Góð byrjun, mikið svigrúm fyrir bætingu

Liverpool er í 4. sæti með 16 stig í deildinni nú þegar við höldum inn í annað landsleikjahlé tímabilsins. Á sömu tímamótum fyrir ári síðan voru okkar menn í 9.sæti með 11 stig. Þessi tímamót hafa auðvitað ekkert að segja um framhaldið enda var Man Utd efst með 16 stig í fyrra og Leicester stigi fyrir ofan Liverpool í 8.sæti (kannski er helst hægt að taka út úr þessu að LVG var með 16 stig á meðan Einstein er með 13 stig á sömu tímamótum).

Miðað við sömu eða sambærilega leiki á síðasta tímabili er Liverpool fjórum stigum betur sett núna heldur en á síðasta ári. Þetta eru nokkuð góður árangur enda náðum við þá rétt eins og nú í úrslit á Emirates, White Hart Lane, Samford Bridge og á heimavelli gegn Leicester. Sigur á Arsenal á móti jafntefli þar í fyrra gerir þetta að bætingu um tvö stig.

Sigur á Hull er sambærilegur við jafntefli gegn Norwich í fyrra (liðin sem komu upp í gegnum úrslitakeppni Championship deildarinnar árið áður) og þar með er þetta orðin fjögurra stiga bæting. Sigur á Swansea úti sambanborið við tap í fyrra núllast út með tapinu gegn Burnley, sá leikur er eini mínusinn miðað við síðasta ár enn sem komið er.

Þetta gefur auðvitað ekkert en það eru ansi margir leikir eftir í vetur sem bjóða upp á mikið svigrúm til bætinga miðað við síðasta tímabil. Haldi liðið áfram að bæta sig um 4 stig í hverjum sjö umferðum styttist hratt í þau sæti sem við viljum sjá Liverpool keppa um. Ef við skoðum næstu sjö leiki þá gáfu sambærilegir leikir á síðasta tímabili þrjá sigra, tvö jafntefli og tvö töp. 11 stig af 21 mögulegu eða 1,6 stig úr hverjum leik.

Enginn af þessum sjö leikjum á síðasta tímabili innihélt meira en 4 daga hvíld. Svona skiptist hvíld milli þessara umferða 4 – 3 – 4 – 3 – 3 – 4 – 3. Samtals 24 dagar í hvíld fyrir þessa sjö leiki. Hafa ber í huga að þessir leikir komu auðvitað ekki í sömu röð og þeir gera núna.

Núna er hvíld fyrir þessa leiki svona 15 – 5 – 4 – 7 – 13 – 6 – 7. Samtals 57 dagar. Tvö landsleikjahlé skekkja auðvitað aðeins myndina en þarna er aðeins einu sinni fjórir dagar í hvíld. Þetta kannski gefur okkur aðeins aðra sýn á síðasta tímabil og vonandi skýrir eitthvað óstöðugleika liðsins sem og meiðslalista.

Það hefur aldrei gefist okkur vel að skoða leikjaplanið fram í tímann en með því að skoða þetta svona er ég aðeins að horfa í að eins og liðið er að spila núna og sökum miklu heilsusamlegra leikjaálags er allt til staðar fyrir okkar menn að bæta stigasöfnun úr þessum viðureignum töluvert. Man Utd er næst og þar er alltaf 50/50 leikur, sama hvar er spilað og hvernig þessum liðum gengur. Þar er sigrúm til að bæta stigaskorið. West Brom leikurinn í fyrra var þremur dögum eftir síðasta leikinn í riðlakeppni Europa League (Sion), þar er líka svigrúm fyrir bætingu.

Liverpool vann Palace úti og Watford heima í fyrra. Fyrir leikinn gegn Southamton er landsleikjahlé núna en á síðasta tímabili var spilað seinni leikinn við United í Europa League áður en við mættum þeim svo á sunnudeginum eftir. Þeir eiga heldur ekki Sadio Mané núna til að koma til baka frá því að vera tveimur mörkum undir og vinna, við eigum hann. Fyrir heimaleikinn gegn Sunderland í fyrra var Liverpool búið að spila í deildarbikar, FA Cup og deildinni á einni viku. Liverpool tapaði einnig niður 2-0 forystu í þeim leik undir loks leiksins.

Það er enginn að segja að þetta verði endilega nákvæmlega eins á þessu tímabili en á síðasta ári tapaði Liverpool þar niður tveimur “unnum” leikjum sem er klárlega hægt að skrifa á leikjaálag.

Síðasti leikurinn í þessum samanburði milli tímabila er svo gegn Bournemouth úti en Liverpool vann sterkan sigur þar undir lok síðasta tímabils.

Flest af þessum liðum sem Liverpool mætir í næstu umferðum voru ekki að glíma við nálægt því eins harkalegt leikjaálag á síðasta tímabili fyrir þessa leiki, þessi lið eru vanalega ekki að spila marga leiki aukalega fyrir utan auðvitað Man Utd. Núna er staðan t.a.m. þannig að bæði United og Southamton eru á fullu í Europa league öfugt við okkar menn. Báðir leikirnir koma reyndar í kjölfar landsleikjahelga en Einstein stjóri United er nú þegar (réttilega) byrjaður að væla undan leikjaálagi fyrir leikinn gegn Liverpool.

Enn og aftur ítreka ég að þetta er hættulegur samanburður fyrirfram og gefur ekkert. En andskotinn hafi það ef maður hefur ekki aðeins meiri trú á úthvíldu liði undir stjórn Jurgen Klopp, hvað þá gegn þreyttum mótherja í einhverjum tilvikum. Ef niðurstaðan verður aðeins 11 stig úr næstu sjö umferðum verða það töluverð vonbrigði, orðum það þannig. Ekki það að okkar menn eru fullfærir um að vinna alla þessa leiki alveg eins og þeir væru vísir til að vinna ekki einn þeirra.

Það er ljóst að öll stóru liðin hafa byrjað mótið nokkuð vel, þau lið sem maður hefði spáð í topp sjö eru öll í topp sjö nú þegar og aðeins fimm stig skilja að efsta sæti og það sjöunda

topp-7

M.ö.o. þetta gæti ekkert verið meira galopið. Tækifæri Liverpool núna liggur í því sem var veikleiki í fyrra, leikjaálagi plús leikjadagskrá. Næsti leikur er auðvitað risaslagur en eftir það er ekki neinn leikur gegn þessum topp 7 pakka fyrr en rétt fyrir jól er við mætum Everton. Man City er ekki fyrr en á gamlársdag sem svona næsti “risa”slagur.

Á milli þessara leikja gegn Manchester liðunum verða City, Arsenal og Tottenham öll í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og United í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Vonandi bítur þetta einhversstaðar á þessi lið, United, City og Arsenal voru t.a.m. alls ekki sannfærandi um helgina sem var einmitt leikin í kjölfar umferða í riðlakeppnum Evrópu. Southamton og Leicester töpuðu einnig stigum um helgina. Auðvitað tapa þessi lið ekki alltaf eftir Evópuleiki, ekki frekar en Liverpool í fyrra en þetta telur oftast eitthvað yfir lengra tímabil.

Baráttan virðist ætla að verða gríðarlega hörð í vetur og hvert stig skiptir máli. Liverpool er ekkert eina stóra liðið sem hefur þetta forskot í vetur. Chelsea og Everton eru í sömu stöðu og horfa líklega með svipuðum hætti á þetta. Bæði lið rétt eins og United og City eru með nýja stjóra sem mega vera helvíti öflugir ef þeir lenda aldrei á veggjum meðan verið er að slípa saman liðin.

Þegar leikjadagskráin kom út var erfitt að finna erfiðari byrjun á tímabilinu hjá nokkru liði en þá sem Liverpool fékk. Liverpool fór í gegnum þessa byrjun með því að bæta sig um fimm stig ef við berum saman fyrstu sjö leikina í fyrra vs fyrstu sjö núna. Þetta er bæting um fjögur stig ef borið er saman sambærilega leiki milli tímabili. Það er rosalega jákvætt.

Þetta er ennþá flottara í ljósi þess að fimm af fyrstu sjö leikjunum í deildinni voru á útivelli og ofan á það tveir bikarleikir. Liverpool er bara búið að spila tvo leiki á heimavelli, annar þeirra var gegn meisturunum þar sem þeir voru ljónheppnir að sleppa með aðeins 4-1 tap. Hinn var gegn Hull sem voru án gríns dauðfegnir að sleppa með 5-1 tap.

Árið 2013/14 vann Liverpool 16 af 19 heimaleikjum og gerði eitt jafntefli. Stemmingin var svakaleg þegar leið á tímabilið og þegar hún er þannig sækja ekki mörg lið stig á Anfield. Fótboltinn núna er ekki langt frá því sem við sáum þá og jafnvel betri. Ef Klopp tekst að gera Anfield aftur af því virki sem hann var 2013/14 er allt opið.

Síðasta vetur vann Liverpool aðeins 8 leiki og gerði 8 jafntefli á Anfield sem er fáránlega lélegt og gefur gríðarlegt svigrúm til bætingar. Liðið fékk fjórum stigum meira á útivöllum í fyrra heldur en heimavelli sem er afleitt.

Samanburður við síðasta tímabil er auðvitað alltaf aðeins skakkur, leiðin getur eiginlega bara legið upp á við enda 8.sæti einhver versti árangur Liverpool í deildinni í rúmlega hálfa öld. Fyrir mér er algjörlega ótímabært að velta titilbaráttu fyrir sér strax. Maður útilokar ekkert en fyrir tímabil var Meistaradeildarsæti það lengsta sem maður þorði að vonast eftir. Það er svakalegt að fara úr 8.sæti í það efsta í einu stökki og líklega frekar óraunhæft. Höfum samt alveg í huga að Man City sem allir eru nánast búnir að bóka sem meistara fengu aðeins sex stigum meira en Liverpool í fyrra. Þetta er því ekkert kraftaverka stökk sem er verið að fara fram á.

Fjögurra stiga bæting í sjö leikjum (m.v. sömu leiki í fyrra) hljómar kannski ekki mikið en takist Liverpool að halda sér á slíku róli út tímabilið er þetta fljótt að safnast saman. Sama bæting út tímabilið gæfi 22 stig. Það ofan á þau 60 sem Liverpool endaði með í fyrra gæfi 82 stig. Leicester vann deildina á 81 stigi.

Helmingi minni bæting myndi gefa 11 stig aukalega m.v. síðasta tímabil, 71 stig var að duga í 2.sæti í fyrra. Þetta vonandi gefur einhverja hugmynd um það hversu mikilvægt hvert stig er.

Líklega er best að horfa ekki mikið lengra fram í tímann heldur en á næsta leik, Klopp er klárlega að vinna þetta þannig. Stuðningsmönnum leyfist engu að síður alveg að skoða stöðuna af og til og m.v. það sem ég hef tekið saman hér finnst mér ekkert að því að Liverpool menn fari á jákvæðu nótunum inn í þetta landsleikjahlé.

Við lærðum helling um okkar menn í þessum fyrstu sjö umferðum og gerum það klárlega einnig í næstu sjö umferðum.

10 Comments

  1. Það er gaman að lesa þessa frábæru pistla frá þér Einar. Takk fyrir.

  2. Flottur pistil Einar.

    Ég held að það sem er að gerast er að við höfum verið Kloppaðir 🙂

    Hann kom inn og sagðist ekki gera kraftaverk og að hann bað stuðningsmenn einfaldlega að hafa trú á liðinu. Hann talaði um að þetta tæki tíma en að liðið myndi hægt og rólega bæta sig og viti menn það er að gerast.

    Það er virkilega gaman að vera Liverpool maður þessa dagana, liðið spilar flottan fótbolta sem auðvelt er að hrífast með og úrslitin koma með sem okkur finnst ekki verra. Ég hef fulla trú á strákunum og Klopp . Ég held að þetta verður samt engin dans á rósum og að við munum við enþá gera misstök í leikjum og tapa stigum gegnum liðum sem við ættum að vinna(maður á kannski ekki að gera neitt en fyrirfram slakari andstæðingur) þá munum við halda áfram að vinna flottan sigra gegn stórum liðum(og Man utd) og taka suma minni spámenn í nefið með markaveislu.

    Spennið bara beltin og njótið veislunar. Liverpool er að fara í rétta átt og það á fleygi ferð undir stjórn Klopp.

  3. Sælir félagar

    Takk fyrir mjög góðan og skemmtilegan pistil Einar M. Svona skrif stytta manni stundir milli leikja og gera því lífið bærilegra,

    Það er nú þannig

    YNWA

  4. Flott innlegg í landsleikjahlé, takk Einar. Hef alltaf gaman af tölfræði og tölulegum staðreyndum. Næsti leikur alltaf mikilvægastur en vonandi helst þessi stigabæting út tímabilið og við verðum klárlega í einu af efstu 3 sætunum. Annars hef ég mestar áhyuggjur af vörn Tottneham og svo okkar vörn, Tottenham búnir að fá á sig 3 mörk í deildinni en við 10 mörk. EF við bætum vörnina samfara þessum sóknarleik og pressu þá er bein leið upp á við. YNWA

  5. Snilldar pistill. Ég elska svona pælingar þar sem maður reiknar það út að við séum mjög sennilega að fara að vinna deildina. Ég er klárlega fylgjandi svona hugsanagangi.

  6. Haha já það var klárlega niðurstaðan hjá mér.

    Ætla samt til að byrja með að vonast eftir 4-5 stiga bætingu í næstu sjö leikjum m.v. sömu leiki í fyrra.

  7. Sæl og blessuð.

    Tek undir það að þessi pistill er afbragð. Merkilegt hvað vörnin og markvarslan ætlar að verða langvinnur hausverkur. Jafnvel á hinum fræga vetri 13-14 héngu menn með hreint lak nokkra leiki meðan nafni var í sínu fyrra tannbanni. Núna hefur ekki tekist að halda hreinu og það nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Fróðlegt líka eins og höf. bendir á að Svanvetningar hafi verið búnir með orkuna í seinni hálfleik. Það var einmitt lóðið. Við einblínum gjarnan á frammistöðu okkar manna en hafa verður í huga t.a.m. þegar munur er á gengi liðs milli hálfleikja, hvort anstæðingurinn er á sama tíma að hlaupa úr sér lifur og lungu.

    Held einmitt að sá þáttur eigi eftir að einkenna veturinn. Við fáum lengri breik á milli leikja, eins og hér kemur skýrt fram, og erfiðustu féndurnir verða svo að segja nýkomnir úr fríhöfninni þegar þeir mæta okkur. Hvar man ekki eftir 5-1 kjöldrættinum á móti Arsenal á téðu ári. Þeir voru svo lúnir að m.a.s. þjálfarinn þeirra hné niður.

    En, meira svona. Þessi síða er klárlega sú besta.

  8. það eru einungis 4 stig frá 7.sæti í annað sætið það er allt galopið eins og er og það er lang skemmtilegast þannig.

  9. Ég er sammála því að það er sko gaman að vera poolari í dag.

    Svo verð ég að segja eitt.. ég hef nú aldrei verið þessi “stjörnudýrkandi” og myndi ég lítið kippa mér upp við að hitta einhverja hollywood stjörnu á gangi… en Klopp.. Ég dýrka þann mann og finnst hann bæði skemmtilegur, klár, “eðlilega weird”, fullur af persónutöfrum og svo er hann líka góður knattspyrnstjóri 😉 Þvílik heppni fyrir klúbbinn að fá þann mann og bara gott fyrir okkur að nú sé stjórinn okkar sannarlega aðalmaðurinn.

    Ef ég met stöðuna á liðunum hingað til þá myndi ég segja að Tottenham sé það lið sem vinni deildina. City eru miklu sterkari á pappír en á velli og sást það berlega á móti Tottenham og í seinni á móti United. City eiga eftir að ströggla á móti liðum sem pressa þá og Liverpool á eftir að vinna báða leikina í deildina á móti þeim.

    Ég spá því að Tottenham og liverpool berjist um titillinn og við lendum í öðru sæti, arsenal í 3j og city í 4ja.
    Þessi spá er miðuð við mína tilfinningu eftir fyrsti 7 umferðirnar, hvernig liðin eru að spila og úrslit að falla, en auðvitað er erfitt að halda liverpool bjartsýninni niðri…

    Besti maður okkur í dag er Firmhino, bara ótrúlegt hvað mér finnst hann gera mikið fyrir liðið, maður sá þetta stundum í fyrra, en núna er hann alltaf góður, bæði í vörn og sókn , opnar mikið með hlaupum og það hlýtur að vera martröð á spila á móti honum… hann er settur sem striker á leikskýrslu en er útum allan völl.

    Svo hafa bara flestir leikmenn stigið upp samhliða veru Klopp hjá klúbbnum og er fljótlegra að taka út þá sem hafa ekki bætt sig en að nefna alla hina (Moreno)

    Framtíðin er björt , góð kaup í sumar og greinilega gott 1 on 1 spjall við Millner sem breytti honum í besta vinstri bakvörð deildarinnar.

  10. #9 Ég er ekki viss um að það sé rétt að Moreno hafi ekki bætt sig hjá Klopp. Klopparinn sagði í viðtali fyrir skemmstu að Moreno væri einn af bestu leikmönnunum á æfingum þá stundina.
    En þar sem Milner er að standa sig vel og rúmlega það í vinstri bakverði þá er engin þörf á því að nota Moreno, a.m.k. ekki í deildarleikjum. Annars þætti mér forvitnilegt að sjá Moreno á kantinum, en við eigum bara svo góða menn þar líka þannig að þar er heldur ekki pláss fyrir hann.

Swansea 1-2 Liverpool (Skýrsla)

Kop.is Podcast #124