City mæta á Anfield

Opinber liðsmynd fyrir tímabilið 2024-2025

Jújú börnin mín, þó það sé landsleikjahlé, þá verður samt spilað á Anfield sunnudaginn 13. október, og andstæðingarnir verða Manchester City. Það verða stelpurnar okkar sem mæta þeim í fyrsta leiknum á Anfield á þessari leiktíð, en ekki þeim síðasta því það hefur verið tilkynnt að leikirnir verði þrír í heildina: fyrir utan þennan þá spilar liðið gegn United og Everton. Hingað til hefur kvennaliðið eingöngu spilað einn leik á tímabili á Anfield – og þá eingöngu þegar liðið var í efstu deild – og alltaf gegn Everton hingað til. Það er því verið að brjóta blað með þessum leik.

Annað blað sem vel mætti brjóta er að liðið á enn eftir að vinna á Anfield og reyndar hefur liðið ekki enn skorað (eða jú, Missy Bo skoraði gegn Everton á síðasta tímabili, en markið var ranglega dæmt af vegna meintrar rangstöðu). Það væri alveg tilvalið ef stelpunum okkar tekst að afnema þá hefð. Það hefur lítið verið gefið uppi um miðasölu á leikinn, síðustu tveir leikir á Anfield voru með 20 – 30 þúsund áhorfendur, en kannski ekki skrýtið ef það mæta eitthvað færri áhorfendur í þetta skiptið.

Liðin koma inn í leikinn á ansi misjöfnum stað hvað varðar leikjaálag og stöðuna á hópnum. City voru að spila í meistaradeildinni í miðri viku og gerðu sér lítið fyrir og unnu Barcelona 2-0 á heimavelli. Það má alveg biðja um að það sitji smá þreyta í þeim eftir þann leik, en því miður er það stutt liðið af tímabilinu að líklega er engin þreyta farin að hreiðra um sig hjá leikmönnum, þrátt fyrir fleiri en einn leik í viku. Nú þar fyrir utan þá eru City konur í 2. sæti deildarinnar með 7 stig eftir 3 leiki. Okkar konur koma hins vegar inn í leikinn í 5. sæti deildarinnar (í augnablikinu) með 5 stig eftir að hafa unnið Spurs 2-3 á útivelli fyrir viku síðan, þar var um ákveðinn Phyrrusar sigur að ræða þar sem Sofie Lundgaard sleit krossbönd eftir hálftíma leik og verður þar með líklega frá út tímabilið. Þar sem Ceri Holland gat ekki spilað þann leik vegna meiðsla og er enn frá, þá verður miðjan með alþynnsta lagi í þessum leik. Reyndar er það svo að Fuka Nagano og Marie Höbinger eru einu “senior” miðjumennirnir sem eru heilir og leikfærir. Matt Beard er reyndar búinn að kalla Maddy Duffy úr unglingaliðinu inn í hópinn, og ekki ólíklegt að við sjáum hana á bekk, en undirritaður ætlar að veðja á að það verði farið í 3-4-3 í ljósi stöðunnar. En það kemur allt í ljós á morgun kl. 13, og þá uppfærum við færsluna með liðsuppstillingunni.

Leikurinn hefst kl. 14:00 að íslenskum tíma og það lítur allt út fyrir að hann verði sýndur á YouTube.

Það er erfitt að spá fyrir um úrslit leiksins. Okkar konur voru í vandræðum með City á síðustu leiktíð – þetta var reyndar eina “stórliðið” sem stelpurnar okkar unnu aldrei á þeirri leiktíð því þeim tókst að skella öllum hinum liðunum (Chelsea, Arsenal, United) á einhverjum tímapunkti. Þar fyrir utan þá hjálpa meiðslavandræðin á miðjunni alls ekki. En spáum því að þetta endi með 1-1 jafntefli þar sem Olivia Smith skorar mark okkar kvenna (Andrew Beasley hefur aðeins skrifað um tölfræðina hjá henni í fyrstu þrem leikjunum og spáir að hún eigi eftir að ná langt).


UPPFÆRT: svona er stillt upp, og jújú þetta lítur út fyrir að vera 3-4-3 þó það eigi eftir að koma í ljós hvernig Höbinger gangi að vera í tvöföldu sexunni við hlið Nagano:

Laws

Clark – Bonner – Matthews

Parry – Höbinger – Nagano – Hinds

Smith – Roman Haug – Kapocs

Bekkur: Evans, Fahey, Silcock, Matthews, Duffy, Enderby, Kiernan

Aftur er enginn markvörður á bekk, Teagan Micah greinilega ekki enn orðin leikfær. Þá verður Matt Beard ekki heldur á hliðarlínunni þar sem hann krækti sér í einhverja flensu, svo það verða Amber Whiteley og Scott Rogers sem stýra liðinu í dag. Þau verða nú samt örugglega með Beard í beinni.

Engin Vivianne Miedema í hóp hjá City, en ógnarsterkt lið engu að síður hjá þeim; fyrrum púlarar Alex Greenwood (í byrjunarliði) og Laura Coombs (á bekk) og svo fullt af öðrum öflugum leikmönnum, en okkur er í sjálfu sér drullusama um hverjir andstæðingarnir eru, við viljum bara ná í sem best úrslit.

KOMA SVO!!!

3 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. 1-0 í hálfleik, og það var Olivia Smith sem opnaði markareikning Liverpool Women á Anfield með glæsilegu skoti vel fyrir utan teig! Liðið búið að virka mjög þétt varnarlega, ekkert annað að gera en að halda því áfram í síðari hálfleik.

  2. Auðvitað þurfti svo Bunny Shaw að setja annað mark í uppbótartíma, og leikurinn endaði 1-2 fyrir City. Liðið er þó búið að brjóta ísinn þegar kemur að markaskorun á Anfield, en við látum þá bara fyrsta sigurinn á Anfield koma gegn United eða Everton eða bara bæði.

    2

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

KOP Penni gefur út bók

Gullkastið – Þyngra prógramm