Akademían – tímabilið hálfnað

Taktu þátt í jólaleik Merkjavara og Kop.is. Verðlaunin eru ferð á Liverpool-leik! Sjá nánar hér!

Langt í næsta leik gegn Fulham og ekkert nýtt í slúðrinu. Er ekki bara upplagt að skoða aðeins hvernig “hin” liðin okkar í Liverpoolborg hafa það þessa dagana, rýna aðeins ofan í vinnuna í Kirkby með unga fólkið okkar.

Aldrei þreytist ég á því að lofsyngja Rafael Benitez fyrir að hafa kjark til að umturna starfi unglingaliðanna okkar haustið 2007 og fram á vor 2008. Hann losaði út þjálfara sem unnið höfðu í fjölda, jafnvel tugi, ára og höfðu skapað leikmenn eins og Fowler, Owen, McManaman, Gerrard og Carragher. Það var ekki einfalt og t.d. ljóst að þessir leikmenn fimm töldu þarna verið að vinna ákveðin skemmdarverk og létu það alveg heyrast, m.a. Carra í sinni ævisögu.

Frank McParland var falið að endurskipuleggja starfið og strax var farið í það að færa áherslur í þjálfun í átt til þeirrar hugmyndafræði sem þekkist í spænska boltanum og ekki löngu síðar var Borrell ráðinn ásamt Segura.

Fyrst í stað voru breytingarnar hægar, margir erlendu leikmannanna sem Rafa og co. treystu náðu sér ekki á strik, og leiktímabilið 2009 – 2010 má segja að áherslurnar hafi aðeins breyst í átt til þess að farið var að leita eftir leikmönnum á Bretlandseyjum sem líklegir væru til að ná ætluðum árangri. Leikmenn eins og Andre Wisdom, Michael Ngoo, Raheem Sterling og Jonjo Shelvey keyptir, leikmenn sem við höfum einhverja fengið að sjá.

Rafa skipti sér mikið af starfi akademíunnar, Hodgson kom lítið að málum en Dalglish og Clarke tóku mikinn þátt í starfi unglinganna, þeir ásamt Comolli þrýstu á samning við Wisdom og skelltu blóði á tennur Sterling.

Fólk veit að ég hef verið að ergja mig á FSG mönnum en það jákvæðasta í þeirra fari hingað til er að maður finnur mjög greinilega að þeir gera háar kröfur til unglingastarfsins, sá þáttur er mjög ofarlega á þeirra blaði og ég er sannfærður um það að einn aðalkosturinn sem þeir sáu við Brendan var að hann er reyndur unglingaþjálfari sem hefur verið óhræddur að gefa ungum mönnum séns.

Rodgers virðist sá stjóri sem hingað til hefur mest velt unglingunum fyrir sér. Í viðtali á opinberu heimasíðunni í dag talar Frank McParland um þetta (eins og eftir minni pöntun, er viss um að Kristján Atli bað um þetta viðtal til að styrkja pistilinn minn), það að Rodgers er mjög reglulega í Kirkby til að fylgjast með og spjalla við unglingaþjálfarana, fyrst og fremst auðvitað til að reyna að finna næsta demant.

Í haust hafa orðið töluverðar tilfærslur í starfsliði þar. Mike Marsh var að þjálfa U-18 ára liðið okkar en hann er nú kominn til aðalliðsins. Í hans stað var Steve Cooper ráðinn yfirþjálfari þess liðs. Cooper hefur verið í fimm ár hjá Liverpool, var yfirþjálfar 12 – 16 ára liðanna með góðum árangri og því augljós kostur. Var aðstoðarmaður hjá Segura og Borrell, öllum hnútum kunnugur.

U-18 ára liðið okkar spilar í Barclays U18 PL-Academy deildinni, riðli þrjú. Liðið hefur verið ansi óstöðugt í leik sínum, unnið góða sigra eins og gegn Man.City heima en líka tapað illa fyrir liðum sem menn ætluðu sér að vinna, eins og gegn Fulham á heimavelli. Í dag situr það í miðjum riðlinum og eiga ekki mikla möguleika á að komast í undanúrslitin á landsvísu sem sigurvegarar riðlanna og “besta 2.sætið” spila í.

Þetta lið spilar líka í FA Youth Cup sem er stærsta keppnin í þessum aldursflokki. Í þeirri keppni munu Cooper og félagar fá að nota alla bestu mennina, sem ekki hefur verið raunin í öllum deildarleikjunum þar sem margir hverjir eru látnir spila í eldri liðunum tveimur, NextGen og U-21. Liðið er búið að spila einn leik, rústuðu Swindon 5-0 á útivelli og munu mæta Bradford í næsta leik.

Liðið fyrir ofan U-18 er NextGen liðið okkar sem tekur þátt í eins konar Meistaradeild Yngriliða Evrópu, aldursflokkurinn er U-19. Þar erum við í fjögurra liða riðli með Dortmund, Rosenborg og Inter. Við töpuðum öllum útileikjunum en höfum unnið Norðmenn og Þjóðverja á Anfield. Næsti leikur er 8.janúar á Anfield gegn Ítölunum sem þurfa eitt stig til að vinnariðilinn, en okkar menn munu ljúka keppni þar. Það eru töluverð vonbrigði eftir að hafa komist alla leið í undanúrslit þessarar keppni í fyrra.

Breytingar urðu á fyrirkomulagi elsta hópsins okkar. Varaliðið, “reserves” var í sumar lagt niður en í staðinn stofnuð Barclays U21 Premier League þar sem 22 liðum var skipt í þrjá riðla fyrir áramót. Tvö efstu lið hvers riðils og síðan tvö bestu af þremur í öðru sæti munu svo keppa í úrslitakeppni eftir áramót í “Barclays U21 Elite League”. Leikmennirnir sem eru gjaldgengir þarna eiga að vera 21s árs í upphafi keppnistímabils en alltaf má einn “eldri” leikmaður spila með.

Varaliðskeppnin var orðin ansi þreytt, fáir leikir og lítill metnaður fannst manni. Strax frá fyrsta leik í haust var alveg ljóst að okkar klúbbur, undir styrkri stjórn Borrell, tók keppnina mjög alvarlega. Eftir tvö jafntefli í fyrstu þremur leikjunum var sett í fluggír og 10 sigrar í næstu 11 leikjum þýddi að rústaði sínum riðli og mun taka sæti í þessari “Elítu” eftir áramót ásamt West Ham, Arsenal, Tottenham, Man Utd., Wolves, Southampton og W.B.A. Liðið er það eina ósigraða í keppninni hingað til, spilar glimrandi hápressufótbolta sem verulega er gaman að sjá.

Nú í desemberbyrjun urðu þjálfaraskipti þegar Borrell var gerður að “Yfirmanni Akademíuþjálfunar” og við náðum í Alex Inglethorpe frá Tottenham, en það lið var einmitt með næstbesta árangur í þessari keppni. Inglethorpe er maður sem Rodgers valdi og þekkir, byggir fótboltann sinn á sömu hugmyndum og BR en auðvitað út frá þeim áherslum sem unnið hefur verið eftir í Kirkby undanfarin ár.

Ef við sleppum úrslitunum og förum að skoða vonarstjörnur byrja ég í U21s árs liðinu. Þar hafa margir leikið sem við höfum þegar séð, leikmenn eins og Danny Wilson, Jack Robinson, John Flanagan, Adam Morgan, Yesil, Conor Coady og Dani Pacheco. Allt leikmenn sem hafa fengið mínútur með aðalliðinu í vetur og allt leikmenn sem hafa “potential”. Inglethorpe gaf skýrt til kynna að mjög margir leikmenn U21s árs liðsins yrðu lánaðir í janúar og mitt mat er að allir þessir fyrrnefndir geti verið í þeim hópi.

Utan þessara nafna eru fjórir leikmenn sem hafa hrifið mig töluvert. Michael Ngoo (framherji frá Southend), Ryan McLaughlin (hægri bakvörður frá Glenavon N.I.) og Danny Ward (markmaður frá Wrexham) eru afrakstur unglinganjósnakerfisins og hafa leikið afar vel í vetur. Ngoo er stór og sterkur en með mikla tækni miðað við stóran mann. Ég hefði viljað sjá hann í hóp aðalliðsins í einhverju leikjum í vetur enda raðar hann inn mörkum, en næsti kostur er að lána hann til liðs eftir áramót og sjá hvernig hann kemur út í aðalliðsfótbolta (first team football). McLaughlin fékk mínútur í Ameríku og var síðan valinn í A-landslið Norður Íra en meiðsli hafa hrjáð hann og stoppað eilítið af. Hann er gríðarlega góður sóknarbakvörður sem hefur bætt varnarleik sinn mikið. Ég er sannfærður um það að hann hefur mikla möguleika á að fá aðalliðssæti á næstu árum, er að mínu mati miklu framar en Flanagan þar! Danny Ward er markmaður í þeim anda sem Rodgers vill. Yfirvegaður og mjög góður í fótunum með mikla yfirsýn.

Í U-18 hópnum nefni ég svo leikmenn sem margir hverjir hafa verið að spila með U21. Jordan Ibe (vængframherji frá Wycombe), Yalany Baio (varnarmiðjumaður frá Portúgal), Kristoffer Peterson (vængmaður frá Svíþjóð) og Jerome Sinclair (framherji frá W.B.A.) eru þau nöfn sem fyrst koma upp í hugann. Baio er lítil ofvirk varnarmús sem þarf að bæta við sendingargetuna sína en hinir þrír eru frábær efni. Peterson er vængmaður af gamla skólanum með mikinn hraða í sinni vinnu allri, tækni sem og annarri fótavinnu. Mikil sendingatækni og góður í að klára færi. Jordan Ibe er meiri vængframherji, með fullt af gabbhreyfingum í vopnabúrinu og mikið markanef. Jerome Sinclair varð í vetur yngsti leikmaður til að spila leik fyrir aðalliðið í sögu Liverpool. Og hann á inni fyrir því. Það er vissulega ekki gáfulegt að setja pressu á strák sem er fæddur 1996 en þessi drengur er eitt mesta efni sem ég hef horft á frá því ég fór að fylgjast með yngri liðunum.

Hann er týpísk nía ef þær eru til. Gríðarlega góður staðsetningarlega, feykilega öflugur líkamlega, góður skallamaður og skorar mörk með báðum fótum innan teigs sem utan. Ég verð afar svekktur ef við sjáum þennan strák ekki í leikmannahóp aðalliðsins næsta haust, í dag er hann miklu betri en bæði Adam Morgan og Yesil, leikmaður sem gæti orðið næsta Liverpool legend. Ég veit ég tala hátt og vona að ég jinxi ekki drenginn…en svoleiðis bara er það.

Joao Carlos Texeira (sóknarmiðjumaður frá Sporting Lisbon) og Gary Trickett-Smith (sóknarmaður frá Crewe) hafa sýnt marga góða takta en vantar enn töluvert uppá líkamsstyrk og vinnusemi til að maður setji þá í efstu skúffu.

Jordan Lussey er eini uppaldi Scouserinn sem maður sér eiga möguleika utan Coady, Flanno og Robinson. Duglegur miðjumaður sem er grjótharður takklari en mér finnst vanta töluvert upp á leikskilninginn hans.

Þarna vilja LFC menn bæta sig og talað er um að U15 og U16 ára liðin okkar geymi góða heimadrengi, en þangað til getum við glaðst yfir því að unglinganjósnaraliðið okkar virðist hafa unnið sína vinnu virkilega vel undanfarin ár, kannski ekki úr vegi að taka aðalnjósnarana í læri…

24 Comments

  1. Góð umfjöllun, akademían hjá Liverpool hefur alltaf verið í hávegum höfð og man ég ekki betur en að pep guardiola hafi talað um hana sem eina bestu í heimi. Maður setur svo sem spurningarmerki við menn eins og Pacheco(91′), Ngoo(92′) og Wilson(91′) þessir allir komnir yfir tvítugt og ekki að fá neina raunhæfa sénsa í mjög þunnskipuðu liði Lpool þessa dagana. En klárlega mikið af spennandi leikmönnum, hlakka til að sjá menn eins og Sinclair, Ibe og seyi ojo sem var keyptur í fyrra hann er reyndar bara 15 ára en mörg stórlið voru á eftir honum t.d Chelsea. Þetta er í raun það eina sem að maður getur huggað sig við varðandi LFC þessa dagana, hvað akademían er sterk og mikið lagt upp úr því að ná í bestu ungu mennina á Englandi, Sterling, Ojo, Ibe og fleiri hafa verið keyptir fyrir 0,5-1 m punda sem kemur síðan til með að hækka eftir frammistöðu og sýnir þetta metnaðinn sem er til staðar!

  2. Takk fyrir þetta Maggi.

    Enn og aftur kemur það í ljós hvað við Liverpool aðdáendur eru heppnir að hafa Kop.is. Pistlarnir hérna eru frábærir og fróðlegir.

    Þetta eru spennandi tímar hvað varðar ungu drengina okkar. og verður gaman að fylgjast með hvað gerist í uppöldum leikmannamálum hjá okkur á næstu árum miðað við önnur lið.

    Takk Takk

  3. Flott grein, Maggi. Og mér finnst eiginlega nokkuð ljóst að ef Brendan tekst ekki ekki ætlunarverk sitt með aðalliðið liggur eiginlega beint við að gera Borrell að þjálfara aðalliðsins (og mjög í anda Liverpool). Það væri allavega ekki hægt að líta alveg framhjá honum.

  4. Jack Dunn og Lloyd Jones eru líka nöfn sem vert er að minnast á. Jack Dunn er scouser sem hefur verið mikið meiddur þetta tímabil. Sá hann setja tvö í leik um daginn, grjótharður CAM eða framherji…. Lloyd Jones er stór og sterkur miðherji, frekar líkur Andy Carroll í útliti fyrir utan faxið.

  5. Flottur pistinn Maggi og verð að samsinna því að U-18 liðið er stórskemmtilegt. Sá leik við ..minniir mig Cristal Palace og Ibe og Sinclair fóru hreint á kostum. Eins hef ég séð nokkra leiki þar sem h-bakvörðurinn McLaughlin hefur hrifið mig sérstaklega hvað tækni varðar en vantar aðeins í styrk. Þetta þýðir ekki að varaliðið sé eitthvað slor heldur og framtíðin klárlega mjög björt.

  6. Sælir félagar

    Takk fyrir stórfróðlegan pistil Maggi og samkvæmt honum eru bjartir tímar framundan. Hefði ekkert á móti því að sjá einhverja af þessum strákum koma inn í leik og leik hjá aðalliðinu.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  7. Flottur pistill Maggi!

    Akademían okkar er virkilega flott og sennilega stærsta arfleiðin sem Rafatollah skildi eftir sig. Það er hinsvegar leiðinlegt til þess að hugsa hversu fáir hafa komið upp úr henni síðustu ár. Auðvitað erum við að uppskera núna en á undan komu mörg mögur ár.

    Krafan hjá Liverpool er árangur og það strax. Þ.a.l er erfitt fyrir þjálfara að gefa ungum leikmönnum sénsinn. Það er miklu öruggari valkostur að versla leikmann með reynslu, en um leið dýrari valkostur. Man Utd er gott dæmi um lið sem hefur geta leyft sér að gefa ungum mönnum sénsinn. En það sem er svo magnað við það er að þetta eru ekkert allt saman einhverjir “world beaters”. Darron Gibson, Fraizer Campell, Macheda o.fl eru dæmi um leikmenn sem fengu leiki með aðalliðinu, skiluðu sínu en eru í dag algjörir meðalmenn í algjörum miðlungsliðum. (Everton er miðlungslið, þeir eru bara búnir að gleyma því.)

    Það sem ég er að reyna segja er að við erum alltaf að bíða eftir stjörnu. Eins og Fowler, Owen eða Gerrard. Einhvern sem rífur klúbbinn upp á næsta plan. Einhvern sem gerir okkur spennt og stolt af klúbbnum. Á meðan viðbjóðurinn á hinum endanum á M62 hefur verið að nota marga kjúklinga sem “squad players”.

    Ég bara trúi ekki að undanfarin 10 ár hafi ekki verið einn leikmaður úr unglingastarfinu sem skilað gæti hlutverki fyrir klúbbinn. Mér sýnist King Kenny og núna BR vera að reyna gera eitthvað í þessa átt. Vona að það haldi áfram.

  8. Ég er af “gamla skólanum”, þ.e. byrjaði að halda með Liverpool á tímum Keegan/Toshack/Emlyn Huges o.fl við upphaf “gullaldar tímabils” Liverpool.

    Því finnst mér frábært að fá þessa lesningu frá Magga. Fróðlegt og vonandi upphaf af sætum sigrum og mörgum gljáfægðum bikurum í safnið!!

  9. Takk fyir fróðlegan pistil Maggi, það er ekki tómur kofi hjá þér þegar kemur að fróðleik og áhuga á klúbbnum okkar. #ánægðurmeðþig.

    Við verðum að vona að menn fái að fara á lán niður um deildir svo fljótlega til að fá almennilega eldskírn, því líklega ganga fæstir af þeim beint inn í liðið um langan tíma eins og Sterling er að gera. Rauðnefur andskotinn…. má eiga það að hann er duglegur að lána menn sem koma svo reynslunni ríkari til baka.

    YNWA!

  10. Afsakið þráðránið: Af hverju reynir Liverpool ekki að fá Alexandre Pato að láni út tímabilið? Hann hefur lítið spilað með AC í vetur, er heimsklassaleikmaður. Talað er um að hann gæti jafnvel farið til Corinthians.

  11. Færslur sem strákangi og stuðningsmaður United setti hér inn var tekin út, sem og málefnaleg og góð svör okkar fólks hér.

    Engin ástæða til að vera láta svona kjána skemma fyrir okkur hinum – hvað þá þegar hann dregur nafn manns eins og Cantona á svona skítaplan.

    Framundan í dag er Evrópudeildardráttur og vonandi fréttir af Sterling…

  12. Flotttur pistill!!

    Echo talar um Kevin Gameiro 25 frakki sem gæti komið inn ef Sturridge kemur ekki
    4 mörk í 11 leikjum fyrir PSG á þessu tímabili en tækifærin hafa fækkað eftir að Zlatan kom til PSG

    http://youtu.be/cVxXAccU8yQ

    Annars hefur maður þá tilfinningu að BR eigi eftir að fara hægt af stað nú eru 11 dagar í það að markaðurinn opnar. Svo er alltaf þessi krafa á innlendaleikmenn.
    Persónlega vildi ég fá einn þýskan “sóknar”leikmann sem gæti skorað og gæti tæklað menn í herðar niður 🙂

    YNWA!!

  13. Mjög skemmtileg lesning Maggi. Þetta tímabil hef ég nánast eingöngu stuðst við viskubrunn Magga þegar kemur að unglingaliðunum okkar og það er mjög gaman að sjá að vinnan sem byrjað var á árið 2009 er farin að skila sér í aðalliðið. Eitthvað sem hefur ekkert gerst síðan Gerrard kom upp á síðustu öld.

    Hef ekki lesið ævisögu Carra en hann var oft sagður tortrygginn í garð Benitez (undir lokin) og þetta með skoðun hans á breytingum akademíunnar kemur mér ekki mikið á óvart. Skrítið samt þar sem staðreyndirnar hreinlega öskruðu á hann.

    Houllier byrjaði ef ég man rétt á að taka allt í gegn hjá klúbbum er hann kom og þar á meðal akademíuna sem hefur verið ein sú flottasta á Englandi í mörg ár. Það er bæði hrikalega lélegt og í raun fáránlegt að hún hafi ekki skilað einum nothæfum leikmanni í rúmlega áratug. Breytinga var augljóslega þörf og það róttækra. Frábært ef þær hafa virkað og það er mjög gaman að sjá það efnilega stráka í unglingaliðunum núna að maður sér vel fyrir sér að 2-4 nái að stíga skrefið upp í aðallið Liverpool. (til viðbótar við þá sem hafa verið að koma upp undanfarið).

    Það væri gríðarleg bæting m.v. síðasta áratug.

  14. Ansi góð vika. Sterling skrifar undir og Sturridge og Ince staðfestir (þótt maður fagni ekki fyrr en að maður hefur séð þá í búning af fenginni reynslu). Þetta allavega hlýtur að gefa liðinu smá pepp fyrir næsta leik.

  15. Sturridge er langt frá því að vera staðfestur. Samningaviðræður við hann sigldu í strand því hann vill of há laun. Liverpool byrjaðir að leita annað. Þetta segir Echo.

  16. Vona svo innilega að sturridge komi ekki hef nákvæmnlega engan áhuga á að fá hann til Liverpool fekar að elta þá Lewandowski sem er á seinasta ári sínu af samningi

Er þetta lið gott eða slæmt?

Dregið í Evrópudeild: ZENIT!