Um Moneyball og stefnu Liverpool í leikmannamálum

Í umræðu tengdri leikmannakaupum Liverpool er oft fjallað um Moneyball og það er ljóst að sumir virðast misskilja úta hvað hugtakið gengur. Ég hef lengi haft áhuga á hafnabolta og las Moneyball bókina hans Michael Lewis fyrir nokkrum árum. Ég ákvað því að segja aðeins lauslega frá mínum skilningi á hugtakinu og megin lærdómi bókarinnar.

Bókin Moneyball fjallar um Billy Beane, stjóra Okaland Athletics. Liðið er frekar lítið í hafnaboltadeildinni og hann gat ekki borgað leikmönnum há laun. Það sem Billy Beane kom auga á voru ýmsir gallar á því hvernig eigendur annarra liða mátu leikmenn í hafnabolta. Gamlir kallar í boltanum, sem unnu sem njósnarar, voru oft að verðleggja leikmenn út frá hugmyndum, sem hann taldi rangar og gamaldags.

Hugmyndir einsog:

1. Að einblína mikið á það hvernig leikmaður bar sig á velli.
2. Að einblínia um of á galla leikmanna, sem koma ekki frammistöðunni við.
3. Að lesa alltof mikið útúr því hvernig menn standa sig í háspennuleikjum.
4. Að horfa fyrst og fremst á hversu mörg stig menn hjálpuðu liðinu að skora.
5. Að fókusera of mikið á karakter og athafnir leikmannsins utan vallar.

Ansi margt af þessu er hægt að færa yfir á fótbolta – og sumt á ekki svo vel við. Aðallega vegna þess að hafnabolti er að mörgu leyti einstaklingsíþrótt, en fótbolti er hópíþrótt. Í hafnabolta er miklu einfaldara að meta einstaklingana út frá tölfræði. Hafnaboltalið getur haft mjög veika hlekki en samt verið gott lið á meðan að í hópíþróttum með miklu samspili einsog í fótbotla eða körfubolta þá getur einn slæmur leikmaður skemmt fyrir öðrum.

Moneyball gekk útá að meta leikmenn út frá hrárri tölfræði (og þá oft nýrri sýn á tölfræði) í stað þess að einblína á þessa þætti sem ég tala hérna um.

En förum aðeins yfir þessa þætti og hvernig þeir geta átt við um fótbolta.

1. Menn einblína oft of mikið á það hvernig menn líta út á velli. Ef þú sæir Lucas Leiva og Lionel Messi inná fótboltavelli í fyrsta skipti við hliðiná Steven Gerrard og Didier Drogba, þá myndirðu sennilega telja að Gerrard væri mun betri varnarmiðjumaður en Lucas og að Drogba væri mun betri framherji en Messi. En það er ekki svo og menn verða að læra að horfa framhjá útliti. Þetta er sérstaklega mikilvægt í yngri flokkunum þegar að stærri strákar fá oft miklu meiri athygli en þeir minni. Í Moneyball er líka bent á að menn eru oft dæmdir út frá andlitinu einu saman. Það er til dæmis mjög erfitt að trúa því að þessi gaur sé harður varnamiðjumaður.

2. Að einblínia um of á galla leikmanna, sem koma ekki frammistöðunni við. Þetta var mjög mikilvægt í Moneyball bókinni. Gömlu njósnararnir sáu leikmenn, sem voru góðir að slá, en kvörtuðu yfir því að þeir væru lélegir í vörn. En Beane benti á að varnarleikur væri ofmetinn í hafnabolta. Þetta er kannski ekki jafn stór hluti í fótbolta þar sem það skiptir jú meira máli að menn geti gert alla hluti á vellinum. Það gengur oftast ekki í alvöru fótbolta að sóknarmenn séu algjörlega ómögulegir í varnarvinnunni. En fyrir mjög sérstaka leikmenn þá geta hæfileikar á einu sviði verið svo miklir að varnarvinnan skiptir engu máli. Ef Messi væri í Liverpool þá væri mér nokk sama þótt hann kæmi aldrei aftur fyrir miðjulínu þar sem að hæfileikar hans í sókninni eru svo miklir.

Hvaða máli skiptir það þótt að Lucas sé ekki heimsins besti skallamaður?  Hann er oftast staðsettur þar á velli sem að ekki margir skallaboltar koma.  Hvaða máli skiptir það að Dani Alves sé ekki besti varnarbakvörður í heimi þegar hann er svo ótrúlega góður framar á vellinum?  Að einblína um of á gallana getur verið hættulegt.

3. Að meta frammistöðu leikmanna í háspennuleikjum er oft erfitt. Blaðamenn og við aðdáendur eigum það til að leggja alltof mikla áherslu á góða frammistöðu í stóru leikjunum og við tökum oft eftir leikmönnum eingöngu þegar þeir hafa gert eitthvað virkilega flott.

Marti Skrtel á kannski frábæran leik þar sem hann stöðvar 20 sóknir með réttri hreyfingu eða með að pota boltanum frá sóknarmanninum. En við aðdáendur tökum kannski ekki eftir því fyrr en að hann tekur eina góða tæklingu á sóknarmann í lok leiksins. Þá allt í einu segjum við sjálfa okkur “Vá hvað Skrtel hefur verið frábær í þessum leik”. Skrtel hefði átt frábæran leik með eða án þessarar tæklingar, en við hefðum ekki tekið eftir þeirri frammistöðu jafn mikið. Þetta eiga njósnarar og þeir sem að vinna í leikmannakaupum að geta horft framhjá. Ef að Agger stoppar 20 sóknir og á enga flotta tæklingu en Skrtel stoppar 10 sóknir og á tvær massífar tæklingar, þá eiga njósnarar að geta horft framhjá tæklingunum og séð að Agger átti betri leik.

Cristiano Ronaldo er ekki góður gegn Barcelona, en hann hjálpar Real Madrid að vinna fleiri fleiri leiki gegn minni liðum.  En oft fókuserum við bara á þá staðreynd að hann er slappur gegn Barca.

4. Að einblína um of á gamla og ófullkomna tölfræði. Í hafnabolta var áður fyrr gríðarlega mikið horft á RBI tölfræðina. Hún þýðir “runs batted in”. Beisiklí ef að Kristján Atli er á þriðju höfn og ég er að slá og ég næ að slá ágætum bolta og Kristján Atli hleypur í höfn, þá fæ ég eitt “RBI” fyrir. En til þess að ég fái þetta RBI þá þurfa tveir hlutir að gerast.

– Ég þarf að hitta boltann rétt
– Kristján þarf að vera á höfn.

Ég get stjórnað hluti númer 1, en ég get ekki stjórnað númer 2. Ef ég er í liði með eintómum haugum þá fæ ég ekki mörg RBI þar sem það er aldrei neinn á höfn. En meðalmaður í frábæru liði fær fulltaf RBI vegna þess að hinir leikmennirnir eru alltaf að komast á hafnirnar.  Menn fá því ekki nægilegar upplýsingar um getu leikmanna ef þeir fókusera of mikið á RBI tölfræðina.

Þetta á heldur betur við um fótbolta. Við horfum langmest í sóknarleik á tvo tölfræðipunkta – annars vegar mörk skoruð og hins vegar stoðsendingar. Stoðsendingatölfræðin getur auðvitað verið fáránlega villandi. Tökum sem dæmi hornspyrnur. Þú getur tekið hina fullkomnu hornspyrnu tíu sinnum í leik en ef að þínir samherjar á teignum geta ekki neitt, þá færðu aldrei stoðsendingu. Steven Gerrard getur tekið 10 hornspyrnur í einum leik þar sem að Carragher og Agger eru inná teig án þess að fá eina stoðsendingu. En ef að Kyrgiakos og Hyppia eru inná teignum og Gerrard tekur eins hornspyrnur þá fær hann allt í einu tvær stoðsendingar.

Njósnarar verða að spyrja sig: Hvor er betri leikmaður – Gerrard sem tók spyrnuna á Carra eða Gerrard sem tók spyrnuna á Hyppia? Svarið er auðvitað að Gerrard er sami leikmaðurinn en hlutir sem hann hefur enga stjórn á hafa breyst.

Þannig að þegar að við einblínum á Stewart Downing þá sér maður að hann hefur ekki skorað í deildinni og enga stoðsendingu átt. En hefur Downing verið fuillkomlega ömurlegur í vetur? Nei, auðvitað ekki. Ef að ég hefði spilað á kantinum fyrir Liverpool í vetur þá hefði ég ekki verið með verri tölfræði en Downing hvað varðar mörk og stoðsendingar.  En Downing er þrátt fyrir það sirka 1800 sinnum betri knattspyrnumaður en ég.

Þeir sem hafa atvinnu af því að fylgjast með fótboltamönnum verða auðvitað að geta horft framhjá stoðsendingatölfræðinni og séð hvað annað Downing gerði. Átti hann til dæmis sendingar á rétta staði? Átti hann tíu bolta inní teig á réttan stað fyrir framherja, en gallinn var bara að framherjinn var ekki á rétta staðnum?  (og bara til að hafa hlutina á hreinu, þá er ég á því að Downing hafi valdið gríðarlegum vonbrigðum í vetur, en hann hefur ekki verið jafn hræðilegur og 0-0 tölfrðin gefur til kynna).

Svipað er hægt að skoða varðandi mörk. Ef þú hefðir skipt á mér og Luis Suarez í nokkrum leikjum í vetur þá hefðum við sennilega skorað jafnfá mörk. En Suarez hefur gert 100 aðra hluti. Hann hefur átt ótal skot, sem að markmenn hafa varið á ótrúlegan hátt. Mörk og markskot eru mismunandi. Ef þú horfir á fimm vítaspyrnur, sem að Steven Gerrard og Robin van Persie skora úr, þá þarf samt engan speking til að sjá að van Persie er betri vítaskytta. van Persie skýtur skotum sem að enginn mennskur markmaður mun nokkurn tímann verja, á meðan að margar spyrnur sem að Gerrard hefur skorað úr fyrir Liverpool hafa verið mörk vegna þess að markmenn hafa kastað sér í vitlaust horn. Svona hluti verða menn að skoða – en ekki bara álykta að þeir séu jafngóðar vítaskyttur af því að þeir skoruðu báðir úr spyrnunum fimm.

5. Að fókusera of mikið á karakter og athafnir leikmannsins utan vallar. Beane sá að í mörgum tilfellum voru frábærir leikmenn verðminni í augum annarra vegna þess að þeir höfðu einhvern tímann gert eitthvað af sér utan vallar. Þetta á auðvitað mjög vel við um fótbolta og Liverpool hefur einmitt verið mjög óhrætt við að kaupa leikmenn sem voru umdeildir vegna athafna ótengdum fótbolta. Menn einsog Carroll, Bellamy og Suarez. Sumir leikmenn eru dæmdir alla ævi vegna þess að þeir voru fullir og vitlausir þegar þeir voru 19 ára gamlir. Það er oft á tíðum alveg fáránlegt.

* * *

Þannig að þessi Moneyball taktík er miklu flókarni en að segja bara að góð ódýr kaup séu Moneyball kaup.  Kannski skoðuðu Newcastle menn Ba út frá tölfræðinni og sáu eitthvað sem að menn hjá West Ham sáu ekki. Eða kannski voru þeir bara heppnir – gátu fengið Ba ókeypis og ákváðu að taka sjensinn og hann passaði svo inní þeirra lið. Það er erfitt að segja hvaða strategíu menn nota án þess að vita meira.

Og það er í raun erfitt að sjá líka hvað Liverpool er að spá. Var Downing keyptur útaf því að tölfræðin benti til þess að hann væri 20 milljón punda virði fyrir lið með góða framherja einsog Liverpool menn töldu sig hafa síðasta sumar. Eða var hann bara keyptur vegna þess að hann var enskur, fullur af enskum “fighting spirit”. Það vitum við ekki og getum því ekki dæmt hvaða hugmyndafræði liggur að baki þessum kaupum.

Kanski er líka ágætt að liðið sé ekkert alltof mikið að tala um sína stefnu í þessum málum. Um leið og Moneyball bókin var skrifuð þá byrjuðu menn að apa eftir Oakland liðinu og liðið er í dag mjög slappt. Góður árangur Beane fór að leiða til þess að það var erfiðara fyrir hann að fá leikmenn ódýrt. Um leið og hann vildi leikmann þá byrjuðu eigendur hins liðsins að gruna að þeirra leikmaður væri verðmætari en þeir héldu og því hækkaði verðmiðinn.

Við vitum að John Henry hefur mikið álit á Beane. Hann bauð honum að koma til Red Sox og þegar að það tókst ekki réð Henry Theo Epstein, sem hafði sömu skoðanir og Beane. En þrátt fyrir það þá vitum við ekki enn almennilega hver stefnan er og það kemur sennilega ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár.

33 Comments

  1. Frábær útskýring Einar Örn á konseptinu Moneyball, bara snilld.

    Held einmitt að hugmyndin með Downing hafi verið að hann hefur nú um langt skeið verið í topp fimm yfir heppnaða krossa í deildinni og menn hafi horft til þeirrar tölfræði, hugsað út í það að með betri leikmönnum í kringum sig yrði hann enn betri. Sá nýlega að hann var sá leikmaður sem skapaði flest færi í deildinni í vetur með sendingum sínum, en 52 af sendingum hans voru metin hafa leitt til “chances” – hvernig sem það er nú fundið út.

    Jordan Henderson hefur gríðarlega sterka þætti í sinni hlaupagetu og heppnuðum sendingum, þær eru ekkert alltaf rosalega langir draumaboltar en á móti á hann afar fáar misheppnaðar sendingar.

    Charlie Adam flokkast svo örugglega undir flokk no. 2 – hans föstu leikatriðisboltar og 50 metra skiptingar í Blackpool voru klárlega eiginleikar sem menn voru að leita eftir þegar hann var keyptur, og þá var t.d. litið fram hjá því að hann er frekar hægur og ekki mikill takklari.

    Bellamy fellur svo undir lið nr. 5, leikmaður með gríðarlegan hraða og mikinn karakter með alls konar farangur í bakpokanum sem ekki er ástæða til að láta fela.

    Hins vegar verður ekki litið framhjá því að margir þessara leikmanna náðu ekki þeim hæðum hjá okkur sem ætlað var og það er auðvitað vandinn, og um leið spurningin að vakna hvort hugmyndafræðin virkar í fótbolta. Slíkt kemur í ljós því Henry hefur trú á því – svo mikið er ljóst!

  2. Mjög sammála þessu. Í rauninni fór Moneyball greinin hjá Kristjáni Atla í taugarnar á mér því það var bara allt saman sem Newcastle gerði kallað “Moneyball”. T.d. sagði hann minnir mig að kaup á ungum og ódýrum mönnum væru skýr merki um Moneyball en ég hélt einmitt að Moneyball hugmyndafræðin einblíndi minna á aldur ef tölfræðin hjá leikmanninum væri enn nægilega góð. Mjög góður punktur líka varðandi stoðsendingarnar og hversu villandi sú tölfræði er. Maður væri frekar til í að vera oftar uppfærður af upplýsingum um fjölda skapaðra færa fyrir samherja.

  3. Mjög flott grein. Ég hef ekki lesið bókina en lesið mér talsvert til um þetta moneyball-dæmi allt síðan FSG eignuðust Liverpool. Og horft á myndina með Brad Pitt, en það telst varla með. 🙂

    Annars tók ég Newcastle sem dæmi um Moneyball einmitt af því að mörg af leikmannakaupum þeirra hafa einkennst af mörgum af þessum atriðum sem Einar Örn tínir til hér að ofan. Til dæmis var Papiss Cisse ekki verslaður af öðrum liðum af því að hann hafði átt í agavandamálum í Þýskalandi. Newcastle tóku sénsinn á honum, fengu hann á betra verði fyrir vikið, og eru allavega enn sem komið er að stórgræða á því. Demba Ba stóðst ekki læknisskoðun hjá Stoke í fyrra en Newcastle tóku sénsinn á honum og græddu á því líka. Það er kannski ekki orðrétt nákvæmlega það sem Einar Örn tekur til hér að ofan en í báðum þessum tilfellum eru leikmennirnir ‘afskrifaðir’ af öðrum liðum en Newcastle horfa öðrum augum á leikmannamatið og taka sénsinn.

    Annað gott dæmi um Moneyball sem mér datt strax í hug þegar ég las pistilinn hjá Einari er Dirk Kuyt. Hann hefur skorað 50+ deildarmörk á sex árum sem vængmaður hjá Liverpool en sumum hefur aldrei þótt hann nógu góður af því að hann hleypur of hægt. Við einblínum stundum of á galla leikmanna en ekki allt hið góða sem þeir koma með. Hraðaskortur er stór galli á leik Kuyt en hann hefur gefið okkur helling þrátt fyrir það. Sumir myndu segja nei við honum vegna skorts á hraða en skv. Moneyball-innlegginu gætu menn grætt á því að láta einn stóran galla ekki skyggja á alla kostina.

    En fín grein. Gaman að fá frekari útskýringar frá manni sem hefur lesið bókina. Og já, Newcastle eru að mörgu leyti dæmi um Moneyball. Ef það fer í taugarnar á þér Sveinn (#3), þá er það misskilningur af þínu leyti. Lestu greinina mína aftur með grein Einars hér að ofan í huga og þá er ég viss um að þú sérð hvað ég var að meina með því að tengja Newcastle við Moneyball.

  4. Var kannski full fljótur á mér því greinin sjálf fór ekki í taugarnar á mér, þvert á móti fannst mér hún áhugaverð og skemmtileg, en hins vegar fór það í taugarnar á mér þegar þú talaðir um kaup á ódýrum ungum leikmönnum sem pjúra moneyball kaup því eins og ég nefndi fyrir ofan hélt ég að skv. moneyball stefnunni væri meira horft framhjá aldri ef þú værir nógu góður. Tek það hins vegar fram að ég hef heldur ekki lesið bókina og án þess að ætla að nota myndina sem einhverja heimild að þá var einmitt í henni einhver gömul stjarna keypt því tölfræðin var ennþá nógu góð.

  5. Skemmtileg og fræðandi grein. Alltaf gott að lesa kop.is allt um klúbbinn á einum stað. Takk fyrir

  6. Hef bara eitt að segja… Takk!
    Frábær pistill í alla staði.

    Ps. Benni nr9: Ertu þriggja ára? Kíktu í pistil fyrir neðan sem heitir ‘Opin þráður..’ þar er verið að ræða þetta. Getur svo líka kíkt inn á fótbolti.net, liverpoolfc.tc, twitter og allar hinar síðunar til að fá svar við þessari spurningu. Finnst mjööög líklegt að þeir væru búnir að gera frétt efst ef það væri búið að reka hann 🙂

    YNWA

  7. Þú ert sem sagt að segja að við séum að fara að kaupa J.Barton?

    Til öryggis þá tek ég fram að þetta er djók.

    Frábær lesning.

  8. Flott grein – greinarhöfundur á heiður skilinn fyrir að skrifa svona góðan pistil.

    En eins og oft áður, þá er ég ekki alveg sammála öllu:

    Þannig að þegar að við einblínum á Stewart Downing þá sér maður að
    hann hefur ekki skorað í deildinni og enga stoðsendingu átt. En hefur
    Downing verið fuillkomlega ömurlegur í vetur? Nei, auðvitað ekki.

    Nú geri ég mér alveg fullkomlega grein fyrir því, að þú ert ekki að segja að Downing sé búinn að vera frábær á tímabilinu. Hins vegar mun öll heimsins tölfræði, sama hvaða nafni hún gengir, geta sannfært mig um neitt annað en að Downing olli massífum vonbrigðum á tímabilinu. Það er alveg sama hvernig á það er litið.

    Þó við getum notað þetta “moneyball” dæmi og sýnt fram á að einhver leikmaður sé góður á einhverjum mælikvarða, þá stendur sú staðreynd ein eftir – að 20 milljón punda leikmaðurinn Downing, lagði ekki upp eitt mark í deildinni, og enn síður skoraði hann mark.

    Til þess var hann keyptur – til að skora og leggja upp mörk. Ekki til að fylla út í leikskýrsluna, eða bara vera fallegur á leikskránni. Hann er kantmaður, á að heita enskur landsliðsmaður, og með mikla reynslu úr ensku deildinni. Hann – og Henderson – lögðu upp fjölda færa fyrir Aston Villa og Sunderland, og það áttu þeir að gera hjá Liverpool líka. Það tókst ekki. Ergo – þeir ollu miklum vonbrigðum.

    Að meta frammistöðu leikmanna í háspennuleikjum er oft erfitt.

    Nú ætla ég bara að fá að vera með leiðindi – því ég veit að þú átt ekki beint við það sem ég ætla að halda fram:

    Bestu leikmenn í heimi, eru þeir sem rísa upp þegar mest á reynir. Ronaldo var nokkurn veginn besti leikmaður í heimi. Nema að Messi var alltaf betri. Ronaldo gat aldrei neitt á móti Barcelona, þó hann væri ljósárum á undan öðrum … nema bara gegn öðrum liðum. Messi aftur á móti, hann týndist ekki í þessum stóru leikjum. Hann er maður stóru leikjanna, og þess vegna hefur hann verið besti leikmaður heims undanfarin ár. Ekki Ronaldo.

    Larry Bird er sennilega besti (hvíti) körfuboltamaður allra tíma, og Boston-maður, svo við tengjum hann við FSG og Liverpool! Hann sagði alltaf, að þegar liðið þurfti mest á honum að halda – t.d. í stórleikjum á lokasekúndunum – þá vildi hann fá boltann. Það sem skilur að bestu leikmennina frá hinum – karlmennina frá drengjunum – er að þeir stíga upp á slíkum stundum. Það er eitthvað sem hægt er að heimfæra á allar íþróttir.

    Eins og ég segi, þessi grein er flott. Ég vil samt ekki gleyma því að það er STÓR munur á hafnabolta og fótbolta. Menn leggja ekki sömu atriðin til grundvallar á gæðum leikmanna í hafnabolta og fótbolta. Eins og þú segir, hafnabolti er mun meira einstaklingsíþrótt heldur en fótbolti. Þú getur betur komist upp með að vera takmarkaður leikmaður í hafnabolta, en ef þú ert takmarkaður í fótbolta, þá kemur það alltaf niður á liðinu. Spearing, Downing, Henderson og Enrique er góð dæmi um það.

    Þetta moneyball dæmi er gott, svo langt sem það nær. En mér finnst einhvern veginn eins og menn hér séu margir farnir að líta á það sem eins konar trúarbrögð. Sem það er ekki.

    Homer

  9. Liverpool target Bojan Krkic insists he is happy at Roma despite a miserable debut season in Serie A! Read more: http://bit.ly/KsgFoT [via talkSPORT]

    veit ekki hvort að þetta sé truastur source og hvort að þetta sé satt/ósatt eða bara þetta hefðbundna slúður, en þetta yrði fróðlegt að sjá 🙂

    YNWA

  10. kantmenn eru dæmdir út frá 2 hlutum, stoðsendingum og mörkum… ef þeir eru ekki með nægt magn yfir 8-9 ára feril ! (eins og downing) þá eru þeir ekki nægjanlega góðir. sammála mörgu hjá þér í þessari grein, en þetta dæmi er einfaldlega rangt

  11. Virkilega góð grein. Skýr og vel fram sett.

    Mig langar til að bæta aðeins við ef ég má. Hugmyndin á bak við Moneyball er sú sama og hugmyndin á bak við viðskiptalíkan í samkeppnisumhverfi. Þ.e. það er ekki markmið í sjálfu sér að mæta í vinnuna. Það er ekki markmið í sjálfu sér fyrir smiðinn að negla nagla í planka eða fyrir sjómanninn að draga feitan fisk úr sjó. Markmiðið er að græða peninga á vinnunni eða skapa annan mælanlegan ávinning. Ávinningur er sem sagt afleiðing þess að margir orsakaþættir, s.s. röð tengdra atburða, hafa verið vel heppnaðir.

    Þetta leiðir til þess að stjórnandinn þarf að þekkja muninn á orsök og afleoiðingu. Til að græða peninga (skora mörk/vinna leik/vinna mót) þarft þú að skilgreina allar þær breytur sem að skipta máli sem orsök þess að ná fram ávinningnum (skora mörk/vinna leik/vinna mót). Breyturnar þarf að rannsaka tölfræðilega, tengja saman og skilgreina orsakasamhengið. Þessu lýsir Einar Örn vel t.d. þegar hann minnist á Downing. Hvaða álit sem menn hafa á Downing er það staðreynd að hann kemur mörgum krossum fyrir markið þótt þeir leiði ekki til marks. Viðfangsefnið er því að skoða afhverju leiða þeir ekki til marks? Hver er hin raunverulega orsök þegar allt ferlið, eða orsakakeðjan, er skoðað?

    Með því að hugsa fótboltaleik sem orsakasamhengi fjölda tölfræðilegra þekktra breyta er hægt að reikna fylgni tiltekinna eiginleika og ávinnings (sigurs) og meta hlut hvers leikmanns án bjögunar vegna þátta sem koma í raun sigrinum, eða árangrinum til langs tíma, ekkert við.

    Breyturnar í Moneyball konseptinu kallast Sabermetrics og ég sé ekkert sem kemur í veg fyrir að þessi hugmyndafræði sé yfirfærð á fótbolta enda þarf ekki annað en að lesa viðtöl við yngri stjóra til að sjá að þeir eru á fullu að nota þetta.

    Hafnarbolti og fótbolti eru vitanlega ólíkar íþróttir rétt eins og rekstur veitingahúsakeðju og rekstur útgerðar er ólíkur rekstur. Engum dettur í hug að reka ósambærileg fyrirtæki með sömu breytunum. En í báðum tilfellum þarf samt að hafa fótboltalegt viðskiptalíkan; breyturnar eru hins vegar ekki þær sömu og tölfræðin ekki sú sama, en markmiðið er það sama þ.e að sjá stóru myndina og ná árangri.

    Ég vil ekki vera neikvæður út í þann mikla snilling KAR en ég tek undir með einhverjum hérna sem skildi ekki, frekar en ég, hvernig Newcastle tengist Moneyball a.m.k. ekki með því að kaupa Cisse og Ba? Með fullri virðingu fyrir Pardew og hans liði held ég að þar hafi gott innsæi og heppni ráðið meiru en tölfræðilíkan byggt á Sabermetrics.

    En þetta konsept er alls ekki nýtt af nálinni per se. T.d. er þetta eitthvað sem flestir læra á 2-3 ári í vélaverkfræði og kallast decision analysis in open systems eða eitthvað ámóta. Stóra breikið í notkun þessarar hugmyndafræði verður þegar að fram kemur hugbúnaður sem gerði öllum kleift að stilla upp líkani, tengja breytur saman, gera Monte Carlo hermanir og allskonar prófanir. Í dag er þetta gert með þægilegum Excel add-ons en var frekar erfitt og leiðinlegt fyrir nokkrum árum.

    Ég hugsa að eldri knattspyrnustjóri eins og Kenny sem kom til leiks eftir langa fjarveru frá íþróttinni hafi ekki getað nýtt sér Moneyball hygmyndafræðina á sama hátt og t.d. Rafa. Ef þið lesið viðtöl við Rafa þar sem hann lýsir sínum aðferðum er hann að ræða nákvæmlega þetta konsept.

    Sorrí langlokuna; frábær grein hjá Einari og þótt þetta bæti sjálfu sér ekki miklu við var gott að koma þessu frá sér yfir morgunkaffinu.

  12. Takk fyrir þennan pistil um þetta Moneyball dæmi. Ég verð að viðurkenna að ég hef verið ansi ringlaður hvað þetta varðar. Mér var t.d. sagt að þetta snerist að miklu leyti um að spotta unga leikmenn á góðu verði, og selja þá svo aftur á miklu hærra verði þegar þeir eru orðnir toppleikmenn. Ég sagði þá að ég myndi nú frekar vilja vera í sporum liðsins sem kaupir leikmanninn þegar hann er orðinn toppleikmaður. Ég væri ekkert að græða á þessari sölu, bara einhverjir hluthafar, en liðið mitt yrði lakara.

    Umræðan um fjármál fótboltafélaga er stundum alveg stórfurðuleg. Það í sumum tilfellum engu líkara en að stuðningsmennirnir haldi að þeir séu að fá einhverjar prósentur af leikmannasölum, eða þá að þeir séu sjálfir að leggja út fyrir leikmannakaupum. Þetta er t.d. fólkið sem var svakalega sátt við sölurnar á Torres, Mascherano og Alonso, og er ánægt þegar við bökkum útúr kaupum á toppleikmönnum þegar verðið er talið of hátt. Þetta fólk talar um laun leikmanna eins og það borgi þau úr eigin vasa. Arsenal stuðningsmenn virðast þó í töluverðum sérflokki hvað þetta varðar. Alltaf þegar ég reyni að ræða við Arsenal menn þá snýst umræðan upp í fjármál félagsins, hvað þeir hafa grætt mikið á leikmannasölum og hvað þeir borga lítið í laun. Ég segi þá að ég hafi ekki vitað að viðkomandi væri hluthafi og óska honum til hamingju með gróðann, og spyr hvernig hann ætli að verja honum.

    Ég vil bara fá toppleikmenn til liðsins og fara að berjast um titilinn. Mér er alveg sama hvað menn borga fyrir leikmenn eða hvað þeir eru með í laun. Þetta eru ekki mínir peningar. Ætli það slái eitthvað á fagnaðalætin hjá Mancity aðdáendum að Yaya Toure sé með 250 þúsund pund á viku eða þá að framlínan hjá þeim kostaði 90 milljónir punda?

  13. Hómer #13.

    Hvar var Messi gegn Chelsea & Real í síðustu viðureignum ? Ronaldo var þar 🙂 Já eða með Argentíska landsliðinu, því jú á stórum stundum stíga sterkir menn fram. Nema hvað Messi hefur ekki mætt til leiks í hvítu og ljósbláu treyjunni ennþá.

    Annars er þetta frábær pistill. Hef litlu að bæta við hann öðru en því að tölfræði er hægt að nota í ýmislegt, en að búa til successful fótboltalið þarf ekki að vera eitt af því. Það er erfitt að setja tölur utan um nokkur mjög crucial atriði, staðsetningar (t.d. hjá varnarsinnuðum miðjumanni,), hvernig menn vinna fyrir liðið (hvaða tölu ætti að ná utan um Spearing og hans áhugamál sem virðist vera að hlaupa úr stöðu) osfrv.

  14. Gaman af þessu nafni og takk fyrir þessa grein hjá þér.

  15. Moneyball!? Bara þetta orð lýsir því hvernig boltinn er orðinn í dag!

    Hvað skyldi Bill Shankly segja í þessari umræðu!? Ég ætla vitna í kallinn:

    “For a player to be good enough to play for Liverpool, he must be prepared
    to run through a brick wall for me then come out fighting on the other side.”

  16. Eitt mjög skýrt “moneyball” atvik í ensku úrvalsdeildinni síðasta tímabil var þegar Tottenham fékk Scott Parker til sín á klink! Umdeildur karakter sem var að eldast, féll tímabilið áður og eina liðið sem sá hvað í honum bjó var Tottenham. Frábær leikmaður!

  17. Elías #18

    Að sama skapi spyr ég þig þá hvar hefur Ronaldo verið með Portúgalska landsliðinu? Verðlaunahillurnar þar eru ekkert að sligast undan þunganum eða hvað????

    Það er nkl ekkert mál að taka einhvern 1 leik út og segja að Messi hafi ekki fundist. Það er oft mjög erfitt fyrir framherja að sjást þegar mótherjarnir (chelsea og Real) liggja með allt liðið í eigin teig 😉

    Hvernig samt sem menn horfa á þetta eða með hvaða liði menn halda þá eru þessir 2 menn í algerum sérflokki í boltanum í dag. Mér persónulega finnst engu breyta þó hvorugur þeirra eigi eftir að verða titilhafi með landsliði sínu. Það er ekki þeirra sök þó þjálfarinn sé gufuruglaður (maradona) eða þá að liðsfélagarnir séu bara ekkert sérstakir í fótbolta. Því að fótbolti er liðsíþrótt en ekki einstaklings.

  18. Elías #18

    Hvar var Messi gegn Chelsea & Real í síðustu viðureignum ? Ronaldo var
    þar 🙂 Já eða með Argentíska landsliðinu, því jú á stórum stundum
    stíga sterkir menn fram. Nema hvað Messi hefur ekki mætt til leiks í
    hvítu og ljósbláu treyjunni ennþá.

    Messi, eins og allt Barcelona liðið, hefur átt dapurt tímabil, enda sennilega saddir eftir velgengni síðustu ára. Það er ekkert óeðlilegt

    Hvað argentíska landsliðið varðar, þá líður Messi fyrir það að spila með töluvert verri leikmönnum en hann er vanur, og jafnframt hefur hann iðulega spilað aðra stöðu og annað hlutverk hjá landsliðinu en hjá Barca. Svo hefur Argentína verið í töluverðum þjálfaravandræðum í fjölda ára, sem enginn hefur getað byggt lið í kringum besta leikmann heims í dag. Bara svona til að nefna nokkur atriði.

    Ég get samt tekið þennan bolta frá þér og haldið áfram – Ég tel Messi ekki komast í hóp bestu leikmanna allra tíma fyrr en hann vinnur heimsmeistaratitil með Argentínu. Þrír bestu leikmenn allra tíma eru Pele, Maradona og Zidane, ekkert endilega í þessari röð. Messi er, að mínu mati, skör neðar en þeir og kemst ekki lengra fyrr en hann vinnur HM.

    Ef honum tekst það ekki, þá verður hans eflaust ávallt minnst sem besta leikmanns allra tíma … sem ekki vann HM 🙂

    Homer

  19. Ef maður ætti að reyna að gagnrýna þennan pistil eitthvað þá væri það helst á þá leið að mér finnst oft vanta Amen í lok þeirra.

    Að öllu gríni sleptu þá er þetta mjög fínn pistill og áhugaverður að lesa. Langar að vekja athygli á kommenti #16 þótt mér finnist það komment alveg nógu vel upplýst eitt og sér 🙂 Held að það sé alveg spot on um þann ágæta leikmann Downing. Hann hefur þó, lík og ca 20 aðrir Liverpool leikmenn, átt lélegt tímabil og mér finsnt í raun dapurt að vera að hengja þann smið eitthvað sérstaklega.

    Hef ekki trú á öðru en að ef menn mæta í næsta tímabil, c.a. á þeim nótum sem við slúttuðum þessu þ.e. með Carroll og Suarez sjóðheita ásamt betri mönnum í stað Maxi og Kuyt, að því gefnu að þeir séu að fara, þá verður næsta tímabil miklu skaplegra fyrir okkur. Hvort það skili okkur í 4. sætið verður að koma í ljós. Leikmenn geta líka reynt að skilja merkingu orðanna sem vitnað er í pósti #20 og uppfyllt væntingar okkar allra þar með.

  20. Talandi um Downing þá var verið að velja hann og Carroll í lokahóp Englendinga fyrir EM! Er Roy Hodgson óbeint að reyna sleikja okkur Púlara upp eftir ömurlegan árangur sinn með Liverpool eða hefna sín með að láta sem flesta leikmenn okkar koma þreytta inní næsta season?
    Vegir Hodgson eru allavega órannsakanlegir!

    Mér finnst annars menn alltof oft gleyma brasilíska Ronaldo þegar þeir telja upp bestu leikmenn knattspyrnusögunnar. Vann HM tvisvar og mokaði inn titlum á ferlinu kosinn besti knattspyrnumaður heims allavega þrisvar. Var algert Fenomenon uppá sitt besta.

    Svo er ég ekkert hrifinn af þessu moneyball hafnaboltajukki. Enska deildin snýst mikið uppá sjálfstraust og að hafa þetta vinningsmentality og “swagger” sem er oftast ekki hægt að mæla í tölum. Liverpool þarf að fá fleiri leikmenn sem aðrir óttast. Liverpool þarf að verða kúl aftur.

  21. Hvernig lýst mönnum á Púlarana í enska landsliðshópnum?

    Gerrard (verður fyrirliði), Carroll, Downing og Johnson.

    Jordan Henderson er í 5 manna standby hóp og í ljósi þess að meiðslin á Walker eru ennþá óviss þá er hann einna líklegastur inn í hópinn.

    kv. ÞHG

  22. Virkilega flott grein Einar Örn, hef sjálfur lítið sökkt mér ofan í þetta dæmi allt saman og því gaman að fá smá innsýn inn í þetta.

    En Homer, oftast er ég sammála þínum innleggjum hér á síðunni, og alltaf virkilega gaman að lesa pósta eftir þig. En mikið hrottalega er ég fáránlega mikið ósammála þér núna. Í fyrsta lagi, hefur Messi átt dapurt tímabil? Really? 50 mörk í deild, margra tuga ára gamalt markamet Gerd Muller slegið og að mig minnir, fjórði stoðsendingahæsti leikmaðurinn á Spáni. Úff, hvernig verður þetta þegar hann á mjög gott tímabil?

    Svo þessi (að mínum dómi) fásinna að hann geti ekki talist sá besti frá upphafi nema að Argentína vinni HM. Í mínum huga er það stærra dæmi að vinna trekk í trekk stærstu verðlaunin með sínu félagsliði, ár eftir ár, valinn bestur ár eftir ár í keppnum sem er constant verið að keppa í. Hvað gerði t.d. Maradona með sínum félagsliðum (ekki er ég samt að reyna að deila um að hann hafi ekki verið stórbrotinn)? HM er á 4 ára fresti, segjum sem svo að menn séu óheppnir, meiðist rétt fyrir slíkar keppnir og nái ekki að taka þátt, eða ef þú myndir fæðast í vitlausu landi, t.d. Íslandi, sem aldrei á nokkurn möguleika á að vinna keppnina. Getur þú sem fótboltamaður aldrei talist sá besti í heimi frá upphafi, þrátt fyrir að vera kannski að kafna úr hæfileikum, bara af því að þú kemur frá “vitlausu” landi?

    Hef oft heyrt þessi rök og mér finnst þau alltaf jafn fáránleg. Hvaða feril á t.d. Pele í sterkustu deildum félagsliða? Er það bara þetta eina mót, þessi eini titill sem skiptir máli? Ekki það hvað þú gerir week in week out, every year? HM er bara eins og hver önnur útsláttarkeppni þar sem heppni getur ráðið mun meira för eins og sást nú með Grikki á sínum tíma í EM. Eitt besta landslið sem ég hef nokkurn tíman séð vann ekki HM (Brasilía 1982), gæði leikmannanna og geta þeirra var þó ekki minni. Þeir hittu bara því miður á einn off klukkutíma sem var nóg til að þeir unnu ekki titilinn.

    Þannig að við verðum greinilega bara að vera hjartanlega ósammála um þetta 🙂

  23. Homer #23

    “Messi, eins og allt Barcelona liðið, hefur átt dapurt tímabil, enda
    sennilega saddir eftir velgengni síðustu ára.”

    Hvað sló Messi aftur mörg met á þessu “dapra” tímabili?
    Alveg með ólíkindum svona málflutningur.

    Annars flottur pistill á mannamáli.

    En varðandi moneyball, þá hef ég ekki mikla trú á þessu. Ég sé ekki alveg hvernig það er hægt að applicera þeirri hugmyndafræði í nútímafótbolta og samt ná toppárangri (vinna EPL, FA cup eða CL) – í ljósi þess að það vantar alvöru regluverk um Financial Fair Play. FFP-reglur UEFA virðast vera misheppnaður pakki frá A til Ö.

    Mér fannst Halli #17 hitta naglann á höfuðið:

    “Ætli það slái eitthvað á fagnaðalætin hjá Mancity aðdáendum að Yaya
    Toure sé með 250 þúsund pund á viku eða þá að framlínan hjá þeim
    kostaði 90 milljónir punda?”

    En hvað er hægt að gera? Er hægt að sporna við þessari þróun?

    Kannski væri hægt að koma á einhvers kona draft-kerfi eins og í MLS, NBA og öðrum bandarískum atvinnumannaíþróttum, þar sem notað er ‘weighted lottery system’, svo að veikustu liðin nái að styrkja sig, með þessu er komið í veg fyrir mónópólíska þróun í deildunum. Þetta hefði auðvitað sína kosti og galla en er hugmynd engu að síður.

  24. Þetta með HM er akkúrat gott dæmi um að það má ekki dæma menn um of á stærstu leikjunum. El Hadji Diouf, Thomas Brolin og fleiri hafa átt algjörlega frábærar HM keppnir án þess að leika vel á milli keppna. Og Messi og Ronaldo hafa verið akkúrat hinum megin á skalanum.

    Auðvitað er mikilvægt að menn leiki vel í stóru leikjunum og það er ástæðan fyrir því að menn vilja ekki enn krýna LeBron James sem mögulega besta leikmann allra tíma þótt að hann hafi átt stórkostleg tímabil vegna þess að hann hefur alltaf klikkað hingað til á stærstu stundunum. Og þessi flopp hjá honum í úrslitaleikjunum fá menn til að gleyma því hversu stórkostlegur leikmaður hann er allan veturinn.

    Þakka annars fyrir frábær komment.

  25. Langar bara að benda mönnum á að LFC á 4 leikmenn í enska landsliðshópnum og sá fimmti er einn af þeim sem er næstur inn. Veit samt ekki alveg hvað þetta segir um styrk enska landsliðsins, kannski bara ýmislegt. En eigum við ekki að taka bjartsýnina á þetta og segja að í þessum mönnum býr hellingur meir en þeir hafa sýnt í vetur.

  26. Homer

    Barcelona eiga möguleika á að vinna bikarinn svo tímabilið þeirra hefur verið ekki það versta hjá þeim og Messi er búinn skora 72 mörk og 28 stoðsetningar sama bera við Downing = 2 mörk og 2 stoðsetningar svo gætum við alveg tekið allt Liverpool lið = 47 mörk og 25 stoðsetningar

    SSteinn

    Það sem Maradona hefur gert með sínum Félagsliðum er næstum jafnmerkilegt og sigur hans á HM

    Hann hefur unnið með Boca Juniors Argentísku Deildina og Barcelona hefur hann unnið Spænska bikarinn og Meistari meistaranna (Supercopa de España) svo er talinn jafn mikil Goðsögn með Napolí og Kenny Daglish hjá Liverpool þar sem hann vann Deildina tvisvar og svo hefur hann líka unnið Ítalski Bikarinn og UEFA Cup og plús Meistari meistaranna á Ítalíu
    Fyrir það sem hann hefur gert fyrir Napolí var ákvöddu þeir hætta nota Nr.10 til heiður hans.

    Heimildir:
    http://en.wikipedia.org/wiki/Diego_Maradona#Club

    http://www.liverpoolfc.tv/team/first-team/statistics

    http://en.wikipedia.org/wiki/Stewart_Downing

    http://en.wikipedia.org/wiki/Messi

  27. Ronaldo er búinn að skora 6 mörk gegn Barcelona. Hvað rugl er þetta að hann sé lélegur gegn þeim

  28. Það er gjörsamlega fráleitt að halda því fram að ronaldo hafi verið slakur gegn barcelona, er þetta eitthvað grín ?

Kop.is Podcast #20

Fjórir frá LFC í enska hópnum – uppfært