Stoke úti á morgun

Verkefni morgundagsins er álíka erfitt fyrir leikmenn Liverpool sem og stuðningsmenn liðsins. Andstæðingarnir eru Stoke City, leiðinlegasta lið enska boltans sl.ár /áratugi og lið sem Liverpool hefur í þokkabót gengið skelfilega illa með undanfarið. Stoke liðið kemst upp með meira en önnur lið í boltanum, líklega á þeim forsendum að þar sem þeir tefja svo oft eða brjóta svo oft af sér að það er ekki hægt að refsa þeim fyrir það alltaf. (Ekki láta vælið stjóra þeirra plata ykkur.

Síðast þegar liðin mættust fékk besti leikmaður Liverpool, Luis Suarez rosalegar móttökur frá leikmönnum Stoke sem fengu bara skotleyfi á manninn, enginn  meira en Robert Huth sem traðkaði á honum án þess að fá svo mikið sem gult spjald fyrir. Þrátt fyrir það var eina umræðuefnið eftir leik leikaraskapur Suarez sem reyndar tók verstu dýfu sem ég hef séð frá honum (ein af afar fáum augljósum dýfum hans)…varla talað um Huth.

Eftir þetta höfum við séð umræðuna snúast úr því að leikaraskapur er  allt að því nokkuð eðlilegur partur af leiknum  og leikmenn nánast gagnrýndir fyrir að láta sig ekki detta á meðan það er orðið morðtilraun þegar varnarmaður sparkar bolta í höfuð sóknarleikmanns.

Stoke leikurinn í haust var alveg dæmigerður þar fyrir utan, Stoke pakkaði í vörn og dúndraði boltanum fram á meðan Liverpool stjórnaði leiknum frá A-Ö og átt þrjú skot í tréverkið án þess að koma boltanum inn. Ef allt er eðlilegt verður þessi leikur frá 7.okt endurtekinn á morgun.

Stoke vann þennan leik í fyrra 1-0 eftir mark úr vítaspyrnu. Fyrir þá sem vita ekki hvað vítaspyrna er þá er það eitthvað sem flest lið eiga rétt á að fá ef brotið er á sóknarleikmanni innan hvítu línana sem eru við markið. Fái lið vítaspyrnu er leyfilegt að stilla boltanum upp á svokölluðum vítapunkti fyrir framan markið og það má enginn vera fyrir þegar þú reynir að skora nema markmaðurinn. Ég hef séð gömul video af leikmönnum Liverpool fá svona spyrnu…þeir skutu framhjá.

Liverpool hefur ekki unnið deildarleik á Britannia vellinum í fjórum síðustu tilraunum, tvisvar höfum við tapað og tvisvar gert jafntefli í fjórum hrikalega pirrandi leikjum. Ef heimaleikir eru teknir með þá hefur Liverpool bara unnið tvo af síðustu níu leikjum gegn Stoke sem er glæpsamleg tölfræði sem þarf að laga og það strax.

Næstu 12 daga eigum við þétt prógramm fyrir höndum með þremur útileikjum. Eftir það tekur við þriggja vikna tímabil (jan – feb) þar sem við þurfum að heimsækja Old Trafford, Emirates Stadium og Ethihad Stadium.  Fyrst er það Stoke á morgun, svo er það QPR 30.des, eftir það eigum við Sunderland heima 2.jan og að lokum er það Mansfield úti 6.janúar.

Frá þessu vill ég sjá 9 stig og áfram í bikar. En óttast að þetta verði svona 4 stig og áfram í bikar.

Liverpool liðið er annars í ágætu standi eins og er með aðeins þrjá leikmenn á meiðslalistanum. Martin Kelly er frá vegna hnémeiðsla og er ekki væntanlegur í bráð. Fabio Borini er ennþá frá en ætti að byrja að æfa með aðalliðinu í þessari viku eða þeirri næstu. Auk þeirra er Assaidi tæpur vegna skorts á hæfileikum…nei ég meina hnémeiðsla.

Gengið gegn Stoke hefur alls ekki verið ásættanlegt undanfarið og ég er orðinn leiður á að sjá þá bully-a okkar menn og komast upp með það. Því vill ég að Rodgers geri róttækar breytingar á liðinu fyrir þennan leik og hafi það ca. svona

Grobbelaar

Carragher – Yeats – Hughes

Tommy Smith
Gerrard – Souness – McMahon – Case
Ian St. John
Suarez

Þetta lið myndi enginn bully-a.

Tippa þó á að Rodgers geri ekki margar breytingar frá síðustu leikjum

Reina

Johnson – Skrtel – Agger – Enrique

Gerrard – Lucas
Downing – Henderson – Suso

Suarez

Varnarlínan velur sig sjálf og verður óbreytt nema Rodgers ákveði að hvíla leikmenn eða breyta um leikuppstillingu. Hann gæti sett Carra inn og haft 3 miðverði eins og við höfum séð áður gegn Stoke. Eins gæti Coates komið inn með þá hæð sem þarf til að eiga við Stoke sem spilar auðvitað íþrótt sem er líkari Amerískum Fótbolta frekar en alvöru fótbolta.

Lucas og Gerrard sitja áfram á miðjunni, Gerrard hefur spilað hverja einustu mínútu og Rodgers hættir ekki að hrósa honum. Lucas er nú þegar búinn að spila þannig að við getum ekki án hans verið, þrátt fyrir að vera nokkuð langt frá sínu besta.

Downing spilaði þannig í síðasta leik að hann ætti að fá að byrja þennan leik líka. Veit ekki með hina tvo, Suso var tekinn úr kælinum fyrir síðasta leik og gæti fengið nokkra leiki í röð núna. Shelvey kom inn fyrir Allen og rúllaði stöðum með Downing og Suso. Fyrir mitt leyti má alveg hvíla Allen áfram og sérstaklega gegn þessu Stoke liði sem ég held að henti honum ekki vel. Upp á smá rotation og kraft tippa ég á að Henderson komi inn í þennan leik. Ég skil ekki alveg hans stöðu hjá Liverpool því hann hefur komið ágætlega inn undanfarið. Finnst eins og Rodgers hafi ekki alveg trú á honum og óttast að orðrómur um að hann hafi verið boðin sem skiptimynt í sumar (fyrir Dempsey) hafi verið að einhverju leyti sannur og hann fari jafnvel í janúar (á láni þá líklega).

Spá:
Það er jóladagur í dag og ég nenni ekki að velta Stoke City meira fyrir mér, þeir leggja upp með að pirra andstæðinginn og gera það listavel. Það er komið að sigurleik á þessum viðbjóðslega velli og við tökum öll stigin á morgun. Segi 0-2 og það verði Suarez og Gerrard sem skori fyrir okkur. Svei mér þá ef Gerrard skori ekki úr víti…nei djók.

p.s.
Þið ykkar sem viljið verja leik Stoke og tala fallega um þetta lið endilega rífið ykkur upp, horfið fast í spegil og sláið ykkur þéttingsfast utanundir, a.m.k. ekki gera það hér 🙂

Babu 

44 Comments

  1. Verður erfitt eins og alltaf á móti Stoke úti, vona að Rodgers fari ekki að gera of miklar breytingar, væri til í að sjá liðið svona:

    Reina
    Johnson Skrtel Agger Enrique
    Gerrard Lucas
    Shelvey
    Downing Suarez Sterling

    Spái þessu 1-2 í skemmtilegum leik, Downing heldur áfram að koma á óvart og spila vel gæti reyndar verið að hans frammistöður undanfarið séu til þess að fá betri samning hjá næsti liði en vonandi að hann verði áfram hjá liverpool enda fínasti leikmaður þegar hann nennir því! Auk þess nennir maður ekki að sjá 20m punda mann seldan á 5m ári seinna. Downing skorar því aftur á morgun og Sterling setur svo sigurmarkið!

  2. Hef bara engar áhyggjur af þessu þetta verður sigur og það góður eftir mikið dómaramótlæti..

  3. Fyrir þá sem vita ekki hvað vítaspyrna er þá er það eitthvað sem flest lið eiga rétt á að fá ef brotið er á sóknarleikmanni innan hvítu línana sem eru við markið. Fái lið vítaspyrnu er leyfilegt að stilla boltanum upp á svokölluðum vítapunkti fyrir framan markið og það má enginn vera fyrir þegar þú reynir að skora nema markmaðurinn. Ég hef séð gömul video af leikmönnum Liverpool fá svona spyrnu…þeir skutu framhjá.

    LOL

  4. Inn með Coates í þessum leik. Þurfum a´þessum trukki að halda í þessari baráttu.

  5. Manni hryllir við því að eiga að spila við Stoke, hvenær sem er. Ekki bætir úr skák að það sé á Boxing Day!

    Við þurfum að mæta baráttu þeirra með krafti og gæðum og þá eigum við að vinna leikinn. Því gæði er eitthvað sem lítið er af í Stoke.

  6. Skemmtileg upphitun. 🙂

    Veitir ekki af,Stoke er ömurlegasta lið sem um getur.

    Bíð eftir því að einhver komi og upplýsi um misstökin. – Það átti að skrá þetta lið í Rugby league!

    Til að toppa ruglið er þessi sérkennilegi Owen þar. Er hann ekki andsetinn? Er þetta virkilega sami gaurinn sem spilaði eins og engill fyrir okkur á fyrir nokkrum árum?

    Það á ekki að hleypa honum í viðtöl.

    Þetta verður erfiður leikur. Þetta verður slagsmálaleikur.

    Mér líst vel á fyrri liðsuppstillinguna. Dicks og Ruddock á bekknum. Þá er þetta komið

    Gleðileg jól og til hamingju með Sterling samninginn 🙂

    YNWA

  7. Takk Babu

    Þú gerðir góðan dag að frábærum dag með svona upphitun.

  8. ég vil sjá 352 í þessum leik:

    skrtel coates og agger í hjartanu enrique og johnson i bakvörðum. lucas gerrard og sahin miðju með suarez og suso/cole uppá topp

  9. Geggjuð upphitun

    Gaman að sja þig tala um víti, hef aldrei heyrt þetta orð fyrr en gaman væri.ef okkar menn fengju að profa að fa eitt svona.
    Verdur viðbjoðslega erfitt a morgun en eg bað um eina jolagjof sem var sigur ur þessum leikog eg.vona bara að eg.fai þessa jolagjof, mer er drullusama hvernig við faum þessi þrju stig bara ef.þau koma, helst skora rangstoðumark a 95 minutu med skoti i stong og sla og inn : )

  10. Tap er eitthvað sem við ekki sættum okkur við og venjumst ekki og við sættum okkur við sigur. Sáttur við bekkinn hjá Babu þó svo sumir séu eldri en aðrir(fyrsta liðið)

    Reina

    Coates -Skrtel – Agger

    Johnson Enrique
    Gerrard –Lucas-Cole

    Suarez - Jerome Sinclair

  11. Flottur Babú.

    Stoke-leikir eru vibbi allan daginn, en vonandi tekst okkur að taka stigin með okkur. Liðið er með fæst mörk skoruð á sig á heimavelli af öllum fimm bestu deildum Evrópu, sem segir jú nokkuð.

    Frasinn “tough to beat” var fundinn upp um svona lið. Og það er ekki hrós…

    Vona að þú hafir rétt fyrir þér um lokatölur, þá skálar maður svei mér bara um kvöldið…

  12. Finnst að rodgers ætti að hvíla agger, lucas, gerrard og suarez og jafnvel johnson líka. Og spila þeim sem við meigum mest við því að missa í meiðsli.

  13. Ég er sammála Babu með byrjunarliðið á morgun nema að ég held að það væri gott að fá Shelvey inn fyrir Suso. Held að Shelvey gæti verið góður fyrir okkur gegn Stoke. Síðan höfum við hraðann í Sterling á bekknum sem er gott. Þrjú stig á morgun væru frábær úrslit og mögulega það sem þyrfti til að koma liðinu almennilega í gang. Suarez og Sterling sigla þessu í höfn og allir sáttir.

  14. Sammála LP með að hafa Shelvey. Einnig sammála því sem kemur í commentum hér að ofan að nota Coates. Eigum að nota líkamlega sterka menn framan af og þora svo að skipta inn liprari mönnum (ef þarf) í lokin. Hvíla tekníska menn eins og Sterling þar til er komin þreyta í mannskapinn.

    Annars er ég sérlega glaður með commentin sem hafa verið að birtast á netinu frá mönnum eins og Suarez og Sterling varðandi Gerrard. Margir hafa verið að drulla yfir hann í seinni tíð. Ýjað að því að liðið sé betra án hans og fleira í þeim dúr. Nú hefur hann verið gagnrýndur fyrir að vera ekki driffjöðurinn í Lpool. Málið er, í mínum huga, að hann setur sjálfan sig ekki í forgrunn umfram árangur liðsins heldur vinnur í því að aðlagast nýrri hugsun síns stjóra. Dæmin sýna (m.a. hjá Chelsea) hvað stór egó geta gert mikinn óskunda

  15. Ég horfði á Tottenham – Stoke seinustu helgi og guð minn góður hvað Stoke-ararnir voru harðir af sér. Náðu alveg að pirra alla í Tottenham liðinu sem fóru alveg að væla og reyna að ýkja allar snertingar og reyna að fá eithvað dæmt á sig sem gekk ekkert vel. Svo fóru þeir auðvitað og mættu hörðu með hörðu og þá voru Stoke-ararnir svo seigir í að láta sig detta og fá dæmt með sér. Alveg ótrúlegt hvað þetta var pirrandi. En málið er að í svona leik þarf bara að halda haus og ekki vera að gera eithverja vitleysu.

    En ég allavega losaði mig við Suarez úr fantasy og keypti Shawcross. Hef enga trú á þessu.

    P.s. Bestu úrslitin hjá Liverpool koma alltaf þegar maður hefur enga trú.

  16. Þetta verður mjög erfiður leikur held ég. En ef við náum að halda þeim niðri í föstum leikatriðum þá er ég mjög bjartsýnn á að við náum góðum úrslitum. Ætli við vinnum ekki bara 0-1 og skorum úr VÍTI;-)

  17. Hér eru úrslitin hjá Stoke á heimavelli á leiktíðinni:

    • 0-0 gegn Arsenal
    • 1-1 gegn Man City
    • 2-0 gegn Swansea
    • 0-0 gegn Sunderland
    • 1-0 gegn QPR
    • 1-0 gegn Fulham
    • 2-1 gegn Newcastle
    • 1-1 gegn Everton

    8 leikir: 4 sigrar, 4 jafntefli, 0 töp. Markatalan 8-3 og þeir hafa haldið hreinu í 5 af 8 leikjum. Þýðing: STOKE TAPA EKKI Á HEIMAVELLI. Og þeir halda oftar hreinu en ekki á heimavelli! Og þeir skora aðeins mark að meðaltali og eru ekki með nógu góða sóknarlínu til að vinna nema helming leikjanna, en STOKE TAPA EKKI Á HEIMAVELLI.

    Niðurstaða: 0-0 jafntefli eða 1-0 sigur fyrir Stoke á morgun.

    Ég skal vera hreinskilinn: ef ég ætti ekki leikskýrslu annað kvöld myndi ég sennilega sleppa því að horfa. Það pirrar mig ekkert fótboltalið í heiminum jafn mikið og þetta helvítis lið og stjórinn þeirra er verri ef eitthvað er. Þeir eru heimsmeistarar í að pirra okkur Púllara, bæði í úrslitum og öðrum atvikum á velli. Tilhugsunin um að horfa á þá níðast á Suarez og Sterling í 90 mínútur, og komast upp með það, og tilhugsunin um að við verðum hlunnfarnir um 1-2 víti í viðbót og að við munum svo samt tapa 1-0, er krabbameinsvaldandi.

    Spái Liverpool 3-0 sigri. Sjáumst annað kvöld. Kv. Bjartsýni KAR.

  18. Nr.21 KAR Liverpool er oft liðið sem eyðileggur svona tölfræði 🙂

    Nr. 22 Gustur Eigum við nú ekki að treysta þjálfarateyminu fyrir þessu bara?

  19. Hefði viljað sjá Ruddock í fyrri liðsuppstillingunni. En annars frábær upphitun. Ég spái 1-1 Agger skorar fyrir okkur.

  20. Það er lítill samkomu staður á móti anfield, þegar maður labbar inn og lítur til vinstri er maður(félagar hans kunna syngja )sem missir ekki úr leik(síðast voru það 3 á 30 árum) og hann býr í stoke og konan keyrir hann á alla leiki. Svo það er ekki allt slæmt frá stoke?

  21. Vonandi vinnur Liverpool þetta drasl lið og vonandi skorar ekki andsetni dvergurinn á móti okkur.

    That´s all I want for boxing day 🙂

  22. Hvernig væri að Joe Allen myndi klína honum í Samúel á morgun…jafnvel þótt hann skjóti aldrei á markið. Annars tippa ég á 1-0 og Shelvey með markið. Kominn tími á þann dreng í deildinni.

  23. Þetta verður bara gaman og er viss að dómarinn skoðar þessi brot vel, þeir hljóta að vera farnir að þekkja þetta Stoke. Tökum þetta bara og hinir og þessir eru farnir að skora, þannig að staðan er allt önnur hjá okkar snillingum.

  24. Þetta er hárrétt hjá Kristjáni Atla. Við getum ekki búist við neinu úr þessum leik. Við erum ekki með besta lið Englands ennþá og miðað við gengið og stöðuna í deildinni þá er þetta í besta falli 0-0, í versta falli 1-0. Það þýðir allavega lítið að pirra sig ef við vinnum ekki leikinn.

    Það sagt, þá vinnum við auðvitað leikinn, 2-0, þar sem Suarez, sem verður extra-últra mótíveraður í þennan leik, skorar bæði eftir að hafa fíflað bæði Huth og Shawcross upp úr skónum. Og Shawcross fær rautt í þokkabót.

    Gleðileg jól!

  25. 24# Einmitt, Ruddock væri ekki hægt að sniðganga í svona liði. Gaurinn var eins og trukkur og er eini leikmaður LFC sem hefur brotið báðar lappirnar hjá manjú-leikmanni í einni tæklingu, geri aðrir betur!! 🙂

  26. Neil Ruddock og Julian Dicks væru fyrstir á blaðið gegn Stoke.

    Verð að láta fylgja með sögu af Ruddock sem ég upplifði á Anfield haustið ´94 þegar ég og félagi minn Sigurjón Pálsson fórum í pílagrímsferð á Anfield. Það var kvöldleikur gegn Chelsea sem innihélt Mark Hughes sem baulað var á allan tímann og Dennis nokkurn Wise sem var úr gamla Wimbledon liðinu og án vafa einn mest pirrandi gaur í knattspyrnusögunni.

    Þetta var rosa leikur, Chelsea komst yfir en við unnum svo 3-1. Wise var búinn að vera með dólg allan leikinn og Scouserinn sem sat við hliðina á okkur var mikill spjallari og dáði Razor jafnmikið og hann hataði Wise. Í lok leiksins stakk Chelsea bolta upp hægri kantinn og Wise elti hann, en Razor tók sig úr miðju varnarinnar og spændi í átt að boltanum. Scouserinn snerri sér að mér og sagði þessi fleygu orð: “Wait for it mate, wate for it”. Wise var millisekúndu á undan Razor í boltann sem tók hins vegar mögnuðustu “öxl í öxl” sem ég hef á ævinni séð, þetta var út við hliðarlínu og Wise fór í einu vetfangi yfir auglýsingaspjöldin og í fang fólksins á fyrstu tveimur röðunum, Ruddock dúndraði boltanum nær útúr stúkunni, völlurinn trylltist og fagnaðarlætin voru meiri en þegar við skoruðum. Dómarinn dæmdi bara innkast!

    “Razor, Razor, Razor” hljómaði um allan völl og karlinn drakk stuðninginn í sig, stóð geðtrylltur inná og benti í öll horn vallarins.

    Scouserinn sneri sér aftur að okkur, tárvotur. “If a train would be on it’s way into our goal, Razor would at least try and stop it”. Við föðmuðumst….

    Sorry þráðránið, varð að segja ykkur frá þessu…

  27. Já og by the way, Stoke æfðu heldur ekki á jóladag, kvöldleikur þýðir þetta sýnist mér…

  28. Hjartanlega samála með meistara Razor en finnst vanta Graham nokkurn Souness inn í þetta lið á móti Stoke.

    Annars útheimtir þessi leikur þolinmæði og ef okkar menn ná henni þá ættum við að sjá þrjú stig í húsi eftir leikinn.

    YNWA

  29. Sælir félagar

    Babu segir í reynd allt sem segja þarf um þennan leik í ágætri upphitun sinni. Ég tek undir með mönnum hér að Stoke liðið er einhver mesta andstyggð sem sést á knattspyrnuvelli. Böðulshátturinn annarsvegar og svo leikaraskapurinn hinsvegar hjá þessu liði er með eindæmum. Svo er dómgæslan sem þeir fá með þeim hætti að fátt jafnast á við það í sögu knattspyrnunnar.

    Það er nú þasnnig

    YNWA

  30. Hló upphátt þegar ég las útskýringuna á tilvist vítaspyrna í boltanum… takk fyrir það 🙂 – skemmtileg lesning.

    Annars vonar maður auðvitað að við tökum þetta en eitthvað segir mér að við fáum því miður boring jafntefli í kvöld.

    Gleðileg jól allir saman

    YNWA

  31. Þessi umræða um viti, cmon Howad Webb dæmir það er ekki glæta að við fáum v?ti, Howard gefus skotleyfi a Suarez og hann fær verri útreið en i s?ðasta leik gegn stoke, það er ekki hægt að vænta nokkurrar vendar frá domaranum, eg spái þvi að við verðum framherjalausir i næstu leikjum

  32. Er búið að leka eitthvað út með byrjunarliðið? Helvíti fínt að taka öllarann yfir kvöldleik á jólunum. Ef einhver leikur þarf að vinnast upp á fílinginn þá er það þessi. Tippa á þetta lið.

    Gerrard – Suarez – Downing
    Allen – Suso – Lucas
    Enrqiue – Agger – Skrtel – Johnson
    Reina

    Fá smá kraft í sóknina. Downing er betri en Sterling og Gerrard er eini maðurinn í liðinu sem getur spilað þarna vinstra megin þangað til Sturridge kemur. Suso er vonlaus á kantinum og ég set hann í holuna. Allen kemur inn á miðjuna aftur. Shelvey, Sterling og Sahin eða Henderson verða supersubbar. Stend við 1-0 sigur og Shelvey með markið.

  33. Newcastle að taka vel á Manure. Evans með gott sjálfsmark og kom Newc i 1-2. Vill ekki gera þetta að hate þráð um manure en það er gott að hata þá. Býst passlega við að helvítin komi til baka en vona innilega að Newc taki þá. Ekkert skemmtilegra að heyra ruglið sem kemur út úr Fergie þegar hann er ósáttur.

  34. Glæsilegt að markið hjá Newcastle standi, en er þetta rangstæða eða ekki?

    Svo er náttúrulega Berbatov boss, er í treyju sem stendur “Keep calm and pass me the ball” hehe

  35. Skal alveg viðurkenna það að ég er spenntur fyrir leiknum og bísna bjartsýnn… Núna kemur að því að vinna þetta rugbýlið!

Gleðileg jól / Vinningshafi jólaleiksins

Liðið gegn Stoke