Fulham 3-2 Liverpool

0-1 Alexis MacAllister (’14 )
1-1 Ryan Sessegnon (’23 )
2-1 Alex Iwobi (’32 )
3-1 Rodrigo Muniz (’37 )
3-2 Luis Diaz (’72 )

Fyrri hálfleikurinn í dag var í líkingu við þá deyfð sem við höfum séð yfir liðinu í síðustu leikjum en komumst þó yfir þegar MacAllister skoraði með flottu skoti fyrir utan markið en áður var Konate líklega heppinn að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu. Fulham voru ekki lengi undir en þeir áttu fyrirgjöf sem fór af Jones og þaðan til Sessegnon sem jafnaði leikinn. Varnarleikurinn fór svo úr öskunni í eldinn á næstu mínútum en Robertson tók stórundarlega ákvörðun þegar hann tók þversendingu inn á völlinn sem fór beint á Iwobi sem tók forustuna fyrir Fulham menn og þeir kórónuðu það nokkrum mínútum seinna þegar þeir unnu seinni bolta og Muniz ýtti Van Dijk alltof auðveldlega frá sér og komst þannig einn gegn Kelleher og skoraði þriðja mark Fulham.

Fyrri hálfleikurinn var arfaslakur og seinni byrjaði ekki mikið betur en fljótlega komu Elliott og Diaz inná og aðeins seinna Bradley og Nunez og fyrstu þrír af þeim breyttu takti okkar manna í leiknum. Liverpool fóru loks að skapa sér færi en Salah og Jota fóru illa með færi áður en Diaz minnkaði muninn með átján mínútur eftir og á loka mínútunum fengum við nokkur hálffæri til að jafna leikinn en það hefði ekki verið sanngjörn úrslit.

Góður leikur

MacAllister átti fínan leik á miðjunni skoraði gott mark og reyndi að láta hlutina tikka á miðju sem tapaði bardaganum í dag. Hann var bestur byrjunarliðsmannanna Bestu menn Liverpool voru hinsvegar fyrrnefndir varamenn þrír Diaz, Bradley og Elliott. Diaz lagði upp færi Salah og skoraði sjálfur og var að skapa ursla, Elliott átti skot í tréverkið og kom með smá x-factor í leikinn  og innkoma Bradley varð til þess að Jones losnaði úr bakverðinum þar sem hann átti erfitt í dag.

Vondur dagur

Salah var ósýnilegur enn einn leikinn ásamt stærstum hluta byjunarliðsins. Varnarlínan átti mjög erfitt í dag og miðjan tapaði sínum bardaga, Gakpo hefur enn ekki skilað frammistöðu síðan hann kom aftur eftir meiðslin og Jota átti erfitt í uppspilinu og klúðraði svo góðu færi.

Umræðan

Enginn ástæða til að panikka erum enn ellefu stigum fyrir ofan Arsenal með sjö leiki eftir en það er óþægilegt hvað liðið viðist bensínlaust og fyrirsjánlegt og alveg ljóst að Slot þarf að leysa út þessu fyrir næsta tímabil því við fáum ekki alltaf þetta forskot eins og í ár.

Næsta verkefni

Næst er það West Ham á Anfield á sunnudaginn eftir viku og viljum sjá alvöru svar þar og klára tímabilið með sæmd til að taka þetta ekki með inn í næsta tímabil

26 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Ellefu stiga forgjöf. Mikill lærdómur af síðustu leikjum. Nú læra hollendingarnir og gera nauðsynlegar breytingar.

    Ekkert rugl síðan á móti westham á heimavelli að ekki sé nú talað um fallkandídatana tvo sem bíða!

    En seinni hluti seinni hálfleiks var prima.

    9
  2. Það eru ákveðin forréttindi að við erum hér snarbrjáluð af því að liðið var að tapa fyrsta deildarleiknum í 26 leiki og er bara með 11 stiga forskot á toppnum en ekki 14.

    25
    • Æji, fyrir mér á þetta komment ekki við núna. Við erum hreinlega að spila að því að tryggja titilinn og menn mættu ekki til leiks. VVD, Robertson, Konate, Szobo og Jones voru sérstaklega slakir í fyrri hálfleik. Vanmat var það fyrsta sem kom uppí hugann þegar maður ætlast til þess að menn hlaupi úr sér lungun.
      Við áttum fjóra leiki sem fyrir fram voru auðveldastir á pappír og það er óþolandi að gefa Arsenal von eftir leikina í gær, þetta er bara leikur sem við eigum að vinna. Við skulum ekki gleyma því að við erum ekki búnir að vinna titilinn.
      Það sem eftir stendur og hefur verið tilfinningin í smá tíma að Slot þarf að rótera liðinu meira, Klopp gerði jafnvel of mikið af þvi ef eitthvað er, en það verður að gefa mönnum smá sjokk af og til, þýðir ekki alltaf að spila sama liðinu nánast leik eftir leik þegar frammistaðan er svona. Við erum búnir að vera lélegir í seinustu leikjum og svo kom höggið, Slot þarf að læra fljótt og vel.

      15
      • Eitt í viðbót, þetta er okkar eina keppni, þess vegna kommentið um að hlaupa úr sér lungun, það er að engu öðru að keppa.

        10
    • Ég væri hugsanlega sammála þessu kommenti ef Liverpool hefði spilað eins og gegn PSG í seinni leiknum, þeas allt gefið í þetta.

      3
  3. Liðið er á svakalega vondum stað og búið að vera það núna í margar vikur.
    Lið þurfa bara að spila fast og tuddast aðeins og þá gefast menn upp.
    Það tók menn ekki nema klukkutíma leik að mæta til leiks og það er einfaldlega ekki boðlegt.

    14
    • Ef það er að vera á vondum stað að tapa fyrsta leiknum frá því í september þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur. Held þetta sé fyrst og fremst hugarfarið hjá þeim. Það þarf koma því hausinn á þeim að titillinn er ekkert í höfn og það þarf að hafa fyrir hverjum einasta leik.

      5
      • Búnir að tapa 3 af síðustu 4 og frammistaða í mörgum sigurleikja ekki verið upp á marga fiska.

        12
  4. Auðvitað eru þetta forréttindi að vera á toppnum með 11 stiga forskot. Það bara pirrar mig verulega hvernig liðið hefur bara varla mætt til leiks í fyrri hálfleik núna nokkra leiki í röð. Jota getur svo ekki verið einn með þessa trukka sem miðverðir í PL eru. Nunes er kannski mistækur en það er alltaf eitthvað rugl og caos í kringum hann. Sumarið verður verulega mikilvægt er varðar að skipta út leikmönnum og fá nýja inn.

    5
  5. Hvað var með þessar hugsanalausu þversendingar í fyrri hálfleik?! Hef aldrei séð annað eins. Szobo er annaðhvort alveg hrikalega lélegur eða eins og prime Henderson. Inná með Elliott í hans stað næstu leiki. Robbo er bara búinn, takk fyrir allt frábæri Skoti en þinn tími er liðinn. Það yrði versti drykkjuleikur sögunnar ef allir tækju sopa ef Robbo hittir á samherja í fyrirgjöfum. Konate guð minn góður, ágætur dc, ekkert meira en það. Er Salah ekki örugglega búinn að fá sér að borða? Hann er alveg týndur.Í einu kastinu um daginn var talað um að 7-9 út og sama inn væri aldrei að fara að gerast. Held að það sé bara alls ekki ólíklegt. Jafnvel nauðsynlegt.

    8
  6. Við erum alls ekki að spila eins og meistarar og það þarf mikið að lagast til að við vinnum 4 leiki eða meira af restinni. Hafandi sagt það finnst mér eins og 3 næstu leikir ráði úrslitum. Ef við náum einhvern veginn að klára þá þá lítur þetta vel út. Ég sé það bara ekki núna miðað við frammistöðu liðsins og einstakra leikmanna.

    11
  7. Svona spilamennska vinnur ekki titla. En sem betur fer erum enþá með gott forskot þannig að þetta er ekki í stórhættu,en við megum ekki tapa fleiri leikjum.

    9
  8. Hvernig er þetta með Salah,,, lauk tímabilinu hans eftir City leikinn í febrúar?

    Vissulega setti hann tvö úr vítum gegn Southampton, en sást annars lítið í þeim leik.

    Menn eiga misjafna leiki og allt það en þetta er frekar undarlegt þetta okkar langbesti leikmaður verður skyndilega nánast áhorfandi inn á vellinum.

    Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem það fer að draga úr Salah þegar líður á keppnistímabil, en núna spyr maður sig hvort aldurinn sé farinn að segja til sín. Í dag virðist hann ekki hafa hraða til að fara framhjá varnarmanni.

    11
  9. Eins geggjaður og Salah var megnið af tímabilinu þá hefur hann verið jafn lélegur síðustu 4-5 leiki, hann er algjörlega étinn af öllum varnarmönnum. Virkar á mig eins og hann nenni þessu ekki lengur, sem þýðir þá annað hvort að hann sé ákveðinn í að fara, nú eða hann hafi þegar krotað undir nýjan samning, því hann spilar svipað núna eins og fyrstu 6 mánuðina eftir að krotaði undir síðast.
    Afhverju Chiesa fær ekki meiri spilatíma er mér hulin ráðgáta, finnst hann alltaf hafa áhrif á leikinn til hins betra, fyrir utan þennan eina leik sem hann byrjaði með kjúklingunum.
    Núnez má síðan fara sem fyrst, alveg búinn að missa alla trú á honum og samt er ég jákvæði gaurinn á spjallinu…..
    Ps, drullu-heppnir að fá ekki víti á okkur þarna í upphafi.

    5
  10. Sælir félagar

    Það eina sem hægt er að gera er að gleyma þessum leik sem fyrst. Þessi “taktik” að vera að dulla sér með endalausum baksendingum og þversendingum allan fyrri hálfleik er orðin ansi þreytt. Liðin eru búin að átta sig á þessu og keyra á Liverpool strax í upphafi leiks og uppskera oftar en ekki mark eða amk. nokkur marktækifæri. Þetta hlýtur að koma frá stjóranum enda væri hann búinn að taka á þessu ef svo væri ekki. Við höfum verið heppnir með þetta fram að þessu en fengum það í andlitið sem við áttum skilið fyrir afar aumlega spilamennsku. Ég nenni ekki að tala um einstaka leikmenn og þeirra frammistöður en bæði Jota, Salah og Robbo mega fara á bekkinn fyrir mér í næsta leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

    17
  11. Ég sagði eftir Arsenal leikinn í gær að Everton menn tryðu því greinilega ekki að Arsenal gæti náð Liverpool.
    Út frá leiknum í dag sýnist mer leikmenn Liverpool vera sammála.

    7
    • já það er augljóst. VVD var að leika sinn 43 leik á lokaári samnings og átti sinn versta leik til þessa svo varla er nokkru öðru en samningamálunum um að kenna um þennan slæma kafla sem hann átti í fyrri hálfleik. Merkilegt nokk að þetta var fyrsti leikurinn sem samningsmálin virðast hafa svona bein áhrif á VVD.

      Svo er það spurning um Mo. Líklega eru samningamálin ástæðan fyrir því að Mo slökkti á sér í lok febrúar. Gæti þó verið eitthvað til í kjaftasögunum um að Mo sé búinn að semja og ákveðið að slaka vel á í kjöfarið eins og hann gerði eftir undirritun sl. samnings?

      4
  12. Þetta var alveg ótrúlega lélégt en ekkert ástæða til að panikka. Einhvernveginn finnst mér alltaf að við eigum í erfiðleikum með Fulham þannig ég var í jafnteflisgír fyrir þennan leik. Við skulum bíða og sjá hvernig þeir bregðast við í næsta leik áður en maður fer að hafa áhyggjur af þeim leikjum sem eftir eru. Frammistaðan í dag er ekki að fara að skila okkur sigrum gegn Arsenal, Chelsea og Tottenham og mögulega ekki gegn öðrum liðum heldur. Vonandi girða menn sig í brók og klára þetta með sæmd. Sama hvað menn segja, ef menn ætla að klára þetta með hálfum huga verður alltaf sagt um Liverpool að þeir hafi unnið deildina vegna þess að hinir voru sé lélégir.

    6
    • Það verður sagt hvort sem er, menn eru byrjaðir á því, enda vann city sína því Liverpool var svo lélegt. umræða fyrir loosera.

      En Liverpool tapar fótboltaleikjum við erum brend á City ruglinu að eitt tap eða jafntefli þá er þessi titill farinn mótið er svo mikið skemmtilegra svona og vonandi verður það svona áfram að lið geti tapað einum fótboltaleik ánn þess að það kosti það að vera í barattu.

      Um kæruleysi og þvælu nokkra manna þarna aftast sem gefa svo leikinn ætla ég að hafa sem minnst orð um! Ég vill að menn svari fyrir sig í næsta leik! Svona kæruleysi og rugla má ekki halda áfram. menn verða klára helvítis mótið

      3
      • Já það er rétt, menn eru byrjaðir á að tala eins og Liverpool sé bara að vinna því hinir hafa verið svo slakir. EN það er óþarfi að hella olíu á eldinn með svona frammistöðu. Ef þeir klára leikina sína þá er hægt að enda með 94 stig. Þú tekur engan alvarlega sem segir að lið sem vinni deildina með 90+ stig sé bara að vinna því hinir voru svo slakir. Eiga eflaust eftir að tapa fleiri stigum en okkar menn verða bara að gera betur.

        1
  13. Discover the secrets to achieving optimal wellness with our expert guidance. From mindful movement and natural skincare to gut health supplements and digital detox retreats, our comprehensive resource covers it all. Learn how to prioritize your mental health, boost your energy, and nourish your body with our actionable tips and expert advice. Whether you’re looking to improve your sleep hygiene, optimize your fitness routine, or simply find a sense of calm, we’ve got you covered. Explore our curated content and start your journey towards a balanced, holistic lifestyle today!

    Wellness Retreats

Leave a Reply to Hjalti Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Byrjunarliðið gegn Fulham