Dagsetningin 15.apríl verður alltaf dagsetning sem verður greypt í sögu félagsins okkar allra, löngu eftir að við verðum öll gengin á vit feðra okkar og mæðra. Dagurinn sem breytti knattspyrnufélaginu okkar varanlega og hafði í raun ótrúleg áhrif á aðbúnað knattspyrnuvalla um allan heim.
Það var 15.apríl árið 1989 sem að Liverpool og Nottingham Forest stöðvuðu knattspyrnuleik á Hillsborough vellinum í Sheffield þar sem ljóst var orðið að eitthvað mikið væri að í þeim enda áhorfendastúkunnar sem geymdi áhangendur Liverpool FC.
Ég skrifaði árið 2009 þennan pistil um atburði þessa hryllilega dags og röð alvarlegra mistaka sem að urðu til þess að 96 manns sneru aldrei heim úr þeirri örlagaríku ferð sem átti að vera farin til að styðja liðið sitt í enn einn bikarúrslitaleikinn. Auk þess sem hundruðir komu heim með varanlega líkamlega áverka, þúsundir biðu andlegan skaða að horfa upp á það sem fram fór þennan hroðalega dag.
Ég skrifaði greinina sem ég vísa í hér að ofan á 20 ára afmæli viðburðarins. Greinin var töluvert lesin og í framhaldinu hlotnaðist mér sá heiður að þeir Arngrímur og Mummi þýddu greinina á ensku inn á sinn vef. Árið 2011 prentaði ég út eintak af þeirri útgáfu og fór ásamt dóttur minni á skrifstofuholuna hjá “Hillsborough Justice Campaign” sem er staðsett beint á móti “The Albert” kránni við Anfield og afhenti honum Kenny eintak af greininni. Kenny sá var í Leppings Lane, lá meðvitundarlaus í nokkra daga áður en hann rankaði við sér stórskaddaður á líkama og ekki síður sál.
Það samtal er mér mjög minnisstætt, ekki síst þar sem á þessum tíma var umræða í gangi um það að hugsanlega væri að koma einhver hreyfing í átt til þess að opnað yrði á opinber málskjöl vegna slyssins, en fyrir því höfðu samtök fjölskyldna þeirra sem létust á Hillsborough barist lengi fyrir. Þau samtök, Hillsborough Families Support Group (HFSG) voru stofnuð strax í maí árið 1989 og töldu frá upphafi maðk vera í þeirri mysu sem var framreidd af breskum stjórnvöldum um atburði 15.apríl þess árs.
Hann Kenny var sko ekki bjartsýnn þegar hann rabbaði við okkur Thelmu um birtingu málskjalanna þennan desemberdag árið 2011. HJC – samtökin eru opin öllum, ólíkt HFSG, og hafa verið mjög sýnileg í baráttu sinni til að hreinsa mannorð þeirra sem voru á Hillsborough, bæði þeirra sem dóu og þeim sem lifðu af. Það voru þessi samtök sem börðust hvað duglegast fyrir því að fólk hætti að kaupa The Sun og fóru fljótlega eftir slysið að verða mjög sýnileg í kringum Anfield á leikdegi til að dreifa límmiðum með merkinu sínu og með litlum dreifblöðungum sem einblíndu á afmarkaða þætti í slysinu, hvort sem var frammistaða ákveðinna lögregluþjóna, starfsmannanna, pólitíkusa eða einhverra annarra sem að að máli komu. Svona sýnilegur armur fyrir okkur öll á meðan að fjölskyldurnar eru auðvitað lokaður hópur.
Þau bjuggu til “chantið” sem við heyrum nú reglulega, “Justice for the 96” sem varð eiginlega cölt í kjölfar þess að það var sungið í 6 mínútur samfleytt í leik Liverpool og Arsenal í bikarkeppninni 2007. Thierry Henry sagði strax eftir leik og hefur ítrekað það oft síðan að það hafi verið eftirminnilegasta stund sín þegar kemur að áhangendum og þeirra afskiptum af leiknum.
En þessir hópar tveir töluðu lengi fyrir daufum eyrum.
Í gegnum árin hef ég reynt að drekka í mig allt sem ég get um þennan atburð og það sem á eftir fylgdi, en hef bara alltaf átt erfitt með að átta mig á því hvers vegna þessi uppreisn æru þessa fólks er svo seint á ferðinni. Ég auðvitað náði að koma mér upp fullkominni vanþóknun á Thatcher-grýlunni mjög fljótt, því hún var alveg jafn köld þegar hún hreytti út úr sér orðavibbunum um Hillsborough og hún hafði áður gert um t.d. Norður Írland og námuverkamennina. Tortryggni í garð löggunnar var mikil í kjölfarið og Taylor-skýrslan sem upphaflega átti að snúast mikið um hvað gerðist á Hillsborough varð svo miklu frekar leiðbeining um hverju þyrfti að breyta á enskum völlum. En fátt var rætt um þá sem dóu þennan dag.
Það var svo um helgina að ég las frábæra grein í The Telegraph sem lýsir í raun því sem sennilega varð til þess að breskt samfélag sætti sig svo lengi við loðnar lygaskýringar um hvað gekk þarna á. Liverpoolborg og íbúar hennar höfðu fengið neikvæða umfjöllun lengi og þegar þetta kom upp var einfaldlega blásið fast í þær neikvæðu glæður. Mítan um “always the victims, never the culprits” eða “alltaf fórnarlömb, aldrei sökudólgar” varð til. Hún heyrist enn reglulega, kom t.d. upp hjá ónefndum aðdáendum þegar Suarez karlinn var í ákveðnum málaferlum tengdum tungumálum.
Auðvitað kom slysið í kjölfar Heysel harmleiksins, en um tengingar milli þeirra skrifaði Babu þessa færslu ekki alls fyrir löngu og er vert að skoða. Enginn spáði í að Liverpool átti fyrir Heysel fæstu skráningar “bullatvika” í Evrópu á meðal enskra liða í evrópukeppnunum.
En frá 1989 hefur samstaða HFSG, HJC og Liverpool FC aldrei verið rofin. Vissulega hafa komið upp deilur um hversu mikið og duglega klúbburinn hefur staðið við bak hreyfinganna en það er fullkomið smáatriði þegar allt er skoðað. Frá byrjun hefur baráttan verið gríðarlega erfið, nærri vonlaus á köflum. Dónaskapur og lokaðar hurðir hvert sem var komið. Klúbburinn ákvað strax að minnast slyssins árlega og hafa talsmenn HFSG og HJC sagt að það hafi verið mikilvægt ljós á mörgum dimmustu stundum baráttunnar, það að fá að beina kastljósinu að hinum föllnu á veglegan hátt, á Anfield þann 15.apríl hvert ár. Ég var staddur í Liverpoolborg á Anfield þennan dag árið 2001 og ásamt honum Sigurjóni félaga mínum klæddi ég mig í kirkjufötin og saman tókum við leigubíl uppeftir til að sitja í The Kop og taka þátt í viðburðinum sem var þá bara messa með þátttöku liðsins og ræðu frá talsmönnum HFSG og HJC. Síðan þá horfi ég alltaf á þennan viðburð, næ honum ekki alltaf beint en sleppi honum ekki.
En aftur að Kenny, sem sagði mér að hann væri alveg handviss um það að aldrei myndi allur sannleikurinn verða dreginn fram í dagsljósið. Til þess hefðu brot stjórnvalda einfaldlega verið svo alltof mikil. Ég hlustaði á þennan mann sem var svo sýnilega markaður líkamlega eftir Hillsborough draga upp dökka mynd. Trúði honum að sjálfsögðu og var enn sorgmæddari en áður yfir þessum órétti.
Það varð hins vegar breyting á stefnu stjórnvalda stuttu eftir fund okkar Kenny. Upp úr áramótum 2012 var skyndilega settur kraftur í vinnu rannsóknarnefndar breska þingsins varðandi Hillsborough slysið og nú skildi almenningi verða gerð grein fyrir “öllu”. HFSG og HJC fóru nú af krafti í að setja pressu á að virkilega allt yrði dregið fram, fengu biskupinn af Liverpool með sér í lið í þeirri baráttu.
Þann 12.september það sama ár, 2012 var skýrslan opinberuð í breska þinginu. Ég náði að loka mig af og fylgjast með því í beinni þegar forsætisráðherrann sjálfur bað fjölskyldur þeirra sem áttu um sárt að binda “innilegrar afsökunar” á því misrétti sem þær hefðu verið beittar. Hann tók svo djúpt til orða að ég viðurkenni bara að það runnu tár, þetta var langt umfram þeim væntingum sem Kenny hafði innrætt mér…mikið sem ég hugsaði til hans þennan dag.
Í kjölfarið bárust fréttirnar af hryllilegum “cover-up” aðgerðum sem náðu til hæstu yfirmanna lögreglunnar og inn í ráðuneytin sem að málinu komu. Allt miðaðist að því að fegra hlut lögreglu og annarra viðbragðsaðila en skella skuldina á aðdáendur LFC. Fullkomin vanhæfni í viðbrögðum á vellinum og í kringum slysið kom í ljós, m.a. hafði dánartími allra á vellinum verið ákvarðaður 15:15 í síðasta lagi og fjölskyldunum greint frá því, en þarna kom í ljós að fjöldamargir hinna látnu voru á lífi á þeim tíma og hvergi kom fram hvað reynt var að gera varðandi endurlífgun eða aðra aðhlynningu.
Þetta var mikill sigur í baráttunni til að hreinsa æru þeirra sem fóru til Sheffield þennan dag eingöngu til að horfa á liðið sitt spila fótboltaleik en voru úthrópuð sem fyllibyttur, ofbeldisfólk og þjófar næstum af heilli þjóð. Sennilega var engin tilviljun að fyrsti leikur eftir slysið var spilaður í Glasgow og fyrsti deildarleikurinn var við hitt liðið í borginni, þá bláu.
En baráttunni lauk sko ekki í september 2012 þó að hreinskilni Cameron hefði vissulega valdið straumhvörfum. Það var í lok síðasta árs að samþykkt var að mál hverrar fjölskyldu sem þess óskaði skyldi rannsakað sérstaklega. Áður höfðu öll málskjöl verið gerð aðgengileg á vefslóð Hillsboroughnefndarinnar og árið 2014 var samþykkt að skipa kviðdóma í málunum sem eiga að hlusta á vitnisburði er varða hvert dauðsfall fyrir sig.
Það hyllir því undir það að það muni takast að komast til botns í flestum dauðsföllum þessa dags, vissulega alltof seint, en mikill mælikvarði á þrautseigju fyrst einstaklinga, svo hópa, svo knattspyrnuliðs, knattspyrnuliða og síðan heillar borgar til að hreinsa mannorð sitt og heiðra minningu venjulegs fólks sem dó vegna mistaka þeirra aðila sem báru ábyrgð á vernd þeirra.
Í dag er vegleg dagskrá í tilefni að því að 25 ár eru liðin frá þessum ömurlega harmleik. Ég ætla að stilla á lfc.tv strax og ég mögulega get og horfa á tvær nýjar heimildarmyndir um slysið og fjölskyldurnar auk þess að fylgjast með minningarmessunni.
Því það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur öll að muna eftir Hillsborough, það er algerlega órjúfanlegur hluti af sögu þessa félags, og málið allt lýsir því ansi vel hvers vegna klúbburinn okkar er einstakur í veröldinni.
R.I.P. The 96.
They will never be forgotten!
Flottur pistill Maggi og gott að réttlætið sé að ná fram að ganga.
Les þessi ljóð á hverju ári á þessum degi.
http://www.liverpoolfc.com/news/latest-news/hillsborough-poems-for-the-96
Justice for the 96 – Youll Never Walk Alone
Justice for the 96-You Never Walk Alone
Þennan dag tek ég frá til að minnast þeirra 96 sem féllu frá þennan örlagaríka dag.
Blessuð sé minning þeirra.
YNWA…
Skrýtið með þennan dag alla tíð. Ég gleymi aldrei 15. apríl 1989 þar sem ég 10 ára gamall horfði á þetta í sjónvarpinu og skildi fyrst ekki alvarleika málsins. En eftir sem árin færast yfir og skilningurinn eykst, þá sér maður hvað þetta var hrikalegur atburður fyrir borgina, liðið og alla sem tengjast klúbbnum á einhvern hátt. Það lýsir sér kannski best að enn þann dag í dag er maður dapur á þessum degi og hugsar til fjölskyldu og vina með kærleik í hjarta.
Sendum góða strauma á bræður okkar og systur sem fóru á fótboltaleik fyrir 25 árum og komu aldrei heim.
YNWA-Justice for the 96
Ég minnist eins og #4 að hafa horft á þetta í sjónvarpinu á unglingsaldri. Man sérstaklega eftir lýsingu Bjarna Fel á harmleiknum. Það situr svolítið í mér ennþá.
Einnig er ótrúlegt hve mikill skítur hefur verið grafinn upp sem tengist þessum atburði, maður hefði aldrei geta ímyndað sér magnið sem kom upp. Þetta var eins mikið samsæri og hugsast getur og ógeðslegt til þess að hugsa að lögregla og stjórnvöld hafi gripið til þess ráðs að skella sökina á saklaust fólk til að þau gætu litið betur út. Maður er fyrir löngu hættur að eiga nokkur orð fyrir svoleiðis óheiðarleika og viðbjóð.
Justice for the 96 – YNWA
Það eina sem ég sagt eftir þessum pistill #JFT96 #YNWA
R.I.P.
Frábærlega tæklað Maggi, baráttan fyrir réttlæti hefur tekið gríðarlegt stökk í vonandi rétta átt eins og við ræddum í podcast þættinum í gærkvöldi. Gaman að sjá muninn t.a.m. m.v. þessa færslu frá 20 ára minningardeginum.
Hillsborough er ekki lengur bara “þreytandi tuð” aðstandenda sem komu að lokuðum dyrum og töluðu fyrir daufum eyrum í yfir 20 ár og stuðningurinn er augljós á öllum knattspyrnuvöllum Bretlandseyja og mun víðar í Evrópu.
Áhrifin sem þessi atburður hafði hafa markað sögu ansi margra og talandi um Bjarna Fel (Nr. 5) þá var þetta (held ég alveg örugglega) síðasti leikurinn sem hann fór á til að lýsa beint í sjónvarpi. Þessi atburður hafði auðvitað mikil áhrif á hann og maður getur ekki ímyndað sér hvernig það er að lýsa svonalöguðu í beinni útsendingu af staðnum. Karlinn ætti auðvitað fyrir löngu að vera búinn að gefa út ævisögu og ég efa ekki að þessi atburður fengi sinn sess þar.
Sá annars heimildarmyndina Walk On í gær sem tileinkuð er minningu þeirra 96 sem létust á Hillsborough. Myndin fjallar um You´ll Never Walk Alone og er meira en frábær. Sagan sögð frá uppruna lagsins í Carosuel til dagsins í dag og tengsl þess við fótbolta og þá auðvitað sérstaklega Liverpool. Eins er komið inn á tengingu lagsins við Celtic og hvernig þeir hafa orðið eitt traustasta vinafélag Liverpool, ekki síst vegna YNWA og eftirmála Hillsborough.
Justice for the 96-You Never Walk Alone
Heyrði að fréttastofa RÚV hafi þrýst verulega fast á það að Bjarni Fel héldi áfram að lýsa því sem fyrir augu hans bar þennan dag þvert á hans vilja sjálfs.
Gleymi bara ekki hálfbrostinni rödd hans í útsendingunni þegar fór að verða ljóst að fólk hafi látið lífið. Ætlaði að ræða Hillsborough daginn við hann í eigin persónu í sumar en viðurkenni bara það að ég þorði því ekki af virðingu við þennan magnaða mann.
Glæsileg umfjöllun og mjög ánægjulegt að sjá málin þróast í rétta átt, þótt það hafi tekið hryggilega langan tíma. Betra er þó seint en aldrei.
Hægt er að horfa á minningarathöfnina á Liverpool vefsíðunni án þess að vera með áskrift: http://www.liverpoolfc.com/lfctv
Megi þeir sem létust hvíla í friði og allir hlutaðeigandi sjá fram á réttlæti og frið.
Frábær pistill(líka þessi frá 2009).
Það er kannski ljót að segja það en orð Bill Shankly um að fótbolti er mikilvægari en líf og dauði eru einfaldlega röng.
Við sem fylgjum Liverpool ættum að vita það vel því að tvo stór slys í sögu liðsins hafa markað djúp spor í sögu Liverpool og þótt að árangur Liverpool inná vellinum skiptir okkur gríðarlega miklu máli þá er sá árangur drop í hafi miða við mikilvægi líf.
https://www.youtube.com/watch?v=bUuSHrhPQyk
Hér er frétt Match of the Day þetta örlagaríka kvöld, segir í raun ansi margt…
Ég gleymi þessu aldrei. Horfði á þetta gerast í beinni eins og svo margir aðrir hér.
YNWA
Maggi – Ég held að það yrði rosalega áhugavert að tala við Bjarna Fel og myndi hjálpa okkur sem yngri erum að átta okkur á því hvernig það var fyrir Íslendinga að upplifa þetta hérna heima í stofu.
Annars vil ég bara setja thumbs up fyrir Martinez og Everton. Hálf óþægilegt hvað manni er farið að líka vel við nágranna okkar. Spila skemmtilegan bolta og eru með frábæran þjálfara og svo er 100% virðing á milli liðanna nú orðið. Fannst flott þegar hann sagði “The authorities took the wrong city if they thought they would get away with that”
Kveikti á sjónvarpinu seinnipartinn í dag og datt beint inn á útsendingu NRK frá minningarathöfninni. Það var ósjaldan sem tárin létu á sér kræla, þvílíkur fjöldi fólks sem þarna var mættur og stórfengleg stemmning. Fannst sérstaklega einstakt að sjá Roberto Martinez halda þarna ræðu, sýnir hvað þessi skelfilegi atburður var miklu stærri en LFC og hvaða áhrif hann hafði á heiminn allan.
Loka atriðið var svo magnað en þá var það sjálfur Gerry sem tók You’ll never walk alone með 26.000 manna bakradda kór sér til stuðnings.
JFT96 – YNWA
http://www.liverpoolfc.com/news/latest-news/161261-videos-anfield-pays-respects-to-the-96
Langar svo að benda ykkur á þessa samantekt, mæli sérstaklega með að horfa á Brendan Rodgers, hann er að stimpla sig inn sem goðsögn í Liverpool borg.
Fínt viðtal við Sigurstein um Hillsborough.
http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunutvarpid/15042014/sigursteinn-brynjolfsson-hillsborough-slysid
Ég var 13 ára og rosalega spenntur þegar ég settist niður fyrir framan sjónvarpið þennan afdrifaríka laugardag. Það er skammarlegt að segja frá því en ég man alltaf hvað ég var svekktur til að byrja með að leikurinn skyldi stoppa, svo fóru að renna á mann tvær grímur þegar maður heyrði á tóninum í rödd Bjarna Fel að ekki var allt með felldu.
Það er alveg með ólíkindum að aðstandendur þeirra sem létust skyldu þurfa að bíða í allan þennan árafjöld að fá sannleikann fram, og ekki eru enn öll kurl kominn til grafar. Og þurfa allan þennan tíma að standa undir svívirðingum heillar þjóðar nánast, það brýst fram í manni heift í garð þessara vesalinga sem stungu sannleikanum ofan í skúffu til að bjarga eiginn skinni.
Hér er tribute video sem ég rakst á í dag. Ég viðurkenni hiklaust að mér vöknaði um augu að horfa á þetta.
http://balls.ie/football/kop-stars-feature-beautiful-hillsborough-tribute-video/
JFT96 – YNWA
Ég er handviss á því að það er verið að létta af álögum sem hafa núna legið yfir þessu klúbb síðan þessa atburðar. Langflest kurlin er nú að komast til grafar og réttlætinu loks að verða fullnægt. Á sama tíma situr Liverpool á toppnum á töflunni þegar einungis fjórar umferðir eru eftir og hef ég fulla trú á því að réttlætinu verði fullnægt náum við að sigla þessu í höfn.
JFT 96
Verulega góð heimildamynd, rúmlega árs gömul sem fjallar vel um “cover-upið” sem var svo lengi í gangi:
http://www.youtube.com/watch?v=T2L_8sj6Wyc
Sammála því að athöfn dagsins var mögnuð og Brendan allra manna bestur.
Toppurinn á þessum athöfnum í gegnum tíðina verður þó alltaf þegar Margaret Aspinall og Rafa Benitez grétu saman árið 2011 og nafnið hans var chantað. Sá það í þráðbeinni og hreinlega hágrét.
http://www.youtube.com/watch?v=XJEbfkFHgJQ
Þessi dagur er alltaf dagur sem ég tek frá í að hugsa um þennan atburð sem hafði svo mikil áhrif á þennan klúbb okkar sem ég elska meira en allt og líka þau áhrif sem hann hafði á fótboltaheiminn.
Fyrir 42 árum að heimildir telja, ákvað ég að halda með Liverpool. Til að byrja með var það bara út af því að nokkrir bekkjarbræður mínir sem voru miklu betri en ég í fótbolta og jafnvel æfðu, héldu með Liverpool. Heimafyrir vissi enginn hvað fótbolti var.
Þegar ég fluttist svo úr Breiðholtsskóla yfir í Fellaskóla 9 ára þá var þar bekkjarfélagi sem virtist vera fæddur inn í Liverpool fjölskylduna. Plaköt upp um alla veggi og hann átti jafnvel eintök af fótboltablaðinu Shoot.
Þá var ekki aftur snúið, Takk Ingimundur.
Í dag eru 25 ár frá harmleiknum á Hillsborough þar sem 96 stuðningsmenn létu lífið. Ég man það eins og gerst hafði í gær þegar ég fylgdist með Bjarna Fel reyna að lýsa þessari hörmung sem þarna var. Það var reyndar ótrúlegt hvað útsendingu var haldið lengi áfram, þetta var skelfilegt.
Ég ætla ekki að rekja söguna, hvorki sögu Liverpool sem er mikil, né sögu þeirrar baráttu sem staðið hefur í 25 ár vegna réttlætis til handa þeirra 96 og fjölskyldna.
En ég horfði á athöfnina sem var á Anfield í dag og það var sterkt og fallegt.
Ég er nánast klökkur að fá að vera þess heiðurs aðnjótandi að fá að halda með Liverpool sem íþróttafélagi, sem samfélagi, sem eitthvað sem stígur lengra inn í mann en maður trúir sjálfur. Líklega eru einhvern veginn þannig sem trúarbrögð virka.
Það er dásamlegt að mínir menn eru að spila best, eru á toppnum og gætu hugsanlega hampað titlinum í vor. En hvernig sem fer þá er þetta lið alltaf meistari í mínu hjarta.
Einn er sá maður sem er holdgervingur félagsins í mínum huga og kristallar mína upplifun af þessu fallega félagi.
Maður sem var snillingur og meistari sem leikmaður, maður sem var snillingur og meistari sem þjálfari, maður sem hefur borið sálir hinna 96 á herðum sér í 25 ár.
King (sem ætti að vera fyrir löngu orðinn Sir) Kenny Dalglish.
RIP – Justice for the 96 – YNWA
Það er í raun magnað hvernig svona atburður getur haft áhrif á mann í allt öðru landi. Mann sem tengist í raun Liverpool ekki neitt fyrir utan það að maður heldur með þessu liði í fótbolta. En þar er akkúrat mergur málsins. Þetta lið, þessi borg. Þetta fólk, þessi samstaða. Maður samsvarar sér svo vel með fólkinu þarna úti að þeirra harmleikur er minn.
Takk fyrir samantektina og þið öll fyrir að deila efni hér í þræðinum.
Ef það er eitthvað réttlæti í þessum heimi þá tökum við titilinn í ár í þeirra nafni á þessum tímamótum.
RIP – JFT96 – YNWA
Ég hef séð flestar heimildarmyndir um Hillsborugh og lesið yfir meðallagi margar greinar og bækur til að hafa nokkuð góða þekkingu á þessum harmleik. En ég held að núna 25 árum seinna hafi ESPN í Bandaríkjunum verið að toppa með Hillsborough 30 for 30 tveggja tíma þætti um þennan harmleik.
Ég fann live feed af þessu á netinu og hef ekki hugmynd hvernig hægt er að finna link á þetta (þættinum lauk fyrir fimm mínútum) en endilega reynið að finna þetta og sjá.
Rosalegur þáttur.
Uppfært, sjá hér
veit þetta er ótengt þessu en óguð hvað ég get ekki beðið eftir helgini !!!!!
http://vimeo.com/81122784#at=404
þetta geriri mann enþá spenntari! hd
Virkilega þess virði að fara á liverpoolfc.com og skoða þessi myndbönd frá minningarathöfnini. Gefur manni líka betri sýn á hvernig samheldnin er í borginni.
Hèr er 30 for 30 myndin sem Babu var að tala um. Hún er það ný að klippur úr City-leiknum eru í henni: footballorgin.com/2014/04/espn-30-for-30-films-hillsborough.html
Mæli með að allir horfi á þessa heimildarmynd sem Babu vísar í. Átakanleg :'(
ESPN kasta ekki höndum til verks við svona heimildamyndagerð. 30 for 30 um Hillsborough var þar engin undantekning og ég mæli sterklega með að fólk horfi á hana. Hún er jafn átakanleg og hún er góð.
Algerlega sammála Babú.
Hef horft og lesið margt, en þetta er sjónvarpsefni sem ég mun geyma á möppunni í tölvunni og horfa á þennan dag héðan frá. Vonandi munu á næstu árum hvert mál fyrir sig verða leiðrétt fyrir hverja fjölskyldu.
Þegar það hefur verið gert hlýtur að koma að því að vinna í þeim sem tóku þátt í viðbjóðnum eftir að slysinu lauk…
Frábær þáttur fyrir þá sem hafa áhuga á að læra um þetta!!!
Sæl öll.
Þá er maður búin með öll tárin þetta árið það er alvega sama hvað langur tímí líður frá Hillsbouroug þetta er alltaf jafn sorglegt. Ég man það einsog það hafi verið í gær þegar ég sat fyrir fram sjónvarpið 15. apríl 1989 með 10 daga gamla dóttir mína og ætlaði að horfa á leik en sá leikur breyttist í martröð og þar sem ég sat með hormónana á fullri ferð með nýfætt barn þá hafði þetta rosalega áhrif á mig og ég gleymi þessu aldrei.
Robert Martínes kom sá og vann hug minn og ég held allra Poolara þvílík ræða þetta sýnir bara hvað við eigum góða granna og ég vona að þeir vinni Arsenal og komist í 4 sætið og haldi því til leiksloka. Ég vona líka að þeir vinni City…
Nú getur maður aftur farið á tilfinningarússíbanan vegna leiksins sem er á sunnudaginn, tímatalið hjá okkur flestum er örugglega bara mælt í leikdögum þ.e.a.s Norwich,Chelsea, Crystala Palace og svo Newcastle allir dagar þar á milli einkennast af geðsveiflum upp og niður .
Við vitum það núna að við göngum aldrei ein og með þessa 96 stuðningsmenn sem létu lífið við að styðja liðið okkar þá þurfum við ekkert að óttast við fáum alltaf góð úrslit.
Þangað til að Norwich leikdag…..YNWA
Var að enda við að horfa á 30 for 30 þáttinn og fannst ég verða að segja nokkur orð, þrátt fyrir að vera stuðningsmaður erkifjendanna á hinum enda M62 undanfarin 30 ár eða svo. Þessi atburður hefur alltaf verið mér afar minnisstæður hafandi horft á þetta í beinni útsendingu á sínum tíma. Ég viðurkenni að ég átti afar bágt með mig á meðan ég horfði á þáttinn og upplifa þennan skelfilega dag aftur, sjá svo í framhaldi hversu ömurlega meðferð aðstandendur þeirra 96 sem létu lífið sem og allir stuðningsmenn Liverpool hafa fengið í gegnum tíðina og hið ótrúlega samsæri um yfirhylmingu sem loksins er búið að afhjúpa.
Ég veit að það blæs jafnan köldu á milli míns klúbbs og ykkar en í þessu máli er allt slíkt lagt til hliðar. Ég vona heitt og innilega að þessi nýja rannsókn sem á að hefjast fljótlega loki þessu máli í eitt skipti fyrir öll og réttvísin nái loksins fram að ganga.
Ég vona einnig, og ég hélt að ég myndi aldrei segja þetta, að Liverpool klári tímabilið með stíl og fái dolluna langþráðu í hendurnar þegar flautað verður til leiksloka á Anfield 11. maí. Miðað við spilamennskuna, hjartað og sálina í klúbbnum og stuðningsmennina er enginn klúbbur sem á það meira skilið í dag…
JFT96!