Leicester 3 – Liverpool 1 (leikskýrsla)

1-0 Vardy á 28.mínútu
2-0 Drinkwater á 39.mínútu
3-0 Vardy á 60.mínútu
3-1 Coutinho á 67.mínútu

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Það er einn sem ekki þarf að skammast sín fyrir frammistöðu kvöldsins, Simon Mignolet bar af í arfalélegu Liverpool-liði, hefðum tapað mun stærra ef hann hefði ekki haldið okkur á floti.

VONDUR DAGUR

Allir útileikmenn sem tóku þátt í þessum leik, þeir tíu sem hófu hann og þeir tveir sem komu inná þegar eitthvað var eftir. Coutinho gat eitthvað í 5 mínútur en frammistaða annarra var sjokkerandi vond. Can sýndi endanlega að hann ræður ekki við að spila á miðju, Lucas vinur minn á aldrei að fá að spila hafsent aftur og Firmino svaraði pistil Óla Hauks. Við vinnum í dag ekki leiki með hann sem framherja – hvað þá mót. Hrein ömurð.

UMRÆÐA EFTIR LEIK

  • Hversu mikill óstöðugleiki er mögulegur í einu knattspyrnuliði. Liverpool FC er að svara því. Í toppsætum 1.janúar með öllu að keppa. Tveimur almanaksmánuðum síðar höfum við náð okkur í 6 stig í 7 leikjum í deild. Það er árangur liðs sem fellur eftir tímabil. Þetta er kannski ekki rannsóknarspurning því það er orðið svo augljóst að við eigum ekkert plan B. Að því næst.

  • Ég er enn með mancrush fyrir Jurgen Klopp og hef fulla trú á honum. Hins vegar hafa nú minni spámenn séð við honum. Paul Clement hjá Swansea, Sousa hjá Hull og nú Craig Shakespeare munu ekki koma sínu liði í Meistaradeild. En þeir hafa nú með stuttu millibili fundið út okkar leikplan og hann virðist engin svör kunna. Chelsea, City og Spurs komu ofarlega á okkur og spiluðu fótbolta. Til að vinna Klopp-lið Liverpool þarftu að þrýsta liðinu okkar út á vængi og leyfa okkur að krossa inn í box, sparka langt og klára sóknir. Þetta ræður liðið hans ekki við og hann kann engin ráð. Hann var öskrandi á hliðarlínunni vissulega en undirbúningur hans teymis fyrir þennan leik fær fullkomna falleinkunn og það er virkilega sláandi að hann virðist ekki læra af mistökum.

  • Hver það er sem tekur ákvarðanir um leikmannakaup fyrir þetta tímabil skal slá sig utanundir. Fast! Vissulega sóttum við Mané og Matip en svo bættum við við okkur varnarmanni sem ekki er treyst og markmann á varamannabekkinn, auk efnilegs miðjumanns sem hefur alls ekki sannfært alla. Bekkurinn okkar í kvöld var einfaldlega sjokkerandi og það að setja Moreno og Origi inn sem fyrstu valkosti til að breyta svona leik fær mann til að langa til að kasta upp. Það er algerlega orðið ljóst að í þetta lið okkar vantar a.m.k. afburða hafsent, afburða miðjumann og afburða striker til að klára heilt tímabil. Vanmat á leiktímabilinu í Englandi virðist algert, þetta eru bara alls ekki lengur einhver slys…

  • Þreyta er ekki lengur afsökun takk krakkar. Við vorum a.m.k. jafn lélegir núna eftir þetta 16 daga frí og þegar við spiluðum fleiri leiki. Öll þvælan um það að detta út úr bikarkeppnum og spila ekki í EL. Takið hana og troðið þar sem sólin ekki skín. Þessu liði vantar fleiri gæðaleikmenn og frammistöður undanfarið voru ekki vegna þreytu.

  • Liðið okkar er ekki hugað. Leicester tóku völdin með tæklingu eftir 25 sekúndur og héldu þeim í 60 mínútur. Alveg sama hvert litið var…við fengum ekki eitt gult spjald í þessum leik enda fórum við ekki í tæklingu í þessum leik. Þar fór miðjan fremst í flokki – það er þar sem baráttan byrjar og endar. Hjá okkur byrjaði hún aldrei.

  • Þetta lið spilar ekki í Meistaradeild á næsta ári. Sigurliðið í deildarbikarnum verður í toppsætum og því erum við nú í EL sæti. Það er að mínu mati það hæsta sem við getum horft til á þessu ári sem er orðið mesta vonbrigðatímabilið í mínum kolli bara, utan við mánuðina hjá Hodgson. Það er ekki auðvelt að elska þetta lið…það er hunderfitt.

  • Liverpool FC er heimsþekkt vörumerki þrátt fyrir arfaslaka frammistöðu síðustu ára. Ótrúleg frammistaða “Travelling Kop” í kvöld bara enn ein sönnun þess. Hversu lengi heldur það þegar enn eitt tímabilið er runnið upp þar sem liðið hrynur fullkomlega undan væntingum okkar og er áfram utan toppsæta ensku deildarinnar?

  • Afsakið dramatíkina og niðurrifið hérna. Veit að það verða margir fúlir út í þessi skrif hérna en ég bara er ekki í neinu Pollýönnuskapi hérna eftir að liðið mitt eyðilagði enn eina tveggja klukkutíma setuna í mínu lífi!!!

NÆSTU VERKEFNI

Arsenal um næstu helgi. Það verða góðir vinir mínir margir á Anfield. Mikið vona ég að þau fái að sjá annað en þennan aumingjaskap sem pirraði mig svona svakalega í dag.

Það hlýtur að koma að því að topplið stúti okkur þó…því það er alveg klárt að við erum í frjálsu falli.

63 Comments

  1. Held það sé enginn fúll yfir þessum skrifum. Tek undir hvert einasta orð. Þetta er versta skita síðan Hodgson og Klopp virðist ekki hafa nein svör. Ég skrifa þetta á eigendurna. Hvar eru peningarnir í þetta lið? Afhverju hefur Liverpool núna ekki eytt krónu umfram sölur í 2 ár? Burt með þessa eigendur.

  2. Jæja, góðu fréttirnar eru allaveganna þær að við erum að vinna net spend bikarinn.

    Það er fyrir öllu!

  3. Hreinlega til skammar. Enginn vilji, engin barátta og ekkert hungur. Leicester vildi þetta bara meira. Lucas og Firmino skelfilegir. Lallana, Can, Coutinho og Wijnaldum þar næstir. Við endum ekki í topp 4. Sorry

  4. Mignolet og Can bestu mennirnir að mínu mati. Fannst Can alls ekki eins slæmur og skýrsluhöfundur vill meina. Lucas er enginn miðvörður en hann er klár til starfa þegar stjórinn velur hann, svo hættum að hrauna yfir Lucas það er Klopp sem tekur hann fram yfir aðra leikmenn svo sökin liggur hjá Klopp. Svo er hægt að segja svo margt um dúkkulísurnar frammi en ég ætla bara að sleppa því. Eitt stórt spurningamerki set ég við hornspyrnurnar sem við fáum, mikið hljóta andstæðingarnir að vera ánægðir með þær því það er aldrei nokkur einast hætta. Er þetta ekki æfingasvæðisdæmi eða hvað!!!!!! Hættum svo að væla yfir Sakho, hann er ekki í okkar hóp og varla í plönunum hjá Klopp af einhverjum ástæðum. Klopp hefur ákveðin hóp að spila úr og það er hans að fá þessa drengi til að skila einhverri vinnu á vellinum.
    YNWA

  5. Það er alltaf að koma betur og betur í liós að eftir að Gerrard og Charrager hættu, er liðið stórnlaust inni á vellinum.

  6. Mættum höfuðlausum her með vængbrotið lið sem hafði ekki skorað á árinu 2017 og þeir VALTA yfir Liverpool
    LFC ætti að skammast sín eftir þetta og Klopp þarf að fara versla en hver í fjandanum vill koma í þennan miðlungsklúbb eins og staðan er í dag ekki margir.

    þarf að fara gera eins og Utd bjóða 200 mil punda í leikmenn og borga þeim 500k í laun þetta er eina leiðin kaupa málaliða sem geta eitthvað td eins og fá Zlatan 35 ára gamall samt 10 sinnum betri en allir leikmenn hjá Liverpool þessa stundina.

    ERUM miðlungsklúbbur á Englandi sem áttu ágætis run 2016 muniði eftir þegar menn voru að spá LFC titlinum ? já ég líka það eru minna en 2 mánuðir síðan!
    10 sætið er líklegast hvar við endum!
    fokk this

  7. En svona að öllu gríni slepptu, djöfull er þetta Liverpool-lið sorglega lélegt.

    Skýrslan hjá Magga er spot-on og ekkert verið að fegra hlutina, enda er það ekki hægt.

    Þetta lið getur bara ekki meira en þetta. Liðið er fullt af miðlungsleikmönnum sem þiggja miðlungslaun og kostuðu miðlungsupphæðir – og árangurinn eftir því. Engin geimvísindi.

    En hérna… eru ekki einhverjar pollýönnur hérna sem vilja segja mér að hætta þessu væli?

  8. ,,Vanmat á leiktímabilinu í Englandi virðist algert”

    Jebbs. Það er rétt og fyrir vikið vantar breidd, fjölbreyti, hugmyndir og aðra slíka faktora sem greina sigurvegara frá meðaljónum.

    Að öðru: fjandakornið var hann að taka Mané og Lallana út af í leiknum? Þeir höfðu sannarlega verið ömurlegir og léku undir getu en í þeim býr þó getan til að snúa taflinu við. Hefði ekki verið rökréttara að senda Millner á bekkinn og Can?

  9. Samansafn af aumingjum sem ekki eru tilbúnir að leggja sig allan fram.Hræðilegt að horfa upp á þetta.Og tek ég mér frí frá því að horfa á þetta lið og geri eitthvað annað en að svekkja mig á þessu.

  10. Almennt eru menn og konur með allt of miklar væntingar til þessa liðs, þetta er engan veginn eitt af 4 bestu hvað þá eitthvað meistaraefni. Þetta er miðlungslið með miðlungsleikmenn í allt of mörgum stöðum. Það var hægt að kreista út gæði í nokkra mánuði, en nú er gæðasafinn upp urinn og því er þetta svona.
    Skil samt ekki hvers vegna menn geta ekki lagt sig fram. Frammistaðan var hreint út sagt ömurleg.

  11. Eins gott að liðið hafði ekki mikið fleiri daga til að undirbúa sig!

  12. Við vorum ekki bara lélegir í þessum leik, við vorum að mæta liði sem hefur helling af hæfileikum þrátt fyrir vond úrslit þeirra og höfðu eitthvað að sanna eftir borthvarf stjóranns, það hafði helling að segja.

    en vandinn er að við náum engu miðju spili án alvöru leiðtöga þannig að þegar Hendo er frá vinnum við ekki leik. Allir líta betur út þegar Henderson er að stjórna miðjunni. Síðan skildi ég ekki af hverju við vorum að spila agnarsmáum miðjumanni frekar en Ragnari.

    Við verðum samt að líta á björu hliðarnar, Woodburn leit vel út ef frá er tekin hornspyrnar og Tövramaðurinn virtist vera að vakna aðeins í fyrsta skiptið í nokkra mánuði. síðan er það Klopp, loksins breytti hann leikaðferð þegar hann sá að sú sem þeir voru að spila var ekki að skila árangri, það er dálitið sem við höfum litið séð af.

  13. Langt síðan ég hef misst af leik.
    Er ekkert að leita að upptöku.

    Þetta eru skelfileg vonbrigði og slekkur á öllum væntingum. Ég get ekki lengur vonast til að liðið lendi í topp fjórum sem var síðasta hálmstráið.

    Þeir þurfa að hífa sig upp en það eru engar væntingar. Þeir eru meira en á skilorði. Þeir þurfa að sinna samfélagsþjónustu það sem eftir er tímabils.

    HFF

    YNWA

  14. Verst að siðustu ár og framistaðan frá áramótum er bara groundhog day. Hvað erum við að tala um 10 12 ár? Meðalmennska og engin framför.

  15. Verð að viðurkenna að ég hafði vonda tilfinningu fyrir þessum leik og sú tilfinning skánaði ekkert eftir að þeir ráku Ranieri.

    Fannst leikskýrslan frábær og alveg spot on.

    Nokkur atriði úr henni og aðrar pælingar:

    Liðið og leikmannahópurinn í heild sinn er engan veginn nægilega sterkur til að vera í toppbaráttu.

    Það að klúbburinn komi fjárhagslega í plús eftir kaup og sölur á leikmönnum fyrir tímabilið er í raun stórfurðulegt. Hvaða annar klúbbur í topp6 kom fjárhagslega í plús í lok sl. sumars eftir kaup og sölur á leikmönnum?

    Þurfum lágmark 4 sterka, dýra leikmenn, sem eru búnir að sanna sig í sterkum toppliðum fyrir næsta tímabil, þ.e. hafsent, miðjumann, striker og vinstri bakvörð. Nú reynir á eigendurna. Klúbburinn mun ekki þola annað svona tímabil. Mun nafnið Klopp duga til að ná í þessa leikmenn þegar við getum ekki boðið upp á leiki í meistaradeild?

    Ef Klopp fær ekki fjárhagslegt backup hjá eigendum, mun hann nenna að vera hjá okkur mikið lengur?

  16. Þetta er nú meiri fjandans eyðimerkurgangan og sjálfseyðingarhvöt að halda með þessu Liverpool liði 🙁

  17. Já og ég auglýsi eftir Pollyönnunun. Einhverjir sem geta sagt okkur hinum að hætta þessu væli og að við ættum að skammast okkur að tala svona um liðið okkar o.s.frv.

  18. Vá, auðvitað var þetta sönnun þess að leikjaálag skiptir engu máli. Einmitt!

    Enn og aftur, ef þú hefur ekki stærri/betri hóp en þetta er ekki hægt að eyða orku í allar keppnir og vænta þess að það hafi engin áhrif á liðið. Þetta er klárlega einn faktor í hræðilegu gengi liðsins í byrjun þessa árs sama hversu pirraðir menn eru. Ef við höfum fleiri gæðamenn skiptir þetta auðvitað ekki eins miklu máli, Liverpool hinsvegar er með 17-18 ára leikmenn á bekknum í leik eftir leik. Fínir leikmenn vissulega en þeir eru þarna til að fylla upp í hópinn, þeir eru ekki að halda aðalliðsmönnum frá sem annars eru tiltækir.

    Leikjaálag er samt ekkert eina sem hefur áhrif og klárlega ekki afsökun í þessum leik, ekki frekar en t.d. Burnley leiknum (og fleiri slæmum leikjum). Það vantar reyndar 2-3 lykilmenn í þessa leiki (ef ekki meira) og það sem kemur inn í staðin er ekki nálægt því nægjanlega gott. Sóknin hefur verið vandamál undanfarið (er samt eitt markahæsta liðið) en risastóra vandamálið er vörnin og hún var hroðaleg í dag. Carragher og Neville hökkuðu hana í sig eftir leik og voru spot on. Stefnir í alveg jafn lélegt tímabil varnarlega og undanfarin fjögur ár.

    Milner lofaði rosalega góðu í byrjun tímabilsins í nýrri stöðu en hann hefur verið afleitur undanfarið, flest lið eru búin að læra á hann og loka vel á þá ógn sem af honum stafar. Varnarlega er hann ekki mikið betri en Moreno, liðið lekur engu minna af mörkum á sig. Sakna oft hraðans hjá Moreno t.a.m.

    Það var nú heldur betur drullað yfir mig fyrir að útvarpa því að ég myndi frekar vilja Can í möðvörðinn heldur en Lucas, er það ennþá jafn hærðilega heimskulegt? Er Randver að fara drulla aftur fyrir mig í Bónus? Can væri samt líka bara neyðarúrræði vegna þess að það sem er til annað er að kosta okkur svo hikalega. Sakho var t.a.m frábær um helgina í fyrsta leik sínum fyrir Palace, Liverpool vantar leikmann í hans gæðaflokki í staðin fyrir hann. Lucas og Klavan eru ekki nálægt því.

    Lucas og Milner eru báðir leikmenn sem ætti að vera hægt að nota af og til í þessum stöðum, þegar fyrsti og helst annar kostur eru ekki í boði. Alls ekki sam fasta menn og hvað þá saman sem vinstri vængur varnarinnar gegn meisturunum.

    Mignolet var ágætur í dag en var nú ekki að úða neinu öryggi í varnarlínuna þegar háir boltar komu inn á teiginn, hann beið á línunni og kom ágætlega út í dag. Mörkin skrifast ekki á hann.

    Emre Can hefur verið rosalega mikil vonbrigði á miðjunni í vetur, ég var að vonast til að hann myndi þróast í algjöran skriðdreka (geri það enn) en hann hefur farið aftur ef eitthvað er undanfarið. Hann var ekki að valda DMC hlutverkinu vel í fyrri hálfleik en gekk betur í nýju hlutverki í seinni. Það að missa Henderson er eitt það síðasta sem liðið má við, tölfærði upp á 25% sigurhlutfall án hans segir allt sem þarf um það.

    Varnarleikur Liverpool í dag var til skammar , spilaði fullkomlega upp í hendurnar á Leicester sem gekk á lagið. Nánast öll önnur lið hafa lært að loka á þessi svæði sem Vardy og Mahrez voru að fá í kvöld.

    Lallana, Coutinho og Mané voru svakalega daprir í dag og Firmino einnig afleitur. Holningin á liðinu í heild var aðalvandamálið í dag, það náðist enginn taktur í leik liðsins fyrr en allt of seint.

    Þetta tímabil stefnir rosalega hratt í klósettið og þessi fimmti hræðilegi tapleikur Liverpool í vetur gegn fallbaráttu liði sem ekkert hefur getað fyrir leikinn gegn Liverpool verður að vera vendipunktur fyrir Klopp nú þegar hann fer að huga að næstu skrefum í uppbyggingu liðsins.

  19. Hvernig fór þetta tímabil úr því að verða eitt mest spennandi tímabil liverpool í áraraðir í að verða harmleikur?
    Það gjörsamlega stendur ekki steinn yfir steini í þessu liði… menn koma andlausir og hræddir inn í leik eftir leik með örfáum undantekningum.
    Maður ég farinn að velta öllum steinum við í leit af svörum og farinn að spyrja sig spurninga sem manni langar ekki að svara! …
    Það er algjört ráðaleysi í öllum viðtölum og því sem fer fram á vellinum og það hjá prinssínum á hvíta hestinum jafnvel frelsarinn sjálfur sem maður neitar samt að hætta trúa á !
    Jesús hvað þessi klúbbur getur gert mann brjálaðan

  20. Vel gert hjá Randveri að drulla fyrir þig í Bónus – er þjónustan bara þar?

    Þegar lykilmenn bregðast er ekki hægt að benda á Klopp. En þegar Liverpool mætir með svona vörn vakna spurningar um innkaupin sl sumar og ekki síður í Janúar.

  21. Ég talaði um fyrr í vetur að Liverpool FC þyrfti nýja eigendur.

    Ég vil fara að sjá mótmæli á Anfield. FSG out.

    Kominn tími á það.

    Þeir eru hel sáttir, náum 6 sætinu sem er bæting frá því í fyrra. Græðum vel í sumar á leikmanna markaðnum. Allt á áætlun hjá FSG. ÞEIM ER SLÉTT SAMA HVORT LIVERPOOL FC VINNI TITLA EÐA EKKI. Af hverju komu þeir þá ekki hreint fram þegar þeir kaupa klúbbinn. “Our aim is to be like Everton and Southampton, 5-7 place is brilliant”

    Að borga laun fyrir menn sem hafa unnið titla og gert eitthvað á sínum ferli. NEI það er ekki FSG way, alls ekki. En við erum tilbúnir að borga meðal upphæðir fyrir meðal menn Já og fá Ragga Klavan sem trúði því ekki sjálfur að Liverpool hefði hringt í sig. Sá er svo lélegur miðvörður að Klopp notar frekar miðjumanna sem komst á síðasta söludag 2012 og ömmur okkar flestra hlaupa hraðar en hann. Hvaða djok er félagið okkar orðið. Ár eftir ár. … Þá hlæja stuðningsmenn annara liða af okkur, nema kannski Arsenal – þeir eru svona “rich man Liverpool”

    FSG out

  22. ég væri MIKIÐ til í að heyra stjórnendur síðunnar taka einhverja umræðu í næsta podcasti um FSG, álit þeirra á FSG, hvort menn vilji nýja eigendur og jafnvel henda í könnun fyrir lesendur þar sem menn ræða eignarhaldið á klúbbnum.

  23. Sælir félagar

    Takk Maggi fyrir skýrsluna, hún er sönn, hún er rétt og kominn tími til að við horfum á stöðuna án gleraugna. Klopp sagði fyrir tímabilið að þessi hópur væri nógu góður fyrir veturinn. Staðreyndin sýnir að það var rangt mat. Maggi sagði í tístinu að það væri komið skarð í áru Klopp’s. Það er því miður rétt. Ég hefi áhyggjur, ekki bara af þessu tímabili, líka af komandi tímum ef raunsæið er ekki meira hjá stjóranum.

    Menn tala um Sakho og undrast að Lucas Leiva skuli leika sem miðvörður og Sakho lánaður í annað úrvalsdeildarlið og spilar brilljant þar. Enn eitt merkið um raunsæi Klopp. Skarð í árunni svo sannarlega. Ég veit ekki hvað Klopp er að sanna með aðferðum sínum á leikmanni eins og Sakho en fyrir mér gengur svoleiðis vitleysa ekki upp. Virkar á mig eins og heimska.

    Skarð í árunni er víst satt og rétt en við vonum að Klopp læri og sýni að hann hafi einhver svör í framtíðinni. Það verður í sjálfu sér ekkert svar að vinna Arsenal í næsta leik. það er bara eins og T’ham leikurinn. Klopp verður að fara að sýna að hann hefi einhver svör við leik liða eins og talin hafa verið upp hér að ofan. Hann vinnur engar keppnir með því að tapa fáum stigum gegn efstu sex ef hann vinnur nánast engin stig gegn hinum fjórtán.

    Það er nú þannig

    YNWA

  24. Tímabilið hefur einkennst af 1)mikilli siglingu, 2)glötuðum stigum og 3)lélegum leik. Niðurstaðan er 6.sæti

    Það er sorglegt að tveir af sóknarmönnunum eru meiddir nánast allt tímabilið Sturridge og Ings. Það er glatað að miðjumenn eru meiddir, Henderson byrjaður að missa úr leiki, Grjulic nýi gaurinn hefur ekki getað spilað mínútu. Í vörninni eru lykilmenn meiddir nánast í hverjum einasta leik. Markvarðastaðan er fokk up.

    Það eru alltaf einhverjar afsakanir í gangi finnst manni fyrir gengi liðsins. Ég treysti Klopp fullkomnlega að finna einhverja leikmenn fyrir þetta lið okkar. Vantar upp á breiddina, vantar broddinn þegar á móti blæs.

    Nenni ekki að pirra mig á þessum leik. Betra liðið vann.

  25. Klopp verður að fá tíma, það er bara þannig. Ég velti fyrir mér hvar Rogders væri með þetta lið hefði hann fengið stuðninginn og tíma. Eða Daglish? Svarið er held ég bara að liðið væri á svipuðum stað. 6-10 sæti. FSG sem ég hef aldrei haft trú á lifir á því hvað nafnið Liverpool FC er stórt og hefur mikið aðdráttarafl. En þetta er hægt og rólega að fjara út undir stjórn FSG. FSG virðist til dæmis ekki hafa getað keppt við Tottenham um leikmenn. Maður spyr sig bara hvaða lið tekur næst framúr? Everton kannski? Ég bíð ennþá eftir góðum sumarglugga. Besta sem þeir hafa gert var að halda Suarez í eitt ár til viðbótar á sínum tíma. Og Daglish fekk reyndar líka að kaupa ágætlega mikið.

    Ég vil gefa Klopp tíma til að byggja upp lið. Mig langar að sjá 11 manna lið með leikmönnum sem Klopp fékk til liðsins. Hætta að hugsa um bikara og stig og byggja upp. Það er ekki hægt að sprengja þetta lið upp á 2 ára fresti með nýjan þjálfara mikið oftar…

    Áfram Liverpool!

  26. Úff hvað það er erfitt að lesa svartsýnisrausið hérna.

    Fyrir mér er stæðsta vandamál Liverpool hvað sumir áhangendur eru fljótir að snúa baki við liðinu þegar á móti blæs.

    Við einfaldlega töpuðum fyrir ríkjandi meisturum â þeirra eigin heimavelli í leik þar sem þeir loksins náðu að sýna af hverju þeir unnu deildina í fyrra.

    Svona dramatík, niðurrif og neikvæðni skila engu.

  27. Takk fyrir þennan pistil og fjörlegar umræður. Sammála sumu en alls ekki öðru. Blæs á að um eitthvert vanmat sé á ensku deildinni að ræða. Miklu frekar er um að ræða of lítil breidd, meiðsli og fjarvera lykilmanna, of mikið treyst á Henderson, óþolandi kæruleysi gegn lakari liðunum sem er eitthvað sálrænt og vandamál varnarlega. Hið jákvæða er að oft er auðvelt að spyrna sér frá botninum. Helsta sem ég hef áhyggjur af í næstu leikjum er að alltof margir leikir eru eftir gegn lakari liðum deildarinnar og meiðsli Henderson. Fer ekki ofan af því að liðið er gott enda getur árangurinn fyrir áramót ekki verið eintóm tilviljun. Þeir sem halda því fram að árangurinn fram að áramótum sé heppni hafa bara einfaldlega ekki mikið vit á fótbolta.

  28. Hossi
    Ríkjandi meisturum Já SEM voru í fallsæti í gær, höfðu ekki skorað mark árið 2017!! Framistaðan skammarleg, leikmenn börðust ekki.
    Ef þá sé ekki tilefni til þess að gagnrýna eða jafnvel “drulla” aðeins á leikið þá veit ég ekki hvað.
    Svartsýni auðvitað, gengi liðsins hefur eftir áramót verið OMURLEGT. Vorum í baráttu á öllum vígstöðvum en ævintýralega klúðrum því enda breiddin nákvæmlega engin.
    Það er svo mikil meðvirkni hjá mörgum stuðningsmönnum að það er fráleitt. Ef einhver er sáttur með stöðu mála þá er það skoðun sem ber að virða en virðið þá óánægju okkar

  29. Þetta er að verða frekar vandræðalegt. Eins og trúin var sterk á að Klopp væri rétti maðurinn til að sigla þessu liði upp á við. Þá er ég kominn á það að hann hafi bara ekkert til þess að bera að þjálfa lið í enska.

    Ljósi punkturinn í gær var samt að hann breytti um leikaðferð og það í miðjum leik. Ekki þar með sagt að það hafi virkað. En samt .. maður var farinn að halda að það eina sem hann hefði fram að færa væri að öskra.

  30. Klopp er í verulega slæmum málum það sem af er ári og það sjá allir nema kanski hann sjálfur, sem oft talar eins og allt sé í góðum málum og nógur mannskapur, þrátt fyrir skelfilega litla breidd. Klopp virðist ekki hafa hafa haft áhuga á því að styrkja liðið í byrjun árs. Klopp virðist ekki hafa áhuga á því að breyta nokkru í leikskipulaginu, sem virðist vera svo auðlesanlegt fyrir andstæðingana. Klopp er oft seinn, já alltof seinn með innáskiptingar og virðist allt of oft vera alveg ráðalaus. Klopp sem við þekkjum mun tæplega kaupa stjörnur í sumar, heldur ,, minni spámenn “, sem hann vill gera að sínum stjörnum, það er hans stíll. Stundum tekst það, stundum ekki.

  31. Oki ég fór í sjálfskipað ritfrí frá Liverpool en ég fékk nóg núna og get ekki orðabundist lengur.
    Þvílík helvítis hörmung var þessi leikur. Enn einn lélegi mánudagsleikur Liverpool. Það var einfaldlega allt að, en finnst það samt mikil einföldun að kenna framherjum um þennan leik. Það er erfitt að vera framherji í liði sem tapar miðsvæðinu á fyrstu mínútu leiksins. Liverpool átti aldrei breik í þennan leik og það sást á uppstillingu fyrir leik. Að vera með Can, Wijaldum og Lallana saman á miðju er ekki að fara virka. Hefði frekar kosið að hafa Lucas þar hefði allavega ekki orðið verra.
    Að auki, Vardy er frábær skallamaður hvern látum við dekka hann? Jú látum minnsta varnamanninn og lélegan skallamann dekka hann. Lucas var hörmung í vörn getur ekkert en það er ekki honum að kenna að hann sé valinn. Alfarið á ábyrgð þjálfarans sem velur hann.

    Einar Matthías þreyta eftir 14 daga hvíld er ekki séns. Ekki einu sinni andleg þreyta. Hvers vegna mætir liðið alltaf tilbúið gegn stóru liðunum en eru ömurleg gegn minni liðunum. Hvað er það sem Jurgen Klopp er að leggja upp með sem er svona öðruvísi gegn “minni” liðunum en þeim “stóru”? Það er klárlega eitthvað að í þjálfun, kannski er liðið búið að missa trú á honum og hans þjálfunaraðferð. Ef svo er þarf að skipta út leikmönnum einfalt. Ég er enn á því að Jurgen er það besta sem við fáum, hann er frábær stjóri en það eru mörg spurningarmerki við hann akkúrat núna. Hann segist hafa vald til að kaupa leikmenn en hvers vegna hann kaupir ekki leikmenn skil ég ekki.

    Ég gæti skrifað ritgerð um Liverpool í viðbót, en nenni því ekki er orðinn pirraður bara að skrifa þetta.

    Eitt að lokum, Liverpool mun eiga frábærar leik á Laugadag og eflaust vinna Arsenal sannfærandi.

  32. Þetta er ekkert annað en spurning um hugarfar. Ekkert annað.

    Það getur ekki staðist gagnýna hugsun að við vinnum leiki þar sem við vitum að andstæðingurinn er góður og að við þurfum að sýna okkar besta til þess að eiga séns.

    Ef mótherjinn er í fallsæti þá virðast menn halda að sigurinn sé gefins, þrátt fyrir að úrslitin hingað til segi allt annað. Geðveiki !

  33. Sko.

    Ég hef fylgst með þessu lengi.
    Elska Liverpool

    1970-80
    1980-90

    Þá var Liverpool eitt af þeim liðum sem gat borgað mest og fjárfest mest. Byggðum upp stórveldi. Einkenni þessara liða voru leikmenn með karakter. Leikmenn sem voru stríðsmenn, mættu alltaf til leiks líka gegn Watford.

    Í dag, getur einhver bent á leikmann í Liverpool sem er karakter liðsins, bítur frá sér þegar á móti blæs? Rífur aðra með sér ?
    Þætti gaman að vita hver sá leikmaður er eða mönnum finnst. Að mínu mati höfum við ekki haft þannig mann síðan Suarez – Gerrard.

    Ég bendi oft a Zlatan en margir hlógu af United að kaupa 35 ára gamlan leikmann. En af hverju kaupa þeir 35 ára gamlan mann sem hefur unnið 30 titla á sínum ferli og hvar sem er skorað 20 mörk plús á tímabili? Því Man United hefur ekki unnið deildina né haft svona mann í einhvern tíma. Hann kemur ekki inn til framtíðar en hvaða áhrif haldið þið að maðurinn hafi á Rashford og yngri leikmenn Man Udt? Á meðan horfir Woodburn uppá hvað hjá okkur?
    Zlatan er svo þessi hrokagikkur sem gefur öllum sjálfstraust. Hann bakkar það svo upp 35 ára með 26 mörkum í 38 leikjum. Á meðan erum við með menn sem meiðast við það að prumpa.
    250 þúsund pund á viku. Fjárfesting sem skilar titlum, leikmenn Man Udt eru komnir með blóð á tennurnar. Það á svo að bæta í með Griezmann eða Neymar í sumar. Stefnan er skýr. Á toppinn.

    Á meðan er Liverpool sem ekki hefur unnið deild í 27 ár og í raun í þrautagöngu, hver er stefna okkar? Uppbygging aftur og aftur. Sama stefnan að kaupa ekki leikmenn á ákveðnum aldri og á ákveðnu verði sem þurfa ákveðin laun. Leikmenn sem hafa unnið titla, eru karakterar og stríðsmenn. Leikmenn sem þurfa sér húsnæði undir bikara og medalíur.

    Ég var að vona að Liverpool myndi taka CL sætið af United. Bara svo Zlatan færi.

    Ég er sá neikvæði. En ég þrái bara það að eigendur Liverpool hverju sinni síni þann metnað sem þarf til þess að vinna titla. FSG talaði um að vinna titla en orð og gjörðir vinna ekki saman. Því miður.

    Ekki væna mann þá um að vera ekki stuðningsmaður af því ég sætti mig ekki við þetta bull (Já bull) sem er í gangi í dag. Hluti eins og að nota útbrunninn miðjumann í miðvörð. Hringl á markmönnum okkar, hver er aðal? Lítill hópur. Skortur á gæðum.

    Engin Evrópa í ár. Chelsea enda 10.sæti í fyrra. Nýr stjóri. Meistarar. Hvað gera þeir öðruvísi? Af hverju þurfa þeir ekki tíma ? Hvað eru þeir að gera rétt ? Diego Costa kannski? Durtur sem aðdáendur annara liða hata en halar inn mörkum og stigum.

    Það er morgunljóst að FSG leiðin virkar ekki. Þeir hafa ekki skilað neinu. (Jú Nýja stúku og fjármálin eru betri- það ber að viðurkenna) Nú væri ég til í einn Sheik eða Rússa með $$$
    Það er bara umhverfið sem virkar í dag sama hvað menn raula og tauta.

  34. Rodgers var með betri árangur en klopp, sömu drullu eigendur, burt með þessa helvítis kana. Þurfum varnarmenn, 3-5, miðjumenn, sóknarmenn. Eigendur.

  35. Nr. 35

    Einar Matthías þreyta eftir 14 daga hvíld er ekki séns. Ekki einu sinni andleg þreyta.

    Ég veit það, lestu það sem ég skrifaði!

  36. Er einhver hér sem kann að nálgast tölfræði á mörk skoruð/mörk fengin á okkur, með og án Henderson??

  37. Menn hér voru svo að setja útá King Kenny , hann skilaði allavega titli á þessu tímabili sem hann fékk að stjórna. Nú fer Scum yfir okkur í deildinni og eru þegar komnir með tvo titla, meðan Liverpool breytist í steingerving. Þurfum bara að losna við fsg.

  38. Ég ætla ekki að fara að verja frammistöðu okkar liðs á neinn hátt en á ekkert að nefna frammistöðu Leicester City?

    Ég horfði á leikinn á NBC og fannst lýsingin vera mjög fagleg. Þeir áttu ekki orð yfir því hvernig leikmenn Leicester City mættu í þennan leik. Þetta var, að þeirra mati, lang lang besti leikur Leicester á tímabilinu. Þeir tóku margoft fram að staðan væri í raun ekki svo mikið leik LFC að kenna heldur ákefðinni í Leicester mönnum!!

    Þarna er ég algjörlega sammála. Það hljóta allir að hafa séð kraftinn í mönnum eins og Vardy og Drinkwater og strax á fystu mín var ég smeykur. Leikmenn Leicester voru hreinlega trylltir.

    Fyrir þennan leik var búið að reka þjálfarann sem skrifaði nýtt blað í fótboltasögunni fyrir 9 mánuðum. Skilaboð eigenda til leikmanna voru einföld: Það er enginn ómissandi og nú verða menn að sýna eitthvað ef þeir ætla að vera áfram í liðinu.

    Ég held reyndar að þessi viðbrögð endist bara í 1-3 leiki og svo dettur krafturinn úr þeim og því týpískt að við lendum á fyrsta leiknum.

    Ég reikna með að okkar menn mæti dýrvitlausir í næsta leik. Annars segji ég upp áskriftinni og hvíli boltann fram í ágúst.

  39. Ekki alslæmt. Breski Arsenal maðurinn á næsta borði bauð mér samúðarbjór hér á kránni á Tenerife.

  40. Sælir félagar

    Ég skil ekki þá sem kvarta undan svartsýnisrausi. Staðan, frammistaðan og framtíðin nú í lok vetrar gefur ekki ástæðu til neins nema svartsýni. Klopp var hissa í viðtali að ekkert hafi komið út úr breyttu leikskipulagi og fyrirgjöfum. KLOPP!!!! það er enginn framherji í liðinu til að taka við fyrirgjöfum og afgreiða þær annað hvort með skalla eða taka boltann niður í teignum og negla hann inn.

    Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvernig liðið mætti til leiks?!?!?! Hvað er hann búinn að horfa á marga svona leiki í vetur, fimm eða sex? Hver er það sem á að mótivera leikmenn og búa þá undir leiki. Hver er það sem á að breyta leikjum og hafa plan B og jafnvel C. Hver er það sem á að hafa þann mannskap sem dugir til að geta skipt inn og stillt upp uppá nýtt þegar þarf að breyta.

    Menn eru að skammast út í FSG fyrir að þeir hafi ekki vilja setja peninga í að kaupa leikmenn. Það hefur hvergi komið fram að FSG hafi bannað leikmannakaup í jan. Klopp hefur lýst því yfir að hann fái að kaupa það sem hann vill. Hann vildi ekkert kaupa í janúar ef til vill vegna þess að það hefði kostað mjög mikla peninga. Það er vitað að jan. glugginn er dýrari en sumargluggin en það verður að kosta því til sem kosta þarf.

    Nei Klopp verður að axla ábyrgð á þessu öllu og það verður að horfast í augu við það. Þar með er ég ekki að segja eða meina neitt í þá veru að hann eigi að fara. Nei alls ekki en ábyrgðin er hans og hann verður að fara að læra af eigin mistökum sem eru ekki bara í mótiveringu leikmanna heldur einnig í hópnum sem hann leggur upp með og að maður tali nú ekki um Sakho bullið.

    Það er nú þannig

    YNWA

  41. Maður sér það hér á allri umræðunni hvað við erum orðnir þreyttir á gengi liðsins síðastliðin ár. En það tekur tíma hjá Klopp að koma þessu í lag. Við verðum að vera þolinmóðir og vona að þetta breytist á á næsta tímabili. Áfram Liverpool.

  42. Með fullri virðingu fyrir jákvæðu aðilunum hér inni, er ekki komið nóg af þessu pollýönnukjaftæði! Þetta snýr ekki að Klopp einum og sér, eða einstökum leikmönnum, heldur virðist eitthvað mikið að hugarfarinu hjá leikmönnum. Við látum „bullía“ okkur út úr leikjum gegn liðum í neðri hlutanum, höfum ekki líkamlegan styrk né andlegan til þess að fara í svona baráttuleiki. Erum svo fínir á móti liðum sem vilja spila fótbolta! Eitt lítið dæmi úr leiknum í gær, Liverpool fékk aukaspyrnu og voru í hraðri sókn, þrír leikmenn Leicester löbbuðu/hlupu fyrir boltann og komu þannig í veg fyrir að við tækjum aukaspyrnuna fljótt. Og í stað þess að sparka boltanum hreinlega í einn þeirra, fá gult spjald og láta dómarann aðeins heyra það, þá voru leikmenn Liverpool kurteisin uppmáluð, leyfðu Leicester stilla upp varnarlínunni í rólegheitunum og sendum svo boltann á aftasta varnarmann. ARGGG!!!!
    Liverpool er með áberandi lélegasta árangurinn gegn neðstu sex liðum deildarinnar. Þetta er svona ár eftir ár. Tímabilið 2016/17 so far gegn neðstu sex:
    Lið Sigrar Jafnt. Töp Stigahlutfall:
    Chelsea 8 0 0 100%
    Tottenham 6 2 0 83,3%
    Man.City 6 1 1 79,2%
    Arsenal 6 1 0 90,5%
    Liverpool 6 1 4 57,6%
    Man.Utd. 7 1 0 91,7%
    Tölum um hlutina eins og þeir eru, Liverpool verður ekki í baráttunni um einhver Evrópusæti fyrr en menn finna leið til þess að mæta klárir í alla leiki, ekki bara stemmningsleikina sem „underdogs“

  43. Pælið í því. Klopp notaði varaliðið í FA cup og leuge cup og duttum að sjálfsögðu út. Til hvers var hann að hvíla bestu leikmennina þegar það er ekkert álag á þeim, ekki nóg með það þá getum við ekki einu sinni unnið neinn helvítis leik. Erum að spila eins og Sunderland!! .FA cup er ein virtasta keppni í heimi og Klopp sýnir þessari keppni og Liverpool vanvirðingu með því að spila ekki sínu besta liði! . við erum ekki einu sinni í meistaradeild, né skíta evrópudeildinni.

    Mér er illa við að segja þetta en ef ég ætti að kjósa einhvern sem pappakassa ársins þá væri Klopp tilnefndur þar hjá mér.

  44. Smeikur er ég um að Hodgson væri búinn að fá sig skit og skammir fyrir sama árangur og Klopparinn.

  45. ég er svo góður stjóri að ég þoli ekki ákveðnar týpur í mitt lið, læt bara Sakho fara því hann er ekki varnarmaður að mínu skapi. Emre Can hlýtur að fara að detta í heimsklassa miðjumann bráðum, bara spurning um tíma hvenær hann blómstrar. Annars er leynitrixið að fá ágætisleikmenn sem geta spilað margar stöður og leyst hina og þessa af í meiðslum, nú eða bara ég breyti náttúrulegri stöðu manna og geri þá að frábærum leikmönnum í annarri stöðu en þeir myndu sjálfir halda að þeir spiluðu.

  46. #49 Ætla vona að þú hafir verið að djóka með það að halda að Emre Can mundi vera heimsklassa miðjumaður í framtíðinni??. Hann er mesta sorp og ofmat sem ég hef séð. Ef þú varst að reynda vera fyndinn þá er ég líka með einn góðan. Ragnar Klavan er í heimsklassa.

  47. Ef þetta lið ætlar nokkurn tímann að vinna bikar þá verða eigendur liðsins að átta sig á því að þeir verða að eyða til þess. Ekki hægt að vera með jákvæða eyðslu í hverjum glugganum á fætur öðrum. Verðum að fá frábæra leikmenn og verðum að vera tilbúnir að borga hærri laun til þess.

  48. Ég veit ekki hvort er þreyttara – hugtakið pollýanna eða frammistöður LFC undanfarið.

    Í alvöru talað, þetta pollýönnu-dæmi er álíka þreytt og þegar menn fara að tala um hvað glasið er hálffullt/hálftómt …

    Leikurinn í gær var hörmung. Sennilega versti leikur liðsins á tímabilinu. Ég slökkti þegar þriðja markið kom, geri það ekki oft. En það er nú samt með þetta blessaða lið manns, ég verð mættur fyrir framan skjáinn á laugardaginn til að styðja okkar menn til sigurs gegn Arsenal.

    Það er ekki beint tekið út með sældinni að vera stuðningsmaður Liverpool. Ég ætla hins vegar bara að taka þann pól í hæðina að láta ekki gengi liðsins ekki stjórna skapsmunum mínum.

    Og enn síður ætla ég að fara í eitthvað persónulegt skítkast út í hina og þessa leikmenn eins og sumir gera hér. Eða tuða út í eitt um hvað sumir leikmenn séu drasl eða þaðan af verra.

    Nei, ég ætla bara að vera sólarmegin í lífinu – og er strax farinn að hlakka til næsta leiks!

    En Klopp maður – ætli þetta sé ekki mesta mótlæti sem hann hefur lent í á ferlinum? Nú þarf hann að fara að galdra eitthvað sniðugt fram. Því fyrr því betra.

    Homer

  49. Mér fannst byrja halla undan fæti þegar Can og Wijnaldum byrjuðu að spila saman á miðjunni. Þeir hafa verið nánast saman síðan um jól og ekkert fram að því…tilviljun?

    Er það við þá eða Klopp að sakast? Það er nú ekki beinlínis um auðugan garð að gresja á miðjunni. Kjúllarnir gátu ekki rassgat þegar þeir fengu sjénsinn í League Cup. Fengu samt tvo sjénsa.

    Er við FSG að sakast að hafa ekki keypt eitthvað í janúar. Sennilega. Virðist samt ekki vera football manager auðvelt að kaupa leikmann. Það er bara eins og maður óttaðist að liðið er of þunnskipað til að glíma við meiðsli. Manni finnst svoleiðis alltaf vera ömurleg afsökun og ef eigendurnir hefðu bara tímt að kaupa meira fyrir tímabilið þá væri þessi staða ekki.

    YNWA

  50. Ég vill klopp burt takk ég er kominn með hundleið á þessari banana byrjunarliði hans i hverjum leik.Sturridge á að byrja fyrir firminho enda er hann ekki búin að sýna neitt til að verðskulda byrjunarliðssæti.Winjaldum er bara lélegur leikmaður sorry to say og hefur ekkert að gera í byrjunarliðinu okkar.Emre Can er lélegur leikmaður puntkur.Og að spila lucas í miðverðinum er nátturlega alveg út í hött allir fótbolta áhugamenn vita það að hans besta staða er DM.Clyne er hræðilegur bakvörður og það kemur aldrei nein einasta hættu frá honum enda er hann hægur og með hræðilega krossa inn í teig.Milner er ekki bakvörður og það að klopp er ekki að skilja það er beyond me !!.Er orðin hundleiður á þessu bulli.Hvernig væri að prófa nýtt kerfi bara svona einu sinni með sturridge og origi frammi ? Eða betra að gera fucking skiptingu í miðjum leik þegar liðið er að skít tapa.Klopp burt ég er alveg búin að missa þolimæðina.

  51. Ég hef fulla samúð með Magga fyrir að þurfa að skrifa þessa leikskýrslu

    Það er spurning um smá raunsæi. Ég horfði aðeins á efstu 6 liðin í deildinni og setti að gamni mínu saman 11 manna úrvalslið þeirra (NB að mínu mati). Það er skemmst frá því að segja að það er ekki einn Liverpool maður í því liði. Þeir sem komast næst því að banka á dyrnar eru Mané, Clyne, Lallana, Firminho og Henderson.

    Ef við spólum 3 ár aftur í tímann og setjum saman úrvalslið efstu 6 liða eftir tímabilið, þá voru að mínu mati í því liði Suarez, Sturridge og Gerrard. Síðan bönkuðu Sterling og Coutinho hraustlega á dyrnar.

    Eins og einn ágætur stjórnandi (gott ef það er ekki bara Maggi sjálfur) á Kop.is segir stundum – Þetta eru bara ekki nógu góðir leikmenn sem við erum með núna.

    Nú er útlitið dökkt. City, Utd og Arsenal eiga öll leik inni. Ég horfði á leikjaplanið stuttu fyrir leikinn í gær og var nokkuð viss um að við gætum sótt 21 stig úr þessum 13 leikjum. Ég var reyndar alveg viss um að Leicester myndu vinna, því ég hef þá skrítnu hjátrú að leikir gegn nýjum stjórum séu bogey leikir.

    Mín spá fyrir restina er svona:

    Arsenal (H) – Sigur
    Burnley (H) – Sigur
    City (Ú) – Tap
    Everton (H) – Sigur
    Bournemouth (H) – Jafntefli
    Stoke (Ú) – Tap
    WBA (Ú) – Tap
    Palace (H) – Sigur
    Watford (Ú) – Sigur
    Southampton (H) – Jafntefli
    West Ham (Ú) – Jafntefli
    Boro (H) – Sigur

    Það gefur okkur 70 stig. Í fyrra dugðu 70 stig til meistaradeildarsætis, en ég óttast að það muni ekki duga í ár nema til Europa League. Það er stutt milli feigs og ófeigs í þessu. Ef Klopp nær meistaradeildarsæti með þessa leikmenn (sem eru ekki nógu góðir að mínu mati) þá er það mjög góður árangur. Ef ekki, þá er þetta tímabil alveg glatað.

    YNWA

  52. langar ekki að sjá LFC í evrópudeild nema það sé meistaradeild frekar lenda í 7ndja sæti heldur en þeim horbjóð

  53. Þetta er orðið vandræðalegt. Það er ekki hægt að kenna leikjaálagi um, það er ekki hægt að kenna þunnum mannskap eða að það vanti einstaka leikmenn. Hins vegar er hægt að kenna Klopp um þar sem hann hefur gert afdrifarík mistök sem hafa leitt hvort að öðru.

    Í fyrsta lagi fer hann inn í þetta tímabil með Moreno og Milner sem aðal vinstri bakverði. Milner byrjar að dala í byrjun janúar en Klopp heldur sig engu að síður við hann frekar en að reyna að kaupa vinstri bakvörð í janúarglugganum. Í öðru lagi hafa hlutirnir ekkert skánað ýkja mikið síðan Mané kom úr afríkukeppninni. Í þriðja lagi hefði Klopp geta þétt mannskapinn með því að kaupa leikmann í janúarglugganum, en ákvað að gera það ekki þar sem hann taldi hópinn nógu góðan.

    Það verður að segjast að þetta er farið að minna mig ótrúlega mikið á Brendan Rodgers. Í gær stillti Klopp tveimur miðjumönnum hliðina hjá hvor öðrum í vörninni, Milner og síðan Lucas sem kemst ekki einu sinni í byrjunarliðið í sinni upprunalegu stöðu en er engu að síður starter sem miðvörður þrátt fyrir að Klavan sé heill. Munið þið ekki eftir því þegar Can var spilaður í bakverði um árið? Klopp keypti Klavan seinasta sumar en tekur engu að síður miðjumann framyfir hann til að dekka Vardy. Einnig hefur Karius ekkert getað og hefur þ.a.l. dottið aftur fyrir Mignolet.

    Klopp þarf aldeilis að hífa upp um sig buxurnar því hann hefur ekki sýnt ennþá af hverju hann er rétti maðurinn þrátt fyrir að spila flottann bolta öðru hvoru og standa sig vel í stóru leikjunum. Hins vegar er þetta nákvæmlega sama sem gerðist með Dortmund þar sem gegenpressing virkaði ekki gegn liðum sem lágu aftur. Minni liðin í deildinni eru löngu búin að átta sig á því að þau eiga ekki séns í okkur nema liggja aftur, Klopp hins vegar breytir engu, alveg sama hvaða liði við mætum. Mér er alveg sama þótt hann gefi gegenpressing upp á bátinn, menn eins og Conte þurfti að líta í eigin barm og breyta um uppstillingu og taktík sem þ.a.l. virkaði á endanum.

    Nú er Klopp búinn að koma liðinu í tvo úrslitaleiki og tapa þeim báðum, hann hefur ekkert bætt vörnina, honum var sparkað úr öllum bikarkeppnum þar sem liðið var gríðarlega ósannfærandi, hann spilar mönnum úr stöðu og breytir litlu sem engu varðandi uppstillingu liðsins, og seinast en ekki síst á hann ekki séns í meistaradeildarsæti miðað við spilamennsku eftir áramót. Að mínu mati á hann skilið eitt og hálft ár í viðbót (samanlagt 3 ár eins og Rodgers fékk) til að sýna fram á árangur. Stjórar líkt og aðrir starfsmenn þurfa að líta inn á við og sjá hvað mætti betur fara hjá sér.

    Þið sem eruð að kalla aðra svartsýna og lélega áhangendur, reynið frekar að svara mönnum efnislega svo einhver taki mark á ykkur.

  54. Smá Pollýanna,,,,, þar sem Klopp er nú ekki einn í þessu má benda á Heilan hans, Zeljko Buvac.

    Menn læra mest á sínum eigin mistökum. Zeljko Buvac hlýtur að læra ógeðslega mikið á þessum leik og öðrum tapleikjum fyrir neðrideildarliðum.

    Ég bíð eftir viðbrögðunum í næsta leikmannakaupglugga, búin að afskrifa þetta tímabil.

    Ég trúi á Klopp og hans menn…….

  55. Mánudagsleikur, bókstaflega. Skrifast á Klopp, að vera ekki klár í organdi hungraða Leicester menn. Öflugur fyrirliði sem þekkir úrvalsdeildina hefði getað bætt það upp, en slíkur var ekki á vellinum. Alvöru DM hefði líka hjálpað, en slíkur er ekki einu sinni í hóp.
    Hafa plan B og plan C klárt í næstu leiki…

  56. Gunnar Á @59

    Stutt og vinsamleg ábending til þín: Þú græðir nákvæmlega ekkert á því að tala svona og uppnefna leikmenn með þessum hætti.

    Gott ef þetta er ekki líka bara í andstöðu við reglur síðunnar.

    Homer

    Maggi:

    Leyfi þessu að standa hér með yfirstrikun, hárrétt athugað hjá Homer hérna, ummæli voru þurrkuð út vegna orðalags um leikmann LFC. Förum varlega í uppnefni og skítkast!

  57. This is typical Liverpool, you could send Liverpool a side who haven’t scored, in over 30 games, have less possession in the opponents half, have less corners, less throw ins, less fouls, less tackles, less sprints round the pitch less spits, less fucking heartbeat decibels and that would all change against Liverpool!!

  58. Þessir leikir :
    4. des. Bournemouth 4 – Liverpool 3
    2. jan. Sunderland 2 – Liverpool 2
    21 jan. Liverpool 2 – Swansea 3
    4 feb. Hull 2 – Liverpool 0
    27 feb. Leicester 3 – Liverpool 1
    Þetta eru Fjórtán mörk í fimm leikjum frá liðum í neðsta hluta deildarinnar. Þetta náttúrulega gengur ekki.
    Sóknin er ekki vandamálið því mörkin sem við skorum í þessum leikjum eiga að duga til sigurs. Vörnin er skelfileg og þetta skrifast alfarið á þá sem liðinu stjórna, Klopp og félaga. Ég er farinn að efast verulega. Titlar vinnast á góðri vörn og eitt núll sigrum. Þetta er með því versta sem maður hefur séð frá Liverpool og ég hef fylgst með þeim í 45 ár.

Leicester 3 – Liverpool 1

Podcast – Nokkrar tómar treyjur