Stelpurnar mæta Chelsea

Það er komið að næsta leik hjá stelpunum okkar, og það verður alvöru áskorun í dag því meistarar Chelsea mæta á St. Helens núna kl. 12:30 í dag. Áskorunin er alvöru vegna þess að Chelsea hafa ekki tapað stigum það sem af er tímabili, og greinilegt að brotthvarf Emmu Hayes hefur að mörgu leyti verið svipuð og brotthvarf Jürgen Klopp, þ.e. það er nýr stjóri í brúnni – Sonia Bompastor sem kom frá Lyon – sem er að gera jafn vel ef ekki bara betur. Eini munurinn er sá að Chelsea eru ekki í efsta sæti deildarinnar, en þar spilar inn í að leik þeirra gegn United var frestað fyrr í haust, svo þær eru bara búnar að spila 5 leiki og eru með fullt hús stiga, þ.e. 15 stig, en City eru búnar að spila 7 leiki og eru með 19 stig eftir að hafa gert eitt jafntefli.

Okkar konur eru hins vegar um miðja deild, og ljóst að liðið er búið að gera óþarflega mörg jafntefli í leikjum sem hefðu átt að vinnast.

Það er jafnframt ennþá þannig að liðið mætir svolítið laskað í leikina. Í dag vantar t.d. bæði Sophie Roman Haug og Fuka Nagano, nú svo eru þær Lucy Parry og Sofie Lundgaard jafnframt frá. Það lítur því út fyrir að Jasmine Matthews muni taka að sér að spila í sexunni í dag, a.m.k. miðað við uppstillinguna:

Laws

Fisk – Clark – Bonner – Evans – Hinds

Höbinger – Matthews – Holland

Smith – Kiernan

Bekkur: Micah, Spencer, Silcock, Fahey, Daniels, Shaw, Kapocs, Enderby

Þær Eva Spencer og Zara Shaw eru mættar til baka eftir landsliðsverkefni með U17 og eru báðar á bekk í dag. Shaw í raun eini eiginlegi miðjumaðurinn sem er tiltækur til að skipta inná, jafnvel þó svo að Hannah Silcock hafi reyndar komið aðeins inn á miðjuna undir lokin í síðasta leik. Leanne Kiernan fær aftur traustið í byrjunarliði eftir flotta frammistöðu gegn Villa um síðustu helgi þar sem hún átti stoðsendingu, en Kapocs og Enderby koma nánast örugglega inná í seinni hálfleik.

Kop.is átti ágætan hóp sem var á Anfield í gærkvöldi, og það er séns að við sjáum hluta þess hóps á pöllunum í dag, það er þó óstaðfest (spurning hvernig gangi að vakna…)

Leikurinn verður sýndur á Youtube rás deildarinnar samkvæmt venju.

KOMA SVO!!!!!!!

Liverpool 2-0 Aston Villa

Er Coote mögulega ekki hlutlaus?