Gleðilegt ár 2019

Við félagarnir á Kop.is viljum óska lesendum og hlustendum síðunnar gleðilegs nýs árs og þakka fyrir árið sem er að líða. Síðan sjálf hefur átt öflugt ár en Liverpool spilaði 53 leiki árið 2018 með tilheyrandi vinnu í kringum hvern leik. Podcastið heldur áfram að vaxa og reynum við nú að miða við vikulega þætti. Þökkum sérstaklega fjölmörgum góðum gestum okkar í þeim þáttum árið 2018. Hópferðir hafa heppnast vel og verður vonandi áframhald á því á næsta ári. Kjölfestan er þó að sjálfsögðu þið sem nennið að lesa síðuna, hlusta á þættina og koma með okkur út til Liverpool.

Liverpool hefur sjaldan eða aldrei spilað betur en liðið var að gera árið 2018 og verður þetta ár vonandi grunnurinn að frekari árangri þessa liðs sem Jurgen Klopp er að setja saman með Edwards og nördunum sem vinna með þeim. Okkar nördar voru betri en nördar annarra liða á þessu ári sem er að skila sér í líklega bestu leikmannakaupum Liverpool síðan 1987. Eini risastóri mínusinn var í Kiev en ferðalagið þangað staðfesti endurkomu Liverpool á stóra sviðið og það er góður áfangasigur í bili.

Það er jafnan svo mikið álag á þessum árstíma að við náum ekki að gera árið upp almennilega enda tímatalið í fótboltanum frá ágúst – maí. Höldum þó í hefðir og gerum þetta aðeins upp.

Þetta uppgjör endurspeglar aðeins mínar (EMK) skoðanir.

Besti leikur ársins 2018:

a) Liverpool – Man City 3-0 (2017/18)
Þetta voru ofboðslega sterk skilaboð gegn liði sem hafði verið allt að því ósigrandi fram að þessum leik. Það var mikið gert grín af stuðningsmönnum Liverpool fyrir að tala upp Evrópukvöldin á Anfield og fóru stuðningsmenn Man City sérstaklega mikinn í þeirri umræðu, jafnvel leikmenn líka. Það var ekki nokkur maður að tala á þeim nótum eftir leik. Evrópukvöldin víðfrægu komu loksins aftur þetta kvöld.

b) Liverpool – Roma 5-2 (2017/18)
Að komast í 5-0 eftir rúmlega klukkutíma í undanúrslitum Meistaradeildarinnar er ekkert eðlilegt þó að Liverpool liðið hafi gert slíkar tölur nokkuð hversdagslegar á síðasta tímabili. Roma svaraði þessu vel en þetta var rosalegt kvöld á Anfield.

c) Liverpool – Man City 4-3 (2017/18)
Algjörlega sturlaður leikur hjá okkar mönnum og 4-3 fegra gang leiksins mjög fyrir Man City. Frábært svar við 5-0 skellnum nokkrum mánuðum áður og fyrsta tap Man City á síðasta tímabili. Væri rankaður hærra ef það hefði verið jafn mikið undir í þessum leik og í Meistaradeildinni en City var pretty much búið að vinna mótið þó þessi leikur hafi farið fram um miðjan janúar.

Lélegasti leikur ársins 2018:

a) Real Madríd – Liverpool 3-1 (2017/18)
Því miður féll ekkert með okkur í þessari lokahindrun og lítil sem engin breidd kom illa í bakið á okkur. Hvort sem Karius fékk heilahristing eða ekki þá spilaði hann eins og hann væri vankaður en stóra atvikið var að missa Salah af velli vegna ótrúlegra fantabragða Ramos. Með hann inná allan leikinn held ég að Real hefði ekki dugað þessi þrjú mörk sem þeir skoruðu. Hrikalega sorglegur endir á frábæru ferðalagi í úrslitin.
b) Roma – Liverpool 4-2
Það var komin þreyta í Liverpool liðið í maí og með ólíkindum að þetta einvígi hafi ekki verið búið í stöðinni 5-0 seint í síðari hálfleik á Anfield. Frammistaðan gegn Roma var verri en gegn Real Madríd en dettur í annað sæti hjá mér af augljósum ástæðum.

c) Swansea – Liverpool 1-0 (2017/18)
Rosalega vont tap gegn liði sem féll um vorið strax í kjölfarið á 4-3 sigri á Man City. 2-3 tap gegn WBA í FA Cup í næsta leik á eftir kom líka til greina.

Tap gegn Napoli og Red Star Belgrade eru einu leikirnir sem koma til greina á þessu ári.

Bestu leikmannakaupin 2018:

a) Van Dijk
Besti miðvörður sem ég hef séð spila fyrir Liverpool. Haldi hann áfram að spila fyrir Liverpool eins og hann hefur gert á þessu ári er stutt í titla. Tala ekki um ef hann vær stöðugan partner í t.d. Joe Gomez. Ekki bara frábær leikmaður og leiðtogi heldur lyftir hann leik samherja sinna einnig.

b) Alisson
Líklega vantaði okkur markmann í þessum gæðaflokki meira en miðvörð. Þetta er ekkert flókið það hefur engin markmaður byrjað ferilinn svona vel hjá Liverpool og það er engin tilviljun. Innkoma hans virkar líka svipað áhrifamikil og þegar Jesús breytti vatni í vín í fyrsta skipti þegar við berum hann saman við fimm ár af Simon Mignolet og svo Karius en síðasti alvöru leikur hans fyrir félagið er versti leikur sem markmaður hefur átt hjá Liverpool.

c) Fabinho
Eins mikið og ég fíla Shaqiri í botn þá vantaði okkur miklu meira svona miðjumann og Fabinho er byrjaður að sína hvað hann kemur með inn í þetta Liverpool lið.

Shaqiri hefur komið frábærlega inn og ég átta mig á að margir setja hann ofar en Fabinho, kaupverðið á honum er svipað galið og sú staðreynd að hann var í Stoke í þrjú ár. Þarna vantar svo alveg Naby Keita sem við biðum eftir í eitt ár. Ég held ennþá að hann geti orðið bestur af öllum miðjumönnunum okkar.

Besti leikmaður Liverpool árið 2018:

a) Van Dijk
Hann er mikilvægasti leikmaður Liverpool og innkoma hans hefur verið með ólíkindum. Varnarleikur liðsins var búinn að vera í tómu tjórni í áratug áður en Van Dijk mætti og gerði vörn Liverpool að þeirri bestu í Evrópu.

b) Mo Salah
Erfitt að bera saman Van Dijk og Salah og það að skora mörk er vissulega það erfiðasta í fótbolta. Það er ekki tilviljun að Salah er tilnefndur til allra verðlauna sem í boði eru.

c) Bobby Firmino
Firmino var frábær í Meistaradeildinni á þessu ári sem og auðvitað deildinni. Held að hann sé ennþá vanmetin fyrir utan Liverpool.

Mestu vonbrigðin 2018:

a) Það er bara eitt sem kemur til greina hérna. Því miður og þvílík vonbrigði. Þetta lið átti skilið að vinna Meistaradeildina.

b) Meiðsli Ox-Chamberlain
Hann er ekkert besti miðjumaður í sögu Liverpool neitt en meiðsli hans höfðu gríðarleg áhrif og Klopp var ekki með leikmann til að fylla hans skarð fyrr en núna undanfarið að Shaq hefur verið að koma sterkur inn. Hann fyllti skarð Coutinho og var að spila sinn besta fótbolta á ferlinum er hann meiddist. Hans var klárlega saknað í útileiknum gegn Roma og sérstaklega í Kiev. Framan af þessu tímabili var ennþá verið að tala um fjarveru Ox en liðið er loksins farið að finna aðrar lausnir.

c) Salan á Coutinho
Ég vildi alls ekki selja hann og Liverpool ætlaði að kaupa Van Dijk sumarið áður þannig að kaupin á honum tengdust Coutinho ekkert. Liverpool saknaði hans klárlega í lokaleik tímabilsins. Eins var framkoma hans bara töluverð vonbrigði og manni fannst Liverpool eiga betra skilið frá honum, sérstaklega þegar liðið var loksins komið með frábært lið, engu síðra en lið Barca. Aðalástæðan fyrir því að hann kemst á þennan lista er samt sú að það var bara ekkert margt annað sem kom til greina, Þetta var frábært ár fyrir utan leikinn í Kiev.

Hvað stendur upp úr árið 2018:

a) Liverpool er komið aftur.
Byrjun þessa tímabils stendur klárlega uppúr enda fagnar Liverpool nýju ári með sjö stiga forskot á toppnum og í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Liverpool er aftur komið í umræðuna um bestu liði í heimi og það eru ef eitthvað er allir aðrir en stuðningsmenn Liverpool sem leiða þá umræðu.

b) Meistaradeildin
Hápunktur í sömu færslu fyrir árið 2017 var Meistaradeildarsætið. Liverpool á auðvitað alltaf að vera í Meistaradeildinni og sýndi það í fyrra. Ferðalagið í úrslitaleikinn var klárlega einn af hápunktum síðasta árs. Persónulega voru ferðir til Porto og svo til Liverpool á Roma leikinn með þeim betri sem ég hef farið á fótboltaleiki.

c) Leikmannakaup
Jurgen Klopp og Michael Edwards er besta tvíeyki sem Liverpool hefur átt þegar kemur að leikmannakaupum síðan Bob Paisley var með Geoff Twentyman. Árið 2017 var frábært á leikmannamarkaðnum og í raun með ólíkindum að þeir hafi toppað það árið 2018. Guð minn góður ef 2019 verður ennþá betra!

Stutt spá fyrir 2019:

Næsta ár en jafnan okkar ár segir máltækið…

Liverpool hefur undanfarin ár verið í öðru sæti í Deildarbikarnum, FA Cup, Evrópudeildinni, Meistaradeildinni og Úrvalsdeildinni. Hluti af þessu liði hefur verið partur af öllum þessum atlögum. Klopp er ennþá að byggja upp sitt lið og er núna með gríðarlega vel mannað lið á mjög góðum aldri og þekkir það að leiða lið undir þessum aðstæðum. Hungrið í þessum hópi, stuðningsmönnum og félaginu í heild er orðið gríðarlegt og loksins erum við með lið sem er gott á báðum endum vallarins.

Keppinauturinn í deildinni er auðvitað dýrasta og besta lið í sögu Ensku Úrvalsdeildarinnar, gat ekki annað verið þegar Liverpool er loksins að “toppa” en vonandi halda okkar menn áfram á þeirri braut sem liðið er á núna. Takist það stoppar okkur ekkert.

Lokaorð um árið 2018:

Flest lið sem vinna titla eru búin að gera atlögu árin á undan, það er sjaldan sem lið kemur eins og Leicester gerði. Liverpool hefur gert atlögu undanfarin ár og Meistaradeildin síðasta vetur var risa áfangi. Leikmannakaup Liverpool 2018 gera það að verkum að núna erum við með lið sem getur tekið næsta skref.

Þetta er ekki eins 2002 þegar góðu tímabili var klúðrað með afleitum leikmannaglugga. Félagið var á barmi borgarastyrjaldar 2008/09 þegar sjálft liðið var nógu gott en vantaði breidd sem var klúðrað þá um sumarið. Liðið 2013/14 gerði semi Leicester atlögu að titlinum en var skipað einn verstu vörn Liverpool á þessari öld og féll á því.

Jurgen Klopp er ennþá á uppleið með félagið og haldi það ferðalag áfram 2019 er næstra skref að fara lyfta bikurum.

Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir það sem er að líða.

19 Comments

  1. Gleðilegt nýtt ár, Þið eigið heiður skilinn fyrir að halda þessa frábæru síðu sem kop.is er.
    Takk fyrir.

  2. Gleðilegt næsta ar og takk fyrir flottan póst, arið 2019 gæti orðið okkar besta ar i 28 ar ef við lokum þessari deild en hef samt lika goða trú a að við getum unnið meistaradeildina lika eða FA cup en verum bara bjartsýnir og tokum helvitis þrennuna eins og Man Utd arið 1999, shit hvað það yrði blautur draumur þott eg verði alltaf anægður með einn af þessum titlum og þa helst deildina eða meistaradeildina frekar en FA cup. Allavega alveg sens a að taka 2 titla þott maður taki einn alsæll

    Annars varðandi bestu menn arsins finnst mer Milner og Mane lika koma til greina, Milner með stoðsendigamet i meistaradeild og Mane með hvað 11 mörk i meistaradeild hvort það var jafnt Firmino eða marki meira man eg ekki..

    Annars frabært ar að enda og megi það næsta verða betra sem það verður pottett hvað liðið okkar varðar 🙂

  3. Takk kærlega fyrir mig – þið eruð frábærir nördar!!

    Gleðilegt nýtt Liverpool-ár og takk fyrir allar stundirnar sem við áttum og megi nýja árið verða gifturíkt í silfurbúnaði.

    YNWA…..

  4. Sælir.

    Ég verð á Anfield í fyrsta skipti þegar Liverpool tekur á móti Jóa Berg og félögum. Ég sá KR – Liverpool árið 1984 og fór á Valur – HSV með Kevin Keegan innanborðs.
    Ég vil þakka fyrir frábæra síðu og hlaðvörp.
    YNWA.

    Siggi

  5. Það eru 7 Atriði sem gerðu árð geggjað!

    Nr1 K
    Nr2 O
    Nr3 P
    Nr4 .
    Nr5 I
    Nr6 S

    Nr7 —> LIVERPOOOL

    Gleðilegt nýtt spennandi ár….

  6. Takk kærlega fyrir þessa yfirferð um árið. Skemmtilegt eins og árið var að mestu og er ég sammála flestu sem kemur fram. Þó held ég að Red Star leikurinn hafi verið alveg jafn lélegur og Roma leikurinn, ef ekki verri. Varðandi leikmenn ársins, erfitt að toppa VvD og Salah, en ég hefði sett jafna í 3-4 sæti Milner og Firmino. Milner búinn að vera algjörlega ódrepandi og duglegur eins og alltaf og svo þessi dýrmæti eiginleiki að geta hlaupið í margar stöður og leyst af eins og um daginn í bakverðinum. Líkt og með Firmino finnst mér Milner vera vanmetinn leikmaður.
    Takk enn og aftur til ykkar sem standið að Kop.is. Þetta er frábær síða og frábært fólk sem skrifar inn a síðuna og lætur sínar skoðanir í ljós. Sameignlegt með þeim öllum er ást á Liverpool. Góðar stundir og gleðilegt nýtt ár.

  7. Takk innilega fyrir frábæra síðu, staðan á liðinu okkar er bara með ólíkindum, 7 stiga forskot um áramót er eitthvað sem ég hefði aldrei látið mig dreyma um í haust.
    Takk fyrir mig Liverpool og kop.is.

  8. Besti leikur ársins 2018:

    1. 3-0 sigurinn á Manchester City, allt fullkomið við þann leik, 90 mínútur af knattspyrnu sem allir þjálfarar eru stoltir af.

    2. 5-0 sigurinn á Porto í Portúgal. Kannski ekki sterkasi mótherjinn, en þessi sigur reyndi lítið á hópinn og var mikilvægt að þurfa ekki að spila uppá úrslit á Anfield heldur hægt að taka því nokkuð rólega.

    3. 3-1 sigurinn á United. Ef ekki væri fyrir United hefði þessi leikur vikið fyrir Arsenal leiknum í fyrradag. Bara það að sjá Liverpool yfirspila United eins og þeir gerðu þarna, að “koma til baka” eftir jöfnunarmarkið og í rauninni að negla síðasta naglann í kistu Mourinho gerði þennan sigur svo frábæran.

    Lélegasti leikur ársins:

    1. Tapið í Kiev, án frekari orða.

    2. Tapið gegn Roma. Alveg tilgangslaust að hleypa þeim inní einvígið.

    3. 2-0 tapið gegn Rauðu Stjörnunni. Sennilega lélegasta frammistaða liðsins undir Klopp.

    Auðvitað ætti þetta að vera í öfugri röð, en þetta er frammistaða og vonbrigði samofin.

    Bestu kaup ársins 2018.

    1. Virgil, þó svo að kaupin hafi átt sér stað 2017 þá fer hann efst á þennan lista.

    2. Alisson. Gaman að vera með einn besta keeper veraldar í okkar röðum.

    3. Shaq. Verðmiðinn hefur fjórfaldast og hann er ekki orðinn fastamaður í liðinu ennþá.

    Besti leikmaður árið 2018.

    1. Salah – markahæstur á í EPL á þessu almanaksári fleytir honum langt, allt annað við hann setur hann efstan á listann.

    2. Dijk – ekki nóg með að hann er frábær leikmaður, heldur gerir hann alla hina betri.

    3. Robertson – Eins stabílum vinstri bakverði man ég ekki eftir hjá Liverpool. Vinnusemin bæði til baka og framávið er aðdáunarverð, hann verður að fá sæti á listanum.

    Vonbrigði 2018

    1. Kiev.

    2. Kaupin á Fekir gengu ekki í gegn. Spennandi leikmaður sem ég vill ennþá fá til Liverpool

    3. Ætli framkoma Coutinho til klúbbsins og aðdáenda fái ekki þetta sæti. Viðhorfið til hans gjörbreyttist.

    Stutt spá fyrir 2019:

    Við verðum englandsmeistarar í maí.

  9. Sigurður # 6 . Þegar þú sagðir að þú hefðir séð leikinn rifjaðist upp fyrir mér eftirfarandi. Ég sá leik Liverpool og KR á troðfullnum Laugardagsvelli mánudagskvöldið 17 ágúst 1964 með pabba mínum þá 9 ára gamall. Þetta var einstakur viðburður á þeim tíma því þetta var fyrsti leikur Liverpool í Evrópukeppni. Eitthvað gerðist þetta kvöld í mínu litla barnshjarta því Liverpool hefur allt síðan þá verið stór hluti af mínu lífi og hugur minn minn að öllu jöfnu hjá þeim all flesta daga. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ég varð síðan þeirrar gæfu að njótandi að fá tækifæri sumarið 1976 að eyða sumrinu í Liverpool í gullaldartimabili liðsins við krufningar með félögum mínum á öðru ári í lækna deildinni og þar fékk ég tækifæri að fylgjast með komu liðsins til borgarinnar eftir að þeir höfðu unnið sinn 9 deildarsigur og annan Evrópu titil tímabilið 1975/1976. Bob Paisley þjálfaði stjörnum prýtt liðið með stjörnur á borð við Kevin Keegan, John Torshack og Ray Kennedy. Sú sigurganga endaði inn á Anfield þar sem liðið var hyllt fyrir framan troðfullan völl. Liverpool var risi í Evrópskri knattspyrnu á þessum árum og á árunum sem fylgdu í kjölfarið fram á níunda áratuginn. Á þessum árum lagði liðið grunninn að þeim vinsældum og ævintýra ljóma um allan heim sem á sér enga hliðstæðu og nú loksins eftir nær þriggja áratuga mögur ár virðist risinn vera vaknaður með aðstoð Klopp. Ég hef fulla trú á því að við náum loksins að landa deildar titlinum í vor. Það eru þvílík forréttindi sem stuðningsmaður að fá að fylgjast með þeirri vegferð sem Klopp er með liðið á ! Áfram Liverpool !

  10. Gleðilegt ár og bestu þakkir fyrir frábæra þjónustu kæru pennar kop.is.

    Það hefur alltaf verið spennandi að vera Liverpool aðdáandi þrátt fyrir misjafna uppskeru síðustu áratugina, en nú er vonandi eitthvað stórkostlegt að gerast hjá klúbbnum okkar.
    Megi 2019 marka upphafið að glæsilegri endurkomu Liverpool á þann stað sem við sem fengum að upplifa áttunda og níunda áratug síðustu aldar þekkjum.
    Y.N.W.A.

  11. Sæll Guðmundur #10, var einmitt sjálfur staddur á leik KR-LFC árið 1964 í boði KR, sá sem sagði 1984 hefur skrikað aðeins puttinn á tölvuborðinu, kemur fyrir bestu menn. Þessi leikur er merktur sem upphaf að gullöld Liverpool. Eftir þennan leik var ekki aftur snúið sem stuðningsmaður okkar ástkæra félags. Höfum gengið í gegn um súrt og sætt, núna er það sæta ofan á, og vonandi komið til að vera þannig
    Óska öllum Gleðilegs nýs árs, með þá von að liðinu okkar farnist áfram vel á nýju ári, Liverpool er okkar lið.

    YNWA

  12. Frábær síða og fínar jólagjafir sem bárust frá klúbbnum okkar, sem brátt fagnar 25 ára afmæli – Kanski við fáum nú langþráða afmælisgjöf í vor, en allavega, Gleðilegt ár Poollarar !

  13. Gleðilegt nýtt ár kæru Liverpool menn og konur og takk kærlega fyrir þessa frábæru síðu og alla þessa vinnu sem þið leggjið í þetta fyrir okkur.

  14. Gleðilegt nýtt ár allir Poolarar! Og Koparar, takk fyrir frábæra síðu. Það að geta fylgst með umræðum, podköstum að ógleymdum frábærum kynningum á andstæðingum okkar, gerir þetta svo einstaklega skemmtilegt (og gefur dýpri merkingu) að vera hluti af stuðningsmannahóp Liverpool football club.
    Ég er búinn að vera stuðningsmaður í 40+ ár. Það hafa skipst á skyn og skúrir en það fer alltaf um mig sama sælutilfinningin þegar lagið okkar hljómar í upphafi og lok leikja. Nú um stundir er mikið skyn sem breytist vonandi í ofbirtu í vor 🙂
    YNWA

  15. Gleðilegt nýtt ár, allir púllarar, og takk fyrir frábæra síðu og stórkostlega umfjöllun hér á Kop.is.

    Árið 2018 var næstum því fullkomið og vonandi náum við að halda þessu geggjaða formi áfram, sem lengst!

  16. Veðbankar að lækka stuðullinn gríðarleg ur 18/1 i 5/1 a að Fekir se að koma. Eg hef enga tru a þessu og held við hefðum klarað þessi kaup síðasta sumar ef við ætluðum að taka hann og se ekki að neinar forsendur hafi breyst síðan þa en sjaum til . Annars væri frábært að kaupa einn leikmann i januar i þessa stöðu eða i eina af stöðunum uppa topp, ekki að við þurfum það nauðsynlega heldur bara senda yfirlýsingu til keppinauta okkar um að við seum ekkert að grínast og ætlum að vinna þessa deild i vor 🙂

Liverpool – Arsenal 5-1

Upphitun: Stórleikur á Etihad á fimmtudaginn