Liverpool 1 – Arsenal 3

Hingað til hef ég forðast það eins og heitan eldinn að skrifa leikskýrslur. Ég hef haft svo mikla ánægju af því að lesa svoleiðis eftir félaga mína hér á síðunni að ég hef hreinlega ekki lagt í það. Við sátum fjórir saman yfir þessum leik í dag á Players. Ég, Einar Örn, Kristján Atli og Aggi. Ég viðurkenni það alveg fúslega að ég naut þess að eiga góðar og uppbyggilegar umræður yfir leiknum við þá félaga. Ég meira að segja naut þess að horfa á þennan leik. Við töpuðum og erum úr leik í FA bikarnum. Simple as that. Ég sit hérna fyrir framan tölvuna, mörgum tímum eftir að ljóst var að Arsenal sló okkur út úr bikarnum, en samt er ég alveg bálreiður. Ég er til í yfirdrullun dauðans hér og nú…

En…ég ætla ekki að falla í þann pakka að drulla yfir leikmenn Liverpool. Ég er á því að Reina hefði allavega haldið tveim af þessum mörkum úti. Ég er líka á því að Riise fær afar brátt í brók í hvert skipti sem hann lítur í augun á Hleb. Ég er líka á því að þeir tveir leikmenn sem geta borið titilinn Hr. Traustur almennt, voru langt frá því í dag í tveimur tilvikum. Carra og Finnan eru líklega okkar traustustu menn, en klikkuðu illa í dag. En þrátt fyrir allt þetta þá er bara ein spurning í mínum huga…

HVERNIG Í ÓSKÖPUNUM FÓRUM VIÐ AÐ ÞVÍ AÐ TAPA 1-3 FYRIR ÞESSU ARSENAL LIÐI Í DAG?????????????????????????

Ég bara spyr. Þeir áttu bara ekki break, ekkert flóknara en það. Þetta “besta sóknarlið allra tíma” byrjaði leikinn í vörn og kláruðu hann í vörn. Akkúrat ekkert að því, mínir menn hafa marg oft unnið leiki á slíkan hátt. Lagt upp með góðum varnarleik og beitt skyndisóknum. Þeirra leikkerfi gekk upp í dag og flóknara er það bara ekki. Þessi leikur sýndi manni þó það að það skiptir engu máli hvernig lið spila, það eru úrslitin sem skipta máli. Arsenal voru SLAKIR í dag. Ég sagði hérna í upphafi að ég myndi ekki drulla yfir Liverpool og ég ætla mér að standa við það. Menn eiga eflaust eftir að gagnrýna þessi orð mín, en ég stend við þetta. Arsenal liðið, sem á að heita “skemmtilegasta lið deildarinnar” og er ég oft sammála því, spilaði bolta sem við höfum verið gagnrýndir fyrir lengi. Það virðist sem svo að það skipti engu máli hvernig leikirnir þróast, það er búið að ákveða umsagnir löngu áður. Arsenal gátu EKKERT í dag. Því var þetta enn sárara. Við áttum leikinn og vorum betri allan tímann að öllu leiti, nema…að skora f****ing mörkin.

Í mínum huga átti Xabi Alonso stjörnuleik á miðjunni og Stevie var öflugri en undanfarið. Dirk og Luis voru einnig ákaflega duglegir og Pennant kom til þegar á leið. Mér fannst Riise algjörlega úti á þaki og þvílík breyting þegar Fabio kom inná fyrir hann. Dudek gerði engin mistök, en hann ÁTTI að loka fyrir tvö síðustu mörkin. Eins og KAR sagði í kvöld, þá verður aldrei hægt að kenna Dudek um mörkin, en Reina hefði líklega komið í veg fyrir þau. Þarna skilur á milli.

Þá kemur að félaga vorum Bennett. Hvaðan úr Breiðdalnum er sá náungi? Hvernig í ósköpunum fékk hann það út að Xabi ætti skilið gult spjald þegar hann var tekinn niður í teignum í stöðunni 0-0? Hann var einfaldlega al versti maður vallarins. Mistök á mistök ofan og er ég afskaplega feginn hans vegna að hann hitti ekki félaga minn, Sigurð Hjaltested, í kvöld. Bara hans vegna. Ég mun aldrei kenna honum um tapið, en hann var engu að síður HÖRMUNG. En hvað um það. Tökum bara eina Pollýönnu hérna í lokina. Dottnir út úr bikarnum og þurfum ekki að ferðast alla þessa vegalengd til Cardiff. Getum einbeitt okkur að blessaðri deildinni, deildarbikarnum og svo Meistaradeildinni. Ahhh, Arsenal á þriðjudaginn og nú vil ég sjá Bellamy gera þessa stráka í vörn Arsenal vitlausa.

Overall…sigur Arsenal staðreynd, sanngjarn? Aldrei spurt að því, þeir skoruðu fleiri mörk en við og því telst það sanngjarnt, alveg sama hvort þeir gátu eitthvað eða ekki. Liðið sem skorar fleiri mörk í leiknum VINNUR, flóknara er það ekki. En gerið það fyrir mig að hætta að kalla þetta eitt mesta og besta sóknarlið allra tíma. Þeir geta spilað skemmtilega, við getum það líka, en þeir hafa margoft sýnt það að þeir spila eins og við bara taktískt eftir því hverjir mótherjarnir eru. Til hamingju Arsenal, þið eruð komnir áfram. Nú er bara að rífa sig upp á rasshárunum og klára næstu leiki.

YNWA

41 Comments

  1. Já flott leikskýrsla. Er 100% sammála þér í öllu, það sem skilru Dudek og Reina að er að Dudek ver það sem hann þarf að verja en Reina gerir það + að hann hefur þetta extra, þetta match-winner element.

    Sá reyndar ekki leikinn en finnst það gerast alltof of oft í Englandi að einfaldlega slakir dómarar skemmi leikina. Þetta er ekki gott fyrir neinn og af hverju gera menn ekkert i þessu ?! Maður sér aldrei neitt svona í hinum stóru deildunum í Evrópu.

    En annars vil ég bara óska Arsenal mönnum til hamingju með sigurinn, eru vel að honum komnir en ég get bara ekki haldið aftur að mér og sagt að ef Liverpool hefði unnið með þessum hætti hefði ekki verið talað um hvað við spiluðum vel eða værum vel að sigrinum komnir heldur að við spiluðum leiðinlegan varnabolta og allt það…

    -BigG

  2. Flottur. Ég bjóst nú við þér reiðari, en þetta nægir svo sem. Maður getur samt lesið á milli línanna að þú varst að halda töluvert aftur af þér þegar þú skrifaðir þessa skýrslu. Augljóst að þig langar til að gagnrýna suma leikmenn Liverpool meira en þetta. :confused:

    Annars hef ég nokkra punkta út frá leiknum:

    * Steve Bennett hatar Xabi Alonso. Siggi Hjaltested benti mér á að Bennett var sá sem rak Alonso útaf á Highbury í fyrra, þegar Alonso datt á Fabregas og Bennett sneri baki í atvikið en gaf honum samt spjald án þess að ráðfæra sig við línuvörð. Og í kvöld sleppti hann tveimur augljósum vítaspyrnum og spjaldaði Xabi fyrir leikaraskap! Fáránlegt.

    * Johnny Riise þarf hvíld. Mér er sama þótt við látum Hyypiä spila næsta leik í bakverðinum, komið þeim norska bara út úr liðinu í 1-2 leiki. Hann hefur oft átt góða leiki fyrir Liverpool og oft átt slæma leiki, en síðustu vikurnar hafa verið pínlegar á að horfa. Kannski nær hann áttum aftur við að horfa á næstu tvo leiki eða svo.

    * Þessi leikur sigraðist fyrst og fremst á taktík. Ljótt að segja það, en Wenger vann Benítez í dag. Svo einfalt er það nú bara. Þeir lágu í vörn og þetta spilaðist nákvæmlega eins og Wenger hafði lagt upp fyrir sína menn, á meðan okkar menn náðu ekki að brjóta þá aftur þrátt fyrir yfirburðastöðu á vellinum. Skýrasta sönnunargagnið er svo það að Rafa skipti aðeins einum leikmanni inná í dag. Aðeins Fabio Aurelio kom inn fyrir Johnny Riise. Benítez hafði einfaldlega engin brögð í vasanum til að svara leikaðferð Arsenal í kvöld.

    * Burtséð frá taktíkinni, þá hefðum við unnið þennan leik ef (1) Reina hefði verið í markinu í stað Dudek og (2) Riise, Finnan/Gerrard og Carragher (í þeirri röð) hefðu ekki gert sig seka um slæm einstaklingsmistök í vörn. Hleb var með Riise í vasanum annan leikinn í röð, Finnan og Gerrard ákváðu að besta vörnin væri að leyfa Rosicky að skjóta á vítateigslínunni og Carra reyndi að sóla Henry þegar hann væri sjálfur vanur að dúndra bara uppí stúku. No nonsense, Carra, no nonsense!

    * Pennant. Ef það er eitthvað jákvætt við þennan leik þá er það frammistaða hans í síðari hálfleik. Ég sagði við ykkur hina í hálfleik að það ætti að taka hann útaf fyrir Gonzalez, en í seinni hálfleik stórbatnaði hann og var okkar hættulegasti maður. Hvað gerðist? Jú, í síðari hálfleik hættu bakverðirnir að dæla boltanum upp í loftið á Crouch frá miðjum vallarhelmingi Arsenal og fóru þess í stað að reyna að opna kantana með spili niðri á jörðinni. Pennant getur ekki sett mark sitt á leiki þegar boltanum er sífellt lyft yfir hann í átt að Crouch, en um leið og okkar menn fóru að láta boltann ganga fór hann að fá svæði til að athafna sig gegn Clichy og maður sá strax muninn.

    * The Kop. Það bara verður að minnast á aðdáendurna á vellinum í kvöld. Þeir voru einfaldlega stórkostlegir! Mósaíkin í byrjun var ótrúleg og þeir héldu henni fyrstu 6-8 mínútur leiksins, áður en þeir settust! Stemningin á vellinum dó aldrei, jafnvel ekki þegar Henry skoraði þriðja mark Arsenal, heldur sungu menn hástöfum jafnvel á meðan liðin gengu út af vellinum í leikslok! Hvar annars staðar í heiminum finnur maður þessa ástríðu?!?

    Ég spáði á sínum tíma að við myndum tapa einum og vinna tvo af þremur heimaleikjum okkar gegn Arsenal í vetur og sú spá stendur. Tapið í dag var slæmt en ég er vongóður um sigur á þriðjudag. Come on you Reds!

  3. Ekki oft sem ég er 100% sammála ykkur hér eftir leiki en í þessu tilviki er ég það. Gæti spilað inní að SSteinn er Selfyssingur… :laugh:

    Annars vorkenni ég Dudek. Hann kemur inn í þennan leik og ætlar þvílíkt að standa sig. Sjálfstraustið er örugglega ekki upp á marga fiska hjá honum eftir leikinn. Mér finndist fínt ef hann fengi annan séns á þriðjudaginn.

  4. Kristján, hvaða tvær augljósu vítaspyrnur voru það? Var önnur þegar Alonso hoppaði sjálfur uppí loftið? Hver var hin?

    Mér fannst Bennett ekkert sérstakur, hann hefði mátt spjalda Garcia þegar hann sparkaði Hleb niður. Gat ekki séð að dómgæslan hafi hallað á ykkur.

    SSteinn, átti Arsenal bara að spila uppí hendurnar á ykkur og leggjast í blússandi sókn? Þó að Arsenal reyni að spila góðan og skemmtilegan fótbolta þá er liðið jú líka að reyna að vinna og þessi taktík meikaði einfaldlega mest sens miðað við þann mannskap sem við höfðum. Ef Cesc hefði verið með þá hefði okkur örugglega gengið betur að halda boltanum á miðjunni og spila honum fram, hvorki Flamini né Gilberto eru góðir sendingamenn eða skapandi leikmenn.

    Svo á ég erfitt með að skilja hvers vegna þið eruð svona ánægðir með leik ykkar manna í dag. Vissulega voruð þið mikið með boltann en þið náðuð ekki að skapa ykkur nein færi. Markið ykkar kom uppúr föstu leikatriði en þið fenguð engin opin færi og áttuð tvö skot sem hittu á rammann, Arsenal átti fjögur. Alonso og Gerrard áttu miðjuna en kantmenn og framherjar ykkar höfðu ekki hæfileikana til að brjóta vörn Arsenal á bak aftur. Þið reynduð það sama allann leikinn, háar sendingar fram, engin fjölbreytni í sóknarleik ykkar.

    Ég á von á að þið vinnið leikinn á þriðjudaginn í uppáhaldsbikarnum ykkar og það mun örugglega gleðja ykkur mikið. Efast samt um að margir Arsenalmenn sem spiluðu í dag muni verða þar. Lið okkar mun örugglega líta einhvern veginn svona út:

    Almunia
    Lauren – Djourou – Gallas – Traore
    Walcott – Flamini – Denilson – ????
    Baptista – Aliadiere

  5. Joe, þú ert sem sagt Arsenal-maður. Og ekki yfir það hafinn að koma inná Liverpool-síðu og monta þig, eitthvað sem ég myndi aldrei í helvíti gera ef mínir menn hefðu unnið. Góður… :rolleyes:

  6. JOE… fult af sanleiksmolum þarna… ef ég mætti velja þá villdi ég tildæmis vinna þennan og tapa á þriðjudaginn… mont og ekki mont Kristján Atli… fanst nú ekkert sem hljómaði sem mont í þessu ummælum, annað en að á þriðjudaginn verður wenger með unglingana sína, en það er kanski út af því að hann á orðið ekkert annað en unglinga 😉
    alveg sammála joe að við áttum engin færi þó við hefðum ráðið leiknum að mestu leiti…
    sá nú bara eitt atriði sem gat verið víti… og það var hoppið hans alansó… en hefði alanso ekki hoppað þá hefði hann nú ekki spilað 90 mín…. mitt mat… strangt að dæma víti, og strangt að spjalda hann… svona 50/50 dómur

    en á morgun kemur nýr dagur og það er bara að horfa fram á veginn… vonandi vinnur arsenal þennan bikar… vonadi segi ég bara… og vonandi endum við í 2 eða 3 sæti í deildini í staðin… en sjáum til þegar lengra dregur .. yfir og út

  7. Arsenal spiluðu nú aðallega eins og þeir gerðu í dag vegna þess að þá vantaði Cesc Fabregas, sem er nú orðinn ansi stór hluti af liðinu þarna á miðjunni sem playmaker. Leikur Liverpool breyttist t.d. mjög (til hins betra) þegar Gerrard fór á miðjuna.

    Þá finnst mér eins og menn séu að reyna að nota Dudek sem blóraböggul með því að segja að Reina hefði varið seinni tvö mörkin. Mark nr. 2 var “a smartly struck shot” eins og Guardian orðaði það og erfitt við að eiga, og það er erfitt að segja að einhver markmaður verji svona ground shot sem er af markteigslínu og ekki beint á hann. Ég er vissulega á því að Reina sé mun betri markvörður, og kannski hefði hann líka varið eitthvað af þessum skotum. Þá má líka spyrja sig hvort Warnock hefði náð að hemja Hleb betur, hvort Bellamy hefði getað splundrað vörn Arsenal manna o.s.frv.

    Og gula spjaldið var nú held ég bara vegna þess að þetta var hreinn og klár leikaraskapur. Vissulega var þetta snerting, en maður sá í endursýningu að Alonso lét sig detta áður en Gilberto snerti hann, og fyrir það fékk hann gult spjald.

    Annars virtist líka sem að Flamini hefði fengið það hlutverk að elta Gerrard í leiknum. Þeir voru a.m.k. hvorugir mjög sýnilegir í leiknum. Hins vegar fannst mér Arsenal vera aðeins skárra liðið í fyrri hálfleik, þótt Liverpool hafi svo verið miklu betri í seinni hálfleik.

  8. Afsakaðu Kristján Atli ef þetta kom út sem eitthvað mont. Er nú ekki í miklu skapi til að monta mig, vissulega var sigurinn sætur en ekki einn af þessum klassísku sigrum sem maður mun geyma lengi í minningunni, vegna þess að lékum vissulega ekkert sérstaklega vel, vörðumst reyndar nokkuð vel og nýttum færin okkar.

    Ég nefndi þetta með deildarbikarinn því að margir poolarar eru að tala um hefnd í þeim leik en hversu mikil hefnd er það að vinna hálfgert varalið?

    Annars er ég enn forvitinn um hvaða atvik þú ert að tala um þegar þú nefnir tvær augljósar vítaspyrnur.

  9. Dudek á nátturlega að vita það að þegar að boltinn er ekki nálægt endalínu.. þá á hann að standa á helvitis marklínunni! Ekki standa á markteignum.. þetta tel ég bara vera vendipunktinn í leiknum. Rise á svo algjörlega heiðurinn að þvi að þetta mark gat orðið að veruleika.. veit ekki hvað í ósköpunum hann var að hugsa! auðvitað á bakvörður alltaf að fylgja kantmanninum sem ætlar sér uppí horn! Annað markið var sjálfur Kapteinn Kóngur bara hræddur við rosicky sem var að fara skjóta.. svosem ekkert hægt að kenna honum um þetta.. en maður hefur séð kaptein kóng fara í svona bolta! En hverjum er ekki sama um FA cup bikar hehe.. segjum það allavena nuna:)

  10. Stór mistök að láta Dudek í markið í þessum leik. Markmaður er hluti af vörninni. Vörnin okkar er búin að vera standa sig með afbrigðum vel undanfarið. Algjörlega óskiljanlegt að “leyfa” Dudek að koma inn í stórleik sem þennan. Ég hefði skilið það ef við hefðum dregist á móti þriðju deildar liði eða eitthvað svoleiðis en ekki á móti Arsenal. Lið sem er búið að skora næst mest af mörkum í deildinni þessa leiktíð og vitað mál að eru með mjög skæða framherja.

    Reina átti að vera í markinu þennan leik..Punktur. Ég er viss um að það hafi farið hrollur um Benites þegar fyrsta markið kom.. Ég er algjörlega sannfærður um að Reina hefði blakað þessum bolta yfir..SANNFÆRÐUR. Það var vendipunktur.

    En það þýðir ekki að gráta Björn bónda. Það sem eftir stendur í mínum huga eftir þennan leik er hversu frábærir stuðningsmenn Liverpool eru. Þrátt fyrir þrjú kjaftshögg var aldrei slegið af.
    En þetta sýnir líka hversu mikið Englendingar bera virðingu fyrir þessari keppni. FA-bikarinn er bara mögnuð keppni og nýtur gríðarlegrar virðingar. Carling-cup er bara “baby” við hliðina á FA-bikarnum. Svo einfalt er það.

    Það var ógeðslega sárt að tapa þessum leik..en það sem er enn sárara. Svo mikill andskotans óþarfi.

  11. Tilvitnun: Ahhh, Arsenal á þriðjudaginn og nú vil ég sjá Bellamy gera þessa stráka í vörn Arsenal vitlausa. Ég mun aldrei kenna honum um tapið, en hann var engu að síður HÖRMUNG.

    Hvernig færðu út að Bellamy hafi verið hörmung þegar hann var á bekknum allan tímann ?

  12. LFC voru miklu betri í þessum leik og í fyrsta marki Arse voru 4 Arsenal menn í sókn en 7 LFC menn í vörn fyrir aftan þá eða í sömu línu. Samt var enginn nógu nálægt til þess að vera fyrir skotinu.

    Að kenna Dudek um neitt annað en þriðja markið finnst mér fáránlegt því annað marki var Luis Garcia og Gerrard að kenna. Garcia hætti að elta Rosicky niður og trufla skotið og Gerrard hefði á góðum degi tæklað hann svo illa að hann hefði ekki þorað að koma aftur nálægt vítateignum fyrr en seint í seinni hálfleik. Finnan lokar leiðinni fyrir Rosicky og hafði getað gert betur en ekki hans sök. Þetta var léleg hjálparvörn og gott skot, hef séð Pepe fá mörg svona mörk á sig og hef því littla trú á að hann hefði varið þetta. Hver veit.

    En niðurstaðan er alltaf sú sama, LFC tapaði, voru betra liðið og Arsenal er ennþá hundfúlt lið af leikurunum og vælukjóum.

  13. Þetta var ágætis upprifjun afhverju við keyptum Reina í markið í stað Dudek. Að mínu mati á Dudek að gera betur í fyrsta markinu, þrátt fyrir að þetta hafi verið bogabolti hjá Rosicky þá stóð Dudek of framarlega og því fór boltinn yfir hann í mitt markið. Einnig set ég spurningarmerki við hin mörkin. Stærsta vandamálið er að með Dudek í markinu kemur upp ákveðið óöryggi í vörninni og menn fara að gera mjög sjaldgjæf mistök.

    Í marki eitt þá spiluðu Hleb og Rosicky boltanum sín á milli frá miðjulínu án þess að nokkur maður næði að loka sendingarleiðum þeirra, þar fór hann Riise fremstur í flokki með skelfilegri varnarvinnu og dekkningu. Klárt mál að Liverpool verður að versla eitt stykki vinstri bakvörð næsta sumar nema að Aurelio taki upp á því að blómstra á nýju ári.

    Í marki tvö átti Finnan að vera löngu búinn að stíga Rosicky út þannig að hann fengi ekki að nálgast vítateiginn í fullu jafnvægi með boltann á hægri fæti, því eins góður skotmaður og hann nýtir sér svona færi. Einnig var mjög óvenjulegt að sjá Gerrard koma inn í tæklinguna með hálfum hug, á betri degi hefðum við séð strauun ala Gerrard.

    Síðan er þetta allt toppað með ótrúlegum klaufaskap Carra í þriðja marki Arsenal, í öllum öðrum leikjum hefði hann dúndrað þessum bolta upp í stúku. Það má því með sanni segja að öll þrjú mörk Arsenal komu vegna mistaka og lélegs varnarleiks Liverpool (Dudek er hluti af vörninni). Það var bara Agger sem stóð undir nafni í öftustu línu og lét menn ekkert fífla sig.

  14. Jæja ..Rafa búinn að tjá sig um veru Dudeks í markinu..það er á opinberu heimasíðunni. Kann ekki að gera link á það. En Benites lofaði Dudek í upphafi leiktíðar að hann fengi að verja mark Liverpool í FA- og Carling Cup. Svo einfalt er það. Þannig að Dudek fær annað tækifæri gegn Arsenal á þriðjudaginn.

  15. Já, ekki var þessi sjóferð upp á marga fiska. Ég sá ekki leikinn eins og svo oft vill verða hérna hjá mér í Svíþjóð, þannig að ég get svo sem ekki lagt til neinar útskýringar á þessu tapi, enda er ég heldur enginn fótboltasérfræðingur og viðurkenni það fúslega. Það er þó gott að vita að Benitez er maður orða sinna. Nú verðum við að vinna á þriðjudaginn annars skulda ég félaga mínum kassa af öli.
    LeBig

  16. Á nú að fara að kenna Dudek um þetta??????? Þarf maður að telja upp öll mistökin sem að Reina hefur gert?? Mörkin á everton, west ham bæði í fa leiknum í vor og svo í deildinni í haust. En ef að menn vilja sleppa svona auðveldlega úr þessu og kenna Dudek um þetta þá um að gera. En staðreyndin er sú að Arsenal mætti á Anfield og kláraði liverpool og allir pollyönnu leikir í heiminum munu ekki geta afsannað það. En klassa síða enn og aftur, keep up the good work. 🙂

  17. Sorry Liverbird, þetta var ekki alveg rétt samsett setning. Þetta í lokin átti að vera á eftir Bennett dæminu og hefur hér með verið leiðrétt.

    Jú, Kristján, ég var mun minna reiður í skýrslunni en ég hefði verið ef ég hefði ekki farið í gegnum eitt stykki matarboð, nokkur glös af rauðvíni og nokkrum góðum fjölskyldusamræðum :biggrin:.

    Ég var nú rétt í þessu að horfa aftur og aftur á þetta Xabi Alonso atvik. Ég veit ekki hvaða gleraugu menn eru að horfa í gegnum, en að tala um að hoppa upp í loftið og eitthvað 50/50 dæmi finnst mér fáránlegt, sorry. Alonso er heppinn að hafa hoppað upp úr þessu, því tæklingin hjá Gilberto var vægast sagt glæfraleg. Hann sparkar í Alonso, það er ekki einu sinni vafi um það. Hvað þýðir það? Gult spjald á Alonso!!! Nei, give me a break. Þegar þú ferð í tæklingu inn í teig, nærð ekki boltanum og ferð í manninn, þá er það víti, simple as that.

    Mér fannst Bennett hörmung. En eins og ég segi í skýrslunni, þá er ekki séns að ég kenni honum samt um tapið.

    Varðandi Dudek, Daði, þá held ég að enginn hafi verið að kenna honum um eitt eða neitt, eins og skýrt hefur komið fram. Hann átti ekki sök á neinu marki. Ég er þó handviss um það að ferskur Reina hefði tekið eitthvað af þessum skotum. Þriðja markið var t.d. eitthvað sem ég er 100% viss um að Reina hafði tekið. Hann er bara mun fljótari niður en Jerzy.

    Joe, auðvitað reyna öll lið að vinna, þetta er slakur útúrsnúningur hjá þér. Arsenal vann leikinn á taktík, og eins og kom fram í skýrslunni, þá er bara ekkert út á það að setja. Þetta sýnir þó svo ekki verði um villst að úrslitin skipta öllu máli og það er alveg sama um hvaða lið við erum að ræða. Liverpool hefur verið rakkað niður sem “boring” þegar þeir beita þessari taktík. Hjá Arsenal, þá er þetta bara taktísk snilld. Get the point?

    Svo blæs ég á þetta ef Cesc…bullshit. Hann var í banni. Ef Momo, ef Kewell, ef Reina…Ef skila okkur ekki neinu. Ég hef farið yfir það að ég tel að Reina hefði tekið bolta sem Jerzy náði ekki að taka. Við töpuðum samt leiknum. Heldur þú að Arsenal hefðu spilað blússandi sóknarbolta ef Cesc hefði verið með?

    Af hverju getum við ekki verið ánægðir með okkar menn? Jú, markið kom uppúr föstu leikatriði og er það afar ánægjulegt, því það hefur ekki verið okkar sterka hlið. Eruð þið Arsenal menn þá bara ekki hundóánægðir með ykkar menn? Mörkin ykkar komu öll eftir hörmuleg mistök Liverpool manna? Voruð þið þá ekki óánægðir með ykkar leik þar sem menn náðu varla þrem sendingum í röð innan liðsins? Eru Arsenal menn ekki bara hundóánægðir? Get tekið undir það að það hefði mátt vera meiri fjölbreytni í sóknarleik okkar, það er bara alltaf vandamál þegar lið koma á Anfield með 11 menn fyrir aftan bolta. Arsenal gerðu það vel og því fór sem fór.

    Þykist vita að það sem Kristján Atli var að vísa í sem mont, er leiðindakomment þitt í lokin þar sem þú talar um uppáhalds bikarinn okkar. Sammála Kristjáni með það og alveg magnað hvað menn verða vel cocky á einum sigri.

  18. >Að kenna Dudek um neitt annað en þriðja markið finnst mér fáránlegt

    Við vorum ekki að kenna Dudek um mörkin. Við erum einfaldlega að segja að ef Reina hefði verið í markinu, þá hefðum við búist við því að hann verði boltana. Víst að Dudek var þarna, þá bjóst maður ekki endilega við því. Ég er ekkert sérstaklega reiður útí Dudek, Pepe Reina hefur bara sýnt að hann er miklu betri markvörður.

    Varðandi það að Xabi Alonso hafi verið að leika, þá er það gjörsamlega fáránlegt. Varnarmaðurinn (var það ekki Gilberto) kemur og skriðtæklar Alonso, Xabi reynir að hoppa yfir tæklinguna til að komast inní teiginn, en hann nær ekki að hoppa nógu hátt, þannig að löppin krækir í Gilberto. Þeir á BBC sýndu þetta ítrekað aftur og þetta var klár vítaspyrna að mínu mati. Einsog Aggi sagði á Players, þá á sóknarmaðurinn að njóta vafans, en það á ekki að fara með það viðhorf að menn séu alltaf að leika. Ef að Xabi hefði fengið að njóta vafans, þá hefði verið dæmd vítaspyrna. Af endursýningum fannst mér það vera augljóst. Alonso er að hoppa yfir tæklingu (sem var það EINA, sem hann gat gert í stöðunni til að komast áfram – ekki gat hann farið í gegnum lappirnar á Gilberto) en ekki að láta sig detta.

    Og varðandi þetta sem Joe segir. Það fer einfaldlega í taugarnar á mörgum að þegar að Liverpool leikur svona bolta, þá er það dæmi um leiðinlegan varnarbolta, en þegar Arsenal leikur svona, þá er það merki um það hversu Arsene Wenger er mikill snillingur. Það er aldrei talað um það að Arsene Wenger sé kannski ekki svo mikill snillingur þegar liðið tapar gegn liðum einsog Sheffield United með miðjumann í markinu.

    >Ég á von á að þið vinnið leikinn á þriðjudaginn í uppáhaldsbikarnum ykkar

    Nei, þetta er vitlaust hjá þér, Joe. Uppáhaldsbikarnn okkar er með stór eyru og við höfum unnið hann **fimm sinnum**, en þitt lið **aldrei**. Til upprifjunnar getum við bent þér á [þetta hér](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/05/25/21.35.51/).

    🙂

  19. þurfti frá að hverfa áðan án þess að hafa klárað að ausa úr skálum reiði minnar.

    Hvernig stendur á því að Arsenal getur keypt Rosicky á bara á 7 millj punda á meðan Liverpool borgar ca. 7 millj fyrir Pennant. Þetta er gott dæmi um undirverð og yfirverð. Rosicky er í allt öðrum klassa en Pennant og var meðal annars tilnefndur sem einn að 50 bestu fótboltamönnum heims árið 2006, ég held að Pennant hafi verið í baráttunni um að komast á topp 500.

    Hann er ekki einu sinni einn af 5 bestu hægri könturum Englendinga. Lennon, Beckham, Gerrard, Dyer, Wright Phillips eru allir betri og hér mætti líka telja með Agbonlahor hjá Aston Villa að mínu mati.

    Ekki veit ég hvaða leik Kristján var að horfa á en í þeim leik sem ég sá í gær var Pennant jarðaður af Clichy. Þar sem Pennant komst ekkert áleiðis upp kantinn byrjaði hann að leita mikið inn á miðjuna sem þrengdi svæði Gerrard til að hlaupa inn á auð svæði. Á meðan að vinstri bakvörður arsenal át okkar kantmann var vintri bakvörður LFC með opið hús.

    Í gær vantaði allt bit á kantana okkar eins og svo oft í vetur. Á meðan kantmenn okkar helstu keppinauta eru í heimsklassa Ronaldo, Giggs, Robben,J. Cole, Van Persie, Rosicky, Hleb, þá spilum við á Pennant, Gonzalez, Garcia. Í fyrra vorum við reyndar í mjög góðum málum með Gerrard og Kewell á köntunum enda hefur liðið sjaldan verið sterkara.

    Vonandi kemur sem fyrst inn fjármagn svo að LFC getur verslað eitt eða tvö stykki af klassa kantmönnum, ég mæli með Simao.

    Krizzi

  20. getur verið að þessi leikur hafi verið settur þannig upp að LIV átti að tapa? spurt er af hverju var dudek i markinu (ætti frekar að vera í marki í litla bikarnum) af hverju voru LIV bara góðir á miðjuni af hverju skjóta menn ekki í góðu færi að marki nei þá er gefið aftur á miðju og þessi skot voru víðs fjarri sem komu í átt að marki (sum fóru í innkast)við vitum að það eru til hlutir í boltanum sem peningar skipta máli dæmi í Italíu var verið að gera margt á bakvið tjöldin í englandi voru markmenn sakaðir um að leyfa mönnum að skora o s f ég bara spyr LIV eru búnir að vinna alla heima leiki fyrir utan jafntefli 1 eða 2 þeir hafa unnið stórt með 3 til 4 mörk en tapa þessum leik liv 1 ars 3 bíddu hvað er í gangi og enn og aftur dúddi í marki í stóra bikarnum

  21. Krizzi, Pennant var ekkert jarðaður af Clichy í gær. Hver lagði upp markið okkar? Hver átti langflestar fyrirgjafir í síðari hálfleiknum, og flestar þeirra á samherja? Hver gaf Aurelio dauðafærið sitt?

    Pennant er ekki fullkominn, en hann er að bæta sig og mér líst ekkert illa á hann ef hann heldur því áfram. Þótt Rosicky hafi skorað tvö mörk í gær er óþarfi að grípa það sem einhvern dauðadóm yfir Pennant … þú ert hvort eð er að ruglast á köntum, það er Hleb sem er hægri kantarinn hjá Arsenal en ekki Rosicky og hann hefur skorað jafn mikið og Pennant í vetur; ekki neitt. Mark Gonzalez og Luis García, sem hafa oftast spilað vinstri kantinn hjá okkur, hafa hins vegar báðir skorað meira en Rosicky í vetur.

    En svona er þetta bara. Sumir sjá bara stjörnur þegar þetta Arsenal-lið er annars vegar. :rolleyes:

  22. Þetta var erfiður leikur, sérstaklega þar sem við áttum ekkert að tapa þessum leik. Það er það versta. Það er ekki saman hvernig maður tapar (eða vinnur) og við áttum EKKI að tapa þessum leik. Skil það ekki ennþá.

    3 varnarmistök og 3 mörk.

    1 markið…
    þá gerir Riise mistök að missa Hleb fyrir aftan sig og síðan fær Rosicky allof langan tíma á vítateignum. Dudek átti ekki einu sinni séns í þetta og fallega skotið.

    2 markið…
    þá gerir Finnan fyrst mistök að loka ekki alveg á Rosicky sem og að Gerrard átti að fara fyrir skotið. Þú leyfir ekki leikmanni valsa fyrir framan vítateiginn í sekúndu hvað þá næstum hálfa mín. Dudek hefði getað varið þetta en verður samt ekki kennt um markið, skotið átti aldrei að koma á markið!

    3 markið…
    þá gerir Carragher sig sekan um fáheyrð mistök, í stað þess að sparka boltanum útaf þá reynir hann í örvæntingunni að halda boltanum inná. Þess í stað stelur Henry tuðrunni, geysist framhjá tveimur varnarmönnum (Agger og Finnan) og setur tuðruna framhjá/undir Dudek. Dudek hefði getað varið skotið EN skotið átti aldrei að koma. Carragher átti að senda tuðruna útaf (Þetta vita allir og sérstaklega Þormóður Egilsson!)

    Það sem eftir stendur er að við erum dottnir út úr bikarnum. Við verðum að læra af þessu tapi og láta þetta ekki koma fyrir aftur, ALDREI AFTUR!

  23. sko.. Dudek hefði nátturlega getað gripið þetta ef hann hefði bara staðið á línunni… einsog hann átti að gera ef hann kann að spila Mark! Þegar að boltinn er fyrir utan vítateiginn, þá kemuru ekki útúr markinu!! Svo einfalt er það.. En einsog ég mun alltaf segja þá er Dudek orðin lifandi goðsögn í minum augum eftir ævintýrið í Istanbul og eftir það hefði maðurinn bara átt að leggja hanskana á hilluna sem lifandi goðsögn!! núna á þetta eftir að sitja í manni allt þetta fkn ár 😡

  24. SSteinn og Einar Örn: Ég var eingöngu að svara athugasemdunum hér í færslunni og hefði kannski átt að vera skýrari í því, ekki leikskýrslu ykkar. Mér fannst tóninn einfaldlega vera mikið á þá leið að Dudek hefði tapað þessu fyrir ykkur sem var að mínu mati rangt. Sama með að standa á línunni í markinu, Reina gerir þetta sjálfur mikið af því að standa nokkra metra frá markinu að mínu viti til þess að vera nógu fljótur í stunguboltana, en þá má vafalaust deila mikið um það svosem.

  25. Dudek var hræðilegur karlgreyið mjög skrýtin ákvörðun að hafa hann milli stangana. Enda tapast leikurinn á þeirri ákvörðun. Raffa ber því ábyrgðina á þessu ömurlega tapi. Rugl að vera að lofa honum að spila þennann leik.

  26. Kristján Atli, teljast mörkin sem Hleb skoraði gegn Reading, Porto og Blackburn þá ekki með? Fannst alveg endilega að þau hefðu verið góð og gild.

    Ég held að Krizzi hafi verið að bera þá Pennant og Rosicky saman vegna þess að þeir voru báðir keyptir í sumar fyrir svipaðan pening. Það er nú ekkert skrýtið að hann gagnrýni þessi viðskipti, Rosicky hefur margsannað sig á bæði HM og EM og er enn aðeins 26 ára. Pennant hefur aldrei verið valinn í landsliðið, er fyrrum fangi og þekktur fyrir agavandamál, auk þess að vera talsvert síðri leikmaður en Rosicky.

    Þetta var dýfa hjá Alonso að mínu mati. Venjulega þegar menn hoppa yfir tæklingu þá hoppa menn ekki jafnfætis og rétta úr löppunum. Hann var að reyna að fiska og var gómaður, einfalt.

  27. Laukrétt jogi ég var að bera Pennant og Rosicky saman vegna þess að þeir kostuðu báðir um 7 millj punda og voru keyptir í sumar. Kristján hvergi kem ég inn á það að hann hafi spilað sem hægri kantmaður í leiknum þ.e. Rosicky. Persónulega hef ég alltaf haft mikið álit á Rosicky sem leikmanni, hann er lykilmaður í mjög góðu landsliði og var frábær hjá Dortmund áður en meiðsli komi til.

    Varðandi tölfræði hans gegn Gonzalez og Garcia þá er niðurstaðan ekki eins slæm og sumir halda. Í deild og bikar er hann kominn með 2 mörk skoruð og 2 lögð upp í 17 leikjum. Gonzalez, 14 leikir tvö mörk skoruð og ekkert lagt upp. Garcia, 17 leikir 3 mörk og 4 lögð upp. Og Rosicky er á sýnu fyrsta tímabili á Englandi og því að aðlagast boltanum þar.

    Tölfræði Hlebs sem hægri kantmans Arsenal í vetur er góð, í deildinni er hann búinn að spila 16 leiki og skora 2 mörk og leggja upp 3 mörk. Að mínu mati er hann í allt öðrum klassa en Pennant sem er búinn að spila 19 leiki og leggja upp í þeim 2 mörk en er með ekkert mark skorað. Þessi samanburður var ekki mín hugmynd í upphafi en ég er einfaldlega að svara Kristjáni því hann er að bera þá saman sem hægri kantmenn og sagði að hvorugur hefði skorað mark í vetur.

    Þar að auki tekur Pennant flestar hornspyrnur Liverpool þegar hann er inn á og því ekkert óeðlilegt að hann leggi upp eitt og eitt mark.

    Kristján, Pennant lagði upp mark okkur úr föstu leikatriði gegn liði sem í vetur hefur fengið á sig fjölda marka út föstum leikatriðum.

    En auðvitað vona ég sem Liverpool aðdáandi að Pennant blómstri, en eins og staðan er í dag þá er mitt mat að hann sé ekki nógu góður fyrir LFC.

    Svo er ótrulegt til þess að hugsa þegar maður skoðar tölfræði Garcia að hann skuli ekki byrja alla leiki Liverpool. Að mínu mati lang hættulegasti kantmaður liðsins Í DAG.

    Krizzi

  28. Þetta var dýfa hjá Alonso að mínu mati. Venjulega þegar menn hoppa yfir tæklingu þá hoppa menn ekki jafnfætis og rétta úr löppunum. Hann var að reyna að fiska og var gómaður, einfalt.

    Nákvæmlega.

  29. já varðandi dífuna/brotið þá hittir jogi naglann á höfuðið, þetta var EKKI brot. Það að gefa gult spjald er hins vegar strangt og hefði slakur dómari leiksins átt að láta leikinn halda áfram. Vissulega snertust fætur þessara leikmanna en þetta er karlmannsíþrótt. :biggrin:

  30. Á Xabi þá bara að standa í lappirnar og eiga það á hættu að meiðast :confused:

  31. Þetta stendur í knattspyrnulögunum:

    12 Grein – Leikbrot og óviðeigandi hegðun

    Bein aukaspyrna

    Bein aukaspyrna er dæmd liði mótherjanna, ef leikmaður fremur eitthvert eftirfarandi sex leikbrota á þann hátt að dómarinn telji það ógætilegt, gáleysislegt eða gert á of harkalegan hátt:

    * sparkar eða gerir tilraun til að sparka í mótherja
    * bregður eða gerir tilraun til að bregða mótherja
    * stekkur á mótherja
    * ræðst á mótherja
    * slær eða gerir tilraun til að slá mótherja
    * hrindir mótherja

    Bein aukaspyrna er einnig dæmd liði mótherjanna, ef leikmaður fremur eitthvert eftirfarandi fjögurra leik­brota:

    * tæklar mótherja til að ná knettinum, en snertir mótherjann áður en hann snertir knöttinn
    * heldur mótherja
    * hrækir að mótherja
    * handleikur knöttinn viljandi (nema markvörður innan eigin vítateigs)

    Í þessu tilviki með Alonso kallinn má segja að Gilberto hafi brotið tvær málsgreinar í þessari grein. 1. lagi: Bregður eða gerir harkalega tilraun til að bregða mótherja. Í 2. lagi: ,,Tæklar mótherja til að ná knettinum, en snertir mótherjann áður en hann snertir knöttinn.”

    Alonso var að reyna að forðast fótbrot með því að hoppa uppúr tæklingunni og halda áfram ferð sinni í átt að markinu, við það missir hann jafnvægið og hefur þannig verið brugðið. Gilberto brýtur semsagt á Alonso. Punktur.

  32. Ef sama atvik hefði átt sér stað upp við mark Arsenal manna og Steve Bennett hefði dæmt gult spjald á Arsenal leikmann fyrir leikaraskap.

    1)Arsene Wæler hefði froðufellt á línunni í brjálæðiskasti aldarinnar.
    2)Almennt uppþot leikmanna Arsenal hefðu kostað þá fleiri gul spjöld ef ekki rauð.
    3)Áhangendur Arsenal hefðu ekki talað um annað en hvernig Steve Bennet leggi Arsenal í einelti.
    4)Arsene Wæler væri ennþá grátandi í fjölmiðla yfir óréttlæti heimsins og myndi gera allt til þess að rægja Steve Bennett eins og mögulegt væri.

    Það grátlega við þessa fáheyrðu vitleysisákvörðun Bennets er að hún er lituð af því að Arsene Wenger hefur kvartað þvílíkt undan þessum dómara áður.
    Þetta fáranlega helvítis kvak í honum var því miður að virka því Bennet var svo augljóslega skíthræddur við dæma rétt í þetta skipti.

    Þeir sem segja að Alonso hafi verið að leika..bendi ég á að horfa á atvikið aftur og aftur. Þetta er aldrei leikaraskapur.

  33. Sjá myndband hér: Atvikið með Alonso (Save As) (Ísl dl)

    Horfið á þetta, sést sérstaklega í síðustu tveimur endursýningunum að það er bara hneyksli að dæma ekki víti á þetta. Hvað á Alonso að gera? Á hann að hlaupa áfram og Gilberto tæklar bara í gegnum hnén á honum?

    Síðan segja sumir að hann hafi dottið áður en mér finnst eins og hann sé bara hræddur við tæklinguna, reynir að fara yfir hana en svo fer Gilberto í hann og þá er svo auðvelt að missa jafnvægið.

  34. Ef Alonso væri að reyna að hoppa upp úr tæklingunni þá hefði hann sett hnén upp, í staðinn hoppar hann upp og sækist eftir snertingunni, setur m.a.s. hægri löppina aðeins til hægri til að vera alveg viss um að koma við Gilberto.

    Ég held að hann hafi ákveðið um leið og boltinn barst til hans að reyna að vinna víti. Hann sparkar boltanum yfir Gilberto og það langt frá sér að hann hefði aldrei náð honum, hoppar síðan upp og reynir að skapa snertingu.

  35. Jogi, ef að Alonso ætlar að fá víti, af hverju í ósköpunum er hann að **hoppa upp**??? Er það ekki stærri spurning en það hvort að Alonso hoppi upp með beygð hné, hendur fyrir aftan bak eða með lokuð augun?

  36. Efast um að hann sé til í að fórna löppunum fyrir víti. Litlar líkar á meiðslum ef menn eru í loftinu en talsvert miklar ef menn eru á jörðinni.

  37. Þess vegna hoppar Xabi uppúr tæklingunni, til að forðast meiðsli 🙁 Gilberto er síðan aldrei nálægt því að fara í boltann heldur fer hann eingöngu í manninn til að brjóta 😡

  38. Gilberto hefði náð boltanum ef Alonso hefði ekki sparkað honum yfir hann og í leiðinni útilokað sína eigin möguleika á að ná valdi á boltanum. Ef hann hefði tekið eðlilega snertingu á boltann þá hefði Gilberto komist í boltann.

  39. Ég vona þín vegna að þú hafir verið að grínast með þessu síðasta innleggi þínu Jogi, vantaði ekki einhvern broskall þarna 🙂

  40. Ég var einfaldlega að ítreka það að Alonso hafði ekkert í hyggju að leggja þennan bolta fyrir sig, hann sparkar honum beint á Almunia og hoppar síðan uppí loftið. Ef hann hefði reynt að leggja hann fyrir sig þá hefði Gilberto náð til boltans.

  41. Gilberto var ALDREI nálægt því að fara í boltann, þú sérð það sjálfur ef þú horfir aftur á atvikið

Liverpool 1 – Arsenal 3

Lið ársins hingað til að mati Guardian