Þá hefst næsti kafli hjá Liverpool í Meistaradeildinni þetta árið, það sem mörgum finnst skemmtilegustu leikirnir, Evrópukvöldin frægu sem hafa gefið okkur svo ótrúlegar minningar. Fyrsti mótherjinn þetta árið, í 16-liða úrslitum, er Paris Saint-Germain frá samnefndri borg, höfuðborg Frakklands. Árið 2018 fór Einar Matthías vel yfir stutta og skrýtna sögu félagsins í magnaðri upphitun fyrir Evrópuleikina gegn þeim það árið. Þar kom hann vel inn á…ja flest allt sem skiptir máli um þetta félag en að sama skapi nær hann að hafa af mér þá ánægju að skrifa ítarlega um eitt af (að mínu mati) eyðileggingaröflum fótboltans. Ekkert hefur breyst við þetta félag síðan þá nema að nú eru súperstjörnurnar þeirra, Messi, Neymar og Mbappe farnar veg allrar veraldar, sem betur fer fyrir knattspyrnuheiminn – og okkur stuðningsfólk Liverpool.
Þessi upphitun verður því meiri kynning á borginni – sem við Íslendingar þekkjum ansi vel – og leikmannahópnum sem við mætum í tveimur leikjum, auk þess sem við skoðum hvernig liðinu hefur vegnað á tímabilinu.
París
ChatGPT hefur þetta að segja um borgina:
Saga Parísar
París, höfuðborg Frakklands, hefur ríka og langa sögu sem spannar yfir tvö árþúsund. Borgin, sem er þekkt fyrir menningu sína, listir og áhrif sín í heiminum, hefur gengið í gegnum miklar breytingar frá stofnun hennar til dagsins í dag eins og flestar borgir Evrópu.
Saga Parísar hófst á 3. öld f.Kr. þegar keltneskur ættbálkur sem er nefndur Parisii, settist að á eyjunni Île de la Cité í Signuánni. Rómverjar lögðu svæðið undir sig um 52 f.Kr. og nefndu það Lutetia. Undir stjórn Rómverja var borgin skipulögð með götum, vatnsveitum, baðhúsum og hofum, en með tímanum fékk hún nafnið París.
Miðaldir: Þróun og styrking borgarinnar
Á miðöldum óx París hratt og varð miðstöð viðskipta og mennta. Karl mikli kom til borgarinnar á 9. öld, og á 10. öld varð hún höfuðborg Capetísku konungsættarinnar. Á þessum tíma hófst bygging Notre-Dame dómkirkjunnar (1163) og París varð þekkt fyrir háskóla sína, einkum Sorbonne sem var stofnaður á 13. öld. Borgin gegndi lykilhlutverki í Hundrað ára stríðinu (1337-1453) milli Englands og Frakklands og gekk í gegnum hörmungar svarta dauða og borgaralegrar ólgu. Á 16. og 17. öld var síðan mikil uppbygging og listköpun í París og borgin varð ein af þeim mikilvægustu á plánetunni. Loðvík XIII og Loðvík XIV gerðu borgina að glæsilegri höfuðborg, með hallir, garða og endurbætur á götum og skipulagi. Konungshirðin flutti til Versala (sem er rétt utan við borgina) á 17. öld, en París hélt áfram að vaxa sem menningar- og viðskiptamiðstöð en jafnframt því var mikil fátækt og sóðaskapur í fátækari hverfum borgarinnar.
Franska byltingin og Napóleonstíminn
Á 18. öld varð París miðpunktur upplýsingarinnar, þar sem hugsuðir eins og Voltaire og Rousseau mótuðu hugmyndir sem leiddu til Frönsku byltingarinnar (1789). París var líklega miðpunktur hennar þar sem fallöxin fræga lék stórt hlutverk og hausar aðalsmanna borgarinnar og landsins fengu að fjúka. Á Napóleonstímanum (1799-1815) var París enn á ný endurbætt, með nýjum götum, sigurboganum fræga og fjölda opinberra bygginga.
19. öld: Iðnbylting og umbreyting Haussmanns
Á 19. öld breyttist París í nútímalega stórborg undir stjórn Napóleons III og arkitektsins Georges-Eugène Haussmann. Gömlu, þröngu göturnar voru breikkaðar, stór breiðstræti og opin svæði voru gerð og vatnsveitur og ræsi endurbætt. Eiffelturninn var reistur fyrir Heimssýninguna 1889 og París varð einn af miðpunktum listalífsins í Evrópu.
20. öld: Stríð, uppbygging og nútímavæðing
Í báðum heimsstyrjöldunum var París miðpunktur átaka. Þýskar hersveitir hernámu borgina í seinni heimsstyrjöldinni (1940-1944) en hún var frelsuð af bandamönnum. Eftir stríðið óx París enn frekar með iðnaði, samgöngum og fjármálamiðstöðvum. Mai-óeirðirnar 1968 höfðu djúpstæð áhrif á samfélagið og hippasamfélagið var mjög virkt í borginni.
21. öld: Nútímaleg stórborg
Í dag er París ein helsta menningar-, viðskipta- og ferðamannaborg heims. Borgin er vettvangur mikilvægra viðburða á borð við Ólympíuleikana 2024 og auðvitað var fjöldi leikja á EM 2016 leikinn þar, m.a. leikir Íslands gegn Austurríki (vá) og gegn heimamönnum Frakka. Borgin heldur áfram að þróast með sjálfbærum samgöngum og nýjum arkitektúr. París er risastórt tákn fyrir sögu, menningu og nýsköpun og heldur áfram að vera hjarta Frakklands.
PSG
PSG er að sjálfsögðu á toppnum í deildinni, reyndar svipað og við, með 13 stiga forystu, og eru að fara að ganga frá henni. Síðan 2013, eða á síðustu 12 árum hafa þeir unnið deildina 10 sinnum. Þetta er verra en City á Englandi, orðum það bara þannig. Þeir rétt sluppu þó í gegnum riðlakeppni Meistaradeildarinnar, unnu m.a. 4-2 sigur á Man City í oil-derby. Þeir slátruðu síðan löndum sínum í Brest, alls 10-0 til að komast í leikinn gegn Liverpool. Ástæðan fyrir þessum óvænta stórleik í 16 liða úrslitum er því slakt gengi PSG framan af riðlakeppninni. Í fimm af síðustu átta 16-liða úrslitum hafa þeir hins vegar dottið út og við reiknum bara með því að sú bölvun þeirra haldi sér þetta árið. Í síðasta leik unnu þeir Hákon okkar og félaga í Lille, 4-1. Þeir eru ekki að kljást við nein meiðsli svo heitið geti.
Líklegt byrjunarlið þeirra er eitthvað á þessa leið – 4-3-3, spilað út og pressað að hætti nútímastjóra – Luis Enrique heitir stjórinn þeirra, spánverji sem margir muna eftir sem geysiöflugum miðjumanni.
Markvörður:
- Gianluigi Donnarumma – Ítalski landsliðsmarkvörðurinn er ansi góður, en mjög slappur í teignum – sem er furðulegt fyrir markmann af hans stærðargráðu. Hann hefur kannski ekki náð þeim hæðum sem búist var við af honum og vonandi á hann enga stórleiki gegn okkur.
Varnarmenn:
- Marquinhos – Brasilíski fyrirliðinn leiðir vörnina með reynslu sinni og leikskilningi. Leikur hundraðasta leik sinn í Meistaradeildinni.
- Lucas Hernández – Franskur landsliðsmaður sem styrkir vörnina eftir að hafa komið frá Bayern München.
- Achraf Hakimi – Marokkóskur bakvörður sem er þekktur fyrir hraða sinn og sóknarhæfileika á hægri kantinum.
- Nuno Mendes – Portúgalskur vinstri bakvörður sem er ungur og efnilegur en það verður sérstaklega gaman að sjá hann kljást við Mo Salah.
Miðjumenn:
- Vitinha – Portúgalski miðjumaðurinn hefur fest sig í sessi sem lykilleikmaður á miðjunni.
- Warren Zaïre-Emery – Ungur og efnilegur (18 ára) franskur miðjumaður sem hefur fengið aukið hlutverk á tímabilinu.
- Xavi Simons – Hollenskur landsliðsmaður sem er mjög teknískur og ógnandi sóknarlega.
Sóknarmenn:
- Ousmane Dembélé – Franski kantmaðurinn hefur verið í frábæru formi og er markahæstur hjá PSG með 26 mörk á tímabilinu.
- Gonçalo Ramos – Portúgalskur framherji sem hefur skorað reglulega og nýlega náð þrennu í 7-0 sigri gegn Stade Briochin í frönsku bikarkeppninni.
- Bradley Barcola – Franski sóknarmaðurinn hefur verið öflugur á kantinum og skoraði nýlega í 4-1 sigri gegn Lille.
Utan byrjunarliðs gætu verið leikmenn á borð við Kimpembe, Kvaratskhelia, William Pacho og Fabian Ruiz þótt sumir miðlar reikni með Ruiz og/eða Kvaratskhelia í byrjunarliðinu. Hann gekk til liðs við PSG í janúar. Það er ekki ólíklegt að Luis Enrique treysti á reynsluna hjá Ruiz frekar en ferskleika Emery sem reyndar er nýstiginn upp úr meiðslum. Eins að hann stíli inn á aðeins varnarsinnaðri uppstillingu en hann gerir vanalega í deildinni þar sem þeir eru alltaf með yfirburðalið.
Liverpool
Eftir 5 leikja törn á rúmlega tveimur vikum, þar sem Liverpool jók forystu sína í deildinni, fékk liðið loks langþráð “frí” um helgina, þökk sé Plymouth. Leikur gegn Man City á laugardaginn hefði dregið verulega úr sigurlíkunum í þessum leik.
Þessari fimm leikja törn lauk með öruggum 2-0 sigri á Newcastle síðastliðið miðvikudagskvöld og fréttirnar af hópnum eru góðar, enginn af þeim sem við myndum reikna með í eða við byrjunarlið eru að kljást við neitt. Meiðslalistinn er Joe Gomez, Conor Bradley og Tyler Morton. Gott hefði verið að hafa Gomez og Bradley til taks til að leysa af, en það verður græjað með Quansah. Meira álag á Konate og Trent, vonandi kemur það ekki að sök.
Liðið verður að öllum líkindum mjög svipað ef ekki það sama og gegn Newcastle, nema mögulega kemur Gakpo í sóknina. Persónulega finnst mér það ólíklegt þar sem Diaz hefur verið funheitur upp á síðkastið, þ.e. þegar hann fær að spila á kantinum. Það er því komið ansi skýrt byrjunarlið (fyrir utan Diaz og Gakpo) sem mér sýnist Slot ætli að spila eins mikið og hann fær séns á fram á vorið. Leikurinn á milli PSG leikjanna er gegn Southampton, líklegra að Nunez, Tsimikas, Jones, Elliot og slíkir fái sénsinn þar án þess þó að ætla að veikja liðið of mikið. Slot hefur þó sýnt að hann er ekkert mikið fyrir breytingar ef hann þarf þess ekki, en fókusum bara á þennan leik núna.
Þetta er hið ógnarsterka lið sem hefur unnið flestalla mótherja tímabilsins. Engin breyting verður á því í París á miðvikudagskvöldið, Liverpool mun sigra leikinn 1-2.
YNWA
Kannski er það afrek að vinna fronsku deildina ar eftir ar, en hvað meira og þa meina eg meistaradeild?
Astæðan fyrir þvi að við mætum þeim i 16 liða, er auðvitað su, þeir gerðu ekki goða keppni i forkeppnini, þeirri sem LFC var efst, en þeir frekar neðarlega af 9-24 liðum. Samt sem aður verður þetta engin labbitur i garðinum, en við vinnum 1-3.
YNWA
Eina sem hræðir mig fyrir þennan leik er hvíldin. Finnst það hafi verið eftir “pásur” að menn séu seinir að koma sér í gang. en fyrir utan það þá tökum við þetta á heimavellinum
Sælir félagar
Ég hefi nákvæmlega sömu áhyggjur og HelgiA hér fyrir ofan. Það hefur æði oft verið eins og það sé slen yfir okkar mönnum eftir góða hvíld. Vonandi verður ekki svo í hunderfiðum leik á móti PSG í kvöld. Sigur væri kærkominn en jafntefli alveg ásættanlegt.
Það er nú þannig
YNWA