Fyrsti æfingaleikur sumarsins – leikþráður – 1-3 sigur niðurstaðan

Þá er komið að fyrsta leik sumarsins hjá strákunum okkar. Alveg ljóst að þetta verður erfitt tilfinningalega fyrir þá, fyrsti leikurinn eftir fráfall Jota. Andstæðingurinn er Preston North End, og það er búið að plana eitt og annað til að minnast bræðranna. Þessir æfingaleikir hafa aldrei skipt neinu máli nema til að ná mönnum aftur upp í rythma og hlaupagetu eftir sumarfríið, en þessi leikur í dag skiptir eiginlega enn minna máli eftir að við vorum minnt óþyrmilega á það hvað fótboltinn skiptir í raun litlu máli og hvað lífið er hverfult. En á sama tíma skiptir þessi leikur líka öllu máli þegar kemur að því að halda hópinn, sýna samstöðu, og halda merki fallins samherja á lofti.

Nokkur nöfn sem við sjáum ekki í dag, ekki allir búnir að tilkynna sig til leiks til Kirkby. T.d. vantar Wirtz, Alisson, van Dijk, Konate, Díaz og Mac Allister.

Eins og alltaf er í svona leikjum þá verður róterað hressilega, og svona á að byrja:

Mamardashvili

Bradley – Gomez – Stephenson – Tsimikas

Gravenberch – Nyoni

Salah – Szoboszlai – Ngumoha

Chiesa

Bekkur: Woodman, Pecsi, Endo, Nunez, Jones, Gakpo, Robertson, Doak, Kerkez, Frimpong, Nallo, Koumas, Morrison, Pilling

Ég stilli þessu upp í 4-2-3-1, en það er aldrei að vita nema þetta verði meira 4-2-4, eða hugsanlega 4-3-3, nú eða mögulega verður bara skipt um leikkerfi eftir behag.

Við uppfærum svo færsluna með úrslitum að leik loknum.


Leik lokið með 1-3 sigri okkar manna.

Auðvitað lítið hægt að dæma út frá fyrsta leik tímabilsins þar sem byrjunarliðið í fyrri hálfleik innihélt e.t.v. 3 leikmenn sem munu byrja fyrsta deildarleik, og þar sem liðið sem hóf seinni hálfleikinn var með líklega 2 byrjunarliðsmenn.

En við dæmum nú samt…. og tökum það helst út úr fyrri hálfleik að Rio og Nyoni eru ennþá gríðarlega mikil efni. Báðir þurfa að fá sinn tíma til að þroskast líkamlega, gleymum ekki hvað þeir eru ungir. Chiesa var í níunni og sýndi alveg flotta takta. Þessir þrír áttu allir þátt í undirbúningi fyrsta marksins sem Bradley skoraði eftir um hálftíma leik. Annars var hálfleiksins kannski helst minnst fyrir það að hérumbil þegar 20. mínútan var að hefjast þá byrjaði The Travelling Kop að syngja Diogo lagið, og gerði það í góðar 10 mínútur. Það var ekki í síðasta skipti í dag sem sá söngur fékk að hljóma.

Í seinni hálfleik var svo stillt upp með þetta lið:

Woodman

Frimpong – Nallo – Robertson – Kerkez

Endo – Jones

Doak – Koumas – Gakpo

Nunez

Sumsé, einu leikmennirnir sem ekki fengu mínútur voru Pesci, Morrison og Pillington.

Spilið í seinni hálfleik fór mjög mikið upp vinstri kantinn, þá í gegnum Kerkez og Gakpo, en það var Nunez sem skoraði snemma í hálfleiknum eftir að hafa verið vakandi fyrir slakri sendingu til baka og renndi boltanum framhjá markverðinum. Að sjálfsögðu tók hann svo Jota fagnið. Preston skiptu mönnum útaf eftir um klukkutíma leik, og urðu talsvert hættulegri í framhaldinu. Woodman varði mjög vel í eitt skiptið, en kom engum vörnum við skömmu síðar þegar heimamenn minnkuðu muninn í 2-1. Varnarleikurinn í tæpasta lagi í þessu horni, en Preston áttu svosem alveg skilið að ná inn marki. Undir lokin kom svo rothöggið þegar Doak vann boltann hægra megin, gaf inná teig, Nunez lét boltann fara og Gakpo var á auðum sjó og skoraði af öryggi. Hann tók líka eitt gott Diogo fagn.

Kerkez og Frimpong lofuðu báðir góðu, við sáum meira af Kerkez þar sem uppleggið virtist verða til þess að hann var meira í boltanum. Robbo var í frekar nýlegu hlutverki í miðverði, mig minnir að sú tilraun hafi nú ekki gengið neitt svakalega vel í fyrra þegar það var prófað, en ef hann lærir það hlutverk betur þá gæti það e.t.v. orðið til þess að lengja í tímanum sem hann getur spilað fyrir félagið, og gæti aukið valkostina sem Slot hefur í að stilla upp miðvörðum. Nallo sýndi betri takta en hann náði að sýna á þessum 5 mínútum í Meistaradeildinni á síðasta tímabili, og gæti alveg verið valkostur í deildarbikarnum í haust. Doak var nokkuð ósýnilegur í fyrri hluta hálfleiksins – líklega af því að hann var að spila hægra meginn en boltinn var mest vinstra megin – en var öflugri seinni partinn, átti m.a. sterkt tilkall til að fá vítaspyrnu á einum tímapunkti og lagði svo upp lokamarkið.

Semsagt, engir stórudómar sem falla eftir þennan leik, bara ofboðslega gaman að sjá strákana aftur úti á vellinum, en eins og við vissum þá var þetta líka erfitt tilfinningalega af augljósum ástæðum.

18 comments

  1. Hefði verið gaman að sjá Wirtz fá smá tíma í dag en hlakka til að sjá Mamardashvili í markinu og svo þá Frimpong og Kerkez í seinni hálfleik..
    Svo verður áhugavert að sjá hvort að Ben Doak eigi framtíð hjá félaginu .

    3
  2. Nunez og Bradley búnir að skrá sig á markaskoraralista ársins / vetrarins.

    2
  3. Fínast fyrsti leikur gaman að sjá nokkra nýja og einhverja unga þessi Rio leit vel út.

    1
    1. Ekkert frekar en um Wirtz, Mac Allister, Alisson o.fl. Þeir bara mættu missnemma til æfinga og það er ekki verið að taka neina sénsa með að spila leikmönnum sem eru kannski bara nýmættir.

      6
      1. Já — en þessir tveir eru byrjunarmenn sem hafa verið í umræðunni um sölu.

  4. Vá ekkert smá fallegt móment eftir leik, þessir stuðningsmenn eru annað level, þvílikur stuðningur og þvílík stund til að minnast Diogo Jota#20
    Leikmenn og þjálfarar klappa og syngja honum til heiðurs.
    Vonandi þjappa þeir sér vel saman og ná að syrgja saman.

    4
  5. Sælir félagar

    Liverpool liðið fór aldrei úr fyrsta gír og lága drifinu en vann þennan leik auðveldlega þrátt fyrir að Peston menn sýndu mikla baráttu og legðu sig alla fram. Rio er ansi lofandi leikmaður og Doak átti lipra spretti. Unglingarnir voru það sem maður var helst að horfa á og þeir voru allir fínir fannst mér. Svo má geta þess að Darwin átti fían leik og einnig Mamardasvili semlofar góðu. Sobo var fínn líka en annars var liðið allt þungt og hægfara enda rétt komið til æfinga og eins og áður sagði bara í lága drifinu.

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  6. Sælir.

    Mér finnst alltaf gaman að horfa á æfingaleiki þar sem maður sér nýja leikmenn og unga leikmenn fá tækifæri til að sýna sig. Mér fannst allir ungu leikmennirnar spila vel. Það var helst Koumas sem komst ekki í takt við leikinn.

    2
  7. Í dag fór Sesko að fylgja Liverpool á samfélagsmiðlum.

    Svosem ekkert haldbært slúður í kringum þetta, svo mönnum er frjálst að lesa eins og þeir vilja í stöðuna.

    Einhverjir vilja meina að umboðsmaður hans sé að reyna að koma honum til Liverpool. Þess má geta að Sesko var nýlega í viðræðum við Arsenal en þar á bæ þótti mönnum Sesko fara fram á allt of há laun.

    0
  8. Alveg er það hrollvekjandi að sjá Donald Trump á liðsmynd Chelsea þegar þeir lyfta dótabikarnum. Frábær leikur hjá þeim, en ömurlegir leppalúðar allt í kringum þessa keppni.

    3
  9. West Ham vill kaupa Harvey Elliott og Tyler Morton fyrir 65 milljónir punda.

    1. Ég myndi vilja sjá Elliott spreyta sig í Bundesligunni. Þar kunna menn að meta svona baráttuhunda sem aldrei gefast upp.

  10. Smá pæling (um félagsskiptamál / -sölur frá Liverpool).

    Hversu mikils virði er Liverpool uppeldið, er hægt að vinna eitthvað nýtt upp úr nýjum tækifærum?

    Hversu mikils virði er löngunin að fá (endurtekin) tækifæri og vilja slá í gegn hjá Liverpool? … og vinna frekar með það, alltaf þegar frekari tækifæri bjóðast? (Að því gefnu að viðkomandi sjá tækifærin bjóðast til tæklunar.)

    (Ég er sem sagt að tala um þá sem komast snemma á sæmilegt blað, ekki þá sem eru seldir í uppgripum út úr akademíunni án þess að vinna sér inn tækifæri.)

    Hvenær er rétt að selja? Strax í akademíunni eftir 1-3 tilraunir að hausti? Strax þegar akademían “klárast”? Strax eftir fyrsta vetur á bekknum án mikilla tækifæra, eða eftir smá innákomur í “preseason”, fyrstu umferðum í deildarbikar, mögulega fyrstu í FA og jafnvel mögulega í CL?

    Hverjum eigum við að gefa frekari tækifæri núna fyrir og fram á fyrstu haustmánuðina, jafnvel fram í janúar?

    Hér er ég vissulega ekki að biðja fólk um að afgreiða þá sem fengu sín fyrstu tækifæri í dag. Heldur frekar þá sem komnir eru með reynslu. Reynslu sem mætti (ætti að) meta frá fyrra sprikli til að siga þeim á möguleg meiri tækifæri í haust af því að fyrri fyrrirstaða er farin.

    Dæmi: Bradley (augljóslega), Tsimikas (Simmi) af því að það hægist á Robba (og hann gæti átt sér þjóðlendur annarsstaðar á vellinum). Er eitthvað ofurslæmt að Simmi fá tækifæri til að slá út Kerkez í 1-2 vetur? Jones? … Má hann fá tækifæri til að þróa og benda á sitt sprikl (ég er mjög jákvæður gagnvart Jones) gagnvart nýjum hópi leikmanna? Nunez? (Sjálfur gef ég Darwin alveg haustið til að sprikla sitt eða nýtt sitt.) Robbi, má hann sprikla í öðru hlutverki? Núna 2. – 4. fyririliði vetrarins, hvar nýist hann. Hann átti t.d. mjög góða blokkeringu í dag.

    Þið skiljið vonandi hvaða sjónarhorn ég er að reyna að tala um!

    Hvaða tækifæri viljið þið í raun gefa þeim eru nú þegar með einhverja þjálfun til Liverpool verka?

    Ykkar hugmyndir?

Leave a Reply to Sigurður Þorbjörn Magnússon Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Fréttir af kvennaliði Liverpool