Nær Liverpool að kaupa fleiri leikmenn?

Liverpool virðist einhvernvegin á hverju sumri á að koma sér í þá stöðu að leikmaður sem félagið vill kaupa verður stærsta saga sumarsins (og endar oftar en ekki á að hann fari eitthvað annað eða ekki neitt). Eins vel og glugginn byrjaði hjá Liverpool þá er Alexander Isak orðin þessi saga í þessum glugga og útlitið ekkert endilega gott. Leikmannagluggi Liverpool í sumar er bara alls ekki nógu góður takist ekki að klára kaupin á Isak eða álíka stórum sóknarsinnuðum leikmanni. Ekitike er ekki nóg til að fylla skarð Jota, Nunez, Diaz og Doak. Ngumoah er sannarlega spennandi en 16 ára pjakkur er ekki svarið heldur.

Sama með miðvörð, takist ekki að kaupa nýjan leikmannn þar er hópurinn allt of þunnur og salan á Quansah fullkomlega galin.

Isak er sannarlega búinn að gera það sem hann getur til að fá félagsskiptin í gegn og það er kannski það sem er öðruvísi en þegar Liverpool var orðað við Caicedo, Bellingham o.s.frv. Hann mætti ekki á PFA verðlaunin í gær þar sem Salah var valin leikmaður tímabilsins í þriðja skipti. Þess í stað gaf Isak frá sér yfirlýsingu til að útskýra afhverju hann teldi ekki rétt að mæta og eins að Newcastle hefði svikið loforð sem honum voru gefin og traustið til þeirra væri farið.

Það er líka eins og leikmannamarkaðurinn undanfarna daga hjá Úrvalsdeildarliðunum sé eingöngu leikmenn frá öðrum Úrvalsdeildarliðum. Newcastle er að reyna kaupa Wissa frá Brentford sem gengur álíka vel og önnur leikmannakaup hjá þeim. Kaup á honum myndu kannski hjálpa eitthvað við að losa Isak. Það er reyndar ný þróun að öll leikmannakaup séu orðin eins og fasteignamarkaðurinn, ekki hægt að selja nema vera búið að klára kaup á öðru í staðin áður.

Núna eru fréttir að berast þess efnis að Arsenal er að klára kaup á Eze frá Crystal Palace fyrir framan nefnið á Tottenham og þetta gæti einhvernvegin haft áhrif á leikmannakaup Newcastle, Spurs er nefnilega nú talið vilja kaupa Wissa sem spilaði jú undir stjórn Frank hjá Brentford. Auðvitað bara.

Kaupverð leikmanna Liverpool voru ekki lítið blásin upp í byrjun sumars, meistararnir sem keyptu ekkert síðasta sumar voru að kaupa titilinn og fleira á þeim nótunum. Núna er staðan þannig að Nettó eyðslan er um €120m og líklega fleiri á leiðinni frá félaginu. Arsenal er búið að kaupa leikmenn fyrir um £120m meira nettó sem dæmi. Það má líka ekki gleyma að Liverpool þarf að fylla skarð Trent Alexander-Arnold og Diogo Jota án þess að fá neitt nálægt virði þeirra í staðin. Frimpong og Ekitike samtals á €135m eru líklega kostnaðurinn við það.

Crystal Palace er núna að selja Eze og þurfa í raun ekki að selja leikmenn í sumar, það er spurning hvort þeir vilji ekki frekar halda bara Guéhi úr þessu og láta hann klára samninginn sem yrði til þess að Liverpool bætir honum ekki við hópinn. Kaupin á Leoni frá Parma um daginn eru spennandi en 18 ára pjakkur frá Ítalíu er vægast sagt áhætta sem eina viðbótin við vörnina í sumar. Hann er fyrsti miðvörðurinn sem Liverpool kaupir síðan sumarið 2021 þegar Konaté kom.

Svona nokkurnvegin er staðan á leikmannahópum liðanna sem við spáum í efstu fimm sætunum á þessu tímabili:

Hvað haldið þið, löndum við Isak og Guéhi? Eða einhverjum öðrum?

Það verður fínt þegar glugganum lokar en Liverpool þarf sannarlega að fylgja eftir frábærri byrjun á glugganum með frábærum endaspretti, það er ekki búið að gera nóg eins og staðan er núna.

 

One comment

  1. Hef lengi verið hrifinn af Eze og finnst fúlt að sjá hann fara til Arsenal. Liverpool getur auðvitað ekki keypt alla þá leikmenn sem maður er hrifinn af en Eze er brilliant fótboltamaður og gæti tekið sín stats á annað level hjá Arsenal. Jafnvel síðasta púslið hjá Arteta því þetta er orðinn hörku hópur á besta aldri.

    Að því sögðu er núna möst að klára Isak og Guhei a.m.k. Ef lfc selur Elliott og Tsmikas og klárum ekki hina tvo og net spend cirka 65m.p. þá erum við í skítamálum uppá breidd sóknarlega. Ég neita að trúa því að glugginn loki svoleiðis.

    Leoni lúkkar en með 30 senior leiki að baki vill hann væntanlega spila eitthvað. If you’re good enough, you’re old enough. Mögulega þarf hann smá aðlögunartíma en líkamlega er hann klár. Ég held og vona að þarna sé framtíðar miðvörður kominn.

    Áfram kem ég minni kvörtun á framfæri að salan á Diaz er fáránleg og sá maður átti meira skilið í sínu launaviðtali.

    1

Leave a Reply to Tigon Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Gullkastið – Ballið Byrjað