Liverpool 5 – Atalanta 0 (Skýrsla uppfærð)

Kvöldið í kvöld mynti okkur stuðningsmenn Liverpool á tvennt: Hversu ofboðslega skemmtilegur fótbolti getur verið þegar bæði lið vilja spila sóknarbolta og hvers vegna fá lið vilja spila sóknarbolta á móti Liverpool. Þetta var fallegt, þetta var portúgalskt partý og þetta var þriðji sigurinn í röð í Evrópu þar sem liðið fékk ekki á sig mark.

Fyrri hálfleikur

Liverpool voru í fjórða gír frá fyrstu mínútu og pressuðu eins og þeir gera betur en nokkrir aðrir. Eftir tíu mínútna leik voru allir leikmenn Atalanta komnir fyrir aftan boltann, nokkuð sem gerist sjaldan hjá þessu sókndjarfa liði. Heimaliðið sótti samt af krafti þegar þeir fengu tækifæri til og snemma áttu þeir fínt skot sem Alisson varði örruglega.

Hann hóf sóknina strax og aðeins nokkrum sekúndum seinna var Jota komin einn í gegn. Varnarmaður Atalanta togaði og djöflaðist í honum en portúgalinn knái lét sér fátt um finnast. Hann vippaði boltanum lauflétt yfir grey markmanninn og staðan 1-0 fyrir Liverpool! Fjórða markið í fjórum leikjum hjá honum, svona á að byrja Liverpool feril!

Á átjándu mínútu átti Alisson aðra góða vörslu og tíu mínútum seinna þrælvirkaði rangstöðugildra Liverpool eins og í sögu. Vissulega er þessi rangstöðu gildra góð og gild varnartaktík, en svei mér þá þessi regla að lyfta ekki fánanum fyrr en búið er að skjóta mun taka 2-3 ár af ævi minni.

Jota var svo aftur á ferðinni á 33. mínútu og allt í einu staðan orðin 2-0. Þetta virtist stuða Atalantamenn inn að beini. Salah, Mané og Jota fengu allir fín tækifæri til að fjölga mörkunum. Þess fyrir utan var maður að sjá góðu gerðina af hroka hjá Liverpool. Leikmenn létu boltann ganga hratt sín á milli, lítil trikk og langar sendingar. Þeir einfaldlega léku sér að heimamönnum eins og kötturinn að músinni. Samt var maður ögn stressaður þegar var blásið til hálfleiks. Algjörir yfirburðir en maður velti fyrir sér hvort Ítalarnir gætu ekki komið til baka. Var það möguleiki?

Seinni hálfleikur.

Nei. Það var ekki möguleiki. Atalanta höfðu klárlega hæpað sig upp í hálfleik, komu gífurlega ákveðnir til leiks í seinni og algjörlega yfirspenntir. Þeir ætluðu að sækja eins og engin væri morgundagurinn og Liverpool refsuðu þeim.

Salah var fyrstur. Ítalarnir fengu horn sem Gomez rétt svo hreinsaði. Svo var boltanum þrumað yfir á vallarhellming Atalanta þar sem egypski kóngurinn brunaði frammúr varnarmönnum Atalanta, einn á móti markmanni og skoraði. Mínútu seinna var komið að Mané sem fékk stoðsendingu frá Salah og gróf Atalanta endanlega. Fimm mínútur búnar af seinni, 4-0 og leik svo gott sem lokið.

Jota kláraði svo þrennuna með því að dansa í kringum markmann Atalanta í skyndisókn og skora í autt markið. Eða eins og Rikki G orðaði það svo skemmtilega í lýsingunni: „Er það þrenna?!?! ÞAÐ ER ÞRENNA!“

Portúgalinn virtist líklegur til að setja fleiri mörki en eftir smá högg var honum kippt af velli ásamt Hendo og Robertson. Meira um þetta á eftir. En mikið var gaman að sjá Keita aftur á vellinum. Það er lúxus að hafa Milner til að koma inná já og… getiði ímyndað ykkur að vera varnarmaður og horfa á þrennukallinn labba útaf og í staðinn kemur ferskur Bobby Firmino? Greyin.

Á 63. Mínútu áttu Atalanta sitt besta færi í leiknum þegar einn þeirra gabbaði Gomez harkalega og þrusaði í samskeytin og út. Satt best að segja hefðu þeir alveg mátt skora þarna, því þetta var ógeðslega vel gert.

Það sem eftir lifði leiksins sóttu liðin sitt á hvað og Alisson Becker þurfti nokkrum sinnum að verja svakalega. Salah átti færi og Firmino líka. Tsimikas og Neco Williams fengu nokkrar mínútur í reynslubankan og að lokum blés dómarinn til leiksloka. Því til næst fullkominn leikur hjá Liverpool, sem mynti ansi mikið á ákveðin Porto leik fyrir nokkrum árum.

Maður leiksins.

Jeddúdamía Jota. Þvílík innkoma hjá einum leikmanni. Þrenna á útivelli í Meistaradeildinni, það þýðir að þú ert maður leiksins. Svo einfalt er það. Samt verður að gefa Mo Salah smá hrós. Hann er, eiginlega án þess að nokkur taki eftir því, búin að skora 9 mörk í 12 leikjum og gefa eitthvað af stoðsendingum. Já og Rhys Williams. Hann er orðin að Öskubuskuævintýri ársins, úr utandeild í Meistaradeildina á innan við ári.

Umræðupunktar eftir leik.

  • Sumir segja að fullkominn útileikjaframmistaða í Evrópu sé að stjórna leiknum, halda hreinu og skora eitt mark. Ég er ósammála. Fullkomin útileikjaframmistaða í Evrópu er 0-5.
  • Þvílíkir hausverkir sem Klopp hlýtur að vera með fyrir City leikinn. Jota var að krefjast þess að byrjunarliðssæti. En á kostnað Bobby? Sem er búin að rústa City oftar en einu sinni? Hvað með vörninni? Skella Matip inn á þess að hann fái mínútur? Eða gefa Rhys tækifæri? Hvað ef Fabinho er orðin heill? Fegin að ég þarf ekki að svara þessu.
  • Mig grunar að mennirnir þrír sem fóru útaf fyrst byrji leikinn á sunnudaginn.
  • Hin heilaga þrenning er orðin aftur að hinum fjóru fræknu. Lúxus.
  • Liverpool með (hingað til) bestu frammistöðu sína í riðlakeppni í Evrópu undir stjórn Klopp. Liðið er ennþá, þrátt fyrir skakkáföll og vera búnir að vinna deildina, að bæta sig.
  • Curtis Jones stóð ekki uppúr í þessum leik, en hann vann sína vinnu vel. Geggjað fyrir hann að bæta 90 mínútum í reynslu bankann.
  • Liverpool eru ekki búnir að fá á sig mark í Evrópu. Hvaða rugl er það í riðli með Ajax og Atalanta, búnir að missa besta hafsent í heimi og komnir niður í fimmta kost við hlið Joe Gomez?

Næst á dagskrá

Pep. Etihat völlurinn. Stærsta ógninn við titil númer 20. Spennan og eftirvæntingin byrjar núna. Stærsti leikur haustsins er á sunnudaginn.

 

 

 

 

37 Comments

  1. Sturlað lið og þvílík forréttindi að fá að njóta þess að horfa á liðið í svona ham þrátt fyrir að það vanti marga lykilmenn.
    Jota er að linka ótrúlega vel við Salah og Mane þarna frammi og mun að öllum líkindum spila á móti City í næsta leik, geggjuð frammistaða hjá honum í kvöld.
    Vörnin með Gomez og Williams steig varla feilspor í kvöld en þegar það gerðist þá lokaði Alisson einfaldlega markinu.
    9 stig í þessum 3 leikjum og markatalan 8-0

    9
  2. Frábær frammistaða hjá liðinnu í kvöld 🙂 Var Jota að senda Firminho á bekkin með þessari framistöðu? Er Rys Williams að fara slá í gegn? Er Gomez að fara taka Van Dijk sendingar langt yfir völlinn og bang sóknarmaður skorar? í kvöld var þetta unun og hjartað allan tíman í 38 slögum á kl!

    9
  3. Jota er einhver stórhættuleg blanda af Mane/Salah og Coutinho. Ótrúlegur leikmaður. Af spilamennsku hans að dæma er hann á góðri leið að verða goðsögn hjá félaginu. Upphaf hans hjá félaginu minnir óneitanlega á hvernig Salah byrjaði hjá félaginu. Hann skorar næstum í hverjum einasta leik.

    Svo er Jota skipt út af og hver kemur þá inn á í staðinn ? Roberto Nokkur Firmino….. Þvílík martröð fyrir varnamenn Atalanda.

    Williams stóð sig líka mjög vel í miðverðinum. Núna er ég farinn að skilja afhverju Klopp var ekki að stressa sig yfir eftirmanni Lovren. Hann taldi suma ungu strákana nógu góða til leysa af í vörninni. Þeir hafa þegar sannað það en næsti leikur er risastór prófraun á vörnina þegar við mætum Man City.

    Þetta lið er ótrúlegt. Ég er fyrir löngu kominn á þá skoðun að þetta er besta Liverpool lið sögunnar og verður bara sterkara með hverju árinu sem líður.

    Það ótrúlega er að Klopp er líka að ná því að ala upp leikmenn. Jones er orðinn einn af stóru strákunum og Williams er búinn að spila meira í meistaradeildinni en margur reynslu bolti í ensku úrvaldsdeildinni.

    9
  4. Þarna kom LEIKURINN! Hrikaleg þessi Liverpool-krísa! Aumingja Klopp!

    8
  5. Ég er bara orðlaus, hvílkít lið og Jota hann bara smellur inn í liðið eins og hann sé búinn að spila með þessu liði í mörg ár. Það verður eitthvað þegar Thiago kemur til baka inn í liðið vonandi á móti M.city!

    8
  6. Jota er allt að þvi helmingi sprækari en Firmino, sem er bara buinn að vera skugginn af sjalfum ser að undanfornu.

    5
  7. Sæl og blessuð

    Þá er maður búinn að ná andanum. Þvílíkt og annað eins lið og ekki bara þessir í stuttbuxunum sem við sjáum á vellinum – jakkafötin eru heldur betur líka að vinna vinnuna sína. Hvaðan kemur þessi Jota??? Þegar ég horfði á Wolves í fyrra þá tók ég eftir Jimenes, TRAORE (hvað maður lét sig dreyma um að fá hann í liðið!), Neves og fleiri … ég pældi satt að segja ekki í þessum gaur sem ég held að hafi verið varamaður í flestum leikjum. Svo mætir hann og … hann toppar og trompar Salah í fyrstu leikjunum. Salah var endalaust að brenna af en bara gafst aldrei upp og náði svo að vaxa upp í þessa goðsögn.

    Þessi gaur er búinn að skrá nafn sitt á spjöld liverpool-sögunnar. Svakalegur

    Svo er það ótrúlega gaman að sjá æskulýðinn þarna á stóra sviðinu eins og ekkert sé eðlilegra. Vörnin – var einhver með áhyggjur af henni? Þetta Atalanta lið lætur venjulega engan halda hreinu – ekki fyrr en í kvöld.

    Þetta lið: Mmmmmama!

    12
  8. Yndislegt að halda hreinu. Þvílík frammistaða 🙂 Gott að geta hvílt leikmenn fyrir sunnudagsleikinn. Jota , þvílík samvinna hjá þessum þremur frammi.

    8
  9. “Are there any better Portuguese footballers? Can’t think of any.”

    Umsögn í Player Ratings á This is Anfield.

    9
  10. Liverpool sýndi það vel að það er sterkur contender í að vinna deild og Champions League þetta keppnistímabil. Allison frábær í markinu, R. Williams er gull í vörninni og reyndar var vörnin flott. Curtis var virkilega flottur á miðjunni með Hendo og Wijnaldum og tríóið var bara eitrað með Jota í þvílíku formi. Þetta er skemmtilegur höfuðverkur fyrir Klopp, að þurfa að velja á milli, og eins og þegar hefur verið sagt hér, þá tel ég að Jota í byrjunarliði á kostnað Firmino og Thiago inn á miðjuna … þá er þetta illsigranlegt lið. Stórkostlegur leikur og … var einhver að hafa áhyggjur af meiðslum/veikindum? 🙂

    5
  11. Sælir félagar

    Ég spáði 1 – 3 fyrir þennan leik og fannst ég vera bara anzi bjartsýnn. En það var ástæðulaus áhyggja. Liverpool liðið sem við þekktum svo vel frá síðustu leiktíð mætti til leiks að viðbættum sníllingnum Jota. Þvílíkur happa dráttur sá drengur og ber af öðrum Portugölum í Ensku deildinni. Sigur Liverpool var síst of stór og hefði alveg eins getað endað 7 eða 8 – 1 Til hamingju Liverpool stuðningsmenn að vera búnir að fá liðið okkar aftur.

    Það er nú þannig

    YNWA

    9
  12. Ég veit ekki með ykkur en ég sé mjög mikinn Torres upp á sitt besta í Jota.
    Geggjað grimmur, frábært touch, hraðinn og afgreiðslurnar.

    8
  13. Frábær leikur er ekki frá því að liðið okkar sé með betri Portúgala en ManU allavega vorkenni ég öðrum þeirra en samgleðst með hinum. Það er orðinn örugglega gömul tugga en hver einasti leikmaður sem kemur til Liverpooli í dag tekur næsta skref upp og á Klopp það algerlega skuldlaust hvernig leikmenn þróast frá því að vera góður leikmaður í stórstjörnu undir hans leiðsögn og þjálfun! ef liðið okkar mætir ManC í þessum gír þá getur sá leikur unnist jafnvel stórt.

    YNWA.

    6
  14. Núll – fimm, ok frábært en ég held að bestu einkunn fá njósnarateymið og allir þeir sem komu að því að skilja okkur hin eftir í rykinu þegar Jota var keyptur! Virðist núna vera algjör reyfarakaup – tær snilld!

    4
  15. Gomez hefur leikið með 4 ólíkum félögum síðustu 5 leiki og liðið einungis fengið á sig 2 mörk, og annað þeirra (víti gegn Sheff Utd) átti aldrei að standa. Að mínu mati hefur hann verið frábær síðan VVD meiddist.

    Eru menn enn á því að Bobby eigi að byrja gegn City? Sannaði þessi leikur ekki það sem spekingarnir hafa lengi sagt; að Bobby er tannhjólið sem fær vélina til að virka?

    Salah er að ég held með 9 mörk í 11 leikjum hingað til. Samt er roslega neikvæð umræða um að hann sé eigingjarn og þar fram eftir götunum.

    9
  16. Jota er með frábærar staðsetningar, hefur gott auga fyrir leiknum og er harðjaxl sem gefur ekkert eftir og ekki með neitt væl. Sterkur á svellinu og lætur vaða. Frábært að ungu strákarnr skulu fá traust Klopps og standa sig vel. Auðvitað eru þessir ungu strákar eilíf spurningamerki ef þeir fá ekki sjéns. Nokkrir búnir að sanna sig og vonandi geta þeir haldið dampi. Mega flottir. Það þarf ekki alltaf að leita langt yfir skammt.

    4
  17. Það er áhugavert að skoða “pass map” eftir leikinn:

    Þarna kemur t.d. í ljós að Rhys er hlíft svolítið við það að vera í boltanum. Þetta tekur ekkert frá hans frammistöðu, en ég túlka þetta sem vísbendingu um að Gomez sé t.d. að stíga meira upp, verandi miðvörður nr. 1 í augnablikinu. Við sáum það t.d. þegar að Atalanta áttu þetta “frík” skot í vinkilinn sem fór ekki inn, þar var það Gomez sem seldi sig, þrátt fyrir að þetta væri hægra megin og mögulega hefði Rhys frekar átt að taka þetta (er ekki búinn að horfa aftur á þetta til að greina hvar hann var). Bara mjög ánægjulegt að sjá að menn eru að “passa upp á litlu strákana”.

    Frammistaða Curtis Jones virðist vera svolítið umdeild. Mér fannst hann vera að gera bæði flotta hluti, og eins var hann líka að ströggla. Hann átti jú sendinguna á Jota í fyrsta markinu: mjög vel gert. Svo var hann að tapa boltum, senda ónákvæmar sendingar, og fékk gult spjald fyrir seina tæklingu: ekki eins vel gert. Heilt yfir var hann að standa sig vel, hann var að spila allar 90 mínúturnar á miðjunni og staðan er bara þannig að á meðan það er verið að spila 2 leiki á viku og hvorki Ox, Fab né Thiago eru leikfærir, og Keita nýbúinn að ná sér af Covid, þá einfaldlega verður hann að stíga upp og vera tilbúinn til að covera þessar mínútur. Ekki eru Hendo, Gini eða Milner að fara að spila 90 mínútur tvisvar í viku í margar vikur í röð. Munum líka að Curtis er ennþá ungur og á ennþá helling eftir ólært. Ég ætla því að setja hann í “stóð sig vel” dálkinn þó svo hann viti alveg að það voru atriði sem hann gat gert betur.

    Hvað sendingakortið varðar þá lítur út fyrir að miðjumennirnir hafi verið hvor ofaní öðrum, en ég myndi ekki lesa mjög mikið út úr því. Þeir eru svo flæðandi og maður sá t.d. að Curtis og Gini voru alveg í því að skipta um vængi.

    Að lokum legg ég til að Jake Cain fari að fá mínútur.

    12
    • Rhys og Nat hefðu ekki komist eins vel frá sínu ef þeir væru ekki að linka svona vel upp með Gomez, sem var alltaf mættur í aðstoðina og sá nær alveg um að spila út úr vörninni.

      Jones fannst mér vinna sig ágætlega inn í leikinn í gær eftir erfitt fyrsta korter. Kannski hentaði mótherjinn honum betur en í síðustu leikjum. Hingað til hefur mér þótt hann stöðuvilltur og missa boltann allt of mikið. Eftir það sem ég hef séð af honum hingað til þá held ég væntingunum alveg í hófi.

      Mér hefur verið sagt að Jake Cain sé í raun mun betri fótboltamaður en Curtis Jones. Hann virðist samt glíma við svipað vandamál og Van Den Berg sem er skortur á sjálfstrausti. Báðir þyrftu að komast út á lán. Curtis Jones og Rhys Williams eru fullir af sjálfstrausti og það er að fleyta þeim áfram.

      3
  18. Hafið þið tekið eftir því hvað Mané er glaður? Horfiði á myndirnar af honum í fanginu á Jota með 100% gleðibros alveg út að eyrum og upp í augu. Ég held að ég hafi aldrei séð hann ljóma svona algjörlega. Greinilegt að lille stygge ulv er í miklu uppáhaldi hjá Mané…

    1
  19. fyrirgefið þráðránið en hvaða lið var ManU að tapa fyrir í CL aldrei heyrt af þessu liði en djöfull er þetta flott úrslit hjá þeim eða þannig 🙂

    YNWA.

    4
  20. Ég horfði á megnið af Man Utd leiknum í Tyrklandi (ekki svo margt annað við að vera) og úff, hvað spilamennskan er óinnblásin! Þetta lítur ekki út eins lið hjá honum Ole, bara einhver samtíningur og ekkert að frétta. Ekki neitt. Við megum sannarlega þakka fyrir að hafa annan eins gleðigjafa og Klopp við stjórnvölinn. Hvernig hann nær að tendra mannskapinn og þrautþjálfa upp í 110%, það er einstakt. Njótum á meðan það gefst!

    7
  21. Takk fyrir þessa frábæru frammistöðu. Við skulum átta okkur á því að liðið sem spilað var við er hörkugott og gerir það sigurinn enn glæsilegri.
    Árangur okkar manna hefur verið virkilega jákvæður upp á síðkastið. Fyrir nokkru tapaði liðið 2-7 fyrir Aston Villa en síðan þá unnið 5 og eitt jafntefli og markatalan 14-4. Aston Villa virðist hafa tekið allt út úr sínu liði með sigrinum gegn okkar liði en síðan þá unnið einn leik og tapað tveimur og markatalan 4-7. Þetta hressilega spark sem liðið fékk gegn AV virðist hafa gert liðinu gott ef eitthvað er.

    5
    • Það er nákvæmlega þannig og sem betur, betur fer þá er meistari Klopp svo ótrúlega magnaður að hann fer nánast alltaf á sigurbraut þegar við fáum skelli.

      Þessi leikur á móti shittý verður rosalegur og manni langar að að tippa á einhverjar fáránlegar tölur eins og 3-7 eða eitthvað svo.

      3
      • Klopp hefur lika dregið lærdóm af Villa leiknum. Þessi tilraun hans með að færa vörnina framar heppnaðist ekki vel.

        2

Byrjunarliðið á Ítalíu, Jota og Jones byrja

Upphitun: Manchester City – Liverpool