Liverpool – Arsenal 5-1

0-1 Maitland-Niles (11. mínútu)

1-1 Firmino (14. mínútu)

2-1 Firmino (16. mínútu)

3-1 Mané (32. mínútu)

4-1 Salah (45. mínútu)

5-1 Firmino (65. mínútu)

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega. Allt vitlaust á vellinum eftir úrslitin á Wembley þar sem að Úlfarnir sigruðu Spurs með þremur mörkum gegn einu og þar með ljóst að Liverpool gæti náð 9 stiga forystu á toppnum með sigri, a.m.k. þar til á morgun þegar City spilar.

Bæði lið pressuðu stíft og ljóst að mikið var undir. Liverpool byrjaði betur fyrstu 7 eða 8 mínúturnar en svo tók skrítinn kafli við. Fabinho var fyrst með slökustu sendingu tímabilsins þegar hann reyndi þversendingu á engan sjáanlegan nema þrjá Arsenal menn – Alisson kom þó til bjargar og varði í horn.

Arsenal náði upp góðri pressu eftir þetta og Lovren átti slaka sendingu úr vörnini  sem varð til þess að Arsenal komst yfir. Frábær sending frá vinstri væng í svæðið á milli markamanns og varnar. Þar var Maitland-Niles sem skoraði í autt markið, 0-1!

Þetta varði þó ekki lengi og Liverpool svaraði rétt um þremur mínútum síðar. Firmino fékk þá boltann og sendi á Salah, ég held að þá hafi Lichtsteiner komið og tæklað Salah (og boltann), þaðan fór knötturinn í Mustafi sem hreinsaði í samherja, hálfgerður borðtennis inní teig fram og til baka en að lokum fór knötturinn til Firmino sem skoraði, no-look, í autt markið eins og honum er einum lagið, 1-1! Virkilega gott að svara svona strax en mikið skelfilega var þetta ljótt mark!

Rétt rúmri mínútu síðar var aftur komið að Firmino. Mané átti flotta pressu og vann boltann af Torreira á miðjunni, kom boltanum á Brassann sem sólaði Mustafi, lagði svo Sokrates á rassinn og skoraði örugglega framhjá Leno í hægra hornið, geggjað mark! 2-1.

Liverpool átti horn sem var enn og aftur á fremsta mann, boltinn barst til baka á Robertson sem sendi langa bolta innfyrir vörn Arsenal sem hljóp út til að spila Liverpool rangstæða, Salah lagði hann þvert fyrir markið í fyrsta á Mané sem skoraði örugglega, 3-1 – frábært mark!

Stuttu síðar var Xhaka líklega heppinn að fá ekki tvö gul spjöld og þar með rautt. Bæði var tækling hans á Robertson virkilega harkaleg en svo sparkaði hann knettinum í burtu eftir að hafa fengið gult spjald.

Manni fannst hálfleikurinn vera að fjara út eftir þetta þar til að Alisson átti líka þetta gull af sendingu. á Firmino sem sendi boltann strax bakvið vörn gestanna á Mo Salah. Egyptinn komst framhjá Sokrates sem gerði tvær eða þrjár tilraunir til að ná boltanum án árangurs en djöflaðist af sama skapi aftan í Salah sem féll og vítaspyrna dæmd! Salah steig sjálfur upp og skoraði, 4-1 og dómarinn flautaði til háflleiks!

Liverpool byrjaði af krafti í síðari hálfleik og hefði vel getað komast í 5-1 í tvígang. Fyrst átti Shaqiri frábært samspil við Mané sem komst einn innfyrir en náði ekki skotinu eftir pressu frá Sokrates. Mínútu síðar átti Shaqiri frábæra utanfótar sendingu á Salah en Leno var á tánum og komst í boltann áður en Salah náði skotinu.

Arsenal fékk fínt færi á 52 mínútu til að minnka muninn. Xhaka tók þrýhyrning við Ramsey og átti frábæra sendingu innfyrir. Ég sá ekki hvort að Fabinho náði snertingu á skotið eða hvort það var bara slakt en skot Ramsey var á leiðinni framhjá áður en Aubameyang kom á fjærstöng (reyndar dæmdur svo rangstæður í kjölfarið, ranglega) og skaut yfir nánast af línu.

Henderson kom inn í stað Mané á 61 mínútu. Mínútu síðar átti Salah frábæra hælsendingu innfyrir á Fabinho sem allt í einu var kominn einn innfyrir en Leno varði skot hans í horn. Upp úr því horni fékk Liverpool sitt annað víti í leiknum þegar Kolasinac virtist ýta Lovren og Michael Oliver ekki í nokkrum vafa. Upp steig Firmino, til að freista þess  skora sína fyrstu þrennu! Ekki hafa þær verið góðar hjá honum fram að þessu en þessi var aldrei í vafa, öruggt víti, Leno í rangt horn, 5-1. Game over!

Bestu menn Liverpool

Margir góðir í dag. Salah var bæði með stoðsendingu og mark (ekkert nýtt þar svo sem), Mané komst á blað en fyrir mér stóð valið í raun á milli tveggja aðila (sem er hálf kjánalegt þegar annar þeirra skorar þrennu). Ég get ómögulega valið á milli þeirra. Það eru þeir Georginio Wijnaldum og Roberto Firmino. Gini var algjörlega frábær í dag, og reyndar verið það síðustu vikur. Búinn að vera okkar lang lang lang besti miðjumaður á þessari leiktíð og var það svo sannarlega í dag. Það er heldur ekki hjá því komist að velja Firmino í dag. Hans fyrsta þrenna fyrir félagið (þar með eitt án þess að horfa, auðvitað). Hann hefur líklega verið sá sóknarmaður okkar sem hefur verið hvað mest gagnrýndur þetta tímabilið en hann var frábær í dag, ekki bara í mörkunum sínum heldur bara í öllum sínum aðgerðum.

Erfiður dagur

Það var í raun enginn sem átti erfiðan dag. Að mínu mati var Fabinho smá tima að komast inn í leikinn, Robertson var einnig gripinn úr stöðu í tvígang snemma í leiknum sem er mjög óvanalegt. Báðir unnu sig fljótt inn í leikinn og stóðu sig með miklum sóma. Vörnin var að sama skapi góð, utan fyrsta korterið eða svo, og það reyndi lítið á Alisson í raun og veru.

Ég gef Aubameyang því þessi skammarverðlaun í dag. Held að yfirburðir Liverpool í leiknum krystalist í tölfræðinni hans, 13 snertingar í dag, þar af 6 sinnum er hann tók miðju.

Umræðan

Penaltypool. Eftir að hafa ekki fengið víti á Anfield í einhverja 440 daga þá er liðið nú búið að fá 3 víti á 4 dögum! Það skal þó enginn vera í vafa um að þessar vítaspyrnur höfðu engin áhrif á úrslit þessa leiks, utan það auðvitað hve mörg mörk Liverpool voru. Yfirburðirnir voru algjörir.

Georginio Wijnaldum. Ósungin hetja þetta tímabilið að mér finnst. Hollendingurinn er okkur svo mikilvægur og er búinn að vera okkar besti miðjumaður (by far) þetta tímabilið. Virðist vera búinn að aðlagast nýju hlutverki virkilega vel og verið frábær síðustu vikur og mánuði!

Yfirlýsing. Eftir úrslitin á Wembley í dag þá var ljóst að pressan væri á Liverpool í dag að klára sinn leik og ná 9 stiga forystu í  deild (amk í einn dag en City á leik á morgun, sunnudag). Liverpool lét ekki þar við sitja heldur rasskelldu þetta Arsenal lið 5-1 og það án þess að spila okkar “besta” leik! Þetta Liverpool lið er ekki þetta “týpíska” Liverpool lið eins og ég hef þekkt það síðustu tvo áratugina eða svo, það er svo mikið meira spunnið í þessa stráka!

Virkið Anfield. Liverpool eru nú ósigraðir í 31 leik á Anfield í deildinni!

Desembermánuður. Þetta verður varla mikið betra. 8 leikir, 8 sigrar, 23 mörk skoruð, 3 mörk fengin á sig:

  • Liverpool – Everton 1-0
  • Burnley – Liverpool 1-3
  • Bournemouth – Liverpool 0-4
  • Liverpool – Napoli 1-0
  • Liverpool – Manchester United 3-1
  • Wolves – Liverpool 0-2
  • Liverpool – Newcastle 4-0
  • Liverpool – Arsenal 5-1.

Þarna eru sigrar gegn erkifjendum, Everton og Man Utd ásamt auðvitað Arsenal og svo Napoli og þar með farseðill í 16 liða úrslit. Ég held að það sé ekki hægt að skrifa neitt mikið betra handrit fyrir okkur púllara hvað desembermánuð varðar en þetta hér að ofan! Vonandi verður janúarmánuður eitthvað sambærilegur, byrjum þann þriðja!

Næsta verkefni

Næsta verkefni er stærsti leikur tímabilsins, það er bara þannig. Liverpool heimsækir Man City á Ethiad þann 3. janúar í leik sem mun ráða miklu um það hvernig næstu vikur spilast! Ég er nú bara búinn að gera ráð fyrir 3 stigum hjá City á morgun en þá væri munurinn á milli liðanna 7 stig þegar flautað verður til leiks.

Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda ef Liverpool myndi vinna þann leik… Við sjáum hvað setur!

YNWA

40 Comments

  1. Ég gleðikasti eftir þennan stórleik hendi ég tíum á alla leikmenn Liverpool !!!!!!!!!!

  2. Firmino var að spila á öðru leveli í kvöld já það var talað um að liðin yrðu að passa sig þegar þrennan okkar myndi detta í gang það þarf ekki nema Firmino til að slátra þeim!

  3. Magnað, umræðan uppá síðkastið búin að vera að Bobby sé búinn að vera undir pari, ég hef tekið undir það…

    Takk Bobby fyrir sokkinn! Ég ét hann með bestu lyst!

  4. Undanfarin ár hefur samanburðurinn miðast við fjórðasætið. Í dag eru 16 stig stig (niður) í fjórðasætið.

    Næsti leikur er útileikur gegn MC , ætti þeirra undirbúningur að vera fumkenndur?

  5. Klopp hlýtur að vera þjálfari desember mánaðar, unnum við ekki alla leikina??

  6. Vááááááááá Þvílíkt lið ! Ég setti eitthvað útá Robertson í fyrri hálfleik, en hann var frábær eftir ryðgaðar fyrstu mínútur, en þvílíkt lið, þvílíkt lið. Bobby frábær, Fabinho líka, Winjaldum ótrúlegur og flestir að eiga góðan leik. Sigur liðsheildarinnar, FRÁBÆRT ! ! ! 3 STIG

    Næst er það toppslagur og þá megum við ekki tapa 🙂

    En á toppnum yfir áramótin, og með 9 stiga eða 7 stiga forskot, áfram southampton á morgun 🙂

  7. á þessu ári við með 88 stið í 37 leikjum
    city með 85 í 36 leikjum, þannig að ef þeir vinna á morgum verum við að jafna þennann árangur sem átti ekki að vera hægt að bæta.

    við höfum kanski ekki breidd þeirra en við höfum betra byrjunnarlið og betri liðsheild, auk þess að breiddinn er mun betri en maður hefði vonað, í vor var maður að vona að Sturrage myndi na sér því okkur vantar breiddina en það er bara ekki pláss fyrir hann. síðan höfum við tvo eða þrá alvöru leiðtoga sem virðast ná vel saman á meðan city skortir það allveg.

  8. Þvílíkt og annað eins.
    Sat með nokkrum glerhörðum Arsenalmönnum heima hjá mér að horfa á leikinn og svo náttúrulega nokkrir Púlarar.
    Arsenal mennirnir reyndu að kenna öllu um. Dómaranum, veðrinu, boltanum, Wenger og fl. en urðu að viðurkenna í leikslok að Liverpool væri einfaldlega mun betra lið.
    Og það er rétt.
    Liverpool er einfaldlega besta liðið í Evrópu og þó víðar væri leitað í dag.

  9. Takk fyrir túkall, svona á að gera þetta. Reyndar yfirleitt gott að spila við Arsenal heima svona til að laga markatöluna. Einhversstaðar sá ég skrifað að Liverpool hefði ekkert átt sérstakan leik. Hvernig hefði þá leikurinn farið ef Liverpool hefði átt sérstakan leik, ég bara spyr? Firmino allur að koma til og reyndar allir góðir eða frábærir.
    Nú fara mikilvægu stigin heldur betur að tikka inn og þessi 54 verða ekki tekin af okkar liði. Á síðasta tímabil fékk liðið í 7. sæti samtals 54 stig í 38 leikjum. Nú verður fróðlegt að sjá hvernig MC bregst við. Guð minn hve sl vika og hvað þá tvær hafa verið dásamlegar og sennilega langar fyrir MC. 14. des var Liverpool með 42 stig og MC 41 stig, síðan var skellt í 5. gír. Mikið ofsalega er þetta gaman. Það er að koma níunda áratugs fílingur í mann.

  10. Þessi sigur var RISASTÓRT statement! Komin pressa á liðið, fá léttleikandi Arsenal lið í heimsókn, lenda undir en vinna að lokum 5-1 sigur. Sá þetta ekki koma.

    Ég hef svo margt að segja en á sama tíma orðlaus.

    Takk fyrir sýninguna.

  11. Ætlaði að drífa mig að ýta á save og svo quit game þegar ég áttaði mig á að svona er þetta í alvörunni. Besta lið heims í dag.

  12. Eigum við að senda áramótakveðju til Barcelona sem fjármögnuðu kaupin á BÆÐI besta markmanni og besta varnarmanni ensku deildarinnar fyrir EINN lítinn snöggan Brassa sem hefur ekki verið að ná sér á strik samkvæmt ýmsum stuðningsmönnum Barcelona.

    Wijnaldum maður leiksins, var frábær. 9,5. Firminho 9 og rest fær 7,5.

    YNWA

  13. þegar Salah lét Firmino hafa boltann í vítinu til að fullkomna þrennuna var bjúra MasterClass af King Salah.

    Ef Salah hefði tekið vítið og skorað þá hefði það sett hann í 1 sætið um flest mörk skoruð í deildinni.

    YNWA

  14. Var að koma af leiknum þvílík upplifun. Mæli með að fara á anfield og helst á leik sem er í seinna lægi. Takið lán eða whatever það er þess virði. Gini geggjaður og Van Dijk þvílíkur leiðtogi. Við erum í dauðafæri að vinna deildina en einn leikur í einu. Það eru þvílík forréttindi að halda með þessum æðislega klúbb. Ég elska þetta lið meira en allt. Við erum Liverpool

  15. Takk fyrir hlekkinn Eyjólfur. Þetta var skemmtilegt áhorf. Þeir voru að missa þvag yfir spilamennsku og yfirburðum Liverpool. Nenntu ekki einu sinni að taka brotið í seinna vítinu fyrir það skipti svo litlu máli.

    Tottenham virtust fara á taugum eftir jöfnunarmarkið frá Wolves og allt tal Potte um silent title racers án þess að leikmenn fyndu fyrir pressu varð kjánalegt.

    Miðað við highlights þá voru blágrannarnir líka yfir spilaðir af Brighton sem var síður skemmtilegt að sjá.

    Takk fyrir árið meistarar.

  16. frábær sigur og klassa leikur hjá okkar mönnum, Firminho bestur , Fabinho lang slakastur , Robertson kom þar á eftir . ég hefði tekið Fabinho út af eftir 20 mín

  17. Sælir félagar

    Hvað á ég að segja – vá. Það er ekkert hægt að segja nemma bara vá vá vá. En svona til að gera eitthvað ætla ég að henda í einkunnagjöf. Gamall kennari ætti nú að ráða við það.
    Alisson……..10
    TA Arnold….10
    Lovren………10
    VvDijk……….10
    Robertson…10
    Gini…………..10
    Fabinho…….10
    Shaqiri………10
    Mané………..10
    Firmino……..10
    Salah………..10
    Varamennirnir…..10
    Klopp………..10
    Stuðningsmenn liðsins….10
    Völlurinn…….10

    Arsenal fær líka 10 fyrir að vera einhver auðunnasta brá hákarlanna í Liverpool á árinu!!!

    Þa’ er nú þannig

    YNWA

    PS. Þetta er í fyrsta skipti á 38 ára kennaraferli sem allur hópurinn fær 10 í einkunn. Það er magnað eftir að vera hættur kennslu.

  18. Mér finnst þetta góð skýrsla eins og vanalega en ég sakna örlítið að fá dóm skýrsluhöfundar. Eins og td var vítaspyrnan réttmæt eða ekki. Það sem ég elska við þessa síðu er einmitt það. En Eyþór ekki taka þetta stinnt upp, þetta er flott skýrsla og gæti nánast ekki orðið betri 🙂
    Það segir sitt þegar ég kvarta yfir þessu, þetta er með ólíkindum gott. Þegar maður kvartar yfir skýrslunni er ,, eitthvað að”

  19. HA ? Mer fannst fabinho frábær i leiknum utan við eina slaka sendingu i upphafi leiks.. Fabinho er orðin lykilmaður i þessu i liði og gefur liðinu allt aðra vídd a miðjunni, PUNKTUR

  20. Fabinho átti góðan leik – ekki bestur í dag – en fyrir utan eina áberandi hroðalega sendingu, þá var hann að spila mjög vel. Sammála #27 að hann kemur með öðruvísi getu inn í miðjuspilið sem er gríðarlega mikilvægt.

  21. Spurningin er, hvenar er leikur fullkominn, þessi leikur kemur næst því að teljast fullkominn. Það fullyrði ég m.t.t. andstæðingsins. Að vinna Newcastle 4-0 og Arsenal 5-1 er ekki saman að líkja miðað við stöðuna í deildini hjá báðum liðum, sem á að segja töluvert. Hrikalega erum við að lifa skemtilega tíma.

    YNWA

  22. Búið að vera tala svo mikið um City og markatöluna hjá þeim svo var verið að tala um að Firmino væri ekki búinn að skora á Anfield á þessu tímabili þeir fóru bara í að fínapússa þessa hluti þaes stinga City af laga markatöluna og Firmino með þrennu á Anfield þetta var ágætt held ég bara já.

  23. Man City er að fara að tapa stigum í dag, skrifað í skýin.

    Takk fyrir árið kop.is

    Alltaf hrikalega stolltur stuðningsmaður ,hvað þið leggið alltaf mikið á ykkur fyrir þessa síðu.

    YNWA

  24. Er það ekki rétt hjá mér, við unnum síðasta heimaleik manc gegn okkur í meistaradeildini, við endurtökum það núna í deildini. Gleðilegt nýtt ár, og þakka fyrir allar frábæru greinarnar og gullköstin, sem og þá sem eru félagar á síðuni og láta ljós sitt skína svo skemtilega aðallega nú um stundir gegn um sætt, látum þetta súra eiga sig, höfum enga þörf fyrir slíkt

    YNWA

  25. Eyþór, eins og þú bendir á, 8 sigrar, 8 jafntefli, markatala 23-3. Ég má hundur heita ef Liverpool vinnur ekki tvöfalt í kjörinu á besta leikmanni og besta stjóra desembermánaðar.

  26. Á árinu 2018 fékk Alisson á sig tíu mörk á Anfield. Aðeins í helmingi þeirra marka var hann í búningi Liverpool. Magnað!!

  27. Það væri gaman að heyra afstöðu manna til besta sameiginlega byrjunarliðs Liverpool og City hér í athugasemdum og jafnvel í Gullkasti.

  28. Pep telur okkur besta lið i heimi um þessar mundir…þurfum ekki gardínuna hjá city til að segja okkur það….

  29. City er betra en Liverpool enda vann það í fyrra og Liverpool er ekki búið að vinna neitt.
    Leikurinn er 90 mínútur og tímabilið er 38 leikir.

    Núna er hálfleikur og Liverpool er búið að spila leikinn betur í fyrri hálfleik og í byrjun seinni hálfleiks. Núna þarf bara að halda haus í seinni hálfleik og sýna það sem manni grunar að Liverpool sé besta liðið í ensku deildinni.

Liðið gegn Arsenal

Gleðilegt ár 2019