Brighton á morgun

Í tilefni næsta leiks hjá okkar ástkæru rauðliðum er full ástæða til að rifja upp þetta annars ágæta lag með Drottningunni (e. Queen). Ástæðan ætti að vera augljós, en þá mæta Brighton Hove & Albion á Anfield og etja kappi við lærisveina Klopp og Lijnders.

Fréttir síðustu daga

Það er ágætt að byrja á umfjöllun um það sem hefur á daga klúbbsins okkar drifið frá því að síðasta leik lauk. A.m.k. þrjú atriði eru þess verð að minnast á þau sérstaklega:

Stækkun Anfield


Fyrstu myndir af mögulegum næsta fasa í stækkun Anfield komu fyrir almennings sjónir. Planið er þá að taka Anfield Road stúkuna fyrir, en það er stúkan sem er andspænis Kop stúkunni, og stækka hana um 7000 sæti eða þar um bil. Þetta myndi gera það að verkum að Anfield gæti tekið allt að 61.000 manns í sæti. Hér er ennþá um tillögu að ræða, ekkert búið að ákveða ennþá, enda alls konar leyfi sem þarf að fá áður en byrjað verður að stinga skóflu í jörð. Breytingin lítur engu að síður afskaplega vel út, og vonandi að af þessu verði eins fljótt og unnt er. Talað er um að framkvæmdin muni kosta um 60 milljónir punda, sem er nú vel tæplega helmingurinn af söluverðinu á Coutinho sem dæmi.

Dómur féll í Hillsborough málinu

Í gær féll dómur í Hillsborough málinu, þar sem David Duckenfield, settur “match commander” á leikdeginum örlagaríka, var dæmdur saklaus. Við tjáum okkur ekki frekar um þetta mál, enda hefur fólk verið kvatt til að láta engin ummæli falla á netinu sem gætu haft áhrif á frekari málsmeðferð.

Meiðsli Fabinho

Það kom loksins í ljós hversu alvarleg meiðslin voru sem Fabinho varð fyrir í leiknum gegn Napoli. Hann hefði svosem aldrei tekið þátt í leiknum á morgun hvort eð er, vegna gula spjaldsins sem hann fékk í leiknum gegn City um síðustu helgi. En hann verður semsagt frá í 6-8 vikur, sem er auðvitað hábölvað, enda hefur hann verið einn jafnbesti leikmaður liðsins núna í haust. Ef við reynum nú að setja okkur í smá Pollýönnu spor, þá er nú líklega best að ef einhverjir leikmenn meiðast að þá séu það miðjumenn, enda mesta breiddin í hópnum þar. Þá má líka færa fyrir því rök að þó svo að leikjaprógrammið sé þétt framundan, þá er mikið verið að spila á móti liðum úr neðri hluta deildarinnar. En engu að síður er þetta alls ekkert fagnaðarefni.

Andstæðingarnir

Nóg af fréttum síðustu daga, og snúum okkur að andstæðingunum. Brighton eru í 12. sæti deildarinnar, í þéttum hópi sem sér um miðjumoðið þessa dagana. Það er svolítið áhugavert að það skuli aðeins vera 6 stig sem skilja að liðið í 5. sæti (Wolves með 19 stig), og liðið í 17. sæti (West Ham með 13 stig). Það þarf því ekki mikið til að lið taki stórar sveiflur ef 2-3 leikir vinnast eða tapast í röð. Gengi Brighton hefur verið upp og ofan, þeir töpuðu fyrir Leicester 0-2 á heimavelli í síðustu umferð, en hefur annars gengið alveg sæmilega á heimavelli í síðustu umferðum enda unnu þeir Norwich, Everton og Tottenham í umferðum 11, 10 og 8 í deildinni. Útivallagengið er sýnu lakara, og við vonum að það haldist áfram.

Okkar menn

Við vissum auðvitað strax um síðustu helgi að Fabinho yrði ekki með í leiknum um þessa helgi, og vissum þá líka að leikmenn eins og Matip og Clyne yrðu heldur ekki leikfærir. Keita var eitthvað slappur í vikunni og var ekki á bekk í leiknum gegn Napoli, en virðist vera farinn að æfa skv. myndum af æfingasvæðinu og gæti því vel komið við sögu á morgun. Eins var Shaqiri á bekk í vikunni, og því ekki loku fyrir það skotið að hann fái tækifæri, a.m.k. á bekk, þó líklega megi helst búast við að hans þátttaka verði bundin við að koma inn sem varamaður.

Spurningin er því klárlega hvernig Klopp muni nota hópinn núna næstu vikurnar, enda að jafnaði í kringum 3 dagar á milli leikja. Næsti leikur eftir Brighton leikinn er á móti Everton á Anfield næsta miðvikudag, og svo Bournemouth á útivelli næsta laugardag. Klopp var auðsjáanlega aðeins með það í huga að rótera í Napoli leiknum, hvíldi Trent og Wijnaldum (sem þurfti svo að koma inn eftir 20 mín.), en Gomez og Milner fengu kallið. Líklegt er að það verði eitthvað svipað uppi á teningunum á móti Brighton, t.d. þætti mér ólíklegt að fremstu þrír spili allir aftur, líka í ljósi þess að Salah er líklega enn að glíma við vökva í ökkla, en er vonandi allur að koma til.

Að sama skapi er spurning hvernig Klopp muni bregðast við fjarveru Fabinho, bæði í þessum leik og á næstunni. Það eru ýmsir kostir í stöðunni; Lallana hefur jú fengið að prófa þessa stöðu, Henderson og Wijnaldum hafa báðir tekið þetta hlutverk að sér, og því hefur verið velt upp hvort Keita geti tekið þessa stöðu að sér. Mögulega verður skipt yfir í 4-2-3-1, með tvo leikmenn í sexu hlutverkinu, en það er þó kannski hæpið að það gerist á Anfield gegn liði eins og Brighton. Útilokum þó ekkert.

Spáin um liðsuppstillingu verður því á þessa leið:

Alisson

Trent – Lovren – VVD – Robertson

Henderson – Wijnaldum – Keita

Mané – Firmino – Origi

Bekkur: Adrian, Gomez, Milner, Shaqiri, Salah, Ox, Lallana

Þetta er svosem bara skot í myrkri eins og staðan er í dag. Kannski er Keita of skammt á veg kominn til að vera hent í byrjunarliðið, þó ég myndi halda að heimaleikur á móti Brighton sé mögulega með betri möguleikum fyrir hann til að komast í gírinn. Eins getur vel verið að Klopp vilji hvíla fleiri af fremstu þremur, og hendi Shaqiri í byrjunarliðið, þó ég telji minni líkur á því en meiri, svona í ljósi þess að hann er líka nýkominn úr meiðslum og hefur ekki einusinni komið inn af varamannabekknum ennþá. En hvað veit maður, Klopp gæti alveg komið á óvart.

Ég ætla hins vegar að gerast svo djarfur að spá því að liðið haldi hreinu. Já þið lásuð það rétt. Segjum að leikurinn endi 2-0, þetta verður samt ekkert ægilega auðveldur sigur því seinna markið kemur í uppbótartíma.

Leikurinn hefst klukkan 15:00 og minnum við að sjálfsögðu á heimavöll okkar, Sport & Grill í Smáralind. Boltatilboð yfir leikjum og um að gera að hafa samband uppá að panta borð. 

KOMA SVO!!!

4 Comments

  1. Flottur pistill.
    Tökum þennan leik auðveldlega á Anfield.
    Leikjaálag framundan kallar á að nota hópinn, svona til að tuða yfir einhverju hjá frábæru liði þá finnst mér leikmenn sem eru við og við að koma inn heilt yfir ekki vera að komast nóg vel frá sínu. Origi, milner, comes, keita og framv. þurfum á þeim að halda með meira framlag.

    Hrikalegt að missa fabinho, vona að hann komi í sama formi inn aftur sem fyrst.

    Enn einn leik í einu og þessi verður aldrei þessu vant auðveldur, kominn tími á hreint lak og nokkur mörk.

    1
  2. Takk fyrir góða upphitun. Held að það væri tilvali að rótera aðeins, ef ekki núna hvenær þá ?

    1
  3. Sælir félagar

    Síðbúin upphitun en kom samt. Að mínu mati er komið að markaleiknum sem við höfum verið að bíða eftir svo lengi. Nauðsynlegt að fara að bæta markatöluna svo um munar. Það er komið að því að halda hreinu og setja mörk. Spái því góðum tölum 4 – 0

    Það er nú þannig

    YNWA

    1

Liverpool – Napoli 1-1

Byrjunarliðið gegn Brighton á Anfield