Stelpurnar mæta Palace

Það er búið að vera landsleikjahlé hjá stelpunum, en í dag snúa þær aftur og heimsækja Crystal Palace – botnliðið – kl. 14:00.

Stóru fréttirnar í kringum félagið eru þær að klúbburinn ákvað loksins að tími Matt Beard hjá félaginu væri liðinn, og hann var látinn fara frá félaginu. Það er því Amber Whiteley sem stýrir liðinu í dag, og þetta er í annað sinn sem hún færir sig tímabundið úr aðstoðarþjálfarastafinu því hún tók líka við þegar Vicky Jepson var látin fara á sínum tíma.

Það má velta fyrir sér ástæðum uppsagnarinnar, og að sumu leyti má segja að hann hafi kannski fengið ósanngjarna meðferð frá yfirstjórn félagsins. Því vissulega kom hann félaginu aftur upp í efstu deild, og náði þar að auki 4. sæti á síðasta tímabili. En svo hefur gengið snúist við á þessu tímabili, og liðið er núna í neðri helming deildarinnar. Ef leikstíllinn eins og hann var undir Matt hefði verið skemmtilegri þá væri maður líklega brjálaður. En vissulega var það þannig að oft lét liðið undan pressu andstæðinganna með því að spila til baka á markmann sem svo þrumaði boltanum upp völlinn. Vonandi kemur skemmtilegra upplegg í staðinn, hvort sem það kemur með Amber eða með nýjum stjóra sem klúbburinn hlýtur að vera að leita að og er vonandi með einhvern í sigtinu nú þegar.

Nóg um það. Svona stillir Amber upp liðinu sínu í sínum fyrsta leik:

Laws

Fisk – Bonner – Matthews – Hinds

Höbinger – Kerr – Holland

Smith – Roman Haug – Kapocs

Bekkur: Micah, Parry, Clark, Evans, Nagano, Shaw, Bartel, Daniels, Enderby

Leanne Kiernan meiddist eitthvað með landsliðinu og er því frá í dag, en manni heyrist að hún verði ekki frá lengi. Hannah Silcock er líka frá og lenti víst í einhverju bakslagi í sínum meiðslum. Þá er Jas Matthews komin til baka og fer beint í miðvarðarhlutverkið, en þær Yana Daniels hafa jú verið að spila nánast allar stöður vallarins.

Ceri Holland er að spila sinn 100. leik fyrir félagið, og gæti hægt og bítandi verið að spila sig inn í þann hóp sem á flesta leiki í efstu deild fyrir félagið. Vonum a.m.k. að þeir verði talsvert fleiri enda er hún ein sú öflugasta í liðinu.

Það er líka áhugavert að sjá hvaða leikmenn Amber er að velja, t.d. var Matt með Teagan Micah sem sinn aðalmarkvörð, en hún fer á bekkinn og Rachael Laws verður á milli stanganna í dag. Nokkuð ljóst að þetta er staða sem nýr stjóri mun örugglega horfa til þegar kemur að endurnýjun í sumar. Líka áhugavert að það á greinilega að byrja í 433 í dag, en ekki í 352 eins og Matt var langmest að nota.

Í liði Palace er að finna Annabel Blanchard sem kom úr akademíu Liverpool og var þar á sama tíma og Missy Bo. Katie Stengel er hins vegar ekki á skýrslu, sem er eins gott enda stórhættuleg. Væri alveg til í að hafa hana ennþá innanborðs í leikmannahóp Liverpool.

Nú svo spilar U21 liðið á sama tíma, við munum sjá nöfn þar eins og Harvey Davies, Nallo, Mabaya, McConnell, Nyoni, Kone-Doherty og Ngumoha í byrjunarliði – og Jay Spearing á bekk. Sá leikur verður sýndur á LFCTV.

Stelpurnar okkar verða svo sýndar á Youtube eins og venjulega, og eins og áður sagði þá hefst leikurinn kl. 14.

KOMA SVO!!!!

2 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Þetta byrjar a.m.k. vel hjá Amber Whiteley, 0-1 sigur staðreynd eftir mark frá Jasmine Matthews í byrjun leiks. Okkar konur áttu svo hættulegri færi og 0-3 hefðu líklega verið sanngjörn úrslit, en ég hefði samt viljað sjá stærri sigur en 0-1.

    Næsti leikur er svo á sunnudag eftir viku þegar þær heimsækja Arsenal í 8 liða úrslitum bikarsins.

    6

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Liverpool 2-0 Newcastle