Í æsku beið maður eftir því að jólin kæmu, en núna á fullorðinsárum þá hefur í staðinn tekið við biðin eftir því að landsleikjahléum ljúki. Og viti menn: síðasta hléinu á árinu er lokið! Næsta hlé er í mars, en í augnablikinu er mars í órafjarlægð frá okkur.
Góðar fréttir fyrir okkur áhangendur, en þetta þýðir auðvitað slatta leikjaálag fyrir leikmennina sjálfa. Það er útlit fyrir það að okkar menn muni núna spila á 3-4ra daga fresti næstu tvo mánuðina eða rúmlega það. Einu undantekningarnar eru bilin á milli leikjanna við West Ham þann 29. des og svo gegn United á Anfield 5. janúar annars vegar, og svo kemur 9 daga bil þangað til okkar menn heimsækja Forest. En inn í þessi bil geta bikarleikir vel ratað, svo mögulega fá okkar menn fyrst einhverja smá hvíld á tímabilinu 1. feb – 15. feb. Meira að segja það er ekki tryggt, því ef þeir ætla að fá einhverja hvíld þar þá verða þeir líka að lenda í einu af 8 fyrstu sætunum í CL deildinni sem nú er í gangi. Semsagt, nóg af leikjum framundan, og nóg af tækifærum fyrir leikmenn til að meiðast.
Andstæðingarnir
Um tengsl Liverpool og Southampton þarf ekki mikið að ræða, enda liggur við að það sé sérstök lestarlína á milli fyrir leikmennina sem koma frá Southampton til Liverpool (aðeins minna um að þeir fari í hina áttina). Clyne, Lallana, Lovren, Mané, van Dijk… bara svo nokkrir séu nefndir.
Suðurstrandarliðið kom upp í úrvalsdeildina í vor en hafa kannski ekki verið að setja nein met í stigasöfnun það sem af er. Niðurstaðan það sem af er eru 4 stig í sarpinn, einn sigur í deild og það var meira að segja bara í síðustu umferð gegn Everton. Þar fyrir utan gerðu þeir 1-1 jafntefli við Ipswich á heimavelli.
Meiðslalistinn þeirra er ekkert nálægt því sem við höfum mátt búa við á köflum, en það gæti samt alveg munað um Aaron Ramsdale og Jan Bednarek sem verða líklega báðir frá á morgun. Er gott fyrir okkur að Ramsdale verði ekki í markinu? Það er góð spurning, við erum nú svosem vön því að nánast allir markverðir andstæðinganna sæki innblástur frá Buffon, Dino Zoff og Lev Yashin í leikjum gegn okkar mönnum, en falli svo í meðalmennsku strax í næsta leik á eftir. Búum okkur a.m.k. undir að sú verði raunin í þessum leik, en það eru líkur á að Alex McCarthy verði í marki hjá þeim í þetta skiptið.
Okkar menn
Eins og gengur voru allnokkrir Liverpool leikmenn á ferð og flugi í landsleikjahléinu, en sem betur fer virðist enginn þeirra hafa meiðst á meðan á því stóð. Nokkrir þeirra leikmanna sem voru meiddir eru nálægt því að koma til baka, þá sérstaklega Alisson, Trent og Elliott. Undirritaður á þó ekki von á því að sjá neinn þeirra í byrjunarliði á morgun, möööööögulega verður einhver þeirra á bekk. Það er einfaldlega engin ástæða til að henda Alisson t.d. of snemma út í harkið, ekki miðað við hvernig Kelleher (sem á afmæli í dag!) hefur verið að standa sig. Eins er ekkert að því að láta Bradley byrja þennan leik, og eiga þá Gomez inni. Jota og Chiesa verða enn frá um sinn, ég efast um að við sjáum þá gegn City um næstu helgi, en vonandi ekki mikið seinna en í leiknum þar á eftir gegn Newcastle.
Suður-Ameríkumennirnir verða sjálfsagt allir pínku lúnir eftir ferðalögin í vikunni, og það væri gott að hlífa þeim eins og hægt er, en líklega verður þó a.m.k. einn þeirra að byrja.
Við skulum því giska á þessa uppstillingu:
Bradley – Konate – Virgil – Tsimikas
Gravenberch – Jones
Salah – Szoboszlai – Gakpo
Nunez
Það hvort Kostas eða Robbo byrji er alveg 50-50, þar gæti spilað inn í hvorn þeirra Slot ætlar að byrja með í miðri viku gegn Real. Eins gætum við alveg séð Díaz í níunni í stað Nunez, velur aðeins á því hvernig flugþreytan hefur leikið þá.
Auðvitað er þetta ekkert annað en skyldusigur. Liverpool er í 1. sæti, Southampton í því 20. En við vitum vel að ef menn labba inn á völlinn og halda að það þurfi ekkert að hafa fyrir hlutunum, þá fer illa. Vonandi nær Slot að mótívera okkar menn til að koma í veg fyrir að menn ofmetnist.
Svo gæti verið gaman að sjá einhverja kjúklinga á bekknum. Á æfingum í vikunni hjá aðalliðinu sáust andlit eins og Jayden Danns, Rio Ngumoha og fleiri, en reyndar er lang líklegast að þeim verði hlíft í þessum leik og að við gætum hugsanlega séð einhvern þeirra dúkka upp í leiknum 18. desember í bikarnum – en sá leikur er einmitt líka gegn Southampton.
Að venju þá biður maður bara um þrennt:
1. 3 stig
2. Leikmenn sleppi við meiðsli
3. Halda hreinu
og þá fyrst og fremst atriði nr. 1 og 2.
Til vara þá væri gaman að sjá hagstæð úrslit í leikjum dagsins í dag, þá sérstaklega í leiknum 17:30, en auðvitað þurfa okkar menn bara að hugsa um sjálfa sig, sína frammistöðu, og að standa sig í næsta leik. Allt annað er bara bónus.
KOMA SVO!!!
Allavega góð byrjun á shitty leiknum. 🙂
Hvað er að gerast hjá City!?
Fjandinn hafi það, getur einn maður skift svona miklu mali, er manc bara miðlungslið an Rodri.
YNWA
Óskiljanlegt þetta hrun hjá þeim
Hrun, en samt í öðru sæti. Tottenham voru líka rosalegir. Mikið væri gaman að ná í öll stigin á morgun.
Klopp hlýtur að vera brjálaður og spyrja sig hversvegna gerðist þetta aldrei í minni tíð. Ótrúlegt hrun hjá City, Guardiola vantar greinilega samkeppnishvatan frá Klopp.
Mesta hrun City og Pep frá upphafi að verða staðfest. Pep hefur aldrei tapað 5 í röð
Já, varaplanið er að ganga upp. City spilar í þunglyndislegum takti, hægir, þreyttir og vonlausir eitthvað. Getur veirð að það muni svona óskaplega mikið um eitt stk. Rodri að liðið hrynji eins og spilaborg? Er það öll snilldin hjá Pep?
Nú vonar maður að Frísneska skynsemin mæti til leiks á morgun. Ekki missa haus. Ekki missa haus. Skila þremur stigum og engin meiðsli.
Satt er það mæta með yfirvegun en ekki vanmat að vopni.
Slátrun hjá Tottenham
Ja hérna hér!!!
Laugardagsnammið í boði Kulusevski og Maddison! Ég held að ég fái mér annan mola…
Guardiola klókur að krækja sér í samning núna. Mun taka með sér feitan pening þegar City reka hann.
Gaman að sjá City gera upp á bak.
En þetta er sennilega ekki gott fyrir okkar menn. Munum mæta mjög særðu dýri og ég sé City því miður ekki tapa 4 deildarleikjum í röð. Þannig hættan er sú að hlutir fari að spilast upp í hendur á Arsenal.
Vonum að okkar menn standist raunina næstu helgi.
En til að byrja með skildusigur á morgun!
*skyldusigur
Bull. Þessi úrslit eru að öllu leyti frábær fyrir okkar menn.
Já, þetta er algjört bull.
nefnilega, sé ekki hvernig þetta ljósbláa lið á að sigra á Anfield.
Menn geta talað um sært dýr og að þeir tapi ekki svona mörgum leikjum í röð, en stóra vandamálið er það að þeir hafa ekki sýnt sannfærandi frammistöðu í deildinni síðan í ágúst.
Vissulega unnu þeir eins marks sigur gegn Southampton, Brentford, Wolves og Fulham. Engin af þeim frammistöðu getur talist sannfærandi og oft höfðu þeir heppnina með sér.
Ekki gott?? Uuu jú!
Við klárum leikinn á morgun 1-4 og þeir koma skíthræddir á Anfield! Held að það sé einmitt ekki betri tímapunktur að mæta þeim. Grátandi og lafhræddir með ekkert plan
Ef mögulegt ÁTTA STIGA FORSKOT á næsta lið hvetur menn ekki til dáða, þá veit ég ekki hvað þarf til. nú vona ég bara að City vinni meistaradeildarleik í vikunni, því líkurnar eru litlar á 7 leikjum í röð án sigurs!
Treystum á að óþreyttur Salah skori í bæði mörkin á vellinum og Diaz klári dæmið 0-3.
Mér finnst að Curtis Jones ætti að smella marki um næstu helgi. Hann er búinn að vera líklegur undanfarið.
City ríða sér á slig
safna döprum leikum
Áfram sækjum 8 stig
ofar þessum shjeikum
Koma svo.
YNWA
Það væri rosalegt ef við sigrum á morgun og næðum 8 stiga forskoti á city fyrir desember, og svo mæta þeir á Anfield í næstu umferð þar sem búast má við alvöru slag.
En sammála með byrjunarliðið þó væri ég til í að sjá Diaz fremstan og Gakpo á kantinum og ef Nunez byrjar þá vonandi er hann klár í þetta og fer að koma sér í skotskónna.
Spái þessu 0-3 sigri okkar manna.
Lucho á kantinn á móti City. Kyle Walker er orðinn lappalaus.
Það hefur nú oft reynst vafasamt að ætla sér að telja eggin áður en þeim hefur verið verpt. Nú þarf að einbeita sér að þessum leik á morgun. Bilið yfir í City er 5 stig í augnablikinu, og það er bara alls engin trygging fyrir sigri á morgun. Okkar menn verða að hafa fyrir þeim þrem stigum eins og öllum öðrum. Ekki það að ég treysti leikmönnunum okkar alveg til að koma með þessi 3 stig í hús, en munurinn er ekkert orðinn 8 stig fyrr en þessi leikur hefur unnist.
Semsagt: hold your horses.
Ekki vanmeta Southampton, koma brjálaðir í leik. Má ekki vanmeta svona lið.
Hrákardallurinn í vandræðum,love it!
Frabær úrslit hjá spurs en við þurfum að hugsa um okkar leik og þrjú stig er allt sem skiptir máli á mæti southampton.
Ekki gott ef menn fara að horfa marga leiki fram í tímann. Leikurinn í dag er nákvæmlega sá leikur sem skiptir allra mestu máli akkúrat núna. Mæta grimmir og landa þrem stigum og við erum í frábærum málum. Varðandi city þá voru þeir teknir í bólinu í gær og tottenham virkilega flottir. En svo allrar sanngirni sé gætt þá var leikurinn líka svolítið stöngin út hjá city.
Þessa viku munu fjölmiðlar nánast bara fjalla um leikinn um næstu helgi sem einhvern úrslitaleik og þá sérstaklega fyrir city. Spennan verður gífurleg og stress þakið hátt og allt getur gerst enda tvö frábær lið að etja kappi. Við lækkum stessstuðulin hjá okkur með því að mæta ákveðnir til leiks í dag og sækja sannfærandi þrjú stig í dag.
YNWA
Stórt EF vissulega en EF við vinnum í dag og einnig eftir viku er forskotið á City orðið heil 11 stig! En enginn leikur er unninn fyrirfram og annar möguleiki er að þessi munur gæti farið í tvö stig ef þessir tveir leikir fara á versta veg. Stutt á milli feigs og ófeigs í þessu.
Sælir félagar
Takk fyrir upphitunina Daníel og þú fékkst ósk þína uppfyllta um útkomu lokaleiks sunnudagsins. En hvað sem ánægjulegum úrslitum hjá öðrum liðum líður þá er leikurinn í dag það sem skiptir máli nú um stundir. Svona leikur eftir landsleikjahlé getur verið bananahýði sem liðið getur skrikað á. Þó staða Southampton í deildinni sé slæm þá geta þeir alveg spilað fótbolta. Þeir munu berjast eins og ljón í þessum leik og hausinn verður að vera rétt skrúfaður á okkar menn. Það eina sem ég fer fram á er sigur í hunderfiðum leik og þá verða allir glaðir sérstaklega Pep og Arteta.
Það er nú þannig
YNWA