Taktu þátt í jólaleik Merkjavara og Kop.is. Verðlaunin eru ferð á Liverpool-leik! Sjá nánar hér!
Fljótlega eftir að FSG keyptu klúbbinn var þeim tíðrætt um ákveðið módel sem þeir litu til við uppbyggingu sína hjá Liverpool. Það var lið Arsenal sem þeir töldu vera dæmi um vel rekinn knattspyrnuklúbb.
Eftir enn eitt áfallið fyrir Arsenal í gærkvöldi held ég að hollast væri fyrir núverandi eigendur okkar að halda sig algerlega frá þeirri umræðu í bili allavega. Vel má vera að Arsenal skili hagnaði til eigenda sinna á hverju ári og auðvitað hafa þeir nú tekið þátt í Meistaradeildinni allmörg ár í röð. En það þarf ekki að lesa mörg spjallborð til að sjá að þolinmæði Gunnersaðdáenda fyrir stöðu félagsins er að verða þrotin, og orðin það hjá flestum.
Emirates-völlurinn flotti er ekki lengur fullur á heimaleikjum og endalaus flótti stórra leikmanna í meiri laun og til liða sem keppa að titlum sýnir að mínu viti það að svona hugmyndafræði um fótboltaklúbb er einfaldlega vonlaus hjá svona risaliði og ég treysti því að eigendur Liverpool FC allavega lesi bresku blöðin og átti sig á því að svona hugmyndafræði mun ekki virka á Merseyside.
Í podcastinu á þriðjudag ræddum við til að mynda um samningsstöðu Sterling. Þeir þurfa ekki nema að horfa á samningsstöðu Walcott til að átta sig á því hvað getur gerst ef hlutir dragast á langinn – það verður allt vitlaust ef (sennilega þegar) Wenger og Arsenal ákveða enn einu sinni að láta góðan leikmann fara frekar en að borga honum þau laun sem hann getur fengið annars staðar. Þeir eiga líka að horfa til Van Persie og rifja upp Torres söguna. Stjörnuleikmenn vilja titla, þeir fara alveg frá liðum sem eru alltaf í CL til þeirra sem berjast um bikara.
Brendan ætlar sér að mínu viti klárlega ekki að fara í þennan Wengergír. Hann ætlar sér að ná í titla í framtíðinni og til þess þá þarf klárlega að hugsa hærra en eigendur Arsenal gera!
Slúður dagsins er hávært, nær allir ensku miðlarnir telja það nærri fullvíst að Daniel Sturridge og Tom Ince muni ganga til liðs við Liverpool strax í upphafi janúar. Sturridge verði keyptur á 12 millur og þar sem að við eigum 35% rétt á næsta kaupverði Ince þá munum við fá hann ódýrara en önnur lið.
Báðir þessir leikmenn eru fljótar, ungar og enskar sóknartýpur. Sturridge oft sýnt fína takta en líka verið gagnrýndur töluvert fyrir einstaklingsmiðaðan leik sinn, og Tom Ince hefur leikið frábærlega fyrir Blackpool í vetur, kominn með 13 mörk í 19 leikjum fyrir Blackpool sem er býsna gott fyrir kantstriker.
Að öðru leyti er þessi þráður opinn…
Ég hef sjaldan áhuga á þjóðerni leikmanna (nú eða bara manna yfirhöfuð) sem kaupa skal en er ekki nóg komið af yfirborguðum enskum leikmönnum sem hafa ekki ennþá slegið í gegn?
Hvernig stendur á því að njósnanet Liverpool finnur ákaflega sjaldan þessa gullmola á meginlandinu sem önnur lið eru svo gjörn á? Hér má nefna dæmi um Assaidi vs Michu, en okkar maður var einmitt dýrari en Spjánverjinn. Charlie Adam/Henderson (mér finnst reyndar Henderson hörku leikmaður en það voru líka settar hátt 20 kúlur í manninn) vs. Cabaye/Tiote sem kostuðu slikk. Demba Ba/Cisse (Cisse var að vísu dýr fyrir óþekktan leikmann en samt ekki 1/3 af kaupverði síðhærða riddarans) vs. Carroll.
Með fullri virðingu fyrir þeim kumpánum sem hér eru orðaðir við okkur þá er ég bara ekki að sjá að þeir muni koma með þetta extra sem fleytir okkur ofar og mögulega í 4. sæti í deild. Að því sögðu myndi ég engu að síður fagna kaupum á þeim enda flottir leikmenn sem er að aldrei að vita nema springi út. En ansi finnst mér samt hvimleitt að sjá þessa ódýru demanta lenda sjaldan á Anfield, ætli Lucas sé ekki síðasta dæmið um þetta?
Svo svona til að fara í algjöra mótsögn við sjálfan mig, þá gæti ég nú alveg séð kostina í því að fá Darren Bent að láni amk. Maðurinn hefur alltaf skilað mörkum í deildinni og það slatta af þeim. Hann er svona “poacher” sem myndi tvímælalaust njóta sín í kringum Suarez og hefur sýnt í gegnum tíðina að hann veit hvar markið er að finna.
Núna hlýtur amk. að vera tími til að lemja á járnið meðan það er heitt. Góð úrslit í næstu 5 leikjum (sá sjötti er á Old Trafford og þar eftir kemur Norwich) gætu komið okkur í þá stöðu að vera raunverulega að berjast við Tottenham um þetta 4. sæti. Nokkur góð kaup/lán í janúar væru ómetanleg hvað þetta varðar. Við val á milli liða sem eru svo í baráttunni um þetta 4. sæti hlýtur Liverpool svo að vera nokkuð heillandi kostur enda verið að ná langt í bikarkeppnunum og það er víst það sem heila málið snýst um, bikarar.
Hef einhvernveginn á tilfinningunni að með kaupum á þessum mönnum sé verið að fara í sömu meðalmennskugryfjuna og þeir Downing, Henderson, Adam og Carrol voru, illu heilli, dregnir upp úr. Er sammála Brúsa í því að Liverpoolskátarnir standa sig ekki nógu vel. Og þá er auðvitað sjálfsagt að velta því fyrir sér afhverju menn, sem hafa staðið sig þokkalega hjá öðrum liðum, eins og t.d. fjórir fyrrnefndir, verða eins lélegir og raun ber vitni þegar þeir leika fyrir Liverpool. Er það eitthvað í þjálfuninni eða er mórallinn hjá liðinu svona helvíti slappur?
Þetta eru ROSALEG úrslit fyrir arsanal en við skulum samt ekki gleyma því að þó svo að þeir séu trúlega að missa Walcott að þá hafa þeir fengið frábæra leikmenn til sín á undanförnum árum.
Er wengerinn hafinn fyrir ofan þá umræðu að vera valtur í sessi??
Brúsi #1 segir:
Þetta er nákvæmlega það sem ég hef oft velt fyrir mér, sérstaklega nú í síðari tíð.
Menn benda sífellt á einhverjar kvóta-reglur um að það verði að vera X margir heimalingar í liðinu og allt það, en samt eru svona leikmenn – frá meginlandi Evrópu – að spila fyrir mörg félög.
Sama má segja um leikmenn frá S-Ameríku. Það gleymdist víst að segja Rauðnef á sínum tíma að hann gæti ekki keypt Rafael (og Fabio) út af þessum kvóta sem var yfirvofandi, en hann gerði það nú samt!
Hversu erfitt er að hafa njósnarateymi sem finnur einhverja mola annars staðar en afgangsmola hjá ensku liðunum? Ég er ekkert að biðja um einhverja demanta, en Michu er til dæmis leikmaður sem hefði plummað sig vel hjá Liverpool – og vafalítið miklu betur en þeir sem við vorum að eltast við í sömu stöðu (Gylfi og Dempsey).
Í mínum huga þá er Sturridge meðaljón, ekkert annað. Sem myndi þá vafalítið plumma sig ágætlega hjá Liverpool, þar sem hann hittir fyrir marga aðra meðaljóna. Því miður.
Tom Ince er efnilegur, á því er enginn vafi, en verður óskrifað blað þangað til að hann sýnir eitthvað – ef og þegar þá hann kemur.
Liverpool þarf ekki meðaljóna. Liverpool þarf ekki leikmann eins og Sturridge. Liverpool þarf markaskorara, sem hægt er að treysta á að skori mörk. En líklega reynir Brendan að kaupa sinn mann Sturridge, enda þekkjast þeir vel frá Chelsea-tímabilinu þeirra … svona líkt og þegar hann keypti Borini – sem sannarlega sló rækilega í gegn hjá Liverpool! Þ.e.a.s. þangað til hann meiddist …
Ég ætla nú bara að leggja aðeins út frá þessum pistli Magga – og hann mótmælir mér ef ég skil hann vitlaust – en ég tek undir áhyggjur manna um þá stefnu sem Liverpool hefur tekið undir stjórn FSG. Fyrir mér eru allar viðvörunarbjöllur sem hringa “meðalmennska um ókomin ár” og það er eitthvað sem mér þykir leitt og miður. Rekstur á fyrirtækinu Arsenal er aðdáunarverður, en fótboltafélag snýst alltaf fyrst og síðast um að vinna titla, þannig að Arsenal er líklega víti til varnaðar, ef eitthvað er í dag.
Homer
Ég myndi segja að það sé nú ekki alveg það sama upp á teningnum í kaupum á Sturridge og kaupum á kumpánunum sem þið nefnið hér að ofan.
Adam, Henderson og Downing voru allir rosalega flottir í sínum liðum, sem voru lélegri en liverpool. Stórir fiskar í lítilli tjörn.
Sturridge er hins vegar ekki besti maðurinn í chelsea, sem er því miður betra lið en liverpool á þessari stundu, þannig hann er að fá meira hlutverk og ætti því að öllum líkindum að blómstra frekar en hinir. 12 milljónir fyrir breskan framherja fæddan 1989 og hefur sýnt þvílíka hæfileika er líka ekki eins og að borga 20 milljónir fyrir downing eða 35 milljónir fyrir Carroll. Ef Sturridge skítur á sig(sem ég efa) þá kostaði hann allavega ekki mikið miðað við að vera kaupa enskan ungan striker. Gætum alltaf selt hann einhvert annað fyrir svipað verð.
Væri stórkostlegur díll að fá Sturridge.
Homer, ég held alveg örugglega að Brendan Rodgers og Sturridge voru ekki á sama tíma hjá Chelsea.
Homer sýnir í sínu bréfi einfaldlega þekkingarleysi, í bland við leti við að ná sér í upplýsingar og staðreyndir. Í fyrsta lagi þekkjast Brendan Rodgers og Sturridge ekki neitt enda Rodgers hjá Chelsea fyrir tíma Sturridge svo það sé á hreinu. Einnig fær Sturridge að kenna á því að vera Enskur og því stimplaður sem miðlungsleikmaður. Daniel Sturridge hefur lengi verið talinn vonarstjarna Englands sem framherji og leikstíll hans er miklu meira í átt að meginlandinu heldur en einhver breskur stíll. Hann er teknískur og virkilega góður skotmaður. Record hans með unglingaliði Man City er ótrúlegt. Hann er keyptur til Chelsea við mikla óánægja þeirra City manna og það eitt lýsir kannski hæfileika þessa leikmanns best að þessi tvö lið hafi verið að berjast um hann. Vissulega hafa tækifærin verið að skornum skammti hjá Chelsea, hann var þó í miklum metum hjá Villa Boas og var tekinn framyfir Torres og Drogba á tímabili og var að skora. Þetta yrðu að mínu mati frábær kaup fyrir 12 miljónir, þessi maður er hungraður og hæfileikaríkur. Horfið ekki á passportið hans heldur frekar bara á hvað hann hefur upp á bjóða. Sem er svo miklu meira en menn eins og Carrol og Borini t.a.m….
Ef Liverpool ætlar sér að vinna deildina þarf það að kaupa stóru nöfnin. T.d. að kaupa Walcott. Við erum ekki nefndir til sögunar. Við hefðum átt að kaupa Persie.
Ég hef einnig oft velt þessu fyrir mér með scout-systemið hjá Liverpool. Þ.e.a.s. hvers vegna okkur er fyrirmunað að ná í þessa “gullmola” sem leynast um alla Evrópu.
Comolli hefði t.d. átt að hafa mikla þekkingu á frönsku deildinni; þaðan sem menn eins og Cabaye, Hazard, Tiote o.fl hafa komið.
Svo er Brendan víst alltaf á Spáni að læra meira um þeirra hugmyndafræði o.s.frv.: Hvernig stendur þá á því að við höfum ekki keypt leikmann frá Spáni síðan Maxi kom frítt frá Atletico?
Enn og aftur skil ég ekki hvað við erum alltaf að eltast við þessa breta… hvaða breski leikmaður er bestur í sínu liði í PL?
> Homer sýnir í sínu bréfi einfaldlega þekkingarleysi, í bland við leti við að ná sér í upplýsingar og staðreyndir.
Ég ætlaði nú ekki að móðga þig svona svakalega, en ég bið þig innilega afsökunar. Mér til varnar vil ég þó segja að ég hef nóg annað við minn tíma að gera en að leita uppi allar tölulegar og mögulegar staðreyndir um knattspyrnuheiminn eins og hann leggur sig – þó ég leyfi mér af og til að hendast hingað inn og velta fyrir mér hinu og þessu 🙂
Ég beit í mig að Sturridge og Brendan hafi á sama tíma verið hjá Chelsea – minnir að ég hafi lesið það einhvers staðar. Enginn skaði skeður þó, ef það er rangt hjá mér. Breytir samt ekki inntaki fyrri pósts míns, breytir ekki í neinu um meint gæði Daniel Sturridge.
Annars finnst mér þú gera þig sekan um ,,, tja, jafnvel það sama og þú tjáir þig um ,,, ef þú beinir þessu til mín: >
Einnig fær Sturridge að kenna á því að vera Enskur og því stimplaður sem miðlungsleikmaður.
Ég dró hvergi þá ályktun að Sturridge væri miðlungsleikmaður vegna þess að hann er enskur, eins og segir hér. Ég segi að hann sé miðlungsleikmaður vegna þess sem hann hefur sýnt á grasblettinum í hverri viku – þ.e. þegar hann fær að spila. Mér finnst það ekki vera neitt nálægt þeim klassa sem við eigum/ættum að krefjast af leikmönnum Liverpool.
> og það eitt lýsir kannski hæfileika þessa leikmanns best að þessi tvö lið [Che og MCity] hafi verið að berjast um hann.
Þetta er eflaust þynnstu rök í þessu máli, ef einhver spyr mig. Gæti maður bent á aragrúa af dæmum um leikmenn sem þóttu "efnilegir" og eftirstóttir af stærstu liðum Englands eða jafnvel heims, en aldrei slegið í gegn. Bara til að nefna sem dæmi um unga og efnilega leikmenn sem Liverpool og ManUtd börðust um – Anthony Le Tallec og Florent Sinama Pongolle. Annað dæmi um efnilegan leikmann sem mörg stærstu lið heims voru á eftir er Denilson. Nei, það segir mér ekkert um gæði eða hæfileika leikmanns að einhver lið séu á eftir þeim. Bara hreint ekki neitt.
Okkar lið vantar, sárvantar, proven markaskorara. Það er Sturridge ekki, nema það hafi farið eitthvað framhjá mér að hann sé í raun að raða inn mörkum fyrir Chelsea – það gæti svo sem verið, því ég nenni ekki að leita af tölfræðiupplýsingum um það mörg ár aftur í tímann 😉
Með vinsemd og virðingu – og engin móðgun innifalin 🙂
Homer
Ben nr. 9 Þetta er svosem alltaf matsatriði, en bara svona sem mér dettur fyrst í hug:
Sunderland: Stephen Fletcher
West Ham: Kevin Nolan
Tottenham: Gareth Bale/Jermaine Defoe
Stoke: Ryan Shawcross/Peter Crouch/Matthew Etherington
WBA: Chris Brunt/Shane Long
a. Við þurfum ekki að eltast við bezta manninn. Beztur í Liverpool í febrúar verður Luis Suarez.
b. Bale í Tottenham, Lowton í Aston Villa, Duff í Fulham (ókei, tæplega brezkur), McAnuff í Reading (ókei, mjög tæplega brezkur), Lambert í Southampton, Shawcross í Stoke, Fletcher í Sunderland, Long í WBA (já, írskur), Nolan í West Ham.
Þegar Sturridge spilar uppi á topp raðar hann inn mörkum. Einfalt. Svo er Tom Ince bara ofboðslega góður og gaman að fá uppalda leikmenn heim eins og Barcelona gerir svo gjarnan (Piqué, Fábregas, Alba). Skildi aldrei af hverju hann var látinn fara. Var farinn að líta gríðarlega vel út en Dalglish vildi frekar kaupa Downing. Frábært.
Svo er alveg óþarfi að afskrifa leikmenn bara því þeir eru breskir. Ég er allavega ansi sáttur við Carra, Gerrard, Johnson, Shelvey, Henderson og Sterling. Svo lengi sem er ekki verið að eyða himinháum upphæðum í leikmenn sem eru (að maður hélt) augljóslega ekki nógu góðir. Downing og Carroll, já augljóslega.
Varðandi hvaða bresku leikmenn eru bestir í sínum liðum datt mér einmitt allir ofangreindir í hug, ásamt Rooney sem er jafnbestur van Persie í United.
Tek það fram að ég er alls enginn Breta-lover en þeir mega koma ef þeir eru nógu góðir – og mér finnst þessir tveir vera það. Annars sammála um lélegt scouting-system Liverpool.
Það eina sem ég sé athugavert og er ekki sáttur við EF Sturridge verður keyptur..þá las ég í slúðri að hann er með launakröfu uppá 80.000 pund á viku.
Sem mér finnst vera allt of há tala.
ekki fleiri breta í bili takk!
Ég er ekki alveg tilbúinn að afskrifa Borini strax, þótt vissulega hafi hann valdið mér vonbrigðum það sem af er, en höfum í huga að það voru bara um tveir mánuðir sem hann hefur spreytt sig í nýju liði (og liðið var slappt þennan tíma…)…
Og hvað er annars að frétta af Ítalanum, er von á honum heilum fljótlega?
Alfreð sagður undir smásjá Liverpool
http://fotbolti.net/news/12-12-2012/alfred-sagdur-undir-smasja-liverpool
Ekkert ath.vert við að fá englending, ef hann er góður. Tek eftir að menn nefna ekki Rooney, sem óneitanlega er einn sá besti á Englandi. En ég er enn að velta fyrir mér hugmyndafátækt skátanna. Hvað með t.d. lið í S-Ameríku? Þaðan er Suarez og okkur vantar mann á við hann, sem er alinn upp við s-amerískan bolta. Það er skuggalegt ef Brendan skoðar þessi mál ekki með opnari huga en fréttin um Sturridge og Ince ber með sér.
Alfreð Finnboga er klassastriker og ég sá það með berum augum í nokkrum leikjum á klakanum.
Annars treysti ég á BR að hann finni réttu mennina, blandi grúppunni rétt og nái langt með liðið okkar í vetur. Hann hefur gríðarlega gott auga fyrir taktínni og þorir að breyta til sem er mikill kostur.
Get ekki beðið eftir næsta leik og hvað þá eftir janúar! 🙂
11 Halli og #12 Kári sigur
Auðvitað er þetta bara matsatriði hverju sinni og sumu hjá ykkur er ég svo sannalega sammála.
En það er ekki það sem ég sé að upptalningunni hjá ykkur…. Sunderland, West Ham, Stoke, Fulham, Reading o.s.frv.
Þetta eru ekki lið sem Liverpool á að vera að miða sig við og ég held að flestir séu nú sammála um það, kanski að Tottenham undanskildu.
Ættum frekar að vera að miða okkur við United, Arsenal, Tottenham, Chelsea, Newcastle o.fl.
Eru menn annars alveg búnir að gefa upp á bátinn að Liverpool eigi að vera í kring um þau lið? 🙂
Enn og aftur kemur þetta slúður upp:
http://visir.is/fer-reina-fra-liverpool-i-januar-/article/2012121219726
Afhverju ætti Reina að vilja fara til Arsenal?
Ég vil nú bara árétta eitt það sem ég kom inn á hér í upphafspóstinum. Ég sagði aldrei að enskir leikmenn væru sjálfkrafa lélegir. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að fyrir enska leikmenn þarftu að borga oft á tíðum ansi mikið og hefur Liverpool farið þar ansi geyst og oft endað með köttinn í sekknum. Enda verið að versla menn sem hafa ekki sannað sig. Ef Liverpool myndi henda 40 kúlum í Wayne Rooney væru flestir sammála um að þar færi maður sem hefur sannað sig meðal hinna bestu. Að halda slíku fram um Sturridge og Ince er í besta falli bjánalegt. Ef við lítum til þess að Michu kostaði uþb. sex sinnum minna en verðið á Sturridge er (helmingi ódýrari en Ince) (svo má líka reikna með að hann er á talsvert lægri launum) og verðið á Ba er um helmingi minna er ljóst að það getur varla sakað að líta út fyrir Bretlandseyjar að leikmönnum.
Þrátt fyrir að enskir leikmenn séu bestu leikmenn nokkurra liða í deildinni er ljóst að flestir þeir leikmenn sem hér voru taldnir upp myndi ég ekki vilja sjá í liði Liverpool, með fullri virðingu fyrir þessum herramönnum. Hér eru Wayne Rooney og Gareth Bale augljóslega undanskildir.
16, það var viðtal við Borini eftir Udinese leikinn þar sem hann sagðist búast við því að vera farinn að sparka í enduðum desember
Ég skil alveg að menn eru ekkert voðalega spenntir fyrir litlum nöfnum eins og Alfreð er í dag. Við viljum frekar stór nöfn sem er skiljanlegt. Ef þér er boðið Falcao eða Alfreð þá tekuru auðvitað El Tigre.
En við megum ekki gleyma að einn besti varnarmaður Liverpool allra tíma kom frá Willem II. Sami Hyypia var alls ekki stórt nafn en það rættist heldur betur úr honum. minni peningar = minni pressa og svo öfugt. Finnst menn alltaf vera að eltast við stórstjörnur. Glugga eftir glugga eru menn ósáttir því að engin stórstjarna kom.
Downing var ágætlega stórt nafn á Englandi þegar við keyptum hann. Hann getur ekkert núna. Morientes, Salif Diao, Diouf, Aquilani, Keane.(Andy Carroll). Allt menn sem hafa ekki staðið undir væntingum á of stórum verðmiða.
Leikmaðurinn þarf ekki að kosta 10-20 milljónir til að geta eitthvað. Lucas Leiva, Daniel Agger, Martin Skrtel, Steve Finnan, Gary McAllister og listin heldur áfram. Allt menn sem komu til okkar og slógu í gegn fyrir 6,5 millur eða minna.
Verð segir ekki allt.
Sammála Paisley:
Þess vegna eigum við að hætta að ofborga fyrir enska leikmenn!
Homer hér er síða um DS http://en.wikipedia.org/wiki/Daniel_Sturridge
Ben, #20.
Jú, ég er hjartanlega sammála. Þú bara spurðir og ég varð forvitinn að vita svarið svo að ég fór á stúfana og fann það út.
http://www.youtube.com/watch?v=x0SM3QTr76A
skil ekki afhverju margir halda að daniel sturridge sé ekki með hausinn í lagi.. buinn að fylgjast með honum lengi og virkar flottur strákur…
Hvaða markmann vilja menn fá í staðinn fyrir Reina sem skv.slúðri dagsins er að fara til Ars í janúar, þó fyrr hafi verið? Fylgist einhver nógu vel með skoska boltanum að hann geti tjáð sig um Fraser Forster? Sá hann í leik gegn Barca og hann var hreint út sagt stórkostlegur.
Við eigum að reyna að fá Zlatan til Lpool. og deildin er okkar.
Það lið sem FSG ættu að vera bera Liverpool við er ekki Arsenal heldur tvímælalaust Bayern Munchen í Þýskalandi.
Rótgróinn stórklúbbur með gríðarmikla sigurhefð og sögu ekki ólíkt okkur. Klúbbur sem er best rekni klúbbur Evrópu fjárhagslega og með gott fanbase. Bjóða ekki nein risalaun en ná samt að laða til sín margar af bestu leikmönnum heims enda í CL ár eftir ár. Byggja liðið mest á heimamönnum en hika ekki við að skella sér á rándýra leikmenn þegar þeir þurfa vegna framþróunar liðsins.
Í sumar skelltu þeir t.d. 40m € á borðið í Javi Martinez. Leikmann sem mig dauðlangaði að fá til Liverpool og Rafa Benitez fékk ekki pening til að kaupa þegar hann kostaði undir 10m punda fyrir 4-5 árum. Leikmaður sem er að mínu mati klárlega betri en Lucas Leiva og myndi henta fullkomlega í ensku deildina. Þeir hafa líka getað haldið Arjen Robben, Mario Gomez, Schweinsteiger, Ribery, Lahm o.fl. hjá liðinu sem bendir til að liðsheildin og samheldnin er rosalega sterk og að leikmönnum líði vel í liðinu þrátt fyrir gylliboð frá öðrum klúbbum. Verkaskiptingin er fullkomlega skýr og enginn sem fær að vera mikill smákóngur þarna eyðileggjandi liðsandann.
Það er svona samheldni og liðsheild sem vantar hjá Liverpool í dag svo við getum aftur orðið gott fótboltalið. Leikmenn treysti hvor öðrum og fái trúna aftur á að þeir séu góðir fótboltamenn.
Liverpool á ekki að vera bera sig saman við Arsenal. Við erum töluvert stærri klúbbur á evrópskan mælikvarða en það. Að keyra til lengdar á homegrown strákum eins og Sterling, Suso og co. og kaupa svo dýra háklassa leikmenn þegar þörf er á… er stefna sem mér líst miklu betur á enn að vera nurlast stanslaust með free transfer og einhvern bandarískan moneyball tölfræði innkaupavaðal. Slíkt er hrikalega hægfara, erfið og einkar óstöðug leið í þessum enska bolta eins og sést t.d. af Newcastle og Arsenal í ár.
Liverpool fær það mikla peninga af búningasölu og góðum auglýsingasamningum að við ættum að vera leggja peninga fyrir í banka eins og Bayern gera og eyða þeim svo þegar við á í gæðaleikmenn. Núna er FSG búið að hreinsa út mjög mikið af launakostnaðinum og straumlínulaga reksturinn. Nú bara komið að þeim að sýna smá pung og þora að hugsa stórt. Eltast við menn eins og Cavani og Sanchez en ekki Sturridge og Tom Ince.
Af hverju borga þeir Sterling ekki þau laun sem hann á skilið, hann er einn af þeim efnilegri í heimi í dag strákurinn er nýorðinn 18 ára gamall. Liverpool þarf líka að passa sig á því að ganga ekki of langt fram á honum eins og við gerðum með Owen, Fowler og aðra góða menn.
Morgan: Sir Alex Ferguson should sign ‘great’ Liverpool star.
http://www.givemefootball.com/premier-league/morgan-sir-alex-ferguson-should-sign-great-liverpo
31 ég held þú fattir ekki alveg conceptið afhverju Bayern heldur sínum bestu mönnum!! Líklega stærsta ástæðan þar er hvað þeir eru á ógeðslega háum launum, Bayern er toppurinn í þýskalandi og ég sá einhvers staðar að stóru leikmennirnir þeirra væru allir með 100-160þúsund pund á viku…. þannig að það er ekkert grín fyrir lið að ætla búllýa Bayern þar sem menn eru bara mjög sáttir með kaup og kjör og ættu að vera það með svona milljónir á viku.
Sama er uppi á teningnum hjá Neymar hjá Santos, Santos seldi allar sínar stjörnur svo þeir gætu borgað honum laun sem eru eitthvað yfir 100þúsund pund á viku. Maðurinn er kóngur í brasilíu og enginn kemst með tærnar þar sem hann er með hælana í launum og því þarf hann ekkert að flýta sér að finna sér lið þótt mann gruni að Barca sé nú með kauprétt á honum.
Þannig að Bayern er alls ekki leiðin sem við eigum að fara þar sem við getum bara ekki með neinu móti keypt ALLA efnilega englendinga sem koma upp og við höfum ekki sama fjármagn og þeir og borgað sömu laun, til þess þurfum við risa leikvang og meistaradeild, hvorugt höfum við í augnablikinu.
Arsenal batteríið væri perfect ef þeir væru ekki svona tregir með launaþak sitt, spurning hvort Wenger falli bara ekki frá því í janúar þar sem þeir eru að skíta upp á bak og í fyrsta skipti er Wenger orðinn valtur í sessi og sérstaklega þar sem talið er að Guardiola vilji taka við þeim.
Er eitthvað verið að ræða Llorente og Liverpool ?
31
Það er ýmislegt að athuga við þínar fullyrðingar varðandi Bayern München. Fyrst ber að nefna þær fullyrðingar með laun leikmanna liðsins. Bayern er í 8 sæti yfir þau íþróttarfélög í heiminum sem borga hæstu launin. Menn eins og Ribery, Lahm Schweinsteiger og Robben voru með launahæstu fótboltamönnum heims árið 2011. Aðeins Barca, R.Madrid og AC Milan borga hærri total laun á ári.
Annað er að þú talar um að liðsheildin og samheldni sé rosalega sterk. Því miður rangt hjá þér aftur en stærsta ástæðan fyrir slökum árangri Bayern í deildini síðustu ár er einmitt vegna þess að mórallinn hjá Bayern var í rúst og leikmenn eins og Robben og Ribery hafi verið eigingjarnir og rifust mikið undan vallar um hvor þeirra væri kóngurinn í liðinu. Ástæðan fyrir góðu gengi nú er reyndar sú að liðsheildin er orðin betri en það ríkir samt engin vinátta meðal margra leikmanna innann liðsins.
Liðinu er í raun haldið saman á ofurlaunum svipað og hjá Man City núna.
Það er reyndar rétt hjá þér að Baeyrn er mjög vel rekið fyrirtæki og stærstu tekjulindir félagsins eru: nr.1 gífurlega stór fanbase (en B. München er gífurlega vinsælt í Bayern fylkinu og í Austurríki) sem fylla völlinn í hverjum leik og eru duglegir við að versla varning, nr.2. B. München er með gífurlega sterka sponsora sem að dæla peningum í félagið í formi styrkja og auglýsinga og nr 3 er að félagið er alltaf í CL og komast alltaf langt í þeirri keppni. Einnig má telja sjónvarpstekjur félagsins inní þetta en leikir félagsins eru alltaf í beinni þegar liðið spilar.
Ég bjó í Þýskalandi í nokkur ár og fylgdist mikið með þýska boltanum, einnig hef ég mjög öruggar heimildir fyrir því sem ég er að segja hér.
Áhugaverð grein hér.
http://www.express.co.uk/football/view/364041/Why-Liverpool-are-now-in-good-shape
36 Þú ert haldinn FC Hollywood ranghugmyndum um Bayern. Ef Robben og Ribery væru með vesen yrðu þeir einfaldlega seldir. Það var ekkert vandamál árin 2007-8 þegar 9 leikmenn voru látnir fara og 8 voru keyptir, þar á meðal Robben og Ribery. Ef þeir væru vandræða væru þeir löngu farnir.
Eg mundi ekkert drepast ur anægku ef við fengjum bara ince og sturridge i januar en hinsvegar ef við mundum bæta ba, walcott eða huntelar við hina 2 þa væri eg alsæll.
Mer finnst okkur svo allrosalega vanta mann sem liggur i boxinu en er ekkert utum allan voll að sækja boltann, ba eða huntelar væri fullkomin slikur leikmaður. Eg vill bara nota suarez i einhverju frjalsu hlutverki i kringum boxið þvi hann lurir hvort eð er aldrei inni teig.
Fa ince og sturridge væri flott til að styrkja kantstoðurnar en komiði með ba eða huntelar lika og þa erum við klarir i 4 sætið.
Mundi að visu alla daga vilja walcott frekar en sturridge en se það ekki gerast svo eg sætti mig við sturridge.
Ég er alveg sammála því að Ince og Sturridge eru báðir snöggir og teknískir leikmenn en það dugar skammt ef það fæst ekki alvöru sóknarmaður líka með.
Ég er kannski frekur en ég vil sjá Rodgers eltast við leikmenn eins og Ba eða Huntelaar.
Nr.37
Mjög skemmtileg lesning og vonandi heldur þetta áfram svona. Sérstaklega mikilvægt að fá stöðugleika hjá varnarmönnum sem við höfum misst allt of mikið í meiðsli undanfarin ár (Agger, Johnson og Kelly).
Mér er slétt sama hvaðan menn koma meðan að þeir eru nógu góðir fyrir guðsgjöfina Liverpool. Borini er ítali en ég tel samt Sturridge betri leikmann, bæði hraðari og með meiri tækni, og Borini er slakur að taka menn á. Við meigum heldur ekki gleima því að þetta er líka púsluspil, það er að segja að finna menn sem virka inn í leikskipulagið, ég held að Sturridge sé sá leikmaðua sem mun virka fyrir BR.
Nr. 38 Aldrei verið neitt vesen á Bayern nei. Immitt! Þetta var fyrir nokkrum mánuðum http://soccernet.espn.go.com/news/story/_/id/1051683/jupp-heynckes-stays-silent-over-robben-ribery-bayern-bust-up?cc=5739
Komið í ljós að við mætum Mansfield Town í 3ju umferð FA-bikarsins.
Unnu Lincoln í replay í kvöld og allt varð vitlaust á vellinum, áhangendur inn á Field Mill völlinn (sem leit vel út by the way) og það var eins og úrslitaleikur keppninnar væri búinn.
Vonandi lærðum við af Northampton ömurleikanum og horfðum á Arsenal í gær. Þennan leik ætlum við svo að vinna…
38
Þú segir að ég sé haldinn Hollywood ranghugmyndum varðandi Bayern. En svo virðist sem ég hafi eitthvað til míns máls. http://soccer.indonewyork.com/ribery-punched-robben-during-half-time-against-real-madrid/¨
Og einnig lenti Robben í leiðindum við Thomas Müller fyrir rúmu ári síðan sem er meðal annars talið hafa átt þátt í hruni þeirra seinni hluta tímabilsins í fyrra. http://www.spiegel.de/fotostrecke/robben-vs-mueller-der-bayern-zoff-in-bildern-fotostrecke-64101.html
Rifrildin milli Ribery og Robben er vel þekkt í Þýskalandi og hefur verið nánast frá því þeir komu til liðsins. Þetta eru ekki einhverjar ranghugmyndir hjá mér, frekar myndi ég segja að þetta væri afneitun hjá þér. Robben er talinn vera krabbamein innann liðsins en samningur hans gerir það að verkum að Bayern getur hreinlega ekki losað sig við hann nema að hann viji fara.
Bayern eru frægir fyrir það að halda vandamálum innnan liðsins frá fjölmiðlum og það er vitað þeir hafi reynt að hafa áhrif á rannsóknina þegar Breno var dæmdur fyrir að kveikja í húsinu sínu. Einnig reyndu þeir að fá saksóknara í Frakklandi til að fella niður rannsóknini á því að Ribery hafi notfært sér vændisþjónustu ungrar stúlku sem var undir lögaldri þegar hann nýtti sér þessa þjónustu. Það eru fleiri drullumál sem hafa elt Bayern M síðan þessi 2 einstaklingar gengu til liðs við Bayern. En ég hef bara engan tíma til að fletta þeim upp eins og er.
Ég ætla rétt að vona að Bayern München verði aldrei fyrirmynd Liverpool FC þegar það kemur að uppbyggingu liðsins. Frekar vona ég að Dortmund verði notað sem fyrirmynd en það félag var nánast gjaldþrota fyrir 7 árum síðan. En með miklum aðhaldsaðgerðum í rekstri hefur þessari þróun verið snúið við og hefur félagið notið mikillar velgengni innann vallar og utan síðustu ár.
En varðandi okkar lið, LFC þá hefur orðið margar jákvæðar breytingar á liðinu, bæði utan sem innan vallar. En ég ætla mér að vera þolinmóður næstu 2-3 árin því ég veit að uppbygging liðsins mun taka það langan tíma.
Sælir. ein spurning. hvernig er hægt að kenna scouting systeminu um það að klúbburinn fékk ekki ákveðna umrædda menn. getur ekki bara verið að klúbburinn sé orðinn svo óaðlaðandi að menn velji newcastle eða swansea frekar.
Ég held að það sé kominn tími hjá Liverpool að kaupa eingöngu gæði. Eyða öllu budgetinu í einn mann sem klárlega bætir hópinn líkt og Suarez og Torres gerðu. Það er kannski erfitt að finna svona menn fyrir Liverpool í dag, en það má reyna.
Við erum búin að horfa upp á það í mörg ár að liðið er að kaupa menn sem sleppa rétt svo í hópinn og eru eingöngu keyptir til að auka breiddina, oft á háar upphæðir. Á meðan hafa strákar sem eru uppaldir hjá félaginu ekki fengið nein tækifæri til blóðgunar með aðalliðinu og því ekki fengið reynslu og bragð fyrir því að stíga upp í getu. Menn læra nú oft á því að lenda i djúpu lauginni.
Mér líst mjög vel á hvað BR er að gefa ungu mönnunum mikinn séns og mun fagna því þegar farþegi eins og Joe Cole fer frá klúbbnum. Ég hef aldrei skilið hvað Benitez þurfti að kaupa mikið af leikmönnum sem voru ekki að gera mikið betur er unglingarnir hefðu getað gert ef þeir hefðu fengið tækifæri. Unglingar sem voru þegar til staðar og biðu i röðum eftir að fá tækifæri. Ekki það að ég hafi verið á móti Benitez – Ég hafði tröllatrú á að hann væri með þetta þar til leiðir skildu.
Ég veit ekki með þessa tvo sem Maggi nefnir – hvort þeir séu til breikkunar á hópnum eða hvort þeir bæti hópinn – Liverpool hlýtur(eða í það minnsta ætti) að vera með mannskap til að scouta menn og dæma þá.
En það er nóg komið af kaupum á breidd. Kaupum nú manninn sem gefur okkur eitthvað extra (og aðdáendum tiltrú á verkefninu hjá BR) og leyfum fleiri unglingum að auka breiddina í hópnum og finna smjörþefin af aðalliðinu. Ekki fleiri meðaljóna takk.
Áfram Liverpool.
Mér sýnist scout-netið hafa gerst ágætishluti.
Menn einsog Sterling, Wisdom, Suso og Shelvey voru keyptir eða fengnir ungir frá öðrum liðum. Það var scout en ekki manager sem fann þá.
Benítez lagði mikla áherslu á unglingastarfið og það er svo sannarlega að skila sér. Þá fá þessi “demanta” kaup einsog þið viljið orða það að sitja á hakanum. Í La Masia er stórt net scout-a sem finna þessa leikmenn unga og gera þá að stjörnum í stað þess að finna þá eldri og vona að þeir springi út. Minni áhætta þegar þú gerir þetta mjög ódýrt með unglinga heldur en að kaupa og vona.
Leikmaður sem kemur úr unglingastarfinu floppar heldur ekki, hann bara nær ekki lengra.
Svo fannst mér merkilegt þegar menn voru að gera samanburð á (aðalega) Newcastle mönnum og Liverpool mönnum sem voru keyptir síðustu 2 ár.
Newcastle átti one hit wonder tímabil og ef mér skjátlast ekki tapað 5 af síðust 6 leikjum.
Fyrir mér ætti bara að leggja meiri og betri áherslu (sem er samt mjög góð fyrir.) á unglingastarf og ná upp svona gæða verkssmiðju einsog Barcelona eiga. Ég vill meina að það sé mjög raunhæfur möguleiki. Barcelona þurfa bara 1 – 2 kaup á ári og það er ekki einsog þeir leikmenn séu alltaf stjörnunar (Zlatan t.d.).
Það má ekki gleyna því að þegar Wenger kom til Arsenal fékk hann bestu vörn og markmann Englands í arf. Ofan á það fékk hann að kaupa marga landsliðsmenn Frakka (og fleiri) á tiltölulega háu verði en franska landsliðið var á þeim tíma eitt það besta í heiminum, ef ekki það besta. Þannig byrjaði “uppbyggingin” hans og þannig byrjaði hann á að vinna titlana sína.
Ég skil ekki stefnu Arsenal nú til dags. Allir segja að það seu til fullt af peningum þar en samt eyðir maðurinn ekki neinu og hefur þetta heimskulega launaþak sitt. Afleiðingin er sú að Arsenal hefur ekki unnið titil í 7,5 ár núna. Augljóslega er maðurinn samt einn af hæfustu þjálfurum heims. Af hverju er þetta svona þarna? Alltaf þegar ég spyr Arsenal menn um þetta hafa þeir engin svör.
Lið vinna ekki stærstu bikarana án þess að eyða háum fjárhæðum, þannig er það bara. Því á alls ekki að taka upp stefnu Arsenal, þó það sé auðvitað frábært að taka þá stefnu að ala upp fleiri unga leikmenn en áður fyrr. Kannski kominn tími til þar sem sá leikmaður sem kom síðast í gegnum unglingastarfið fyrir utan Martin Kelly var Gerrard. Og það er ansi langt síðan. Það má því ekki gerast nískur í þessum bransa ef menn ætla að keppa við stóru liðin.
Hins vegar sýnist mér sem svo að við eigum því miður ekki slíka peninga til sem stendur. Auk þess væri erfitt að sannfæra einhverja risastóra leikmenn að koma til okkar þar sem þeir gætu væntanlega auðveldlega farið til annara liða sem gæti boðið upp á Meistaradeildina ásamt því að berjast um titilinn og fengið að spila þar reglulega auk þess sem við ættum ekki fyrir einhverjum ofurlaunum núna.
Þannig að heilt yfir eru leikmenn á borð við Sturridge ( sem hefur sýnt að hann getur skorað í efstu deildinni), Ince (virðist ansi efnilegur og við fáum hann frekar ódýrt) og jafnvel Walcott (ódýr vegna þess að samningurinn er að klárast) það “besta” sem við gætum fengið núna.
Samt veit maður aldrei, allt tal um þessa leikmenn gæti alveg eins verið slúður, eins og 99% af því sem nefnt er um Liverpool í fjölmiðlum alla daga.
@48 Auðvitað er að best að hugsa um og rækta unglingaliðið og ná þar inn framtíðarstjörnum. En þú verður átt þig á það er einmitt það þessir leikmenn eru, framtíðarstjörnur. En njósnakerfið sem finnur unga og efnilega leikmenn er ekki það sama og finnur leikmenn sem geta gengið inn í liðið hér og nú. Þarna hljóta einföldustu menn að sjá að mikill munur er á enda talsvert meira svigrúm til mistaka og annarra hiksta er í því systemi sem finnur 16-17 ára leikmenn. Þar borgar maður eins og Sterling upp næstu 50-100 flopp.
Eins og staðan er núna erum við þónokkra mjög efnilega menn sem verða vonandi uppistaðan í liðinu seinna meir, Sterling, Suso og Wisdom fara þar fremstir í flokki. Þú hlýtur samt að sjá það að þessir menn eru ekki að fara að draga okkur í meistaradeildarsæti á næstu 2-3 árum.
Það sem liðið þarf núna eru gæði sem vinna fótboltaleiki strax. Ekki eftir 2-3 ár. Jújú, Newcastle hefur gengið verr í ár en síðustu leiktíð, en hefurðu tekið eftir því hverjir hafa ekki verið að spila eins mikið í ár og í fyrra? Jú, vinir okkar Cabaye (meiðsli) og Tiote (meiðsli og bann). Það þarf engan sérfræðing til að segja þér að kaup Newcastle á þessum tveimur herramönnum fyrir kringum 10 milljónir punda samanlagt eru talsvert betur heppnuð en okkar kaup á Adam og Henderson fyrir í kringum 25 milljónir punda.
Mér finnst amk. líklegra að þessi gæði finnist frekar á meginlandinu en í Englandi og hugsanlega á mun skynsamlegra verði.
Hvernig væri nú að lita aðeins á leikmannamarkaðinn í öðrum löndum Evrópu og suður ameríku, í staðin fyrir ofmetna breska leikmenn á uppsprengdu verði ?
djöfull langar mér að sjá Cavani hjá liverpool….
48.
Gallinn við þetta unglingastarf er að öll fræ verða nú ekki að stórum trjám, só tú spík. Maður er hálfpartinn að sýta það, að síðasti góði ungi maðurinn sem kom upp úr starfinu er enginn annar en Steve G. Og undirritaður er það veðraður að hann man alveg eftir frönskum stjörnum og spönskum stjörnum og enskum stjörnum sem allir áttu eftir að verða næsti Zidane og ég veit ekki hver og hver. Þannig að já það er nú kannski þannig að bara einn af hverjum 10 eða jafnvel 100 verður síðan “material” sem verður hægt að nota.
Líka ef maður veltir því fyrir sér hvort LFC hafi látið einhverja “sleppa” þá er enginn sem ég man eftir sem varð að einhverjum Player í einhverju liði.
Annars hef ég góða tilfinningu fyrir því hvert Brendan er að taka liðið og treysti honum honum meir og meir. Einu mennirnir sem ég treysti ekki eru eigendurnir.
Brad Jones að skrifa undir nýjann samning. Bara flott, stóð sig vel í fjarveru Reina og á alveg skilið að vera okkar backup áfram.
http://www.liverpoolfc.com/news/latest-news/jones-extends-anfield-stay
jæja, á ekkert að fara negla Sterling á samning?
Hey, þetta er gaman! 55 sekúndur af Luis Suarez klobbum!
því miður þá held ég að það sé einhverjir brestir í að Sterling skrifi undir. Ég hef enga trú á öðru en að menn hjá klúbbnum hafi viljað klára samninga ferlið fljótt til að einmitt þessi umræða að hann sé jafnvel á förum til man u myndi blossa upp. Það er einhver skítalykt af þessu.
Skemmtilegt vídeó af El Pistolero. Ég get hreinlega ekki hugsað þá hugsun til enda ef við hefðum ekki fengið þennan snilling á þeim lágpunkti þegar Torres fór
Það verður örugglega ekki auðvelt að ná í góðan framherja í janúarglugganum. Af þessum nöfnum sem orðuð eru við okkur líst mér langbest á Walcott. Ef klúbburinn færi á fullt í það að reyna að næla í hann myndi það sýna mikinn metnað. Hann er frábær leikmaður og ungur í þokkabót. Það er margt jákvætt í gangi hjá klúbbnum og því eiga menn ekkert að vera feimnir við að eltast við svona bita. Ba væri ekkert slæm viðbót og fæst á góðu verði en líklegt er að launapakkinn hans yrði ansi mikill. Ég veit ekki alveg með Sturridge. Þetta er góður leikmaður en að kaupa hann á 12-15 millj punda + há laun finnst mér varla þess virði. Ince væri ágætis viðbót en varla mikið meira en það. Huntelaar finnst manni ólíklegur en ég myndi alveg þiggja að fá hann. Búinn að sanna sig sem steady markaskorari og það er nú það sem við þurfum. Þetta verður fróðlegur gluggi.
Jay82_LFC
Sterling will be signing a new contract at #LFC this week – most likely to be tomorrow #futureisred
Snillingarnir í Speglinum á fréttastofu RÚV hafa eflaust verið að renna yfir ummælin við þessa færslu og hafa hent í eina ágætis fréttaskýringu af uppgangi þýskra liða og vel reknu rekstrarmódeli þeirra:
http://www.ruv.is/sarpurinn/spegillinn/13122012/stodu-fotboltans-i-evropu-thjodverjar-thykja-vera
Þakka annars fínar umræður.
Enrique tæpur fyrir leikinn við A.Villa um helgina sem þýðir væntanlega hinn eitursvala Downing í bakverðinum. Miðað við hvað Villa eru lélegir þá ætti þetta ekki að skipta máli. Samt finnst mér þvílíkur 0-0 fnykur af þessum leik. Lets face it, allir leikir fram í janúar koma til með að vera vandræði. En liðinu tókst á einhvern óskiljanlegan hátt að vinna síðustu helgi og kannski er lukkan farin í lið með Liverpool. Vonandi fáum við víti til að róa menn sömuleiðis. Spá 3-0, ef markastíflan bregst verður þetta létt.
Enrique mætir galvaskur strax eftir þennan leik.
Það verður spennandi leikur á morgun og ég bíð spenntur!
God jul!
Mér finnst menn vera á ákveðnum villigötum þegar þeir tala um að gefa hefði átt ungum strákum tækifærið miklu fyrr í stað þess að kaupa og kaupa, t.d. á tímum Rafa og Houllier. Vandamálið var bara það að það voru afskaplega takmörkuð gæði í akademíunni okkar og ég held að það hafi sýnt sig í því hversu afskaplega fáir leikmenn hafa náð að sýna sig á hinu stóra sviði. Jay Spearing er sá sem kemst einna næst því.
Árið 2009 voru svo gerðar gríðarlegar breytingar uppi í Kirkby þegar Rafa réði þá Borell og Segura. Síðan þá hefur verið afar mikil uppbygging og nú er hún byrjuð að skila sér upp í aðalliðið og þá mest af strákum sem voru keyptir inn ungir, ekki ennþá hafa menn verið að skila sér að neinu ráði sem hafa alist upp þar. Það er bara allt annað og margfalt betra unglingastarf sem í gangi er núna heldur en var til fjölda, fjölda ára þar áður. Menn geta rifist og skammast um Rafa, mjög misjafnt álit sem menn hafa á honum, en það getur enginn efast um það hversu stórt gæfuspor var tekið þegar hann fékk loksins yfirráð yfir Akademíunni á sínum tíma og fékk að koma inn þar ákveðnum strúktúr. Hann er enn þá í gangi og er byrjaður að skila sér.
Ég hef engar áhyggjur af þessu Sterling dæmi, eins og ég kom inná í síðasta Podcasti, er handviss um að hann kroti undir langtíma samning afar fljótlega.
Hverjir verða keyptir í janúar er svo aftur á móti allt annað mál. Ég kýs að horfa ekki á þjóðerni eins og svo margir hér að ofan. Ég sé samt ákveðna lógík í því að kaupa Tom Ince tilbaka, hann var spennandi í akademíunni okkar, fékkst ekki til að skrifa undir nýjan samning, enda fátítt undir Hodgson og Dalglish að menn fengju einhvern alvöru séns, en þetta er hæfileikaríkur strákur og við fáum hann á mun betra verði en önnur félög út af 35% klásúlunni. Hann spilar einnig stöðu sem við þurfum að styrkja, kantframherja staðan vinstra megin því ég held að það sé að verða fullreynt með Downing.
Ég er ekki jafn hrifinn af hugmyndinni með Sturridge. Fínn fótboltamaður, en ég tel að hægt sé að kaupa svipuð gæði fyrir minna verð með því að horfa út fyrir England. Demba Ba og Bent eru ekki áhugaverðir kostir að mínu mati, en Walcott væri það á knock down verði út af samningsstöðu, en ég tel að það séu litlar sem engar líkur á því að Arsenal láti hann frá sér í janúar, þó svo að hann geti farið frítt næsta sumar. Huntelaar er ekki góður kostur að mínu mati, sé hann bara ekki fitta inn í þetta sem er verið að reyna að innleiða hjá Liverpool núna. En það eru fullt af kostum í stöðunni, verður fróðlegt að sjá hvað janúar býður okkur uppá.
Mér hefur samt alltaf fundist hálffúlt hvernig ekki hefur einu sinni tekist að ala menn upp hjá félaginu og hafa þá sem uppfyllingu, ca. leikmenn nr. 18-25 í hóp. Þriðja markvörð og varamenn í flestar stöður. Ég man eftir uppöldum leikmönnum sem hafa verið seldir (eða leyft að fara á free transfer) eins og Stephen Warnock, Emiliano Insúa, Stephen Wright, Danny Guthrie, (jafnvel Neil Mellor) ofl. og ef við förum enn lengra leikmenn eins og Dominic Matteo. Í dag eru þetta leikmenn eins og Jay Spearing og líklega Daniel Pacheco. Þetta voru allt strákar sem hefðu getað verið ágætis back-up leikmenn. Spurning auðvitað hvort það séu þeir sem vilja fara til að spila meira eða hvað.
Aðrir svipaðir leikmenn t.d. Martin Kelly, Jon Flanagan, Jack Robinson, Danny Wilson, Andre Wisdom, Conor Coady, Peter Gulacsi ofl. Í þessa leikmenn þarf að halda, þeir eru ódýrir á fóðrum og geta vonandi í einhverjum tilfellum orðið aðalliðsmenn. Nú ef ekki, geta þeir þá ekki orðið squad-leikmenn?
Mér hefur alltaf fundist blóðpeningar að kaupa leikmenn, þótt ekki sé nema á 2-3 milljónir punda, leikmenn sem ekkert sýndu, urðu aldrei annað en einmitt þessir squad leikmenn, fengu hærri laun en þeir heimaöldu og kostuðu félagið því miklu meira en hægt hefði verið að ná sama árangri með. Vonandi heyra slík kaup sögunni til og þess vegna veit maður ekki alveg hvað skal segja um Sturridge, Ba og Bent og loks Ince. Það getur brugðið til beggja vona, eins og auðvitað með öll kaup en vonandi fáum við tvo sterka sóknarmenn sem styrkja byrjunarliðið strax.
Sorglegt er satt reynist…
http://www.mbl.is/sport/enski/2012/12/14/liverpool_valdi_henderson_frekar_en_gotze/
Sælir félagar
Ég hefi engu við að bæta kommentið hans SSteins.
Það er eins og talað út úr mínu hjarta.
Það er nú þannig
YNWA
Mér þætti ansi gaman að vita hvaða leikmenn SSteinn telur fitta inn í liðið og munu strax hafa áhrif á liðið eftir Janúar gluggann ef þú hefur ekki áhuga Huntelaar, Sturridge, Bent og Ba? Svo auðvitað Walcott ólíklegur.
Ég er allavega ekki að sjá neina raunhæfa kosti á meginlandinu sem eru proven goalscorers og maður getur “nánast” bókað mörk á þá þegar þeir munu spila í Premíunni. Ekki fara að nefna menn eins og Falcao, Cavani eða Llorente sem er ekki að fara að gerast.
það sem SSteinn sagði 🙂
Ég sagði hvergi að ég væri með einhverjar lausnir á því nákvæmlega hvaða leikmenn passa inn í þessa mynd okkar, ég var fyrst og fremst að leggja mitt mat á þá sem verið er að linka okkur við þessa dagana. En af hverju ekki Llorente? Sammála því að Falcao og Cavani eru afar óraunhæfir kostir, en af hverju Llorente? Hann verður samningslaus í sumar, hann ætlar ekki að skrifa undir nýjan samning við Bilbao. Hann er goalscorer og hefur það fram yfir menn eins og t.d. Huntelaar að hann er afar flinkur með bolta í löppum, þótt stór sé og miðað við hvernig Bilbao hafa spilað upp á hann af því sem ég hef séð, þá væri hann margfalt nær því að passa inn í þetta kerfi okkar en sá hollenski. Ef verið er að leita að manni í níuna, þá fittar hann inn í þá leit. Annars held ég að menn séu meira að leita að mönnum í kantframherjastöðurnar, sem geta hugsanlega leyst fremstu stöðuna líka. Huntelaar, Bent, Sturridge og Ba eru bara leikmenn sem ég sé ekki fyrir mér að séu þessir menn sem verið er að leita að.