Liverpool á leikmannamarkaðnum

Liverpool er núna á nokkrum mánuðum búið að skipta út nánast öllu þjálfarateyminu sem og öllum helstu stjórnendum félagsins, þ.e.a.s. mönnunum sem taka lokaákvarðanirnar varðandi leikmannakaup, sölur og samninga.

Það væri satt að segja verulega skrítið ef að Richard Hughes, Arne Slot, Michael Edwards og þeir sem núna taka þessar ákvarðanir hafi engar athugasemdir varðandi núverandi leikmannahóp. Félagið vill klárlega ekki gera byltingu og það ætti ekki að vera nein þörf á því. Eitt af því sem var heillandi við Slot var hversu vel hans leikstíll hentar núverandi leikmannahópi. En við hljótum að gera ráð fyrir einhverjum stórum ákvörðunum strax í sumar.

Thiago og Joel Matip losa töluvert um launaskrá en skilja ekki lengur eftir skarð sem félagið verður að fylla, það er nokkurnvegin búið að fylla þeirra skarð. Ef að félagið selur leikmenn eins og Berg, Kelleher, Morton, Carvalho, Phillips er engin öskrandi þörf á að bæta það upp á leikmannamarkaðnum. En skapar mögulega svigrúm til að gera meira. Endurkoma Liverpool í Meistaradeildina hjálpar klárlega líka og fleiri leiki í þeirri keppni kalla á stærri leikmannahóp.

Það vantar ekki beint fleiri leikmenn í hópinn, ef að Liverpool lætur til sín taka á leikmannamarkaðnum er ljóst að einhverjir fara í staðin og vafalaust hafa leikmannasölur stór áhrif á leikmannakaup sumarsins en skoðum aðeins hvar helst er hægt að sjá Liverpool styrkja núverandi hóp og hvaða leikmenn eru helst líklegir á markaði fyrir þær stöður.

Núverandi hópur

Það er ekki hægt að binda leikmenn við einhverja eina stöðu lengur en ef við flokkum núverandi hóp er þetta líklega nokkuð nærri lagi. Auðvitað geta flestir leikmenn spilað fleiri hlutverk en þetta.

Miðvörður

Joel Matip var byrjunarliðsmaður þar til hann meiddist þegar núverandi tímabil var rétt tæplega hálfnað. Quansah hefur að stóru leiti fyllt hans skarð og ef maður horfir yfir hópinn er Liverpool með fjóra alvöru miðverði. Einn af þeim er 32 ára, annar 21 árs og tvo af þeim er lítið hægt að treysta á þegar leikjaprógrammið fer að þéttast. Allir eru þeir réttfættir sem hjálpar alls ekki ef hugmyndin er að spila meira út frá öftustu línu.

Það er fínt að losna við Matip hvað meiðsli varðar en Liverpool þarf að bæta við sig öðrum miðverði sem er í svipuðum klassa og Matip, Gomez og Konate, helst örfættum. Takist það kveðjum við væntanlega einn miðvörð til viðbótar í staðin. Annar möguleiki væri að fá inn ungan miðvörð sem verður partur af fimm manna hópi þetta tímabil en hugsaður sem lykilmaður til framtíðar.

Matip er farinn og þar losnar um launapakka byrjunarliðsmanns, van den Berg fer líklega líka í sumar fyrir €15-25m og Phillips hlítur að fara af launaskrá líka. PSG er orðað við Konate sem væri kannski ekki svo ólíklegt?

Skoðum aðeins markaðinn fyrir miðverði – þetta er brainstorm af helstu valkostum í þessa stöðu. Sumir þeirra passa mögulega vel fyrir sitt lið en alls ekki Liverpool.

A – Fyrir miðverði sem Liverpool ætti að eiga raunhæfa möguleika á og mögulega vilja.

B – Fyrir leikmenn sem Liverpool ætti að eiga möguleika á en eru ólíklegir til að reyna við

C – Spennandi leikmenn hjá liðum sem Liverpool er líklega ekki að fara kaupa af.

Það virka mikið fleiri möguleikar í boði núna en þegar við vorum að velta sömu stöðu fyrir okkur áður en Liverpool keypti Konaté. Þeir sem auðveldast er að sjá fyrir sér á lista Liverpool eru menn eins og Pacho (Frankfurt), Inácio (Sporting) og Hincapé (Leverkusen) sem allir eru örfættir miðverðir sem eru góðir á boltann og á mjög góðum aldri. Hancko (Feyenoord) mögulega líka, ekki jafn spennandi og hinir en þekkir Slot mjög vel auðvitað.

Yoro (Lille) hefur verið orðaður við öll stórlið undanfarið og er líklega það mikið efni að Liverpool myndi klára kaup á honum ef tækifæri gefst þó hann sé enn aðeins 18 ára og réttfættur. Þetta er það mikið efni. Scalvini (Atalanta) var gríðarlega öflugur  gegn Liverpool og Lukeba (Leipzig) væri ekki fyrsti leikmaðurinn sem Liverpool kaupir frá Red Bull.

Eins eru nokkrir kostir í ensku deildinni, Guéhi fer líklega í stærra lið fljótlega, Murillo er örfættur miðvörður á góðum aldri með eitt ár í EPL að baki. Báðir miðverðir Fulham gætu farið hærra og Hughes þekkir auðvitað Kelly vel hjá Bournemouth.

Efstir á listanum væru samt líklega Colwill og Brantwaite sem báðir eru hjá liðum sem líklega færu frekar á hausinn en að selja sína lykilmenn til Liverpool. Colwill er reyndar aðeins orðaður við Liverpool og það er slúðrað um að Chelsea þurfi að selja uppalda leikmenn til að rétta bókhaldið hjá sér en þetta er ekki að fara gerast. Eins er Colwill ekkert endilega betri en Quansah. Ef að Chelsea þarf að selja leikmenn í sumar eru þeir svosem með fleiri leikmenn sem væri áhugavert að skoða. Verst að þeir eru flestir með lífstíðarsamninga hjá þeim.

Liverpool hefur óþægilega oft farið inn í tímabil með allt of þunnan/brothættan hóp í þessari stöðu og læra rosalega seint af fyrri mistökum. Það þarf klárlega einn afgerandi örfættan miðvörð og helst annan til sem gæti þá leyst stöðu bakvarðar einnig, svona Aké/Gvardiol tegund af miðverði.

Ef ekkert verður bætt við í þessari stöðu í sumar blasir við að nýtt teymi hefur ekkert lært.

Varnartengiliður

Liverpool reyndi að kaupa varnartengilið fyrir €110m í fyrra og ungling á €50-60m undir lok síðasta sumars. Enduðu í staðin á 30 ára Japana fyrir 1/5 af þeirri fjárhæð sem stóð sig betur en þeir báðir til samans síðasta vetur. Engu að síður er tilfinningin ennþá að Liverpool þarf að kaupa sinn Rice eða Rodri. Eða réttara sagt þá vantar Liverpool nýjan Fabinho.

Nýr varnartengiliður þarf að vera betri en Bajcetic, ekki miðað við síðasta tímabil heldur það sem félagið sér sem þakið hjá honum. Ef að hann verður áfram jafn afgerandi partur af leikmannahópi Liverpool og hann var undir stjórn Klopp er erfitt að sjá fyrir sér leikmannakaup sem hindra hans endurkomu. Tyler Morton er annar sem mögulega sér fyrir sér nýtt tækifæri hjá Liverpool. Hann er kominn með tvö góð Championship tímabil og var fyrirliði Liverpool upp yngri flokkana.

Eins er séns að Liverpool meti núverandi hóp nógu breiðan til að leysa þessa stöðu og haldi áfram að spila áttum sem sexum. Skoðum markaðinn

Mikilvægi þessara leikmanna virðist vera mun betur metið núna en áður og ekki margir augljósir valkostir í boði. Það er erfitt að sjá Tchouméni, Rice eða Rodri tegund af leikmanni sem gæti komið inn í Liverpool liðið og bundið það mikið betur saman. En njósnarateymi félagsins og traust þeirra á tölfræði getur vonandi greint hentugan leikmann sem hefur þak til þess að verða slíkur leikmaður.

Bajcetic gæti vel verið einmitt þessi leikmaður og ef félagið metur stöðuna þannig sjáum við Endo líklega áfram í stóru hlutverki sem og Mac Allister eða Jones aftast á miðjunni og móti honum. Það vantar ekki breiddina í núverandi hóp en það vantar gæðin sem alvöru sérhæfður varnartengiliður gefur sóknarsinnuðu liði eins og Liverpool.

Helstu möguleikar Liverpool á varnartengiliðum eru leikmenn sem gætu tekið stórt skref uppávið fljótlega, ekki Declan Rice tegund eða Caicedo sem kemur tilbúinn.

Varela hjá Porto er samherji Mac Allister hjá landsliðinu og var góður hjá Porto í vetur eftir að hafa komið fyrir síðasta tímabil frá Boca. Zubimendi hefur verið góður hjá sterku liði Soceidad og gæti eins og Ugarte frá PSG komið inn sem nokkurnvegin tilbúnir leikmenn.

André er ennþá hjá Fluminese og Baleba hjá Brighton er spáð mjög bjartri framtíð, eru þeir betri en Bajcetic verður?  Éderson hjá Atalanta og Wharton hjá Palace hafa verið frábærir í vetur en eru kannski nær því að vera Mac Allister tegund af varnartengiliði en Fabinho.

Kamara hjá Aston Villa væri kannski hvað helst spennandi af þessum lista en mjög líklega ekki að fara frá Villa í sumar.

Doucoure hjá Palace var meiddur allt tímabilið, Onana hjá Everton væri klárlega í umræðunni ef hann væri ekki einmitt hjá Everton. Chelsea er með a.m.k. þrjá unga og mjög efnilega varnartegiliði.

Með því að skoða markaðinn finnst mér ekkert endilega líklegt að Liverpool kaupi nýjan Fabinho í sumar, reyni frekar að búa hann til innanfrá.

Framherjar

Liverpool þarf klárlega ekki fleiri sóknarmenn en mögulega vill félagið aðra sóknarmenn. Þrétt fyrir pirrandi tímabil er ljóst að Arne Slot fær gríðarlega sterkan hóp sóknarmanna sem ætti að vera hægt að stórbæta. Þeir eiga allir töluvert mikið inni.

Vinstri vængurinn er mjög vel skipaður og ólíklegt að keypt verði fleiri í þá stöðu. Diaz ætti að henta Slot mjög vel en eins er vel hægt að sjá fyrir sér Gakpo, Nunez eða Jota á vinstri vængnum. Kadie Gordon er líka bestur á vinstri vængnum. Ef Liverpool kaupir leikmann væri það líklega striker eða framtíðar arftaki Salah á hægri vængnum.

Það er nóg af spennandi leikmönnum á þessum markaði

Bakayoko frá PSV gæti verið gríðarlega spennandi valkostur sem hentar Slot mjög vel. Olise frá Palace er klárlega að fara í stærra lið og mögulega er Kudus líka að fara í eitthvað stærra. Dani Olmo hjá Leipzig er líka sterklega orðaður við brottför í sumar. Enginn af þeim er samt líklega spenntur fyrir því að keppa við Salah um stöðuna heilt tímabil.

Ferguson hjá Brighton átti þungt tímabil sem gerir hann líklega bara meira spennandi fyrir FSG. Hann gæti verið nían sem Liverpool er líklegra til að vilja og nota undir stjórn Slot (frekar en fölsk nía sem við þekkjum frá tíma Klopp).

Sesko, Györkeres, Giminez gætu alveg verið á listanum ef Slot vill níu sem hann treystir betur en Nunez, Gakpo eða Jota. Boniface eða Osimhen væru meira spennandi og ólíklegri ef svo væri.

Líklega gerir Liverpool ekki neitt í sóknarlínunni. Vonandi getur Slot bætt núverandi hóp og eins þarf að hafa í huga að félagið sér fyrir sér að einhver af Doak, Gordon eða Danns banki á dyrnar á næstu árum. Doak kom sem dæmi inná sem varamaður í fyrsta leik síðasta tímabils, fyrir Salah.

Þegar Slot var kynntur var eitt af því sem honum var helst ætlað að gera var að vinna með og bæta leikmenn eins og Nunez. Salah er svo gott sem búinn að staðfesta að hann verði áfram. Diaz fjölskyldan hefur eitthvað pissað utan í Barcelona en þeir hafa líklega ekkert efni á honum frá Liverpool. Jota er ekki beint söluvæn varna með sína meiðslasögu og Slot þekkir Gakpo vel. Ef einhver af þeim fer í sumar breytir það sumrinu töluvert á leikmannamarkaðnum.

Bakverðir

Örfættur miðvörður og miðvörður sem getur leyst stöðu bakvarðar vinstra megin er líklegra en að Liverpool kaupi næsta arftaka Andy Robertson. Markaðurinn er ekkert rosalega spennandi heldur. Hægra megin er Liverpool mjög vel sett á pappír a.m.k.

Kerkez sem Hughes keypti til Bournemouth gæti verið nokkuð spennandi reyndar. Ait-Nouri hjá Wolves gæti eins spilað á hærra leveli. Dest var frábær hjá PSV í vetur á láni frá Barcelona. Robinson hjá Fulham hefur verið góður undanfarin tvö tímabil en er líklega orðin of gamall til að koma til greina.

Hvað segið þið? Er Liverpool að fara gera meira en við höldum eða lítið sem ekki neitt?

 

 

 

11 Comments

  1. Hvaða vesen? Ekkert sillí síson? Þéttur hópur og spennandi prospekt í hverri stöðu?

    Flokkast sennilega undir lúxusvandamál en Slottarinn þarf að bretta upp á ermar og finna leynisósuna sem fær vörnina til að halda hreinu, miðjuna til að dóminera og sóknina til að …. já þið vitið.

    6
  2. Mig langar að árétta að staðfesting frá leikmanni sem á ár eftir af samningi sínum um að hann mæti sterkur til leiks á næsta tímabili hefur ekkert gildi fyrr en hann skrifar undir nýja framlengingu.

    Samt sem áður þá eru þessi ummæli Salah er auðvitað jákvætt fyrir LFC og styrkir stöðu félagsins við að hámarka virði leikmannsins hvort sem það verður á áfram á Anfield eða með góðri sölu annað.

    5
  3. Mjög góð samantekt. Spennandi að sjá hvað Slot gerir og hvernig hann kemur til með að nota ungviðið.

    Svo má ég til með að nefna að aðeins einn forsetaframbjóðandi mun flagga Liverpoolfánanum á Bessastöðum þegar við vinnum deildina á næsta tímabili! YNWA

    4
  4. Ég held að það sé ljóst að Liverpool þarf styrkingu í vörn og varnarmiðjumann líka. Við erum ekki með næga breidd þar. Chelsea er að krækja í einn góðan frá Fulham en það virðist ekkert vera að frétta hjá okkar mönnum. Ég var að vona að við myndum klára okkar mál fyrir EM.
    Okkar helsta vandamál var að halda hreinu, það þarf mikið að laga til þar, hvort sem það verður leikkerfi eða mannskapur.

    1
  5. Var Mo Salah að láta sauma í sig hár? Er allt í einu með furðulega beina hárlínu yfir enninu. En ef maður á pening er auðvitað rétt að nota hann í eitthvað sniðugt.

    3
  6. Engin hætta á að það verði eitthvað keypt úr efstu hillu.
    Verðum bara að stýra væntingum skv. því.

    2
  7. Núna hafa margir kallað eftir því að það verði keyptur inn varnarsinnaður miðjumaður, leikmaður í hæsta klassa helst. Það hafa líka ansi margir kallað eftir því að Trent verði settur á miðjuna.
    ef Slot spilar 4-2-3-1 væri þá ekki Trent og Mac Allister líklegastir saman aftarlega á miðjunni með Szobozlai þar fyrir framan eða jafnvel Harvey Elliot sem mun líklegast fá slatta af tækifærum framarlega á vellinum.
    Ég veit að það er pláss fyrir worldclass varnarsinnaðan miðjumann en sá myndi spila flesta leiki en hver yrði varamaður, Trent færi aldrei á bekkin því hann yrði þá alltaf frekar í bakverðinum.
    Er besti miðjumaður seinasta tímabils að fara á bekkinn ?

  8. Sælir félagar

    Mér finnst pælingar um hverjir koma dálítið út í loftið. Hvernig verður liðskipan Slot og hverja vill hann selja bæði til að losa launakostnað og fá inn leikmenn sem honum finnst vanta í SITT lið. En auðvitað er í lagi að “fabúlera” um leikmannakaup og annað en hefur samt lítið að segja inn í umræðuna eins og er. Ég vil fara að sjá hverja Slot ætlar að losa og þá höfum við ef til vill einhverjar hugmyndir um hverja/hvernig leikmenn hann vill fá. Já og meðan ég man – til hamingju með nýjan forseta 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

Gullkastið – Arne Slot og þjálfarakapall

Man City kærir Úrvalsdeildina!