Eftir að hafa heimsótt West Ham konur í miðri viku og hafa unnið þann leik 5-0, þá er komið að heimaleik í deildinni, og núna er það hlutverk West Ham að setjast upp í rútu og heimsækja okkar konur, í leik sem hefst núna kl. 14.
Sigurinn í miðri viku var vissulega verðskuldaður, en það hve stór hann varð litast klárlega af þeirri staðreynd að andstæðingarnir misstu mann af velli rétt fyrir hálfleik og spiluðu því rúmlega heilan hálfleik einum færri. Við getum því lesið mismikið í þau úrslit, og ekki hægt að gera ráð fyrir auðveldum leik í dag.
Nýju leikmennirnir – Sam Kerr og Julia Bartel – hafa komið sterkar inn, en það er óneitanlega galli að þær skuli bara vera lánsmenn. Í fullkomnum heimi þá hefði félagið bara keypt þær, en það virðist ekki vera í boði. Þriðji lánsmaðurinn bættist svo við á föstudaginn þegar Alejandra Bernabé kom til félagsins, einnig frá Chelsea rétt eins og Julia Bartel. Hún er bakvörður að upplagi, og með því að bæta henni í hópinn er hugsanlega verið að viðurkenna að það að endurnýja ekki við Emmu Koivisto hafi verið mistök. Lucy Parry er vissulega ung og ekki bara efnileg eins og sást á markinu sem hún skoraði í vikunni, en hún er líka búin að vera að slást við meiðsli og vaxtarverki, og hefur því ekki verið áreiðanleg þegar kemur að því að stilla upp liðinu. Alejandra er þó ekki í hóp í dag, enda hefur hún í mesta lagi náð einni æfingu með hópnum.
Liðið sem Matt stillir upp í dag er að mestu leyti kunnuglegt:
Fisk – Clark – Evans
Parry – Höbinger – Kerr – Holland – Hinds
Kiernan – Smith
Bekkur: Laws, Bonner, Daniels, Bartel, Nagano, Shaw, Kapocs, Enderby, Roman Haug
Það kemur alveg smá á óvart að Gemma Evans sé valin fram fyrir nöfnu sína Bonner, og eins kemur líka aðeins á óvart að Fuka Nagano sé sett á bekkinn. En svo má líka segja að frammistaðan hjá Nagano gegn Leicester um síðustu helgi hafi ekki verið það góð, svo má líka alveg reikna með að leikjaálagið sé aðeins farið að spila þarna inn í. Vissulega spila stelpurnar mun færri leiki en strákarnir, en núna er þetta þriðji leikurinn á viku og þá má alveg fara að rótera aðeins. Þannig hefði maður líka alveg átt von á að sjá Roman Haug í byrjunarliði, en þar spilar sjálfsagt inn í að hún er nýkomin úr meiðslum og að Leanne Kiernan hefur verið að finna fjölina sína og á alveg skilið að byrja.
Leikinn má sjá á Youtube rás deildarinnar eins og áður.
KOMA SVO!!!!!
Leik lokið og 1-0 sigur staðreynd, eftir að Leanne Kiernan skoraði í fyrri hálfleik eftir góðan undirbúning frá Ceri Holland.
Nú er að bíða eftir leik City og Arsenal hjá strákunum, en þess má geta að sömu lið léku í kvennadeildinni í hádeginu á heimavelli City og þar voru það Arsenal konur sem unnu 3-4.