Það er tvöfaldur leikdagur í dag, og í báðum tilfellum eru liðin okkar að spila á heimavelli gegn liðum frá Lundúnum. Strákarnir okkar taka á móti Chelsea kl. 15:30 á Anfield (sjá upphitunina frá Eyþóri síðan í gærkvöld), en í millitíðinni ætla stelpurnar okkar að mæta á St. Helens völlinn kl. 13:00 og mæta þar Crystal Palace.
Það er enginn óskapa munur á þessum tveim liðum í töflunni, enda skammt liðið á tímabilið. Okkar konur með 5 stig í 5. sæti, en Palace í 8. sæti með 3 stig. Þessi 3 stig fengu þær með sigri á Leicester, en hafa tapað hinum 3 leikjunum gegn Spurs, Chelsea og Brighton. Við munum mæta tveim “góðkunningjum” Liverpool í þessum leik, því með þeim spilar núna Katie nokkur Stengel – sem var jú aðalmarkaskorari Liverpool þar til Sophie Roman Haug kom til sögunnar – og hins vegar er innan þeirra herbúða Annabel Blanchard sem er uppalin í akademíu Liverpool í sama árgangi og Missy Bo Kearns. Hún náði held ég aldrei að spila fyrir aðallið Liverpool á sínum tíma. Hún skoraði bæði mörk Palace í sigurleiknum gegn Leicester, og er því orðin einn mikilvægasti leikmaður Lundúnaliðsins.
Okkar konur mæta aftur svolítið lemstraðar inn í þennan leik. Enn og aftur er aðeins einn heill markmaður í hópnum, en í leiknum gegn City um síðustu helgi var greinilega búið að undirbúa að Yana Daniels gæti komið inn í markið þar sem það var markmannstreyja með hennar nafni tilbúin og var dregin fram þegar Laws meiddist seint í leiknum. Nú svo þurfti Sophie Roman Haug sömuleiðis að meiðast eitthvað og verður frá í dag, rétt eins og nafna hennar Lundgaard. Á hinn bóginn er Ceri Holland mætt til baka og byrjar á bekk, rétt eins og Grace Fisk sem var líklega besti varnarmaður liðsins á síðasta tímabili. Gott að sjá þær tvær aftur. Jafnframt er Olivia Smith leikfær og byrjar, og er það vel.
En svona ætlar Matt Beard að stilla upp:
Matthews – Bonner – Evans
Parry – Nagano – Höbinger – Hinds
Smith – Enderby – Kapocs
Bekkur: Daniels, Fahey, Fisk, Silcock, Clark, Holland, Duffy, Kiernan
Maddy Duffy er annan leikinn í röð á bekk, ólíklegt svosem að henni verði hent út í djúpu laugina, en gaman að sjá akademíuleikmenn á skýrslu engu að síður.
Leikurinn verður sýndur á Youtube eins og venjulega.
Krækjum nú í 3 stig (og 6 stig í dag takk!).
KOMA SVO!!!!!
Staðan er 1-1 í hálfleik, það var að sjálfsögðu Katie Stengel sem opnaði markareikning sinn hjá Palace með því að pota inn einu, en Cornelia Kapocs jafnaði með góðu vinstrifótarskoti og skoraði þar með sitt annað mark fyrir Liverpool.
Lokatölur 1-1. Liðið VERÐUR að fara að klára þessa leiki ef það ætlar sér að vera í toppbaráttunni. Jújú, alveg hægt að gefa smá slaka vegna meiðsla, en það er hellings vinna framundan hjá Matt Beard og co.