Hverjir fara í sumar?

Ay, here we are with problems at the top of the league.” Líklega hefur gamla Bill Shankly línan aldrei átt eins vel við og á þessu tímabili. Liverpool er afgerandi á toppnum en á sama tíma er fyrirséð að töluverðar breytingar verði gerðar á hópnum í sumar.

Hópurinn er alveg nægjanlega stór og fyrir hvern lykilmann sem kemur í sumar er mjög líklegt að a.m.k. einn fari frá félaginu í staðin. Arne Slot og Richard Hughes hafa sannarlega flýtt sér hægt við að setja sitt handbragð á leikmannahópinn og hafa væntanlega lært það sem þeir þurfa á þessu tímabili.

Slot þarf klárlega fleiri leikmenn sem hann treystir á næsta tímabili ef liðið ætlar langt í fleiri en einni keppni. Skoðum hverjir eru líklegir til að fara í sumar og hvað gæti komið í staðin.

Sóknarlínan

Liverpool er búið að skora fjórtán mörkum meira en næstu lið fyrir neðan í deildinni. Mesta breiddin í liðinu er í sóknarlínunni og allir framherjar liðsins eru leikmenn sem geta unnið leiki upp á sínar eigin spítur. Engu að síður er tilfinningin sú að þeir mættu allir fara í sumar fyrir réttan valkost í staðin nema auðvitað Mo Salah, eini af þeim sem er að renna út á samningi.

Salah er stóra breytan hér, ef að hann fer núna í sumar þarf að fylla í risastórt skarð sem erfitt er að sjá neinn af núverandi leikmönnum fara nálægt því að fylla. Mörkin þurfa þá að koma frá fleiri leikmönnum og það þarf ekkert endilega að vera slæmt. Hvort sem það verði í sumar eða ekki þarf Liverpool að fara finna arftaka Salah því hann er líka að komast á aldur.

Diogo Jota er 28 ára og hefur skorað fimm mörk í deildinni í vetur, hann hefur spilað ígildi tæplega 10 leikja sem er normið hjá honum sem leikmaður Liverpool. Hann hefur oft verið rosalega lengi í gang eftir meiðsli en frammistöður hans núna undanfarið eru þó liklega nálægt botninum á hans ferli hjá Liverpool. Þarna er sannarlega hægt að styrkja hópinn töluvert með traustari leikmanni.

Darwin Nunez hlýtur líka að fara í sumar, þessi tilraun er bara ekki að ganga og líklega er hann ennþá ágætlega söluvæn vara. Nunez er líka búinn að skora fimm mörk og með mínútur í deild sem samanlagt eru rétt rúmlega 10 leikir. Þetta er leikmaður sem ætti að skora 30 mörk núna og vera búinn að taka við keflinu af Salah eða a.m.k gera tilkall til þess.

Nunez og Jota virðast bara ekki passa í leikstíl Slot. Kannski er það vegna þess að Salah er svo afgerandi og leikur liðsins snýst í kringum hann, allavega virðist hann mun frekar vera að leita að nýjum Bobby Firmino frekar en afgerandi níu.

Luis Diaz er með 9 mörk í deildinni sem er sæmilegt en hann hefur verið rosalega heitur/kaldur í vetur og virkar blessaður sem töluvert ódýrari útgáfa af Sadio Mané. Það hefur ekkert gengið að gera níu úr honum, ekki frekar en með Gakpo í fyrra. Alls ekkert forgangsverkefni að selja Diaz en ekki ólíklegt að hann sé falur fyrir rétt verð. Sá sem kaupir hans þarf samt að vera skuldbundinn þannig að hann tekur pabba hans með líka.

Cody Gakpo er nánast eini sóknarmaðurinn sem maður getur verið nokkuð viss um að verði áfram á næsta tímabili. Ekki það að hann hefur skorað færri mörk og spilað mun minna en Diaz í vetur.

Chiesa er svo enn einn sem gæti vel farið í sumar, hann er búinn að spila heilar 25 mínútur í deildinni í vetur og augljóslega ekki í plönum Slot. Var FSG að kaupa hann á 10m til að geta selt aftur á 25-30m?

Ben Doak hlítur að vera einn af þeim sem kemur inn í hópinn næsta vetur ef 2-4 af núverandi sóknarmönnum fara. Hann hefði satt að segja vel getað verið hjá Liverpool í vetur í stað þess að fá inn Chisea.

Eins er spurning hvað verður úr hinum 19 ára Jayden Danns, hann er að eiga hræðilegt tímabil núna vegna meiðsla eftir frábæra innkomu á síðasta tímabili.

Spá: Salah framlengir við Liverpool, Darwin, Diaz og Chisea fara og í staðin kemur einn leikmaður í sóknina auk Ben Doak.

Miðjan

MacAllister, Szoboszlai og Gravenberch komu allir í sama glugganum og eru allir búnir að festa sig afgerandi vel í sessi. Engin af þeim er heldur að verða tæpur á samningi. Curtis Jones er mjög líklega ekkert að fara heldur og ólíklegt að Harvey Elliott sé það heldur þó Slot hafi ákaflega lítið treyst honum í vetur. Elliott er með 120 mínútur í deildinni í vetur sem er ótrúleg notkun á einu mesta efni félagsins.

Wataru Endo fær sömuleiðis lítið sem ekkert traust frjá þjálfaranum í deildinni sem spilar Gravenberch frekar á sjúkrahús en að treysta Endo í byrjunarliði. Tyler Morton er annar sem er að eiga ömurlegt tímabil. Hann hefur verið mikið meiddur og er alls ekki í neinum plönum hjá Liverpool. Sorglegt fyrir hann 22 ára taka eitt tímabil án þess að spila leik eftir að hafa tekið tvö mjög öflug ár í Championship deildinni. Maður myndi ætla að það sé hægt að sameina Endo og Morton í einn góðan miðjumann sem Slot actually treystir og getur notað til að dreifa álagi betur með hinum miðjumönnum liðsins.

Hér þarf samt líka að hafa í huga að nýr leikmaður gæti hindrað leikmenn eins og James McConnell eða Trey Nyoni. Ef að Slot var alvara um McConnell ætti hann að vilja nota hann eitthvað á næstu árum. Eins er spurning hvernig félagið ætlar að nota hinn 17 ára Nyoni. Hann verður ekki hjá Liverpool endalaust ef hann sér ekki leið inn í aðalliðshópinn.

Spá: Vonandi ekki enn einn Monitoring FC sumarið þar sem Liverpool er orðað við alla bestu miðjumenn í heimi en enda svo tómhentir eða með aldraðan leikmann á hrakvirði frá meginlandi Evrópu. Klárum einn í þessum Zubimendi klassa, t.d. leikmann eins og Baleba frá Brighton. Tyler Morton verður sá eini sem fer. 

Miðverðir

Van Dijk bara má ekki fara í sumar, það er nánast óhugsandi og galið að félagið sé ekki búið að klára samning við hann. Þegar hann fer verður líklega skarð í vörninni sem tekur áratugi að fylla.

Konate er líka að verða áhyggjuefni, hann á í sumar eitt ár eftir af samningi og ef illa gengur að semja við hann þarf félagið að skoða það alvarlega að selja hann og fá inna annan mann í staðin. Konate er algjörlega í Joe Gomez flokki miðvarða frekar en Van Dijk og alveg spurning með tilliti til sögu hans hvort ekki sé rétt að fá inn annan og traustari leikmann?

Árið 2021-22 spilaði hann 11 leiki í deildinni, árið 2022-23 spilaði Konate 17 leiki, hann spilaði líka 17 deildarleiki á síðasta tímabili og er að bæta sín eigin met allverulega í vetur með að vera búinn að spila 23 deildarleiki núna (og var auðvitað að meiðast). Þannig að hann hefur núna á sínu allra besta móti misst úr 6 leiki af 29 leikjum.

Joe Gomez þarf svo að vera fimmti valkostur eða meira sem miðvörður og þriðji valkostur sem bakvörður. Það er því miður bara alls ekki hægt að treysta hans líkama og mjög þreytandi að leggja upp í hvert tímabilið á fætur öðru með slíka leikmenn

Jarrell Quansah hefur byrjað tvo deildarleiki og komið inná í átta deildarleikjum. Hann er ennþá mikið efni og vonandi framtíðar miðvörður Liverpool en ég er ekki viss um að hann sé klár í það hlutverk strax. Hann er samt sá eini sem maður sé alls ekki fyrir sér fara í sumar.

Þessi staða var mjög tæp fyrir tímabilið og það hefur lítið breyst á þessu tímabili. Það vantar klárlega einn heimsklassa miðvörð og mögulega tvo fyrir næsta tímabil.

Spá: Enginn af þeim fer en við bætum við einum alvöru miðverði sem vonandi verður framtíðar arftaki Van Dijk. 

Bakverðir

Fyrir ári síðan fannst manni framtíð Liverpool tryggð hægra megin með Trent og Conor Bradley, núna virðist nokkuð ljóst að Trent er að fara á frjálsri sölu og Bradley virðist víðsfjarri því að hafa líkama í að taka við af honum. Auðvitað vill maður halda báðum en fari svo að Trent sé farinn þarf að kaupa nýjan hægri bakvörð.

Vinstra megin var ágætlega augljóst fyrir tímabil að tími væri komin á breytingar og það á við ennþá. Liverpool þarf að kveðja Tsimikas og fá inn leikmann sem tekur stöðuna af Robertson, hvort sem það verði strax eða hægt og rólega á næsta tímabili.

Spá: Liverpool kaupin inn tvo byrjunarliðs bakverði. Trent og Tsimikas fara. Óttast samt að ef Trent fer að ekkert verði gert vinstra megin og bara keypt nýjan hægri bakvörð. 

Markverðir

Skarð Alisson verður líklega engu minna en Van Dijk þegar hans tíma hjá Liverpool líkur.

Spá Ef að Mamardashvili er sannarlega að koma í sumar og Alisson ekki að fara þá er nokkuð ljóst að Kelleher sé farinn. Eins held ég að þá verði Mamardashvili að sætta sig að vera varamarkmaður eitt tímabil. 

Að lokum

Það er nokkuð auðveldlega hægt að sjá fyrir sér að 6-8 leikmenn fari í sumar og inn komi 4-5 nýir leikmenn auk þess sem ungir leikmenn fylli upp í eitthvað af þessum skörðum. Endurkoma Edwards til Liverpool og ráðning Richard Hughes benda til að Liverpool er alls ekki að fara kaupa Alexander Isak eða álíka tilbúin nöfn nema í algjörum undantekningar tilvikum, þetta verði meira í anda leikmannakaupa Bournemouth undanfarið og Liverpool áður.

Liverpool má alveg missa af augljósa valkostinum sem allir eru að öskra á að fá ef að mótleikurinn er gluggi eins og sá sem skilaði okkur MacAllister, Szoboszlai og Gravenberch. Eins má Hughes halda áfram með leikmannakaup eins og skilaði Bournemouth leikmönnum eins og Kerkez og Huijsen. Hlutfall heppnaðra leikmannakaupa í tíð Klopp og Edwards var ótrúlega gott þó oft hafi þau ekki virkað sem mest spennandi valkosturinn fyrirfram. Vonandi fáum við að sjá eitthvað svipað úr samvinnu Slot og Hughes.

35 Comments

  1. Er orðinn nett þreyttur á þessum leikmönnum sem neita að pára nafnið sitt undir nyjan samning Þetta er eins og einhver saumaklúbbur þar sem einhver fer frá maka sínum og hin fara að spá hvort þau séu að missa af einhverju tækifæri! Já, gervigrasið er ekki alltaf grænna hinum megin og allt það.

    Við erum með færustu kaupahéðnana í bransanum og ég treysti þeim að landa nýjum Robbo, Gravenberch, Szobo, Macca osfrv. Þeir sjá lengra en við hin og það verður spennandi að sjá hvað þeir draga upp úr erminni.

    Er viss um að plönin liggja fyrir og gengið verður rösklega til verks þegar glugginn opnar.

    8
  2. Já endilega. Rústum einhverjum besta Liverpool liði sögunnar , sem er í þann mund að fara að vinna enska meistaratitilinn, og seljum alla sem eiga ekki toppleik í hverri einustu viku.

    Vá hvað ég er hjartanlega ósammála þessu endalausa ranti um að hinn og þessi leikmaður sé ekki nógu góður fyrir Liverpool.

    Ég vil bara alls ekki missa neinn leikmann næsta sumar og ég skil ekki af hverju við viljum ekki frekar fá inn tvo til þrjá sterka leikmenn sem heldur betur nægur peningur er fyrir og halda áfram að vera yfirburðalið í enska boltanum.

    Liverpool er núna með einhvern sterkasta leikmannahóp sem ég hreinlega man eftir og það eftir að nákvæmlega ENGINN leikmaður hefur verið keyptur sem heitir síðustu þrjá félagaskiptaglugga.

    Jú auðvitað eiga menn sína slæmu daga. Í fyrra var það Szoboslai eftir áramót og núna er það Jota. Var reyndar Robertson fyrir áramót en þær raddir virðast meira og minna þagnaðar. Jota er reyndar að koma úr meiðslum en það þýðir ekki að hann sé ekki frábær leikmaður. Og hugsið ykkur hvaða lið myndi ekki vilja hafa leikmann eins og Nunes á bekknum.

    Og svo er það umræðan um að Trent megi bara fara til Real Madrid – það væri í raun frábært að losa sig við besta hægri bakvörð í heiminum til erkióvinana. Ég bara hreinlega næ þessu ekki.

    Að mínu mati er gríðarlega mikilvægt að við höfum haldið tryggð við þessa leikmenn enda hafa þeir allir heldur betur sýnt að þeir eru heimsklassa leikmenn.

    Sömu hugmyndir voru uppi síðasta sumar. Selja selja selja. Til allrar hamingju var ekkert selt. Nákvæmlega ekkkert. Það er heldur betur að skila góðum árangri. Heldur betur. Menn virðast líka algerlega gleyma því hvað það er erfitt að fá leikmenn í Liverpool klassa og að kaup á meðalleikmanni getur sko heldur betur dregið stóra klúbba niður í svaðið eins og manutd dæmið sannar.

    Allra besta væri að halda í leikmannahópinn og fá inn heimsklassa leikmenn sem eru ekki bara nógu góðir fyrir Liverpool heldur einnig lið eins Real Madrid, mancity og PSG. Þeir fengu svo tíma til að aðlagast leikstíl og umhverfi Liverpool og taka svo við keflinu á næstu árum.

    Njótum svo þess sem eftir er af tímabilinu og styðjum við bakið á liðinu fram í rauðan dauðann. Þessi hópur á það svo sannarlega skilið eftir frammistöðuna á tímabilinu hingað til sem ekki bara hefur verið stórkostlega heldur framar öllum væntingum.

    Áfram Liverpool!

    24
    • Spá um þá sem líklega fara í sumar:
      Kelleher – Þegar búið að kaupa leikmann fyrir hann
      Miðverðir – Helst enginn að fara en klárlega fá inn nýjan
      Bakverðir – Styrkja vinstri bakvarðastöðuna, það er augljóslega kominn tími á það. Hvað Trent varðar þá vill enginn missa hann en lítið hægt að gera ef hann vill fara og því mikilvægt að bregðast við brottför hans.
      Miðjumenn – Losa Tyler Morton og mögulega Endo og fá inn nýjan sem Slot treystir
      Nunez, Diaz og Chisea – Seint hægt að tala um brottför þeirra sem slátrun á liðinu er það?

      Þannig að hvað ertu að meina? Er þetta svar við færslunni eða meira almennt? Finnst ég alls ekki vera boða það að þessu liði verði rústað, þvert á móti. Er vissulega ekki sammála að vilja bara ekki gera neinar breytingar á núverandi hópi en klárlega halda helstu lykilmönnum.

      13
      • Sælir félagar

        Það er erfitt að halda leikmönnum sem vilja fara (TAA) og enginn vill missa VvD eða Salah þó líklega styttist í að framlagið hætti að duga (Salah) til að þeir fái nýjan samning. Hvað hina varðar sem þú nefnir Einar þá finnst mér lílegt að þeir fari í sumar. Nunez vildi fara í janúarglugganum en fékk það ekki, Diaz vill komast til Barcelona og Chiesa virðist alls ekki vera í plönum Slot frekar en Endo. Svona ligur málið fyrir að því er mér sýnist. Það breytir engu hvað við vilijum (Hossi) halda leikmönnum. Ef þeir vilja fara þá fara þeir sbr. TAA. Þó þetta lið hafi staðið sig betur en nokkuð annað lið þá er þetta bara svona.

        Það er nú þannig

        YNWA

        5
  3. Það er úr vöndu að ráða hvort það eigi að skifta út svona mörgum leikmönnum en það getur verið erfitt að semja við leikmenn sem eru að renna út á samning ef þeir vilja ekki semja, eins eru Salah og Van Dijk að komast á aldur og það getur ótrúlega fljótt fjarað undan þeim eins og við höfum séð hjá city því getur það verið tvíeggja sverð að að borga þeim svimandi laun þótt báðir hafi verið frábærir fyrir okkur, Trent hefur verið skratti góður fyrir okkur sóknarlega en heldur slakari sem varnarmaður sem ég veit ekki hvort skrifis alfarið á hann eða að á þjálfarinn af einhverju leyti þar sem hann lætur hann taka svona mikinn þátt í sókninni á kosnað varnarinar
    Konate á eitt ár eftir á samning og ef hann vil ekki semja þá er lítið annað að gera en að selja hann svo við missum hann ekki frítt frá okkur eftir ár.
    Ég held að Nunez fari eins og ítalinn okkar, þeir hafa báðir sýnist flotta spretti en Slot virðist engan veginn treysta þeim, Jota eða Diez gætu farið en en vonandi verða þeir báðir áfram ef að Salah fer.
    Endó er minn maður, alvöru stríðsmaður sem öll lið þurfa að hafa í sínum röðum og vonandi verður hann áfram hjá okkur.

    8
  4. Takk fyrir þessa yfirferð Einar. Ég er sammála Hossa hér að ofan, eins fáar breytingar og hægt er er besti kosturinn. Að því sögðu þá er nían okkar gapandi, hvort sem við horfum á Nunez eða Jota, af gjörólíkum ástæðum þó.
    Eins þarf að horfa á HG-kvóta, Trent er ansi stór póstur þar og maður spyr sig hvort það sé eitthvað vit í að halda Gomez enn eitt árið þar sem hann er klár í fáa leiki. En allt veltur þetta á risunum þremur. Mögulega verður bara hægt að kaupa fyrir þann/þá þeirra sem fara.

    7
  5. Takk fyrir þetta og umræður um málið. Ég held varla að eigendurnir þori að láta einn glugga í viðbót líða án þess að bætt verði við liðið. Er samt verulega hugsi yfir þeim leikmönnum sem vilja fara. Er Liverpool bara einfaldlega ekki nógu spennandi kostur, launin, umhverfið eða eitthvað annað? Hefði haldið að Liverpool væri einmitt á þeim stað að leikmenn myndi æstir vilja spila fyrir það. Nýr stjóri sem veit sitthvað um fótbolta, bestu stuðningsmenn í heimi, nokkuð traustir eigendur, líklegir til að berjast um alla titla svo eitthvað sé nefnt. Kannski er þetta þvæla hjá mér en sýnist á öllu að amk 3-5 nýir leikmenn verði að koma til að halda í horfinu.

    8
  6. Jæja þá er Trent farin frá okkur. Þvílík skíta að hafa ekki klárað samningamálin fyrir löngu síðan. Ef Salah of Van Djik fara þá er þetta lið ekki að fara vinna neitt næstu seasons.

    1
    • Skita? Trent á að hafa verið boðin ansi rífleg launahækkun sem hann hafnaði.

      Sjálfur stórefast ég um að RM hafi boðið honum hærri laun en LFC.

      Að mínu mati er þetta skita hjá Trent

      11
      • Sammála Indriði. Stórkostleg skita gagnvart liðinu sem gerði hann að þeim forríka leikmanni sem hann er.

        4
      • já, SigKarl

        Þetta er enn meira “fuck off” fyrst að um heimamann er að ræða.

        Ég skildi Suares betur

        Vissulega eru FSG ekki saklausir, auðvitað áttu þeir aldrei að láta samninginn renna út. Það er þó eitthvað sem segir mér að Trent hafi verið fyrir löngu búinn að ákveða að spila seinni hluta ferilinn annnarsstaðar og FSG voru aldrei að fara að gera hann að launahæsta leikmanni klúbbsins. Skil þá afstöðu.

        Þeir eru þó sagðir hafa boðið TAA mikla launahækkun,, hvað sem er til í því.

        2
  7. Heimildir sem segja Trent farinn segja að honum hafi þrisvar verið boðinn nýr samningur, en hafi alltaf hafnað. Ekkert við því að gera, lífið heldur áfram.
    Minni á að Liverpool átti líka að verða í basli með að ná í topp fjögur í deildinni núna vegna þess að við keyptum ekkert.

    Persónulega sé ég mest eftir að fá ekki pening fyrir TTA, hann er í besta falli sæmilegur varnarlega en heimsklassa þegar hann er í stuði fram á við að mínu mati.
    Nokkuð sannfærður um að sá sem kemur í staðinn fyrir hann verður bæting, í það minnsta fyrir varnarhlutann af stöðunni.

    Annars treysti ég Slot og félögum alveg 100% fyrir því að láta þetta ganga upp.

    YNWA

    8
    • Sammála þessu. Margir leikir sitja í minningunni þar sem Trent var étinn af sóknarmönnum andstæðinganna. Meira að segja lúðarnir í mu létu hann líta illa út í jafnteflisleiknum í vor.

      Veri þeir sem vera vilja. Fari þeir sem fara vilja. Mér og mínum að meinalausu.

      Byggjum liðið upp á leikmönnum sem hafa hjarta fyrir Liverpool, en láta ekki umboðsmennina stýra för.

      4
      • Fáum við hægri bakvörð sem er sterkari varnarlega og skilar jafnari frammistöðum þá held ég að við séum í svipuðum málum.

        Auk þess vildi ég aldrei sjá Trent bera fyrirliðabandið. Alltof værukær, óáreiðanlegur og skortir leiðtogahæfileika.

        Auk þess segir þessi ákvörðun mikið um hans karakter

        6
      • maður spyr sig líka hvers vegna TAA gerði einungis 4 ára samning árið 2021.

        Líklega var hann fyrir löngu búinn að gera upp hug sinn.

        5
  8. Nú eru allir fjölmiðlar með fréttir að TTA sé búinn að skrifa undir hjá RM. vonandi hefur hann leikið sinn síðasta leik fyrir okkur. þ.e.a.s. verði ekki látinn spila eina einustu mínútu ef hann nær sér af meiðslum, sem hann glímir nú við.

    3
    • já við getum þakkað fyrir að þú ert ekki við stjórnvölin.

      Ég treysti því að Slot muni velja sitt sterkasta lið óháð ytri aðstæðum amk þangað til titillinn er í höfn.

      Hins vegar væri ég alveg til í að sjá TAA bekkjaðan síðustu leikina verði titilllinn kominn í hús fyrir loks móts

      8
      • Ég er á því að TAA verði bekkjaður strax þegar Bradley kemur til baka og verði látinn æfa með undir 18 liðinu síðasta mánuðinn

        4
      • Ég er nú jafn pirraður yfir líklegri ákvörðun Trent og næsti maður. Þetta er alveg glatað og svolítið fokkjú til stuðningsmanna Liverpool eftir að hafa talað um ást sína á félaginu og vilja vera one club man o.þ.h.

        En það væri frekar galin afstaða hjá félaginu að refsa Trent fyrir að klára sinn samning og ákveða svo að halda annað, á hvaða grundvelli ættu þeir að gera það? Eiga þá leikmenn sem Liverpool neitar að semja við áfram að hætta að leggja sig fram og yfirhöfuð mæta eftir að þeim er tilkynnt að krafta þeirra verði ekki óskað eftir tímabilið?

        Eins væru þetta afskaplega ófagmannleg vinnubörgð hjá Liverpool. Það er aðeins munur á að vera pirraður stuðningsmaður og horfa á svona útfrá þeim sjónarhól og svo að reka félagið eða stjórna því.

        4
      • Er ekki frekar hægt að segja að auðveldara verður að réttlæta útaf skiptingar á Trent þegar hann á slæman dag, það hefur stundum verið tiplað á tánum í kringum hann, líklega af hræðslu við að hann fari í fýlu

        1
  9. Ef það er rétt að Real vilji borga Trent £220.000 á viku og Liverpool vilji ekki fara svo hátt finnst mér það lítt skiljanlegt. Trent er á 8 árum sem varnarmaður komin með 61 stoðsendingu en Gerrard fór í rúmlega 90 á 14 árum og hann var framliggjandi miðjumaður! Trent er einstakur þó við getum pirrað okkur á honum eins og öðrum. Hvað eru margir leikmenn ManUtd með yfir £300.000 á viku og hvernig er fjárhagsstaða félagsins miða við Liverpool? Man ég það ekki rétt að Liverpool er komið upp fyrir Utd í heildartekjum af alls konar samningum? Er það bara princip hjá stjórnendum félagsins að fara ekki yfir ákveðna linu í launagreiðslum einstakra leikmanna? Bíð spenntur eftir boðaðri umfjöllun um fjármál félagsins því mér finnst staðan kalla á skýringar og vil alls ekki missa Trent.

    2
    • Trent er sagður vera með 180.000 punt hjá LFC auk góðra bónusa.

      Honum á að hafa verið borðin stór launahækkun sem ég leyfi mér að áætla að hafi verið nær 300.000 pundum en 220.000.

      Það lítur út á að TAA hafi tekið lægra tilboði þó mögulegt sé að undirskriftarfé jafni þetta út.

      Hjá Man Utd er Casamiro með 350.000 pund á viku (einn versti samningur sem félag hefur gert) og Bruno á að vera með 300. Áður var Rashford með í kringum 300 líka.

      5
  10. Trent hefur verið frábær þjón fyrir Liverpool og hefur stimplað sig inn í sögu klúbbins og mun maður alltaf hugsa hlýlega til hans en ef hann fer frítt til Real (hvort sem það er sangjart eða ekki ) þá munn hans minning veikjast mikið.
    Hann er að detta í Steve Macmanaman pakkan að vera frábær þjónn í mörg ár en að fara svo frítt finnst mér versta. Ef hann hefði skrifað undir nýjan samning þar sem Real getur keypt hann á 50m punda eftir eitt ár þá hefði maður ekki verið eins fúll en að hann sé að fara frítt er það sem svíður mest.

    Umræðan hefur samt verið svo lengi að hann sé að fara að þetta kemur ekkert á óvart. Þegar Real bauð í hann 20 m punda í jan þá vissi maður að þeir eru ekki að gera það nema vitandi að Trent vill koma til þeira.
    Það hefur líkega hjálpað Trent að ákveða sig öll þessi umræða um hvaða leikmenn Liverpool myndi sakna mest og þar er Virgil og Salah alltaf settir á undan honum og það hlýtur að særa aðeins verandi yngri og uppalinn svo að maður skilur það alveg.

    Hvað um það. Ég vona að Trent endar sinn Liverpool feril með stæl, komi til baka eftir meiðslin fljótlega í apríl og hjálpi okkur að landa þessum titli en það er númer 1,2 og 3 núna. Allt tal um að setja hann á bekkinn eða láta æfa með varaliðinu er barnarleg hugsun.
    Hann er leikmaður Liverpool í dag og hefur verið það í almörg ár og þótt að hann sé að fara að spila með Real næsta tímabil þá vill maður sjá hann klára þetta með okkur.

    Næsta á dagskrá er að klára Virgil og Salah samningana. Við reddum nýjum hægri bak í sumar til að vera með Bradley og er ég viss um að við styrkjumst varnarlega en það er ekki séns í helvíti að næsti hægri bakvörður muni vera eins góður sóknarlega enda Trent að mínu mati sá besti í heiminum þeim megin á vellinum.

    YNWA

    5
  11. Þau hérna sem hafa sent 80 milljón evrur til LFC. Þið megið pirrast út í TAA fyrir að fara frítt.
    Þau hérna sem hafa aldrei skipt um vinnu af því að þeim bauðst ný tækifæri. Þið megið pirrast út í Trent fyrir að vilja breyta til.
    Þau hérna sem sem aldrei hafa gert neitt á hlut fjölskyldunnar eða vina. Þið megið pirrast út í Trent fyrir að vilja stíga sín eigin spor.
    Þau hérna sem hafa aldrei hugsað um að skoða heiminn, sanna sig í honum, og unnið langa daga og nætur til að ná árangri og leitað bestu leiða til að vera ykkar besta. Þið eruð ekki, skiljanlega atvinnumenn í íþróttum því að þið lögðuð ekki á ykkur vinnuna.

    Það er auðvelt að pirrast út í allt og alla fyrir allt og ekkert. En ég virði það að TAA hefur aldrei gefið minna en allt fyrir LFC. Hann skuldar mér ekkert. Hann skuldar FSG ekkert. Hann skuldar ekki.

    Hann er “club legend” í mínum huga jafnvel þó hann fari til leiðinlegasta fótboltaliðs Spánar að spila með leiðinlegustu leikmönnum Englands og Frakklands.

    Vinnum deildina — enginn er stærri en félagið.
    – YNWA

    4
    • “En ég virði það að TAA hefur aldrei gefið minna en allt fyrir LFC.”

      Sástu frammistöðu hans gegn Utd í janúar?

      Sástu hversu auðveldlega Doku fór framhjá honum gegn City?

      Hvers vegna tala flestir um hversu lélegur Trent er varnarlega og eigi afar misjafnar frammistöður sem enn hafa hingað tilekki skilað honum föstu landsliðssæti? Er það vegna þess að hann hefur aldrei gefið minna en allt fyrir Liverpool?

      Hvað gaf hann liðinu í þessum samningaviðræðum,? einn fuck off putta?

      Hvers vegna ertu að bera leikmann sem þénar sirka 2,5 milljarða ísl kr á ári við okkur stuðningsmenn. Ég var með um 17 millur í árstekjur 2024. Með bónusum tekur það TAA 2 -2,5daga að hala inn árslaun mín.

      Já og ef TAA vill skoða heiminn þá hefur hann nú fengið að sjá sinn skammt af honum hjá LFC og á væntanlega eftir að lifa í vellystingum þau 50 ár eðs svo sem hann á eftir þegar ferillinn er búinn og getur þá gert allt sem hann vill þökk sé LFC.

      Spurning svo hversu margir stuðningsmenn RM muna eftir Owen og McManaman í dag?

      En vissulega hefur hann sínar ástæður, en við þurfum ekki að sýna þeim virðingu.

      5
      • Ég ber hann saman við okkur af því að hann er manneskja. Ekki verslunarvara. Þín krafa er að hann lifi eftir einhverju viðskiptamódeli íþrótta eða dyntum stuðningsmanna íþróttafélaga. Það er ósanngjörn krafa. Skiptir þar engu máli hvað hann er með í laun. En get samt sagt að hann hefur gefið meira til góðgerðarmála af tíma sínum og peningum en margir sem kalla sig góðborgara.

        Og að tala um að leikmaður hafi átt slæman leik sé sama og að hann hafi ekki gefið allt sem hann hafði er af sama meiði. Veist þú hvort hann gaf allt? Var hann kannski að spila meiddur? Eða með pest?

        Við þurfum að hætta að tala um fólk eins og það sé hlutir. Það getur vel verið að þetta séu mestu mistök lífs hans og að hann tapi bæði vináttu í Liverpool og að ferill hans fari niður á við eins og margra sem hafa sagt bless við félagið. En ÉG kýs að sýna honum virðingu og þakklæti af því að hann hefur gefið mér meira en ég honum. ÞÉR er frjálst að hafa aðrar skoðanir. En ég virði þær minna en val TAA.

        —YNWA

        3
  12. Hope for the best, plan for the worst.
    Versta case er við þurfum þessar stöður fyrir næstu leiktíð:
    Vinstri bakvörð, Robertsson er kominn yfir hæðina.
    2 miðverði, Virgil framlengir ekki og Konate verður seldur til PSG.
    Hægri bakvörð, Trent augljóslega til RM
    Framherja, Nunez seldur, Jota alltaf meiddur.
    Einhvern í stað Salah sem framlengir ekki.

    FSG verður hreinlega að losa um budduna sem þeir hafa verið sparir á.

    1
  13. Nú þegar Trent er farinn þá liggur fyrir að það þarf að kaupa gæða hægri bak.
    Þurfum líka vinstri bak til að keppa og svo taka við af Robbo, mér finnst hann ekki hafa verið eins slakur og menn vilja láta, vissulega átt dapra leiki en líka góða.
    Okkur vantar 1-2 gæða miðverði með því fororði að VVD verði áfram.
    Við eigum að hjóla í Kane ef hann er á lausu, og einhvers staðar las ég að hann vildi koma til LFC.
    Held að Isak sé of dýr fyrir innkaupastefnu FSG
    Diaz og Nunez mega báðir fara, sér í lagi ef Salah verður áfram.
    Okkur vantar skriðdreka á miðjuna, til að keppa við Ryan og geta tekið á þegar við mætum jarðýtum á miðjunni hjá öðrum liðum, finnst við of léttir og linir þar.
    Það yrði algert rugl að selja Jones og Elliot, ma mtt til reglna um uppalda leikmenn, svo eru þeir bara helv… góðir að mínu mati.
    Ætla svo aðeins að taka upp hanskann fyrir minn mann Jota. Jú, vissulega er hann mikið meiddur en hann er líka svakalega óheppinn. Hversu oft hefur hann meiðst vegna tæklinga andstæðinganna?
    Hann er svo góður í fótbolta og er besti slúttarinn í liðinu.
    Hvað Trent varðar, ef hann vill fara þá fer hann bara. Sorglegast að hann fari frítt.
    Hann er og verður alltaf veikur varnarlega og hann hefur verið slakur undanfarin 2 tímabil, og svo er hann farinn að meiðast ansi oft. Þetta er ekki það versta sem gæti gerst og enginn er stærri en klúbburinn.
    Málið er að þar sem ekkert var keypt í sl. gluggum þá verður svo dýrt að fylla í öll þau skörð sem þurfti að fylla í og þarf að fylla í, sem þýðir að það næst ekki að fylla í þau öll, og þá er hættan á að við sitjum eftir.
    Annars bara góður.

    1
  14. Við hofum ekki staðið frammi fyrir svona aðstæðum aður, erkki svo mig mynnir. Hverjum er um að kenna, komumst við sennilega aldrei að, enda ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er, hvernig verður brugðist við þessu astandi. Það er talað um raunverulega grundvallar breitingu a liðinu, ef allt fer a versta veg. Eins og staðan er nuna, þa erum við með 9 fingur a titlinum, ennþa vantar einn fingur. Það er alveg hægt að spyrja sig, er um að ræða einskonar politiskt fake news i ollum þessum sogusognum til þess að beina athygli leikmanna okkar fra, heldur en að markmiðinu, sem er að vinna titilinn i 20 skipti.

    YNWA

    1

Gullkastið – Allur fókus á deildina

Allar líkur á að Trent Alexander-Arnold fari