Merseyside derby á Anfield hjá kvennaliðinu

Við minnum á upphitunina síðan í gær fyrir leik dagsins hjá strákunum núna á eftir.

Núna kl. 11:00 mæta stelpurnar okkar grannkonum sínum í Everton, og þetta verður síðasti leikurinn á leiktíðinni sem þær spila á Anfield. Þetta er í fyrsta sinn sem liðið hefur leikið meira en einn leik á Anfield á sömu leiktíðinni, og uppskeran hingað til er með ágætum: fyrsta markið (og mörkin), og fyrsti sigurinn. Nú væri gaman að bæta í safnið fyrsta Anfield sigrinum á Everton, en þær hafa verið ansi óþægur ljár í þúfu hjá okkar konum upp á síðkastið.

Fyrri leikur liðanna á Goodison Park endaði með ósköpum þar sem hinar bláklæddu fengu víti eftir brot sem var meira en meter fyrir utan teig. Við vonum að það verði ekki sambærileg fíaskó í dag, en þetta er bara enn frekar ástæða til þess að vinna.

Byrjum á smá fréttum af leikmannamálum, en í gær var gefið út að þær Jasmine Matthews, Yana Daniels og Teagan Micah muni ekki halda áfram sem leikmenn Liverpool á næsta tímabili eftir að samningar þeirra renna út í sumar. Þetta þarf svosem ekki að koma á óvart, vissulega er stutt síðan Micah kom til liðsins, en hún hefur einfaldlega ekki náð að stimpla sig inn sem aðalmarkvörður og er líklega ekki af því kaliberi sem klúbburinn þarf. Líklega mun því nýr markvörður koma inn í sumar. Matthews og Daniels eru svo með elstu leikmönnum í hópnum, bæði aldurslega séð og hvað varðar leikreynslu, og bara tímabært að þær stígi til hliðar og gefi yngri leikmönnum séns. Þær hafa líka ekki átt fast sæti í byrjunarliðinu, en Matthews hefur vissulega komið sterk inn þegar á hefur þurft að halda.

Þá var loksins tilkynnt opinberlega að Niamh Fahey ætli að leggja skóna á hilluna í lok tímabils, nokkuð sem er búið að liggja í loftinu í talsverðan tíma. Hún er líka með elstu konum, hefur lítið spilað, og þetta var einfaldlega óumflýjanlegt. Virðist nokkuð ljóst að hún muni snúa sér að þjálfun í framhaldinu, og verður spennandi að sjá hvert það leiðir hana.

Semsagt, það má reikna með fjörugum sumarglugga hjá stelpunum, rétt eins og hjá strákunum.

En þá að leik dagsins. Svona verður stillt upp:

Laws

Fisk – Clark – Bonner – Hinds

Kerr – Nagano

Smith – Höbinger – Holland

Roman Haug

Bekkur: Micah, Kirby, Evans, Fahey, Matthews, Daniels, Bartel, Kapocs, Enderby

Þetta virðist vera sterkasta liðið sem völ er á, og ekkert víst að það myndi líta neitt mikið öðruvísi út þó allar væru heilar. Líka nokkuð ljóst að það þarf að kaupa inn í sumar til að styrkja vörnina, nýjan markvörð, og eins þarf að styrkja bekkinn og gefa byrjunarliðinu á miðjunni og frammi meiri samkeppni.

Það er hægt að sjá leikinn á Youtube eins og venjulega.

KOMA SVO!!!!!

2 Comments

Skildu eftir athugasemd
  1. Enn eitt helvítis tapið gegn Everton á Anfield. Magnað hvernig uppskriftin er alltaf sú sama: þessar bláklæddu ná að pota inn marki, okkar konur liggja svo í sókn en ná einhvernveginn aldrei að tengja saman nógu margar sendingar því alltaf endar boltinn hjá andstæðingunum, og þegar þær komast í færi þá skjóta þær beint á markvörðinn.

    Þetta tímabil fer að verða svona ámóta böggandi eins og tímabilið hjá karlaliðinu er búið að vera frábært. Nú verður áhugavert að sjá hvað klúbburinn gerir í sumar varðandi nýjan þjálfara/stjóra hjá stelpunum, og hvaða leikmenn koma nýir inn.

Leave a Reply to Daníel Sigurgeirsson Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Chelsea á morgun

Byrjunarliðið gegn Chelsea: Endo og Quansah byrja