Southampton á sunnudag.

Á morgun bregða okkar menn sér suður á bóginn, ekki þó strax til Portúgal, heldur til Southampton og etja þar kappi við lærisveina vinar okkar Mauricio Pellegrino. Oft var þörf en nú er nauðsyn á þremur stigum í seinni hluta mótsins og línur munu skýrast nokkuð í næstkomandi leikjum.

 

Sagan

Tölfræðin er Liverpool í hag þegar kemur að leikjum gegn Southampton. Liðin hafa mæst 107 sinnum í öllum keppnum um ævina og hafa Liverpool sigrað í 52 skipti, tapað 30 sinnum og í 25 skipti hafa liðin skilið jöfn. Ef við horfum á seinustu tuttugu skipti sem liðin hafa mæst eru úrslitin ekki sérstök því sigrar og töp hafa skipst nánast jafnt á milli liðanna þar sem Liverpool hafa sigrað níu sinnum, Southampton átta sinnum og þrisvar hafa liðin skilið jöfn. Í fimm af þessum átta leikjum höfum við tapað á þeirra heimavelli og því er ljóst að við eigum erfitt með Dýrðlingana suður frá.

Þessar tölur segja að sjálfsögðu ekkert um leikinn á morgun og eru mest settar inn til að hafa gaman af. Rússibanalið Liverpool jarðar flesta tölfræði þessi misserin.

Þegar sagan á milli þessara liða er skoðuð er vart komist hjá því að minnast á leikmannakaup á milli liðanna. Viðskiptin hafa nær eingöngu farið fram í aðra áttina utan þess þegar Bruce Grobbelaar fór frítt til þeirra árið 1994 eftir farsælan feril á Anfield. Liverpool hafa samtals verslað leikmenn frá Southampton fyrir 174 milljónir punda og eru gárungar farnir að kalla Southampton Liverpool B.  Þessir leikmenn hafa verið keyptir frá Southampton síðan 2005:

Peter Crouch 7 milljónir punda 20. júlí 2005

Rickie Lambert 4,5 milljónir punda 2. júní 2014

Adam Lallana 25 milljónir punda 1. júlí 2014

Dejan Lovren 20 milljónir punda 27. júlí 2014

Nathaniel Clyne 12,5 milljónir punda 1. júlí 2015

Sadio Mané 30 milljónir punda 28. júní 2016

Virgil Van Dijk 75 milljónir punda 1. janúar 2018

Flest þessara kaupa eru að mínu mati góð utan Rickie Lambert sem þó kostaði ekki mikið. Crouch skilaði ágætu verki, Lallana hefur verið fínn sérstaklega á síðasta tímabili en verið mikið meiddur á þessu, utan þess sem hann myndi sjálfssagt kosta 50 milljónir í dag verandi enskur landsliðsmaður. Lovren er ekki sá afgerandi leikmaður sem vonir stóðu til og vantar enn stöðugleika í leik sinn eftir þrjú ár hjá félaginu en hann er góður í hóp og spurning hvort Klopp ætli honum framtíðarstöðu við hlið Van Dijk. Clyne var oftar en ekki jafnbesti maður liðsins og spilaði flest alla leiki fyrir þessi löngu meiðsli sem hann hefur þjáðst af allt þetta tímabil fyrir utan að verðið sem hann fékkst á er djók sé miðað við daginn í dag. Hann er svo kominn í meistaradeildarhópinn og við skulum vona að hann sé að ná sér og nái fullum styrk á ný. Mané hefur verið frábær sérstaklega á síðasta tímabili og 30 milljónir eru ekki mikið fyrir leikmann af hans kaliberi. Hann lenti að vísu í leiðindameiðslum í haust og hefur átt aðeins erfitt síðan en við vitum öll hvað hann getur og bara spurning hvenær hann dettur í fimmta gír. Virgil Van Dijk er svo ennþá önnur umræða þar sem sú upphæð gerði hann að dýrasta varnarmanni heims og tíminn verður að leiða í ljós hvort hann verði það legend sem við vonumst eftir. Ég hef a.m.k fulla trú á honum.  Af þessum sökum eru stuðningsmenn Southampton ekkert að elska Liverpool og má búast við miklu bauli úr þeirra röðum á morgun. Eigendurnir aftur á móti hafa nokkrum sinnum farið brosandi í bankann.

Af leikmönnum sem hafa leikið fyrir bæði lið ber að sjálfssögðu líka að nefna Kevin Keegan sem fór til Southampton með viðkomu í Hamborg og Uxann okkar Chamberlain sem ólst upp hjá Southampton áður en hann fór til Arsenal.

 

Southampton

Southampton sitja í 15. sæti deildarinnar með 26 stig og mínus tíu í markatölu, hafa fengið á sig 38 mörk en skorað 28. Við unnum þá 3-0 á Anfield í nóvember síðastliðnum með tveimur mörkum frá Salah og einu frá Coutinho. Southampton hafa gengið illa að skora og þeirra markahæsti maður er Charlie Austin með sex mörk. Austin er akkúrat týpan af framherja sem okkar blessaða vörn þarf að varast, stór, sterkur og mjög góður í loftinu. Þó er óvíst með þátttöku hans í leiknum þar sem hann hefur glímt við meiðsli síðan í desember en er farinn að æfa á nýjan leik. Stjórinn þeirra er okkur vel kunnugur, Mauricio Pellegrino sem lék alls 12 leiki með Liverpool 2005 eftir að hafa komið frítt frá Valencia til að spila fyrir sinn fyrrum stjóra Rafa Benitez.

Góðu fréttirnar fyrir okkur ( eða ekki) eru að Southampton spila varfærinn fótbolta, liggja aftur og beita skyndisóknum. Þeir hafa verið að spila 4-2-3-1 með tvo djúpa miðjumenn, annars vegar hinn geysisterka Romeu. Það er morgunljóst að þetta lið er sýnd veiði en ekki gefin.

 

Liverpool

Af okkar mönnum er svosem allt gott að frétta utan hnjámeiðsla Joe Gomez sem verður ekki með á morgun. Þó er Klopp vongóður um að hann geti náð Porto leiknum á miðvikudaginn. Trent Alexander mun því halda stöðu sinni í byrjunarliðinu og á það líka skilið eftir fína frammistöðu gegn Tottenham um síðustu helgi, sérstaklega í fyrri hálfleik en lenti í smá basli þegar Spurs jóku sóknarþungann í seinni hálfleik. Það er gríðarlega mikilvægur Evrópuleikur gegn Porto á miðvikudag og því erfitt að spá í hvernig Klopp stillir upp og hvort hann hvíli leikmenn eður ei. Ég hallast nú samt að því að hann reyni að keyra á sínu sterkasta liði enda stigasöfnunin orðin gríðarlega mikilvæg. Lallana er spurningamerki, Klopp talar um að hann sé í fantaformi en samt ekki alveg tilbúinn en verði mögulega í hóp. Klopp var ekki ánægður með útspil hans í U 23 leiknum þegar hann missti sig og tók ungling Tottenham hálstaki en það hefur vonandi bara verið rætt þeirra á milli og ætti að vera búið og gleymt.

Ég ætla að tippa á sama byrjunarlið og gegn Spurs með einni breytingu að Chamberlain komi inn fyrir Milner. Liðið yrði því svona:

 

Karius

TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson

Chamberlain – Henderson – Can

Salah – Firmino – Mane

Ef þetta gengur eftir eru fjórir fyrrum Dýrðlingar í liðinu sem þurfa að halda haus við mótlæti stuðningsmanna Southampton. Sérstaklega hafa þeir talað um að láta Van Dijk heyra það. Auðvitað gæti Wijnaldum svo byrjað þennan leik en form hans á útivöllum heillar vonandi ekki Klopp og hann láti hann byrja á bekk ( mín óskhyggja) og eins er alveg líklegt að Matip byrji leikinn á kostnað Lovren.

 

Spá

Ég hef alltaf spáð Liverpool sigri í mínum upphitunum og breyti því ekkert. Við skulum vona að leikmenn og þjálfarar komi í þetta verkefni 100% fókuseraðir og láti leikinn gegn Porto í vikunni ekki trufla einbeitinguna. Ég spái 1-3 sigri þar sem okkar fremstu menn Firmino, Salah og Mané skipti mörkunum bróðurlega á milli sín.

Koma svo!! YNWA!

8 Comments

  1. Og þá er Spurs komið í 3 sætið! Núna þurfum við að skila stigum í hús undir pressu, sem hefur ekki alltaf farið vel.

  2. Uppeldisfélagið okkar hefur oftar en ekki verið okkur erfitt enda eru leikmenn að sýna sig fyrir tilvonandi vinnuveitundum.
    Tottenham var að klára Arsenal nokkuð sanfærandi og er því mjög mikilvægt að ná í þessi 3 stig.
    Höfum trú á verkefninu en þetta verður mjög erfitt en spáum 1-2 sigur Mane og Dijk með mörkinn.

    YNWA

  3. Að sjálfsögðu skrifar maður dýrlingur en ekki dýrðlingur. Afsakið það.

  4. Þessi leikur verður bara að vinnast. Mín spá er 1-2. Salah og Can.

    Áfram Liverpool.

  5. Sammála með byrjunarliðið, ég vona að Klopp nái að halda öftustu línunni óbreyttri í nokkra leiki.
    Robertson hefur komið virkilega sterkur inn í vinstri bakvörðinn og hann ætti að halda Moreno á bekknum.
    Hinum megin hef ég verið nokkuð sáttur við Gomez sem á framtíðina fyrir sér þrátt fyrir að hafa átt það til að slökkva á skynseminni og gefa mörk þá er hann bara virkilega efnilegur varnarmaður.
    En sóknarlega þá er TAA mun betri leikmaður með ótrúlega góða sendingargetu og flotta krossa. Mögulega spila þeir saman í vörninni á næstu árum.
    Lovren finnst mér svo eiga að spila með Van Dijk í hjarta varnarinnar, við þurfum miðverði sem geta spilað marga leiki í röð og það hefur gengið ævintýrlega illa hjá okkur í vetur en við þurfum að þessir spili leikina fram til loka tímabilsins, þá fáum við mögulega stöðugleika.

    Svo ætla ég að gerast svo brattur að segja að Karius eigi eftir að vinna stuðningsmennina á sitt band áður en langt um líður.

    Spái þessu 0-2 já við höldum hreinu í dag.

  6. Smá þráðrán, en Liverpool Ladies heimsækja Manchester City. Seinni hálfleikur var að byrja, staðan er 1-0 fyrir City.

    Það er hægt að horfa á leikinn á netinu hér:

    http://www.bbc.co.uk/sport/live/football/42895277

    en til þess þarf að vera með VPN stillt á Bretland (eitthvað eins og ExpressVPN t.d.)

  7. Verður erfitt i dag, vona að liðið verði eins og Eiríkur segir í upphituninni.

    Spái 2-4 í fjörugum leik. Salah með tvö og Mane og Firmino með sitt markið hvor..

Hvað þarf til?

Byrjunarliðið gegn Southampton