Það er skammt högga á milli í enska boltanum á þessum tíma og eftir ferðalag í hánorðaustur til Sunderland á miðvikudaginn þá er haldið í suðausturátt til höfuðborgarinnar Lundúna til að leika við West Ham lið undir stjórn Slaven Bilic.
Leikurinn fer fram á Boleyn Ground við Upton Park í austurhluta borgarinnar og verður það í síðasta sinn sem okkar menn leika á þeirri grasflöt enda lið Hamranna að flytja sig um set næsta tímabil og mun leika á ólympíuleikvanginum. Býsna margar skemmtilegar rimmur hafa farið fram á milli þessara liða á þessum velli sem býr víst til ansi skemmtilega stemmingu að sögn þeirra sem þangað hafa komið en við höfum líka lent í ákveðnum vanda gegn þessu liði. Skemmst að minnast skells á Anfield í haust upp á 0-3 á okkar heimaflöt. Þann dag tapaði ég endanlega trú á því að okkar fyrrum stjóri ætti nokkurn möguleika á að snúa gengi klúbbsins við, okkur var hreinlega slátrað á allan hátt af baráttuglöðu og ákveðnu West Ham liði.
Gengi West Ham hefur sveiflast. Þeir hófu tímabilið afskaplega vel og voru með efstu liðum fyrstu umferðirnar. Í kringum umferð númer 10 hófu þeir að lenda í töluverðum meiðslavandræðum lykilmanna sem urðu til þess að mikið hökt kom í vélina og þeir unnu ekki leik í sjö umferðir þangað til í þeirri síðustu að þeir lögðu Southampton 2-1 þar sem góðvinur okkar Andy Carroll kom inná og setti sigurmark. Þeir eru nú í hálfleik tímabilsins staddir einu stigi neðan við okkur í 8.sætinu og myndu semsagt taka höfrungahlaup yfir okkur með því að leggja okkur að velli.
Carroll er að koma til baka úr meiðslum (óvænt það) en stóra mál Hamranna verður hvort að Frakkinn Dimitri Payet mun ná leiknum. Sá var að öllum ólöstuðum besti leikmaður liðsins í haust en hefur verið frá í tvo mánuði vegna ökklameiðsla og er liðinu gríðarlega mikilvægur. Besti leikmaður Hamranna á Anfield var svo Manuel Lanzini en hann kom inná í hálfleik gegn Soton eftir sína fráveru og breytti leiknum.
Slaven Bilic stjóri er enda afar spenntur fyrir því að endurheimta þessa menn, stóri vandi West Ham þessar sjö umferðir sem skiluðu fáum stigum var sóknarleikurinn en með endurkomu þessara þriggja sem ég tel hér upp að ofan hefur það gerbreyst. Þeir eiga möguleika á að “mix it up” allverulega, hægt að sveifla langri sleggju á Carroll eða þræða sig með vellinum í fótum Payet og Lanzini.
Sigur West Ham í haust kom í kjölfar góðs varnarleiks og afbragðs skyndisókna og það hefur verið þeirra helsti styrkleiki. Það má alveg reikna með því að Bilic, sem virðist klókur stjóri, muni hafa horft á leik okkar manna gegn Watford og stefni á sama uppleggið. Verjast á mörgum mönnum en beita svo skyndisóknum. Öll föst leikatriði hafa reynst þeim vel, auk Carroll eru bæði Tomkins og Collins öflugir í teignum. Mark Noble góður spyrnumaður og Enner Valencia sömuleiðis. Þetta er klárlega lið sem mun enda í efri helmingi deildarinnar og klúbbur sem ætlar sér margt í framtíðinni, gerðu m.a. öflugar tilraunir til að landa Klopp og Rafa sem stjóra áður en þeir sóttu Bilic. Svo við munum fá alvöru mótspyrnu.
Eftir lengstu hvíldina milli leikja síðast fáum við þá stystu nú. Reikna má með því að menn hafi lent seint á John Lennon aðfaranótt gamlársdags og eftir blaðamannafund Klopp í hádeginu í gær var hann á leið á æfingu þar sem hann var að fara yfir stöðu leikmannahópsins og hefja recoveryferlið sem er fyrst og fremst hans verk þessa dagana. Enda talaði hann að liðið verði að fá sem mest útúr þessu tímabili þar sem svo stutt er á milli leikja.
Það er enn langur meiðslalistinn í okkar herbúðum, í vikunni var staðfest að Origi verður frá í þrjár vikur líklega og mun þá m.a. missa af leiknum gegn United. Hendo fór af velli í Sunderland haltrandi og ekkert hefur heyrst af því hvernig staðan á honum er. Hann er talinn ólíklegur til að hefja leik á morgun allavega. Milner er ekki tilbúinn til að leika þennan leik en Joe Allen var frá vegna veikinda í Sunderland en er líklegur til að vera orðinn heill…þó ekki hafi hann fengið margar mínúturnar að undanförnu.
Markmaðurinn er sjálfvalinn, Mignolet átti fínan leik í Sunderland og fékk mikið hrós á blaðamannafundi Klopp í gær, auk þess sem hann fór sérstaklega yfir störf John Achterberg markmannsþjálfara og sagði hann “ótrúlegasta þjálfara sem hann hefði unnið með, hann væri í vinnunni 25 klukkustundir á sólarhring”. Svo það virðist morgunljóst í mínum huga að Belginn hefur fullt traust stjórans og hann ánægður með vinnuna með markmennina. Hvað sem okkur finnst um það er Mignolet miklu betri en varaskeifan og heldur vonandi upp á það að vera sá markmaður sem hélt markinu oftast hreinu á árinu 2015 með hreinu laki í fyrsta leik nýs árs.
Vörnin er líka sjálfvalin. Sakho slapp að því er virðist við meiðsli í Sunderland og hann og Lovren geta því haldið áfram að byggja upp sitt samstarf í hafsentastöðunum. Flanno er ekki enn orðinn leikhæfur þrátt fyrir að hafa náð 30 mínútum í leik með U21s árs liðinu og því eru Clyne og Moreno að halda áfram sínu maraþoni á þessu tímabili. Þeir hafa verið þrælþéttir að mestu undanfarna leiki og verða það vonandi áfram.
Í síðustu leikjum hefur mér fundist liðið vera að spila 4-4-2 eða 4-4-1-1 sem þeir hafa getað gert sökum þess að Hendo og Can hafa náð mjög vel saman. Því miður held ég að líkleg fjarvera Hendo muni breyta uppstillingunni og við sjáum liðið þétta miðjuna eilítið á kostnað vængspilsins og framherjanna. Can og Lucas klárlega sjálfvaldir inn á miðju en spurningin hvaða manni verður stillt upp fyrir framan þá. Í ljósi síðustu leikja held ég að við sjáum Lallana þar frekar en Allen eða Coutinho. Jordan Ibe hefur verið að koma inná sem varamaður að undanförnu en nú held ég að hann fái sénsinn frá byrjun og það verði Brazzi á hinum kantinum.
Benteke verður áfram uppi á topp en á bekknum verður líklega Daniel nokkur Sturridge. Hann mun vonandi koma inná í þennan leik en ég trúi því ekki að hann fái að byrja leik. Liðið semsagt svona held ég.
Mignolet
Clyne – Lovren – Sakho – Moreno
Lucas – Can
Ibe – Lallana – Coutinho
Benteke
Að þessu öllu sögðu þá er ég á því að við séum á býsna erfiðum stað með þennan leik. Liðið er laskað en á móti er West Ham líka að ná ákveðnum takti í sinn leik. Við munum þurfa að vinna baráttuna þarna áður en við förum að vinna spilið og það má segja að það hafi verið nokkuð jákvætt að sjá okkur vinna Sunderland í þeim slag nú nýverið. Leikurinn mun standa og falla með því að menn uppfæri músarhjörtun í ljónshjörtu, sérstaklega inni á miðsvæðinu í fjarveru Hendo.
Ég geri mér vonir um að sigrarnir að undanförnu hafi gefið liðinu sjálfstraust til að við náum sigri í síðasta leik okkar á Boleyn Ground en að þessu sinni held ég að við sættumst á 1 stig í höfuðborginni. Hvorugt liðið hefur verið að skora mikið að undanförnu, Benteke mun setja okkar mark í 1-1 jafnteflisleik…en ég vona að við stelum sigri í uppbótartíma með marki frá Sakho eftir horn.
KOMA SVOOOOOOOOO!!!!
Er leikurinn sýndur á Spot?
Það getur vel verið að klopp reyni að hressa upp á þetta og breyta eitthvað liðinu en mér lýst ekkert á þetta byrjunarlið. Lucas og Emre can er ótrúlega varnarsinnuð og óspennandi miðja. Síðan finnst mér Ibe alltaf vera lélegur þegar hann byrjar inná í deildinni hann hefur nokkrun sinnum komið sprækur inná en eiginlega alltaf spilað illa þegar hann byrjar þótt það væri auðvitað gaman að sjá það breytast. Síðan finnst mér Firmino oft fá ansi ósanngjarna gagnrýni hann hefur vissulega átt misjafna leiki en hann er hins vegar að skapa miklu fleiri færi en Lallana, Coutinho og Ibe eitthvað sem þessir leikmenn þyrftu að gera meira af.
Vona að ég fái 3 stig í afmælisgjöf ?
Gleðilegt árið og takk fyrir flotta síðu…. ég hef svo sem hent þessu inn hér áður,
En er það frekja í mér ef að penninn sem tekur uphitunina og sá sem hendir inn liðinu setji í byrjun hvaða dag og kl hvað leikurinn er 😉
Kv Kristján R
Kristján #4: Þetta kemur reyndar fram hægra megin á forsíðunni. En leikurinn er á morgun kl. 12:45.
Þessi leikur er bullandi banana hýði…. lýst ekkert á þetta, og þörfin á klassa miðjumanni er orðin að neyð!!!
Gleðilegt ár…
ef við vinnum, þá getum við sagts hafa unnið síðasta leik deildarinnar á árinu 2015 og fyrsta leik deildarinnar árið 2016.
að því sögðu, getum við sagt í nokkar mínutur að við eru eina liðið með fullt hús stiga árið 2016.
hvada helv bull er thetta ? ..http://m.fotbolti.net/fullStory.php?id=199882
Hvenær byrjar leikurinn?
Sæl og blessuð.
Fæ krampakippi í andlitið er ég hugsa um þennan leik. Mikið óttast ég hamrana og tel að okkar laskaði hópur muni eiga fá plön til að mæta fautaskap þeirra í sókn, miðju og vörn. Hræddur er ég um að þarna fari illa og í ,,kaupbæti” við óhagstæð úrslit verði einhverjar sinar slappari og jafnvel slitnar eftir takka þeirra purpurarauðu. Nú er skammt frá síðasta leik og má ætla að lágmarksundirbúningur hafi farið fram fyrir þennan.
Ef ekki verður kraftaverk er ólíklegt að okkar menn gangi brosandi til búningsklefa og við hin trúföstu og dyggu verðum að sama skapi niðurlút.
Það sem gæti breytt sviðsmyndinni er ef nýju laukarnir í liðinu taka skyndilega upp á því að springa út og brosa mót sólu. Svei mér þá, Firmínó þarf ekki að hagræða ristinni mikið til að boltinn nái nú að fara sína leið framhjá ystu saumum í hönskum markvarða. Benedikt er farinn að átta sig á því að munur eru á leikmönnum og áhorfendum í fótboltaleik. Kannske trítlar hinn brothætti Sturridge inn á völlinn og sýnir meðfædda hæfileika. Þá má ekki líta framhjá því að vörnin hefur verið nokkuð traust og ef Lúkas verður inn á og sýnir allar sínar bestu hliðar gæti svo merkilega farið að lakið verði hreint, þriðja deildarleikinn í röð.
Já, það vantar ekki spennuna.
Það væri draumur að fá Sturridge inn í þennan leik.
Sturridge fór ekki með liðinu til London
Hvorki Sturridge né Henderson fóru til London. Miðja með Lucas innanborðs er dauðadæmd, við skorum aldrei í þessum leik. Bind þó vonir við að halda hreinu og ná þannig í eitt stig.
Aðeins meiri baratta og skynsemi i siðustu leikjum gerir mann ögn bjartsynni fyrir þennan leik. Eigum við ekki að spa einhverju ovæntu 1-0 og Benteke með markið.
Lýst ekkert á þennan leik en það er ótrúlega stutt milli leikja og ekki mikið um öfluga varamenn hjá okkur en þó 2-3 kostir í stöðunni. WH hefur við svipað vandamál að stríða hvað meiðsli varðar og hafa verið að hökta undanfarið en geta skotist upp fyrir okkur með sigri. Verður hörku barátta og vonandi sigur. Spái(ósk) 1-2 sigri með Ibe og Lovren sem skora okkar mörk og fullt af spjöldum. #ynwa
Ætli þetta sé að fara að verða algengt vandamál með Hendo þar sem að það tokst ekki að laga hælinn á honum
verðum einfaldlega að vinna þennan leik sérstaklega fyrir sjálfstraustið og sigurhefðina 😉 EN einhverjir twitterar að segja að Lverpool sé búið að hafa samband varðandi Ter Stegen hjá Barcelona… væri draumur maður
Góð greining hjá Magga. Sigur í þessum leik vinnst annað hvort með einhverju algjörlega óvæntu eins og hefur tvisvar, þrisvar gerst í vetur eða með þessum pakka sem hópar sig á bakvið boltann, potar honum fram, og nýtir sér svo styrkinn í því að vera aðeins betri en andstæðingurinn. Liðið okkar nær ekki alltaf að nýta sér þennan herslumun en hver veit nema að það gerist núna.
Ég henti inn kommenti eftir síðasta leik án þess að hafa séð nánast neitt af honum. Það litla sem ég sá var að Lucas náði að stöðva tvo bolta sem virtust ætla að á rata á fætur mótherjanna í góðum færum á krítískum mómentum. Það virðist virka fyrir okkur á móti skapandi liðum að mæta þeim með skapandi miðju en á móti liðum sem enda í sjöunda til fjórtanda sæti eru þessir leikmenn eins og Lucas ennþá mikilvægir fyrir okkur, þangað til að við finnum aðra sem geta gert meira en bara að spila hlutverkið sitt. Skapandi leikmennirnir okkar eiga til að brotna ef þeir lenda í fautaskap. Ljóst er að West Ham á eftir að spila hart á móti okkur. Því eru Can og Lucas sem miðja ekki óskynsamlegur kostur.
Meiðsli og álag hljóta að vera helsta ástæða þess að Klopp náði ekki að mótívera okkar menn á móti Newcastle og Watford en þetta er síðasti hjallinn í bili.
Þreyttir menn á leið upp á fjallið.
Vonandi komast þeir þangað svo þeir og við getum pústað sáttir og glaðir.
Annars óska ég ykkur Koppurum og Kloppurum bara gleðilegs árs.
Við göngum aldrei einir upp á topp.
Takk fyrir goða upphitun. Vinnum þetta 0-1 með marki fra Big Ben. Frumleg og raunsæ spá!
Svo munu mu tapa a móti Gylfa og félögum.
KOMA SVO LIVERPOOL!!!
Daniel: varðandi tímasetningu á leiknum, þá get ég bara séð það þegar ég er í PC tölvunni. Þetta endar alltaf neðst á síðunni þegar ég skoða þetta í símanum (5.3” skjár). Oft er upphitun eingöngu eingöngu með tilvísun í ” á morgun ” og það eigi lega hjálpar ekkert ef svo ólíklega vildi til að maður hefði sleppt að kíkja inn einn daginn og upphitun komið inn mann dag.
En varðandi þennan leik, þá er ég skíthræddur. Ólíklegt að þetta verði fallegur leikur. West Ham er flott lið, og held að Eini sensinn okkar sé að bully þá. Halda hreinu og kreista eitt mark.
Þar sem WH eru aftur ú uppleið upp töfluna og á heimavelli er von til þess að þeir leggi ekki bara rútunni heldur opni sig og sæki. Það gæti hentað Liverpool betur.
Í undanförnum leikjum hefur gengið þokkalega að pressa andstæðingana en verið erfið að komast í gegnum pakkann. Svo hlýtur sjálfstraustið upp við markið að fara að koma með þessum 1-0 sigrum.
EF Isco er ósáttur hjá Real og sé fáanlegur fyrir 25 mills erum við tognaðir á heila ef við reynum ekki að stela honum af City. Frábær leikmaður.
Vinnum sannfærandi.
Hef góða tilfinningu fyrir þessum leik.
Áfram Liverpool!