Chelsea á sunnudaginn

Roman Abramovich blessaður er búinn að laga Chelsea, sem betur fer. Það er erfitt að lýsa því hversu mikið betra það er að búa sig undir leik gegn Chelsea með Mourinho við stýrið heldur en Rafa Benitez. Benitez á hvergi að vera á Englandi nema hjá Liverpool á meðan Chelsea og Mourinho eru match made in…olíuborpallur.

Olíuborpallur

Chelsea hangir ekki á stjóra nema í svona 6 til 36 mánuði max á meðan Mourinho er aldrei lengur en þetta í starfi á hverjum stað og nær um leið að uppfylla sitt frumskilyrði, aðgang að botnlausum fjárhirslum.

Ástæða þess að það er eins mikill rígur á milli Chelsea og Liverpool og raunin er í grunninn vegna þessara manna og það er óhætt að fullyrða að ekki minnkuðu lætin síðast þegar þessi lið mættust í einum furðulegasta leik tímabilsins.

Stuðningsmenn Liverpool sungu reglulega um þáverandi stjóra Chelseea á meðan Plastfánarnir vildu losna við hann frá degi eitt þar til þeir áttuðu sig á að hann er í raun fjandi góður stjóri.

…svo sannarlega.

Þetta var síðasti leikur Luis Suarez það tímabilið en hann reyndi að gæða sér á Bradislav Ivanovic, ”fullkomlega eðlileg” viðbrögð eftir að Serbinn traðkaði á Suarez! Hann vonandi hefur vit á því að láta okkar mann í friði núna því Suarez virkar ennþá svangur.

Eftirmálana þekkjum við, FA var geðveikt samkvæmt sjálfum sér og gaf Suarez 10 leiki í bann þrátt fyrir að málið teldist ótengt síðasta (bull)dómi FA yfir Suarez. Defoe fékk gult fyrir eins atvik nokkrum árum áður og það var látið duga án fjölmiðlafárs fyrir utan smá spaugs í viðtölum eftir leik.

Það toppaði auðvitað allt saman að Suarez sem slapp við rautt spjald í leiknum skoraði jöfnunarmarkið á 97.mínútu. Mikið hrikalega var gaman að því. Hann skoraði einnig jöfnunarmarkið í síðasta leik þessara liða á Stamford Bridge, sá leikur sem var fyrri viðureign liðana á síðasta tímabili endaði 1-1.

Þegar leikjaplanið kom út fyrir þetta tímabil var þetta sá tími sem við horfðum til með hryllingi. Það er alltaf erfitt að fara á Stamford Bridge og sama má segja um City á meðan þeir hafa allt að því endalaust forskot á leikmannamarkaðnum. Hvað þá að þurfa að mæta þeim með þriggja daga millibili í miðri jólatörninni, mesta álagspunkti ársins.

Þetta hefur heldur betur komið á daginn og rétt rúmlega það, ég hreinlega skora á ykkur að finna tíma þar sem lið hefur fengið mikið erfiðari útileiki á svona stuttum tíma. Bæði City og Chelsea eru með það stóra leikmannahópa að hægt væri að stilla upp tveimur góðum 11 manna liðum sem stæðu sig bæði vel í úrvalsdeildinni. Bæði lið eru þau einu sem hafa aldrei tapað á heimavelli það sem af er þessarar leiktíðar, City var búið að skora 4,4, mörk að meðaltali á heimavelli og alls ekkert bara gegn botnliðunum á meðan Chelsea hefur aldrei tapað heimaleik í deildinni undir stjórn Mourinho.

Chelsea hefur raunar bara tapað tveimur stigum á Stamford Bridge í vetur og satt að segja var það stig rán um hábjartan dag gegn WBA. Þeir hafa á móti alls ekki verið eins hrikalega sannfærandi og City menn en ná þó jafnan að taka öll stigin með grautleiðinlegum fótbolta Mourinho.

Tapið mun engu að síður koma á þessu tímabili og Liverpool hefur oft áður endað svona sigurhrinur. Það væri alveg tilvalið að skrúfa fyrir þetta hjá Mourinho á sunnudaginn. Liverpool hefur sex sinnum mætt Chelsea á Stamford Bridge undir stjórn Mourinho (allar keppnir) og aldrei unnið og satt að segja aldrei skorað heldur. (Tvisvar dugði það þó til fyrir seinni leikinn á Anfield…og Liverpool komst í úrslit Meistaradeildarinnar).

Það er þó ekkert bara gegn Mourinho sem árangur Liverpool á Stamford er hroðalegur. Liverpool hefur aðeins unnið 18 af 70 heimsóknum sínum á Brúnna og markatalan er -50 mörk. Eftir að úrvalsdeildin var stofnuð hafa liðin mæst í 21 skipti og Liverpool hefur unnið fjórum sinnum. Þrír af þeim sigrum komu í sex síðustu heimsóknum og aðrir tveir enduðu með jafntefli. Álögunum virðist því eitthvað aðeins vera að létta á þessum velli.

Chelsea hafa ekki skorað mikið undanfarið, aðeins tvö mörk í síðustu þremur leikjum en það sem ég óttast mest fyrir þessa viðureign er hópurinn þeirra. Þeir geta set mikið ferskari menn inn í þennan leik heldur en Rodgers hefur kost á og svona risaslagir standa oft og falla á svona atriðum. Það er í svona leikjum sem það telur hvað mest að hafa stóran hóp. Hópur Chelsea er svo stór að þeirra besti leikmaður spilar með Everton (…nei ég skil það ekki heldur).

Fyrir leikinn gegn Swansea gerði Mourinho fimm breytingar á liðinu sem gerði 0-0 jafntefli við Arrsenal. Þeir sem komu inn í liðið voru Ashley Cole besti vinstri bakvörður EPL sl. áratug, David Luiz landsliðsmaður Brasilíu, Eto´o kom inn fyrir Torres á meðan Mata og Oscar fengu líka séns! Liverpool var að henda Aspas og Moses inná til að reyna brjóta Man City niður! Bekkurinn hjá Chelsea var svona Schwarzer, Cahill, Lampard, Schurrle, Willian, Torres, Azpilicueta.

Bekkurinn á Stamford Bridge er mjög öflugur. Fóðruð sæti og alles.

City leikurinn var líklega sá erfiðasti og orkufrekasti á þessu tímabili og því sýnir munurinn á breidd Liverpool og Chelsea það ágætlega hversu mikið afrek það væri að ná í eitthvað úr þessum leik.

Með hinum óskeikulu úllen dúllen doff fræðum ætla ég að tippa á lið Chelsea einhvernvegin svona:

Cech

Ivanovic – Terry – Cahill – Azpilicueta

Mikel – Lampard

Willian – Hazard- Schurrle

Torres

Ivanovic verður notaður sem beita, aftur. Cahill og Azpilicueta koma aftur inn fyrir Luiz og Cole. Ramires er í banni og ég tippa á að Lampard byrji í hans stað með Mikel sér við hlið. Hvaða tríó verður fyrir aftan sóknarmanninn er vonlaust að segja til um en ég tippa á að Hazard verði áfram í liðinu á meðan Schurrle og Willian komi inn fyrir Oscar og Mata. Torres hvíldi svo gegn Swansea og tekur sæti Eto´o.

Samanburður:

Umfjöllun um okkar menn ætla ég að byrja á að segja að þeir 11 sem byrja jafnan hjá okkur standast þeim 11 sem byrja hjá Chelsea fullkomlega snúning undir eðlilegum kringumstæðum og undanfarið hafa okkar menn verið að spila miklu betur. En ég óttast að þreyta bíti aðeins í skottið á okkur núna. Prógrammið hjá Chelsea hefur verið stíft en þeir hafa náð að rótera liðinu töluvert á meðan og samt náð í góð úrslit.

Hvað breidd varðar eigum við ekki glætu en ef við skoðum aðeins stöðu fyrir stöðu þá er munurinn er svo mikill.

Mignolet er búinn að vera í sama standard og Cech það sem af er þessu tímabili, óheppnismistök í síðasta leik breyta engu þar um.

Johnson er líklega betri en Ivanovic sóknarlega á meðan hinn er líklega öflugri varnarlega, báðir mjög góðir.

Terry er ekki nema skugginn af sjálfum sér fyrir nokkrum árum og Chelsea hafa lekið litlu minna en við af mörkum. Cahill er að vaxa í mjög góðan miðvörð en þeirra par er engu skárra en okkar með Sakho fremstan í flokki sem er líklega langbestur af þeim öllum. Fjarveru Ashely Cole skil ég ekki alveg þó Azpilicueta sé hörkuleikmaður (og vanmetinn). Báðir eru þeir mikið betri en Cissokho, okkar þriðji kostur í þessa stöðu.

Eins og það er nú í tísku að drulla yfir Lucas hjá sumum hérna inni þá er hann stundum að taka sæti Ramires á miðjunni í brasilíska landsliðinu. Lucas væri þó líklega mest sambærilegur við Mikel eða Essien (2013 árgerðin) og hann er ekkert verri en þeir, svo mikið er víst.

Lampard er svo ennþá að setja sín mörk fyrir Chelsea en fær vonandi lítinn frið gegn Allen sem hefur verið sprækur undanfarið.

Sóknartríóið okkar (Coutinho – Henderson – Sterling) er mun veikara á pappír en það sem Chelsea getur boðið uppá, þeirra lager þarna er bara svindl en raunin er að upplegg Mourinho hentar þeim ekkert svo hrikalega vel og líklega væru þessir leikmenn allir að blómstra mun betur undir stjórn Rodgers, Willian heyrir þú það! Þeir eru þó með leikmenn þarna í hverri stöðu sem geta unnið leiki upp á sitt einsdæmi (rétt eins og við).

Frammi erum við síðan að bera saman Suarez og Fernando Torres. Það hefur lítið að segja í þessum leik en á þessu tímabili hefur Suarez skorað jafn mikið í 13 leikjum og Torres hefur gert síðan hann fór á 50m til Chelsea.

Stjórinn:

Brendan Rodgers hefur verið í sviðsljósinu eftir síðasta leik og stimplaði sig satt að segja ágætlega inn eftir þennan leik. Þá er ég að tala um þegar hann urðaði hressilega yfir Lee Mason og dómaratríóið sem við fengum gegn City. Frekar óvanalegt frá Rodgers reyndar sem sýnir hvað hann var pirraður yfir dómgæslunni í leiknum.

Líklega er orðið fullreynt með Mason og ákveðið að fórna sér aðeins til að vonandi losna við hann af Liverpool leikjum. Mason á eins og þið vonandi munið þetta á ferilsskránni gegn Liverpool/Suarez. Hentistefnu dómstóll FA ”gat ekkert gert” þar sem fullkomlega vanhæfur dómari leiksins sá atvikið og gerði ekkert

”However, referee Lee Mason has since confirmed that he saw the incident at the time and chose not to take any action against the former Chelsea player. Under FA rules, that means Huth cannot now be charged retrospectively”.

Það var kannski full langt gengið hjá Rodgers að draga integrity Mason í efa en sá sauður á sannarlega ekkert inni hjá Liverpool og stjóri Liverpool á eins og Rodgers segir sjálfur að reyna vernda sína leikmenn. Mér er alveg sama um sektir eða bönn frá FA fyrir þetta, púkinn í mér var sáttur við Rodgers þarna.

Þar fyrir utan hafði hann sitthvað til síns máls enda eru til dæmi þar sem dómarar frá Wirral eru ekki látnir á leiki Liverpool liðanna á meðan það virðist vera i lagi með dómara frá Bolton á Manchester leik. (Bolton er svipað mikið í Manchester og Wirral er í Liverpool). Það er þó enginn að skrifa tapið gegn City alfarið á dómgæsluna, það er ekki punkturinn.

Liðið:

Spilamennska okkar manna gegn City sem og í síðustu leikjum eykur óhjákvæmilega væntingar til liðsins, við erum kannski ekki að gera kröfu um sigur á Stamford Bridge en útilokum það alls ekki heldur. Það eru þrír dagar milli leikja sem ætti að gefa okkur smá séns á nægjanlegri hvíld og það vinnur með okkur núna að hafa ekki verið í Evrópudeildinni eða ennþá í deildarbikarnum. Það er meiri hvíld núna en fyrir Hull leikinn sem kemur strax á eftir.

Rodgers er búinn að staðfesta að hann fer með sama hóp til London fyrir utan auðvitað Victor Moses sem má ekki spila gegn Chelsea. Það styrkir okkar menn óneitanlega töluvert. Hann hefur ekki verið að rótera liðinu mikið hingað til og ég held að hann geri það ekki fyrir þennan leik. Eina sem ég gæti séð væri að nýta okkur það að eiga fjóra góða miðverði og þá hvíla Skrtel. Hann er að gefa full mikið af mörkum og núna þegar sjónvarpsstöðvarnar eru farnar að sigta hann út sérstaklega þegar hann er að verjast föstum leikatriðum er kannski ráð að hvíla hann gegn einu besta fasta-leikatriða-liði deildarinnar. Ég væri að ég held til í að sjá bæði Agger eða Toure byrja þennan leik frekar en Skrtel en efa að það gerist.

Tippa á þetta lið:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Sakho – Cissokho

Lucas – Allen

Sterling – Henderson – Coutinho

Suarez (C)

Þetta verður að duga því á bekknum eigum við bara Aspas og Alberto til að brjóta þetta eitthvað upp (janúar janúar hvar ert þú?)

Spá:

Við eigum Suarez, ekki þeir. Þeir reyndar fjármögnuðu kaupinn á honum en það er önnur saga. Þetta gæti ráðið úrslitum í leiknum (döhh). Hann held ég að brjóti loksins ísinn gegn Mourinho á Stamford Bridge.

Torres hefur reyndar aðeins verið að minna á sig undanfarið og virkar í ágætu standi en hann hefur aldrei komist nálægt því formi sem hann var í hjá Liverpool, hvað þá því formi sem Suarez er í núna.

Hinumegin hef ég langmestar áhyggjur af Lucas og Skrtel. Lucas átti í basli með Silva í síðasta leik, höndlaði hann þó betur en nánast allir aðrir í vetur og verkefnið er engu léttara á pappír gegn Chelsea. Þeir eiga hreinlega lager af mönnum til að spila sama hlutverk og Silva spilar hjá City.

Ég er síðan stressaður yfir varnarleik Skrtel í markspyrnum andstæðinganna, hvað þá öðrum föstum leikatriðum. Það vantar gjörsamlega allann Sami Hyypia í hann.

Sami Hyypia

Rest af vörninni okkar stressar mig reyndar líka, Sakho áttar sig vonandi á því að jólin er búin og tekur ekki aftur svona vondusendingasypru eins og gegn City, Johnson fær vonandi áhuga á þessu aftur og Cissokho mætti spila svipað vel og hann gerði gegn City. Leikplan Chelsea er a.m.k. mjög frábrugðið City, hvort sem það hentar okkur betur eða verr.

En með Suarez heilan ætla ég að leyfa mér að vera ofur bjartsýnn og segja 1-2 fyrir Liverpool. Öllu meira af óskhyggju frekar en rökhyggju þó sigur þarna ætti ekki að koma neinum á óvart. Sterling kemur okkur yfir. Ivanovic jafnar en Suarez klárar þetta.

Endum þetta á Fernando Torres með allt á hreinu:

44 Comments

  1. Fín upphitun. Eg spái Agger fyrir Skertl annars óbreytt lið.
    Þetta er leikur sem við getum illa leyft okkur að tapa, jafntefli væri ágæt úrslit.

    Við vinnum 1-4, Suarez með a.m.k. 2

  2. Það eina sem skiptir mál í þessum leik er að ná í stig, annað hvort eitt eða þrjú.

  3. Flott upphitun.

    Svona horfi ég á þetta:

    Sigur:
    Algerlega frábært og ég tel það fullkomlega raunhæft eftir að hafa horft á okkar menn tæta City í sig á köflum. Chelsea er ekki með jafn sterkt lið og City. No fucking way.

    Jafntefli:
    Ok. ég myndi sætta mig við þau úrslit, en ekkert meira en það samt. Verðum þá enn í 4. sætinu í byrjun nýs árs sem er auðvitað frábært og ef maður horfir ískalt á hlutina þá væri jafntefli mjög góð úrslit. Yrði samt ekkert hoppandi glaður yfir þeim úrslitum.

    Tap:
    Gríðarleg vonbrigði, enginn heimsendir, en samt vont og gæti haft skaðleg áhrif á sjálfstraust okkar manna í þeim leikjum sem framundan eru.

    Ok., ok., ég veit að að ég er að jinxa allt til helvítis með þessum væntingum en okkar lið er það svakalega gott um þessar mundir að ég vil sjá sigur á morgun (sunnudag) og ekkert annað. Just the way how I feel. Úrslitin á móti City voru auðvitað vonbrigði og allt var á móti okkur þrátt fyrir að við værum klárlega betra liðið í leiknum. Hins vegar komu yfirburðir okkar í þeim leik mér svakalega á óvart og þess vegna er ég með þær væntingar að við vinnum þennan leik á morgun.

    Hef ekki trú á að breytingar verði á byrjunarliðinu. Hef auðvitað eins og margir hér áhyggjur af Skrtel, en efast um að Agger komi inn í staðinn fyrir hann. Hugsanlega verða þeir samt báðir í byrjunarliðinu á kostnað Cissokho.

    Set 1-2 á þennan leik og auðvitað skorar Suarez bæði mörkin. Koma svo LFC!!

  4. Tilvitnun:
    “Don’t worry about them, let them worry about us!!!” (Tony Knapp!)

  5. 3-1 fyrir liverpool Glenda með 2 og Sakho 1 og Torres með eitt í uppbótartíma

  6. Það eina sem skiptir máli fyrir mig í þessum leik er að Torres verði laminn.

  7. Flottur Babú.

    Alfarið sammála þér þarna og el von í brjósti um að spáin þín gangi upp.

    Það væri alveg ferlegt að tapa þessum leik eftir að hafa farið stigalausir af Etihad en eins og þú kemur inná þá er ekki eins og við séum að fara á léttan útivöll þar sem stjórinn hefur aldrei tapað deildarleik með liðið á heimavelli.

    Treystum því að réttlætið gangi í lið með okkur núna og ég þigg alveg smá heppni líka bara, hún hefur ekki verið í bunkum í okkar hóp nú í vetur…

  8. Fyrst þá get ég nú ekki tekið undir að fyrrverandi leikmaður ætti vera laminn. Frekar ósmekkleg ummæli i minum dæomi.

    Annars varðand leikinn. Ég óttaðist mjög þessa tvö leik á móti City og Chelski. Á pappirnum eru þeir það góðan hóp og sérstaklega hafa þeir stóra breidd meðan okkar lið vantar breiddina. Liverpool hafa því miður lélega sögu á móti Chelski á brúnni. Þetta breytist á sunnudag þegar við fylgjum eftir góðum leik gegn City og vinnum þá pumktur. Eftir tapið gegn City þurfum við vinna Chelski því ég tel Liverpool geta keppt um titillinn.
    Vonandi getum við aukið breiddina hjá okkur FYRSTA janúar með minnnsta kost tveimur top top leikmönnum(vinstri bakvörð/wingback og varnarsinnaaðan miðjumann). Það er timinn til FSG opni budduna aðeins betur en i siðasta sumar þegar lið eins og Cardiff og Norwich eyddu meira i leikmanna kaup en Liverpool.

  9. alonso fær að tala við önnur lið eftir 4 daga strákar afhverju ekki að láta reyna á það að fá hann til baka í liverpool frítt fynnst þetta no brainer hann er besti miðjumaður í heimi

  10. Sæl og blessuð.

    Nú er það baráttan á Stamford Bridge en þar háði Haraldur Englakonungur rimmu við víkinga áður en Vilhjálmur bastarður gekk á land á suðurströndinni og sigraði hann við Hastings 1066. Halli var örmagna eftir frændur okkar og var illa búinn undir slaginn. Nú mætum við lúin á Stamfordsbrú og gefum allt í þann leik. Vonandi sigrum við og getum notið betra útsýnis af efri syllum í deildinni en ótti minn er sá að við klárum okkur alveg í þeim leik. Nafni missi stjórn á sér og læsir aftur tönnum í safaríkt varnarmannaket. Kútínjó meiðist, Allen brotnar og Sakho fær rautt spjald og þriggja leikja bann.

    Þar með riðlast allt sýstemið og við horfum upp á nýjar magrar vikur.

    Nýir kraftar þurfa að mæta til leiks en verum bjartsýn á nýju ári og fögnum þeirri listgrein sem fótboltinn er í meðförum okkar manna!

  11. Hvernig er hægt að kenna þreytu um ef Liverpool nær ekki góðum úrslitum gegn” stóru”liðunum,eru þau ekki að spila hist og her um alla Evrópu á meðan við höngum bara heima og hvílum okkur???

  12. Frábær upphitun að vanda Babú. Þú gætir reyndar fengið Lúðvík Sverriz til að koma með söguskot um þau lið sem við erum að spila við svo upphitanirnar fái Evrópudeildarblæ. En nóg um það. Stafnfurðubryggja, eins og Stamford brúin er kölluð í Íslendingasögunum, og ég fer fram á að við höldum okkur við, er líklega erfiðasti útivöllurinn til að fara á. Sérstaklega þegar Mourinho er stjóri þar. Við munum að öllum líkindum tapa þessum leik á föstu leikatriði þar sem Ivanovic, Terry eða einhver álíka mun skora sigurmarkið. Það að Chelsea geti skipt út 5-6 leikmönnum án þess að það komi niður á gæðum liðsins er eitthvað sem mun skipta sköpum í þessum leik því þegar við erum með 3 byrjunarliðsmenn meidda er einfaldlega ekki meira en 12-13 leikmenn sem geta spilað á þeim standard sem við viljum.

    En, 1-0 tap á morgun. Engin heimsendir en við þurfum þá líka að klára Hull.

  13. Fín upphitun en það er einn ljóður á henni og það er hvað gert er lítið úr þeim mönnum sem við höfum á bekknum – Aspas, Alberto (“Þetta verður að duga því á bekknum eigum við bara Aspas og Alberto til að brjóta þetta eitthvað upp (janúar janúar hvar ert þú?”) og Moses (sem reyndar er ekki með á morgun, en sá er skrifar upphitunina segir: “Það styrkir okkar menn óneitanlega töluvert.”). Og þetta á ekkert við í dag heldur t.d. eftir City leikinn. Það má vel vera að þeir séu ekki eins góðir og þeir leikmenn sem Man City og Chelsea hafa á sínum snærum en mér finnst algjör óþarfi að tala þá niður og gera lítið úr þeim. Þetta eru leikmenn Liverpool og við verðum bara að hafa trú á þeim. Þeir hafa fengið lítinn spilatíma, sérstaklega í ljósi þess að þetta er eina keppnin sem Liverpool er í (engin deildarbikar eða leikir í Evrópu og bikarkeppnin ekki byrjuð).

    Það getur vel verið að þetta hljómi sem röfl í mér og það eiga eftir að koma hér skríbentar og spurja hvort megi ekki tala um staðreyndir, en þetta eru leikmenn Liverpool og við eigum að tala af virðingu um þá, ekki niður til þeirra. En ég er sammála að liðið þarf að styrkjast í janúar. Málið er að þetta er ferli sem hefur sinn gang og tekur tíma. Í millitíðinni, höfum trú á þeim leikmönnum sem við höfum (hvað er ekki búið að drulla yfir Lucas, Flanagan og Sterling).

    Áfram Liverpool, sem eru að spila betri og skemmtilegri fótbolta en Chelsea.

  14. Liverpool liðið á að mæta með sjálfstraust í þennan leik og spila til sigurs. Það er engin ástæða til annars. Ef liðið spilar jafn vel og á móti City þá vinnum þennan leik með 2 marka mun. Við getum vissulega fengið á okkur mörk í þessum leik en þá skorum við bara meira en þeir enda er hefur sóknarlína Liverpool skilað mun fleiri mörkum en sóknarlína Chelsea.

    Ef ég væri Chelsea maður þa væri ég búinn að naga allt skinnið af handabakinu út frá þeirri staðreynd að Sturridge var seldur til Liverpool og svarti Lukku Láki lánaður til Everton. Hversu grátlegt er það að hafa átt 2 frábæra markaskorara sem báðir eru að raða inn mörkum á Liverpool svæðinu!

    Þetta verður markaleikur 2-4. Terry skorar úr föstu leikatriðið og Torres skorar og mun fagna gífurlega. Við það mun Suarez tryllast og í stað þess að bíta mann og annan mun hann skora 3 og leggja upp eitt fyrir Henderson sem mun negla honum í samúel fjær eftir að allir á vellinum og þar með talið hann sjálfur haldi að þetta skot fari langt yfir markið 🙂

    Áfram Liverpool

  15. Djohnson

    Þreyta er ekki afsökun ef við töpum. Ég hef bara áhyggjur af því að okkar hópur verði þreyttur í þessum leik enda ekki með tvo góð lið eins og Chelsea. Chelsea spilaði síðast í Evrópu 11 des. leik á heimavelli sem skipti litlu máli og hann ætti ekki að trufla þá mikið núna. Bæði lið eru að spila mjög þétt núna og við áttum mjög erfiðan Man City í síðasta leik, óttast bara að það trufli okkur meira en þá.

    Kristján Kristinsson

    Slökum aðeins á dramatíkinni. Ef við værum að bera saman bekkinn hjá Chelsea/City og Liverpool með Aspas og Alberto efa ég ekki að þeir tækju sjálfir undir að þarna væri himinn og haf á milli (eins og er). Ég tek þá þó fram sem okkar einu raunhæfu kosti til að koma inná hjá okkur í sóknarleikinn til að gera eitthvað.

    Aspas hefur bara alls ekki sýnt nægjanlega mikið til að við förum að bera hann saman við Eto´o, Ba, Dzeko eða aðra varamenn þessara liða. Hvort sem það heitir að drulla yfir manninn eða ekki þá held ég að hann tæki sjálfur undir að hann þarf að sanna sig til að gefa okkur eitthvað sjálfstraust með að hafa hann sem okkar eina kost gegn þessum valmöguleikum. (Vonandi gerir hann það, hef ennþá trú á þessum leikmanni).

    Alberto er efnilegur og spennandi leikmaður en kemur ekki vel út þegar hann er borinn saman við Mata, Oscar o.s.frv. Ekki ennþá. Það má vera að það sé sárt en þetta er bara miklu miklu verri breidd hjá okkur og eitthvað sem þarf að bæta.

    Victor Moses skal ég viðurkenna að fer gríðarlega mikið í taugarnar á mér. Hann er svo miklu betri en þessar áhugalausu frammistöður hans hafa sýnt og ég bara stend við þetta, ég er ekki viss hvort það veiki okkar hóp að hann sé ólöglegur í dag.

  16. Babu, ég átti svo sem von á þessu (“Slökum aðeins á dramatíkinni.”). Ég er ekkert ósammála þér hvað varðar gæðin o.s.f.r, en þegar verið er að bera saman bekki Liverpool og Chelsea/Man City er pínulítið verið að bera saman epli og appelsínur. EF, ég meina ef, Liverpool væri með sama styrk á bekknum og hin tvö liðin þá væri tvennt í stöðunni: Liverpool ætti ógeðslega mikinn pening og við værum ekki að tala um raunhæfa möguleika á fjórða sætinu, heldur kröfu um sigur í deildinni.

    Já, þessir leikmenn eru einu raunhæfu kostirnir í stöðunni í dag og því skulum við tala af virðingu um þá fyrir leik, ekki gera að því skóna að að fokkist allt þá fari menn að kenna því um að Liverpool sé með svo lélegan bekk. By the way, bekkurinn væri töluvert sterkari með Gerrard og Sturridge í hóp.

  17. en þegar verið er að bera saman bekki Liverpool og Chelsea/Man City er pínulítið verið að bera saman epli og appelsínur.

    Trikkið er að í þessu tilviki erum við að bera saman bekki þessara liða (ég var búinn að bera saman byrjunarliðin). Þetta er auðvitað ósanngjarn samanburður (kom líka inn á það) en núna eigum við leiki við þessi lið og því eðlilegt að skoða munin á þessum liðum. Orðaval mitt er kannski ekki það sama og prestur myndi nota í sunnudagaskólanum en ég er bara segja þetta eins og þetta horfir við mér.

  18. Ef þessir fokking dómarar (línuverðir) stela ekki marki af okkur þá er þetta unninn leikur hjá LIVERPOOL. Djö sárt að láta dómara vinna leik oft og tíðum.

  19. Vonandi að mér fyrirgefist að bregða hér út af, en getur einhver bent mér á hagstæðustu/þægilegustu leiðina til að ná sér í miða á Liverpool-Arsenal leikinn í febrúar?

  20. Það er gott að flestir séu bjatrsýnir. Ég er það ekki, svo er það Steve Bruce á miðvikudag sem tapar bara helst ekki fyrir Liverpool. Við gætum verið komnir niður fyrir manu og everton 1/1/14.

  21. Ojbjakk bæði manchester liðin unnu áðan og Hull með 6 mörk ( hvarígangi ). Nú bara girða í brók og klára og byrja nýja árið með Style og hirða 6 stig af Chelsea og Hull.
    Gleðilega hátíð.

  22. Flott upphitun, rosalega er ég sammála með Hyypia, maður saknar hans gífurlega eftir öll þessi ár í þessum föstum leikatriðum bæði í sókn og vörn sá maður kunni að verjast, er hægt að klóna hann?.

  23. Ég held að Rodges spili kunnuglegu liði og það verði sótt hratt á þá. Þeir liggja e.t.v. aftarlega enda eru þeir með talsverða sóknarógn ! Hef þó mjög góða tilfinningu fyrir leiknum og held sannast sagna að við náum í stig þarna.
    Eina sem getur í raun hindrað það, er að “hinn útvaldi motormouth” komi með lið sem spilar counter attack … sem væri fáránlegt að mínu mati. Það væri þó í leiðinni ákveðin sönnun að “stóru liðin” séu farin að stilla sínu liði til að stoppa LFC.

    Mig langar að spá 1-3 !

    YNWA.

  24. Djöfuls stresspistill er þetta, vonir mínar voru snarlækkuðu eftir að heyra þessa Motormouth tölfræði. Fokking fokk hvað ég vonast eftir sigri!

  25. Sælir félagar og takk Babu fyrir góða upphitun. Ég ætla að spá sigri og það kemur ef til vill örlítið á ávart að ég spái 1 – 3 en það skal samt standa. Þessi sigur spá mín hefur aldrei brugðist 2 leiki í röð og því stendur hún óhögguð.

    Það er alveg sama hvernig þessi lið eru borin saman og bekkurinn með. Okkar lið spilar betri og miklu skemmtilegri knattspyrnu en bláa plastliðið og því fer sem fer.

    Það er nú þannig

    YNWA

  26. Er það orðinn fastur liður að kop.is eigi fulltrúa í spurningakeppnum á RÚV?

  27. Jæja, best að óska Sigursteini til hamingju með þessar 750.þús 🙂 Hann er greinilega þræl sigurviss.
    Ég vona að hann ánafni þær Liverpool uppí kaupverðið á næsta big signing hjá Rodgers!

  28. Takk fyrir góða upphitun. Mourinho er snillingur í að drepa leiki, sérstaklega þegar annað liðið er þekkt fyrir að spila skemmtilegan fótbolta. Ég spái því að Chelsea hangi fyrir aftan miðju og beiti skyndisóknum og ég held að það komi sér ekkert sérlega vel fyrir Liverpool. Annars set ég 2-0 á þennan leik fyrir Chelsea þar sem bæði mörkin koma úr föstum leikatriðum.

  29. 3-1 fyrir best spilandi liði á þessu tímabili.

    Horfði a man u spila áðan og ég vorkenni þeim sem þurfa að horfa á 38+ leiki af þessum viðbjóð. Àttu aldrei skilið jafntefli úr þessum leik, hvað þá sigur.

    Hvort sem við við endum í 2 eða 5 sæti fyrir áramót þá erum við búin að fá alvõru skemmtun hingað til.

    Ég lofa sigri á morgun.

    YNWA!!

  30. Jæja Babú minn… Er nokkuð kominn tími til að breyta notandanafninu í Búhú? Þessi upphitun drýpur nefnilega svo af biturleika að það hálfa væri barmafullt…

  31. Ég hef ágæta trú á þessum leik. Tel okkar 11 einfaldega vera að spila betur um þessar mundir en þeirra 11. Auðvitað spila síðan aðrir þættir inn í eins og bekkurinn, þreyta og fleira sem aðrir hafa verið að benda á. Ætla samt að tippa á sigur okkar manna eða jafntefli í það minnsta.

  32. Mig dreymdi að Sterling skoraði fyrir framan opið mark, ætli að hann bæti upp fyrir dauðafærið á móti City?

  33. Staðfest: Mignolet, Sakho, Agger, Skrtel, Johnson, Lucas, Allen, Henderson, Sterling, Coutinho, Suarez.

  34. Ætla rétta að vona að þú hafir rétt fyir þér tippaði á Sterling með fyrsta markið 🙂

  35. Sæl öll.

    Nú er maður komin aftur á kunnuglegar slóðir, í dag hef ég leitað og leitað að einhverju sem hugsanlega gæti veikt lið Chelsea. Ég hef lofað að hætta að drekka Pepsi Max , lofað að hætta að borða sælgæti, fara oftar í ræktina bara ef mínir menn fá að fara heim sem stigin þrjú.
    Það var nákvæmlega svona sem mér leið alltaf á fyrri hluta síðustu leiktíðar en þessi tilfinning hafði legið í dvala ansi lengi en fljót er hún að láta á sér kræla aftur.

    Mínir menn eru með hörku gott lið en hinir eru með milljón punda menn í hverju sæti og líka á varamannabekkjunum en þeir hafa reyndar ekki Suaréz …..

    Ég ætla að heita á Strandakirkju og vona að mínir menn vinni 1-0 er alveg fínt..

    Fram að leik mun ég svo naga neglurnar ( sem hafa fengið frið til að vaxa) ganga um gólf með magaverk af stressi og þegar leikurinn byrjar þá mun ég væntanlega þurfa að gera hreint eitthvað því ég get ekki horft á þessa spennuleiki.

    Þangað til næst
    YNWA

  36. Jesús minn almáttugur grenjið í okkur í þessari upphitun ! Spurning um að pæla aðeins í því að álagið á liðin sem spila í meistaradeildini eins og chelsea sem er inni í öllum keppnum er miklu miklu meira og svo nú þegar við fáum nokkra leiki í röð þá stöndum við upp og grenjum eisn og aumingjar à meðan við höfum fengið viku til að undirbúa okkur fyrir flesta leiki og ekkert þurft að hvíla menn þà eru liðin sem eru í meistaradeildini fá aðeins 2 til 3 daga! Hættum þessum aumingja skap og vonandi tekur pistlahöfundurinn þetta til sín!

Man City – Liverpool 2-1

Liðið gegn chelsea