Spartak Moskva – Lið fólksins

Á nýjum heimavelli Spartak Moskva er óvenjulega staðsett stytta af fjórum mönnum fyrir aftan annað markið, þessir menn voru bræður og með því að kynna sér sögu þeirra er auðvelt að skilja afhverju þeim er sýndur slíkur heiður. Saga þeirra er samofin sögu Spartak og meiri goðsagnir muni stuðningsmenn Spartak líklega aldrei eignast.


Fremstur í flokki þessara fjögurra bræðra var sá elsti, Nikolai Starostin og verður hann okkar aðal umfjöllunarefni, með því að kynna sér hann lærum við um magnaða sögu Spartak.

Nikolai fæddist árið 1902 eða sex árum eftir að frakkinn  Georges Duperont þýddi knattspyrnureglurnar fyrst yfir á Rússnesku. Íþróttin náði hægt og rólega fótfestu um allt landið árin fyrir byltinguna í Rússlandi og fjölgaði hratt nýjum liðum bæði stofnuðum af Rússum eða erlendum ríkisborgurum sem þekktu leikinn frá sínum heimaslóðum. Fótbolti var til að byrja með mun meira leikur hástéttarinnar í Sovétríkjunum frekar en verkamannastéttarinnar eins og tíðkaðist í Vestur-Evrópu. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar saga Spartak er skoðuð.

Starostin bræðurnir voru synir virts veiðileiðsögumanns sem tók oft að sér að skipuleggja veiðiferðir fyrir hástéttina. Nikolai var því ungur vanur því að hafa mikilsvirt fólk heima hjá sér þó fjölskyldan tilheyrði ekki hástéttinni. Þessi tengsl opnuðu dyr fyrir Starostin strákana sem komust í góða skóla. Nikolai fór í einn slíkan og kynnst knattspyrnu fyrst níu ára. Hann náði líkt og bræður sínir góðum tökum á leiknum sem og reyndar öðrum íþróttum og spiluðu þeir fótbolta á sumrin og íshokký á veturna.

Nikolai var á frábærum aldri á þessum uppvaxtarárum fótboltans í Rússlandi og varð einn besti leikmaður Sovétríkjanna eftir byltinguna 1917. Hann var fljótur og kraftmikill hægri kantmaður en hafði einnig mikla leiðtogahæfileika sem komu snemma í ljós. Hann þurfti líka að fullorðnast hratt því hann missti pabba sinn 18 ára og var elstur sex systkina. Hann spilaði með landsliði Sovétríkjanna og var m.a.s. fyrirliði liðsins í nokkrum leikjum.

Nýtt félag verður til

Árið 1922 var forveri Spartak stofnað í Krasnopresnensky hverfinu í Moskvu. Stofnandinn var Ivan Artemyev og fékk hann hinn tvítuga Nikolai Starostin til að vera sér innan handar og þá sérstaklega með knattspyrnuliðið. Nafni félagsins var seinna breytt í Krasnaya Presnya.

Starostin gekk vel og náði félagið að framfleyta sér ágætlega með miðasölu og sýningarleikjum. Það var samt engin eiginleg deildarkeppni til fyrr en upp úr 1936 er knattspyrnan var endurskipulögð í landinu. Fram að því var aðallega um svæðisbundnar keppnir að ræða. Krasnaya Presnya var óháð ríkisstofnunum og þurfti með breyttu fyrirkomulagi að fá styrktaraðila til að hjálpa með reksturinn.

Ballið var að byrja hvað knattspyrnu varðar og sem einn af frægustu íþróttamönnum þjóðarinnar hitti Starostin mikið af áhrifaríku fólki, einn af þeim var Aleksandr Kosarev sem var yfirmaður Komsomol, ungliðadeildar kommúnistaflokksins í Sovétríkjunum. Þeir fóru í veiðiferð sumarið 1934 og lögðu drög að stofnun íþróttahreyfingar sem ætti að teygja anga sína um öll Sovétríkin, hreyfingar sem þeir gáfu nafnið Spartak.  Með þeim var Ivan Epifanovich Pavlov, auðkýfingur sem var yfirmaður Promkooperatsiia samtakanna (stéttarfélag verkamanna í matvælaiðnaði) sem varð styrktaraðili félagsins.

Lið fólksins

Kosarev gat tryggt þann pólitíska stuðning sem til þurfti en félagið var engu að síður ekki flokkað sem eitt af liðum einhverrar af ríkisstofnunum Sovétríkjanna. Promkooperatsiia stéttarfélagið samanstóð af einkaaðilum eins og leigubílstjórum, hárgreiðslumönnum, sölumönnum o.s.frv. Stéttir sem voru ekki hátt skrifaðar af Kommúnistaflokknum sem taldi þessar stéttir ekki til verkamanna. Í krafti fjöldans voru Promkooperatsiia samtökin öflug og veittu nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning til að laða að bestu íþróttamenn landsins til Spartak. Höfum í huga að þar erum við ekki bara að tala um fótbolta heldur mun fleiri íþróttir.

Nikolai á Spartak nafnið og er það bein tilvísun í Spartakus, skylmingaþrælinn sem kom af stað uppreisn gegn ofríki Rómverkja. Samlíking sem átti eftir að eiga mun betur við en Starostin áttaði sig á upphaflega.

Grunnstoðir Spartak gátu ekki verið mikið frábrugðnari erkióvinunum í Dinamo sem voru lið leynilögreglunnar, NKVD (sem seinna þróaðist í hið betur þekkta KGB).

Eins og áður hefur komið fram í upphitunum fyrir leiki gegn A-Evrópskum liðum voru Sovésk lið jafnan í eigu ríkisstofnana eða stórra verksmiðja. Sem dæmi voru Dinamo liðin flaggskip lögreglunnar á meðan CSKA voru lið hersins og Lokomotiv liðin heyrðu undir samgönguráðuneytið. Spilling yfirmanna þessara deilda er samofin sögu flestra þessara félaga þar sem engin þeirra vildi tapa neinu af heiðri sínum eða sinnar stofnunar á knattspyrnuvellinum. Þessi blettur á A-Evrópskri knattspyrnu er efni í lokaritgerð í Háskóla en að þekkja aðeins til hennar er ágætt til að skilja sögu Spartak.

Spartak var ekki með nein svona tengsl við ríkisstofnun, liðið var í eigu verkalýðsfélags. Spartak var lið fólksins í Sovétríkjunum og á liðið líklega öllu betra tilkall til þess viðurnefnis heldur en t.d. hlæileg tilraun Everton á Englandi til að kalla sig “lið fólksins”.

Spartak vs Dinamo

Árið 1936 var deildarfyrirkomulagi komið á í Sovétríkjunum og tóku Moskvu liðin að sjálfsgöðu þátt í stofnun hennar. Spartak varð fljótlega vinsælt um öll Sovétríkin og var meðalaðsókn á leiki félagsins um 30.000 manns strax árið 1936. Ástæða vinsælda liðsins var ekki bara á þeim forsendum að þetta væri lið fólksins heldur vegna þess að þeir voru með bestu og vinsælustu íþróttamennina innan sinna herbúða. Starostin bræðurnir þar fremstir meðal jafningja.

Spartak var mjög öflugt frá byrjun undir þessu nýja eignarhaldi og vann titilinn bæði árið 1938 og 1939 með um 50.000 áhorfendur að meðaltali á hverjum leik.

Velgengni Spartak fór alls ekki vel í Dinamo sem fór að beita öðrum leiðum úr því þeir réðu ekki við þá innan vallar. Árið 1938 rétt áður en seinni heimsstyrjöldin braust út var Lavrentiy Beria skipaður yfirmaður NKVD (leynilögreglunnar). Samhliða því varð hann yfir Dinamo. Beria var frá Georgíu og var þekktur fyrir gríðarlega hörku sína. Stuðningsmenn Dinamo í dag telja sumir að það hvíli bölvun á félaginu vegna fortíðar félagsins og tengsla við Beria.

Beria þarna með dóttir Josef Stalin í fanginu, Stalín sjálfur í bakgrunni.

Beria og Satrostin áttu fortíð þar sem þeir höfðu mæst innan vallar rétt eftir fyrri heimsstyrjöldina. Beria var vinstri bakvörður Dinamo Tiblisi og var tekinn í kennslustund af Starostin í leiknum. Beria mundi vel eftir þessari niðurlægingu er hann tók við Dinamo í Moskvu og vildi heldur betur launa honum lambið gráa.

Sama ár og Beria tók við Dinamo var Kosarev (yfirmaður Komsol) myrtur, með honum dóu allar tengingar Spartak við kommúnistaflokkinn. Það þarf ekki að lesa mikið um sögu Stalín eða Kommúnista undir hans stjórn til að átta sig á hversu mikið áfall það hefur verið að missa þau tengsl. Félagið hafði t.a.m. ekki lengur þá vernd sem Kosarev veitti frá NKVD, Beria og Dinamo.

NKVD var búið að reyna áður, Starostin var ári áður (1937) sakaður um að reyna grafa undan kommúnistaflokknum með því að innleiða vestræn gildi hjá Spartak. Velgengni félagsins fór í stjórnvöld, eignarhaldið var vestrænt og þeir náðu að kaupa bestu íþróttamennina. Nikolai og bræður hans sluppu við fangelsi 1937 með hjálp Kosarev. Starostin hafði að vissu leiti verið að innleiða vestræn áhrif hjá Spartak því þeim var ljóst eftir knattspyrnuferðalag til Frakklands árið 1936 að Sovéskur fótbolti væri staðnaður og að dragast aftur vestrinu.

Starostin bærðurnir voru því í vondum málum er Beria lét til skarar skríða á nýjan leik árið 1942. Nikolai var handtekinn fyrir framan konu og börn, sama átti við um alla bræður hans ásamt fleiri nánum þeim. Þau voru tekin til yfirheyrslna í hinum alræmdu höfuðstöðvum NKVD (KGB) í Lubyanka. Beria pyntaði fram játningar nokkra íþróttamanna Spartak þess efnis að bræðurnir hefðu ætlað að myrða Staíln árið 1936 er frægur leikur Spartak gegn varaliði Spartak fór fram á Rauða Torginu í Moskvu að Stalín viðstöddum, en þetta var fyrsti leikurinn sem Stalín var viðstaddur. Þessar ásakanir voru því mjög alvarlegar og var Nikolai Starostin í um eitt og hálft ár í Lubyanka þar sem hann var neyddur til að halda sér vakandi dag og nótt í gegnum endalausar yfirheyrslur þar til hann tapaði loks öllu tímaskyni.

Forsagan er auðvitað töluvert lengri en þetta, það fór mjög í Beria að Spartak vann allt árið sem hann tók við Dinamo og Nikolai sem áður hafði niðurlægt hann á vellinum var ennþá aðalstjarnan og einn vinsælasti íþróttamaður landsins. Sem dæmi um hversu langt Beria gekk var bikarkeppnin árið 1939. Spartak mætti öðru liði NKVD í undanúrslitum, Dinamo Tbilisi, gamla liði Beria. Leikurinn fór 1-0 en leikmenn Dinamo mótmæltu marki Spartak undir lok leiksins á þeim forsendum að boltinn hefði ekki farið yfir línuna. Ekkert var gert í því, Spartak fór í úrslitaleikinn og vann keppnina. Þá var ákveðið að taka málið upp aftur og ákveðið (eftir tímabilið) að undanúrslitaleikurinn skyldi spilaður aftur. Beria var þarna að baki og sýndi bæði mátt sinn og Dinamo samfélagsins í Sovéskum íþróttum. Spartak vann hinsvegar leikinn aftur þrátt fyrir langt tímabil og töluverð meiðsli. Það var ákveðið að spila ekki úrslitaleikinn á ný.

Deildarkeppninni var hætt á miðju tímabili 1941 vegna seinni heimsstyrjaldarinnar en Satarostin var eins og áður segir enganvegin óhulltur frá Beria. Eins og áður segir var Spartak lið fólksins og Starostin bræðurnir gríðarlega vinsælir meðal almennings í Sovétríkjunum, ógn auðvitað að mati Kommúnistaflokksins.

Eftir eitt og hálft ár í fangelsi NKVD með tilheyrandi harðræði voru bræðurnir dæmdir í 10 ára þrælkunarvinnu víðsvegar um Sovétríkin. Ásökunum um morðtilræði á Stalín voru felldar niður en þeir voru dæmdir fyrir að aðhyllast vestræn gildi og tilrauna til að innleiða kapitalísk gildi í Sovéskar íþróttir. Þetta þótti heldur léttvægur dómur og til merkis um sakleysi bræðranna enda ásakanirnar að mestu leiti galnar og fengnar með mjög vafasömum hætti. Starostin sagði sjálfur að vinsældir þeirra meðal milljóna knattspyrnuaðdáenda um öll Sovétríkin hefðu skapað nógu mikla pressu til að bjarga lífi þeirra.

Gúlag

Saga bræðrana í Gúlaginu er líklega ekki eins og flestra, fótbolti var í hávegum hafður þar eins og annarsstaðar. Vinsældir og frægð Spartak og Starostin bræðrana um öll Sovétríkin komu sér því áfram vel því þeir áttu aðdáendur allsstaðar sem voru til í að gera nánast allt fyrir þá, jafnvel í Gúlaginu.

Raunar átti það ekki aðeins við um fangana því stjórendur búðanna báru einnig mikla virðingu fyrir Starostin nafninu og vildu að fótboltalið sinna búða væri undir stjórn Satrostin. Nikolai sagði t.a.m. eitt sinn frá því hvernig hann komist að því að Alexander bróðir hans hefði einnig verið handtekinn og sendur í Gúlagið (og væri yfir höfuð á lífi). Hann heyrði samtal yfirmanna er þeir voru að metast fyrir knattspyrnuleik milli búðanna, annar sagði að sitt lið mynd vinna auðveldlega þar sem það væri með Starostin sem þjálfara (Alexander). Hinn svaraði á móti að hans lið væri einnig með Starostin sem þjálfara (Nikolai).

Nikolai orðaði þetta vel í ævisögu sinni:

“Their [the guards] unbridled power over human lives was nothing compared to the power of football over them.”

Það var lið í hverjum búðum í Gúlaginu og það gat haft mikil áhrif á vist fanga að geta spilað íþróttina (eða þjálfað). Nikolai var ekki í sömu búðunum allan tímann heldur flakkaði hann töluvert á milli rétt eins og bræður sínir og höfðu þeir er upp var staðið farið um nánast öll Sovétríkin, reynsla sem þeir bjuggu að seinna. Eitt sinn var Nikolai færður til Austurhluta Sovétríkjanna að beiðni hershöfðingja til að stjórna liði hans fangabúða, Dinamo Komsomlsk. Þannig að ofan á allt annað var Nikolai farinn að stjórna Dinamo liði (sem hann gerði í tvö ár, 1945-46). Hann þjálfaði fleiri Dinamo lið áður en hann hafði afplánað dóminn.

Fleiri vildu fá hann til að stjórna sínu liði, einn þeirra var sonur Stalíns, Vasilay sem hafði kynnst Nikolai á fjórða áratugnum í gegnum dóttur Nikolai. Vasilay fékk hann til Moskvu árið 1948 til að byggja upp íþróttadeild Flughersins. Starostin var tekin beint á heimili Vasilay til að fylla út umsókn um leyfi til að búa í Moskvu áður en hann fór heim til konu og barna (sem hann hafði ekki séð í 6 ár). Adam var þó lengi í paradís því Beria var ennþá valdamikill og kom í veg fyrir að Starostin fengi leyfi til að búa í Moskvu á ný, leynilögreglan bankaði uppá og gaf honum 24 tíma til að yfirgefa Moskvu. Starostin varð peð í valdabaráttu Beria og Vasilay og bjó á heimili Vasilay í tvo mánuði á meðan hans mál voru útkljáð. Vaslay vissi að enginn myndi þora að snerta hann þar og voru þeir saman öllum stundum og bannaði Vasilay honum að yfirgefa húsið án sín. Niklolai saknaði hinsvegar fjölskyldunnar og laumaðist út eina nóttina er Vaslilay hafði sofnað áfengisdauða. NKVD handtók hann morguninn eftir og ætlaði að senda hann til austurhluta landsins. Menn á vegum Vasilay komust að þessu og náðu að stoppa lestina og ætluðu með hann aftur til Moskvu. Starostin bað hinsvegar um að fá að fara til Suður Sovétríkjanna í staðin og Vasilay samþykkti það gegn því að hann myndi þjálfa heimaliðið þar. Þannig endaði Nikolai Starostin í Kazakhstan, þar skildi hann heldur betur eftir sig spor líkt og annarsstaðar.

Nikolai var sjálfur þannig séð ekki of ósáttur við þá niðurstöðu að mega ekki vera í Moskvu, hann sagði eitt sinn að eins hræðileg sóun og tími sinni í fangabúðunum var þá var hann a.m.k. fjarri Beria.

“It is really sad to have lost these years in Gulag. But a man with character needs to calm down. I calmed down because those years were not wasted in vain. A lot of things in life helped me to learn, gave me the opportunity to know my own country : From Ukhta to Vladivostok, Inta to Alma-Ata. And where was football, as this may be strange, turned out to be a place without Beria. A fan is a fan everywhere.”

Starostin var sendur til Kazakhstan þar sem hann þjálfaði Dinamo Alma-Alta í fimm ár. Þetta lið varð seinna Kairat Almaty og á stóran hluta velgengni sinnar seinna meir Starostin að þakka en þetta var eina liðið frá Kazakhstan í efstu deild Sovétríkjanna. Hann lagði grunn að veldi þeirra.

Þetta var bara fyrri hálfleikur hjá þessum ótrúlega manni. Hann var bara rétt að byrja með Spartak. Nikolai Starostin var ekki aðeins einn besti leikmaður síns tíma heldur varð hann goðsögn sem yfirmaður Spartak.

Endurkoma Starostin til Spartak

Jósef Stalín drapst árið 1953 og eftir að hafa reynt að ná völdum án árangurs var Beria tekinn af lífi seinna sama ár. Þetta þýddi að Starostin bræðurnir gátu snúið aftur heim ásamt þúsundum annarra pólitískra fanga sem margir hverjir höfðu fengið dóm á svipað sterkum grunni og bræðurnir. Spartak var aftur komið á toppinn í Sovéskum fótbolta og vann deildina 1952 og 53 er bræðurnir sneru aftur til síns heitt elskaða Spartak. Beria drepst vitandi að Spartak var aftur orðið betra en Dinamo.

Það er kannski til marks um hversu stór Nikolai Starostin var innan knattspyrnunnar í Rússlandi að um leið og hann kom út 10 ára vist í fangabúðum var hann ráðinn sem þjálfari hjá landsliðinu. Hann sneri aftur til Spartak árið 1955 og tók aftur við stöðu framkvæmdastjóra félagsins, stöðu sem hann hélt til 1992 er hann var níræður.

Ef hann var sigursæll sem leikmaður var það ekkert á við afrek hans sem stjórnandi Spartak. Er hann sneri aftur var gullaldarskeið félagsins rétt að byrja og fór hann eftir það í gegnum súrt og sætt með félaginu. Nikolai var samt alls ekki neinn einræðisherra hjá Spartak, hann hafði mikla trú á sínu fólki og sýndi það oft í verki. Sem dæmi réði hann 33 ára þjálfara árið 1960 sem þótti töluvert djarft, ákvörðun sem skilaði tveimur titlum og þremur bikurum.

Annað og líklega betra dæmi er ráðning Konstantín Beskov er Spartak féll ovænt í næst efstu deiild árið 1976. Beskov var fyrrverandi leikmaður Dinamo og í ofanálag fyrrverandi stjóri allra hinna Moskvu liðanna, Dinamo, CSKA, Torpedo og Lokomotiv. Hann var þvi vægast sagt óvinsæl ráðning en Starostin vissi hvað hann var að gera.

Endurkoma Spartak var stórglæsileg með Beskov í brúnni, hann fékk Spartak til að spila einhvern besta fótbolta sem sést hafði í Sovéskum fótbolta og náði að byggja upp lið sem varð það besta í Sovétríkjunum næsta áratuginn og lét einnig til sín taka í Evrópu. Einn af þekktari leikmönnum Spartak frá þessum tíma var t.d. goðsögnin Rinat Dasayev.

Þegar tími Beskov var á enda var Starostin enn einu sinni með ás upp í erminni. Hann hafði í sex ár undirbúið fyrrum varnarmann liðsins, Oleg Romantsev fyrir stjórastöðu Spartak, Oleg var þjálfari hjá Krasnaya Presnya, dótturfélagi Spartak. Oleg var einn besti leikmaður Spartak undir stjórn Beskov en hætti sem leikmaður árið 1983 og var tilbúinn er stóra kallið kom 1989. Undir stjórn Romantsev fór Spartak inn í nýjan raunveruleika við fall Sovétríkjanna og vann í leiðinni níu titla og fjóra bikara.

Starostin skildi því við Spartak eins og hann tók við þeim, efstum. Hans áhrif náðu þó víðar en það því hann var einn af aðalmönnunum á bak við stofnun Rússnesku deildarinnar eftir fall Sovétríkjanna. Hann ásamt Romantsev og fleirum skrifaði undir plagg þar sem hafnað var að taka þátt í nýrri deild, CIS sem átti að taka við af Sovésku deildinni. Starostin hafði lagt til atvinnumannadeild 55 árum fyrr sem var grunnurinn að þungum dómi hans. Draumur hans varð loksins verða að veruleika er hann var um nírætt, Rússneska Úrvalsdeildin.

Það verður líklega ekki tekið af Nikolai Starostin að hann var grjótharður allt sitt líf en hann dó árið 1996 þá 94 ára gamall og var ennþá æðsti maður hjá Spartak. Hann er lang áhrifamesti maður í sögu Spartak og ekki síður Rússnesks fótbolta, jafnvel kallaður faðir Rússnesks fótbolta.

Hans verki í Rússneskum fótbolta var lokið og það er því kannski við hæfi eftir allt þetta að hann standi ennþá ásamt bræðrum sínum inni á heimavelli Spartak.

Stuðningsemenn Spartak

Stuðningsmenn Rússneskra liða (og landsliðsins) eru í seinni tíð líklega þekktari í vestur-Evrópu heldur en leikmenn liðanna, það kemur ekki til af góðu. Spartak hefur ekki verið eins mikið í Evrópu undanfarin ár og liðið var undir lok síðustu aldar en stuðningsmenn liðsins voru ekkert að tvínóna við hlutina í fyrsta leik Meistaradeildarinnar þetta árið og reyndu að skjóta niður dómarann!

Spartak Moskva er stærsta lið landsins og þeir eru klárlega partur af vandamálinu sem þó er landlægt í Rússlandi. Þetta eitt og sér er efni í aðra færslu enda Rússnesk stjórnvöld meira umhugað um að hafa hörðustu stuðngsmenn liðanna (Ultras) á sínu bandi heldur en að koma í veg fyrir ólæti þeirra. Það getur komið sér vel að hafa þá á sínu bandi ef bæla á niður mótmæli af einhverju tagi. Þetta er samt alls ekki svo að allir stuðningsmenn Rússneskra liða séu jafn slæmir og ímyndin af þeim er.

Fratria sem er gríska orðið yfir bræðralag er stærsti stuðningsmannahópur Rússlands, það er harðasti kjarni Spartak. Þeir eru fyrir aftan markið á heimaleikjum og ferðast með liðinu hvert á land sem er sem er meira en að segja það í Rússlandi. Þessi hluti stuðningsmanna Spartak er mjög litskrúðugur og hávær. Þeir leggja mikið upp úr fánum og borðum á leikjum, þeir syngja allann leikinn og líta á það sem sjálfsagðan hlut að smygla inn blysum. Það er bannað í Rússlandi en gengur augljóslega illa að framfylgja því.

Það er eins og Rússar séu 30 árum á eftir þegar kemur að fótboltabullum. Það er ennþá algengt að stuðngsmannalið mæli sér mót fyrir leiki til að slást og þeir sýndu í Frakklandi í fyrra að hugsunarhátturinn er ekki ósvipaður því sem sást á leikjum Englands fyrir um 30 árum. Rétt eins og í Englandi þá er þarna verið að tala um lítinn hluta stuðningsmanna liðanna sem skemma fyrir öllum hinum. Rússarnir eru þó jafnvel grófari en fótboltabullurnar voru í gamla daga, hjálpar ekki að nánast allir hafa lokið einhverskonar herþjálfum enda herskylda í Rússlandi.

Mestu lætin fyrir leiki Spartak heimafyrir er þegar Moskvu liðin mætast, mest er hatrið milli CSKA og Spartak. Dinamo er ekki eins fyrirferðamikið lengur þar sem liðin hafa ekki verið í mikilli barátti í deild. Dinamo hefur ekki unnið titil síðan 1976 og þeirra stjarna hefur fallið í skugga Spartak og CSKA. Dinamo féll m.a.s. í fyrsta skipti í sögu félagsins árið 2015 við vægast sagt mikinn fögnuð stuðningsmanna Spartak en þeir komu upp aftur á síðasta tímabili.
Það voru alltaf fimm stór lið í Moskvu og flestum líkaði frekar illa við hvort annað.

Hvað Rússar þurftu að borga forsvarsmönnum FIFA undir borðið til að fá HM 2018 væri mjög gaman að vita, hreinlega sturluð ákvörðun miðað við það sem gengur á í leikjum í Rússlandi eða bara meðal stuðningsmanna landsliðsins. BBC gerði heimildarmynd um stuðningsmenn Rússa í Frakklandi og dró þar upp vægast sagt ljóta hlið á þeim. Það verður að gefa stuðningsmönnum Spartak að þeir svöruðu ágætlega fyrir sig á heimaleik í kjölfarið.

Það kom bara í ljós í þessari viku að áhorfendur yrðu yfirhöfuð leyfðir á þessum leik eftir að Spartak reyndi að skjóta niður dómarann. Niðurstaðan var að Spartak fær ekki að selja stuðningsmönnum sínum miða á útileikina. Manchester United verður í Moskvu daginn eftir Liverpool leikinn og eru einhverjar áhyggjur af ólátum þeirra á milli. Eftir að hafa lesið um stuðningsmenn Rússneskra liða grunar mig að stuðningsmenn Liverpool og United komi til með að standa mjög þétt saman komi til að á það verði reynt, vonum ekki.

Heimavöllur Spartak

Spartacus var innblástur Nikolai Starostin þegar félagið fékk Spartak nafnið. Rétt eins og Starostin bræðurnir fengu sitt pláss innanvallar þá er Spartacus klár í slagin fyrir utan nýjan heimavöll Spartak. Reyndar er þessi eldri kona á hlaupahjóli einnig klár í slaginn og óvæntur MVP á þessari mynd.

Spartak átti í raun aldrei einn eiginlegan heimavöll og hefur í gegnum tíðina spilað heimaleiki sína á nokkrum mismunandi völlum í Moskvu. T.a.m. aðal þjóðarleikvangnum, Luzhniki vellinum. Á þeim velli létust 66 stuðningsmenn Spartak í hræðilegu slysi árið 1982 eftir að mikill troðningur myndaðist undir lok leiksins. Lokaleikur HM mun einmitt fara fram á Luzhniki vellinum.

Vinna við nýjan heimavöll hófst árið 2007 en seinkaði af mörgum mismunandi ástæðum þannig að verkið tók á endanum sex ár. Árið 2010 var hönnun vallarins m.a. hafnað þar sem hann þótti of venjulegur og óspennandi. Eigandi félagsins milljarðamæringurinn Leonid Fedum fjármagnaði völlinn í gegnum félög í hans eigu. Völlurinn er á gömlum flugvelli og nálægt neðanjarðarlestarstöð sem var opnuð samhliða vellinum. Völlurinn heitir í dag Otkrytiye Arena en Otkrytaiye er banki í Rússlandi og aðal styrktaraðili Spartak.

Völlurinn var formlega opnaður 5.september árið 2014 er Spartak spilaði vináttuleik við helsta vinaklúbb félagsins, Rauðu Stjörnuna frá Belgrade. Hann tekur rúmlega 45.þúsund manns sæti og er allur hinn glæsilegasti. Opnunarleikur HM verður líklega á þessum velli.

Spartak liðið í dag

Spartak eru ríkjandi meistarar í Rússlandi en þeir höfðu ekki unnið titilinn síðan 2001. Þá hafði Spartak liðið unnið 9 af 10 fyrstu tímabilum hinnar nýju Rússnesku Úrvalsdeildar sem Starostin hjálpaði að koma á laggirnar.

Þjálfari liðsins er Massimo Carrera, hann var á árum áður samherji Conte hjá Juventus og var aðstoðarmaður hans er Conte tók við Juventus seinna sem þjálfari. Carrera tók við fyrir tímabilið 2016-17 er Dmitri Alenichev hætti óvænt með liðið í kjölfar þess að Spartak mistókst að komast í Evrópudeildina, liðið tapaði skammarlega í umspili fyrir AEK Larnaca F.C. Guð má vita hvaðan þeir eru.

Carrera var upphaflega hugsaður sem tímabundin ráðning en stóð sig svo vel að hann fékk starfið formlega. Enginn stjóri í sögu Spartak hefur byrjað jafn vel og Carrera en liðið náði í 28 stig í fyrstu tólf umferðunum. Þeir héldu út og lönduðu titlinum með sjö stiga forystu á næsta lið.

Spartak hafa byrjað titilvörnina illa á þessu tímabili og eru í 8.sæti með 13 stig eftir 10 umferðir. Það er engu að síður ljóst að þetta er gott lið með gríðarlega öflugan heimavöll.

Spartak hefur þó ekkert gengið í Evrópu undanfarin ár. Liðið hefur ekki unnið neinn af átta síðustu leikjum sínum eða síðan liðið vann Benfica 2-1 árið 2012. Þeir hafa aðeins unnið fjóra af síðustu sautján heimaleikjum sínum í Evrópu og tapað ellefu.

Hafa ber í huga að þetta er samt allt annað Spartak lið en á bróðurpartinn af þessari tölfræði.

Þessi lið hafa mæst tvisvar áður. Spartak flengdi Liverpool illa tímabilið 1992/93 og vann samanlagt 6-2, Souness með allt á hreinu. Liðin voru svo saman í riðli Meistaradeildarinnar 2002/03, Liverpool vann viðureignir liðanna sannfærandi 8-1 en tókst samt að fara ekki áfram eftir að hafa klúðrað leikjum sínum gegn Baesl. Ég er ennþá pirraður yfir þeim leik.

Lið Spartak er blanda af Rússeskum leikmönnum og góðum Brössum. Einn besti leikmaður liðsins er svo hollendingurinn Quincy Promes sem oft hefur verið orðaður við Liverpool undanfarið. Það bíður samt betri tíma að kafa nánar ofan í lið Spartak.

Liverpool

Liverpool hefur sex sinnum spilað í Rússlandi, unnið þar þrjá leiki og tapað þremur. Ef liðið nær að spila jafn vel og gegn Sevilla ætti Spartak ekki að vera mikil fyrirstaða en við vitum að þetta er auðvitað ekki svona auðvelt. Rússarnir munu selja sig dýrt í þessum leik, innan sem utan vallar og höfum í huga að Liverpool náði aðeins í eitt stig á útivelli síðast þegar liðið komst í Meistaradeildina.

Það kemur sér reyndar mjög vel að útileikurinn gegn Spartak er í September. Heimaleikurinn er 6.desember og þá er jafnan ekki spennandi að eiga útileik í Rússlandi. Veðrið verður ekkert vesen í þessum leik.

Byrjunarliðið
Það er alveg með ólíkindum hversu erfitt það hefur reynst Liverpool undanfarin þrjú ár að stilla upp sínu sterkasta byrjunarliði. Vissulega eru alltaf einhverjir meiddir en Liverpool nánast þekkir það ekki að spila með fullskipað þið. Það mun ekki breytast í þessum leik gegn Spartak en engu að síður verður þetta fyrsta tækifæri Klopp að stilla upp fjórum fremstu leikmönnum liðsins á sama tíma. Einum og hálfum mánuði eftir að mótið hófst.

Ef að allir eru heilir gæti ég trúað að Klopp fari all in í þennan leik hvað sóknarleikinn varðar. Mané kemur inn og einn af miðjutríóinu víkur fyrir Coutinho. Persónulega held ég að Wijnaldum verði sá sem fer á bekkinn.

Joe Gomez er í banni og líklega kemur TAA inn í staðin. Ósanngjarnt að krefjast of mikið af Trent Alexander strax enda aðeins 18 ára en þeir þurfa báðir að stíga aðeins upp. Liverpool hefur saknað Clyne undanfarið og það er vegna erfiðleika Gomez og TAA. Það kostar mistök að gefa svona ungum leikmönnum séns og við erum að verða vitni af því. Verst er að þessi varnarlína má ekki við fleiri mistökum.

Dejan Lovren var afleitur í upphafi leiks gegn Leicester en vann sig blessunarlega vel inn í hann. Hann er vonandi klár í Spartak leikinn líka því Klavan hefur sannað það undanfarið að hann er jafn góður valkostur í staðin fyrir hann og Adam Bogdan var fyrir Mignolet.

Karius kemur í markið og ég fagna því. Mignolet var reyndar óheppinn með dómara í síðasta leik og bjargaði sér vel með að verja enn eitt vítið en ég held að hann sér partur af heildar vandamáli liðsins varnarlega og það sé aðalástæða þess að Klopp er að reyna finna mínútur fyrir Karius og Ward.

Karius

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Henderson – Can

Salah – Coutinho – Mané

Firmino

Vonandi er Emre Can aftastur á miðjunni eða samsíða Henderson í meira 4-2-3-1 kerfi sem mér fannst Liverpool aðeins vera nota í síðasta leik frekar en hið hefðbundna 4-3-3 sem liðið hefur verið að spila. Henderson var frábær í síðasta leik, vann boltann mjög oft og hóf sóknir Liverpool. Með Can og Henderson djúpa og þessa fjóra fyrir framan sig ætti holning liðsins að batna.

Mögulega notar Klopp hópinn aðeins meira en ég spái hérna, Milner, Ox, Robertson og Sturridge allt kostir í stöðunni.

Spá:

Það er fullkomlega vonlaust að spá fyrir Liverpool leiki, mér fannst liðið frábært í fyrri hálfleik gegn Sevilla sem er mun sterkara lið. Leicester leikurinn um helgina gaf fín fyrirheit og við bætum ferskum Mané við. Tilfinningin er því nokkuð góð og ég ætla að spá því að Liverpool klári Spartak sæmilega sannfærandi, 0-3 og fremstu þrír skora allir.

36 Comments

  1. Virkilega flott umfjöllun um sögu Spartak.

    Í sambandi við liðið þá tel ég að Klop mun rótera aðeins og spái ég því að við sjáum Sturridge í liðinu og jafnvel tækifæri fyrir Ox að byrja.
    Ég spái því að miðjan okkar verður Winjaldum, Henderson, Coutinho með OX, Sturridge, Mane fyrir framan sig.

  2. NÚLL -3 Frábær upphitun en Liverpool að halda hreinu er aldrei að fara að gerast. Mín spá er 1-3 í erfiðum leik og Liverpool mun vera heppið í þessum leik.

  3. Vá takk fyrir þessa frábæru kynningu á Spartak Einar. Ég er ekki alveg jafn bjartsýnn og þú held við fáum á okkur 1 snemma enn klárum 1-3.

  4. Skemmtileg lesning og hafðu þakkir fyrir það!

    Ég held að liðið muni eiga góðan leik og Mané nái þrennu í leiknum sem endar 3-2…..

  5. Sælir félagar

    Það er ekkert hægt að gera annað en þakka kærlega fyrir þessa sögu og upphitun. Spáin fyrir úrslitunum er líka verulega ásættanleg.

    Það er nú þannig

    YNWA

  6. Frekar lítill metnaður í þessari upphitun !
    Braga upphitunin var fleiri blaðsíður 😉

    YNWA

  7. Vá, takk fyrir mig evrópu-Einar!
    Tær snilld eins og alltaf þessar upphitanir í evrópu 🙂

  8. Þvílík ofurupphitun!
    Ég spái 1-2 Grujic með annað mark Liverpool

  9. Takk fyrir frábæra og fræðandi samantek.

    Maður hreinlega skilur ekki af hverju það er ekki Kop.is-ferð á þennan leik 🙂 #djók

  10. Ég spái að Salah taki þrennuna og næsta skrefið í að verða Liverpool Legend….
    :O)

    Enda heitir fantasy PL liðið mitt Team Salah….!

  11. Fróðleg og skemmtileg upphitun.

    Óska eftir Millner í hægri bak. Hann hefur að minnsta kosti sést á bílum með stýrið hægra megin undanfarið sagði mér leigubílstjóri.

  12. Sæl og blessuð.

    Þessir pistlar á kop.is jafnast á við það ærlegasta sem finna má á netslóðum. Greinargerðin um Leicester spennutryllinn var lipurlega skrifuð og ég skil ekki sjálfur af hverju fólk skilur ekki í greinarhöfundi fyrir að skilja ekki í Migno, blessuðum sem skilur leikinn ekki alltaf.

    Hér er innihaldsrík samantekt sem leiðir vel í ljós þá mörgu snertifleti sem eru á milli hins tímalausa og tvívíða grasvallar og svo átaka í rauntíma í margvíðu samfélagi dauðlegra manna.

    Hvað varðar þennan leik þá læðist að mér sá notalegi grunur að tannhjólagangur varnarinnar sé loks að komast í eðlilegan gang. Septembermánuður er senn að baki og þindarlaus heilabrot hafa farið fram á æfingasvæði um það hvernig bæta megi ónæmiskerfi liðsins. Sú vinna ætti að fara að skila árangri.

    Nýir tímar eru í vændum, kæru systkin, ef kennd mín er sönn. Ég leyfi mér að spá því að senn heyri það til ungantekninga að við fáum á okkur tvö mörk í leik. Lakið verður hvítt og bjart og þar varða fáir eða jafnvel engir blettir sem hingað til hafa myndast við þrálátan leka varnar og verju.

  13. Takk fyrir geggjaða upphitun. Verður hrikalega erfiður leikur og spái ég 1-1. Salah setur.
    Veit einhver hve marga leiki Salah hefur spilað og ekki skorað fyrir Liverpool?

  14. Það er heeeeeelvíti hart (sagt með rödd Gaua Þórðar í team-talkinu fræga með KR) þegar upphitunin er svo góð að maður heldur nánast með mótherjanum. Vel gert!

    2-4 fyrir Liverpool.

  15. #18

    Salah er allavega markahæstur í liðinu með 5 mörk enn í hvað mörgum leikjum hefur ekki skorað ? kanski 1 til 2 leikir eða hvað 3 ?

  16. Glæsileg sögustund.
    Grjótharður gaur þessi Nikolai.

    Þetta verður bráðskemmtilegur leikur.
    Mín spá er 2-4 (1-3 í hálfleik)

    Ég held að Klopp tefli öllu sínu besta liði fram sem er uppstilling Einars.
    Við fáum svo varamenn inn sem skila sínu.
    Sturrigde skorar á 83ju eftir að Coutinho, Salah og Mané hafa skilað þremur í fyrri.

    Nema þetta fari einhvern veginn öðruvísi.
    YNWA

  17. Takk fyrir mjög góða upphitun, alger fagmennska og maður hefur enga þörf fyrir að skoða aðrar síður til að hita sig upp fyrir leikinn á morgun! Vinnum 1-2 Salah og Mané með mörkin.

  18. Algjörlega frábær upphitun, Einar. Takk fyrir mig!

    Ég er nokkuð bjartsýnn fyrir þennan leik, ekki viss hvort það sé gott eða slæmt. Ætla að skjóta á 1-3 sigur okkar manna.

    YNWA

  19. Takk fyrir þessa fræðandi lesningu.
    Góð hvíld frá frasa og fyrirsagna heimi dagsins í dag.

  20. Frábær lesning babù, takk fyrir. Þvìlìk saga þarna. Held bara með Spartak nùna ì rùssnesku deildinni.

    Held að Klopp ròteri ekki mikið. Nema auðvitað Karius og Trent. Það verða að nást 3 punktar þarna. Samt auðvitað forvitnilegt hvernig miðjan verður. Can og Hendo lìta örugglega overall betur ùt ef þeir sitja dýpra og kùtur sem free-role tìa með rakketturnar á köntunum. Firmino hefur aðeins dottið ùr gìrnum ì sìðustu leikjum. Spurning um að byrja með Studge sem kom sterkur inná sìðast. Allt annað en sigur er òásættanlegt. Come on you reds!

  21. Þessi fréttamannafundur hjá Klopp í gær var í meira lagi skondinn.

    Fréttamaðurinn spyr hvort hann sé ástfanginn af einhverjum í liðinu og þýðandinn vissi ekki hver Coutinho,Promes eða Harry Kane voru.

    This is a waste of time….

  22. Það er spurning um að krefjast heimildaskràr. Mjög skemmtileg lesning um ansi àhugaverða tìma.

    Nùna gerist, það. Kanè og Salah fara hamförum með 5 mörk saman en Firminho samt maður leiksins.

  23. Fréttamannafundurinn í Moskvu var yndislegur. Ástarjátningar í garð leikmanna og annað eftir því.

    Einn blaðamaðurinn spurði hvað Klopp fyndist um að fimm leikmenn einhvers liðs hefðu tæklað einn leikmann Spartak. “Við hjá Liverpool myndum aldrei ráðast fimm á einn Spartak mann. Bara fjórir…” sagði hann svo í hálfum hljóðum.

    Þessi blaðamannafundur var ansi skrautlegur sjá…https://www.youtube.com/watch?time_continue=1&v=E4BjSCE2KEw

  24. Frábær upphitun að vanda. Bara eitt: Þetta er væntanlega Svetlana Stalin sem er í fanginu á Beria… 🙂

  25. Karius – Arnold, Robertson, Lovren, Matip; Can, Henderson, Coutinho; Mane, Salah, Sturridge

    Ég vona að þetta verði liðið í kvöld.
    Gefa Sturridge tækifærið

  26. Takk fyrir afar vandaða og ofurítarlega upphitun. Það er ótrúlegt hvað er dekrað við okkur stuðningsfólk hér á þessari síðu!

    Sammála byrjunarliðinu nema að mig grunar að Sturridge komi inná í stað Firmino. Eins mikið og mig langar að sjá ,,Fab four” hleypt saman inn á grænu grundirnar í fyrsta skipti á tímabilinu, þá fannst mér Firmino virka þreyttur í síðasta leik og gæti hann þurft að fá að hlaða rafhlöðurnar sínar aðeins.

    Vinnum þetta með þremur flottum mörkum. Karius fær á sig tvær tuðrur í netið en mun samt standa sig vel.

  27. Geggjuð lesning og gaman að. Ætla að vera bjartsýnn og spá 0-4 leik. 3 lightweight punktar framundan

  28. Held það sé ekkert til sem heitir lightweight punktar í meistaradeild evrópu 🙂

Leicester 2 – 3 Liverpool

Byrjunarliðið gegn Spartak