Það VAR mikið

Fátt hefur meira verið á milli tannanna á fótboltaunnendum en hið svokallaða VAR (Video Assistant Referee) og kannski ekki skrítið. Það hafa skapast heitar umræður um þessa nýju tækni í boltanum og sitt sýnist hverjum. Heimsmeistarakeppnin er í fullum gangi og þar hefur VAR svo sannarlega komið við sögu og er í rauninni fyrsta risakeppnin þar sem þessi tækni er nýtt til fulls. Reyndar hefur þetta verið í gangi í efstu deildunum á Ítalíu og í Þýskalandi á síðustu leiktíð og við fengum aðeins að kynnast þessu í bikarkeppnunum á Englandi í vetur. Í mínum huga er þetta ekki spurning, VAR er komið til að vera, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Ein af helstu rökum þeirra sem alfarið eru á móti þessu eru þau að leikurinn eigi að vera eins hjá 4. flokki Sindra á Hornafirði og á leik á stórmóti. Sorry, en það er bara ekki þannig. Það er ekki þannig, hefur ekki verið þannig og mun ekki vera þannig. Þótt leikurinn hafi sömu grunn undirstöður, þá er það liggur við ekki sama íþrótt sem er stunduð á þessum mismunandi “levelum”. Þótt við förum í að bera saman meistaraflokksleiki, þá er himinn og haf á milli leikja í 4. deildinni á Íslandi og í Úrvalsdeildinni á Englandi. Við erum jú að tala um 11 menn í hvoru liði, svipað stóran grasvöll, einn bolta, tvö mörk og grunnreglurnar þær sömu. En aðstöðumunurinn, hraðamunurinn, munurinn á fjölda þeirra sem fylgjast með og munurinn á því sem er í húfi, hann er gígantískur.

Það var stórt skref stigið fyrir nokkrum árum þegar marklínutæknin var tekin upp. Þá voru einnig margir afar mikið á móti henni og vildu ekki skemma þennan fallega leik sem fótboltinn er. Eins og gefur að skilja, þá mun marklínutæknin aldrei verða innleidd í 4. deildinni á Íslandi. Líklegast verður hún bara aldrei innleidd á Íslandi. Kannski er þetta gamla góða, aldrei að segja aldrei, vel við hæfi. En eins og staðan er í dag, þá er þetta talsvert flókin tækni sem tók mörg ár að þróa og er gríðarlega kostnaðarsöm. En hver veit, kannski verður þetta einfaldara í framtíðinni, en það er langt í það í það minnsta. Marklínutæknin er hreint út sagt frábær. Það er alveg ömurlegt þegar gilt mark er skorað (boltinn inn fyrir línuna) en ekki dæmt vegna þess að aðstoðardómari er blokkaður eða of seinn niður á línuna. Eins og þetta er í dag, þá tekur engan tíma að skera úr um þetta, dómarinn fær bara strax í úrið hjá sér hvort boltinn hafi farið inn eða ekki. Gott dæmi um það hvernig tæknin getur hjálpað til við að gera leikinn betri.

Maður heyrði á sínum tíma þau rök gegn marklínutækninni að þetta væri fyrsta skrefið til að taka út þann faktor að geta skipst á skoðunum eftir leik um umdeilda hluti. Taka “passion” úr leiknum. Mér fannst þau rök fíflaleg á sínum tíma og mér finnst þau ennþá fíflalegri í dag. Það er ekkert verið neitt að taka “passion” úr boltanum að mörk þar sem boltinn fer yfir línuna séu dæmd sem mörk, eða að mörk sem voru ekki skoruð séu ekki dæmd sem mörk. Menn vilja varla að dómskerfið væri svona, dæma menn hægri vinstri þó ekkert tilefni sé til, bara svo menn geti skipst á skoðunum eftirá (ekki hægt að leiðrétta dóminn þó svo að hið rétta yrði sannað). Auðvitað erfitt að bera þetta tvennt saman þar sem við erum jú “bara” að tala um fótboltaleik, en meira svona sett fram til að setja þetta í samhengi við annað. Marklínutækni…JÁ TAKK.

Sjálfur hef ég dæmt mikið af fótboltaleikjum í nokkuð mörg ár. Ég hef dæmt í öllum deildum á Íslandi, fyrir utan sjálfa Pepsi deild karla. Ég veit það fyrir víst af eigin reynslu og dómarar eru fyrst og fremst með eitt í huga þegar þeir labba inn á völlinn. Þeir vilja dæma öll atriði sem koma upp í leiknum á sem réttasta hátt. Sjálfur dómarinn hefur sem betur fer nokkrar leiðir til að hjálpa sér við að ná þessum markmiðum. Í flestum leikjum er hann með tvo aðstoðarmenn sem eru með flagg í hendi og hjálpa honum við að reyna að sjá það sem hann kannski sér ekki. Við höfum líka í seinni tíð verið með fjórða dómara (varadómara) sem einnig hjálpar til við að koma auga á atvik. Í Evrópukeppnum höfum við svo séð líka svokallaða sprotadómara, sem standa við endalínurnar. Allt er þetta gert til að fá fleiri augu á leikinn þannig að hægt sé að fá sem réttasta niðurstöðu í atvik sem gerast í leiknum. Það varð líka ákveðin bylting þegar píp flöggin svokölluðu komu til sögunnar fyrir all mörgum árum síðan. Það auðveldaði mönnum að gera dómaranum viðvart um ákveðna hluti, hann ræður svo alveg hvort hann hunsi það eða ekki. Enn eitt hjálpartækið til að taka réttar ákvarðanir. Svo kom samskiptabúnaðurinn til leiks, það er líklegast mesta bylting sem orðið hefur í boltanum, sem snýr að dómaramálum. Það er himinn og haf á milli þess að dæma fótboltaleik með samskiptabúnað eða ekki. Þarna strax sjáum við mikinn mun á hlutunum þegar kemur að sama leik hjá 4. flokki Sindra eða liðum í Pepsi deildinni. Með samskiptabúnaðinum geta allir 3 (eða fjórir og jafnvel 6) dómararnir rætt um hin ýmsu sjónarhorn á hlutina. Oft hefur t.d. verið talað um að sprotadómararnir geri aldrei neitt. Þeir eiga ekki að sýna eitt eða neitt, þeir eiga bara að koma með sitt mat í kerfið, ýta á takka á sprotanum og koma með sitt input. Áhorfandinn sér aldrei hversu mikið eða lítið sprotadómararnir koma við sögu.

En þá að VAR. Ég lít á þetta dæmi sem algjörlega frábært hjálpartæki til að ná réttri niðurstöðu í dómgæslu þegar kemur að stærstu atriðunum. Það að geta ekki rætt lengur eftir leik um ósanngjarnt rautt spjald, ólöglegt mark sem var skorað eða árás sem einhverra hluta vegna fór framhjá dómurum leiksins, það finnst mér bara allt í lagi. Það er margt í hverjum fótboltaleik sem hægt er að ræða fram og tilbaka, hluti sem menn verða áfram ósammála um og menn geta þá pælt út og suður um einstaka mistök leikmanna og þjálfara. Leikurinn þarf bara að vera sanngjarn að því leiti að honum sé stýrt innan lagarammans sem fótboltinn býr við. Menn geta svo alveg verið ósammála ákveðnum reglum í boltanum, það er allt önnur umræða.

En hvað er það sem menn eru helst ósáttir við fyrir utan þessa aðila sem vilja geta rætt vitlausa dóma sem hafa stórkostleg áhrif á leikinn? Jú, stóra málið er tíminn sem það tekur að fá rétta niðurstöðu. Ég er algjörlega handviss um að það sé hlutur sem eigi eftir að slípa til. Við höfum til að mynda séð það á þessu Heimsmeistaramóti að framkvæmdin getur tekið mjög stuttan tíma. Sumir af þessum dómurum hafa greinilega pælt mikið í þessum hlutum og menn verða lítið sem ekkert varir við tafir út af þessu og við fáum sanngjarna niðurstöðu í flestum þessum tilvikum. Í mínum huga er það algjört lykilatriði upp á framtíðina að gera að það komi upp sama traust til VAR dómara eins og ríkir á milli dómaranna á vellinum. Ef dómarinn missir einhverra hluta vegna af stóru atriði, gulu spjaldi, rauðu spjaldi eða víti, þá lætur aðstoðardómarinn hann vita í kerfinu og dómarinn dæmir út frá hans ráðleggingum í flestum tilvikum. Hann treystir sínum aðstoðarmönnum, enda þeir búnir að fara vel yfir samstarfið fyrir leikinn. Hann fær ekkert að fara sjálfur að kíkja á málið, enda ekki hægt. Í mínum huga þarf nákvæmlega það sama að gerast með þessa VAR tækni. Í VAR búrinu eru alvöru dómarar, dómarar sem hafa margoft verið í sömu sporum og þeir sem á vellinum eru. Þeir sem í búrinu eru geta séð atriðin hægt í endursýningu og frá nokkrum hliðum. Líkt og þegar aðstoðardómarinn metur atvikin og lætur dómarann vita, þá ætti það sama að vera uppi á teningnum í þessum tilvikum. Dómarinn fer þá ekkert til að horfa sjálfur á einhverjum skjá, hann bara treystir sínum samstarfsmönnum sem áður og dæmir eftir þeim ráðleggingum. Þar með ætti þetta ekki að taka langan tíma, max 30 sekúndur. Það er einmitt tíminn sem þetta hefur verið að taka að meðaltali í t.d. Ítalska boltanum.

Auðvitað snýst þetta um æfingu, þetta er alveg nýtt og eins og áður sagði, þarf að slípa til. Við vitum líka að þetta setup eins og er á HM, er eitthvað sem verður líklegast ekki almenna uppsetningin. Þetta er RIIIIISA mót og því eru ansi margir í VAR herberginu. Líklegast verður þetta þannig að það verður bara einn VAR dómari með 2 tæknimenn með sér sem geta sýnt honum hlutina hratt og örugglega. Ef við segjum sem svo að þetta muni ekki taka svona langan tíma í framtíðinni, hvaða mótrök eru þá eftir? Eru það bara atriðin að geta rifist um glórulausa dóma sem geta ráðið úrslitum leikja á jafnvel mjög ósanngjarnan máta? Við erum ekki að tala um að nota VAR við ákvörðun einstaka aukaspyrna eða allra litlu hlutanna sem gerast í leiknum. VAR þarf að nota við stóru hlutina, líkt og verið er að gera núna á HM. Þar er VAR notað þegar um er að ræða víti/ekki víti, mark/ekki mark og rautt/ekki rautt. Það eru risadómarnir sem eru stóra málið í þessu. Ég bara neita að trúa því að menn vilji ekki hafa þá rétta, þó í einstaka tilvikum hagnist liðið manns á röngum dómi, þá yfir heildina viljum við sjá fair play. Það eru líka talsverð vafaatriði ennþá, þrátt fyrir VAR. Við sjáum nú bara úrslitaleikinn á HM. Dómarar út um allan heim eru ekki sammála um hvort vítið hafi verið réttur dómur eða ekki. Dómarinn fékk allavega öll þau sjónarhorn á málið sem hann þurfti og tók svo ákvörðun um vítið. Ekki allir sammála um það, en hann mat þetta svona. Stóra málið er að hann fékk allavega að sjá atvikið vel.

VAR er ekki fullkomið og verður það líklegast aldrei. Það mun hjálpa til við stóru atriðin og það er í rauninni óskiljanlegt að Enska Úrvalsdeildin skuli hafa ákveðið að fara ekki þessa leið fyrir næsta tímabil. HM hefur sannað að þetta er gríðarlega öflugt hjálpartæki og hefur jafnframt sýnt það að dómarar geta vel notað þetta án þess að það hafi mikil tefjandi áhrif á leikinn. VAR er komið til að VERA.

9 Comments

  1. Þetta var eitt besta HM sem ég man eftir og það var ekki síst VAR að þakka. Ég var sammála flest öllum þessum vítum sem voru ansi mörg, rauð spjöld voru nánast engin. Dómgæslan til fyrirmyndar og leikmennirnir sæmilega stilltir. Eitt og eitt atvik þar sem dómarinn missti tökin en það er eðlilegt á heilu heimsmeistaramóti. Held að Englendingar eru að gera í brækurnar að nota ekki VAR. Kannski er það vegna þess að þeir eru svo hrikalega ósammála útkomunni ennþá. Það voru allir brjálaðir í TV settinu hér úti í Englandi þegar t.d dæmt var víti í úrslitaleiknum…..mér fannst þetta pjúra víti. Algjörlega sammála að dæma viti á hendi inn í teig, búið að rökræða þetta fram og tilbaka eftir hvern einasta leik í mörg ár og núna er komin tækni sem bara reddar þessu. Besta mál.

  2. Góður pistill og 100% sammála.

    Óþolandi að sulturnar í FA skuli ekki taka þetta upp fyrir komandi tímabil.

    VAR er mikil framför í dómgæslu en eykur líka skemmtagildið fyrir okkur sem horfum á leiki í sjónvarpinu. Alltaf brjálað spennumóment þegar dómarinn gerir sjónvarpskassamerkið og fer að skoða atvik.

    Einnig er frábært ef að nokkur VAR-móment lengja leikinn aðeins – það gefur mér fullkomna afsökun til að sitja lengur og njóta þessa horfa á fótbolta.

    Áfram Liverpool og áfram VAR.

  3. Eg er hlynntur þessu ef eimmitt dómarinn fer aldrei utað hliðarlinu heldur treystir bara aðstoðarmonnum sýnum. Alger della að dómarinn skoði eitthvað í skjá sem allir hafa séð undan honum 10 sinnum í endursyningu. Bara treysta gaurnum í burinu fyrir stóru atriðunum og þá er þetta alger snilld og tekur margfalt minni tíma.

  4. Sammála Viðari 3
    Eg vildi ekki sjá VAR og fann því flest til foráttu en eins og með svo margt annað í lífinu þá er ég búinn að skifta um skoðun eftir HM og held að þetta sé það sem koma skal.

  5. Þetta gekk það illa á HM að ég var nú að vona að það væri hægt að jarða þetta.

  6. Sælir félagar

    Frábær pistill hjá meistara SSteini og ég er honum algerlega sammála. Þar af leiðir er ég fullkomlega ósammála Viðari#3. Vallardómari er að lokum ábyrgur fyrir endanlegri niðurstöðu dómsins á því sem fram fer á vellinum. Ef um er að ræða t.d. bullið bolti í hönd/hönd í bolta þá er eðlilegt að hann skoði atvikið þó það taki einhverja smá stund. Hann er nefnilega ábyrgur og verður að standa og falla með sínum dómi.

    Atvikið í úrslitaleiknum sannar þetta mjög vel og í ljós hefur komið að aðaldómarinn varð að taka ákvörðun um víti/ekki víti. Hans dómur réttur að mínu mati en margir eru því ósammála. En dómarinn tók ákvörðun út frá því sem hann var búinn að grandskoða með reynslu sína og tulkun á reglunum og stendur við sinn dóm. Gott mál. Hvað aularnir í FA gera í VAR lýsir þeim svo best sjálfum.

    Það er nú þannig

    YNWA

  7. Rétt og sanngjörn dómgæsla hlýtur að vera það sem allir vilja stefna að og VAR hjálpar verulega að ná því markmiði. Því er ég alveg sammála að VAR er komið til að vera.

    Annars er áhugavert að skoða hvaða áhrif VAR hefur á leikinn, tölfræðin gefur til kynna að þau séu töluvert mikil. Nokkuð hefur verið rætt um fjölgun á vítaspyrnum á þessu móti, en þær voru 29 í 64 leikjum (0.45 víti/leik). Þetta er met, aldrei hafa jafn margar vítaspyrnur verið dæmdar á einu HM. Ef talið er frá HM 1998, þegar liðunum var fjölgað í 32 (og leikjunum í 64), voru að meðaltali 14.6 víti á hverju móti eða 0.23 víti/leik (HM 1998, 2002, 2006, 2010, 2014). Þetta voru því um tvöfalt fleiri vítaspyrnur sem dæmdar voru í Rússlandi 2018 miðað við meðaltal síðustu fimm móta þar á undan. “Metið” átti HM 2002 þar sem dæmdar voru 18 vítaspyrnur (0.28 víti/leik).

    Ég vona að vítaspyrnunum fækki aftur með tímanum og leikmenn passi sig meira í vítateignum. Þó að öll mörk telji jafnt, þætti mér það minna spennandi ef úrslit í öðrum hverjum leik ráðist af vítaspyrnupunktinum. Ef þetta verður þróunin, að vítaspyrnum fjölgi verulega, þá mætti fyrir mér alveg færa þennan vítapunkt lengra frá markinu svo að minni líkur séu á því að menn skori.

    Ef vítunum fjölgaði, þá fækkaði rauðu spjöldunum enn meira. Aðeins 4 rauð spjöld voru gefin á þessu móti (0.06 rautt/leik), samanborið við 18.4 að meðaltali frá HM 1998 (0.29 rautt/leik). Árið 2014 voru þau 10, sem var talið vera góð lækkun frá árunum 2010 (17 rauð) og 2006 (28 rauð spjöld). Þarna held ég að VAR hafi bein áhrif á leikmenn, þeir vita að það eru einhverjir tugir myndavéla að fylgjast með nánast öllu því sem er að gerast á vellinum og ef þeir gera eitthvað sem verðskuldar rautt spjald, fá þeir væntanlega rauða spjaldið sitt.

    Þetta er kannski það sem er jákvæðast fyrir leikinn, menn verða bara að sýna meiri aga á vellinum sem vonandi leiðir til þess að við sjáum færri alvarleg ljót brot. Ekkert nema gott um þetta að segja.

    Annað sem ég las var að fjöldi rangstaða hafi aldrei verið færri. Það var víst brýnt fyrir aðstoðardómurum (línuvörðum) að ef rangstaðan væri ekki augljóst þá ættu þeir ekki að flagga. Útskýringin var sú að ef rangstaðan er dæmd, er augljóslega ekki hægt að taka þá ákvörðun til baka þar sem leikurinn er stöðvaður. Hins vegar, ef engin rangstaða er dæmd og leikurinn látinn halda áfram og mark er skorað, er hægt að nota VAR til að athuga hvort um rangstöðu hafi verið að ræða. Þá er hægt að leggja betra mat hvort markið eigi að standa eða hvort það sé dæmt af vegna rangstöðu.

    Þetta síðasta atriði breytir leiknum kannski ekki mikið, annað en að hjálpa mönnum að meta rangstöðuna betur þegar mörk eru skoruð. Þó geta komið upp atvik eins og sást í leik Grindavíkur gegn KA, þar sem rangstaðan er dæmd vegna atviks sem átti sér stað nokkuð áður en markið var skorað. Það er því líklega ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að fólk hætti að skiptast á skoðunum um dómgæsluna þó að VAR verði normið í framtíðinni.

    Heimildir:
    https://www.statbunker.com

  8. Flott innlegg Gunnar, takk fyrir það. Alveg klárt að við erum líklegast að sjá menn haga sér betur inni á vellinum. Vítunum fjölgar í byrjun, en sama þar, menn fara að átta sig á að það gengur ekki að gera hvað sem er inni í teig. In the long run, þá ætti það að skila sér í fjölgun “venjulegra” marka.

  9. Sammála — en það er samt vandamál sem þarf að leysa…

    Einn megin vandinn með knattspyrnudómgæslu á topp level þar sem fá mörk eru skoruð í hverjum leik og hvert mark gerbreytir gangi leiksins tengist vítaspyrnum.

    VAR algerlega gerir kleift að fækka vitlausum dómum sem tengjast því þegar leikmaður er felldur í teig, eða togaður niður — eða ekki. Það er frábært.

    En þegar kemur að handboltareglunni hefur alltaf verið ósamræmi milli dómara, milli deilda, og jafnvel milli stórmóta. Eins og staðan er núna þá þarf að endurskoða þessa reglu — er það að dæma hendi og víti að hafa áhrif sem strika úr knattspyrnuleikinn? T.d., þá gerðist það margoft á HM að skot eða sending sem ekki var á leið á markið fór í hendi leikmanns og dæmt var víti. Í einhverjum tilfellum hefði leikmaðurinn etv. geta fært höndina frá eða hún var í “óeðlilegri” stöðu–og í einhverjum tilfellum var dauðafæri forðað. En í sumum tilfellanna hafði þessi snerting hendinnar lítil sem engin áhrif á leikinn en engu að síður fór boltinn í hendina–slík atriði gerast margoft í leik úti á velli og næstum aldrei er dæmd hendi nema ef leikmaðurinn gerir það viljandi eða ef það stöðvar hraðaupphlaup. En vegna VAR “neyðist” dómarinn til að dæma víti því að reglurnar eru óskýrar, en marg endursýnt video sem við sjáum að dómarinn sér setur þrýsting á að dæma víti sem margir dómarar myndu annars ekki gefa. Það er ekki til bóta — en til að leysa vandamálið verðum við að skoða handboltaregluna, ekki VAR.

    Það má ekki vera þannig að lítil brot sem varða leikinn lítið ráði úrslitum. VAR getur sannarlega hjálpað þar, en miðað við HM getur það líka gert það verra.

Hvern viljum við í markið?

Liverpool búið að bjóða í Alisson (Uppfært: Tilboði tekið!)