4 leikir eftir í deild: WBA næst

Þegar þetta er skrifað þarf Liverpool 5 stig til að tryggja meistaradeildarsætið á næstu leiktíð. Mögulega koma 3 af þeim stigum um næstu helgi, og mögulega saxast enn frekar af þessari tölu á fimmtudagskvöldið þegar Chelsea mætir Burnley. Semsagt: ef Chelsea vinnur ekki gæti þetta blessaða 4 sæti verið tryggt með sigri um helgina. Fyrir utan fjórða sætið er þriðja sætið vel innan seilingar sömuleiðis, svona fyrst Tottenham náðu aðeins jafntefli gegn Brighton um helgina. Annað sætið er auðvitað ekkert útilokað heldur, en þar sem munurinn er fjögur stig í dag er ljóst að United þyrfti að misstíga sig í a.m.k. tveim leikjum til að það náist, og líkurnar á því eru ekkert svakalegar. Vissulega munu undanúrslitin í bikarnum eitthvað hafa að segja um það hvert United, Tottenham og Chelsea beina athygli sinni á næstu vikum.

En allt þetta eru aðeins vangaveltur, og allt gæti þetta mögulega farið í vaskinn ef liðið heldur ekki dampi í næstu leikjum. Nú þarf að einbeita sér að því að mæta á Hawthorns völlinn á laugardaginn og ná þar í 3 stig.

Andstæðingarnir

Andstæðingarnir að þessu sinni hljóta að falla í flokkinn “sýnd veiði en ekki gefin”. Lið sem er í neðsta sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir bara getur ekki verið mikil fyrirstaða. Eða hvað? Við ættum kannski að spyrja vin okkar Jose Mourino? Reyndar merkilegt þetta að bæði Liverpool og United unnu City í deildinni núna eftir áramót, og töpuðu svo fyrir botnliði deildarinnar í næsta leik á eftir. Sýnir bara hversu óútreiknanleg þessi deild er, og að efstu liðin geta tapað fyrir hvaða liði sem er. Það sem er kannski merkilegt er að þetta tap gegn Swansea er eina tapið gegn neðstu 14 liðunum:

Semsagt, Klopp þarf að ná að sameina árangurinn gegn top 6 á síðasta tímabili, og gegn neðstu 14 á þessu, og þá erum við í góðum málum.

En aftur að andstæðingunum. Leikformið hjá þeim í síðustu 6 leikjum er LLLLDW, semsagt jafntefli á móti Swansea og svo sigur á United. Daniel Sturridge er búinn að vera hjá þeim í láni síðan á áramótum, en hefur merkilegt nokk lítið geta spilað vegna meiðsla. Hann kom þó aðeins inn á í síðasta leik, en við munum auðvitað ekki sjá hann með liðinu á laugardaginn. Þarna eru svo leikmenn sem geta alveg átt leik lífs síns. Ben Foster er enginn aukvisi í markinu. Salomón Rondon og Jay Rodriguez geta alveg skorað mörk þegar sá gállinn er á þeim. Það þarf því klárlega að taka þennan leik alvarlega, og ef það á að sækja 3 stig úr þessum leik þarf að hafa fyrir þeim.

Liðsvalið

Jafnvel þó svo að Klopp tali alltaf um að það sé bara næsti leikur sem einhverju máli skiptir, þá hlýtur hann a.m.k. að gjóa augunum aðeins á leikinn næsta þriðjudag gegn Roma. Liðið er svosem búið að fá viku pásu núna, og kannski engin svaka ástæða til að hvíla menn, og enn síður ástæða til að hvíla menn til að koma í veg fyrir meiðsli, enda geta menn allt eins meiðst á æfingasvæðinu. Það eru því allar líkur á að það verði fullsterkt eða allt allt því fullsterkt lið sem byrjar leikinn á laugardaginn. Hugsanlega sjáum við 2-3 róteringar, en tæpast mikið meira en það. Lovren ætti víst að vera leikfær þrátt fyrir að hafa þurft að fara útaf í síðasta leik, og Gomez er farinn að æfa aftur en verður nánast örugglega ekki í byrjunarliðinu þó hann gæti ratað á bekkinn. Woodburn, Solanke, Ward, Jones, Masterson og fleiri léku með U23 á mánudaginn í sigrinum gegn Everton, og gætu vel komið við sögu í síðasta leik tímabilsins sem er gegn Chelsea næsta þriðjudag, og koma því tæpast við sögu á laugardaginn, enda ætti þess ekki að þurfa.

Semsagt, ég myndi veðja á nokkuð hefðbundið lið.

Karius

Alexander-Arnold – Lovren – van Dijk – Robertson

Chamberlain – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Gomez, Moreno, Klavan, Winjaldum, Ings, Solanke

Ég geri þarna ráð fyrir nokkuð hefðbundnu liði, en eins og áður sagði ættum við ekki að láta það koma okkur á óvart þó við fengjum að sjá allt að 2-3 önnur andlit í byrjunarliðinu.

Ég er nokkuð viss um að Klopp vill negla meistaradeildarsætið fyrir næsta ár og mun því örugglega spila til sigurs. Það er svakalega freistandi að spá því að sá sigur náist. Spái 3-1, með mörkum frá Salah, Firmino og Chamberlain.

Koma svo!

15 Comments

  1. Já óþarfi að hvíla menn í þessum leik eftir viku pásu.
    Náum í þessi 3 stig sem eru í boði og förum langleiðina með að tryggja okkur meistaradeildarsæti(fyrir utan að Burnley munu gera Chelsea þetta erfitt fyrir í dag).
    Svo má sjá ástandið á mönnum eftir Roma leikinn hvort að einhverjir þurfa hvíld gegn Stoke.
    Spurning samt um hvort að Clyne þurfi ekki auka leik núna til að koma sér í gang og hvort að Lovren hafi ekki gott af því að fá auka hvíld eftir að hafa verin tekinn útaf í síðasta leik.

    WBA unnu Man utd í síðasta leik(varð að koma því að) svo að þetta verður ekkert gefins en við erum með betra lið og ég spái því að við náum í 3 stig. 1-2 sigur Salah og Mane með mörkin.

  2. Stórhættulegur leikur sem verður að taka alvarlega. Þegar botnbaráttan er í algleymingi hjá nokkrum liðum þá berjast þau upp á líf og dauða og um hvern bolta. Ef Lovren er tæpur ætti að nota Klaven en að öðrum kosti þarf kannski ekki að vera með miklar hrókeringar. Held að Klopp sé búinn að læra á ensku deildina og hættur vissu kæruleysi gagnvart hinum svokölluðu lakari liðum. Allir geta unnið alla í þeirri ensku og það gerir hana svo skemmtilega. Áfram Liverpool.

  3. Trúi ekki að WBA vinni Liverpool 2 leiki í röð. Vona að Salah geri þrennu.

  4. Varðandi markaskorarana okkar miklu. Ekki nóg með að Salah sé komin með 40 mörk heldur er Firmino komin með 25. Þetta gera 65 mörk samtals. Það er að ég held pottþétt met í sögu félagsins hjá tveimur mestu markaskorurum. Fyrra metið var 59 mörk 1983-84 (I Rush 47, K Da 12). Held líka að metið yfir næstmarkahæsta mann tímabils geti fallið í vetur. Firmino hefur gert 25 en I Rush setti 26 mörk í tvígang (1984-85 og 1989-90) sem næstmarkahæsti maður liðsins. Þvílíkur kappar sem Salah og Firmino eru í sögulegu samhengi.

  5. Flott leikskýrsla, takk kærlega fyrir mig!

    Liðsuppstillingin á laugardag mun að miklu leyti ráðast af úrslitunum í kvöld. Ef Chelsea tapar stigum þá myndi ég búast við 5 – 6 breytingum á byrjunarliðinu. Ef Chelsea vinnur í kvöld þá býst ég við, eins og þú Daníel, við mjög öflugu byrjunarliði hjá Klopp nk. laugardag.

  6. Við verðum bara að Vinna 2 næstu leiki gegn wba úti og Stoke heima og takist það er meistara deildar sætið tryggt og þá gæti Klopp bara tekið síðustu tvo deildarleikina sem eru gegn Chelsea úti og Brighton heima og bara þess vegna hvílt lykilmenn ef okkar lið verður búið að tryggja sig í úrslitaleik meistaradeildarinnar. Að vísu eru næstum tvær vikur frá síðasta deildar leiknum og fram að úrslitaleiknum en Klopp gæti samt sem áður farið varlega í þessa tvo síðustu deildarleik í bara til að passa uppá að engin meiðist fyrir þennan úrslitaleik komist liðið þangað. Hann gæti þess vegna leyft sér að send bara alla lykilmenn liðsins bara í sólina i 5-6 daga þann 3 maí eftir seinni leikin gegn Roma, þá myndi þeir allir missa af leiknum gegn Chelsea sem er þann fimmta maí en kæmu baka 8-9 maí og yrðu klárir í síðasta leik tímabilsins þann 13 maí gegn Brighton, þar þurfa allir að vera til að þakka áhorfendum fyrir tímabilið og labba hringinn eftir leik og allt það, yrði líka fínt fyrir alla okkar bestu leikmenn að fá einn goðan leik þarna 13 maí til undirbúnings fyrir úrslitaleikinn 26 maí. Held að allir okkar lykilmenn hefðu gott af því að fá bara 5-6 daga frí á þessu tímapunkti. Annaðhvort að gefa þeim þetta frí eins og ég nefndi eða hafa þá til taks gegn chelsea en gefa þeim þá 5 daga frí eftir chelsea leikinn bara öllum hópnum og hittast þá aftur 10 maí sem er þremur dögum fyrir síðasta leikinn gegn Brighton. Held það myndi gera leikmönnum okkar ekkert nema gott að fá nokkra daga frí það er að segja ef liðið er að fara í úrslitaleik meistaradeildarinnar en ef þeir ná því ekki þá breytir þetta engu og þeir fara bara í sitt sumarfrí þarna eftir leikinn gegn Brighton.

    Hvað varðar leikin gegn wba þá gæti þetta alveg orðið tricky leikur og menn þurfa að mæta klárir. Held að wba sé samt alltaf fallið þrátt fyrir sigurinn á Man Utd, kom bara alltof seint hjá þeim, þeir þurfa að vinna alla síðustu 4 leikina sína og mál fimm í röð með sigrinum á mán utd og einnig að treysta á önnur lið. Wba er aldrei að fara vinna 5 leiki í röð. Er samt feykilega glaður með það ef bæði wba og dtokefsts niður ævi þetta eru lið sem bæði hafa oft reynst okkur erfið og einnig hundleiðinleg lið.

    Ég ætla að spá því að liverpool vinni þennan leik 0-4 þar sem Salah okkar gerir tvö mörk og bætir þar með markametið yfir 38 leikja deild og svo í síðustu leikjunum nær hann þremur mörkum í viðbót og bætir líka markametið yfir 42 leikja deild. Mane og Firmino skora svo hin mörkin að sjálfsögðu. Þessir þrír geta bara ekkert hætt að skora og hver leikurinn á fætur öðrum eftir áramót þar sem þeir skora allir eða allavega annaðhvort skora eða leggja upp allir.

  7. Viðar það er nú ekki líklegt að Salah slái 42 leikja metið en það á Dixie Dean frá 1927-28 uppá ein 60 mörk. Það vill svo til að enska keppnin var líka til áður en enska úrvalsdeildin var sett á fót. Aftur og aftur eru einhverjar þvælufréttir um met í deildinni og þá oftast talað um tímann frá stofnun úrvalsdeildarinnar, eins og engin efstu deildar keppni hafi verið til fyrir þann tíma. Miklu nær er að tala um eftir að liðum fækkaði eða einhverjar aðrar slíkar breytingar sem skipta máli.

  8. Sælir og blessaðir vinir mínir.
    Það er erfitt að skrifa þetta, en ég vona að Liverpool semji ekki við Emri Can og hann fari og við fáum í staðinn leikmann Úlfana. Hvers vegna? Jú, vegna þess að Kloop gerir Emri ekki að mikið betri leikmanni, því hann hefur unnið með honum síðan hann kom (Kloop). En ég er viss um að úlfa-leikmaðurinn verði algjör stjarna í höndunum á Kloop. Ég er búinn að fylgjast með útlfunum í vetur svona annað slagið og þessi leikmaður sem um ræðir (þið vitið hvern ég á við) yrði bara algjör snilli í höndunum á Kloop.
    Þegar Robertson var keyptur sagði ég það sama en þið sögðuð þetta mettnaðarleysi hjá Liverpool, en hvað hefur komið á daginn.
    Gleðilegt sumar kæru vinir. Sumardagurinn fyrsti verður ekki fyrr en 1. júní hér í Danmörku en það er samt 22 gráðu hiti.

  9. Við ættum að ná í Jurginho, unga belgann Matt de Light og hinn arngentíska Dyybala. Miðað við hvernig Karius hefur staðið sig finnst mér vert að gefa honum séns til að verða í heimsklassa, hann hefur kraftinn til þess og með stuðningi er ljóst að hann getur orðið einn af bestu markvörðum deildar. Ef ekki Matt, þá De Vrij, sem er nokkuð eldri en varnarmenn eru nú oftast bestir í nálgun við þrítugt.

  10. Jæja, þá er það ljóst. Chelsea vann í kvöld og við megum alveg gera ráð fyrir að þeir klári sína leiki sem eftir eru, fyrir utan leikinn á móti okkur auðvitað.

    Við munum stilla upp okkar allra sterkasta liði nk. laugardag. Gríðarlega mikilvægur leikur sem verður að vinnast.

    Byrjunarliðið verður sennilega eins og Daníel stillir því upp. Vonandi náum við að rota WBA í fyrri hálfleik þannig að við getum hvílt stóru byssurnar okkar síðustu 15 – 20 mín. leiksins eða svo.

  11. # 10
    Við skulum ekki gera ráð fyrir því að þeir klári Liverpool í næst síðasta leik 😉

    En já mikilvægt að ná í 3 stig um helgina og gera lífið okkar auðvelt fyrir loka leikina þrá.
    Chelsea eru með 63 stig og geta í besta falli náð í 75 stig(og inn í því er sigur á Liverpool).

    Svo að við þurfum að ná í 5 stig í viðbót í leikjum gegn WBA úti, Stoke heima og Brighton heima til þess að gulltryggja þetta en markatalan okkar er mun betri en Chelsea.
    eða
    Vinna Chelsea og tapa rest
    eða
    Ná í 4 stig (ef Chelsea er jafnteflisleikurinn).

  12. Slúðrið segjir að Ings, Gomez, Klavan og Moreno byrja allir í dag.

  13. Team in full: Karius, Gomez, Klavan, Van Dijk, Moreno, Milner, Henderson, Wijnaldum, Mane, Salah, Ings.

    Subs: Mignolet, Lovren, Firmino, Oxlade-Chamberlain, Robertson, Solanke, Alexander-Arnold.

  14. Frábært að geta hvílt nokkra leikmenn, gefa svo Salah og Mane 60 mín í dag og taka þá vonandi af velli.

Jamie Carragher og árshátíð Liverpoolklúbbsins

Podcast – Hitað upp fyrir Roma