Tímabilið 2023-24 fer seint í sögubækurnar sem það besta í enska boltanum. Rennum létt yfir liðin í deildinni og röðum eftir því hvernig Kop.is spáði þeim fyrir mót.
Luton
Metnaður Luton virkaði svolítið eins og þeir væru bara í heimsókn og að þetta tímabil væri meira bónus fyrir áframhaldandi uppbyggingu næstu árin. Þeir eyddu €25m umfram það sem þeir seldu fyrir mót og það var bara ekki nóg jafnvel þó stig væru dregin af tveimur liðum. Luton var samt næst því af nýliðunum að halda sér uppi, náðu í nokkur góð úrslit og fara lítið laskaðir niður um deild nema síður sé. Stóra áfallið var auðvitað að missa fyrirliðan í byrjun tímabils og væntanlega er hann nú hættur í fótbolta. Rob Edwards er ennþá stjóri liðsins sem er líklega eina vitið, hans næsta starf verður líklega hjá stærra liði en Luton, ekki minna.
Ágætt annars að losna við Luton þó þeirra uppgangur og öskubuskuævintýri sé áhugaverður. Þetta er enganvegin Úrvalsdeildarlið, spila fótbolta sem vonandi er á undanhaldi og stuðningsmenn liðsins heilluðu alls ekki þegar Liverpool spilaði við þá.
Sheffield United
Vægast sagt áhugavert fyrir mót þegar þeir seldu sinn besta mann til Burnley sem kom upp með þeim í fyrra. Leikmannakaup sumarsins í staðin gengu enganvegin upp og Sheffield fellur sem þriðja versta lið í sögu Úrvalsdeildarinnar. Arsenal vann þá samanlagt 11-0, Newcastle vann þá 13-1, Burnley tók þá 9-1. Allt í allt fengu þeir 104 mörk á sig eða 19 mörkum meira en næsta lið á eftir.
Sheffield endar mótið með Chris Wilder sem stjóra. Hann gæti vel barið þetta lið betur saman í Championship og farið með þá aftur upp eins og hann gerði fyrir fimm árum. Ekki það að öll Yorkshire liðin mega bara halda sig í Championship deildinni.
Bournemouth
Richard Hughes vissi hvað hann söng þegar hann lét Gary O´Neil fara þrátt fyrir að hafa bjargað svo gott sem föllnu Bournemouth liði á síðasta tímabili. Væntingar til þeirra voru því ansi litlar síðasta sumar en það er aðeins vanmetið að þetta litla félag kom út í mínum €125m á leikmannamarkaðnum. Hið ótrúlega er hinsvegar að megnið af þessum leikmönnum sem þeir keyptu síðasta sumar voru ekki lykilmenn í liðinu í vetur nema þá helst í seinni hluta tímabilsins.
Andoni Iraola var greinilega það góður að þetta var áhættunnar virði að skipta um stjóra og Bournemouth endaði í 12.sæti 22 stigum fyrir ofan Luton sem var í 18.sæti. Stjóri sem líklega ræður við stærra svið seinna meir og hópur sem á töluvert inni ennþá.
Everton
Stórvinur SSteinn bjargaði Everton heldur betur í vetur. Þeir hafa undanfarin ár svindlað hressilega á Financial Fair Play reglunum og fengu fyrir vikið samtals frádrátt upp á átta stig í vetur. Sum ár hefði það dugað til að fella Everton, t.d á síðasta tímabili sem hefði verði mikið nær að refsingin væri tekin út en Dyche náði að lífga upp á Everton með sínum Burnley viðbóðsfótbolta og endar tímabilið með 48 stig í raun sem er jafn mikið og Brighton og Bournemouth.
Framhaldið verður mjög fróðlegt, núna eru nýjir fjárfestingarhópar orðaðir við kaup á félaginu, þeir þurfa líklega að selja eitthvað í sumar af leikmönnum og nýr heimavöllur er á lokametrunum.
Líklega eru stuðningsmenn Everton dauðfegnir að þetta tímabil er búið og það fór ekki verr. Framtíð félagsins hefur á köflum í vetur virkað verulega dökk en er kannski orðin eitthvað bjartari núna.
Wolves
Gary O´Neil silgdi lygnan sjó með Wolves allt tímabilið og voru þeir aldrei í hættu á að falla eða blanda sér að ráði í efri hlutann. Það eru samt smá viðvörunarljós að þeir unnu aðeins einn leik af síðustu tíu í deildinni (2-1 sigur á Luton) og töpuðu sjö af þessum leikjum.
Ágætt tímabil samt hjá Wolves í ljósi þess að þeir seldu Nunes, Nevez og Collins alla síðasta sumar og komu út í €81m hagnaði nettó eftir leikmannagluggann (og þurftu þess til að standast FFP reglur). Þeirra langbesti leikmaður (Neto) var líka meiddur hálft tímabilið.
Þeir þurfa að heyra aftur í Mendes og fá nýja sendingu frá Portúgal fyrir næsta tímabil.
Burnley
Af nýliðunum eru stuðningsmenn Burnley líklega lang svektastir eftir mótið. Kompany fékk nýtt €111m vopnabúr á leikmannamarkaðnum til að byggja ofan á skemmtilegasta og besta lið Championship deildarinnar 2022-23. Niðurstaðan var hræðilegt 24 stiga tímabil þar sem Kompany virtist aldrei sætta sig við yfirburði andstæðinga Burnley og silgdi skútunni sannfærandi í strand allt til enda án þess að breyta mikið um leikplan eða áherslur.
Hann er hinsvegar stórt nafn í fótboltaheiminum og er væntanlega að leggja upp það sannfærandi leikplan að það hlítur að virka hjá betra liði, rétt eins og það gerði þegar Burnley voru með sterkasta hópinn í Championship deildinni. Eitthvað er það því að FC Bayern er búið að ráða hann í staðin fyrir Tuchel. Dortmund réði Klopp vissulega eftir að hann féll með Mainz en þetta virkar ekki alveg sama dæmið!
Burnley situr allavega eftir með frekar illa samansettan hóp sem var sniðin að þörfum þjálfara sem er farinn. Af liðunum sem féllu ættu þeir samt að vera lang líklegastir til að koma aftur eftir næsta tímabil.
Nottingham Forest
Þeir keyptu leikmenn fyrir €131m síðasta sumar og €194m þar síðasta sumar. Það er spurning hvort þessi afskaplega skrautlegi eigandi félagsins hafi ákveðið að það væri þess virði að taka sénsinn á að FFP refsingin væri ekki næg til að fella þá. Það voru dregin fjögur stig af þeim í vetur og það er fróðlegt að sjá hvernig þeir ná undir viðmið fyrir næstu tímabil.
Þeir tóku dómaravæl upp í nýjar víddir á tímabilinu, réðu Mark Clatterburg bjánan sem “sérstakan ráðgjafa” hjá sér og létu hann gera sig að fífli vikulega þar til hann hætti í því starfi.
Enduðu í 17.sæti og hefðu gert það óháð stigafrádrætti. Það voru því miður þrjú lið verri en Forest í vetur og því verða þeir enn á sínum stað næsta vetur. Þeir eru með hóp sem á að gera mikið betur og hafa undanfarin tvö sumur sankað að sér nokkrum áhugaverðum leikmönnum á góðum aldri. Væri kannski þjóðráð hjá þeim að kaupa færri en 10-25 menn milli ára núna.
Crystal Palace
Eftir að Roy Hodgson var loksins rekinn kom á daginn að Palace er í raun og veru besta lið Evrópu. Oliver Glasner var hárréttur maður fyrir þennan hóp sem inniheldur nokkra mjög svo spennandi leikmenn á góðum aldri sem líklega verður erfitt að halda í sumar. Mögulega eru þeir þar komnir með nógu góðan stjóra til að þeir þurfi ekki að reka hann í október og taka fimm ár af David Moyes?
Wharton sem kom frá Blackburn í janúar gerir tilkall til að vera leikmannakaup tímabilsins og auk hans eiga þeir Olise, Eze og Guéhi sem allir eru verulega verðmætar söluvörur takist þeim ekki að halda þeim í sumar.
Palce var 16.besta lið deildarinnar í fyrri umferðinni með stigi meira en liðið í 17.sæti. Þeir voru sjötta besta lið deildarinnar í seinni umferð tímabilsins.
Fulham
Þrjú lið voru svo afgerandi léleg í vetur að það varð aldrei nein teljandi fallbarátta. Fulham var fyrir neðan miðju en aldrei í hættu nánast allt tímabilið og enda með 47 stig. Afskaplega tíðindalítið tímabil en ljóst að þeir missa lykilmenn í sumar sem þeir þurfa að leysa vel.
Brentford
16.sæti hjá Brentford og 39 stig sem eru fall form sum ár. Þar af unnu þeir aðeins fimm heimaleiki í vetur. Tímabilið var þó töluvert litað af meiðslum og auðvitað löngu banni Ivan Toney. Þeir voru aldrei í hættu og aldrei að fara gera neitt aukalega, enganvegin sama partý og undanfarin ár allavega.
West Ham
David Moyes kveður West Ham í betri málum en hann tók við þeim. Þeir áttu hörku tímabil í Evrópudeildinni þar sem þeir voru óheppnir að henda ekki Leverkusen úr keppni en réðu ekki við deildina samhliða ævintýrunum í Evrópu.
Sóknarlínan fyrir aftan níuna var frábær (Kudus – Paqueta – Bowen) en þá vantar níu sem er betri en Antonio. Þeir hafa keypt fullt af þeim en enda alltaf með Tona frammi. Scamacca sem fór síðasta sumar til Atalanta hefði t.a.m. átt að vera einmitt slík nía.
Stóra málið síðasta sumar var salan á Rice sem þeir leystu með Alvarez sem var fínn og svo Kalvin Phillips á láni sem var ótrúlega lélegur.
Engin Evrópa næsta vetur hjá West Ham, Paqueta mögulega á leiðinni í ævilangt bann og Kudus væntanlega eftirsóttur. Hinsvegar ættu þeir að eiga ágæta sjóði eftir enn frá síðasta tímabili og fá inn nokkuð spennandi nýjan stjóra í Julen Lopetegui.
Brighton
Tvö skref áram og eitt afturábak, þetta var tímabil þar sem þeir stíga aðeins til baka. Sala á Mac Allister og Caiceido var of stór biti á einu bretti auk þess sem Sanchez fór til Chelsea. Þetta var samt ekki verra en 11.sæti og auk þess var Brighton að stíga sín fyrstu skref í Evrópu samhliða. Þeir eru með hlaðborð af efnilegum leikmönnum sem stíga pottþétt betur upp næsta vetur.
De Zerbi virðist ætla að verða næsti Conte og tollir ekki lengi á sama stað. Hann var ósáttur við innkaupastefnu félagsins og var tekin sameiginleg ákvörðun eftir tímabilið að hann myndi hætta. Magnað hvað hlutabréf í honum féllu hratt eftir því sem leið á tímabilið sem er kannski ekki alveg sanngjarnt. Þeir enduðu mótið á því að vinna aðeins einn leik af síðustu 10 sem gefur aðeins til kynna að þreyta hafi verið komin í þetta.
Fróðlegt að sjá hvað þeir gera í staðin fyrir RDZ, heyra þeir aftur í Potter sem dæmi eða fara þeir í frumlegri og meira spennandi valkost líkt og þeir hafa gert vel undanfarin ár. Potter var auðvitað á góðri leið með liðið þegar Chelsea stal honum frá þeim.
Tottenham
Tottenham var stórt spurningamerki fyrir mót í kjölfar sölunnar á Harry Kane. Ange Postecoglou tók við liðinu og kom með mjög ferska vinda í byrjun móts og fékk ævintýralega hjálp frá dómurum sem skilaði Spurs á toppnum í byrjun nóvember. Þeir voru ekki í neinni Evrópukeppni heldur og stimpluðu sig strax út úr birkarkeppnum og virtust því eiga nokkuð greiða leið á a.m.k. Meistaradeildarsæti. Áður en nóvember var allur voru þeir hinsvegar komnir í fimmta sæti sem reyndist svo rauninn.
Ekki beint vont tímabil en á sama tíma var þetta dauðafæri á að ná Meistaradeildarsæti, sérstaklega þar sem Aston Villa endaði á að taka eitt sætið í staðin. Eins var árangur enskra liða í Evrópu óvenju lélegur í vetur sem gerði það að verkum að fimmta sætið sem átti að vera slam dunk skilaði ekki Meistaradeildarsæti.
Það er hætt við því að Man Utd, Chelsea, Newcastle og jafnvel West Ham og Brighton bíti betur frá sér næsta vetur og eins að Evrópudeildin bíti eitthvað í hjá Tottenham. Það er erfitt að meta lið sem spilaði aðeins þrjá leiki aukalega fyrir utan deildarleiki í vetur. Liverpool sem dæmi spilaði 17 leikjum meira í vetur.
Aston Villa
Unai Emery og Aston Villa eru mögulega lið tímabilsins. Mjög góður árangur hjá honum að skila Villa í Meistaradeild og naut auðvitað góðs af því að United, Chelsea og Newcastle tóku ekki þátt í vetur. Liðið þarf klárlega að stækka hópinn fyrir næsta tímabil enda voru þeir alveg sprungnir í lok tímabilsins og unnu engan af síðustu sex leikjunum. Þar af vandræðalega lélegt einvígi gegn Olympiacos.
Newcastle
Talandi um að ráða við aukið álag sem fylgir því að spila í Evrópu. Newcastle var engin smá sóun á Meistaradeildarsætinu okkar. Þetta er ríkasta félagslið í heimi enda ríkisrekið af olíuríki en þökk sé hertu regluverki náðu þeir “aðeins” að eyða €108m nettó á þessu tímabili og þar af voru fullkomlega misheppnuð kaup á Sandro Tonali sem var í kjölfarið settur í bann nánast allt mótið.
Eddie Howe lét liðið svo hlaupa sig í kaf og var með meira og minna allt liðið á nuddbekknum megnið af mótinu.
Newcastle er í mínus hvað FFP reglur varðar og þarf að selja leikmann fyrir lok þessa mánaðar til að ná að laga það. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir leysa það en á sama tíma er ljóst að þeir munu láta til sín taka seinna í sumar. Þeir eru t.a.m. búnir að kveðja nokkra leikmenn sem hafa verið hjá þeim lengi en runnu út á samningi.
Þeir verða í hlutverki Spurs næsta vetur, engin Evrópa sem gæti hentað þeim mjög vel við að rétta sig af eftir síðasta tímabil. Newcastle er samt orðið bara eins og City, tekur því varla að telja þá með enda fullkomlega sturlað að leyfa ríkisrekstur á félagsliðum.
Chelsea
Það er vanmetið hversu ógeðslega lélegur árangur Chelsea hefur verið miðað við leikmannakaup. 63 stig eftir €1.102.150.000 leikannakaup á 18 mánuðum er fáránlega lélegt. Engu að síður var Pochettino aðeins að ná tökum á liðinu undir lok tímabilsins sem kannski gefur til kynna að þeir verði með á næsta tímabili.
Það er ekki fræðilegur möguleiki að þetta bull standist allar FFP reglur en á sama tíma hefur maður takmarkaða trú á að nokkuð verði gert sem heitið geti. Þeir eru eftir sem áður orðaðir við alla helstu bitana á markaðnum og voru auðvitað að skipta um stjóra sem vill vafalaust eitthvað hafa að segja um hópinn næsta vetur.
Chelsea er yfirfullt af góðum leikmönnum á frábærum aldri, þó það nú væri, þeir kostuðu €1.102.150.000 undanfarna tvo glugga.
Chelsea keypti bæði Caideido og Lavia á €178m síðasta sumar aðallega til að Liverpool gerði það ekki, það gerir það aðeins sætara að Liverpool endaði 19 stigum fyrir ofan þá í vetur og vann þá í úrslitaleik deildarbikarsins með hluta af unglingaliðinu inná í framlengingunni.
Manchester United
Ten Hag er með nettó eyðslu upp á rúmlega €360m síðustu tvö tímabil og hefur ennþá ekki náð að setja sannfærandi sitt handbragð á United liðið. Þetta er ekkert líkt frábæru Ajax liði Ten Hag sem var mjög nálægt því að komast í úrslit Meistaradeildarinnar. Þessi eyðsla er sem dæmi rúmlega helmingi meiri en Liverpool hefur gert á leikmannamarkaðnum á sama tíma.
Þeir enda þetta tímabil í áttunda sæti sem er hærra en spilamennska liðsins verðskuldaði megnið af mótinu. Þeir gátu í fullt af leikjum treyst á einstaklingsgæði sem löguðu leiki þar sem þeir áttu ekkert skilið. Sigur í FA Cup bjargar heilmiklu fyrir þá og jafnvel starfi Ten Hag en það bara hlítur að vera óásættanlegt að henda frá sér Meistaradeildarsætinu og hvað þá skíta svona illa á sig í þeirri keppni. Þeir féllu úr leik fyrir áramót þrátt fyrir að vera í riðli með Kaupmannahöfn og Galatarsaray.
Vissulega var Ten Hag með liðið í töluverðum meiðslavandræðum megnið af mótinu og það hefur klárlega áhrif. Núverandi hópur á helling inni á betra tímabili. Eins er Ten Hag að því er virðist að glíma við erfið hegðunarvandamál innan liðsins sem er magnað að sé raunin hjá United. Raunar virðist stjórnun á félaginu í heild hafa verið tæp ef eitthvað er að marka fréttir af hreinsunum Jim Radcliff eftir að hann keypti sig inn í félagið. Jadon Sancho er svo toxic að hann má ekki æfa með liðinu og er frekar sendur út á láni, hvað gæti hann einn og sér gefið þessu liði í sama formi og hann var hjá Dortmund? Greenwood er ennþá meira toxic og svo var Rashford ansi ólíkur þeirri ímynd sem hann var búinn að byggja upp.
Það segir svo kannski eitthvað um innkaupastefnu United að það voru Manioo, Garnacho og kannski McTominay sem voru það helsta jákvætt við tímabilið. Þeir eru byrjaðir að taka töluvert til í hópnum nú þegar og enn meira utan vallar.
Stóra spurningin er hvort þeir skipti um stjóra sem verður enn að teljast líklegt því það virðist vera komið mikið meira sannfærandi fólk að stýra félaginu.
Liverpool
Fyrir ári síðan vorum við að tala um að næsta tímabil yrði töluvert mikið transition ár enda skipt um miðju og verið að skipta lykilmönnum hægt og þétt út fyrir nýja, Liverpool 2.0.
Meistaradeildarsæti var lágmarkskrafa sem ekkert allir höfðu endilega trú á og auðvitað að vinna bikar. Sérstaklega þá Evrópudeildina úr því við skráðum okkur í hana. Kop.is spáði sem dæmi Liverpool 3. sæti.
Sprengjan frá Jurgen Klopp á miðju tímabili setti allt upp í loft sem og auðvitað gott gengi liðsins sem leyfði okkur um að dreyma stærri drauma. Það er fáránlegt að Liverpool hafi unnið deildarbikarinn, farið langt í FA Cup og Evrópudeildinni og verið á toppnum í byrjun apríl miðað við galin meiðslalista allt tímabilið. Ekki bara það heldur bættust bönn, mannrán og mesta mótlæti allra liða hvað VAR varðar ofan á líka. Í einum leiknum var hreinlega dæmt mark af því dómaratríóið var ennþá með timburmenn eftir ferð frá Abu Dhabi kvöldið áður.
Liverpool var í séns fram á vor þrátt fyrir að ná eiginlega aldrei að vera með alvöru flugendasýningu eða sýna sitt besta enda í öllum leikjum að púsla saman liði. Hrun í lok tímabilsins var hrikalega svekkjandi enda liðið jafnan verið frábært í síðustu 10 umferðunum undir stjórn Klopp og var þá farið að endurheimta lykilmenn aðeins úr meiðslum. Þetta var samt augljóslega skrefi of langt og allir nokkuð úrvinda eftir mót, stuðningsmenn, liðið og auðvitað stjórinn
Tilfinningin síðustu vikurnar var því eins og þetta hafi verið verra tímabil hjá Liverpool en það kannski var. Meistaradeildarsæti var lykilatriði, fínt að vinna bikar auðvitað og líklega bættust nokkrir leikmenn við leikmannahópinn sem hefði annars kannski ekki endilega fengið sénsinn. Sannarlega transition tímabil sem vonandi er hægt að byggja ofan á næsta vetur.
Arsenal
Man City vann þrennuna tímabilið 2022-23 og var því kannski smá von fyrir önnur lið að þeir kæmu ekki eins hungraðir í næsta tímabil og mögulega aðeins lúnir eins og Liverpool var klárlega að glíma við 2022-23 eftir að hafa farið til enda í öllum keppnum 2021-22. Arsenal hömruðu járnið heldur betur á meðan það var heitt og keyptu Declan Rice, Kai Havertz, Timber og Raya á €234m
Það er raunar í takti við það sem Arsenal hefur verið að gera í tíð Arteta. Hann er búinn að fá leikmenn fyrir €835m og er með nettó eyðslu upp á €638m sem er ekki nema €375m meira en Klopp hefur keypt á sama tíma hjá Liverpool.
Auðvitað er deildin stórlega löskuð og hefur verið í áratug með Man City meðal þátttökuliða. Þetta er eins og ef einn fengi alltaf að vera á sterum í frjálsíþróttakeppni. Arsenal er að lenda í nákvæmlega sama og Liverpool undanfarin ár. Auðvitað viljum við sem stuðningsmenn Liverpool alls ekki að erkifjendur eins og Arsenal vinni deildina en það hefði verið mun betra fyrir brandið ef Man City hefði ekki unnið þetta fjórða árið í röð. Það er flestum drullusama um Man City (öfugt við t.d. Arsenal) og hvernig þeirra árangur er tilkomin eykur ekki beint spennu fyrir þessum íþróttahvítþvotti olíuríkis.
Þetta var eitt af bestu tímabilum Arsenal í Úrvalsdeild en þeir enda með svipað góðan árangur og Aston Villa, Meistaradeildarsæti. Jú þeir unnu reyndar góðgerðarskjöldinn i ágúst sem er auðvitað lítið meira en gloryfied æfingaleikur.
Allt púðrið fór í deildina og lengi vel féll mjög margt með þeim, sérstaklega þá hvað meiðsli lykilmanna varðar sem voru lítil sem engin í samanburði við t.d. Liverpool. Endurkoma þeirra í Meistaradeildina var smá waste of space þó vissulega hafi þeir skriðið í 8.liða úrslitin þar. Bikarkeppnirnar tóku fljótt af og niðurstaðan því annað sæti sem er ekki beint eitthvað sem sungið er um.
Þessi hópur er á fínum aldri og núna er stóra spurningin hvort þeir hafi hungur eins og Liverpool 2019-20 til að klára dæmið eða lenda þeir í meiri brekku næsta vetur? Hvað gera þeir líka á leikmannamarkaðnum?
Man City
Eftir að hafa í mörg ár haldið því fram að allir þeirra fjármálagerningar standist vel settar reglur og að öll gagnrýni á þá sé ósanngjörn breyta þeir núna alveg um takt og vilja allt í einu meina að reglurnar sjálfar séu ólöglegar og það sé alveg fáránlegt að þeir þurfi að fara eftir þeim. City hafa frá því Abu Dhabi keypti félagið verið að dæla peningum inn í reksturinn í gegnum falsaða auglýsingasamninga við félög sem eru í eigu sömu aðila, bæði hafa þeir gert það með greiðslum undir og yfir borðið sem misvel er hægt að rekja. Stundum við félög sem eru ekki með neina starfsemi.
How true is this from The Times about the 115ers pic.twitter.com/05JRsRw4MN
— Steve (@Knoller6969) June 6, 2024
Miðað við hvað þeir eru tilbúnir að leggja á sig í lögfræðikostnað og til að hylma yfir svindl utan vallar hvað eru þeir tilbúnir að gera til að hagræða sér í vil innanvallar?
Árangur þeirra undanfarin ár á ekki virðingu skilið og meira en kominn tími til að tekið verði á því hvernig þeir hafa fengið að skekkja settar leikreglur. Þetta er allt byggt á sandi, bókstaflega.
Tökum þróun auglýsingatekna sem dæmi í samanburði við hin liðin frá því Abu Dhabi keypti félagið.
Abu Dhabi kaupir félagið 2009 og árið eftir voru auglýsingatekjur félagsins 161% hærri frá árinu áður. Árið 2012 er gerður risastór samningur við Etihad flugfélagið sem síðar kom í ljós (gagnaleikinn) að vera að 92% leiti ekki fjármagnaður af Etihad.
Tíu árum eftir yfirtökuna voru auglýsingatekjur búnar að aukast um 1.178% samanborið við um 131% – 300% hjá hinum liðunum. Núna 2023 er þetta 1.789% meira í auglýsingatekjur, markaðsteymið hjá City eru nefnilega svona ofboðslega færir í sinu starfi sjáiði til.
Man City hefur ekki þurft að kaupa eins mikið undanfarin ár og þeir gerðu upphaflega enda verið að viðhalda frábæru liði og kannski aðeins þurft að hægja á eftir að hafa orðið fyrir barðinu á stórum gagnaleka sem upplýsti um hluta af þeirra augljósu fjármálafimleikum? Þannig að á tíma Klopp sem stjóri Liverpool hefur Man City aðeins keypt leikmenn fyrir €575m meira en Liverpool (þeirra helstu keppinautar) og munurinn nettó á leikmannakaupum liðanna er €480m. Höfum í huga að Klopp tók við liði sem þurfti að endurnýja nánast frá grunni á meðan Guardiola tók við liði sem voru meistarar tveimur árum áður. Magnað hvernig þetta mikið minna félag hefur náð að fjármagna þetta.
Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr væntanlegum dómsmálum City þó líklega sé ekki von á niðurstöðu strax. Eins er rétt að stilla væntingum í hóf enda jafnvel um milliríkjadeilur að ræða ef Úrvalsdeildin vogar sér að fara fram á það við City að þeir fari eftir leikreglum eins og aðrir. Hvað þá ef þeim verður nú refsað eins og tilefni er til.
Núna í þessari viku á að taka fyrir mál þar sem þeir vilja m.a. meina að það lýðræðisleg kosning Úrvalsdeildarinnar þar sem farið er fram á 2/3 af atkvæðum til að breyta samþykktum deildarinnar sé í raun ólögleg. Þeir eigi að fá að gera það sem þeim sýnist og eru þá sérstaklega að meina hvað fjárhæð auglýsingasamninga varðar því þannig hafa þeir dælt fjármagni inn í reksturinn úr ríkissjóði Abu Dhabi. Ekki að óháður aðili þurfi að leggja mat á hvort þeir séu á eðlilegu markaðvirði. Takist þeim að láta afnema þessa 2/3 reglu verður t.d. fróðlegt að sjá hvað stóru liðin gera varðandi sjónvarpsréttindi, hvað myndi stoppa Liverpool, United og Arsenal að sjá bara um sjónvarpsréttinn af sínum leikjum sjálf og gefa skít í kröfur minni liðanna um að jafna tekjurnar af sjónvarpsútsendingum?
Burtu með þetta City lið, þó fyrr hefði verið.
Þannig að, City vann deildina, liðin sem komu upp skíféllu öll aftur og ensku liðin gátu ekkert í Evrópu.
Fréttir frá Spáni.
Þar var að falla tímamótadómur í réttarkerfinu, þrír menn dæmdir í fangelsi fyrir kynþáttaníð gegn Vinicius jr. Þetta er fyrsti dómurinn þar í landi fyrir hatursglæp og hefur örugglega fordæmisgildi víðar. Hver mannanna þriggja fékk átta mánaða fangelsi, tveggja ára bann frá fótboltavellinum og þurftu að greiða allan lögfræðikostnað. Urðu líka að lesa upphátt afsökunarbréf til Vini jr., La Liga og Real Madrid.
Vonandi verður hægt að ala menn svolítið upp í framhaldinu. Væri amk. góð byrjun að öskra minna og sleppa því að taka kókaín…
(hvaða dóm skyldi Man City fá?)
Kærur felldar niður, EPL dæmt til að greiða allan lögfræðikostnað, City og olíufurstarnir beðnir afsökunar og þeim boðið að hafa einn VAR dómara á öllum úrvalsdeildarleikjum næsta tímabil!
Fannst þetta leiðinlegt tímabil. Jújú, unnum lítinn bikar en fáar góðar frammistöður. Besta frammistaðan í leik sem tapaðist útaf mestu VAR mistökum EPL og af nógu er að taka í þeim efnunum. Fæ meir og meir leið af enska boltanum. Sjarminn einhvern veginn minni en áður. Ástæðurnar m.a. svindl liðin og VAR. Ef það verður ekkert gert gagnvart ríkisreknum liðum þá er enski boltinn dauður fyrir mér.
Sammála. Ég er að fá meir og meir leið á enska boltanum út af svindl liðunum. VAR per se er ekki aðal vandamálið frá mínum bæjardyrum séð, aukaatriði miðað við svindl liðin, en ég er sammála aðalatriðinu af öllu hjarta… ég er að fá leið á þessu.
Þegar ég segi VAR þá er ég líka að meina dómgæsla overall í enska. Hún er hræðileg og það sem pirrar mann gífurlega er að það er enginn ein lína sem dómarar fara eftir og í fyrsta skipti síðan ég byrjaði að fylgjast með enska grunar mann að það sé maðkur í mysunni.
Af hverju kemur þetta ekki á óvart ?
Trent og Bellingham frábærir vinir og Real að raka inn titlum eins og óðir menn.
Trent á 12 mánuði eftir á samning og við gætum misst hann á klink í sumar.
Af hverju er ekki löngu búið að semja við drenginn ?
Fabrizio Romano
@FabrizioRomano
??? Real Madrid are monitoring Trent Alexander-Arnold’s contract situation at Liverpool.
Current deal expires in June ’25 with no talks underway as of now.
Liverpool have not indicated any desire to sell at this stage.
There’s no indication of player’s views so far.
Eðlilegt að svona orðrómar fái byr þegar drengurinn er ekki búinn að semja.
Efast ekki um að það hafi farið fram samningaviðræður og þá er ansi líklegt að TAA sé tregur til að semja.
RM mögulega að plotta free transfer næsta sumar.
Conor Bradley hinn ungi er takk fyrir búinn að skora tvö mörk fyrir Norður-Írland í kvöld! Mikið væri gaman að sjá hann spila meira næsta vetur. En þá er náttúrulega spurningin með Trent…
Það er bara fínt að Shitty vann titilinn í staðin fyrir nallanna, þá fá fleiri að reyna þetta rugl sem við erum búnir að berjast við síðustu ár.
PL er á góðri leið í ræsið. Ég verð að segja að European Super League hljómar alltaf betur og betur. Ef PL er ófært að taka á svona svindlmálum þá er ekkert verra að skreppa og sjá okkar menn spila í Milano, Amsterdam eða Munchen frekar en skítapleisum eins og Nottingham eða Bournmouth
Er að horfa á Ungverjaland – Sviss. Held að Szoboszlai hljóti að vera að dragnast með einhver meiðsli. Hann er alls ekki í góðu formi, ekki frekar en hann hefur verið allt þetta ár.
í raun hefur Szobo lítið sýnt síðan Ungverjar tryggðu sig inná EM, a.m.k. miðað við hvernig hann byrjaði síðasta tímabil.
Já, hann byrjaði nefnilega svo vel. En hann kom náttúrulega úr þýska boltanum og var vanur mánaðar vetrarfríi, sem er ekki í ensku úrvalsdeildinni. Þar held ég að vandamálið hafi byrjað. Hvort sem það var skortur á hvíld, ofreynsla eða þá meiðsli.