Í upphafi svona mánudags skulum við fyrst af öllu skoða stöðutöfluna í einu keppninni sem skiptir máli (eða, þið vitið, þeirri einu sem Liverpool er enn þátttakandi í fram á vorið):
Þessi sigur um helgina var einfaldlega það stór að í stað þess að sitja í 6. sæti og með öll liðin fyrir ofan okkur eru okkar menn í 4. sæti og eiga enn eftir að fá Arsenal í heimsókn (og heimsækja City). Það sem er samt í raun áhugaverðast við töfluna er formið á Liverpool. Loksins kom eitt grænt ‘W’ á þá töflu í deildinni, en liðið hafði í alvöru ekki unnið deildarleik síðan gegn City á gamlárs.
Þetta er galopin tafla. Liverpool getur lent í 2. sæti í vor, Liverpool getur líka lent í 6. sæti. Game on.
Af leikmannamálum er lítið að frétta. Eftir tíðindalausan janúarmánuð hafa helst verið fréttir af því að leikmenn eins og Adam Lallana og Dejan Lovren séu við það að fá nýja samninga. Sennilega sýnir það okkur að Jürgen Klopp sé að meta hópinn sinn, verðlauna þá sem hann vill halda í lykilhlutverkum og sía hina í burtu. Ég sé t.d. Alberto Moreno, Daniel Sturridge eða Kevin Stewart ekki eiga mikla framtíð þegar þeir eru varla að fá mínútu með liðinu undanfarið og það er ekkert eftir nema deildin fram á vorið. Ég yrði hissa ef við sjáum Sturridge nokkurn tímann byrja leik aftur hjá Liverpool, satt best að segja.
Jordan Henderson fyrirliði vann vinnuna sína fyrir viku og kallaði leikmennina saman á Melwood í smá naflaskoðun. Það virðist hafa breytt miklu meðal leikmanna, ef eitthvað er að marka frammistöður þeirra allra gegn Tottenham þar sem mér fannst eiginlega ekki einn einasti leikmaður í byrjunarliði vera að spila undir 8 í einkunn.
Annars eru í dag tvær vikur í næsta leik gegn Leicester og eins og við mátti búast ætlar Klopp að nýta tímann til að hressa enn betur upp á móralinn. Liðið heldur í dag til La Manga á Spáni í fjórar nætur þannig að þið megið búast við Instagram-myndum frá Alberto Moreno úr sundlauginni og svona. Vonandi hristir þetta mannskapinn enn betur saman, eftir að Tottenham-sigurinn gaf tóninn. Það væri gaman að sjá haust-Liverpool verða að vor-Liverpool líka, svo að við getum gleymt vetrar-Liverpool sem fyrst.
Aðeins að lokum um eigendurna. Mikið hefur mætt á FSG frá lokun janúargluggans, og þökk sé genginu frá áramótum hefur sú umræða orðið háværari að þeir séu slæmir fyrir félagið og svo framvegis. Mér finnst vert að minna á hvernig þeir reka félagið í dag og að það er að mínu mati varla hægt að gera það betur. Þetta eru skynsamir eigendur sem eru að ná því mesta út úr félaginu, bæði fyrir okkur og fyrir sig.
Í haust skrifaði ég pistil í fyrsta landsleikjahléi þar sem ég talaði um raunhæfar væntingar, sagði að við ættum að njóta þess að horfa á gott lið sem væri sennilega ekki nógu sterkt til að fara alla leið og vinna titilinn. Ég fékk bágt fyrir að lesa stöðuna svona í haust, meira að segja frá nokkrum pennum Kop.is á samfélagsmiðlum, en það sem ég sagði þar hefur nánast allt gengið eftir. Liverpool er stórskemmtilegt lið í baráttu um Meistaradeildarsæti, en ekki nógu gott til að vinna titilinn.
Allavega, í ummælum fyrir þann pistil setti ég svo inn myndband sem mér fannst lýsa vel hvernig FSG hafa unnið fyrir félagið frá innkomu og mig langar að deila því aftur hér:
Hitt er svo önnur umræða að þótt ég sé á því að FSG hafi unnið hlutina skynsamlega og eins vel og hægt er innan þess ramma sem LFC býður upp á held ég að við getum nánast sagt að þeir séu að sanna að þú einfaldlega nærð ekki árangri í ensku Úrvalsdeildinni án þess að eignast sykurpabba eða tvo. Eitt Meistaradeildarsæti, vonandi tvö, og einn titill úr fjórum úrslitaleikjum, á sjö árum er ekki ásættanlegur árangur fyrir Liverpool en ég held í alvöru að FSG geri ekkert mikið betur án þess að selja félagið áfram til eigenda sem eru reiðubúnir að loka Excel-skjölunum og finna leiðir til að geta sturtað peningum í leikmannakaup. Að öðrum kosti sé ég lítið annað í stöðunni en að við höldum í raunsæjar væntingar. Ef Klopp nær Meistaradeildarsæti með liðið í vor getum við verið sátt við árangur vetrarins.
Þetta er opinn þráður, orðið er laust í ummælum.
YNWA
Óskar Ófeigur er með athyglisverða samantekt á gengi Liverpool gegn 10 efstu og 10 neðstu í deildinni í vetur: http://www.visir.is/liverpool-med-fleiri-stig-a-moti-godu-lidinum-en-sloku-lidunum/article/2017170219637
Þetta er náttúrulega fáránlegt dæmi. Rannsóknarefni að liðið skuli ekki halda dampi gegn lakari liðunum.
Fréttirnar af þessum fundi sem Henderson hélt hafa algjörlega geirneglt hann sem fyrirliða. Álitið á honum hefur farið stigvaxandi fram að þessu. Hann er a.m.k. að leiða með góðu fordæmi bæði innan vallar og utan.
Takk annars fyrir pistilinn Kristján Atli. Held að þetta sé bara spot on. Raunhæft getum við best vonast eftir 2. sætinu, gæti allt eins orðið það 6.
Sælir félagar
Takk fyrir þetta KAR. Það er alltaf gaman að lesa pælingar um liðið okkar og svo podkast annað kvöld. Það verður að vísu heldur dauft um næstu helgi að fá ekki leik en Liverpool rásin sendir út leiki með yngri liðunum og það má skemmta sér við það.
Það er nú þannig
YNWA
Stend nú líka við allt sem ég sagði í svari við pistli þínum frá því í vor.
http://www.kop.is/2016/09/01/vaentingar-i-sumar-og-i-vetur/#comment-229306
Það voru ekki margir Liverpool menn svo ég viti að tala um titilbaráttu í sumar. Liðið væri reyndar í titilbaráttu á nokkuð eðlilegu tímabili en Chelsea er á skriði upp á 91 stig núna sem mjög erfitt viðureignar í öllum titilbaráttum. Stigasöfnun núna væri á pari við bullandi titilbaráttu í fyrra.
Við töluðum um að treysta á Klopp þegar kemur að leikmannakaupum, hópurinn er alls ekkert fullkominn en Klopp hefur fengið einn sumarglugga enn sem komið er. Inn komu þrír menn sem eru í dag meðal bestu manna liðsins í sínum stöðu og vonandi bætist einn við til viðbótar með meiri tíma enda ungir leikmenn. Mané er sá leikmaður Liverpool sem er hvað líklegastur til að verða flokkaður sem stórstjarna, okkar bestu kaup síðan Suarez kom. Matip virðist vera besti miðvörður Liverpool síðan Hyypia hætti og Wijnaldum er lykilmaður nú þegar. Þetta er meira en við höfum séð mjög oft. Á móti fór enginn í sumar sem talað er um að liðið sakni.
Sóknarlínan er frábær eins og komið var inná í haust og liðið er það markahæsta í deildinni ásamt Arsenal. Miðjan er ennþá borthætt en hún er sterkari en hún var í fyrra, klárlega. Vörnin er svo sterkari þegar okkar bestu menn spila. Matip er miklu meiri styrking en pistillinn í haust þorði að vona.
M.ö.o. gagnrýnin var ekkert á það að spá því að þessi hópur gæti alveg barist um Meistaradeildarsæti, það voru nánast allir að horfa þannig á lið Liverpool fyrir mót. Hinsvegar var helst til of svartsýnn tónn í færslunni eftir þrjá leiki sem gáfu bara 4 stig.
Það var gaman að sjá liðið á laugardaginn, en þegar sóknir okkar buldu á marki Tottenham hugsaði ég: “Hvar væri liðið ef við hefðum Hugo Loris í markinu!”
En vonandi taka þeir góða skorpu núna fram á vor og ná meistaradeildarsæti.
Þá er von á bætingum í sumar.
Flottur pistill og þarft að tala um þetta opinskátt.
Ég held hinsvegar að peningarnir séu til staðar en þeir leikmenn sem Klopp vill eru/voru ekki falir á þeim tíma. Maður verður að trúa því, þó svo að það sé verið að taka til í liðinu og þetta tengist allt vissu rekstrarformi, að vilji eigenda sé til staðar og að peningurinn sé það líka.
Ég er eiginlega alveg handviss um að Klopp fór ekki af stað í þennan janúarglugga með það í huga að kaupa bara til þess að kaupa. Hvern átti hann að kaupa í þessum tiltekna glugga? Þetta er kannski ekki sangjörn spurning en ég held að þeir leikmenn sem hann vill fá hafa ekki verið til sölu fram að þessu.
Ég er persónulega sáttur með FSG og finnst þetta form hjá þeim gott og gilt en mig langar líka að sjá að þessir strákar sem eru keyptir sem eiga að skila pening seinna meir geri það þá. Til dæmis Lazar Markovic….leikmaður sem margir voru gríðarlega spenntir fyrir (ég var það allavega) lendir í erfiðum meiðslum, fær fáa sénsa þegar að hann er orðinn heill og er svo lánaður út um allt. Það eina jákvæða þar er að hann er núna í EPL á láni og maður fær að sjá eitthvað af honum. Annar er Danny Ings….gríðarlega óheppinn með meiðsli en annars alveg pottþétt leikmaður sem væri í eða við okkar byrjunarlið.
En mig langar aftur að árétta það sem ég sagði hér í leikskýrslunni eftir Hull leikinn (sælla minninga).
Við hefðum alltaf, ALLTAF, tekið þessa stöðu ef það hefði einhver sagt við okkur í Ágúst að við værum á þessum stað á þessum tímapunkti. Sá sem hefði ekki gert það, endilega láttu heyra í þér því að þetta er staða sem við vildum klárlega vera í. Er þetta framar björtustu vonum? Það getur vel verið miðað við þau lið sem við erum að spila við en ég persónulega bjóst við okkur á þessum stað vegna þess að það er engin Evrópa að “trufla” okkur og leikjaálagið er ekki mikið (átti ekki að vera mikið).
Ég er sáttur í alla staði. Kannski er maður ennþá á bleika skýinu sem maður hoppaði á eftir Spurs leikinn en mér finnst þessi staða alveg ásættanleg.
Hinsvegar gætum við auðvitað verið ofar miðað við þá leiki sem við höfum spilað, neita því ekki. Erfitt að missa Mané (Afríkukeppni), Matip (meiðsli og bull!), Coutinho (meiðsli), Henderson (meiðsli – 2 leikir) og Clyne (meiðsli – 2 leikir) á meðan að baráttan var alveg á fullu en skítur skeður.
Ég ætla mér allavega að líða vel og það mætti kannski bara halda að ég væri afkvæmi Bjarts í Sumarhúsum og Pollíönnu, hver veit!
YNWA – In Klopp we trust!
Það er svo fyndið að halda með þessu liði. Þegar vel gengur er maður í bjartsýniskasti alla daga og liðið er besta lið í heimi, en um leið og það kemur bakslag verður allt vonlaust og maður spáir í alvöru í að hætta bara alveg að horfa á fótbolta. Lofa að vera stilltur núna og ekki láta glepjast þótt það fari að ganga vel aftur… (je, ræt…!)
Menn eru svo blindir. Einn góður leikur og allt er orðið gott.
Vandi Liverpool er FSG. Punktur
Draxler var að brillera gegn Barca áðan – eigendur okkar tíma ekki 175 þús pund á viku í svona mann og það í janúar þegar okkur vantaði hjálp. Það er munurinn á okkur og þeim “storu” sem hafa verið að einoka titlana á Englandi síðustu árin , City, United og Chelsea. Þessi lið hika hvergi.
Því miður er það staðreynd að FSG er vandi félagsins. Vonandi eru einhverjir þarna úti sem vilja kaupa félagið til þess að koma því á þann stall sem stuðningsmenn vilja.
Fróðlegt þetta sem þú bendir á Kristján. Lakastur árangur gegn mu af þessum efstu. Er samantekt til á þessu síðustu árin.? Mér finnst einhvernveginn þetta hafa verið vandamál, ef kalla má það vandamál að vinna frekar sterku liðin, sl áratug.
Sturrigde sendur heim frá La Manga. Vírus segja þeir.
Er þetta tilviljun?
Kall greyið er einhvern veginn alltaf eitthvað utangátta og missir af þessum mikilvæga samhristingi liðsins.
Ég held að hann verði fljótt seldur eftir tímabilið.
Vonandi að einhver ferskur liðsmaður og náttúru skorara talent detti inn í staðinn.
YNWA