Tímabilið hjá kvennaliðinu er farið að líkjast því hjá strákunum að því leyti að nú er bara deildin eftir, og leikjunum sem eru eftir fer fækkandi. Það eru aðeins fjórir leikir eftir, og í dag kl. 11:30 munu þær heimsækja Brigthon í lykilleik í baráttunni um 5. sætið í deildinni.
Það eru langflestar af okkar konum leikfærar, í raun eru það bara Sofie Lundgaard og Zara Shaw sem eru í langtímameiðslum, og það er ekki alveg vitað hvenær Hannah Silcock kemur til baka. En svona stillir Amber liðinu upp í dag:
Laws
Hinds – Fisk – Bonner – Bernabé
Kerr – Nagano
Smith – Höbinger – Holland
Kiernan
Bekkur: Micah, Parry, Evans, Clark, Matthews, Bartel, Kapocs, Roman Haug, Enderby
Manni sýnist að Yana Daniels komist einfaldlega ekki á bekkinn, og Faye Kirby er utan hóps sömuleiðis.
Grace Fisk er komin í miðvarðarstöðuna sem mætti færa rök fyrir að sé hennar besta staða, frekar en í bakverði eða vængbakverði. Líklega erum við svo að tala um að þetta sé 4231, en það kemur betur í ljós þegar leikurinn hefst. Annars er áhugavert að Kiernan fái sénsinn uppi á topp á kostnað Sophie Roman Haug, en svosem gott að eiga hana inni af bekknum hvort eð er. Það eru hins vegar ekkert mjög margir möguleikar þegar kemur að því að skipta inn miðjumönnum, í raun er Julia Bartel eini hreinræktaði miðjumaðurinn á bekknum.
Það verður hægt að sjá leikinn á YouTube eins og venjulega: https://www.youtube.com/watch?v=EGyyq7eFqTc
KOMA SVO!!!!
Fínn 1-2 sigur með mörkum frá Smith og Kiernan. Okkar konur áttu fyrri hálfleikinn með húð og hári, en Brigthon komu sterkari til baka í síðari hálfleik og náðu einu marki inn eftir ákveðinn klaufaskap í vörninni. En 5. sætið er okkar í bili a.m.k.
Næsti leikur er svo gegn Spurs á heimavelli á sunnudag eftir viku, rétt áður en strákarnir okkar mæta Spurs á heimavelli.
Það var lagið! YNWA!