Úrslitaleikur T – 8: heimsókn á Old Trafford

Það er komið að deildarleik nr. 31 á leiktíðinni. Átta úrslitaleikir eftir, og sá næsti er ekkert slor því okkar menn mæta á Old Trafford á morgun í enn einum “must-win” leiknum. Staðan er jú þannig að ef okkar menn vinna rest, þá hampa þeir titlinum í lok maí. Svo einfalt er það. KANNSKI má gera eitt jafntefli, en aðeins ef Arsenal tapa stigum (sem þeir munu gera). Það þurfti auðvitað að vera þannig að af þessum átta úrslitaleikjum sem eru eftir, þá erum við með einn leik á Old Trafford, og annan á Goodison Park, en þetta eru líklega þeir leikir sem hafa gengið hvað verst í stjóratíð Klopp. Það er því óhætt að fullyrða að þetta verði prófraun fyrir okkar menn.

Ef við skoðum síðustu 4 leiki þessara liða, þá er niðurstaðan ekkert ægilega girnileg fyrir liðið okkar. Tveir sigrar hjá United (í upphafi 2022-2023 tímabilsins og svo bikarleikurinn núna í mars), eitt jafntefli á Anfield fyrir jól, en svo erum við nú enn að ylja okkur við minninguna um 7-0 sigurinn á Anfield fyrir ári síðan. Við munum gera það a.m.k. einhverja áratugi til viðbótar, og ekki séns að við leyfum þeim leik að falla í gleymskunnar dá.

Persónulega hefði ég frekar viljað vinna alla þessa leiki 1-0, og góður maður (Jürgen Klopp nánar tiltekið) sagðist frekar vilja vinna 7 leiki 1-0 heldur en einn leik 7-0. En þessi 7-0 leikur er staðreynd, og engin ástæða til annars en að rifja hann upp reglulega.

Hvernig mæta liðin inn í þennan leik? Skoðum fyrst United. Það eru talsverð meiðsli að hrjá hópinn hjá þeim, og merkilegt nokk er þeirra meiðslalisti lengri heldur en hjá okkar mönnum á þessum tímapunkti, en það er líklega í fyrsta skipti á leiktíðinni sem staðan er þannig. Þannig eru þeir t.d. orðnir frekar fáliðaðir í öftustu röð. Erik Ten Hag notaði suma leikmenn frekar lítið í síðasta leik, þannig komu bæði Rashford og McTominay bara inná undir lokin, og því nokkuð ljóst að þeir byrja.

Talandi um þennan síðasta leik hjá United, hvernig fór hann aftur? Jú þeir voru 2-3 yfir þegar það voru komnar 90+8 mínútur á klukkuna, en enduðu svo á að tapa leiknum 4-3, og settu þar með met sem verður vonandi seint slegið. Sumsé, ekkert lið hefur verið yfir þegar jafn langt var liðið á leikinn en samt tapað leiknum.

Mögulega mætti setja þetta á lista yfir “einsdæmi sem gerist nánast aldrei”, nema fyrir það að í leiknum á undan voru United AFTUR yfir í uppbótartíma, og djúpt inn í hann þar að auki, en enduðu á að gera jafntefli. Maður á ekki að gleðjast yfir óförum annarra, og þá sérstaklega þessara miðjumoðsliða, en ég held að fólki sé fyrirgefið fyrir að brosa aðeins út í annað yfir þessum úrslitum.

Hvaða áhrif hafa þessir síðustu tveir leikir á stemminguna hjá United? Það er í sjálfu sér engin leið að segja, kannski nær ETH að fylla þá fítonskrafti. En svo gæti þetta líka sest á sálina hjá þeim, og eigum við ekki bara að vona að sú sé raunin? Það má líka vona að úrslitin í bikarleiknum fylli þá fölsku sjálfstrausti. En fyrst og fremst þá vonar maður að það verði okkar menn sem mæti betur stemmdir til leiks. Bæði ætti orkustigið að vera hærra, og svo eru menn vonandi enn með óbragð í munni eftir tapið. Mestu líkurnar á því að úrslitin verði góð á morgun eru ef okkar menn byrja leikinn um leið og dómarinn flautar til leiks og þá með hausinn rétt skrúfaðan á, og halda fullum dampi allt til leiksloka.

Svo er það dómgæslan. Anthony Taylor verður á flautunni, og maður vonar bara að hann dæmi sanngjarnt. Er ég bjartsýnn á það? Ekkert sérstaklega. En lifum í voninni.

Hvernig má svo ímynda sér að Klopp stilli upp? Næsti leikur er ekki fyrr en á fimmtudaginn gegn Atalanta á Anfield, og því í sjálfu sér engin ástæða til að hvíla menn eitthvað sérstaklega. Bæði lið voru að spila á fimmtudagskvöldið, og leikur United og Chelsea byrjaði ögn síðar en leikur Liverpool gegn Sheffield. Það verður því ekkert hægt að afsaka sig með að álagið á okkar menn hafi verið of mikið, eða að það sé of stutt í leikinn þar á eftir. Jones og Robbo komu til baka í síðasta leik, Endo var líklega hvíldur frekar en að vera beinlínis meiddur, a.m.k. er talað um að hann eigi að geta byrjað. Í öllu falli erum við frekar í því að fá menn til baka heldur en að missa fleiri í meiðsli. Það er svo talað um að Trent og Jota gætu komið til æfinga í næstu viku, en það hjálpar okkur ekkert á morgun.

Varðandi byrjunarliðið, þá er helsta spurningin kannski sú hvort Konate sé að byrja tvo leiki í röð. Quansah hefur verið öflugur í þau skipti sem hann hefur spilað, og ég ætla að veðja á að hann byrji, en það að sjá Konate byrja myndi ekkert þýða að hakan færi í gólfið. Alisson er svo ekki enn farinn að æfa á fullu, og það þýðir að ef Kelleher byrjar (sem allt bendir til), að þá mun hann hafa byrjað fleiri leiki heldur en Alisson í öllum keppnum á tímabilinu. Frammistaða Robbo þegar hann kom inn var þess eðlis að það er erfitt að sjá annað en að hann byrji – NEMA læknateymið meti það svo að hann höndli ekki álagið eftir meiðslin sem hann fékk í landsleikjahléinu. Að lokum ætla ég að gerast djarfur og segja að Bradley fari á bekkinn en Gomez byrji í hægri bak. Myndi alveg fagna að sjá Bradley byrja samt.

Við gætum svo alveg séð Jayden Danns á bekk, en hann var EKKI í hóp með U23 núna í morgun gegn Blackburn, ólíkt t.d. Clark, McConnell, Koumas og Kaide Gordon, sem allir spiluðu í dag.

Við skulum því reikna með liðinu svona:

Spá: 3 stig. Í raun er ég til í hvaða sigur sem er, skítamark og 0-1 sigur frá Díaz á 90+7 væri vel þegið. Ég á bara alls ekki von á öðru en að stuðningsmenn Liverpool þurfi að draga fram sprengitöflurnar.

KOMA SVO!!!!!

16 Comments

  1. Þetta verður erfitt til að byrja með en svo keyrum við vonandi yfir þá.
    Veit einhver hvar best er að horfa á leikinn út í Frankfurt?

    4
  2. Alonso (sem því miður er ekki að koma til okkar) gæti orðið þýskur meistari með Leverkusen strax um næstu helgi. Bayern München var að tapa sínum leik og Leverkusen vinna sinn. Ég tek bara ofan fyrir Alonso að sýna þessu verkefni tryggð og ætla halda áfram þar, enda er mikið afrek hjá honum að færa Leverkusen sinn fyrsta meistaratitil í sögunni.

    7
  3. Sammála þér Daníel, með Gomez í hægri bak. Það má ekki bræða alveg úr Bradley hinum unga. En ég held að annaðhvort Elliott eða Jones taki sprett á miðjunni, því Szóbó er ekki alveg í 100% standi.

    Það væri hægt að fara mörgum orðum um ástandið hjá Man Utd en best að jinxa þetta ekki of mikið. Vörnin er alveg komin í möskva-yfirstærð hjá þeim, Maguire er kletturinn sem allt stendur og fellur með en hinir eru meira og minna allir meiddir. Held að Liverpool eigi ca. sjö varnarmenn sem myndu labba inn í liðið hjá MU.

    Ég trúi… en best að hafa nítróglýserínið hjá sér. 🙂

    6
  4. Takk fyrir upphitun Daníel…Carragher spáir því að liðið sem nær 90 stigum vinnur deildina….við getum náð 94 ef við vinnum rest þá höfum við unnið 10 leiki í röð sem við þekkjum frá síðustu árum en hefur ekki dugað…eitt jafntefli fyrir okkur á þessari leið gæti dugað til að vinna með 92 ef arsenal klárar ekki rest….að vinna á morgunn gerir þennann draum nær veruleikanum…..

    6
  5. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Daníel. Það verður erfitt, alveg hunderfitt að vinna MU á Old Trafford þó liðið sé laskað. Ef einhver leikur getur trekkt þá upp í geðveika baráttu þá er það þessi leikur og tækifærið sem þeir fá til að skemma partíið fyrir okkur. Ég er á því að þeir byrji á fullu frá fyrsta flauti og ef okkur tekst að standa af okkur fyrsta korterið þá er góður möguleiki á sigri. Þeir hafa séð það að önnur lið hafa gert okkur lífið leitt á fyrstu mínútum og náð að setja á okkur mörk og munu reyna að gera slíkt hið sama. Þess vegna verða okkar menn að mæta til leiks frá fyrstu mínútu. Mér er sam þótt við vinnum bara 0 – 1 ef við bara náum sigri.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  6. Erum búnir að vera lélegir gegn United á þessu tímabili.
    Menn voru með óraunhæfar kröfur útaf 7-0 sigrinum og okkar menn með vanmat gegn þeim held ég Okkur hefur gengið illa gegn sumum af lélegu liðunum á þessu tímabili (Luton útivelli) og United er þar meðal þeirra.
    Hvernig þeir eru í 6ta sætinu er í raun rannsóknarefni þeir ættu að vera mikið neðar.
    Þeir ná hinsvegar að gíra sig upp gegn okkur það er ekkert nýtt.
    30+ skot í leiknum á Anfield sem fór í súgin í glötuðu jafntefli og svo síðast í FA bikar.

    Ég vill sjá sókndjarft byrjunarlið frá byrjun EKKI 3 miðverði eða setja besta manninn okkar í 6una þá tel ég okkur geta unnið þennan leik. Robbo og Endo verða starta þennan leik.

    YNWA

    7
  7. Við verðum að vinna þennan leik, þessi leikur er stærsta hindrunin að titlinum.
    ég er á því að Liverpool eigi erfiðasta leikjaprógramið af efstu liðunum.

    Þetta eru átta úrslitaleikir og við þurfum að vinna þá alla ef við ætlum að landa titlinum.
    ég er á því að Man City vinni alla leikina sem þeir eiga eftir, svo jafntefli eða tap í dag myndi í raunini nær afskrifa Liverpool í titilbaráttuni.

    6
  8. Væri alveg til í að sjá Elliot inn fyrir Salah sem var ömurlegur gegn sheffield á fimmtudag.

    3
  9. Sæl og blessuð.

    Jákvæðu og neikvæðu tilfinningarnar togast á í manni.

    A. Neikvæðu: 1. MU setur allt í leikinn og það verður huggun í harminum fyrir þá að eyðileggja fyrir Klopp drauminn um PL sigur sem hefði um leið þýtt að Liverpool væri komið upp að mu í fjölda engl.meistaratitila. Þetta er því mikilvægasti leikurinn sem þeir eiga eftir í deildinni. 2. Leikmenn okkar hafa verið lengi í gang og fengið á mörk og dauðafæri á fyrstu mínútunum. 3. Okkur hefur gengið illa á OT og vel mótiveruð lið hafa fundið höggstað á okkur. 3. Sóknin: Enn er slúttarinn Jota frá, Salah er ekki prime-Salah, Nunez óútreiknanlegur og Diaz mistækur í færunum. 5. Vörnin: Kelleher (með allri virðingu og aðdáun) er ekki Alisson, rótleysi á miðvörðum og óvissa með hvernig bakverðir pluma sig. Höfum fengið þessi ódýru mörk á okkur. 6. Dómarinn – á ekki von á góðu þaðan.

    B. Jákvæðu: 1. Liðið er ekki á toppnum að ástæðulausu og væri óskorað efst ef ekki væri fyrir hörmulega dómgæslu sem hefur nánast alltaf verið okkur í óhag. Það segir mest um gæðin og úthaldið 2. Við erum að endurheimta lykilfólk, er hæstánægður með Kurteisa Jónas og Robertson gefur miklu meiri ógn en Gomez. Endo skapar pláss og tíma fyrir Macca, sem er btw besti miðjumaður í deildinni – það munar um minna. 3. Liðið hefur magsinnis áður staðið frammi fyrir svona prófraun. Það ætti að hafa reynsluna og vita hvað þarf til að þagga niður í mu-áhorfendum og slökkva neistann í mu-leikmönnum. 4. Við erum með Klopp-effektinn og nýtum hann meðan þess gefst kostur. 5. Miðjan okkar er ein sú besta í deildinni 6. Andstæðingurinn er í 6. sæti í deildinni.

    Að þessu sögðu er vissulega beygur í mér en ég neita að horfa framhjá jákvæðu þáttunum sem gætu riðið baggamuninn. En eins og talnaglöggir sjá þá eru sex atriði hvoru megin. Nú er bara að sjá hvor vega þyngra.

    Er ég að gleyma einhverju í þessari upptalningu?

    10
  10. Stjóri MU segir þá ætla að koma reiða til leiks eftir tap í síðasta leik – það væri eftir því menn eins og Antony vitleysingur myndi hugsa meira um mann en bolta og senda einhvern okkar manna á meiðslalistann!

    Þar sem City á léttasta prógrammið eftir og væntanlega vinnur rest þá er þessi leikur okkar “must win” í dag. Mér er sama hvernig við förum að því – þrjú stig takk fyrir.

    Blóðþrýstingurinn farinn að hækka þegar nálgast hádegið……… þetta verður eitthvað!

    YNWA

    5
    • tja, eftir þessa helgi þá sé ég nú ekki að City eigi erfiðara prógram en LFC. Bæði lið eiga 4 útileiki eftir og 3 heimaleiki.

      Það verður líka að hafa í huga að City eiga eftir að spila við Real Madrid og fari þeir áfram mæta þeir Bayern eða Arsenal. Þess utan eiga þeir eftir Chelsea í FA cup.

      Á meðan geta LFC rótarað í Europa league og lagt alla áherslu á deildina.

      4
      • LFC að rótera……. þetta hljómar hjá þér eins og Atalanta sé bara formsatriði.

    • Souness, ég er algjörlega sammála þér.

      Man Utd, Crystal Palace, Everton og Tottenham leikirnir eru allt drullu erfiðir leikir hjá okkar mönnum.

      2
      • Ég hefði nú haldið að meiðslahrjáð Crystal Palace (sem hefur að litlu að keppa) á Anfield væri þægilegasti leikurinn sem Liverpool á eftir.

        City eiga Spurs eftir úti,,, LFC eiga þá heima.

        Hefði ályktað að leikur City gegn Forest á útivelli væri álíka erfiður og útileikur Liverpool gegn Everton. Liðin í fallhættu eru ávallt erfið í lokin.

        1
  11. Ég bið bara að lfc byrji ekki á að gefa mark í forgjöf þurfum ekki á því að halda,megi svo betra liðið vinna.

    1

Liverpool – Sheffield United 3 – 1

Liðið gegn United