damned if you do, damned if you don’t.

    Meikar fullkomið sens finnst mér. Breytinga var þörf, en ákveðið að BR fái sénsinn áfram. Þá þarf klárlega að breyta einhverju öðru. Svosem ljóst að þeir hefðu allir farið hvort eð er ef Brendan hefði verið látinn fara.

  7. Sæl öll,

    mér lýst alveg svakalega vel á þessa aðferðafræði og FSG er að skora hátt hjá mér. Ekki skemmir fyrir FSG að það er loksins byrjað að stækka völlinn. Góðir hlutir gerast hægt.

  8. Þetta átti annars ekki að koma eins harkalega út gagnvart Hyypia og Carragher og það hljómar í færslunni en það eru alveg sömu óvissuatriði með þá eins og aðra. Minna auðvitað með Carragher sem hefur unnið með Rodgers, efa samt að Carra sé að hætta á Sky í sumar.

  9. Það er bara spurningin hvort ekki sé verið að hengja bakara fyrir smið? Vonandi ekki en grunur minn er að ekki hafi þessir ráðið miklu um hringl með lið mestallt síðasta tímabil og krítiskar uppstillingar og innáskiptingar með köflum.

  10. Þarna er verið að hengja bakara fyrir smið. Verið að reyna að kasta vanhæfni BR yfir á aðstoðarmenn hans. Svona eins og að ef þú ert með æxli í lunga að fjarlægja úr þér nýra, ( ég veit, ósmekkleg samlíking, en samt ). Og þessi transfer committee , guð minn góður !

  11. Mér finnst þetta ótrúlega mikið væl og menn tilbúnir að kvarta yfir hverju sem er. Eiga þeir að sleppa því að taka til í þjálfaraliðinu bara af því það gæti komið út eins og það sé verið að kenna þeim um slæmt gengi í fyrra. Ef Fsg hefðu ekki gert neitt heldur bara haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist hefði orðið enþá meiri reiði.

  12. Þetta er ekki bara svart eða hvítt, ekki frekar en annað. Niðurstaðan var að halda Rodgers og þeirri stefnu sem unnið hefur verið eftir í meginatriðum. Skilaði okkur stórskemmtilegum bolta á síðasta tímabili og fram úr væntingum árangri.

    Setjum þetta öðruvísi upp. Úr því að Rodgers verður áfram, sama hversu sáttir eða ósáttir menn eru með það. Er það þá slæmt að þó sé verið að gera augljósar breytingar innanbúðar? Má ekki skipta út neinum í starfsliðinu úr því Rodgers fór ekki?

    Held að það sé einmitt gott fyrir stjóra í fótbolta að skipta af og til um í innsta hring (sérstaklega ef illa gengur) til að fá nýja rödd, nýja nálgun og nýjar hugmyndir. Ferguson var t.a.m. ekkert feiminn við þetta.

  13. Já, þetta er eiginlega bara gisk. Viðurkenni að ég þekki Meulensteen ekkert mikið. En að fá mann inn í teymið sem hefur áður spilað rullu í sigursælu liði gæti verið ansi dýrmætt. Hver svo sem sá maður yrði – er svolítið skeptískur á að fá t.d. fyrrum leikmenn með litla þjálfarareynslu í of stórt hlutverk.

  14. Sagði Rodgers ekki í byrjun seinasta tímabils að það væri enginn nauðsyn á varnarþjálfara hjá Liverpool? Hann hefur eflaust ofmetið gæðin sín í varnarþjálfunarhlutverkinu.
    Það er enginn vafi að hann er annars frábær þjálfari þó hann hafi farið aðeins á mis með þetta. Ég hef trú á þessu liði okkar en eins og allir sjá þá er vörnin búin að vera í molum síðan hann skrifaði undir.

    Því meira sem ég pæli í því þá finnst mér ótrúlegt að við enduðum í 6.sæti og ekki svo fjarri 5. sæti, hvað þá því 4ða. Það var enginn að skora í þessu liði okkar og manni fannst vörnin okkar mígleka leik eftir leik. Pælið í því ef við hefðum verið í sömu vandræðum í sókninni en verið með stöðuga og þétta vörn allt seasonið, erum kannski að tala um 10-12 færri mörk (36-38 í heild sem er nær því að vera eðlilegara fyrir “toppklúbb”) á okkur og 7-9 fleirri stig með bullandi slappa sókn.

    Vörn vinnur titla.. og leiki. Þetta er ekki eins hræðilegt að manni finnst. Það þarf VARNARCOACH sem stoppar þennan helv leka og kemur stöðugleika á vörnina.

    Ég er ánægður ef þetta sé raunin, að FSG sáu kostina hans Rodgers sem eru þó nokkuð margir að mínu mati og stokki upp í hjálparsveinum hans, sem geta hjálpað Rodgers að laga vandamálið sem hefur hrjáð liðið hans.

    Þrjú stig á FSG fyrir þennan leik.

  15. Gæti ekki verið partur af niðurgangi BR að hann er búinn að safna of mörgum Já mönnum í kringum sig.

    Held það væri virkilega gott fyrir bæði hann og Liverpool að fá einhvern reynslubolta sem er ófeiminn að láta skoðanir sínar í ljós. Eitthvað segir mér að Colin Pasco hafi ekki verið neitt annað en stór Já maður, sama hversu hugmyndir BR hafa verið vitlausar.

  16. Þetta sýnir allavegana að menn samþykkja að síðasta tímabil hafi verið algjörlega óásættanlegt. Víst að menn vildu gefa Rodgers annan sjens þá þurfti (einsog ég hef talað um oft í podköstum) að gera aðrar breytingar. Þetta er klárlega partur af því.

    Ég hefði viljað sjá einhvern fyrrum Liverpool leikmann (einsog Hyypia) og svo einhvern góðan utanaðkomandi sem gæti komið með nýja sýn á hlutina. Miðað við að Rodgers fær að halda áfram þá er ég sáttur við hvernig unnið hefur verið með málin núna í byrjun sumars.

  17. Flott greining.

    Ég er sammála þessari stefnu, að breyta litlum hlutum í stað þess að gera einhverja hallarbyltingu. Ég trúi líka frekar langtímalausnir og finnst allt of mikið af aðhangendum liðsins óþreyjufullir og virkilega halda það – að Liverpoo hafi bolmagn á að kaupa leikmenn ítrekað á himinnháu verði eins og klúbbar eins og Man City eða Chelsea og Man Und sem eru miklu fjársterkari klúbbar.

    Þetta snýst nefnilega líka um að fá gott þjálfarateymi og njósnara sem eru skrefinu framar en aðrir njósnarar í að finna topp leikmenn.

    Ég er fjarri því búinn að gefast upp á FSG og trúi því að með batnandi árangri hætta leikmenn á borð við Sterling að að betri klúbbi og vilja miklu frekar vera um kyrrt.

  18. Vona bara að Pascoe blessaður eigi fyrir síðbuxum með þessum starfslokasamningi….

  19. Þetta kom mér svo sem ekkert á óvart að breitingar voru gerðar í þjálfara liðinu og ég fagna þeim. Annars kom ég með fyrir einhverju síðan stuttan samanburð á fyrstu 3 árum Rodgers hjá Liverpool og fyrstu 3 árum Ferguson hjá United og það var ansi mikið sem var líkt. fjöldi leikmanna keyptur og seldur var svipaður, sæti í deild Ferguson náði á sínu öðru ári 2. sæti í deild en á þriðja tímabili 11. sæti Rodgers var líka í 2. sæti á fyrsta tímabili og svo 6.sæti á 3.tímabili báðir skiptu þeir svo um aðstoðarmann á 4.tímabili. Samnefnararnir eru ansi margir og skemmtilegt að skoða það. Ferguson skipti um aðstoðarmenn á 3.8 ára fresti yfir sinn feril hjá United og sennilega oftar breytingar á þjálfaraliði.

  20. Vörnin var slök vegna þess að Flanagan vantaði :)…kemst í B-lið Liverpool hjá mér

    Arbeloa – Carragher – Hyypia – Babbel

    Flanagan – Agger – Skrtel – Johnson

  21. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með því sem gerist í framhaldinu en þetta er skref í rétta átt. Rodgers þurfti virkilega á öflugu þjálfarateymi að halda í vetur. Svo virtist sem þeir sem fyrir voru höfðu ekki reynsluna né lausnirnar sem þurfti. Sammála mönnum um að það þurfi að fá öflugan reynslubolta við hlið BR sem kemur með nýjar hugmyndir og vegur upp veikleika BR.

  22. Mig grunar að menn hafi “prúttað” við BR. Eða öllu heldur endanlega fengið hann til að gera það sem eigendurnir vildu. Því þegar BR var ráðinn vildi hann ekki samþykkja það sem þeir lögðu til og vildi hafa meiri völd en þeir ætluðu honum. Mig grunar að BR hafi gefið eftir þau völd til að halda í starfið sitt. Svo ég held að hann ráði varla mikið meira en bara að stjórna liðinu í dag.

  23. Er alveg hlynntur þessum breytingum og vona að við fáum einhverja góða menn inn í staðinn til að aðstoða Rodgers og liðið.

    Það hlýtur að hafa verið metið svo að liðið og leikmenn hefðu átt að bæta sig meira á síðustu leiktíð en raun varð á. Leikmenn og lið áttu að gera mikið betur, áttu að spila sig betur saman sem lið og áttu að skila meira einstaklingsframtaki en þeir gerðu. Það má kannski að einhverju leiti reka það til þjálfarateymisins á æfingasvæðinu – eða hreinlega að það hafi verið metið svo að meiri reynslu og/eða nýjar hugmyndir vanti í þann hóp til að hrista upp í hlutunum. Hvort sem er þá er ég sáttur við breytingar.

    Maður á svo sem ekki endilega einhvern “draumakost” í þjálfunarliðið en þau nöfn sem hafa verið nefnd í tengslum við þetta eru nokkuð spennandi hversu ólíkleg sem þau kannski eru. Rene Meulesteen var hægri hönd Alex Ferguson hjá Man Utd í nokkur ár og er mjög virtur þjálfari sem gæti komið með mikla reynslu í þetta teymi. Hyypia er dýrkaður og dáður hjá Liverpool og hefur smá reynslu af þjálfun í Bundesligunni og 1.deildinni á Englandi. Pako Aysteran er fyrrum aðstoðarmaður Rafa og er að vinna frábært starf í Ísrael. Bolo Zenden hefur líka verið nefndur sem hugsanlegur kostur en hann hefur takmarkaðri reynslu af þjálfun en hinir.

    Eins og Babu gefur í skyn þá gætu FSG ákveðið að fara allt aðrar leiðir en maður heldur, þeir gætu sleppt því að vilja fá “reyndari” þjálfara eða stóru nöfnin og fókuserað á “nýju kynslóðina” í þessum efnum. Það er spurning hvort Alex Inglethorpe verði hækkaður um tign enn og aftur hjá félaginu eða að félagið reyni að tæla einhverja eins og t.d. Mark Warburton eða Karl Robinson sem hafa verið að þjálfa í neðri deildunum við gott orðspor. Félagið hefur gert mjög vel í að næla í góða enska þjálfara í Akademíuna undanfarið – eins og t.d. með þá Inglethorpe, Neil Critchley og Michael Beale.

    Nýjar hugmyndir, ný nálgun og reynt að hámarka getu leikmanna og liðs með nýju þjálfarateymi. Ég er ánægður með það og hlakka til að sjá hvernig þetta kemur út.

  24. Þessar breytingar eru allavega mjög áhugaverðar og alls ekki í takt við það sem við sjáum gerast í EPL. Er á því að þegar endalaust er verið að skipta um stjóra þá verði árangurinn ekki nokkur nema í besta falli skammtímaárangur. Man bara ekki eftir neinu (man heldur ekki margt) þar sem þetta hefur virkað að skipta um stjóra á 3 – 5 ára fresti og ná einhverjum stöðuleika, Real Madrid kannski en það er varla marktækt enda er spænska deildin bara bull.

    Hef náttúrulega ekki hugmynd um hvort þessi breyting skil árangri en áhugaverð er nálgunin á vandamálinu. Vona auðvitað það besta en þetta kemur í ljós.

    Með Carra kallinn. Hann má sko ekki hætta á SKY. Einhver verður að hafa vit fyrir þeim þar 🙂

  25. Rodgers hefur sýnt að með góðu liði, með Suarez í liðinu þá getur hann látið liðið spila frábæran fótbolta og unnið hvaða lið sem er. Þessi kaup á sóknarmönnum í fyrra var stórslys sem vonandi verður bætt fyrir núna í sumar.

    Ég er hlynntur þessum breytingum á þjálfaraliðinu og ég vona að það verði fengnir inn alvöru menn til að aðstoða Rodgers. Sigursælir þjálfarar og betra njósnateymi.

  26. Er Gaui Þórðar ekki á lausu sem aðstoðarmaður Brendans? Gaui mundi binda þetta saman fyrir Liverpool.

  27. #5 Babú
    Þetta voru einfaldlega vangaveltur. Hvers vegna þykist þú vera svona viss í þinni sök? Ertu þá klár á því að þessir aðstoðarmenn hafi verið aðalvandamál liðsins á síðasta ári.
    Tóku þeir allar þessar fjölmörgu heimskulegu ákvarðanir með liðsuppstillingu? Voru það þeir sem mistókst að hvetja mannskapinn fyrir leiki, að blása í brjóst einhverja baráttu?

    Efast um það og því velti ég því fyrir mér að það sé verið að friðþægja menn eins og þig og telja trú um að þarna hafi verið ráðist á vandamálin.

    Ennfremur, ef að það sé satt sem skrifað er hér, þá er það enn meiri ástæða að stjórinn ráði ekki við verkefnið.

    En eins og ég segi, þá voru þetta vangaveltur og heimskulegt af þér að ráðast á þær þykjast vita nákvæmlega hvað sé í gangi þarna. Ef að það eru einhver vandamál á milli þessara manna og Rodgers og FSG búið að bakka BR upp, þá býst ég við því að þetta sé nauðsynleg ákvörðun.
    Hinsvegar, tel ég að ábyrgðin liggi mest hjá stjóranum og breytingar á mannskap án þess að verklag breytist, skili okkur nákvæmlega engu.

  28. Balti #28

    Heyr heyr!

    Mitt mat er að þarna er Rodgers að fá gula spjaldið og á síðasta sjéns. FSG hengir bakara fyrir smið. Klöpp og Ancelotti bíða á hliðarlínunni.

    Eftir stendur og verður fróðlegt að fylgjast með, hverjir verða í nýja þjálfarateyminu.

  29. Ég er jákvæður með þessar breytingar hjá þjálfarateyminu. Við þurfum fá menn með betri reynslu og það var eitthvað sem var ekki virka og fá menn eins og t.d. Meulensteen er bara jákvætt fyrir Liverpool.
    Svo langar ég henda þessu linki um að Ayesteran sé kannski að koma aftur til Liverpool.
    http://www.mirror.co.uk/sport/football/news/liverpool-set-reappoint-pako-ayesteran-5836323?
    Ef við fengu þá báða Meulensteen og Ayesteran þá er það mikill bæting á núverandi þjálfarteymi Liverpool.

  30. Veit einhver hvað það helsta er í verkahring aðstoðarþjálfarans? Ég hef gríðarlega litla þekkingu á því hvernig þetta virkar innan þjálfarastaffsins í þessum bolta. Eiga þeir að aðstoða og veita ráðgjöf til aðalþjálfarans eða einfaldlega gera það sem aðalþjálfarinn segir honum að gera?

  31. er hann ekki á lausu…paco ayeristan…eða hvað hann heitir. fint að fá hann aftur og hyppia til að græja vörnina. BR virðist litin áhuga hafa á varnarleik. kaupa svo reynda menn í stað kjulla.

  32. ég skil ekki hvað menn eru einhvað að kalla á Réne Meulensteen hans helsta verk er að vera aðstoðarmaður furir rauðnef og ef það eitt og sér er ekki nóg til að ALLS EKKI fá hann til okkar þá bjó ég nú í DK þegar hann kom inn hjá Bröndby og hann kom þarna og átti að sjá og sigra en hann gat ekki rassgat og lét sig nánast bara hverfa og sagði upp í kjölfarið eftir einugis 6 mánuði í starfi og skildi Bröndby eftir gjörsamlega á rassgatinu. Og þess má geta að hann tók við BIF sem voru búnir að vinna tvöfald árið áður og komast mjög langt í Uefa cup og já hann fékk mjög gott bú en skeit upp á bak og svo var hann sjúklega lélegur hjá Fulham þannig að ég ætla að rétt að vona að fólk hætta að kalla á að hann verði ráðinn….

  33. Nr. 28 Nokkur atriði.

    Hvers vegna þykist þú vera svona viss í þinni sök?

    Hvað ertu að tala um? Er að spyrja hvort það megi ekki breyta neinu í starfsliði Liverpool úr því ákveðið hefur verið að umturna ekki öllu starfinu (reka stjórann).

    Ertu þá klár á því að þessir aðstoðarmenn hafi verið aðalvandamál liðsins á síðasta ári. Tóku þeir allar þessar fjölmörgu heimskulegu ákvarðanir með liðsuppstillingu? Voru það þeir sem mistókst að hvetja mannskapinn fyrir leiki, að blása í brjóst einhverja baráttu?

    Alls ekki, stærsta vandamál félagsins fannst mér persónulega vera leikmennirnir sem voru í boði. En ég veit ekkert um samstarf þjálfara í innsta hring Liverpool og sé ekki að það þurfi að vera eitthvað neikvætt ef skipt er um menn þar og fengið inn nýja menn með önnur sjónarhorn. Þetta er bara ein lítil breyting af líklega mörgum. Önnur breyting er t.a.m. í breytingum á leikmannahóp.

    Efast um það og því velti ég því fyrir mér að það sé verið að friðþægja menn eins og þig og telja trú um að þarna hafi verið ráðist á vandamálin.

    Ég var svosem ekkert að kalla eftir breytingum á þjálfaraliðinu enda vitum við afar lítið um þeirra starf. Fyndið samt að þetta hefur lengi verið ein af töfralausnunum sem kallað hefur verið eftir (meira töff aðstoðarmenn) og svo þegar þetta er framkvæmt er það líka rangt og bara gert til að friðþægja stuðningsmenn. Heldur þú í alvöru að FSG sé svona ófagmannlegt og vinni í svona skammtímalausnum?

    En eins og ég segi, þá voru þetta vangaveltur og heimskulegt af þér að ráðast á þær þykjast vita nákvæmlega hvað sé í gangi þarna.

    Ég var að svara þér og kom með gagnrýnar spurningar á móti, hvað er heimskulegt við þær? Skil ekki afhverju ekki megi gera minniháttar breytingar í starfsliðinu og er hvergi að þykjast vita nákvæmlega hvað er í gangi. Með því að skoða starf FSG í Bandaríkjunum (og hjá LFC) er hinsvegar betur hægt að geta sér til um hvað þeir eru líklegir til að gera. Því kemur það ekki svo ýkja mikið á óvart að þeir haldi tryggð við Rodgers áfram en geri aðrar minni breytingar.

    Ef að það eru einhver vandamál á milli þessara manna og Rodgers og FSG búið að bakka BR upp, þá býst ég við því að þetta sé nauðsynleg ákvörðun.

    Þetta er einmitt málið, við vitum ekkert um þeirra samstarf og vonandi er þetta ein af mörgum litlum breytingum sem skilar okkar mönnum betri árangri á næsta tímabili.

  34. Eitt af því sem menn hafa gagnrýn við BR er að hann hafi takmarkaða reynslu. Þarna gefst tækifæri á að ráð inn þjálfara sem hafa víðtækari reynslu og geta miðlað henni til leikmanna og til BR. Jafnvel væri hægt að fá fyrrum leikmann með landsliðsferil að baki (t.d. Hyppia eða Carra eða jafnvel stærri nöfn) sem gætu aukið aðdráttarafl þjálfarateymisins fyrir leikmenn og þar með klúbbsins.

  35. #33

    Líst ekki illa á að fá Pako aftur. Það er lika verið að slúðra. Væri gaman að vita hvað þeim finnst sem mest vita um Pako, hvort hann sé málið eða ekki?

  36. Ég verð að segja fyrir mitt leyti þá eru þetta ákaflega skrítnar breytingar. Við horfðum á einhver verstu skitu Liverpool í lokinn á þessari leiktíð. Það var engu nær enn að BR hafi verið búinn að missa klefann. Tapleikurinn á Móti Aston Villa í bikarnum svíður hrikalega. Önnur eins skita hef ég ekki séð í lengri tíma. Þarna áttu menn möguleika að kveðja Stevie G með úrslitaleik. Nei undirbúningur fyrir þann leik gaf ekki mikið til kynna á vellinum. Síðustu 2 leikir á tímabilinnu fara í sögubækurnar fyrir hræðilegar frammistöður. EF Aston villa leikurinn var slæmur þá voru síðustu 2 leikirnar versta martröð sem ég hef upplifað. Ég Skrifa þetta Algjörlega á BR.

    Reyndar er margt sem er búið að fara úrskeiðis hjá Liverpool Síðan FSG keypti k?úbbin. Margt gott hefur gerst, enn við höfum líka sér margt sem telst varla í boði svo stórs klúbbs sem við viljum að Liverpool sé. Við höfum svo sannarlega ekki verið heppnir í leikmannakaupumm síðan Fsg Byrjaði að eyðja öllum þessum peningum. Rodgers á nú sinn þátt í þessu rugli sem hefur verið á þeim bænum. Fyrir mér er þetta samt aumt að reka aðstoðarmenn hans og ráða nýja þegar Rodgers virtist lítið hafa vit á hvað Tegund fótbolta ætti að spila frá 1 sept til 18 des.. SVo fann hann einhverja formulu í 3 mánuði svo bara eins og Knock… Hann var engu nær í síðustu 10 leikjunum hvað fótbolti var eða hvernig stilla liði upp og spila yfir höfuð fótbolta.

    Fyrir Mér er 6-1 Tap á Móti Stoke allveg ástæða til að Reka hann….. Tala nú ekki um nýbúinn að tapa 3-1 fyrir Crystal Palace… Er Þetta virkilega sem við viljum sætta okkur við? töp og það stór eins og við lendum í á leiktíðinni. Hendu Suarez í hvaða liði sem er í ensku úrvalsdeildinni með sæmilegan mannskap og enga evrópuleiki…. Þá sérðu það er ekki svo erfitt að lenda í öðru sæti! Mín skoðun!

  37. erum við að tala um Kovacic ??!!! er það ekki spennandi ? vantar enn strikera …

  38. https://www.youtube.com/watch?v=ixTdHc0iRQA

    Kovacic, miðjumaðurinn sem við erum orðaðir við var að setja þetta gullfallega mark í dag. Það sem maður hefur heyrt um þennan dreng eru bara góðir hlutir. 21 árs bráðefnilegur, snöggur í hreyfingum og heldur boltanum mjög vel. Einnig skoraði Markovic fyrir Serbíu áðan.

  39. #35 Babú

    Mjög ítarlegt svar en eins og oft er með svona bútasaum þá er samhengið gjarnan slitið til að vinna rökræðuna.
    Ég skal taka smá þátt í þessu og svara þessum pistli þínum og setja upphaflegu meininguna í samhengi því seint leita ég eftir átökum, ólíkt mörgum öðrum, en kem með mínar persónulegu skoðanir og sem vangaveltur. Því eins og ég sagði upphaflega, þá getur maður eingöngu reynt að lesa í skilaboðin sem maður fær og fátt fer meira í taugarnar á manni en frekur miðaldra karlmaður sem þykist bera sannleikann á baki sínu.

    En hvað um það, ég er það góður á þessum vef til að geta sett þetta upp á jafn góðan hátt og þú en geri mitt besta.

    1. Hvers vegna þykist þú vera svona viss í þinni sök?

    “Hvað ertu að tala um? Er að spyrja hvort það megi ekki breyta neinu í starfsliði Liverpool úr því ákveðið hefur verið að umturna ekki öllu starfinu (reka stjórann).”

    – Þetta grundvallast einfaldlega út frá upphaflegum pósti þínum þar sem þú mótmæltir þeim vangaveltum mínum um að það væri ekki vera að ráðast á rót vandans. Sem væri í sjálfu sér allt í góðu, ef að þín skoðun væri á annan hátt. En það sem pirraði mig mikið var þetta:
    “Ef þeir gera ekkert er tuðað, ef þeir breyta einhverju er tuðað. ÞEIR GETA EKKI UNNIÐ í þessari fræðigrein stuðningsmanna.
    Þessi nelgdi þetta vel”
    – Þarna fórstu í leiðinda, hálf persónulegan skæting á einföldum vangaveltum og það að þú hafir tekið leiðindin á þau komment, finnst mér eðlilegt að telja að þú virðist vita betur og taka svona high ground á okkur vitleysingana sem vitum ekki neitt og tuðum bara. Þú varst ekki að spyrja, heldur komst með skæting á aðrar spurningar.
    Óásættanlegt

    2. Ertu þá klár á því að þessir aðstoðarmenn hafi verið aðalvandamál liðsins á síðasta ári. Tóku þeir allar þessar fjölmörgu heimskulegu ákvarðanir með liðsuppstillingu? Voru það þeir sem mistókst að hvetja mannskapinn fyrir leiki, að blása í brjóst einhverja baráttu?

    “Alls ekki, stærsta vandamál félagsins fannst mér persónulega vera leikmennirnir sem voru í boði. En ég veit ekkert um samstarf þjálfara í innsta hring Liverpool og sé ekki að það þurfi að vera eitthvað neikvætt ef skipt er um menn þar og fengið inn nýja menn með önnur sjónarhorn. Þetta er bara ein lítil breyting af líklega mörgum. Önnur breyting er t.a.m. í breytingum á leikmannahóp.”

    – Þetta er nokkuð gott. Svarar spurningunum bara vel, sem settar voru fram í áðurnefndum pirringi 🙂 , þó ég sé ekkert endilega sammála því að leikmennirnir hafi ekki verið stærsta vandamálið. Ég held að hægt sé að fá meira úr þessum leikmönnum en okkur var boðið upp á. Ekki að ég sé að benda á að hópurinn sé nógu góður, langt í frá, einfaldlega bara það að mér fannst mótivering vera hræðileg, leikskipulag hræðilegt, spila mönnum úr stöðu. Skelfilegt og hefur vond áhrif á leikmennina sjálfa, dregur úr þeirra sjálfstrausti þegar þeir eru ekki að standa sig. o.s.frv. Held ennþá að stjórinn og hans sýn sé stærsta vandamálið hjá okkur.

    3. Efast um það og því velti ég því fyrir mér að það sé verið að friðþægja menn eins og þig og telja trú um að þarna hafi verið ráðist á vandamálin.

    “Ég var svosem ekkert að kalla eftir breytingum á þjálfaraliðinu enda vitum við afar lítið um þeirra starf. Fyndið samt að þetta hefur lengi verið ein af töfralausnunum sem kallað hefur verið eftir (meira töff aðstoðarmenn) og svo þegar þetta er framkvæmt er það líka rangt og bara gert til að friðþægja stuðningsmenn. Heldur þú í alvöru að FSG sé svona ófagmannlegt og vinni í svona skammtímalausnum?”

    – Veit ekki alveg hvað þú átt við með “töff aðstoðarmenn” og nei, held að FSG vilji bæði stöðugleika og árangur og vinni ekki í skammtímalausnum. Tel bara að þeir séu einfaldlega þarna að lengja vont ástand í amk eitt ár.
    – En skv upphaflegum pælingum mínum, þá er hvítþvottur einmitt notaður til að friða kórinn og því miður, þá held ég að við séum að sjá slíkt.

    4. En eins og ég segi, þá voru þetta vangaveltur og heimskulegt af þér að ráðast á þær þykjast vita nákvæmlega hvað sé í gangi þarna.

    “Ég var að svara þér og kom með gagnrýnar spurningar á móti, hvað er heimskulegt við þær? Skil ekki afhverju ekki megi gera minniháttar breytingar í starfsliðinu og er hvergi að þykjast vita nákvæmlega hvað er í gangi. Með því að skoða starf FSG í Bandaríkjunum (og hjá LFC) er hinsvegar betur hægt að geta sér til um hvað þeir eru líklegir til að gera. Því kemur það ekki svo ýkja mikið á óvart að þeir haldi tryggð við Rodgers áfram en geri aðrar minni breytingar.”

    – Búinn að fara í þetta áður. Nei, þú varst ekki að svara og koma með gagnrýnar spurningar á móti. “Er það lélegt að FSG reyni að bæta ástandið með breytingum á starfsliði er ekki gagnrýnin spurning á þeim vangaveltum. Ég er að segja nákvæmlega það sama þó ég dragi það í efa að þessar breytingar eigi eftir að skipta einhverju máli.
    Hvað hitt varðar, þá tengdist það meira mínum pirringi á þeim skætingi og óvirðingu sem mér fannst þú sýna mér með þessu “tuð og leiðinda” kommenti. Ég ber virðingu fyrir þér þegar kemur að því að kafa ofan í starf FSG í BNA en mér finnst það ekki breyta neinu hvað vandamál klúbbsins varðar þessa stundina.

    5. Ef að það eru einhver vandamál á milli þessara manna og Rodgers og FSG búið að bakka BR upp, þá býst ég við því að þetta sé nauðsynleg ákvörðun.

    “Þetta er einmitt málið, við vitum ekkert um þeirra samstarf og vonandi er þetta ein af mörgum litlum breytingum sem skilar okkar mönnum betri árangri á næsta tímabili.”

    – Þetta skiptir liltu máli. Þarna eru bara vangaveltur mína með að FYRST það er búið að bakka BR upp, þá sé nauðsynlegt að skipta út aðstoðarmönnum EF það er styrt á milli þeirra. En vangaveltur mínar voru meira í að fyrst það er búið að bakka BR upp, þá finnst þeim þeir þurfa að kasta einhverjum greyjum á fórnarbálið til að friða plebbana. Það er auðvitað kolröng aðferð til að laga sjálft ástandið.

    Svona að lokum, þar sem maður á alltaf að enda smá rökræður á jákvæðum nótum, þá vil ég auðvitað eins og allir aðrir hér að Liverpool eigi eftir að “meika það” á næsta ári. Vonandi hef ég þá bara rangt fyrir mér…
    En hvað þig persónulega varðar, þá kann ég virkilega að meta þína pistla og þínar fínu skoðanir hér inni og í góðum hlaðvörpum ykkar Koppara. 🙂

  40. 1. Það liggur fyrir að Rodgers verði áfram og út frá því velti ég því fyrir mér hvort það sé þá ekki eðlilegt og/eða jákvætt að gerðar séu breytingar annarsstaðar í starfsliðinu. Það að Rodgers verði áfram enn um sinn er ekki ég að þykjast vita betur en aðrir og/eða setja mig á einhvern háan hest. Það er svo varla skætingur að spyrja hvort breytingar á starfsliði og innra starfi Liverpool séu ekki jákvæðar þó heitasta ósk margra um að þjálfarinn verði látinn fara hafi ekki ræst ennþá.

    Þetta með að FSG geti ekki unnið í þessum rökræðum er auðvitað ekki beint að þér einum og tístið sem ég benti á var eitthvað sem beindist að Liverpool mönnum almennt. Mér fannst hann fanga ágætlega viðbrögð við því að Mike Marsh verði ekki boðinn nýr samningur sem þjálfari hjá Liverpool.

    Það er nánast útilokað fyrir þá að gera öllum stuðningsmönnum liðsins til geðs.

    2. Það er í raun annað mál og þeir sem eru komnir með nóg af Rodgers hafa komið þeirri skoðun sinni ágætlega á framfæri undanfarnar vikur. Það liggur fyrir að hann verði áfram og m.v. fyrri störf FSG kemur það ekki svo mikið á óvart. Ég hef langt í frá verið hrifin af uppleggi Rodgers í mörgum leikjum í vetur og skil alls ekki alltaf notkun hans á leikmönnum liðsins. Höldum því alveg til haga þó með því sé ég ekki að óska eftir því að hann verði rekinn. Ég held að hann geti strax náð miklu betri árangri með þó ekki væri nema einn nothæfan sóknarmann, hann hefur sýnt það áður, betur en nokkur stjóri Liverpool undanfarin 25 ár (hvað sóknarleik varðar).

    Það er leiðinlegt til lengdar að taka alltaf sömu umræðuna um að reka verði Rodgers þegar það liggur fyrir a.m.k. í sumar að hann verði áfram. Ítreka því það sem ég sagði í ummælum 13. http://www.kop.is/2015/06/06/breytingar-i-thjalfarateymi-liverpool/#comment-211423

    3.- (4. – 5.) Þarna verðum við bara að vera ósammála og fyrir mér lítur þetta út fyrir að FSG sé að vinna eftir sambærilegri hugmyndafræði og hefur reynst þeim vel í Bandaríkjunum sem og í öðrum rekstri. Þeir einfaldlega trúa ekki á tíðar hallarbyltingar og reyna að forðast þær og halda frekar stöðugleika. Hvort sem menn eru sammála þeirri aðferðarfræði eða ekki er annað mál en þeir eru ekki í neinum skammtíma hvítþvotti til að friðþægja okkur vitlausu plebbana, svo helvíti ófagmannlegir eru þeir ekki. Þeir trúa að þeir geti bætt liðið með þessum hætti.

    Kannski er það kolröng aðferðarfræði að reka ekki stjórann eins og “alltaf er gert” í fótboltanum. FSG eru reyndar miklir aðdáendur manna sem gefa skít í rök sem enda á “alltaf er gert”. Það að reka stjórann er ekkert alltaf lausn allra mála og það hefur ekkert hjálpað uppbyggingu Liverpool að skipta um stjóra á 6-18 mánaða fresti undanfarin ár.

    Liverpool tók U-beygju árið 2010, aftur 6-8 mánuðum seinna eða í byrjun árs 2011. Fyrir tímabilið 2012/13 var tekið enn ein og jafnvel enn stærri U-beygja. Enn á ný skipt um stjóra og megnið af hans starfsliði, fengið inn nýja leikmenn með allt aðrar áherslur en þeir sem áður höfðu verið keyptir.

    Mögulega er það líklegra til árangurs að bæta það sem vantar í núverandi lið og vinna áfram ca. eftir sömu hugmyndafræði. Það er a.m.k. sú aðferð sem FSG er að veðja á hvort sem okkur líkar það betur eða verr.

  41. Það er orðrómur um að Mateo Kovacic sé á leiðinni til Liverpool. Virkar mjög teknískur og góður miðjumaður og var hugsaður sem einhverskonar arftaki Steven Gerrard. Ég held að hann passi mjög vel inn í leikstíl okkar manna og gæti orðið mikill happafengur þó það sé erfitt að fullyrða eitthvað um slíkt.

    Danny Ings er líka í sigtinu og er það leikmaður sem gæti mögulega slegið í gegn og komið á óvart.

    Svo er talað um enn einn Southamtonmanninn sem arftaka Johnson í bakvarðastöðunni.

    Það breytir því samt ekki að það vantar heimsklassaframherja til þess að Liverpool virki trúverðugt í meistarabaráttunni. Ef það takmark næst þá hlakka ég til næsta tímabils og trúi því að við séum í góðum málum. Tala nú ekki um ef það reynist satt að Sturridge gæti verið heill næsta tímabils, því læknar telja sig hafa komist að rót meiðslavandamála hans og losað hann við hana..

    Mér finnst efniviðurinn góður hjá okkar mönnum og þetta er spurning um að finna réttu mennina og gera það sem þarft til að láta þá smella inn í leikstílinn okkar.

    Milner lofar góðu og vonandi forsmekkurinn sem koma skal. Ekki gleyma því að Man City vildu halda honum en hann vildi fara til að fá meiri spilatíma sem er frábært fyrir okkur því það þýðir að hann telur sig hafa margt að sanna.

  42. Ibrahimovic – Sturridge – Origi – Ings sem framlína okkar næsta vetur? Hell yeah!
    Verið að staðfesta kaupin á Ings núna í morgunsárið. Gott mál. http://metro.co.uk/2015/06/08/liverpool-agree-transfer-deal-for-danny-ings-5235020/?

    Ef Sturridge nær sér vel eftir þessa mjaðmaraðgerð sem hann fór í útí USA þá myndar hann með Ibrahimovic líklega bestu framlínu Englands næsta vetur. Yrði spennandi en auðvitað stórt EF.

    Annars er fullkomlega tilgangslaust að vera æsa sig núna yfir leikmannakaupum og þjálfaraskiptum Liverpool. Spörum aðeins stóru orðin drengir og stúlkur. Verður útilokað að meta þetta almennilega fyrr en félagsskiptaglugginn lokar. Um að gera að ræða þetta en menn sem sjá bara svartmætti yfir Ings og Milner geta litið ansi heimskulega út ef FSG koma svo á óvart með einhverjar sprengjur í lok gluggans eins og Ibrahimovic, Isco o.fl. Svo er ekkert vitað hvað gerist með Sterling, gætum fengið einhverja dúndur heimsklassaleikmenn í skiptum fyrir hann.
    Að því sögðu skil ég ekki afhverju Ian Ayre er enn í starfi hjá Liverpool og mikið rosalega væri ég til í að Pako Ayestaran aftur til Liverpool. Sá gaur er bara pjúra winner.

James Milner – hefur Liverpool not fyrir hann?

Danny Ings mættur á svæðið (staðfest)