Erfiðasta afstaðið?

Fyrir tímabilið horfðum við strax í gríðarlega þungt útileikjaprógramm Liverpool í byrjun mótsins. Fyrstu sjö útileikir tímabilsins voru gegn þeim liðum sem við myndum raða í efstu sjö sætin yfir erfiðustu útileikina. Meirihluti heimaleikja Liverpool var svo strax í kjölfarið á Evrópudeildarleik en sú keppni hefur kostað nánast öll lið sem taka þátt stig, Liverpool hefur ekki ennþá unnið leik strax í kjölfar Evrópudeildarleiks á þessu tímabili og það er ekki tilviljun.

Gríðarleg meiðslavandræði lykilmanna hafa auðvitað bitið fast ásamt því hversu rosalega þunnskipað liðið er í sumum stöðum á vellinum, en Evrópudeildin er (of) þung keppni fyrir lið sem ætla sér að keppa í deildinni heimafyrir við lið sem spila sambærilega keppni (Meistaradeildin) sem gefur fjófalt meiri pening til að bæta hópinn.

Man Utd, Man City, Chelsea og jafnvel Arsenal hafa öll alveg nógu mikið forskot á Liverpool fjárhagslega án Evrópukeppna. Hvað þá ef þessi lið eru að spila jafn mikið af leikjum í Evrópu en Liverpool fær bara brot af þeim fjárhæðum sem hin liðin fá til að takast á við það, sama á við um Tottenham og Everton. Ég veit alveg að menn vilja vinna allar keppnir en það kostar alltaf einhversstaðar og Liverpool hefur alls ekkert verið að afsanna þetta í kjölfar Evrópuleikja í vetur. Þessi grein sem vísað er í hér er sláandi, hvort sem menn kaupa þessa tölfræði eða ekki.

Engu að síður er vonandi það versta afstaðið.
Þessi rosalega útileikjahrina er að baki og niðurstaðan ásættanleg 12 stig af 21 mögulegum þökk sé síðustu tveimur útileikjum sem voru vel yfir væntingum.
Meiðslavandaræðin eru alls ekki að baki en við eigum von á Henderson og Sturridge á næstunni og menn eins og Benteke, Lallana og Firmino eru allir heilir eins og er en allir hafa verið tæpir það sem af er móti á einhverjum tímapunkti. Vörnin er gríðarlega þunnskipuð en vonandi er meiðslalistinn að styttast.
Þyngsti hluti Evrópudeildarálagsins er vonandi að baki og liðið gæti jafnvel tryggt sig áfram fyrir síðasta leikinn. Bordaux á fimmtudaginn gæti kostað stig gegn Swansea en sá leikur er a.m.k. á heimavelli eins og Swansea leikurinn. Það gæti líka hjálpað í næstu tveimur leikjum að við höfum eða eru að endurheimta marga lykilmenn m.v. sambærilegt leikja-combo fyrr á þessu tímabili.
Liverpool er töluvert sigurstranglegra með Firmino svo góðan frammi að Sturridge og Benteke eiga ekki greiða leið í byrjunarliðið heldur en þegar Origi var gjörsamlega eini valkosturinn. Þetta segir sig sjálft.

Það er síðan oft gott að meta gengi liðsins út frá sömu leikjum árin á undan frekar en að skoða endilega stöðuna í deildinni eftir 13 umferðir. Liverpool er ekkert búið að spila sömu leiki og liðin fyrir ofan okkar menn í deildinni og þetta gæti snúist hratt.

Svona hefur stigasöfnun Liverpool verið undanfarin ár í nákvæmlega sömu leikjum og liðið hefur spilað það sem af er þessu tímabili.
23.11.15 Sömu leikir 2013-15
Þrátt fyrir allt eru þetta fimm stigum meira en liðið var að ná á síðasta tímabili og aðeins þremur stigum minna heldur en liðið náði 2013/14 (sem var frábært tímabil).

Sigur á Bournemouth (1.sæti í Championship 2014) er t.a.m. bæting frá sama leik í fyrra sem var gegn Leicester (1.sæti í Championship 2013) en sama stigasöfnun og gegn Cardiff 2013/14 (1.sæti í Championship 2012).

West Ham og Norwich eru mjög dýr töpuð sig ásamt Tottenham miðað við undanfarin ár. Aston Villa sigurinn vinnur upp á móti þar og stig gegn Arsenal er betra en liðið hefur gert undanfarið ásamt auðvitað frábærum sigurleikjum gegn City og Chelsea. Þeir leikir meira en allir hinir gera það að verkum að þetta tímabil er ennþá galopið, sérstaklega upp á 4.sætið. Það tapast ekki í nóvember þó staðan í deildinni sé ekki glæsileg núna.

Eftir 13 umferðir í fyrra (ekki sömu leikir) var Liverpool með 14 stig en 24 stig árið 2013/14. Þetta sýnir okkur fyrir það fyrsta hversu rándýr hver leikur er í þessari deild og á sama tíma að þetta tímabil er ennþá galopið hjá Liverpool. Eftir sigurleiki gegn Chelsea og City úti og tap gegn Crystal Palace heima er Liverpool jafnlíklegt til að fara í báðar áttir í næstu umferðum. Nýr stjóri hefur þó bara verið með liðið í sex vikur og er að koma sínum fingraförum á leik liðsins, so far so good.

Næstu sex leikir Liverpool hafa gefið 13 stig af 18 mögulegum undanfarin tvö tímabil. 4 sigrar, 1 tap og eitt jafntefli. Ef við horfum lengra fram í tímann vandast leikjaprógrammið töluvert því þessir þrír aukaleikir skiluðu aðeins einu stigi í fyrra en fullu húsið árið áður.
23.11.15 - Sömu leikir 2013-15 framundan
Næstu sex umferðir eru eitt samfellt bananahýði og Liverpool hefur verið að tapa mikið af stigum í vetur í sambærilegum leikjum. Hinsvegar höfum við nánast aldrei haft Sturridge, Benteke eða Firmino 100% heila í þessum leikjum og tíma hafa þeir allir verið frá í einu. Ásamt auðvitað Danny Ings sem er svo mikið meiddur að maður telur hann varla með lengur. Með slíka sóknarmenn aukast líkur á sigri gríðarlega gegn þessum liðum, eðlilega.

Eftir þessa sex leiki er mótið hálfnað, Liverpool var með 28 stig eftir 19 umferðir í fyrra en 36 stig tímabilið 2013/14. (Þá nýbúnir að tapa tveimur leikjum í röð gegn Chelsea og Man City).

Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu tímabilið tekur hjá okkar mönnum í næstu leikjum, vonandi er það erfiðasta afstaðið, þessi byrjun kostaði stjórann m.a. starfið sem segir kannski eitthvað um byrjun okkar manna. Núna eru 8 stig í topplið Leicester og 11 stig í fallbaráttuna.

Ég treysti Jurgen Klopp til minnka bilið í toppsætið fram að áramótum. Til þess þarf hann að bæta árangur okkar manna strax í kjölfar Evrópuleikja. Enn hefur Liverpool ekki tapað leik í kjölfar deildarbikarleiks en það gilda sömu lögmál um þá keppni. Deildin er númer 1,2,3,4,5,6,7,9 og 14.

Meðan okkar menn eru farnir að ganga frá City og Chelsea á útivelli veit ég ekki hvaða lið Liverpool á eiginlega að óttast? Nema auðvitað Liverpool. En liðið sem við sáum um helgina á að stefna á efstu fjögur sætin í deildinni í það allra minnsta.

16 Comments

  1. Ánægður með að engin er að koma fram í fjölmiðlum og jinxa fyrir okkur með því að segja að núna sé leiðin sé bara uppá við og 4.sætið mögulegt. Ótrúlegt hvað það klúðraðist alltaf þegar Gerrard eða BR byrjuðu að kjafta um þetta eftir sigurleiki. Klopp sýnir bara á vellinum hvar við eigum heima.

  2. #1 Sé að þú ert fastur í frekar úreltu myndmáli og hefur frammi skoðun um að orðið kerling sé á einhvern hátt hentugt til að lýsa vanþóknun þinni á karlmanni. Ég fullvissi þig um að slík orðræða fer ekki vel á opinberum vettvangi og líklega hvergi.

    Innskot: Farið í ruslið

  3. Sæl öll.

    Til stjórnenda: Vilji þið vinsamlegast fjarlægja 1. ummælin í þessum þræði. Þótt þau séu auðvitað fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir þann er þau skrifa eru þau ótrúlega sorgleg.

    Innskot: Afgreitt, höldum umræðum hérna á eðilegum nótum.

  4. Haft eftir Klopp í síðasta hálfleik:

    “So we have to learn to win, to be in the lead. …..”

  5. Leikurinn gegn Leicester verður fróðlegur. Bæði lið byggja á áþekkri taktík, allavega að einhverju marki: Hápressu og skyndisóknum.

  6. já, mjög góða pælingar hjá Einari Matthíasi.

    Ég er að reyna eins og ég get að halda mér niðri á jörðinni eftir þessa veislu um síðustu helgi en það er erfitt. Liðið var bara stórkostlegt.

    Hitt er svo annað mál að það virðist, allavega enn sem komið er, henta okkur betur að spila á móti liðum sem sækja til sigurs á móti okkur því það býr svo mikill hraði í þessu liði okkar að við erum stórhættulegir í skyndisóknum og getum refsað grimmt.

    Klopp á enn eftir að sanna fyrir okkur, a.m.k. í úrvaldsdeildinni, að hann geti leyst það vandamál þegar “minni” liðin parkera rútunni í eigin vítateig á móti okkur og treysta á skyndisóknir. Sjáið þið t.d. Palace. Þeir vinna okkur á Anfield en tapa síðan í næsta leik á heimavelli á móti Sunderland!

    Hvað sem þessum pælingum líður þá treystum við því auðvitað að meistari Klopp leysi þessi vandamál en ég ætla ekki að fara að hætta mér á þá braut að segja að liðið sé að fara að berjast í topp4 og jinxa allt til helvítis. Kýs þess vegna að taka einn leik í einu. Hlakka mikið til fimmtudagskvöldsins!

  7. Maður er með báðar fætur á jörðinni. Það er nú bara þannig eftir að hafa stutt Liverpool í öll þessi ár. Þetta tap gegn Palace um daginn gerði það að verkum að maður tekur einn leik í einu. Við verðum bara að halda áfram að bæta okkur, liðið er klárlega á réttri leið. Vonum bara að við tökum æ oftar 3 stig og teljum svo upp úr kössunum í maí. Maður er í skýunum eftir leikinn á sunnudaginn. Ég leyfi mér að vera brosandi þangað til það gellur í næstu flautu. Þá hefst alvaran á ný og vonandi ný sæluvika. Koma svo !

  8. Eitt sem ég hef oft velt fyrir mér með þessa rannsókn sem sýnir að tveir dagar dugi ekki í endurheimt eftir leiki, tapa þá ekki alltaf lið sem spila á laugardegi, meistaradeildarleiknum á þriðjudegi?

  9. Leikjaplanið hjá Leicester lítur svona út næstu mánuðina, svei mér þá ef ástæðan fyrir genginu sé ekki sú að þeir eiga ansi erfiða leiki eftir.

    Leicester v Man Utd
    Swansea v Leicester
    Leicester v Chelsea
    Everton v Leicester
    Liverpool v Leicester
    Leicester v Man City

    Sjáum hvar þeir standa eftir þetta. Við spilum við þá 2. í jólum grunar að þeir verði búnir að tapa 9 stigum af 12 þá og eiga þá leik við okkur á Anfield. Ef Liverpool heldur haus og tekur þessi leiki í millitíðinni ættum við hafa 1 stigs forskot þegar við spilum þann leik . West Ham, everton og Southampton eru nánast sama stað og við í töflunni og eiga örugglega eftir að tapa einhverjum stigum. Þannig að við ættum að ná að færa okkur upp um 4 sæti fyrir jól. Ef Tottenham tapar á móti Chelsea er svo 1 stig í þá.

    Spái því að um áramótin verði Liverpool 1 stigi frá 4 sætinu. Þetta er það sem gæti gerst EF allar leikir vinnast þangað til. Planið er ekki svo erfitt á pappír og nú þarf bara að koma þessu í verk á vellinum.

  10. Sælir félagar

    Það var gott að ég missti af fyrsta kommenti því það hefur ekki verið fallegt. Ég er einn af þeim sem ekki hafa nokkra trú á jinxi eða hvað það er sem menn kala það að hafa áhrif á framtíðin með einhverslags spádómum. Það er bara þannig að það er erfitt að spá – sérstaklega um framtíðina. Það hefur líka sést í Hádegismóum að það getur líka verið afar erfitt að spá um fortíðina en það er allt önnur ella.

    Það sem skiptir máli er hvað menn leggja til grundvallar spám sínum, hvaða rök leiða til niðurstöðu. Til dæmis spáði ég fyrir síðasta leik 1 – 3 og hafði fyrir því rök. Að vísu skildi ég þau rök ekki sjálfur en mikið assgoti var ég nærri réttri niðurstöðu.

    Samkvæmt áðurnefndri rökleiðslu sýnist mér að Liverpool endi í öðru sæti í vor. Það sem ég legg til grundvallar þessari spá minni er að þegar ekki er lengur trú á tapi í liðinu þá vinnur það leiki sína nánast undantekningarlaust. Að minnsta kosti stundum ef ekki bara alloft.

    Þar af leiðir er mín spá sú að LFC endi leiktíðina í 2. sæti á eftir MCFC. Áðurnefnd rök liggja þessu til grundvallar. Að vísu skil ég þau ekki sjálfur en mér sýnist að það skipti ekki máli. Ég hefi líka tekið eftir því að það skiptir heldur engu máli í hvaða fötum-, nærfötum- eða húfum ég er það breytir engu um gang leiksins. Það hefur mér alltaf þótt mjög skrítið.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  11. Þessi samanburður á 13 leikjum segir ekkert, akkúrat ekkert. Liðin sem við spilum á móti ár eftir ár eru ekki fasti sem er alltaf eins – ef eitthvað mark ætti að taka á þessu þyrfti að nota stuðla á hvert lið, t.d. með því að finna út hvar það var í deildinni á þeim tímapunkti sem leikurinn fór fram eða eitthvað slíkt.

    Og jafnvel þá er þetta langsótt sem tölfræði, vegna þess að flest liðin hafa skipt um stjóra og haug af leikmönnum, sum eru að spila miklu betur í dag en fyrir tveim árum og önnur verr.

  12. Ég segi nú eins og fleiri, hvar er þumalinn??

    Allavega fær Sigkarl tvo þumla frá mér fyrir sínar vangaveltur.

    Einar Matthías fær þrjá fyrir pistilinn.

Sunnudagsmolar

Kop.is Podcast #103