Við bendum fólki á að árshátíð Liverpoolklúbbsins á Íslandi fer fram laugardaginn 9. apríl næstkomandi á Spot í Kópavogi.
Heiðursgestur að þessu sinni verður enginn annar en Bruce Grobbelaar en hann er einn allra frægasti markvörður í sögu félagsins og mikill karakter, bæði innan og utan vallar.
Hægt er að lesa nánari umfjöllun um kappann á LFC History.
Dagskrá hátíðarinnar:
Húsið opnar kl. 19:00 með fordrykk í boði Ölgerðarinnar.
Borðhald hefst. 19:45 með gómsætum forrétti þar sem veglegt steikarhlaðborð fylgir í kjölfarið sem tryggir að enginn fer svangur heim.
Skemmtiatriði á heimsmælikvarða þar sem heiðursgestirnir Bruce Grobbelaar & Ragnhild Lund Ansnes segja okkur sögur frá Liverpool.
Björn Bragi verður með tryllt uppistand, Jóhanna Guðrún flytur þjóðsönginn okkar ásamt því að Magnús Hafdal og Ívar Daníels keyra stuðið upp fyrir stórdansleik með Sálinni hans Jóns míns.
Þetta verður frábær skemmtun eins og venjulega þegar Rauði herinn gerir sér dagamun. Við hjá Kop.is ætlum að fjölmenna og vonumst til að sjá ykkur sem flest þarna.
Nánari upplýsingar um miðaverð og pantanir má finna á Facebook-síðu viðburðarins. Sjáumst á Spot!
Búin að tryggja mér miða.
Þetta verður mikil skemmtun eins og alltaf. Hlakka til að heyra hvað Grobbelaar hefur að segja um árin hjá Liverpool.
Vonast svo til að sjá sem flesta Kop.is lesendur.
YNWA
Er það bara ég eða fer þessi Sérstaki VIP miði í taugarnar á fleirum?
Er þetta ekki í fullkominni andstöðu við öll gildi stuðningsmanna Liverpool – liðsins frá verkamannaborginni?
Eða er ég bara fúlegg?
Þetta er í fyrsta skipti sem er boðið upp á þennan VIP miða. Persónulega finnst mér í lagi ef einhver vill borga meira fyrir að hitta kappann aðeins meira en aðrir.
Þetta er svipað og á Anfield þar sem hægt er að kaupa kvöldstund með fyrrum leikmönnum sbr. þessa sem nú er verið að bjóða upp á með Gary McCallister http://events.liverpoolfc.com/events-at-anfield
BG hefur alltaf verið minn uppáhalds leikmaður frá því den en finnst þó nóg að fá mér venjulegan miða á árshátíðina og berja kappann augum og eyrum þannig.
Er ekki annars alltaf gott að eiga val?
Þetta verður mikið stuð, það er alveg ljóst. Og rúsínan í pylsuendanum, ball með Sálinni.
Við ætlum allavega 5 að hittast sem héngum mikið saman á kop.is helginni í Liverpool í janúar (+ nokkrir fleiri). Það verður mjög gaman að hitta fleiri úr þeirri ferð og ekki síst ritstjórana okkar.
Gestur kvöldsins er algjör snilld svo ekki sé meira sagt. Ég segi eins og Styrmir, hann var mjög mikið uppáhalds á sínum tíma og líklega ein stærsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að setja á mig markmannshanska og djöflast í möl og drullu megnið af minni hunds- og kattartíð.
Ekki síst hefur hann lýst yfir mjög svo sterkum skoðunum sem bragð er af og væntanlega mun hann ekki halda þeim fyrir sig þetta kvöld.
Sæll lebbins (#2).
Þetta er eitthvað sem við ákváðum á prófa. Nafnið VIP er kannski ekki það besta en er það sem það er.
Annars svarar Styrmir hér að ofan þessu vel. Það geta allir stuðningsmenn keypt þetta (þar til hámarki er náð) en þannig setjum við alla aðila við sama borð.
Við sjáum svo til hvernig þessi tilraun gefst hvort þetta sé eitthvað sem við gerum aftur.
Vonumst til að sjá sem flesta enda stefnir í magnað kvöld framundan! 🙂
YNWA
Ívar ég vænti þess að við skálum saman einum fjólubleikum kokteil með United manninum 🙂
Nr.2
Varðandi VIP miða þá finnst mér persónulega alltaf hálf glatað að setja út á viðburð sem þennan og það hvernig þetta er sett upp. Klúbburinn hefur í mörg ár lagt gríðarlega vinnu í ótrúlega flotta árshátíð (sem og aðrar samkomur) og er meira en í fullum rétti að bjóða upp á dagskrá aukalega, VIP eða hvaða nafni sem því er gefið. Sérstaklega ef það hjálpar til við að brúa kostnað við svona samkomu. Þetta er ekki beint gefins og það er ekki eins og stjórnarmenn klúbbsins séu í launaðri vinnu. Hrósum þeim frekar fyrir að halda þessu úti eins frábærlega og þeir gera. Sjáið t.a.m. hvernig þetta er hjá öðrum stuðningsmannaklúbbum hér á landi.
Þarna sýnist mér klúbburinn vera að prufa aðra leið en þeir hafa áður gert, það er ekkert sjálfgefið að ræðumenn á svona samkomum gefi eitthvað meira af sér en það sem er í auglýstri dagskrá (þó þeir geri það nánast alltaf á þessum árshátíðum ef ég þekki þetta rétt). Með þessu er verið að auka aðgengi að BG í klukkutíma fyrir þá sem vilja. Gæti trúað að þessi hugmynd hafi komið upp eftir að Robbie Fowler árshátíðin fór nánast úr böndunum vegna aðsóknar í aumingja manninn.
En eins og ég segi þetta er mín persónulega skoðun, ég tengist klúbbnum ekki neitt nema flestir stjórnarmanna eru kunningjar og vinir mínir.
Varðandi gildi klúbbsins þá er félagið sjálft þá ekkert að setja betra fordæmi eins og Styrmir bendir á.
Uppfært: Var ekki búinn að sjá póst frá Inga Birni sem svarar f.h. stjórnar.
Mun herra Grobbelaar gefa færi á eiginhandaráritunum áður en að þessu kemur? Eða eftir?
#7 Það verður auglýst um helgina hvar hann verður með áritun. En eins og alltaf kemur hann til með að vera áritanir á Laugardeginum og um kvöldið verður ljósmyndari á staðnum og tekur myndir af mönnum með goðinu sem verða svo settar á Facebook síðuna okkar þar sem menn geta taggað sig inn að vild 🙂
Kveðja
Varaformaðurinn
Já Einar, Bjarni mun eflaust koma með sólhlífaklædda bleika kokteila handa okkur, þeir verða örugglega ekki af lakara taginu 🙂