Það er bara einn leikur búinn á tímabilinu en maður er strax kominn á þann stað að geta ekki beðið eftir þeim næsta. Verkefnið sem bíður okkar er Selhurst Park kl. 19 á mánudagskvöld.
Þetta er síðasti leikur umferðarinnar þannig að það er viss pressa á liðinu, þetta er samt leikur sem að Liverpool á að vinna ætli þeir sér einhverja hluti á þessu tímabili.
Sagan – Crystal Palace grýlan?
Í minningunni þá er þetta Crystal Palace lið virkilega erfitt heim að sækja en þegar síðustu 5 tímabil eru skoðuð þá er árangurinn á Selhurst Park ekki svo slæmur:
- Liverpool hefur unnið síðustu 3 deildarleiki þarna (síðustu 4 ef við tökum sigurinn í FA bikarnum með, febrúar 2015)
- Liverpool er með 10 stig af 15 mögulegum í síðustu 5 deildarleikjum (3 sigrar, 1 jafntefli, 1 tap).
Það er heimavallarárangurinn sem er öllu slakari en þar höfum við eingöngu náð í 6 stig af 15 mögulegum (2 sigrar, 3 töp).
Ætli það séu ekki leikirnir sem sitja í manni frekar. 3-3 leikurinn frægi á vormánuðum 2014, 1-3 tap í kveðjuleik Gerrard á Anfield, fyrsta tap Liverpool á stjórnartíð Klopp á Anfield og svo mætt áfram telja. Það verður svo seint sagt að stjórar Crystal Palace í gegnum tíðina hafi verið í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Tony Pulis, Neil Warnock, Alan Pardew, Sam Allardyce og Roy Hodgson. Enginn smá listi það!
Crystal Palace
Crystal Palace átti fínt sumar en stærstu “kaup” gluggans eru klárlega nýr 5 ára samningur Zaha. Þegar fjallað er um þetta Crystal Palace lið þá er í raun hægt að tala um 2 lið, Zaha og félaga eða þá “bara” Crystal Palace (án Zaha). Liðið tapaði öllum þeim 10 leikjum sem Zaha missti af á síðustu leiktíð! Með hann í liðinu náði liðið fínum úrslitum og endaði í 11.sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Það eru ekki bara þessi 9 mörk sem hann skilaði á síðustu leiktíð heldur blómstra aðrir leikmenn með hann í liðinu og ná þeir vel saman í þessum “flikk” fótbolta, Benteke og Zaha. Skori títt nefndur Zaha á mánudaginn þá verður hann markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar í sögu Crystal Palace.
Það eru annars engin ný meiðsli og ætti Hodgson að geta valið sitt sterkasta lið (utan Dann, sem er auðvitað frá eftir krossbandaslit á síðustu leiktíð), það er ekki ólíklegt að Max Meyer, sem kom á frjálsri sölu frá Schalke, muni eitthvað koma við sögu. Það er leikmaður sem talsvert hefur verið látið með í Þýskalandi síðustu misseri og talsverður hvalreki fyrir Crystal Palace, þó maður setji vissulega spurningamerki við það að ekki væru fleiri á eftir honum verandi samningslaus.
Crystal Palace vann góðan sigur gegn nýliðum Fulham í fyrstu umferð. Sterkt að fara á Craven Cottage og sækja þrjú stig, sérstaklega m.t.t. sumargluggans hjá Fulham. Leikurinn var þó mjög jafn, gestirnir gátu setið til baka og sótt hratt, Sakho var heppinn að fá ekki dæmt á sig víti en sterkur 0-2 sigur engu að síður með mörkum frá Schlupp og Zaha.
Við Liverpool menn getum (og höfum) sagt ýmislegt um Roy Hogdson. Eins mikið og hann er ekki stjóra efni fyrir klúbb eins og Liverpool þá er hann eins og sérsniðinn fyrir klúbb eins og Crystal Palace. Hann hefur komið þangað inn, náð stöðugleika og verið að styrkja þá jafn og þétt. Þegar allir eru heilir er þetta fínasta lið og held ég að þeir leggi leikinn upp með sama lið og byrjaði gegn Fulham, vörnin mun verjast djúpt með tvo djúpa miðjumenn þar fyrir framan og boltanum verður sparkað yfir hápressu Liverpool á Benteke og Zaha.
Ætla sem sagt að skjóta á þetta lið:
Liverpool
Það eru engin ný tíðindi af okkar mönnum. Klavan yfirgaf klúbbinn jú í vikunni, fjalla lauslega um það hér að neðan, og Matip er farinn að æfa aftur ásamt Fabinho (sem meiddist smávægilega fyrir leikinn gegn West Ham þó hann hafi náð á bekkinn þar). Liðið er þá búið að fá heila viku saman á æfingarsvæðinu, sérstaklega gott fyrir þá sem komu seint til baka eftir HM.
Ég tel að það séu í raun bara tvær stöður sem gætu mögulega eitthvað breyst frá því um síðustu helgi, þó ég eigi síður von á því, en það er hægri bakvörður og ein miðjustaðan (6-an). Alisson Becker mun standa á línunni með okkar einu leikfæru miðverði fyrir framan sig, Virgil og Gomez. Sá síðarnefndi stóð sig vel gegn West Ham, utan við meiðslasöguna þá hefur hans helsta vandamál (sem ég held að sé nú bara eðlilegt m.v. reynslu og aldur) verið að það hefur stundum slokknað á honum í leikjum og verið staðinn að því að horfa á boltann í stað þess að átta sig á því sem er í kringum hann. Það eru ekki margir miðverðir í heimsboltanum sem hafa verið að komast í sín lið (topp lið) rétt orðnir tvítugir, Gomez á því talsverða þolinmæði inni og er alveg ljóst að hann getur orðið framtíðarmiðvörður liðsins. Í fjarveru Lovren þá gæti Gomez stimplað sig inn og gert alvöru atlögu að sæti í liðinu við hlið VVD. Fyrsta prófið var gegn West Ham en nú tekur við þung prófraun í Benteke/Zaha.
Robertson mun vera á sínum stað, vinstra megin. Það er ákveðið lúxusvandamál sem við Liverpool stuðningsmenn erum ekkert alltof vanir að velta fyrir okkur, að eiga í raun tvo góða kosti í báðum bakvarðastöðunum. Spurningin er hvort að TAA muni halda sæti sínu eða hvort Clyne komi inn. Clyne spilaði á undirbúningstímabilinu og stóð sig vel, eins og hann gerir öllu jafna þegar hann er heill. Það er ákveðinn “Finnan” í Clyne finnst mér, maður talar sjaldan um hann eftir leiki sem er jákvætt. Skilar ávalt sínu án þess að standa eitthvað sérstaklega uppúr. Trent byrjaði frekar illa gegn West Ham (fyrirgjafirnar þá einna helst) en vann sig svo inn í leikinn. Það er líka ákveðið þroska- og styrkleika merki að þrátt fyrir að hann hafi ekki verið að ná sínum vanalegu hættulegu boltum þá hætti hann ekkert að reyna, er greinilega fullur sjálfstrausts. Á móti kemur að hann átti skelfilegan leik á Selhurst Park í fyrra þar sem hann var étinn af Zaha og Benteke. Hann er þó að mínu mati annar leikmaður í dag, hefur bætt sig mikið á ekki lengri tíma. Hann kemur með fleiri möguleika inn í liðið en Clyne gerir. Hann tekur meiri áhættu og er öflugri sóknarlega.
Framar á vellinum sé ég ekki miklar breytingar fyrir mér. Eina mögulega breytingin væri þá á kostnað Gini og fá fyrirliða okkar í liðið. Wijnaldum átti aftur á móti flottann leik gegn West Ham og á alveg skilið að halda sínu sæti. Ég ætla samt að skjóta á að eina breytingin á liði okkar frá því um síðustu helgi verði þessi, Henderson inn í stað Gini og liðið verði því:
Hvernig vinnum við?
Ég tel það nokkuð ljóst að Crystal Palace muni spila með tvo djúpa miðverði og tvo afturliggjandi miðjumenn. Varnarlínan mun ekki vera svona framarlega eins og West Ham (hætti sér ekki inn í teig) og heimamenn munu treysta á að sparka yfir pressuna hjá okkur á þá Benteke og Zaha. Við höfum stundum lent í vandræðum með þetta upplegg en við höfum ekki heldur haft jafn marga kosti og möguleika og við höfum í liðinu og á bekknum í dag.
Þetta verður ekki auðvelt en við þurfum að vera taktískt og tæknilega góðir gegn þessu Crystal Palace liði og gætum þurft að vera þolinmóðir. Það er lykilatriði að vinna seinni boltann (Zaha) ef við vinnum ekki þann fyrri (Benteke). Það er kannski viss einföldun að tala eingöngu um þessa tvo leikmenn því það eru fleiri fínir leikmenn þarna eins og Townsend, Meyer o.fl. en þetta er bara sú spilamennska sem við höfum oft lent í vandræðum með (Selhurst Park og Old Trafford í fyrra svo að dæmi séu tekin þar sem við lentum nánast í nákvæmlega sömu vandræðum sem enduðu í mörkum, Benteke/Lukaku unnu fyrsta boltann og Zaha/Rashford sáu um rest).
Þeir eru með hraða bakverði og það gæti reynst erfitt að komast bakvið þá. Þá erum við komnir með fleiri möguleiga inn á miðjunni í Keita og eigum svo Shaquiri á bekknum sem getur komið inn í “tíuna” gangi plan A ekki upp. Ég sé alveg fyrir mér að Firmino verði aðeins aftar en hann var gegn West Ham og Salah og Mané verði meiri sóknarmenn og herji á hægari kostina í vörn Palace í þeim Sakho og Tomkins.
Hvernig töpum við?
Ef við höfum ekki lært af mistökum okkar frá því í fyrra þá munum við lenda í vandræðum. Við komum reyndar til baka í fyrra en ef við leyfum Crystal Palace að vera inn í leiknum þá verður völlurinn erfiður.
Benteke mun ekki vera á Van Dijk hann mun vera Gomez megin en það gerði hann í þessum leik í fyrra þegar hann hengdi sig á Matip (1-2 sigur) og fann Zaha þá mikið pláss á milli TAA og Matip. Komst einn innfyrir í byrjun leiks (Karius varði) og fékk svo vítaspyrnu á 11 mínútu þegar Benteke flikkaði útsparki innfyrir, aftur á bakvið TAA. Ef við töpum þessum leik þá gæti leiksskýrslan verið á svipuð og hún var fyrir fyrri hálfleik á síðasta tímabili:
Fyrri hálfleikur var virkilega dapur á allan hátt. Leikurinn byrjaði rólega þar sem menn voru að slípa sig eftir landsleikjahlé og fátt markvert gerðist fram að 8. mínútu þegar Saha komst einn í gegnum vörn Liverpool en Karius gerði sig breiðan og varði virkilega vel. á 11. mínútu skallaði Van Dijk á markið eftir horn en Mané var fyrir og flikkaði honum framhjá. Spurning hvort sá bolti hefði endað í netinu. Strax í næstu sókn kom sending inn fyrir sem Benteke flikkaði á Saha og Karius óð út úr markinu og felldi Saha. Víti réttilega dæmt á Karius en Trent Arnold leit illa út ásamt Matip sem gerði alls ekki nóg til að hjálpa hinum unga bakverði. Uppleggið var greinilega sama uppskrift og Man Utd notuðu um daginn að vinna skallaboltana og flikka inn á fljótan vængmann gegn Trent og af þessu þurfa menn að læra.
Spá
Ég tel að Liverpool sé búið að læra frá því í fyrra og hafi fleiri möguleika og sé einfaldlega betra lið í dag en það var á síðustu leiktíð. Liverpool mun stjórna leiknum, vera mikið með boltann og skora tvö góð mörk í 0-2 sigri!
Lesefni
- Klopp talar um Keita, Gini og Fabinho.
- Gomez talar um kosti þess að fá viku á milli leikja og helstu ógnir Crystal Palace.
- Hodgson tjáir sig um Liverpool liðið og sinn tíma þar.
- Firmino talar um ást sína á Liverpool og trú sína á því að þetta lið vinni til verðlauna.
- Upphitun Redmen TV fyrir leikinn.
- Upphitun TAW fyrir leikinn.
- Síðasta Podcast Kop.is þar sem m.a. var farið yfir Crystal Palace leikinn.
- Daníel gerði flotta umfjöllun um kvennalið Liverpool.
Aðrar fréttir
Klavan var seldur í vikunni til Cagliari á Ítalíu fyrir 2 milljónir punda. Clean Sheet Klavan var orðinn hálfgerð “költ” fígúra á sínum tíma hjá Liverpool. Ég held að Andrew Beasley negli þetta nokkuð vel:
Ég er sammála Andrew Beasley, þrátt fyrir að flestir séu sammála því að Klavan var aldrei í Liverpool klassa, þ.e. leikmaður í þeim gæðaflokki sem ætti að eiga byrjunarliðssæti hjá klúbbnum þá var hann fínn í því hlutverki sem hann var fenginn inn í (fjórði miðvörður). Eini gallinn við þetta er að Liverpool hefur of oft þurft á sínum fjórða miðverði að halda, eins og sést á þessari tölfræði, sökum meiðslasögu Matip, Gomez og Lovren. Þetta er ekki þannig peningur að klúbburinn þurfi að selja þar sem að hann rennur út á samningi næsta vor og hefði e.t.v. verið betra að halda honum út tímabilið. Því til stuðnings má benda á að við erum bara með tvo leikfæra miðverði í dag.
Klavan stóð fyrir sínu á þessum tveimur árum, vonandi gengur honum sem allra best á Ítalíu! Persónulega mun ég helst minnast hans fyrir frábært sigurmark í leiknum gegn Burnley á síðustu leiktíð, held að það sé viðeigandi að enda hans Liverpool feril á myndbandi og viðeigandi lagi.
Það voru margir klúbbar sem höfðu áhuga en Klopp valdi víst Herthu Berlin sjálfur og sér hann fyrir sér í Liverpool liðinu á næstu leiktíð. Í raun bara jákvætt, nær sér í reynslu, færa að spila á miðjunni í fínni deild. Kemur vonandi reynslunni ríkari til baka, er ekki nema 22 ára og getur klárlega náð langt.
Maður er alltaf hræddur við Palace af því að þeir eru stórhættulegt lið að mæta því að þeir hafa gæði fram á við sem fá lið á eftir top 6 hafa í röðum sínum. Þeir skapa alltaf færi á móti okkur og þökk sé Benteke þá höfum við verið að ná góðum úrslitum undanfarinn sökum þess að hann hefur verið snillingur að klúðra dauðfafærum.
Zaha var einn besti leikmaðurinn í deildinni á síðustu leiktíð og býr yfir gríðarlegum hraða svo eru þeir auðvita með Townsen sem elskar að taka menn á.
Fyrir utan top 6 liðinn og nágranaslag við Everton þá eru þetta þeir andstæðingar sem eiga hvað mestu möguleikana gegn okkur sökum einstaklingsgæða.
Þetta verður erfiður leikur en maður hefur trú á sigri okkar manna 1-2 Salah/Mane með mörkinn okkar og Zacha fyrir heimamenn en ef við fáum stig úr þessum leik þá er það engin heimsendir því að ég er viss um að þeir eiga eftir að vinna nokkur stórlið á heimavelli í vetur.
YNWA
p.s Winjaldum hlýtur að byrja inná eftir frábæran síðasta leik og tel ég að Henderson verður áfram á bekknum.
Ég veit ekki alveg afhverju, en þegar ég horfði á miðjuna “Milner, Henderson Keita” og sá svo linkinn “Klopp talar um Keita, Gini og Fabinho” fór ég allt í einu að hugsa um Jay Spearing… Það hefur mikið breyst síðan við þurftum að láta Jay Spearing spila 27 deildarleiki (2010-2012) á miðjunni hjá Liverpool.
Verður erfitt en hef trú á þessu og vörninni og spai að við höldum aftur hreinu, ætla að spá þessu 0-3, erum einfaldlega það goðir það er bara þannig. Líka frábært ef við stuðningsmenn höfum trölla trúa á okkar mönnum því það smitast eflaust bara til leikmannana.. erfiðir leikur en samt sem áður skildusygur eð við ætlum eitthvað að gera í þessari deild. City á mjög þægilegtprogramm fyrstu 8 til 10 leikina og við verðum að halda í við þá og vinna leiki eins og þennan það er bara þannig.. Salah skorar 2 og Firmino eitt.
Einu leikirnir sem Pep og hans menn kvíða fyrir eru leikirnir gegn Liverpool.
Hin liðin ætla halda áfram að leggjast flöt fyrir þeim eins og venjulegt er.
# 4 Man City eru bara ógeðslega góðir því miður og eru lið ekki að leggjast flöt fyrir þá heldur einfaldlega eru slátrað. Því að um leið og City eru komnir yfir þá eru þeir besta liðið til að halda bolta og um leið og svokölluðu litlu lið ætla að færa sig framar þá fá þau það strax í andlitið. Ég er samt viss um að Man City eins og önnur lið eiga eftir að lenda í hörkuleikjum gegn minni spámönnum en þeir voru að klára þá leiki á síðustu leiktíð.
Annars er það að frétta er að Brighton sigraði Man utd 3-2 og var það sangjarn sigur heimamanna og efast ég um að Móri verður þarna fram að áramótum ef hann spilar þennan þétta varnarleik með hægum sóknarleik og búinn að tapa klefanum.
#5 Þegar tvær rútur koma saman, þar er rútubílastöð.
Salah minn góður hvað pistlarnir ykkar verða bara betri og betri. Er ekki hægt að fá ykkur til að stýra ríkissjóðnum líka.
Er skíthræddur við þennan leik en að sama skapi hef ég tröllatrú á liðinu okkar, held að við séum einfaldlega of sterkir gegn CP.
Annað, hvað er verið að tala um að manhju séu leiðinlegir? Ég skemmti mer konunglega yfir leiknum þeirra áðan ?
Ég styð móra 100%. Vona að han verði sem lengst hjá utd 🙂
Annars af leiknum á morgun, ég er skíthræddur við þetta lið á þessum litla velli ,með áhorfendur snarbrjálaða ofan í leikmönnum. Þarna er rosa stemmning, en vonandi getum við drepið hana snemma í leiknum með marki/mörkum. Gæðin hjá Liverpool eiga að taka þennan leik ef allt er eðlilegt, því spái ég þessu 1-3 fyrir okkur. Salah með tvö og Firminho eitt kvikindi 🙂
Ég styð KOP-ríkisstjórn!
Mögnuð upphitun. Þetta verður erfið bið fram á mánudagskvöld.
Ég er passlega bjartsýnn fyrir þessum leik, við lentum í gildrunni þeirra í fyrra en komum til baka og unnum. Menn vita nákvæmlega hvernig þeir ætla að sækja, háir boltar á Big Ben sem fleytir boltanum inn fyrir vörnina, nú eða föst leikatriði. Nú erum við með Virgil sem getur komið Benteke þægilega ofaní öðrum rassvasanum og TAA er árinu eldri og þvílikri reynslu ríkari. Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af sókninni okkar, erum alltaf að fara að skora 2-3 mörk.
Spái hreinu laki og nokkuð þægilegum 0-2 sigri.
Gæðin frammi segir manni að við erum alltaf að fara skora mörk í þessum leik en á svona velli og á móti óþreyttu liði á þessum tíma móts getur auðvitað allt gerst.
Vonandi höldum við cleansheet í þessum leik það yrði frábært.
Sælir félagar
Takk fyrir frábæra upphitun Eyþór og má með sanni segja að dekrað sé við okkur stuðningsmenn á Íslandi. Ég hefi svo sem ekki miklu við að bæta það sem áður hefur verið sagt í upphitun og athugasemdum. Þó gæti ég trúað að Shaquiri kæmi inn fyrir Milner í byrjunarliði sem gæti orðið vörn CP erfitt. Sendingargeta og aukaspyrnumöguleikar fyrir framan teig yrðu þá mjög hættulegt vopn ef brotið verður á hröðum sóknarmönnum á síðasta þriðjungi.
Annars hefi ég fulla trú á okkar mönnum þó þetta verði engin rólegheita skemmtiganga í garðinum heldur frekar puð í fjallinu. Sóknargeta liðsins er hinsvegar svo mikil að ekkert lið hefur hana slíka nema M. City. Tottenham er sóknarlega ekki jafn gott og því erum við eina liðið á pari við City hvað sóknarleik varðar. Ég hefi ekki trú á að CP leggi rútunni heldur mun Hodgeson vilja sýna liðinu sem rak hann í tvo heimana. Það verður þeirra banabiti og ég spái 1 – 4 fyrir okkur.
Það er nú þannig
UNWA
Hef ekki nokkrar áhyggjur af þessum leik, það er allt of mikill gæðamunur á þessum liðum.
Spái 0-3.
YNWA
Meistari Roy er búinn að koma þessu Palace liði á réttan kjöl og liðið mun líklega enda fyrir ofan miðja deild í vor.
Leikstíll Palace hentar Liverpool ekkert sérlega vel. Þeir ætla að sækja jafnteflið og verjast á 10 mönnum, beita hættulegum skyndisóknum og sækja eins mikið af föstum leikatriðum og þeir geta.
Leikurinn gæti orðið prófsteinn uppá það sem koma skal gegn varnarsinnaðri liðum deildarinnar.
Það er gríðarlega mikilvægt að skora snemma uppá að opna Palace liðið, ef það tekst ættum við að landa sigri.
Eg Liverpool vinnur ekki í kvöld og helst nokkuð örugglega þá er liðið ekki að fara að vinna deildina. Til að enda fyrir ofan Man City má liðið varla við þvi að tapa stigum. Að elta City er bara rugl. Ég vona innilega City tapi stigum áður en Liverpool tapa stigum.
Ættla að spá sigri okkar manna í kvöld. 3 stig.
Skorum snemma, Palace opnar sig, gaman gaman. Endar 1-7
#15
Það er nkl málið. Ef Liverpool ætlar að vera í keppni við Man City
———Mane———-Salah——-
—————-Firmino—————
——-Shaqiri———Keita——-
—————-Fabinho———–
Robbo—-Dijk—-Gomez—Trent
—————-Allisson————–
Svona væri ég til í að sjá liðið í kvöld.
Taka demantinn á þetta.
#17
Erfitt að ganga framhjá Milner eftir síðasta leik. Væri til í sama byrjunarlið og síðast þar sem Saquiri og Sturridge kæmu af bekknum og kláruðu leikinn.
Salha Ronaldo og Modric tilnefndir sem leikmenn ársins hja UEFA…..okkar maður eða Modric vinnur þetta árið….að leiknum i kvöld þá vinna okkar menn öruggan sigur…
Eruð þið með góða ábendingu um stað í Augsburg til að sjá leikinn í kvöld?
Veit einhver var er hægt að sjá leikinn á Akureyri?
Bryggjan á Akureyri eða Backpackers