Merseyside derby á miðvikudagskvöld

Halelúja! Landsleikjahléinu er að ljúka!

Því lauk svosem tæknilega um helgina, en þetta var bikarhelgi og okkar menn voru í fríi þar út af dottlu. Mig grunar að þetta frí um helgina hafi verið kærkomið, en það kemur kannski endanlega í ljós annað kvöld þegar strákarnir okkar mæta á Anfield, og fá hina bláklæddu Everton menn í heimsókn sem verða undir stjórn David Moyes.

“There is a league title to be won” hefur verið viðkvæðið núna í svolítinn tíma, og það er bara akkúrat þannig. Staðan er góð, en það er ekkert tryggt. Tja, nema það jú að Fulham og liðin fyrir neðan þá sem hafa leikið jafn marga leiki geta ekki lengur náð Liverpool að stigum. Eftir sigur Arsenal á téðu Fulham liði í kvöld þá er munurinn á okkar mönnum og Arsenal kominn í 9 stig, en þeir eiga vissulega bara 8 leiki eftir. Það gera 24 möguleg stig í pottinum. Ef Arsenal halda sama PPG hlutfalli á lokasprettinum eins og þeir hafa gert fram að þessu – og þetta er stórt EF, því þeir fengu t.d. Saka til baka núna í kvöld – þá enda þeir með 77 stig. Ef það er raunin, þá nægir Liverpool að vinna 3 leiki af þessum 9 sem eftir eru. En svo gætu Arsenal líka farið á “run” og krækt í öll 24 stigin sem eru í boði. Ef svo fer, þá enda þeir með 85 stig. Og þá þurfa okkar menn að tryggja sér að lágmarki 15 stig, þ.e. 5 sigra úr 9 leikjum, 16 stig væri samt betra til að þurfa ekki að stóla á markahlutfallið.

Höfum eitt á hreinu: það á bara alls ekki að þurfa að mótívera leikmenn Liverpool til að mæta á Anfield og spila þar við Everton – alveg sama hversu aðkeyptir hinir rauðklæddir eru. Við gerum bara kröfu til þess að menn mæti með hausinn rétt skrúfaðan á sig og spili þennan leik eins og menn. En ef menn vantar einhverja smá mótívasjón, þá má alveg sýna þeim síðustu sekúndurnar úr leiknum á Goodison. Við ætlum ekki að rifja þær mínútur upp sérstaklega hér, en guð minn almáttugur hvað það þarf að kvitta fyrir þann leik og það hvernig hann endaði.

Mohamed Salah hefur svo alveg nokkrar ástæður til að koma fullur eldmóðs inn í þennan leik. Hann er núna jafn Aguero í lista yfir markahæstu deildarinnar, þeir eru þar saman í 5-6 sæti á listanum. Þá er Andy Cole ekki langt undan heldur, því Salah vantar aðeins 3 mörk til að jafna hann. Semsagt: 4 mörk frá Mo, og hann verður kominn í 4. sætið yfir markahæstu leikmenn úrvalsdeildarinnar. Ég myndi segja að morgundagurinn sé bara alveg fullkominn dagur til að skora 4 mörk og ná þessu 4. sæti, en ég myndi alveg sætta mig við að það taki aðeins lengri tíma. Eins er ekki ólíklegt að Salah sé með annað augað á metinu varðandi mörk og stoðsendingar á sama tímabilinu, Thierry Henry náði 20+20 á sínum tíma, en Salah er núna með 27 mörk og 17 stoðsendingar. Líklega er leikurinn á morgun sömuleiðis tilvalinn til að eiga 3-4 stoðsendingar.

En svo er það líka þannig að þrátt fyrir alls konar met eins og þessi sem Salah er með í sigtinu, þá er í raun bara eitt aðalmarkmið sem skiptir máli á morgun: að ná í 3 stig. Líklega verður það það sem Salah mun allahelst vilja fá út úr leiknum, og það á við um okkur öll.

Það er líka þannig að Ramadan stóð yfir í mars, en lauk núna um helgina. Salah er því farinn að geta borðað yfir daginn aftur. Vonum að það hjálpi.

Staðan á andstæðingunum

Eftir mjög gott gengi á fyrstu vikunum eftir að Moyes tók við, þá hefur aðeins róast í stigasöfnuninni hjá þeim, og í síðustu 4 leikjum hafa þeir gert jafntefli. Síðasti sigurinn hjá þeim kom reyndar 15. febrúar gegn Palace á útivelli. En við getum því miður bara alls ekki reiknað með að þeir séu ekkert hættulegir lengur. Sérstaklega þegar stig á Anfield er í boði. Annars nenni ég ekki að eyða fleiri orðum í þetta blessaða Everton lið, en vil benda á þennan ágæta þátt frá Sportsbible þar sem Everton aðdáendur áttu að reyna að finna út hver þeirra var laumu Liverpool aðdáandi. Mæli með að gefa þessum þætti séns.

Staðan á okkar mönnum

Byrjum á meiðslalistanum. Alisson Becker, Gravenberch og Konate komu allir ögn krambúleraðir úr landsleikjahléinu, Alisson missti af seinni landsleiknum vegna höfuðhöggs, en allir þrír ættu að vera búnir að ná sér og ef þeir byrja ekki þá verða þeir í versta falli á bekk. Conor Bradley er farinn að æfa og Joe Gomez hefur sést á grasinu, en þessi leikur kemur líklega of snemma fyrir Bradley og Gomez er ekki heldur klár. Þá er Trent alls ekki tilbúinn og verður frá í einhverjar vikur til viðbótar. Að lokum er Tyler Morton enn að ná sér eftir uppskurð á öxl og spilar sjálfsagt ekki meira fyrir Liverpool á tímabilinu og er mögulega bara búinn að spila sínar síðustu mínútur fyrir félagið.

Rest ætti nú að vera nokkuð klárir í slaginn.

Það eru engar líkur á því að Slot fari út í neina tilraunastarfsemi í liðsvalinu á morgun. Jújú, hann vantar alla 3 leikmennina sem væru að jafnaði að byrja í vinstri bak (Trent, Bradley, Gomez), svo hann verður líklega að setja Jarell Quansah þangað. Það er ekki ídeal, en pjakkurinn sá hefur reyndar staðið sig furðu vel í þessi tvö skipti þar sem hefur reynt á hann í þeirri stöðu. En að öðru leyti getur Slot líklega stillt upp sínu sterkasta liði. Eina spurning er kannski hvernig hann muni stilla upp í framlínunni. Fær Chiesa loksins sénsinn eftir frammistöðuna undir lokin gegn Newcastle? Líklega ekki, og við skulum prófa að stilla þessu svona upp:

Alisson

Quansah – Konate – Virgil – Robertson

Gravenberch – MacAllister

Salah – Szoboszlai – Gakpo

Díaz

Það eru auðvitað möguleikar í stöðunni þarna. Díaz gæti byrjað vinstra megin – smá séns að Chiesa fái sénsinn – og Jota gæti byrjað í níunni. Jones gæti líka hreinlega byrjað þarna, og kannski setur Slot þetta upp í meira 4-2-4. Látum það bara koma í ljós annað kvöld.

Dagskipunin er skýr: 3 stig í hús. Bara mjög einfalt. Annað er hreinlega ekki í boði. Við bara NENNUM ekki að fara að hleypa þessu eitthvað upp á lokasprettinum og leyfa Arsenal – hvað þá Forest! – að finna einhverja blóðlykt. Nú þarf bara að sigla þessu í höfn. Og okkar menn þurfa bara að finna taktinn sem þeir fundu svo vel fyrir jól.

Spáum 3-1 sigri með mörkum frá Gakpo (2) og Salah.

KOMA SVO!!!!!

16 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Ég vil bara sjá Chiesa fá tækifæri, hann hefur sýnt að hann getur verið ansi sprækur. Mögulega setja Salah fram og Chiesa og Gakpo á kantana.
    Restin er nokkuð sjálfvalin
    Þetta verður hörku helvítis leikur þar sem everton munu leggja allt sem þeir eiga til að reyna að taka stigin.
    Spái þessu 3-2 með mörkum frá Salah, Chiesa og Quansah.

    13
  2. Nokkrir punktar.

    Ef að þú (Daníel) verður ekki fenginn til að “mótívera” Salah á eldsnöggum Teamsfundi á morgun 2-4 klst. fyrir leik þá veit ég ekki hvað. Sennilega horfir maður bara til hægri á morgun.

    Landsleikjaþátttaka hefur alveg tekið stærri toll. Þolanleg útkoma.

    Sá Arsenal-Fulham leikinn með öðru auganu í kvöld, vissulega vann Arsenal leikinn (verðskuldað) en markatalan 2-1 segir lítið til að tækla þann möguleika þeirra til sigurs í deildinni.

    Svona gróft reiknað, ef Liverpool vinnur þessa 3 leiki sem Daníel nefnir með einu marki, þá þurfa Arsenal að vinna upp 15 mörk í markamun, til að vinna á sömu stigatölu. Úrslit þeirra í kvöld voru að því leiti jákvæð.

    (Hafði talsverða ánægju af því að sjá mu tapa fyrir Forest á aðalskjánum. Þó mu vissulega reyndi eitthvað þá var sterkt skipulag í vörn og mjög snarpri sókn hjá Forest að leggja þetta sem sanngjarna niðurstöðu. Eftir nokkuð langa ævi þá fékk maður allt í einu aðstæður þar sem Þórðargleði (og að vera haldinn henni) sínar jákvæðu hliðar. Því mu fylgjendur í salnum voru (við skulum nota góð orð núna) bara illa haldnir, bæði eftir markið og þegar á leið. Já, … þetta var gott kvöld.

    7
  3. Ég hef ekki nógu góða tilfinningu fyrir stemningunni í okkar hóp. Samningamál og endalaus þrýstingur frá hinum ýmsu miðlum virðist hafa farið illa í hópinn. Allavega í síðustu leikjum. Veið andlausir og ósannfærandi. Mega bara alls ekki við því að misstíga sig meira. Gæti farið illa í hausinn á þeim. Everton hafa verið meira sannfærandi eftir að Moyes kom aftur til þeirra. Ég vona samt það besta í kvöld og að menn sýni að þeir séu atvinnumenn á hæsta stigi það sem eftir er móts og landi þessum titli.

    11
    • Ekki er eg alveg sammala þer Alfreð. Ollum þyrstir að vinna deildina, bæði þeim sem hafa afrekað það, sem og hinum sem eiga það eftir, enda þratt fyrir alla aðra, stærsti titill timabilsins. þessi leikur vinnst ekki stort, en hann vinnst ca. 1-0, sem dugar.

      YNWA

      3
      • Ég vona svo sannarlega að þú hafir rétt fyrir þér, en er ekki sannfærður. Hélt t.d. að menn væru hungraðir í bikar, komnir á Wembley þrátt fyrir svekkelsið á móti PSG. Það var samt ekki að sjá.

        4
  4. Fín upphitun Daníel.

    Sigur Arsenal í gærkvöldi setur pressu á okkar menn þannig að ég bið bara um ekkert kjaftæði í kvöld og að okkar menn sigli 3 stigum örugglega í hús!

    Varðandi samningamál þríeykisins, þá virðist Trent vera farinn, Salah má fara, forgangsmál að mínu mati að semja við Virgil!

    Áfram gakk, 3 stig takk fyrir í kvöld!

    YNWA

    6
    • Skrýtið að segja að Salah megi bara fara, lang lang besti leikmaður í sögu Liverpool og hann er að eiga sitt besta tímabil.
      Nei klárlega má hann ekki fara og ekki Van Dijk heldur. En ballon D´or varnarmaðurinn má fara til Bellingham í sólina á spáni.

      6
      • Algerlega sammála þér Red, skil ekki þetta Salah má fara dæmi.
        Þvílíki lúxusleikmaðurinn sem hann er, mögulega munum við aldrei aftur fá slíkan í okkar lið aftur plús hann meiðist nánast aldrei (plís ekki jinx)

        Hann á að fá framlengingu um tvö ár ef hann vill vera áfram.

        Er skíthræddur við leikinn í kvöld svo það sé sagt, en við verðum bara að vinna leikinn.
        Everton tóku af okkur stig síðast og fögnuðu eins og þeir hafi verið að vinna Meistaradeildina, nú er tækifærið til að sýna þeim hvernig verðandi meistarar spila á heimavelli.

        YNWA

        5
      • Já svona er nú skrýtið hvað við félagarnir erum stundum ekki sammála. :O)

        Við getum svo sem deilt um það hver sé “lang lang besti” leikmaður í sögu Liverpool, þar væri hægt að týna einhver nöfn til sögunnar á þessari öld sem og þeirri síðustu.

        Engum blöðum um það að fletta að Salah er búinn að vera frábær síðustu árin, tölfræðin lýgur ekki þar. Hinsvegar er það mitt mat að í lok þessa 8. tímabils hjá Salah þá megi hann fara enda búinn að skila sínu. Hann verður 33 ára í júní, ef vel gengur hjá Egyptum í Afríkukeppninni sem hefst seinnipartinn í desember þá verður Salah frá í ca mánuð. Þetta fræga Ramadan dæmi sem menn hafa verið að nefna, þar er Salah einnig frá í mánuð enda í föstu og þ.a.l. orku og næringarlaus fyrir átök í úrvalsdeildinni og ósýnilegur á löngum köflum í leikjum (fyrir utan vítaspyrnur). Salah og hans menn selja sig örugglega ekki ódýrt hvað varðar launakostnað – það fé væri mögulega hægt að nota í 2-3 nýja og spræka leikmenn. Hef áður sagt að Salah er ömurlegur varnarlega og oft á tíðum “étinn” af varnarmönnum andstæðinganna.

        Að því sögðu vona ég að hann troði sokkum í kvöld og sýni okkur hvar Davíð (þó ekki Moyes) keypti ölið! :O)

        YNWA

        2
  5. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Daníel og ekki miklu við hana að bæta. Krafan um sigur er algjör og mér er sama hvort það verður 1 – 0, 5 – 0 eða 4 – 3. bara sigur og ekkert annað. Það eru gleðitíðindi að Bradley er farinn að æfa aftur og verður kannske með í næsta leik eftir þennan og kemur ef til vill eitthvað inná i kvöld. Hvað gullboltadrenginn varðar þá er mér sama um þó ég sjái hann aldrei framar í búningi Liverpool. Hann segist hafa “gefið” Liverpool allt en ég spyr: hvað hefur Liverpool gefið honum. Bókstaflega allt það sem hann er og verður hver sem framtíð hans er.

    Ég sé ekki betur en liðið okkar þrátt fyrir vöntun á gullboltadrengnum eigi að geta unnið þennan leik nokkuð örugglega. Eina spurningin er hvernig liðið mætir til leiks. Sé hausinn rétt skrúfaður á mun það hafast en ef liðið mætir í 1. gír og lága drifinu tapast hann hreinlega. Það hefur verið of algengt að liðið sé á hælunum eftir góða hvíld. Það má alls ekki gerast í kvöld. Þetta verður mjög erfiður leikur líkamlega og okkar menn verða einfaldlega að vera undir það búnir. Andlegu hliðina verður svo Slot og félagar að móta svo að baráttan og einbeitingin verði algjör.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
    • Sælir aftur félagar

      Ég gleymdi að geta þess að Virgil van Dijk er að mínu mati mikilvægasti leikmaður Liverpool. þar á eftir kemur Salah og er í reynd aðeins sjónarmunur á þessum tveimur afburðaleikmönnum. Alisson kemur líklega næstur og svo eru aðrir miklvægir þó þeir séu langt frá þessum þremur. Má þar nefna Konate, Grav, og reyndar miðjuna alla. Gullboltadrengurinn er svo í næsta hópi ef hann á annað borð er leikmaður Liverpool.

      Það er nú þannig

      YNWA

      3
  6. Verður jafntefli eða mögulega tap, er ekki með góða tilfinningu fyrir þessum leik því miður. Og Liverpool eru búnir að vera á niðurleið síðustu vikur og bæði þreyta og líka samningamál eru að spila þar inní. Hugsa samt að við vinnum deildina en það verður mjög tæpt.

    4
    • Láttu svartsýnina ekki ná tökum á þér. Virgil mun draga sína menn í mark á hálsmálinu. Titill er big deal, hvort sem einhverjir eru á förum eða ekki.

      3
  7. Á maður að nenna því að kvíða þessum leik?

    Leikmenn okkar hafa nú fengið betri hvíld en oftast áður eftir landsleikjahlé
    Þeir vita nákvæmlega hvers er ætlast til af þeim
    Anfield verður á orginu allan tímann.
    Slot og félagar hafa haft nægan tíma til að læra af mistökum og árangri
    Þetta er f***ng Everton

    Vinnum þetta stórt. 3-0. Salah með tvö og Macca með eitt

    3
    • Ég hefði viljað sjá Endo the destroyer inná. Þeim bláklæddu veitir ekkert af dálitlum ryskingum. Jones er hinsvegar of léttur til að gera mönnum skráveifu. Ég set traust mitt á að Mr. Shithousery, Andy Robertson, sé vel gíraður í slaginn.

      1

Leave a Reply to jonas Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Stelpurnar fá Villa í heimsókn

Byrjunarliðið gegn Everton