Þá leggjum við í seinni hluta spárinnar okkar kop.is pennanna fyrir EPL í vetur.
Í gær vorum við í sætum 11 – 20 og dæmdum þar m.a. alla nýliðana niður aftur en í dag erum við að fara yfir þau lið sem munu keppa um titilinn og öll Evrópusætin nú í vetur, ekki eftir neinu að bíða, rúllum af stað í fyrri blaðsíðu deildarinnar. Sæti 1 – 10 gjörið svo vel.
10.sæti Everton 108 stig
Fyrst skulum við rifja upp að við spáðum West Ham mönnum 11.sæti deildarinnar og fengu þeir samtals 107 stig svo við teljum litla bróðir sleppa naumlega inn á topp tíu í vetur og dali því nokkuð. Everton sóttu sér stjóra sem við þekkjum alltof vel og ég vil helst ekki ræða að sé að leiða þeirra lið en sá skaði er skeður og óþarfi að pæla meira í því, nú er Rafa óvinur heldur betur og við vonum svo sannarlega að hann fari ekki hærra en þetta með nágrannana. Sumarið hefur verið bras fyrir Everton, æfingaleikjum og ferðum frestað og svo er ákveðið kærumál í gangi gagnvart lykilleikmanni þeirra sem mun skyggja á allavega byrjun tímabilsins. Rafa tók upp á því að tilkynna James Rodriguez að hann sæi vart framtíð fyrir hann hjá liðinu og hingað til bara sótt einn leikmann inn í byrjunarlið sitt í formi Andros Townsend á frjálsri sölu frá Palace. Mikil áhersla er hjá klúbbnum að komast lengra með nýjan völl og mögulega hefur það líka áhrif á að þeir virðast ekki hafa neitt verslunarleyfi þetta sumarið. Semsagt, skref niður á við hjá Everton undir stjórn Benitez sem vonandi fattar að segja upp áður en þeir munu reka hann eftir tímabilið.
9.sæti Aston Villa 119 stig
Við gætum sagt það að hér sé það sæti komið sem fyrst væri hægt að nefna “spútniklið” spárinnar okkar enda komið ansi langt frá því að Villa hefur verið í topp tíu á Englandi. Villa-liðið hefur verið á stöðugri uppleið undir stjórn Dean Smith sem er klárlega að ná þeim titli að vera mest spennandi enski stjórinn. Eftir að hafa haldið liðinu uppi fyrir tveimur tímabilum stigu þeir inn í miðjuslaginn nokkuð örugglega á síðasta tímabili og ætla sér ofar. Það var snemma ljóst að þeir ætluðu sér að selja aðalstjörnuna Grealish en voru greinilega með plan hvert þeir peningar færu og hafa í raun sótt fimm leikmenn inn í aðalliðshópinn. Þeir keyptu Buendia frá Norwich, Ings frá Soton og Leon Bailey frá Leverkusen inn í sóknarleikinn auk þess að fá Ashley Young aftur á Villa park og síðan Tuanzebe frá United inn í varnarleikinn. Þeir ætla sér að halda í Martinez í markinu, Mings í vörn, McGinn á miðju og Watkins í sókn. Þetta lið er auðvitað sofandi risi með frábæran heimavöll sem á svo sannarlega að vera alvöru lið á meðal þeirra bestu og við teljum að svo verði í vetur, Villa verði öflugt miðjulið sem getur klárlega komist í baráttuna um Evrópusæti.
8.sæti Leeds 119 stig
Hlaupagarparnir alhvítu hans Bielsa eru með jafn mörg og stig og Villa en fara í 8.sætið þar sem að nokkrir pennar telja þá geta náð 7.sæti sem er meira en sást hjá Villa. Eigum við ekki að segja að markamunur skilji bara? Leeds komu inn í deildina með miklu trukki, ofboðsleg hlaupageta, góð pressa og frábær útfærsla á sóknarleik tryggði þeim snemma öruggt sæti og daður við toppslag þó þeir færu aldrei almennilega inn í þann slag. Það verður mjög gaman að fylgjast með hvort þeir ná áfram sama krafti og var í fyrra og mögulega bætt við varnarleikinn sinn sem var þeirra akkiles. Þeir hafa verið yfirvegaðir á markaðnum í sumar, í raun bara Junior Firpo sem horft er til sem aðalliðsviðbótar en ennþá eru slúðursögur um að þeir séu að leita að hafsent eða hafsentum og sóknarmanni til að hjálpa Bamford aðeins. Lykillinn að velgengni þeirra er svo auðvitað sá að halda fast í miðjudýnamóinn Kalvin Phillips og vængmanninn Raphinha, þessir tveir hafa gríðarleg áhrif í liðinu og þurfa að vera algerlega á tánum í vetur, enda annað tímabil liða í efstu deild oft býsna erfitt, hið alþekkta “second season” syndróm getur gert vart við sig. Spyrjið bara Sheffield United!
7.sæti Arsenal 145 stig
Eins og þið sjáið teljum við efstu sjö lið deildarinnar stíga nokkuð frá öllum hinum, segja má að við höfum nær allir raðað þeim liðum sem eftir eru í efstu sjö sætin og þar með á þá staði sem telja Evrópusæti. Það sjöunda gefur sæti í Euro Conference League að því gefnu að bikarkeppnirnar tvær verði unnar af topp sex liðum og við teljum Mikel Arteta verða með sína menn í því sæti sem gæti hleypt þeim inn í þriðju deild Evrópukeppna. Það eina stöðuga við leik Arsenal í fyrra var óstöðugleiki liðsins, þeir áttu inn á milli flotta leiki en oftar virtist lítið skipulag í gangi og satt að segja hálf fýlulegur andi inni í liðinu. Varnarleikurinn var ekki góður og Auba karlinn þornaði reglulega yfir tímabilið. Arteta hefur lagt mikið upp með það að sumarið hafi farið í að fínstilla saman liðið og taktíkina og er enn jafn kokhraustur að segja Arsenal ætla í Meistaradeildina. Hann keypti Ben White frá Brighton til að bæta varnarleikinn, varnartengilinn Lokomba til Belgíu og vængbakvörðinn Tavares til Benfica. Hann segist ekki hættur og horfir til miðjunnar enda má nú líklega segja öruggt að það sem best er skipað hjá Arsenal er framlínan. Auk Auba eru þar á ferð Nicolas Pepé og Alexandre Lacasette og svo má ekki gleyma vængmanninum Bukayou Saka sem átti frábært EM með Englandi fram að síðasta víti. Við teljum Arsenal alls ekki tilbúið til frekari landvinninga, þeir verða áfram á svipuðu róli og líklega verður nýr stjóri í brú haustið 2022.
6.sæti Tottenham 145 stig
Líkt og hjá Villa og Leeds voru erkifjendurnir í Arsenal og Tottenham með jafn mörg stig en Spurs koma ofar því fleiri okkar telja þá geta endað í þessu sæti, markamunur mun tryggja þeim sjötta sætið og sæti í Evrópudeildinni ef FA bikarinn vinnst af topp fimm liði. Spurs eru enn í sárum eftir að hafa byggt þennan blessaða völl sinn og í sumar kastaði stjarnan þeirra Harry Kane algerri bombu út í heiminn þegar hann taldi sig hafa “heiðursmannasamkomulag” um það að fá að fara frá liðinu í sumar. Sannkallaður heiðursmaður þar á ferð sem er nokk örugglega búinn að forma allan sinn samning við Cityliðið. Spurs eru þó undir stjórn Daniel Levy sem er grjótharðastur í öllum samningum og það er alls ekkert víst að Kane komist í burtu, enda lykill að árangri þeirra hvítklæddu. Þeir gáfust skiljanlega upp á Mourinho en völdu að lokum eftir mest vandræðalegustu stjóraleit sögunnar að sækja samlanda hans Nuno Santo til Úlfanna. Hann hefur náð árangri á sínum stjóraferli hingað til en hér er á ferð langstærsta verkefni hanst til þessa og koma verður í ljós hvernig hann nær að höndla það. Kane er auðvitað ekki eini góði leikmaður þessa liðs, Son frá Suður Kóreu er á meðal bestu leikmanna deildarinnar, markmaðurinn Lloris einn af þeim bestu og Ndombele öflugur inni á miðju, auk þess sem Dele Alli virðist vera að finna mojo-ið sitt aftur. Þeir sóttu í sumar vængmanninn Bryan Gil frá Sevilla og síðan argentíska hafsentinn Cristian Romero frá Atalanta, báðir tveir ungir og öflugir leikmenn sem nýtast liðinu. Lykillinn verður Kane, við erum á því að annað hvort hleypi þeir honum ekki neitt eða eyði þeim 150 milljónum sem þeir fá frá City fyrir hann það skynsamlega að þeir verði í 6.sæti…en áfram utan Meistaradeildar.
5.sæti Leicester 155 stig
Þið sjáið að við teljum nokkurn mun vera frá liðunum í 6. og 7.sæti og upp í Leicester sem við spáum 5.sæti deildarinnar í vetur. Það er í raun alveg magnað hvernig þetta lið er komið bara í útjaðar Meistaradeildarinnar hvert ár og í raun algert klúður að síðustu tvö tímabil hafi þeir ekki komist þangað inn. Við þökkum þeim auðvitað fyrir það síðasta vetur! Viðurkennum það öll, við töldum meistaratitilinn þeirra verða one-off dæmi og sér í lagi eftir titilvarnartímabilið þá myndi Leicester bara fara á sinn gamla stað rétt neðan við miðju. Flott vinna á markaðnum þar sem þeir hafa fundið leikmenn og ræktað frá því að vera góðir knattspyrnumenn upp í að verða afburðamenn sem þeir hafa svo reglulega selt áfram. Síðustu ár hafa þeir ekki þurft að selja eins marga og nú í sumar t.d. halda þeir enn allavega öllum sínum vopnum þrátt fyrir umræður um áhuga á Schmeichel, Tielemans, Maddison, Barnes og Soyuncu frá öðrum liðum. Þeir hafa svo haldið sinni vinnu á markaðnum áfram, tóku Bertrand á frjálsri sölu frá Soton, miðjumanninn Soumaré frá frönsku meisturunum í Lille og síðan ákvað Patson Daka að fara frekar til þeirra en að skoða hvað við vildum bjóða uppá. Spennandi verður að fylgjast með honum undir stjórn Rodgers. Leicester eru ánægðir með sína stöðu en hafa metnað til að fara hærra, við teljum þó þá ekki tilbúna í Meistaradeildina enn um sinn en verði klárlega næst því að brjóta upp topp fjóra eins og mál líta út í dag.
4.sæti Manchester United 171 stig
Það voru ákveðin tímamót í spánni okkar þetta árið. Við allir tíu erum með sömu fjögur liðin í topp sætunum en í mismunandi röð. Enda sést að við teljum töluvert bil vera frá þessum fjórum niður í fimmta sætið og þau verði því að berjast fast um titilinn. Neðst þessara fjögurra setjum við Unitedmennina með Solskjaer við stýrið. United klikkuðu alltaf síðasta vetur þegar þeir voru komnir nálægt árangri, falla út úr undanúrslitum keppna og um leið og þeir náðu topp þá hrundi frammistaðan. Þeir hafa styrkt sitt lið verulega með Jaden Sancho og Varané frá Real Madrid og enn virðist liðið vera að horfa til framherja þó líklega sé Kane of stór biti. Þetta Unitedlið er rándýrt og nákvæmlega engin ástæða fyrir öðru en að þeir séu að keppa um meistaratitilinn. Stjórinn hefur vissulega ekki sannfært alla og það eru ennþá spurningarmerki við varnarleik liðsins og það er ekki sjálfgefið og klárt að Cavani geti náð sömu hæðum og í fyrra og bæði Martial og Rashford skora ekki nægilega til að hægt sé að segja sóknarleikinn tilbúinn því ekki teljum við Bruno ná sömu hæðum og í fyrra, vítafjörið hlýtur að fara að hverfa. Við teljum United klárlega hafa styrkt sitt lið og því muni þeir halda sér í Meistaradeildarsætunum en muni þó ekki frekar en síðustu ár gera alvöru atlögu að titli. Hvort fjórða sætið mun duga Solskjaer til að halda velli kemur svo í ljós. Vonandi þó…
3.sæti Chelsea 182 stig
Enn er vert að benda á að töluvert af stigum liggja milli liða, Chelsea verður því að okkar mati nokkuð örugglega í 3.sæti í deildinni í vetur. Evrópumeistararnir eru afskaplega vel skipað lið enda hoppaði Roman til í fyrra þegar gefinn var slaki á FFP-dæminu og eyddi góðum upphæðum í Havertz, Werner og Mendy og nú í sumar sækir hann Lukaku aftur frá Inter fyrir suddalega upphæð. Held að Roman sé glaður að Messi, Grealish og Kane séu að stela öllu sviðsljósinu frá því að hann virðist alfarið kominn aftur í gamla farið, Chelsea selur og lánar ungu mennina sína frá sér og kaupa bara fokdýra leikmenn. Honum finnst líklega þolinmæði ekki dyggð. Stjórinn Tuchel getur svo sannarlega brosað eftir fyrsta tímabilið hjá Roman, svona ef hann finnur brosið í síðu úlpunni sinni. Liðið hefur mikla breidd í flestum leikstöðum og hafa náð góðum tökum á hans hugmyndafræði Tuchel, grimmir varnarlega og komin með mikil gæði framávið. Roman er svo sannarlega ekki að keppa að þriðja sætinu sem við erum að spá þeim núna, hann vill miklu hærra og bara ekkert víst að hann sé hættur að versla, var víst of seinn að eltast við Messi karlinn að þessu sinni og virðist hafa rifið áhugann upp þó hann sé að mestu í útlegð í Ísrael þessi árin. Við teljum þá albláu ekki tilbúna í titil en þetta lið er drullugott og gæti svo sannarlega tekið alvöru þátt í þeim slag.
2.sæti Manchester City 193 stig
Jæja. Þá vitiði stöðuna. City ver ekki titilinn sinn og það þarf ekki rannsóknarlögreglu til að finna út hvaða lið slær þá af toppnum. Það er alveg ljóst að City verður ekki neðar en þessi spá okkar sýnist og stigamunurinn niður er að segja að við teljum tvö lið verða nokkuð afgerandi efst. Þrír af okkur tíu spá þeim ljósbláu titlinum en það dugar þeim ekki nema til 2.sætis í vetur. City liðið hefur elst og þeir missa lykilmann í Aguero, ekki bara inni á vellinum heldur einn þann öflugasta í klefanum og þegar að við bætist sú barátta sem fylgir því að verja titil þá mun þeim ekki duga að bæta við Grealish í sinn hóp. Líklega má reikna með því að þeir bæti við framherja, við vitum öll að Kane er langefstur á listanum en ef hann ekki kemur þá munu þeir leita annað, því í raun má kannski segja að enn vanti eilítið uppá í fremstu línunni. Gabriel Jesus er vissulega góður leikmaður en þeir vilja fá stærri bita inn í hryggjarsúlu sem inniheldur Ederson, Rubin Diaz, Gundogan og De Bruyne til að ekki bara vinna ensku deildina heldur lyfta bikarnum með stóru eyrunum, nokkuð sem að Pep auðvitað þráir meira en flestallt. Þetta verður magnaður slagur en City mun tapa honum, fyrir hinu eina sanna liði.
1.sæti LIVERPOOL 197 stig
Jább. Titill númer 20 fær vonandi bara alvöru fylgdarferð um Liverpoolborg næsta vor eftir mergjað kapphlaup við City. Sjö af okkur tíu telja okkur líklegustu meistarana og það tryggir efsta sæti spárinnar. Stóru fréttirnar eru auðvitað þær að fá varnarmennina okkar til baka eftir næstum heilt ár í burtu og það í bland við alvöru undirbúningstímabil muni þýða það að við getum aftur náð þeim hæðum sem við náðum 2019 – 2020 tímabilið þegar við stútuðum samkeppnisaðilunum. Við teljum margir enn eiga eftir að bætast í okkar hóp sem mun gera það enn líklegra að þessi draumur okkar rætist. Hryggjarsúlan þarf vissulega að haldast heil og við bara stólum á það að öll ólukka heimsins hafi gengið yfir okkur í fyrra á meiðslalistanum og að framherjarnir okkar verði með alla sína hæfileika til sýnis, nokkuð sem við sáum heldur ekki alveg síðasta tímabil og söknuðum svo sannarlega. Þetta mun allt ganga upp elskurnar, stjörnurnar eru að raða sér upp og við hendum upp kampavínstöppum um allan heim!
Þar með þökkum við fyrir lesturinn og nú má þetta í alvörunni byrja. Upphitun fyrir Norwichleik kemur á morgun og svo kemur leikþráður og skýrsla á laugardag. Við hlökkum endalaust til!
Ég er nokkuð bjartsýnn á þetta tímabil og er það að miklu leyti útaf því að Mane og Salah fengu alvöru frí í sumar og koma á fullu gasi inní tímabilið.
Jota virðist vera í flottu formi og Firmino ætlar ekki aæ láta setja sig á bekkinn og mun bæta markametið sitt á þessu tímabili.
Þetta verður tímabilið hans Naby Keita og mun hann eigna sér stöðuna á miðjunni við hlið Fabinho.
Trent fékk einnig alvöru sumarfrí og hann mun dæla inn stoðsendingum að vild.
Van Dijk er kominn aftur og alvöru samkeppni um stöðuna við hliðina á honum.
Tsimikas mun setja alvöru pressu á Robertson sem mun ekki þurfa að spila 50 leiki á tímabilinu og vera þá ferskari í deildarleikina.
Já ég er sem sagt bjartsýnn á þetta og er sammála um að titilinn mun koma á Anfield aftur í vor.
En engu að síður þá vonast ég ennþá eftir því að Klopp fái inn 2 góða leikmenn til að létta álagið á lykilmenn.
Já – takk fyrir podkastið eins og alltaf.
Gaman að sjá hversu bjartsýnir við erum – skál fyrir því.
Verðum við ekki að taka 1 hið minnsta alvöru signing annars verður næsti gluggi kannski með 2-3 stórum kaupum. Megum ekki láta liðið eldast um of og það þarf að hrista reglulega í hópnum bæði upp á endurnýjun og líka minnkar það áhættuna heldur en að fara í mörg kaup í sama glugganum.
Megi spá ykkar rætast eins og ævinlega.
Sælir félagar
Ég er sammála spá ykkar um 4 efstu liðin. Fotbolti.net spáir MU fyrsta eða öðru sæti í 8. sinn í röð og hefir sú spá ræst einu sinni að ég held (á síð. tímab.). Það segir meira en flest annað um það hvernig spámenn miðilsins hafa mótað sé skoðun í gegnum tíðina. Það eru ekki málefnalegar ástæður fyrir þeirri spá heldur óskhyggja stuðningmanna. Mér segir svo hugur að Leicester muni veita MU verðuga keppni um meistardeildarsætið og hlakka mikið til að sjá hvort Brendan tekst að jaga það inn 🙂
Það er nú þannig
YNWA
Set hérna inn mína spá, hún endurspeglar alls ekki mat allra, en kannski sumra:
1. Liverpool
Kannski óskhyggja, en þetta lið er bara ógnarsterkt og með þá von í brjósti að nú fari menn mun betur út úr meiðsladæminu en á síðasta tímabili, þá sé allt hægt. Jurgen Klopp er að stjórna þessu liði og trú mín á honum nær út fyrir allt. Thiago og Jota búnir að spila eitt tímabil, Konate sem viðbót í vörnina og vonandi 1-2 nýjir leikmenn fyrir lok gluggans, þá er alveg hægt að skáka þessu City liði.
2. Man.City
Búið að bæta Grealish við annars frábæran hóp. Stigasöfnun City á síðasta tímabili var ekkert stórkostleg miðað við árin á undan hjá Liverpool og City. Nái City aftur á móti að landa stórum fiski í skarð Aguero, þá finnst mér líklegt að þeir taki þetta á endanum. Breiddin á hópnum þeirra (fyrir utan sókndjarfa menn) hefur þó oft verið meiri og ef þeir verða minna heppnir með meiðsli en undanfarin ár, þá gætu þeir lent í örlitlum vandræðum.
3. Chelsea
Það er ekki nokkur vafi á því að hópurinn hjá Chelsea er afar sterkur. Þeir mega samt ekki við miklum skakkaföllum þegar kemur að miðvarðarstöðunum og allt lítur út fyrir að þeir ætli að bæta í þar. Thiago Silva að verða 37 ára gamall fljótlega og kominn af léttasta skeiðinu, en er samt þeirra lykil miðvörður.
4. Man.Utd
Trú mín á Óla á hjólinu er bara ekki meiri en þetta. Þeir hafa bætt við sig 2 mjög sterkum viðbótum við hópinn sinn, þurftu klárlega að bæta við sig góðum miðverði og það hafa þeir gert. Engu að síður finnst mér miðsvæðið hjá þeim veikt, veltur mikið á því hvort Pogba verði áfram úti og inni og eins eru þeir að setja traust sitt á 34 ára gamlan gaur til að leiða línuna fram á við.
5. Leicester
Leicester hafa bætt breiddina fram á við verulega og er það jákvætt. Þurfa líklegast minna að reiða sig á Vardy. Það sama verður ekki hægt að segja um öftustu línu og var það ákveðið áfall að missa Fofana út í svona langan tíma. Það að þeir skuli ennþá vera að leggja traust sitt á meiðslahrjáðan Evans segir margt um stöðuna.
6. Arsenal
Já, ég ætla að spá Nöllurum fyrir ofan Spurs þetta árið. Það blundar í mér einhver smá trú á Arteta og svo hef ég ekki nokkra trú á að Aubameyang geti átt annað svona slæmt tímabil og hann átti á því síðasta. Miðjan hjá þeim er reyndar frekar veik, en þeir munu njóta góðs af því í vetur að þurfa ekki að vera í neinni Evrópukeppni.
7. Tottenham
Þjálfarabrasið hjá þeim hefur svo sannarlega haft vond áhrif á þetta lið sem var heldur betur í betri málum fyrir alls ekki svo löngu síðan. Nuno gerði fínt til að byrja með hjá Wolves og fróðlegt verður að sjá hvort hann nái tökum á þetta stóru liði. Kane dæmið hefur líka haft sitt að segja varðandi undirbúning liðsins og mun það breyta stöðunni talsvert ef hann hverfur á braut, sem ég hef ekki trú á. Held að þetta verði samt erfitt fyrsta ár hjá Nuno.
8. Aston Villa
Þeir eru að missa sinn öflugasta leikmann, en virðast vera með ansi skothelt plan varðandi það hvernig þeir geta notað fjármunina til að styrkja hópinn sinn. Ég er á því að þetta geri þá sterkari og betur í stakk búna til að fara í gegnum heilt tímabil.
9. Everton
Þeir komast “alla leið” upp í 9. Sætið í spánni hjá mér, eingöngu út af Rafa Benítez. Leikmannahópurinn hjá þeim er ákaflega óspennandi og nýjustu viðbætur í þeim stíl. Við erum ekkert að fara að horfa upp á neinn flugelda fótbolta á ruslahaugunum þetta tímabilið (ekki frekar en á öðrum tímabilum).
10. Leeds
Afar litlar breytingar hafa verið gerðar á ansi þunnskipuðum hóp. Miðað við fótboltann sem Bielsa lætur sína menn spila, þá er það viss áhætta. Second Season Syndrome gæti bitið þá í afturendann, en ég held að það sé bara það mikið af verr skipuðum liðum til að þeir fari eitthvað niður á seinni síðu töflunnar.
11. West Ham
Fóru vel fram úr væntingum flestra á síðasta tímabili og ég held þeir muni sigla lygnan sjó. Þá vantar tilfinnanlega einhvern upp á topp hjá sér, þar sem Antonio er hvorki eiginlegur striker og er ansi oft meiddur. Það verður rólegt í kringum “The Chosen One”.
12. Brighton
Mér finnst aðdáunarvert hvernig Potter leggur upp leikinn og þorir að halda sig við sinn bolta, þótt oft hafi á móti blásið. Það hefur háð þeim talsvert að innan þeirra raða er enginn afgerandi markaskorari og það mun halda áfram að koma í veg fyrir að þeir klífi ofar. Held að þeir verði í tiltölulega góðum málum þetta tímabilið.
13. Wolves
Að sjálfsögðu réðu þeir nýjan stjóra frá Portúgal. Mikið mun byggjast á því að Jiménez muni snúa aftur með öll mörkin sín. Þeir eru með góðan kjarna leikmanna sem hafa spilað saman í talsverðan tíma. Nýji stjórinn er samt stórt spurningamerki, maður veit akkúrat ekkert um kauða.
14. Newcastle
Þeir munu enn eitt árið halda sér uppi, en verða engu að síður í ströggli í vetur. Steve Bruce kann alveg á fallbaráttuna, en Jeremías góður hvað stuðningsmenn Newcastle eiga skilið eitthvað annað og meira en þeir hafa.
15. Crystal Palace
Talandi um að vera óskrifað blað. Það jákvæða er að Woy er horfinn úr boltanum, en breytingarnar á leikmannahópnum eru gríðarlega miklar. Hann var ekki mikið að byggja til framtíðar blessaður og því var óhjákvæmilegt að fara í gríðarlega miklar breytingar. Er Viera maðurinn til þess? Ég hef trú á þeim kappa og hreinlega vonar að þetta gangi vel hjá honum. Hef alltaf haft soft spot fyrir Palace (nema á Roy Hodgson tímanum) og vona að þeir verði eitthvað ofar en þetta.
16. Southampton
Í mínum huga er það klárt að ef þeir missa James Ward-Prowse núna samhliða Ings brotthvarfinu, þá gætu þeir hreinlega fallið. Þeir eru með fínan stjóra og ég held að á endanum muni hann halda þeim í efstu deild.
17. Norwich
Daniel Farke hefur fengið traustið áfram, eftir að hafa farið með þá niður síðast. Finnst það merki um gott plan til lengri tíma og þeir kláruðu næst efstu deild nokkuð sannfærandi á síðasta tímabili. Auðvitað er stórt skarð komið í hópinn, misstu sinn besta mann til Aston Villa, en ég bara hef trú á þessu Project-i sem er í gangi þarna og að liðsheildin sem búið er að skapa þarna, skili sér í öðru tímabili í efstu deild. Flestir sem spá einhverjum af nýliðunum sæmilegu gengi, eru að tippa á Watford eða Brentford. Ég hef trú á Farke.
18. Burnley
Kannski er þetta óskhyggja að spá leiðinlegasta fótboltaliði efstu deildar síðan Stoke var og hét, falli. En here we go, þeir hljóta bara á endanum að fara að niður. Þeir eru nánast gerilsneyddir góðum fótboltamönnum og lurkarnir þeirra hafa bara bætt einu ári í safnið. Mikið yrði það good riddance að fá þá loksins aftur í deild sem er við þeirra hæfi.
19. Watford
Þeir eru mættir á ný, en mikið held ég að þetta verði þeim erfitt. Sarr er öflugur leikmaður, en er hann nægilega afgerandi til að koma þeim í öruggt skjól. Held ekki og þar sem 95% líkur eru á því að þeir verði búnir að skipta um stjóra í nóvember, þá held ég að þetta verði eyðimerkurganga hjá þeim og þeir fari beinustu leið aftur niður.
20. Brentford
Maður hefði haft meiri trú á þeim hefðu þeir farið upp árinu fyrr og verið áfram með þá Watkins og Benrahma, en svo er ekki og ég held þetta verði bara of stórt dæmi fyrir þá. Þetta væri samt alveg týpískt öskubuskudæmi ef þeir næðu að stimpla sig inn og halda sér í deildinni. Held að þetta sé bara aðeins of mikið fyrir þá. Ég yrði samt ekki hissa á að sjá þá aftur uppi í efstu deild á næstu árum. Projectið er flott.
Hérna er mín
1.Man City
Auðvita langar maður að setja Liverpool í 1.sæti en þetta City lið getur stillt upp tveimur liðum sem myndu bæði enda í top 4. 100m punda kallinn er mætur á svæðið og er líklega settur í deildarbikarleiki til að hvíla DeBrune 😉 H.Kane gæti líka mætt á svæðið en það hefur ekki verið vandamál hingað til fyrir City að skora mörk og hvað þá ef þeir fá alvöru markaskorara.
2. Liverpool
Ég spái því að við verðum allt til enda að berjast um titilinn. Miðverðir mætir á svæðið og vonandi fullt af leikjum frá Jota/Thiago í vetur. Ég hef fulla trú á að heimavallarárangurinn verður betri og við verðum í 85+ stigum. Það er mjög vanmetið hvað þessi sumarhvíld fyrir Mane og Salah gera fyrir þá.
3. Chelsea
Að setja evrópumeistarana sem þriðja lið er auðvita smá galið en þeir verða líka í baráttunnu um titilinn allan veturinn. Þetta lið er rosalega vel mannað og Lukaku er kominn og þá minkar stressið hjá þeim að þurfa að veðja á Werner.
4. Man utd
Ég ætla að spá því að þeir verða mjög solid í vetur. Komnir með alvöru miðvarðapar og Sancho á eftir að hjálpa þeim og meistaradeildarsæti verður aldrei í hættu en það er eitthvað við þá sem segir mér að þeri verða ekki meistara(gæti verið stjórinn sem hefur hefur svona áhrif á mig).
5. Leicester
Verða aftur góðir í vetur og Daka gætu orðið kaup sumarsins en þeir missa af meistaradeildarsæti en eitt árið. Fofana meiðslin eru skelfileg en Rodgers er klókur og nær samt að loka varnarleikum og með þessa miðju og sóknarvalmöguleika þá koma alltaf mörk frá þeim.
6. Arsenal
Þetta kemur líklega einhverjum á óvart en ég fíla White kaupin og held að Saka eigi eftir að springa út í vetur. Það er kominn pressa á stjóran en ég neita að trúa því að sóknarlínan verður aftur svo döpur.
7. Leeds United
Þeir halda áfram að gera það gott. Öll liðin verða núna vön að spila við þá en það skiptir engu máli þeir gefa þér alltaf erfiðan leik og þessi stjóri er snillingur.
8. Tottenham
Þetta Harry Kane rugl á eftir að trufla þá mikið. Ég byggi þessa spá á því að annað hvort verður hann farinn eða í fýlu en þetta lið er vel mannað og ég hef trú á stjóranum sem reynir að gera got úr þessu en það nær ekki lengra en þetta.
9. A.Villa
Þeir eru að missa sinn besta leikmann en þeir bæta það upp með nokkrum góðum kaupum sem auka breydd. Ings er mættur á svæðið og þótt að hann mun líklega bara spila helmingin af tímabilinu þá hjálpar hann þeim að skora. Buendía er leikmaður sem á eftir að verða frábær þarna.
10. West Ham
Ég bara neita að trúa því að David Moyes nái að fylgja þessu góða gengi eftir. Lingard er farin og þeir eiga eftir að sakna hans.
11. Everton
Benitez er mætur á svæðið sem þýðir að liðið fær ekki mörg mörk á sig en þeir eru svo með leikmenn sem geta skorað. Verður líklega ekki margar markaveislur hjá þeim í vetur en stigin munu tikka inn.
12. Brighton
Þeir settu líklega nýtt evrópumet í stangarskotum og klúðrum dauðafæra á síðustu leiktíð. Ég spái því að þeir skora meira í vetur en eina spurninginn er hvort að þeir ná að fylla upp í White skarðið en ég trúi líka að þeir eiga eftir að eyða smá meira áður en glugging lokar. Eitt af fáum liðum sem eru í neðri hluta sem manni finnst gaman að horfa á. Bissouma er leikmaður sem mun spila með stórliði á næsta tímabili.
13. Wolves
Þeir voru búnir að hafa sama stjóran lengi og tel ég að það var komin tími á breyttingar. Það tekur þá smá tíma að aðlagast nýja stjóranum en þeir geta unnið alla á sínum degi.
14. C.Palace
Viera er kominn og Roy er farinn. Maður var á báðum áttum með þetta lið annað hvort verður þetta algjör lyftistöng að fá Viera sem stjóra eða að menn fara að meta Roy en þá meir. Þorði samt ekki að setja þá ofar eða spá þeim falli svo að þetta var niðurstaðan.
15. Southampton
Fyrrum uppeldistöð fyrir komandi Liverpool leikmenn svo að manni er alltaf aðeins hlýtt til þeirra. Geta spilað flottan fótbolta og á maður von á öðru jójó tímabili hjá þeim. Þetta er samt lið sem gæti alveg fallið.
16. Newcastle
Þeir verða að halda Wilson og Saint Maxi og byggist þessi spá á því að þeir verða heilir. Ef þeir verða mikið meiddir þá getur þetta lið hæglega fallið.
17. Norwich
Þetta er smá óskhyggja hjá mér. Mér finnst þetta lið alltaf reyna að spila fótbolta og síðast var það ekki árangusríkt en sjáum hvort að þeir séu reynsluni ríkari.
18. Burnley
Heilinn segir mér að þeir rétt svo bjarga sér en ég bara nenni þeim ekki lengur, þessi fótbolti á að fara að deyja út(kaldhæðnislegt hjá Íslending að segja svona eftir 2016-2018)
19. Brentford
Þeir eru að gera þetta mjög flott með ákveðna hugsjón í gangi við uppbygginu liðsins en þessi hugsjón nær ekki lengra en það í þetta skipti að þeir fara líklega beint aftur niður. Það sem gæti hjálpað þeim er að þeir spila oft með fimm manna varnarlínu (5-3-2/3-5-2) sem hefur reynst sumum nýliðum vel.
20. Watford
Þeir mega fara hratt niður en við skulum geyma Sarr fyrir þá í úrvaldsdeildinni
Menn full gull bjartsýnir hér. Shitty og celski með lang lang sterkustu leikmannahópana. Bekkurinn hjá þeim gæti verið lið í topp 6 í deildinni meðan við erum með góða 11 til 14 leikmenn og megum ekki við neinu hnjaski, sem verður og gerist samt. Topp 4 er markmiðið enn og aftur hjá fsg, klúbburinn rekin á núlli næstum því meðan önnur lið í topp 6 fjárfesta mikið.
Ekki það að ég setji samansem merki við eyðslu og árangur en kom on, sýna aðeins meiri metnað fsg.
1.shitty
2.celski
3 LIVERPOOL
4 scum
Annað skiptir ekki máli.